Hæstiréttur íslands
Mál nr. 269/2003
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutabréf
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 269/2003. |
Sparisjóður Hafnarfjarðar (Jóhann H. Níelsson hrl.) gegn Jóhanni Þorvarðarsyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Hlutafélög. Hlutabréf. Samningur.
S krafðist ógildingar á samningi um kaup á 5.000.000 króna hlut í N ehf. á genginu 4 og að J yrði gert að endurgreiða sér fjárhæðina. Byggði S á því að J hefði vakið þá trú að S væri að eiga viðskipti við N og að yfirverð hlutafjárins rynni til félagsins. Einnig taldi S að J hefði sem fyrirsvarsmaður N leynt vitneskju sinni um að viljayfirlýsing B um kaup á verulegu magni framleiðsluvara N myndi ekki ganga eftir. Með hliðsjón af framburði þáverandi sparisjóðsstjóra S fyrir dómi, um að honum hefði verið kunnugt um að J hafi átt hlutaféð en ekki N, var ekki fallist á að S hefði verið blekktur til kaupanna. Ekki var talið sýnt fram á að upplýsingar um að B hefði gengið til samninga við annað félag um sams konar viðskipti hefðu legið fyrir fyrr en viku eftir að hin umdeildu kaup áttu sér stað. Var talið ósannað að J hefði komið samningnum á með svikum í skilningi 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga og ekki fallist á að óheiðarlegt hafi verið af J að bera samninginn fyrir sig í skilningi 33. gr. sömu laga. Þá þótti ekki sannað að J hefði bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart S með því að leyna upplýsingum, sem máli skiptu við samningsgerðina, með saknæmum og ólögmætum hætti. Var J sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2003. Hann krefst þess, að viðurkennt verði með dómi, að samningur hans og stefnda 16. ágúst 1999 um kaup á hlutum í Nýbrauði ehf. að nafnverði 5.000.000 krónur á genginu 4 verði dæmdur ógildur og stefnda gert að endurgreiða sér 20.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði stefnda, Jóhanni Þorvarðarsyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars síðastliðinn, er höfðað 15. ágúst 2002 af Sparisjóði Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði, gegn Jóhanni Þorvarðarsyni, Starfield Road 10, London, Englandi.
Stefnandi krefst þess aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að samningur málsaðila, dagsettur 16. ágúst 1999, um kaup stefnanda á hlutum í Nýbrauði ehf., að nafnverði 5.000.000 krónur á genginu 4, verði dæmdur ógildur og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutanna, 20.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.
Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi, að samningi stefnanda og stefnda, dagsettum 16. ágúst 1999, um kaup stefnanda á hlutum í Nýbrauði ehf. að nafnverði 5.000.000 krónum verði vikið til hliðar, að því er varðar yfirverð hinna keyptu hluta, og stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda yfirverðið, 15.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.
Til þrautavara krefst stefnandi, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.000.000 krónur, með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2002 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Einkahlutafélagið Nýbrauð var stofnað 23. febrúar 1999 af Bárði Ágústssyni og Einari Viðarssyni. Stofnhlutafé félagsins var 500.000 krónur, sem stofnendurnir lögðu fram að jöfnu, en félagið var skráð hjá hlutafélagaskrá 3. mars 1999. Skoðunarmaður félagsins var kosinn stefndi, Jóhann Þorvarðarson. Þann 17. mars 1999 var haldinn hluthafafundur í félaginu, þar sem samþykkt var að auka hlutafé þess úr 500.000 krónum í 50.000.000 krónur. Á sama hluthafafundi