Hæstiréttur íslands
Mál nr. 439/2000
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Sönnun
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 17. maí 2001. |
|
Nr. 439/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Steinþóri Bjarka Stefánssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Sönnun. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
S var ákærður fyrir ölvunarakstur. Barst lögreglu nafnlaus ábending um að bifreið hefði verið ekið á umferðarskilti og benti ökulag til þess að ökumaðurinn væri ölvaður. Var lögreglu gert viðvart um að ökumaðurinn hefði farið inn í tiltekið hús að akstri loknum. Þegar lögregla kom að fannst S þar fyrir. Var hann handtekinn og tekin úr honum blóð- og þvagsýni sem leiddu í ljós að hann var talsvert ölvaður. Bar S því hins vegar við að hann hefði fyrst neytt áfengis eftir að akstri lauk. Var S sýknaður í héraði vegna vafa um sekt hans. Talið var að tiltekin atriði í framburði S væru fjarstæðukennd. Var héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný, enda voru taldar slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum væri rangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2000 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur, dæmdur til refsingar og sviptur ökurétti.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
I.
Sýslumaðurinn á Akureyri höfðaði mál þetta með ákæru 21. ágúst 2000, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa ekið aðfaranótt 3. júní sama árs bifreiðinni MO 687 undir áhrifum áfengis frá Skarðshlíð 15 að Eyrarvegi 5 á Akureyri. Var þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og þess krafist að ákærði sætti refsingu og sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. laganna.
Í frumskýrslu lögreglunnar um atvik málsins greindi frá því að kl. 4.42 áðurnefnda nótt hafi piltur, sem vildi ekki láta nafns síns getið, hringt á lögreglustöðina á Akureyri til að tilkynna hugsanlegan ölvunarakstur. Hafi pilturinn sagst hafa ekið á eftir bifreiðinni MO 687 austur Undirhlíð. Þegar hún hafi nálgast hringtorg á gatnamótum Hörgárbrautar hafi henni verið ekið yfir tvær umferðareyjar, þar sem hún hafi lent á umferðarmerkjum. Meðan á símtalinu stóð hafi pilturinn sagt frá því að bifreiðinni væri ekið suður Hörgárbraut og síðan austur Tryggvabraut. Myndi hann fylgja bifreiðinni eftir þar til lögreglan kæmi á vettvang. Þrír lögreglumenn hafi þegar haldið af stað og fengið á leiðinni boð frá piltinum um að bifreiðinni hafi verið ekið suður Hvannavelli og síðan austur Eyrarveg. Þegar lögreglan kom þangað hafi pilturinn bent þeim á húsið að Eyrarvegi 5a og sagt bifreiðinni hafa verið ekið að því. Þar hafi lögreglan komið að bifreiðinni, sem hafi verið mannlaus. Hafi vél hennar verið heit og mátt greina á henni skemmdir, sem stafað gætu af akstri á umferðarmerki. Þegar komið hafi verið að útidyrum hússins hafi heyrst þrusk þar fyrir innan. Hafi verið bankað á hurð og ákærði komið til dyra, talsvert ölvaður. Aðspurður hafi hann sagst hafa verið að koma þangað í hús, en honum þá verið tjáð að hann væri grunaður um ölvunarakstur og hann beðinn um að koma á lögreglustöð, sem hann hafi kveðið sjálfsagt. Við athugun lögreglunnar hafi komið í ljós að ekið hafi verið á tvö umferðarmerki við Undirhlíð nærri áðurnefndu hringtorgi. Varðstjóri á lögreglustöðinni á Akureyri tók skýrslu af ákærða kl. 5.25 umrædda nótt. Þar kvaðst ákærði hafa neytt áfengis og hafið drykkju „í gærdag“. Hann hafi ekið frá heimili sínu að Skarðshlíð 15 rétt áður en hann var handtekinn og haldið þaðan sem leið lá að Eyrarvegi 5, en við aksturinn hafi hann ekki fundið til áfengisáhrifa. Áður en ákærði gaf þessa skýrslu var tekið af honum sýni af blóði og þvagi, en samkvæmt fyrirliggjandi vottorðum læknis var það gert kl. 5.10 og 5.12 um nóttina. Samkvæmt vottorði lyfjafræðistofnunar 14. júní 2000 reyndist vínandi í blóði ákærða hafa verið 2,54, en í þvagi 3,01.
