Hæstiréttur íslands

Mál nr. 707/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Þriðjudaginn 3. nóvember 2015.

Nr. 707/2015.

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Unipol-Sai Assicurazioni S.p.A.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L hf. gegn U var vísað frá dómi. L hf. höfðaði upphaflega mál gegn U SGR til riftunar á greiðslu skuldabréfa sem sá fyrrnefndi taldi að hefðu verið greidd áður en kom að gjalddaga þeirra. Í greinargerð sinni í héraði hélt U SGR því meðal annars fram að félagið hefði einungis haft milligöngu um viðskiptin fyrir U. Í tilefni þessarar málsástæðu höfðaði L hf. sakaukamál á hendur U í desember 2014. Í dómi Hæstaréttar kom fram að bréf hefði verið sent L hf. í september 2008 þar sem tekið hefði verið fram að U SGT kæmi fram „fyrir hönd“ U. Hefði L hf. ekki borið brigður á að bréfið hefði borist honum og verið í vörslum slitastjórnar þegar málið var höfðað. Var L hf. því ekki talinn hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að atvik málsins væru með þeim hætti að miða bæri upphaf hins rúma 30 mánaða málshöfðunarfrests 2. málsliðar 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Var því talið að málið hefði verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti og var af þeim sökum vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2015, sem barst réttinum 16. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust 22. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili, sem áður hét Landsbanki Íslands hf., gaf 21. desember 2011 út stefnu á hendur Unipol SGR S.p.A. og krafðist þess að staðfest yrði riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. til stefnda 2. október 2008 að fjárhæð 420.727,92 evrur vegna skuldabréfaeignar stefnda að nafnverði 500.000,00 evrur úr skuldabréfaflokki með gjalddaga 21. desember 2009, gefnum út af Landsbanka Íslands hf. og skráðum sem LI FRN 21/12/09 og ISIN númer XS0208211911. Jafnframt var krafist greiðslu 420.727,92 evra með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2010 til greiðsludags.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila bauð Landsbanki Íslands hf. með útgáfulýsingu 17. desember 2004 fjárfestum til sölu skuldabréf, útgefin af honum, í flokki sem var auðkenndur LI FRN 21/12/09 og með ISIN númer XS0208211911. Skuldabréfin voru gefin út á grundvelli samninga, sem bankinn hafði gert við Deutsche Bank AG og Deutsche Bank Luxembourg. Samkvæmt uppgjörsgögnum greiddi Landsbanki Íslands hf. 2. október 2008 upp skuld við stefnda Unipol SGR S.p.A. samkvæmt framangreindum skuldabréfum þótt ekki væri komið að gjalddaga þeirra. Á kvittun fyrir greiðslunni var viðskiptadagur tilgreindur 29. september 2008, en viðskiptin voru gerð upp í gegnum EUROCLEAR Bank með þriggja daga töf. Nafnverð bréfa sem stefndi Unipol SGR S.p.A. fékk þar greidd var 500.000 evrur og fékk hann greiddar 420.727,92 evrur. Kom fram á staðfestingu úr kerfum sóknaraðila að stefndi var mótaðili bankans, þar sem kóðinn UNIFINAN átti við um stefnda.

Hinn 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stjórn sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 22. nóvember 2010. Bankanum hafði verið skipuð slitastjórn 29. apríl 2009, sem sendi stefnda riftunaryfirlýsingu 16. ágúst 2010 vegna áðurnefndrar greiðslu, þar sem jafnframt var krafist greiðslu 420.727,92 evra.

Málið var þingfest 29. maí 2012. Hið stefnda félag tók til varna með greinargerð, sem lögð var fram í þinghaldi 30. október sama ár. Efnisvarnir félagsins voru meðal annars reistar á aðildarskorti, þar sem það hafi einungis haft milligöngu sem verðbréfamiðlari fyrir Aurora Assicurazioni S.p.A. í þeim viðskiptum sem málið snerist um. Í þinghaldinu lagði stefndi meðal annars fram bréf Unipol Gruppo Finanzario 30. september 2008 til málsaðila, sem bar með sér að lúta fyrrgreindum viðskiptum. Þar sagði eftirfarandi í íslenskri þýðingu: „Með vísan til neðangreindra viðskipta af hálfu Unipol SGR fyrir hönd Aurora Assicurazioni vegna sölu til LANDSBANKA LONDON sem umbjóðanda “.

