Hæstiréttur íslands
Mál nr. 828/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Þriðjudaginn 16. desember 2014. |
|
Nr. 828/2014.
|
Sýslumaðurinn á Akranesi (Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður) gegn X (Grímur Sigurðarson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2014, en hann kveðst fyrst hafa haft vitneskju um úrskurðinn degi fyrr. Kæran barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. nóvember 2014, þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á Akranesi 13. nóvember 2014 um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. nóvember 2014.
Lögreglustjórinn á Akranesi hefur krafist þess að Héraðadómur Vesturlands staðfesti með úrskurði þá ákvörðun lögreglustjórans frá 13. nóvember sl. að X, kt [...], verði gert að sæta nálgunarbanni til miðvikudagsins 13. maí 2015, þannig að honum er meinað að koma á, eða í námunda við, heimili A, kt [...], að [...] á [...].
Ákvörðun lögreglustjóra er svohljóðandi:
Á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili hefur lögreglustjóri, að eigin frumkvæði, tekið þá ákvörðun að kærða verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A.
Í ljósi ofangreinds telur lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann séu uppfyllt að því leyti að rökstuddur grunur sé um að X, kt [...], hafi framið brot gegn A, kt [...], eiginkonu sinni, er varði við ákvæði XXIII. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að hætta sé á að hann muni raska friði A, en í skilningi laga nr. 85/2011 um nálgunarbann njóti hún fulls athafnafrelsis. Er ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til alls þessa hafi sú ákvörðun tekin að X, kt [...], verði gert að sæta nálgunarbanni til miðvikudagsins 13. maí 2015 kl. 16:00, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
Ákvörðunin tekur gildi við birtingu hennar samkvæmt 9. gr. laga nr. 85/2011.
Af hálfu varnaraðila er kröfunni andmælt.
I.
Í beiðni lögreglustjórans er málsatvikum lýst þannig að þann 21. maí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um heimilisofbeldi á [...], [...]. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi þeir sé hvar varnaraðili stóð úti á bifreiðastæði við [...] ásamt syni sínum, B, fæddum [...]. Lögreglan hafi rætt við þá feðga og veitt því athygli að varnaraðili hafi verið mjög ölvaður, hann hafi ekki talað neina íslensku og því hafi lögreglumenn fengið son hans til að segja þeim hvað hafi gerst. B hafi sagt þeim að foreldrar hans hafi verið að rífast og móðir hans og C systir hans væru inni í íbúðinni. Þá hafi lögreglumenn farið inn í íbúðina og rætt við brotaþola og B. Að þeirra sögn hafi varnaraðili skallað og snúið upp á hönd brotaþola nokkru áður með þeim afleiðingum að hún hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Varnaraðili hefði fyrr um kvöldið sparkað í brotaþola og hent henni inn í barnaherbergi. Hann hafi reynt að ná af henni síma hennar og verið búinn að taka af henni vegabréfið svo hún kæmist ekki til [...]. Að sögn brotaþola hafi heimilisofbeldið varað í um tíu ár eða allt frá fæðingu dóttur þeirra.
Varnaraðila hafi með úrskurði héraðsdóms verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili hinn 22. maí 2014. Nálgunarbannið hafi gilt til 13. nóvember sl. Lögreglu hafi borist tilkynningar vegna brots á nálgunarbanni varnaraðila og við rannsókn málsins hafi komið fram í framburði brotaþola að varnaraðili hafi í þrígang brotið nálgunarbannið gegn sér. Þar á meðal þann 7. október sl., en þá hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu í sundlaugina að [...] á [...] þar sem varnaraðili hafi haft í hótunum við brotaþola og vin hennar meðal annars hótað að „Stúta“ þeim báðum. Fjögur vitni voru að nálgunarbannsbrotinu þann 7. október sl., og er frásögn þeirra samhljóða um öll meginatriði.
Á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili tók lögreglustjóri, að eigin frumkvæði, þá ákvörðun að kærða yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann séu uppfyllt að því leyti að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið brot gegn brotaþola, eiginkonu sinni, er varði við ákvæði XXIII. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að hætta sé á að hann muni raska friði brotaþola, en í skilningi laga nr. 85/2011 um nálgunarbann njóti hún fulls athafnafrelsis. Er ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Miðað við þau gögn sem unnt hefur verið að afla og framburða þeirra aðila sem þegar liggja fyrir, telji lögreglustjórinn á Akranesi að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að varnaraðili hafi framið refsiverð brot og/eða muni raska friði brotaþola sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun.
Að virtum atvikum málsins, telji lögreglustjóri að hætta sé á því að varnaraðili muni á ný brjóta gegn brotaþola á sambærilegan hátt eða á annan hátt er raskar friði hennar eins og kveðið er á um í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun á heimili.
Jafnframt álíti lögreglustjórinn á Akranesi hættu á að varnaraðili muni brjóta gegn brotaþola ef nálgunarbanni verði ekki beitt í máli þessu, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun.
Það sé því mat lögreglustjórans með vísan í ofangreint að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt og að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola og börnum hennar þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila. Þá þyki lögreglustjóra með vísan til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga að ekki sé unnt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum og vægari hætti en með brottvísun af heimili og nálgunarbanni.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Af rannsóknargögnum sem fyrir dóminn hafa verið lögð má ráða að varnaraðili hafi sýnt ofbeldisfulla hegðun gagnvart brotaþola og brotið gegn nálgunarbanni og telur dómurinn að með gögnum þessum sé sýnt fram á að skilyrði II. kafla laga nr. 85/2011, til að beita nálgunarbanni, séu uppfyllt hér líkt og kveðið er á um í ákvörðun lögreglustjóra frá 13. nóvember sl. Verður ákvörðun lögreglustjóra því staðfest.
Í málinu gerir skipaður verjandi varnaraðila og skipaður réttargæslumaður brotaþola, kröfu um þóknun.
Þóknun verjanda varnaraðila, Gríms Sigurðarsonar hrl., þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í úrskurðarorði.
Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Lárussonar hrl. þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í úrskurðarorði.
Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr., sbr. 216. gr. laga nr. 88/2008.
Allan Vagn Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Akranesi frá 13. nóvember 2014 að X, kt. [...] sæti nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar til miðvikudagsins 13. maí 2015, kl. 16:00 þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti A, kt. [...], eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Gríms Sigurðssonar hrl. 125.500 krónur greiðist úr ríkissjóði. Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Lárussonar hrl. 125.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.