var félaginu kosin ný stjórn, skipuð þremur mönnum, stefnda, Jóni Gerald Sullenberger og Bárði Ágústssyni. Jafnframt samþykkti hluthafafundurinn að gera samning við Nationalwide Business Services Ltd., sem hafði aðsetur í London, um að stefndi yrði ráðinn af fyrirtækinu til að vera starfandi stjórnarformaður Nýbrauðs ehf. í tólf mánuði frá 17. mars 1999, gegn greiðslu á 4.800.000 krónum. Samningi þessum var breytt á hluthafafundi 3. maí 1999 og hann framlengdur til 30. september 2001. Á stjórnarfundi 25. mars 1999 skipti stjórnin með sér verkum og var stefndi kosinn formaður hennar í samræmi við ákvörðun hluthafafundarins 17. mars 1999. Á stjórnarfundinum 25. mars 1999 var jafnframt samþykkt að veita stefnda prókúru félagsins. Á stjórnarfundi 2. apríl 1999 var ráðgert, að hlutfé félagsins yrði 50.000.000 króna og að langtímalán yrðu 125.000.000 króna. Á stjórnarfundi 26. apríl 2002 var bókað, að erfiðlega hefði gengið að fá fyrirgreiðslu hjá fjármálastofnunum, en að stefndi hefði fengið vilyrði frá stefnanda og Sparisjóði vélstjóra um langtímalán að fjárhæð 100.000.000 króna, að því gefnu, að hlutafé félagsins yrði aukið um 25.000.000 króna. Á stjórnarfundinum var ákveðið að boða til hluthafafundar 10. maí 1999 og bera upp tillögu um aukningu hlutafjár um 25.000.000 króna og aðrar breytingar á samþykktum félagsins. Gekk það eftir og skrifuðu sex aðilar sig fyrir aukningunni samkvæmt endurriti fundargerðar.
Þann 16. ágúst 1999 undirritaði stefnandi skjal, þar sem hann skrifaði sig fyrir hlutafé í Nýbrauði ehf. að nafnverði 5.000.000 króna á genginu 4, eða samtals 20.000.000 króna. Í kjölfar áskriftar stefnanda að hlutafé í Nýbrauði ehf. var honum sent bréf, dagsett 16. ágúst 1999, er stefndi ritaði undir sem stjórnarformaður Nýbrauðs ehf. Í bréfinu var staðfest áskrift stefnanda að hlutafé í Nýbrauði ehf. og þá voru þar fyrirmæli um, að greiðsla fyrir hlutina ætti að berast inn á reikning á kennitölu stefnda. Greiddi stefnandi síðan umsamið kaupverð, 20.000.000 króna, inn á reikninginn 17. ágúst 1999. Var stefnandi eftir það tilgreindur á hlutaskrá félagsins sem eigandi 6,67% hlutar í Nýbrauði ehf. Kaupin á hlutafénu í Nýbrauði ehf. voru formlega samþykkt í stjórn stefnanda á fundi 10. nóvember 1999.
Á stjórnarfundi Nýbrauðs ehf. 25. ágúst 1999 var bókað, að í ljós hefði komið, að Baugur hf. myndi ekki kaupa framleiðslu félagsins, þar sem Baugur hf. hefði gert einokunarsamning við Mylluna hf.
Í janúar 2002 höfðaði fyrrum framkvæmdastjóri Nýbrauðs ehf., Hákon Gunnarsson, mál á hendur Nýbrauði ehf. til endurgreiðslu þess hlutafjár, sem hann hafði keypt. Var málsóknin meðal annars byggð á því, að hann hefði verið beittur blekkingum við kaupin. Hæstiréttur lauk dómi á málið 2. maí 2002 og var félagið sýknað á grundvelli aðildarskorts, þar sem sannað þótti, að viðskipti Hákons hefðu verið við stefnda, Jóhann Þorvarðarson. Var niðurstaðan meðal annars byggð á því, að Nýbrauð ehf. hefði ekki átt nein hlutabréf til sölu sumarið 1999, er kaupin áttu sér stað. Eftir uppkvaðningu dómsins kveðst stefnandi hafa farið að kanna fyrrgreind hlutafjárkaup sín í Nýbrauði ehf. Var meðal annars óskað eftir skriflegu svari frá Nýbrauði ehf. um, hvaða greiðslur hefðu borist félaginu vegna hlutafjárkaupa stefnanda í ágúst 1999. Í svari Nýbrauðs ehf., dagsettu 14. maí 2002, var staðfest, að stefnandi hefði 19. ágúst 1999 greitt 5.000.000 krónur til Nýbrauðs ehf. vegna hlutafjárkaupa. Þann 14. júní 2002 var stefnda send krafa um endurgreiðslu á yfirverði hlutabréfanna, en hann lýsti því yfir 4. júlí 2002, að hann myndi ekki verða við henni.