Áðurnefnd málsástæða stefnda Unipol SGR S.p.A. leiddi til þess að sóknaraðili höfðaði 4. desember 2014 sakaukamál á hendur varnaraðila, þar sem honum var stefnt til vara, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, og sömu kröfur gerðar á hendur honum og stefnda Unipol SGR S.p.A. Í sakaukastefnunni var gerð grein fyrir því að sóknaraðili hafi 24. apríl 2013 skorað á stefnda Unipol SGR S.p.A., hér á eftir aðalstefndi, að leggja fram gögn sem staðfestu að hann hafi ekki notið góðs af umræddum viðskiptum, heldur varnaraðili. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu aðalstefnda í þinghöldum 26. júní og 1. október 2013. Í þinghaldi 6. desember sama ár hafi aðalstefndi lagt fram yfirlýsingu stjórnarformanns síns, þar sem fram kom að aðalstefndi hafi ekki notið hags af viðskiptunum, heldur hafi það verið Aurora Assicurazioni S.p.A. Í kjölfar þess að sóknaraðili leitaði til lögmanna á Ítalíu hafi komið í ljós að fleiri félög en eitt hafi verið skráð þar í landi undir nafninu Aurora Assicurazioni S.p.A., en þau síðan öll verið afskráð, það síðasta á árinu 2009. Hinn 3. september 2014 hafi sóknaraðila síðan borist bréf aðalstefnda, þar sem fram kom að varnaraðili hafi sameinast öðru félagi og hið sameinaða félag tekið upp heiti varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á hinn bóginn vísað til þess að er umrædd viðskipti voru gerð hafi skýrt komið fram af hálfu aðalstefnda að hann kæmi fram í þeim fyrir hönd Aurora Assicurazioni S.p.A., sem síðar hafi runnið inn í varnaraðila. Væri þetta augljóst af leiðréttri staðfestingu sóknaraðila til aðalstefnda sem og staðfestingum aðalstefnda, sem fyrir lægju í málinu.

II

Í 2. málslið 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eftir að honum var breytt með 1. gr. laga nr. 146/2011, er mælt svo fyrir að frestur slitastjórnar til að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé 30 mánuðir. Samkvæmt því byrjar málshöfðunarfresturinn að líða þegar slitastjórn átti þess kost að gera riftunarkröfu, þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Slitastjórn sóknaraðila var sem fyrr segir skipuð 29. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti við slit hans 30. október sama ár. Eins og rakið hefur verið sendi Unipol Gruppo Finanzario sóknaraðila og aðalstefnda bréf 30. september 2008, þar sem vísað var til þeirra viðskipta sem um ræðir í máli þessu og beinlínis tekið fram að hinn síðarnefndi hafi annast þau fyrir hönd „Aurora Assicurazioni“. Hefur sóknaraðili ekki borið brigður á að bréfið hafi borist honum og að það hafi verið í vörslum slitastjórnar þegar mál þetta var höfðað. Að þessu virtu hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að atvik málsins séu með þeim hætti að miða beri upphaf hins rúma málshöfðunarfrests við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Verður því litið svo á að hann hafi runnið út 30 mánuðum síðar eða  30. apríl 2012 og var hann liðinn er sóknaraðili höfðaði sakaukamálið 4. desember 2014. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Unipol-Sai Assicurazioni S.p.A, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015.

Mál þetta, sem höfðað er til sakauka í máli stefnanda gegn Unipol SGR S.p.A, var höfðað með stefnu birtri 4. desember 2014 og tekið til úrskurðar 21. september sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík. Sakaukastefndi er Unipol-Sai Assicurazioni S.p.A., Via Stalingrado 45, Bologna, Ítalíu. Í þessum þætti málsins gerir sakaukastefndi kröfu um frávísun málsins, en stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar.

