Hæstiréttur íslands
Mál nr. 44/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 20. febrúar 2001. |
|
Nr. 44/2001. |
Sóley Víglundsdóttir (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
S kærði þann úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra að hafna kröfu hennar um að vísa frá dómi beiðni F um dómkvaðningu matsmanna. Þegar F fór fram á að matsmenn yrðu dómkvaddir hafði dómur gengið í málinu í héraði og tveimur vikum síðar áfrýjaði F málinu til Hæstaréttar. Taldi S að ekki væri unnt að óska eftir dómkvaðningu matsmanna eftir að gagnaöflun hefði verið lýst lokið, auk þess sem hún gerði efnislegar athugasemdir við matsbeiðnina. Talið var að eins og málið væri vaxið væri F heimilt að leita dómkvaðningar matsmanna, enda bæri hann alla áhættu af sönnunargildi matsgerðarinnar og kostnað af öflun hennar. Voru ennfremur ekki talin efni til að fallast á kröfu S um að synjað yrði dómkvaðningu að því er varðaði tiltekna liði í matsbeiðninni. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. febrúar sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. janúar 2001, þar sem hafnað var þeirri kröfu sóknaraðila að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili þess að synjað verði beiðni varnaraðila um dómkvaðningu tveggja matsmanna en til vara að synjað verði um dómkvaðningu manna til þess að meta atriði, sem tilgreind eru í 1. og 2. lið matsbeiðni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
I.
Sóknaraðili rak mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra gegn varnaraðila og tilteknum lækni og krafðist skaðabóta vegna líkamstjóns, sem hún taldi sig hafa orðið fyrir. Reisti hún málatilbúnað sinn á því að hinum stefnda lækni og læknum í starfi hjá varnaraðila hefðu orðið á saknæm mistök við læknismeðferð á henni. Undir rekstri þess máls var ekki aflað matsgerðar dómkvadds manns, en örorkunefnd mat varanlegar afleiðingar líkamstjóns sóknaraðila. Dómur gekk í málinu 23. október 2000 og var varnaraðili þá dæmdur til að greiða sóknaraðila skaðabætur að nánar tilgreindri fjárhæð ásamt vöxtum og málskostnaði. Hinn stefndi læknir var sýknaður af kröfum sóknaraðila. Varnaraðili áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2001. Hafði hann þá lagt fram matsbeiðni í Héraðsdómi Norðurlands eystra 27. desember 2000 þar sem hann óskaði mats á þeim atriðum, er nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Andmæli sóknaraðila við beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna voru lögð fram 12. janúar 2001. Þar segir að mótmælt sé dómkvaðningu matsmanna „og þess krafist að matsbeiðni sóknaraðila verði vísað frá dómi og dómkvaðningu matsmanna hafnað“. Gerir sóknaraðili nánari grein fyrir því á hvaða grundvelli hún andmæli matsbeiðni. Bendir hún einkum á að ekki sé unnt að óska eftir dómkvaðningu matsmanna eftir að gagnaöflun hafi verið lýst lokið auk þess sem hún gerir efnislegar athugasemdir við matsbeiðnina.
Í hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á þær röksemdir varnaraðila að í lögum nr. 91/1991 séu ekki sérstakar hömlur lagðar við því að dómkvaddir verði matsmenn til að leggja mat á þau atriði er greinir í matsbeiðni, enda sé ekki svo ástatt, sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laganna. Segir í úrskurðinum að eins og málið liggi fyrir beri matsbeiðandi alla áhættu af sönnunargildi matsgerðarinnar, svo og kostnað af öflun hennar. Sé því kröfu matsþola um að matsbeiðni verði vísað frá dómi hafnað.
II.
Skýra verður andmæli sóknaraðila við matsbeiðni svo að hún hafi bæði gert kröfu um að henni verði vísað frá dómi og að henni yrði hafnað. Af forsendum hins kærða úrskurðar verður ráðið að hafnað sé kröfu sóknaraðila um að vísa matsbeiðni frá dómi og að kröfu um að synjað verði um dómkvaðningu sé einnig hafnað. Með þessum athugasemdum verður fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Af sömu ástæðum eru ekki efni til að fallast á varakröfu sóknaraðila hér fyrir dómi um að synjað verði dómkvaðningu matsmanna til að meta það, sem greinir í 1. og 2. lið matsbeiðni. Í þeim liðum er annars vegar óskað mats á því hvort gerð hafi verið mistök við læknismeðferð vegna utanlegsfósturs sóknaraðila sumarið 1994 og hins vegar, sé svar við framangreindri spurningu jákvætt, að gerð verði ítarleg grein fyrir því í hverju mistökin hafi falist.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. janúar 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. þ.m., er tilkomið vegna kröfu Árna Pálssonar hrl. ódagsettri en móttekinni 27. f.m., þar sem hann fer þess á leit fyrir hönd Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta læknismeðferð sem Sóley Víglundsdóttir hlaut sumarið 1994 á sjúkrahúsi matsbeiðanda og þá eftir atvikum hvort læknismeðferðin hafi haft í för með sér varanlegan miska og örorku fyrir matsþola samkvæmt 4. 5. og 8. gr. laga nr. 50, 1993.