Nýbrauð ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2002.
II.
Aðalkrafa stefnanda er byggð á því, að stefndi, sem hafi verið í senn stjórnarformaður og prókúruhafi Nýbrauðs ehf. á þeim tíma, sem samningurinn var gerður, hafi beitt stefnanda svikum við kaupin. Hafi stefndi verið hátt launaður starfsmaður Nýbrauðs ehf. og nánast einn farið með málefni félagsins allt árið 1999 og fram í janúar 2000. Hafi stefndi látið líta svo út, að hann væri að kaupa hluti í Nýbrauði ehf. af félaginu sjálfu, en síðar hafi komið í ljós, að hann hafi tekið til sín 15.000.000 króna af kaupverðinu. Skilningur stefnanda hafi verið sá, að allt yfirverð hlutabréfasölu félagsins við hlutafjáraukninguna rynni til félagsins. Hafi stefndi búið þannig um hnútana, að litið hafi út fyrir, að félagið nyti alls kaupverðsins og þannig leynt stefnanda því, að yfirverð bréfanna færi til einhvers annars en félagsins sjálfs. Stefnandi hafi komið að fjármögnun Nýbrauðs ehf., ásamt Sparisjóði vélstjóra. Skilyrði fyrir lánveitingunni hafi m.a. verið, að hlutafé félagsins væri aukið um 25.000.000 króna. Hafi stefnandi talið, að yfirverð og nafnverð hlutafjáraukningar-innar gengi til Nýbrauðs ehf., en annað komið á daginn.
Þá sé byggt á því, að stefnda hafi verið ljóst, að þær forsendur, sem kynntar voru stefnanda um framtíðarsölu Nýbrauðs ehf. til Baugs hf., hafi verið brostnar við söluna í ágúst 1999. Hafi stefndi vísvitandi leynt stefnanda þessum upplýsingum við samningsgerðina. Ljóst sé, að stefnandi hafi staðið í þeirri trú, að fyrir hendi væri vilyrði fyrir sölu á brauðum til Baugs hf. á þeim tíma, sem kaupin áttu sér stað. Stefndi hafi verið stjórnarformaður Nýbrauðs ehf. á þessum tíma, auk þess sem hann hafi verið með prókúruumboð félagsins. Frá kaupum stefnanda á hlutafé þar til haldinn hafi verið stjórnarfundur, þar sem bókað hafi verið, að ekkert yrði af sölusamningi við Baug hf., hafi einungis liðið vika. Verði að telja ólíklegt, að stefnda hafi ekki verið kunnugt um, þegar samningur var gerður, að mikilvæg forsenda stefnanda fyrir verðmati á hlutabréfunum var brostin. Samt sem áður hafi stefndi ekki kynnt það stefnanda við kaupin, eða gefið það á nokkurn hátt til kynna. Hafi stefndi þannig, gegn betri vitund, gefið rangar upplýsingar um, hver samningsaðili stefnanda var við kaupin og jafnframt leynt atriðum, er vörðuðu framtíðarmöguleika félagsins, með þeim ásetningi að fá stefnanda til þess að gera samninginn um kaup hlutabréfanna, sbr. ákvæði 30. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá sé einnig byggt á því, að framferði stefnda hafi verið óheiðarlegt vegna ofangreindra atvika, sem óumdeilt sé, að stefndi hafi haft vitneskju um við samningsgerðina, sbr. 33. gr. s.l.
Varakrafa stefnanda sé byggð á 36. gr. samningalaga og sömu málsástæðum og aðalkrafa stefnanda, en jafnframt sé byggt á því, að sú vitneskja, sem stefndi hafi búið yfir varðandi efnahag Nýbrauðs ehf. hafi valdið aðstöðumun við samningsgerðina og jafnframt hafi framkoma stefnda við samningsgerðina verið andstæð góðri viðskiptavenju.