Fyrir liggur að ákærði kom fyrir fulltrúa sýslumannsins á Akureyri 9. júní 2000, þar sem hann var sviptur ökurétti til bráðabirgða. Af skýrslu, sem ákærði gaf við meðferð málsins fyrir dómi, verður ráðið að hann hafi gert þetta að eigin frumkvæði og samkvæmt ráði lögmanns, sem síðar var skipaður verjandi hans fyrir héraðsdómi.
Rannsóknarlögreglan á Akureyri tók 25. september 2000 skýrslur af áðurnefndum pilti, sem hafði tilkynnt lögreglunni um akstur ákærða aðfaranótt 3. júní sama árs, og farþega, sem var með honum í bifreið. Lýsing þeirra á aðdragandanum að tilkynningu til lögreglunnar um akstur ákærða og atvikum í framhaldi af því var efnislega í samræmi við upplýsingar í fyrrnefndri frumskýrslu lögreglunnar, en frásögnin þó í ýmsu mun nákvæmari, þar á meðal um akstursleið ákærða. Fram kom hjá piltinum að hann hafi verið í símsambandi við lögregluna samfleytt þar til hún kom á vettvang að Eyrarvegi 5, en þangað hafi hún komið „rétt eftir“ að ákærði fór inn í húsið þar.
Ákærði kom fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra þegar málið var þingfest 21. september 2000 og neitaði þar sök. Hann kvaðst „ekki hafa verið drukkinn við akstur í greint sinn heldur neytt víns eftir að akstri lauk“, svo sem haft var eftir honum í þingbók. Við aðalmeðferð málsins 25. október sama árs skýrði hann frá því að hann hefði átt við svefntruflanir að stríða og ekki sofið tvær nætur áður en atvik þess gerðust. Umrædda nótt, sem hafi verið sú þriðja sem hann svaf ekki, hafi hann tekið inn nánar tiltekin lyf, sem hafi valdið honum sljóleika en ekki nægt til að sofna. Daginn á undan hafi hann skilið eftir á heimili móður sinnar að Eyrarvegi 5 heila flösku og fleyg af sterku áfengi. Vegna svefnleysis um nóttina hafi hann farið þangað „til að ná í vínið“, en að íbúð móður sinnar hefði hann lykil. Sagði hann svo frá að „um leið og ég kem inn þá tek ég flöskuna og ég teyga þarna ¾ úr henni.“ Þetta hafi móðir hans, sem hafi komið fram í sömu mund án þess að hann yrði hennar var, séð hann gera, en oft hefði hann áður neytt áfengis á þennan hátt. Stuttu seinna hafi lögreglan knúið þar dyra, en ákærði hafi þá verið búinn að vera í íbúðinni „svona 7 mínútur kannski eitthvað.“ Hann dró í efa að hann hafi verið fær um að aka heim til móður sinnar umrætt skipti vegna syfju af völdum áðurnefndra lyfja, en þetta hafi verið orsök þess að hann hafi ekið á umferðarmerki á leið sinni. Þetta hafi jafnframt verið tilefnið fyrir því að hann hafi gengist undir sviptingu ökuréttar til bráðabirgða, sem áður var getið.