Yfirlit yfir efnishlið málsins

Hinn 19. febrúar 2015 var þingfest mál stefnanda gegn Unipol SGR S.p.A. Í því máli hefur stefnandi uppi þær efniskröfur að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu stefnanda, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., til Unipol SGR S.p.A. sem greidd var 2. október 2008, að fjárhæð 420.727,92 evrur vegna skuldabréfaeignar félagsins að nafnverði 500.000,00 evrur úr skuldabréfa­flokki með gjalddaga 21. desember 2009 og gefinn var út af Landsbanka Íslands hf. og skráður sem LI FRN 21/12/09 með ISIN númer XS0208211911. Jafnframt krefst stefnandi þess að Unipol SGR S.p.A. verði dæmt til þess að greiða stefnanda 420.727,92 evrur með dráttarvöxtum, skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. september 2010 til greiðsludags. Í efnisþætti málsins krefst Unipol SGR S.p.A. sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda.

Í stefnu aðalsakar er því lýst að með útgáfulýsingu 17. desember 2004 hafi Landsbanki Íslands hf., þ.e. stefnandi, boðið fjárfestum til sölu skuldabréf útgefin af honum í flokki sem var auðkenndur LI FRN 21/12/09 og með ISIN númer XS0208211911. Skuldabréfin hafi verið gefin út á grundvelli samninga sem bankinn hafði gert við Deutsche Bank AG og Deutsche Bank Luxembourg S.A. Samkvæmt útgáfulýsingunni hafi skuldabréfið verið selt til fjárfesta með áskriftarfyrirkomulagi. Heildarbréf (e. Global Note) hafi verið gefið út af stefnanda og það sett til miðlunar í kerfum Euroclear Bank S.A./N.V. Fyrst hafi verið gefið út tímabundið bréf (e. Temporary Global Note) 21. desember 2004 en því svo skipt út fyrir varanlegt bréf (e. Permanent Global Note) frá og með 31. janúar 2005. Skuldabréfið (e. Global Note) hafi fjárfestar fengið afhent í samræmi við hlutfall fjárfestingarloforðs hans í heildar skuldabréfaútgáfunni. Skuldabréfin hafi verið handhafabréf (e. Bearer Form). Vaxtamiðar (e. Coupons) hafi gefnir út samhliða skuldabréfunum. Samkvæmt útgáfulýsingu hafi skuldabréfaflokkurinn í heild numið 500.000.000 evrum. Staðfesting Euroclear eða Clearstream fyrir eignarhaldi fjárfestis skyldi tekin sem sönnun á handhafarétti. Við ákveðin skilyrði hafi verið mögulegt að skipta skuldabréfunum (e. Permanent Global Note) fyrir endanlegt handhafabréf (e. Definitive Notes). Þau bréf hafi gefin út í 1.000.000 evra einingum. Uppgreiðslu­heimild til handa útgefanda, þ.e. Landsbanka Íslands hf., hafi ekki verið fyrir hendi. Vaxtagreiðsludagar hafi verið skilgreindir fjórir á ári, 21. mars, 21. júní, 21. september og 21. desember. Gjalddagi hafi átt að vera 21. desember 2009. Skuldabréfin hafi ekki verið skráð á skipulagðan verðbréfamarkað.

Þá er því lýst í stefnu aðalsakar að 2. október 2008 hafi stefnandi greitt upp skuld við Unipol SGR S.p.A. samkvæmt framangreindum skuldabréfum þótt ekki væri komið að gjalddaga þeirra. Á kvittunum fyrir greiðslunni sé viðskiptadagur tilgreindur 29. september 2008 en viðskiptin hafi verið gerð upp í gegnum EUROCLEAR Bank með þriggja daga töf og greiðsla farið fram 2. október 2008. Nafnverð bréfa sem Unipol SGR S.p.A.  hafi fengið þar greidd upp hafi verið 500.000 evrur. Stefnandi hafi greitt og Unipol SGR S.p.A.  fengið greiddar 420.727,92 evrur. Á staðfestingu úr kerfum stefnanda komi fram að Unipol SGR S.p.A. hafi verið mótaðili bankans. Í stefnu er einnig lýst þróun fjármálamarkaða og stöðu Landsbanka Íslands hf. fram á haustið 2008 sem lyktaði með því að Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi bankans 7. október 2008 með vísan til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá er í stefnu gerð grein fyrir því þegar Landsbanki Íslands hf. var tekinn til slita samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 og aðgerðum slitastjórnar við riftun þeirra greiðslna sem áður er lýst.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með framangreindri greiðslu greitt skuld við aðalstefnda eða varastefnda fyrr en eðlilegt hafi verið á sama tíma og bankinn hafi verið ógjaldfær. Ekki hafi verið komið að gjalddaga skuldarinnar og uppgreiðsluheimild hafi ekki verið fyrir hendi. Við greiðsluna hafi réttindi og skyldur samkvæmt skuldabréfunum farið á eina hendi og skuldabréfakröfurnar fallið niður. Því séu greiðslurnar riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðsla skuldar, fyrr en nauðsynlegt hafi verið að greiða og með takmörkuðu lausafé bankans, hafi ekki getað verið venjuleg eftir atvikum eða eðlileg ráðstöfun, með hliðsjón af stöðu bankans og íslenska fjármálamarkaðarins.