Þrautavarakrafa sé byggð á því, að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti leynt stefnanda atriðum, sem máli skiptu við samningsgerðina, og með því valdið stefnanda tjóni. Krafan sé byggð á sömu málsástæðum og aðalkrafa stefnanda. Stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, sem honum beri að bæta stefnanda. Hafi stefndi hagnast um 15.000.000 krónur á viðskiptum sínum við stefnanda, en það sé tjón stefnanda.
Stefndi reisir sýknukröfu á því, að stefnandi hafi með tómlæti sínu firrt sig rétti til að hafa uppi þær dómkröfur, sem hann geri í máli þessu. Þau viðskipti, sem málið sé risið af, hafi átt sér stað á árinu 1999, en mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en þremur árum eftir það. Viðskiptin hafi í reynd falið í sér sölu kröfuréttinda, sem teljist lausafé í skilningi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, er í gildi hafi verið á umræddum tíma. Teljist kaupin hafa verið verslunarkaup í skilningi umræddra laga, enda hafi þau verið liður í atvinnustarfsemi beggja aðila. Sé það meginregla um slík kaup, að gagnaðili verði að hafa uppi allar mótbárur um leið og tækifæri gefst, ella glati hann rétti til að bera þær fyrir sig síðar. Hafi stefnanda verið í lófa lagið að hafa uppi þær dómkröfur, sem um ræðir í máli þessu, þegar eftir stjórnarfund Nýbrauðs ehf. 25. ágúst 1999, þegar fyrir hafi legið, að samningar við Baug hf. myndu ekki nást, en ella eftir athugasemdir endurskoðanda félagsins vorið 2000. Það hafi stefnandi hins vegar ekki, og því með tómlæti sínu glatað rétti sínum.
Þá er í öðru lagi haldið fram, að hlutabréfaviðskiptin hafi verið eðlileg og lögum samkvæmt. Er mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefndi hafi beitt stefnanda svikum við kaupin og hann hafi með vitund og vilja látið líta út fyrir, að stefnandi væri í umrætt sinn að kaupa hluti í Nýbrauði ehf. af félaginu sjálfu, svo og, að hann hafi látið í það skína, að yfirverð hlutabréfanna rynni til félagsins. Jafnframt er mótmælt, að stefndi hafi vitað eða mátt vita, að það væri forsenda fyrir kaupum stefnanda á hlutabréfum í Nýbrauði, að Baugur hf. gerði viðskiptasamning við félagið, og að hann hafi vísvitandi leynt stefnanda upplýsingum um, að þessi samningur við Baug hf. um kaup á brauði hefði ekki náðst. Stefnandi sé „atvinnumaður” á sviði viðskipta og lánaumsýslu og hafi verið viðskiptabanki Nýbrauðs ehf. og hafi veitt fyrirtækinu lán fyrir á um annað hundrað milljónir króna. Áður en sú lánveiting var veitt, hafi stefnandi fengið allar þær upplýsingar um rekstur og rekstraráætlanir Nýbrauðs ehf., er hann óskaði sér, sem og um skipulag fyrirtækisins, og hann í kjölfarið ákveðið að setja það skilyrði fyrir lánveitingunni, að hlutafé fyrirtækisins yrði hækkað um 25.000.000 krónur. Megi ætla, að stefnandi hafi fylgst með því, hvort þetta skilyrði var uppfyllt, áður en hann veitti umrætt lán, en með því hefði honum átt að verða ljóst, að hluthafar í félaginu höfðu, bæði í þessu hlutafjárútboði sem og hinu fyrra, skrifað sig fyrir öllum áskriftarhlutum í félaginu, sem í boði voru og að félagið ætti þar af leiðandi enga eigin hluti. Hljóti slíkt raunar að hafa verið alger forsenda fyrir því, að stefnandi veitti félaginu lán, miðað við þau skilyrði, sem stefnandi setti lánveitingunni, því að öðrum kosti hefði ekki allt það hlutafé skilað sér inn í fyrirtækið, sem gert hafi verið að forsendu lánveitingarinnar. Hefði félagið á annað borð átt slíka hluti, hefði þeirra verið getið í efnahagsreikningi félagsins, er stefnandi, sem góður og gegn „atvinnumaður” á sviði viðskipta, hafi vafalítið kynnt sér, eða ætti að hafa kynnt sér, áður en hann veitti félaginu lán fyrir á annað hundrað milljónir króna. Geti stefnandi því geti ekki borið fyrir sig, að hann hafi ekki vitað af hverjum hið umdeilda hlutafé var keypt.