Móðir ákærða kom fyrir dóm við meðferð málsins. Hún kvaðst að kvöldi 2. júní 2000 hafa orðið vör við að ákærði hefði skilið eftir áfengi í forstofunni á heimili hennar. Hún hafi sofnað að áliðnu kvöldi, en vaknað um nóttina til að fara á salerni og þá séð til ákærða inni í eldhúsi, þar sem „hann þambar úr flöskunni.“ Hún hafi oft áður séð hann neyta áfengis á þennan hátt og talið heppilegast að láta hann alveg eiga sig við þá iðju.
Fyrir dómi skýrðu pilturinn, sem tilkynnti lögreglunni um akstur ákærða, og áðurnefndur farþegi í bifreið hans frá atvikum í meginatriðum á sama hátt og í lögregluskýrslum, sem teknar voru af þeim. Sérstaklega aðspurður fyrir dómi um hversu langur tími hafi liðið frá því að ákærði kom að Eyrarvegi 5 þar til lögreglan kom á vettvang sagðist sá fyrrnefndi ekki vita það, en það hefði verið „kannski mínúta.“ Sá síðarnefndi sagði að það hafi liðið „ekki meira en 5 mínútur alla vega, þetta var mjög stutt.“
Auk þeirra, sem að framan er getið, komu fyrir dóm við meðferð málsins í héraði tveir lögreglumannanna, sem handtóku ákærða umrædda nótt. Þeir greindu frá aðdraganda handtökunnar og framkvæmd hennar á sama hátt og lýst var í áðurnefndri frumskýrslu lögreglunnar um málið. Þeim bar saman um að ákærði hefði verið talsvert ölvaður við handtöku, svo og að hvorugur þeirra hefði farið inn í íbúð móður ákærða. Annar lögreglumaðurinn taldi aðspurður að þeir hafi verið komnir að Eyrarvegi 5 um þremur til fimm mínútum eftir að lögreglunni var tilkynnt um akstur ákærða. Hinn lögreglumaðurinn taldi að þetta hafi tekið þá um tvær til þrjár mínútur, en ákærði hafi verið kominn þangað um hálfri eða einni mínútu á undan þeim.
Af hálfu ákæruvalds var við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði lögð fram álitsgerð lyfjafræðistofnunar 25. september 2000, sem aflað var í tilefni af þeirri frásögn ákærða að hann hafi fyrst byrjað að neyta áfengis umrætt sinn eftir að akstri hans lauk. Í álitsgerðinni sagði meðal annars: „Miðað við hlutfall etanóls í blóði og þvagi og hið mikla áfengismagn í blóði ... eru yfirgnæfandi líkur á að etanólmagn í blóði viðkomandi ökumanns hafi verið umtalsvert kl. 04.42 þennan sama dag.“ Eftir uppkvaðningu héraðsdóms aflaði ríkissaksóknari ítarlegri álitsgerðar lyfjafræðistofnunar 9. janúar 2001, sem lögð var fyrir Hæstarétt. Í henni segir meðal annars: „Blóð- og þvagsýni voru tekin um eða innan við 30 mín. frá því að fyrst var tilkynnt til lögreglu um grunsamlegan akstur ákærða og meirihluta þess tíma var hann í vörslu lögreglu. Að það mikla magn áfengis sem mældist í blóði og þvagi ákærða sé til komið vegna áfengisneyslu hans á þeim stutta tíma sem leið frá tilkynningu um grunsamlegan akstur til handtöku og að það hafi náð að frásogast frá meltingarfærum, berast út í blóðið og skiljast út í þvagi á þeim stutta tíma sem um var að ræða, er fræðilega því sem næst útilokað. Eðli málsins samkvæmt er nánast aldrei hægt að fullyrða 100% í svona máli en í þessu tilviki er fullyrðingin eins örugg og svona fullyrðing getur orðið af okkar hálfu. Okkar niðurstaða er því sú að það sé nánast hafið yfir allan vafa að etanólmagn í blóði ákærða hafi verið umtalsvert á þeim tíma sem tilkynnt var um grunsamlegan akstur hans.“
II.