Davíð B. Gíslason hdl. krefst þess fyrir hönd matsþola Sóleyjar Víglundsóttur að beiðni sóknaraðilja verði vísað frá dómi og dómkvaðningu matsmanna hafnað.
Í matsbeiðninni eru raktir málavextir sem eru í stuttu máli þeir, að matsþoli var lögð inn á kvennadeild matsbeiðanda 11. júní 1994 vegna gruns um fósturlát. Er síðan í matsbeiðninni lýst samskiptum matsþola við matsbeiðanda sem hafði í för með sér að þann 26. júlí s.á. var hægri eggjaleiðari hennar fjarlægður. Hafi matsþoli óskað eftir mati örorkunefndar og varanlegum miska og örorku. Hafi nefndin talið hann vera 25%. Ekki verði séð að nefndin hafi í mati sínu tekið afstöðu til þess hvaða hluta örorku og miska væri hægt að rekja til hugsanlegra mistaka við læknismeðferð matsþola. Hafi matsbeiðanda verið dæmt áfall og hann áfrýjað dóminum til Hæstaréttar og sé á því byggt af hans hálfu að þó svo að aðgerð hafi verið gerð á matsþola þegar eftir að niðurstaða vefjarannsókna lá fyrir 20. júní 1994 þá hefði hægri eggjaleiðarinn verið tekinn strax og því hefðu líkamlegar afleiðingar orðið þær sömu.
Þess er óskað að matsmenn láti í té rökstutt álit um hvort gerð hafi verið mistök við læknismeðferð vegna utanlegsfósturs matsþola sumarið 1994 og verði talið að mistök hafi átt sér stað verði ítarlega gert grein fyrir í hverju mistökin fólust og einnig fyrir afleiðingum mistakanna á líkamlega og andlega heilsu matsþola.
Sérstaklega er óskað eftir að fram komi hvort sá dráttur sem orðið hafi á aðgerð hafi leitt til þess að nema varð burt hægri eggjaleiðarann og þá hvort möguleikar til frekari barneigna matsþola hafi versnað verulega vegna hugsanlegra mistaka starfsmanna matsbeiðanda. Aðgerð hafi verið gerð á matsþola 5. nóvember 1995 og sé óskað eftir að metið verði hvort að hún hafi haft í för með sér varanlegar líkamlegar afleiðingar fyrir matsþola.
Verði það niðurstaðan að mistök starfsmanna matsbeiðanda hafi haft í för með sér varanlegan miska og örorku fyrir matsþola er þess óskað að það verði metið samkvæmt 4. 5. og 8. gr. laga nr. 50, 1993.
Matsbeiðandi byggir kröfu sína á því að með dómkvaðningu matsmanna hyggist hann staðreyna þær málsástæður sem hafðar hafi verið uppi í héraði, en ekki sé verið að afla nýrra gagna. Sé það síðan undir Hæstarétti komið hvort tekið verði tillit til matsgerðarinnar við úrlausn málsins.
Í lögum nr. 91, 1991 séu ekki sérstakar hömlur lagðar við því að dómkvaddir verði matsmenn til að leggja mat á tiltekin atriði. Þá sé sönnunarfærsla frjáls svo lengi sem hún brjóti ekki í bága við 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91, 1991. Af sönnunargildi matsgerðarinnar verði matsbeiðandi að bera áhættu, samhliða kostnaði af öflun hennar og sé því matsgerð og matsbeiðni þessi matsþola útlátalaus.
Matsþoli telur að matsbeiðandi hafi firrt sig frekari rétti til sönnunarfærslu þar sem hann hafi lýst gagnaöflun lokið þann 13. júní s.l. er málið var til umfjöllunar í héraði og í héraðsdómsmálinu hafi gengið dómur um þau ágreiningsefni sem matsbeiðandi óski nú mats á. Matsbeiðni matsbeiðanda sé því brot á reglum um meðferð einkamála og matsbeiðanda ekki tækt að afla frekari sönnunargagna eftir að gagnaöflun hafi verið lýst lokið nema með sérstöku samþykki matsþola. Þá sé matsmönnum samkvæmt matsbeiðninni ætlað að leggja mat á héraðsdóminn, sem m.a. hafi verið skipaður sérfróðum meðdómanda.
Álit dómsins:
Fallast verður á þær málsástæður matsbeiðanda, sem að framan eru raktar, þ.e.a.s. að í lögum nr. 91, 1991 eru ekki sérstakar hömlur lagðar við því, að dómkvaddir verði matsmenn til að leggja mat á áðurgreind atriði, enda er ekki svo ástatt sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91, 1991.
Eins og málið liggur fyrir ber matsbeiðandi alla áhættu af sönnunargildi matsgerðarinnar, svo og kostnað af öflun hennar og er því kröfu matsþola, um að matsbeiðninni verði vísað frá dómi, hafnað.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu matsþola, Sóleyjar Víglundsdóttur, þess efnis, að kröfu matsbeiðanda, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, um dómkvaðningu matsmanna, verði vísað frá dómi.