Verði ekki fallist á ofangreint, hafi stefnanda í síðasta lagi mátt verða þetta ljóst, er hann greiddi kaupverð hlutabréfanna, enda hafi bankareikningur sá, sem greiðsla átti að berast inn á, verið í eigu stefnda. Hafi stefnanda þannig verið fullkunnugt um, hver samningsaðili hans var, eða þetta a.m.k. átt að gefa honum tækifæri til að spyrjast fyrir um aðild að samningnum, teldi hann einhvern vafa leika á um hana. Verði stefnandi því að bera hallann af því að hafa ekki kynnt sér efni þeirra skjala, sem lágu fyrir um viðskiptin og aðild að þeim. Sé mótmælt fullyrðingum stefnanda um, að stefndi hafi reynt að leyna því, hver var samningsaðili stefnanda við hlutabréfakaupin.
Stefndi hafi, fyrir áeggjan og leiðbeiningu starfsmanns stefnanda, lánað félaginu innstæðuna á reikningi sínum í því skyni að sýna fram á tiltrú hluthafa á rekstri félagsins til að greiða fyrir fyrirhuguðum lánveitingum til félagsins. Hafi það e.t.v. ekki verið óeðlileg krafa af hálfu stefnenda, þar sem mjög fjársterkir aðilar hafi staðið að baki rekstri Nýbrauðs ehf. Þá hafi þetta heldur ekki verið óeðlileg háttsemi af hálfu stefnda, sem oftsinnis hafi lánað félaginu fjármuni vegna lausafjárskorts, meðan á stjórnarformennsku hans í því stóð, en þau lán hafi, bæði fyrir og eftir að atvik máls þessa gerðust, verið endurgreidd, þegar fjárhagsstaða félagsins batnaði.
Þá sé því mótmælt sem ósönnuðu og órökstuddu, að það hafi verið skilningur og forsenda stefnanda fyrir kaupum á umræddu hlutafé, að allt kaupverð hlutabréfanna, þ.e. bæði nafnverð og yfirverð þeirra, ætti að renna til félagsins. Hefði slíkt enda ekki getað gerst nema í því tilfelli, að félagið væri að selja eigin bréf, sem stefnanda hafi mátt vera ljóst, að félagið hafi ekki getað, eða með því að sá hluthafi, er bréfin seldi, hefði afsalað sér söluverði í hendur félagsins. Liggi engar upplýsingar um slíkt afsal fyrir í málinu. Hins vegar liggi fyrir, að stefndi hafi lánað félaginu umrædda fjármuni um stundarsakir.
Enn fremur er mótmælt sem ósannaðri þeirri fullyrðingu stefnanda, að stefndi hafi leynt stefnanda upplýsingum um, að ekki yrði af gerð viðskiptasamnings við Baug hf., í því skyni að fá stefnanda til umræddra hlutabréfakaupa. Óvissa hafi ríkt um samningsgerð við Baug hf. allan þann tíma, sem hér um ræðir, þar sem félagið hafi, á undirbúningstíma rekstrar Nýbrauðs ehf., ekki verið reiðubúið að skrifa undir formlega viljayfirlýsingu eða viðskiptasamning, þó svo að fyrir hefði legið munnleg viljayfirlýsing Jóns Geralds Sullenberger um, að Baugur hf. myndi gera viðskiptasamning við Nýbrauð ehf. Hafi stefnanda, sem „atvinnumanni” á sviði viðskipta, því mátt vera ljóst, að hann væri af þessum sökum og ýmsum öðrum að taka áhættu með fjárfestingu sinni í félaginu, enda ekkert verið fast í hendi um rekstrargrundvöll félagsins að þessu leyti. Sé þessi aðstaða og áhætta ítarlega rakin í fundargerð stjórnar Nýbrauðs ehf. frá 26. apríl 1999, sem stefnandi ætti a.m.k. að hafa kynnt sér, áður en hann veitti félaginu lán fyrir vel á annað hundrað milljónir króna. Hefði enda góðum og gegnum lánveitanda borið við þessar aðstæður að kanna ítarlega raunhæfi þeirra viðskiptasamninga, sem félagið hafði gert, eða voru í burðarliðnum, með það fyrir augum að meta greiðsluhæfi félagsins. Virðist sem stefnandi hafi látið þessa rannsókn undir höfuð leggjast, enda hefði honum orðið þessi aðstaða ljós með því einu að lesa umrædda fundargerð stjórnar Nýbrauðs ehf. Geti hann því ekki kennt öðrum um, reynist væntingar hans hafa brostið, enda hafi stefndi í störfum sínum sem stjórnarformaður aldrei dregið fjöður yfir þá áhættu, sem hafi verið samfara þátttöku í rekstri fyrirtækisins.