Málsástæður og lagarök aðila

Í þessu máli beinir stefnandi fyrrgreindum kröfum að sakaukastefnda sem varastefnda. Vísar hann til þess að í greinargerð Unipol SGR S.p.A. sem lögð var fram fyrir héraðsdómi 30. október 2012 hafi komið fram að félagið hafi ekki notið hags af uppgreiðslu heldur félagið Aurora Assicurazioni S.p.A. án þess þó að þetta væri nánar skýrt. Eftir áskorun stefnanda hafi Unipol SGR S.p.A. lagt fram, hinn 6. desember 2013, yfirlýsingu stjórnarformanns þar sem fram hafi komið að Unipol SGR S.p.A. hafi ekki verið aðili að umræddum skuldabréfaviðskiptum heldur hafi það verið Aurora Assicurazioni S.p.A. Í kjölfarið hafi stefnandi leitað til lögmanna á Ítalíu til þess að afla upplýsinga um síðargreint félag. Hafi komið fram að fleiri en eitt félag hefði verið skráð undir þessu heiti. Hinn 3. september 2014 hafi stefnanda borist bréf frá Unipol SGR S.p.A. þar sem fram hafi komið að Aurora Assicurazioni S.p.A. hefði sameinast sakaukastefnda. Stefnandi leggur áherslu á að honum hvorki hafi né hafi mátt vera kunnugt um að sakaaukastefndi hefði verið hinn raunverulegi kaupandi fyrrgreindra bréfa við höfðun aðalsakar. Því séu frestir til höfðunar málsins ekki liðnir og eins verði það ekki metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki beint aðalsök einnig að sakaukastefnda. Þá er mótmælt fullyrðingum sakaukastefnda um að málið sé höfðað á röngu varnarþingi.