Í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms er vísað til þess að „nokkur stund“ hafi liðið frá því að ákærði lauk akstri og þar til hann var handtekinn. Aksturslag hans og mikið áfengismagn í blóði og þvagi leiði verulegar líkur að því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Hann hafi þó skýrt frá því fyrir dómi að hann hafi haft að vana að svolgra í sig miklu magni af víni í einu þegar hann byrji að drekka. Þetta hafi móðir hans staðfest fyrir dómi. Þegar þetta væri virt ásamt því að álitsgerð lyfjafræðistofnunar 25. september 2000 væri ekki fortakslaus taldi héraðsdómari að ekki yrði „talin fram komin fyllilega lögfull sönnun fyrir sekt ákærða.“ Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvalds.
Eins og áður segir báru lögreglumenn, sem handtóku ákærða umrætt sinn, að þeir hafi verið komnir á vettvang að Eyrarvegi 5 innan tveggja til fimm mínútna eftir að tilkynning barst um akstur hans. Var þá enn skemmri tími liðinn frá því að ákærði kom þangað sjálfur. Þessi framburður er í öllum atriðum, sem máli skipta, í samræmi við frásögn piltsins, sem tilkynnti um aksturinn, og farþega, sem var í bifreið með honum. Þótt lítils háttar munur sé á skyni vitnanna á því hversu mínúturnar, sem hér um ræðir, hafi nákvæmlega verið margar, getur það engu breytt um að hafið er yfir allan vafa að ákærði kom að Eyrarvegi 5 í allra mesta lagi fimm mínútum á undan lögreglunni. Er fjarstæðukennt að ákærði gæti á þeim tíma hafa náð í áfengi, sem hann kvaðst hafa átt þar á staðnum, og neytt síðan svo mikils af því að vínandamagn í blóði hans innan hálfrar klukkustundar hafi reynst vera 2,54. Um þetta gat orðalag í álitsgerð lyfjafræðistofnunar 25. september 2000 með engu skynsamlegu móti valdið vafa, en öll hugsanleg tvímæli um það efni hafa nú verið af tekin með nýrri álitsgerð sömu stofnunar 9. janúar 2001, sem hér áður var rakin. Þegar alls þessa er gætt eru slíkar líkur á að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðrum sönnunargögnum sé rangt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til ákvæðis 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður lagt fyrir héraðsdóm að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella síðan efnisdóm á málið.
Vegna þessara úrslita málsins verður ekki komist hjá að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða eins og nánar greinir í dómsorði, en verjandi hans í héraði, sem jafnframt var skipaður til þess starfa fyrir Hæstarétti, lést eftir að hafa skilað greinargerð í málinu og tók þá annar við málsvörn hér fyrir dómi.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur. Lagt er fyrir héraðsdómara að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram á ný og fella að því búnu efnisdóm á málið á nýjan leik.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Steinþórs Bjarka Stefánssonar, í héraði og fyrst í stað fyrir Hæstarétti, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, samtals 80.000 krónur, og 60.000 krónur til Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, sem flutti málið munnlega fyrir Hæstarétti sem skipaður verjandi ákærða.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. nóvember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. október s.l., hefur sýslumaðurinn á Akureyri höfðað hér fyrir dómi með ákæru útgefinni 21. ágúst 2000, á hendur Steinþóri Bjarka Stefánssyni, kt. 220545-4829, Skarðshlíð 15 J, Akureyri, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 3. júní 2000, ekið bifreiðinni MO-687, undir áhrifum áfengis, frá Skarðshlíð 15 á Akureyri og að Eyrarvegi 5, Akureyri.
Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44, 1993.“
Málsatvik eru þau að kl. 04:42 laugardaginn 3. júní 2000 tilkynnti piltur lögreglunni á Akureyri um hugsanlegan ölvunarakstur bifreiðarinnar MO-687 austur Undirhlíð. Fylgdist pilturinn með akstri bifreiðarinnar og vísaði lögreglu á hana er hún kom á vettvang við hús nr. 5A í Eyrarvegi. Lögreglumenn kvöddu dyra á húsinu og kom ákærði til dyra og var hann færður á lögreglustöðina þar sem tekin var af honum skýrsla og úr honum tekið blóðsýni. Við rannsókn á blóðsýninu reyndist það innihalda 2,54 alkóhóls. Jafnframt var tekið þvagsýni úr ákærða sem reyndist innihalda 3,01 alkóhóls. Við rannsókn lögreglu á vettvangi reyndist ákærði hafa ekið á tvö umferðarmerki á akstursleið sinni í umrætt sinn.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Hér fyrir dómi hefur ákærði alfarið neitað að hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Kveðst hann hafa verið ósofinn og illa fyrir kallaður, m.a. vegna lyfjaneyslu, er hann ók umrædda leið sem í ákæru greinir. Kveðst hann hafa farið úr bílnum inn í húsið að Eyrarvegi 5 sem sé íbúð móður hans. Þar hafi hann átt áfengi og sturtað í sig meiri hlutanum úr flösku í einu. Er hann hafði drukkið þetta áfengi hafi lögreglan bankað upp á hjá honum og farið með hann á lögreglustöðina svo sem að framan greinir.
Móðir ákærða gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði hún svo frá að umrædda nótt hefði hún komið að ákærða þar sem hann svolgraði í sig áfengi skömmu áður en lögreglan kom á heimilið og tók hann.
Piltar þeir er gerðu lögreglunni aðvart um akstur ákærða voru þeir Hólmgeir Helgi Hallgrímsson og Guðjón Freyr Ragnarsson. Þeir gáfu skýrslur hér fyrir dómi og kváðust þeir hafa fylgst með aksturslagi ákærða greint sinn en það hafi verið mjög skrykkjótt, m.a. hafi hann ekið á umferðarmerki.
Lögreglumennirnir Geir Baldursson og Einar Viðarsson gáfu skýrslur fyrir dóminum og báru að ákærði hefði greinilega verið undir áfengisáhrifum er hann var handtekinn. Þeir kváðust ekki hafa kannað hvort áfengi væri til staðar í íbúðinni að Eyrarvegi 5 A er þeir handtóku ákærða, en töldu hann hafa verið nýkominn inn í húsið er þeir komu að.
Aflað hefur verið vottorðs Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra á lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, en þar segir: „Blóð- og þvagsýni nr. 042-2000-00049 voru mæld á rannsóknarstofu í lyfjafræði 14. júní 2000 undir rannsóknarnúmerunum 64727 og Þ-2484. Etanolþéttni mældist 2,54 í blóði en 3,01 í þvagi (endanlegar niðurstöður). Miðað við hlutfall etanols í blóði og þvagi og hið mikla áfengismagn í blóði (blóðsýni tekið kl. 05:10) eru yfirgnæfandi líkur á að etanolmagn í blóði viðkomandi ökumanns hafi verið umtalsvert kl. 04:42 þennan sama dag.“
Eins og að framan er rakið leið nokkur stund frá því að akstri ákærða lauk og þar til lögreglan handtók hann. Aksturslag ákærða svo og hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi hans leiða verulegum líkum að því að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn.
Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi haft þann vana við drykkju að svolgra í sig miklu magni af alkóhóli í einu er hann byrjaði drykkjuna. Þennan framburð hefur móðir ákærða staðfest fyrir dóminum.
Þegar framangreint er virt svo og að álit Kristínar Magnúsdóttur deildarstjóra, sem að framan er rakið, er eigi fortakslaust, verður ekki talin fram komin fyllilega lögfull sönnun fyrir sekt ákærða. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Rétt er að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns, kr. 50.000,-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Steinþór Bjarki Stefánsson, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þesu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. málvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Ólafs B. Árnasonar hrl., kr. 50.000,-.