Telji dómurinn, að skilyrði skaðabótaskyldu séu fyrir hendi, vísar stefndi til þess, að eigin sök stefnanda sé svo mikil, að hann hafi fyrirgert rétti til skaðabóta.
III.
Stefnandi byggir aðallega á því, að stefndi hafi beitt stefnanda svikum við framangreind hlutafjárkaup. Hafi stefndi látið líta svo út, að hann væri að kaupa hluti í Nýbrauði ehf. af félaginu sjálfu, en síðar hafi komið í ljós, að hann hafi tekið til sín 15.000.000 króna af kaupverðinu. Stefnandi hafi hins vegar talið, að yfirverð og nafnverð hlutafjáraukningarinnar gengi til Nýbrauðs ehf., en annað hafi komið á daginn.
Greiðsla fyrir kaup stefnanda á hlutabréfum í Nýbrauði ehf., að nafnvirði 5.000.000 króna, á genginu 4, að fjárhæð 20.000.000 króna, var lög 17. ágúst 1999 inn á reikning stefnda nr. 401878 hjá stefnanda og næsta dag færð af þeim reikningi yfir á nánar tiltekinn reikning stefnda hjá Landsbanka Íslands.
Vitnið Jónas Reynisson var annar tveggja sparisjóðsstjóra stefnanda á þeim tíma, sem umrædd hlutafjárkaup áttu sér stað, en vitnið hætti störfum hjá stefnanda í árslok 2001. Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi, að hann og stefndi hefðu rætt fyrst saman um viðskiptin í ársbyrjun 1999. Hafi þetta byrjað með bankaviðskiptum og síðan þróast út í hugmynd um, hvort stefnandi hefði áhuga á að kaupa bréfin. Eitt hafi svo leitt af öðru og þetta endað með því, að stefnandi keypti þau. Kvað vitnið, að hann og hinn sparisjóðsstjórinn, Þór Gunnarsson, hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um kaupin. Stefndi hafi sagt vitninu frá því, að hann ætti bréfin og að hann hefði keypt þau af eigendum, sem „byrjuðu í fyrirtækinu”. Hafi þeir Þór tekið ákvörðun um að kaupa bréfin á yfirverði, en reynt hafi verið að „prútta” um verðið. Hafi stefndi skýrt vitninu frá því, að hann hefði keypt bréfin á háu verði og þyrfti hann þess vegna að selja þau aftur við háu verði. Fyrir hafi legið hefðbundin rekstraráætlun Nýbrauðs ehf. um tekjur og gjöld og áætlaðan hagnað og ætlunin verið að byggja á viljayfirlýsingu Baugs hf. um, að félagið hygðist kaupa brauð af Nýbrauði ehf.
Áðurnefndur Þór Gunnarsson, sparisjóðsstjóri stefnanda, kannast við að hafa komið að hlutafjárkaupunum í Nýbrauði ehf., en kveður Jónas hafa að mestu séð um undirbúning þeirra, þar sem hann hefði haft með fyrirtækjasvið stefnanda að gera. Þór kvað sér ekki hafa orðið kunnugt um, að stefnandi var að kaupa bréfin af stefnda, en ekki Nýbrauði ehf., fyrr en á síðastliðnu ári.
Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, vissi annar sparisjóðsstjóra stefnanda, að stefndi var seljandi umræddra hlutabréfa í Nýbrauði ehf. Þá liggur ljóst fyrir, að stefnandi lagði greiðslu fyrir þau inn á persónulegan reikning stefnda hjá stefnanda. Eru því engin efni til að fallast á með stefnanda, að stefndi hafi komið kaupunum á með sviksamlegum hætti, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Þá er af hálfu stefnanda byggt á þeirri málsástæðu, að stefnda hafi verið ljóst, að þær forsendur, sem kynntar voru stefnanda um framtíðarsölu Nýbrauðs ehf. til Baugs hf., hafi verið brostnar við söluna í ágúst 1999 og hafi stefndi vísvitandi leynt stefnanda þessum upplýsingum við samningsgerðina.
Viðskipti þau, sem mál þetta er sprottið af, eru áhættusöm, eðli sínu samkvæmt. Ljóst er af gögnum málsins, að stefnandi og aðrir hluthafar í Nýbrauði ehf. bundu miklar vonir við áðurnefnda viljayfirlýsingu Baugs hf. um kaup á brauðum af fyrirtækinu. Var í áætlunum Nýbrauðs ehf. gert ráð fyrir, að Baugur hf. myndi kaupa daglega um 10000 15000 brauð. Aðilar eru þó sammála um, að enginn skuldbindandi samningur hafi legið fyrir þar að lútandi. Fyrir liggur, að fyrst var bókað um það í fundargerð Nýbrauðs ehf. vegna stjórnarfundar 25. ágúst 1999, eða liðlega viku eftir að stefnandi keypti hlutabréfin í Nýbrauði ehf., að þá væri að koma í ljós, eins og segir orðrétt í fundargerðinni „ ... að Baugur hf. mun ekki hefja viðskipti við Nýbrauð á þessu ári. Komið hefur í ljós að væntanlegur samkeppnisaðili Nýbrauðs, þ.e. Myllan Brauð, hefur gert einokunarsamning við verslunarkeðjuna [...] Þetta er í hróplegu ósamræmi við þá viljayfirlýsingu sem Baugur skrifaði undir við Nýbrauð á vormánuðum 1999. Í þeirri yfirlýsingu kom fram einlægur ásetningur um að hefja viðskipti við Nýbrauð frá og með 01.10.1999 og í síðasta lagi 01.11.1999 ”.
Að mati dómsins er samkvæmt framansögðu með öllu ósannað af hálfu stefnanda, að stefndi hafi á þeim tíma, er stefnandi keypti hlutabréfin í Nýbrauði ehf., haft vitneskju um breyttar rekstrarforsendur Nýbrauðs ehf. í ljósi þeirrar breytingar, sem lýst er í ofangreindri fundargerð, á áformum Baugs hf. um kaup brauða af Nýbrauði ehf. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, að það hafi ekki verið fyrr en eftir kaupin, að stefndi mátti vita, að einhverjar ráðagerðir væru í bígerð af hálfu Baugs hf. í aðra veru, en fyrirsvarsmenn Nýbrauðs ehf. töldu sig mega treysta samkvæmt umræddri viljayfirlýsingu. Er því ósannað, að stefndi hafi, gegn betri vitund, leynt atriðum, er vörðuðu framtíðarmöguleika félagsins, með þeim ásetningi að fá stefnanda til þess að gera samninginn um kaup hlutabréfanna og þannig brotið gegn 30. gr. samningalaga. Á sama hátt er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda, að framferði stefnda hafi verið óheiðarlegt, sbr. 33. gr. sömu laga. Þá eru engin efni til að fallast á með stefnanda, sem hefur meðal annars atvinnu af því að kaupa og selja hlutabréf, að ákvæði 36. gr. samningalaga geti hér átt við.
Að lokum er á því byggt af hálfu stefnanda, að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti leynt stefnanda atriðum, sem máli skiptu við samningsgerðina, og með því valdið stefnanda tjóni. Með vísan til sömu raka og að ofan greinir, er það álit dómsins, að stefnanda hafi engan veginn tekist að sýna fram á, að hald sé í þessari málsástæðu hans.
Það er því niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum og með skírskotun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Jóhann Þorvarðarson, er sýkn af kröfum stefnanda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.