Sakaukastefndi byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að málið á hendur sér hafi ekki verið höfðað fyrr en að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en af ákvæðunum sé ljóst að 30 mánaða málshöfðunarfrestur byrji að líða annað hvort við lok kröfulýsingarfrests eða þegar slitastjórn átti þess fyrst kost að gera riftunarkröfu.  Kröfulýsingarfresti stefnanda hafi lokið 30. október 2009 hafi því umræddur frestur verið liðinn við höfðun sakauka ef miðað sé við þetta tímamark. Þá vísar sakaukastefndi til þess að af gögnum málsins verði ráðið að stefnanda hafi mátt vera vel ljóst að Unipol SGR S.p.A. hafi ekki komið að áðurlýstum viðskiptum í eigin nafni heldur hafi það verið fyrir hönd annars fyrirtækis. Stefnanda hafi borið skylda til þess að afla sér frekari upplýsinga um þetta atriði. Hefði verið auðvelt fyrir stefnanda að afla sér upplýsinga um afdrif Aurora Assicurazioni S.p.A og fá upplýsingar um að það félag hafði runnið inn í sakaukastefnda. Með hliðsjón af framansögðu verður einnig að meta stefnanda það til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefnda ásamt aðalstefnda þegar málið var þingfest í frumsök. Af þeim sökum beri einnig að vísa málinu frá á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Sakaukastefndi byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að hann eigi ekki varnarþing á Íslandi og málið sé utan lögsögu íslenskra dómstóla. Sakaukastefndi vísar til þess að samkvæmt almennum reglum, svo og ákvæðum í útgáfulýsingu, hefði varnarþing stefnda átt að vera utan Íslands. Ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingarlög nr. 146/2011 sem tekið hafi gildi 25. október 2011, hafi því falið í sér afturvirka lagasetningu um viðskipti málsaðila sem að fullu hafi verið lokið við gildistöku breytingarlaganna. Slíkt brjóti gegn meginreglum stjórnskipunarréttar, sbr. einnig 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og rétti sakaukastefnda til réttlátrar meðferðar fyrir dómi, sem honum sé tryggður með ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sakaukastefndi telji einnig að að umrædd breytingarlög feli í sér breytingu á efnisreglum um riftun. Lögin brjóti í bága við lögmætar væntingar sakaukastefnda sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og  jafnræðisreglu með því að verið sé að hygla tilteknum aðilum, þ.e. slitastjórnum, á kostnað annarra aðila. Samkvæmt þessu sé ekki hægt að byggja á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 í þessu máli. Málið sé höfðað á röngu varnarþingi og af þeim sökum beri einnig að vísa því frá dómi.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og greininni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009 og 1. gr. laga nr. 146/2011, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., var frestur stefnanda til að höfða riftunarmál aukinn í 30 mánuði frá því slitastjórn stefnanda átti þess kost að gera kröfu um riftun, en fresturinn skyldi þó aldrei byrja að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Af hálfu sakaukastefnda er því ekki haldið fram að lenging á málshöfðunarfresti samkvæmt 1. gr. laga nr. 146/2011 hafi út af fyrir sig verið andstæð stjórnlögum.

Óumdeilt er að kröfulýsingarfrestur vegna slita stefnanda rann út 30. október 2009. Samkvæmt þessu voru liðnir meira en 30 mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests þegar málið var höfðað. Kemur því til skoðunar sú málsástæða stefnanda að slitastjórn hans hafi ekki átt þess kost að beina kröfum að sakaukastefnda fyrr en við síðara tímamark.

Með gagna aðalsakar er símbréf aðalstefnda, Unipol SGR S.p.A., til útibús stefnanda í London 29. september 2008 vegna áðurlýstra skuldabréfaviðskipta stefnanda og félagsins. Hefur þar verið handskrifað „UNIPOL SGR AC/ AURORA“ auk þess sem strikað er yfir orðin „Grupo Finanziario“ í heitinu „Unipol Grupo Finanziario“. Þá liggur fyrir annað símbréf stefnanda dagsett sama dag þar sem viðsemjandi stefnanda er tilgreindur „Unipol SGR (AURORA)“. Að lokum liggur fyrir símbréf Unipol Gruppo Finanziario S.p.A. vegna sömu viðskipta þar sem vísað er til nánar tilgreindra viðskipta sem aðalstefndi hafi átt fyrir hönd „Aurora Assicurazioni“ við stefnanda.

Að mati dómsins mátti starfsmönnum stefnanda vera ljóst af framangreindum gögnum að aðalstefndi kom fram í viðskiptunum fyrir hönd þriðja aðila, Aurora Assicurazioni. Gera verður ráð fyrir því að umrædd gögn hafi verið í vörslum stefnanda frá upphafi og hafi starfsmönnum stefnanda því verið í lófa lagið að kanna efni þeirra og afla nánari upplýsinga um umrætt fyrirtæki. Í málinu er hins vegar óumdeilt að stefnandi gerði engan reka að öflun slíkra upplýsinga fyrr en eftir að greinargerð Unipol SGR S.p.A. í aðalsök hafði verið lögð fram fyrir dómi 30. október 2012.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að mál þetta hafi verið höfðað eftir það tímamark sem kveðið er á um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 og áður greinir. Verður af þessari ástæðu fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða sakaukastefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sakaukastefnda flutti málið Áslaug Björgvinsdóttir hdl.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þórir Júlíusson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, LBI hf., greiði sakaukastefnda, Unipol-Sai Assicurazioni S.p.A., 800.000 krónur í málskostnað.