Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetning
- Fjármögnunarleiga
|
|
Fimmtudaginn 20. ágúst 2015. |
|
Nr. 481/2015.
|
Bergur Sandholt (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Bjarni Lárusson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Innsetning. Fjármögnunarleiga.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L um að tiltekin bifreið yrði tekin úr vörslum B og fengin honum með beinni aðfarargerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bifreiðin TY 423 af gerðinni Dodge Magnum yrði tekin úr vörslum sóknaraðila og fengin sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram viðurkenndi sóknaraðili í greinargerð sinni í héraði að hann skuldaði varnaraðila 3.214.290 krónur vegna þess kaupleigusamnings sem mál þetta snýst um. Miðaðist sú skuldastaða við 13. apríl 2015 og hafði þá ekki verið greitt af samningnum í tæp fimm ár. Vegna þessara verulegu vanskila af hálfu sóknaraðila var varnaraðila heimilt að rifta samningnum samkvæmt 1. tölulið 15. gr. hans og krefjast þess að fyrrgreind bifreið yrði afhent sér á grundvelli 16. gr. hans. Þegar af þessari ástæðu er óþarft að taka afstöðu til þess hvort útreikningur varnaraðila á skuld sóknaraðila fái staðist, svo og til þeirra málsástæðna þess síðarnefnda að sá fyrrnefndi hafi ekki farið eftir ákvæðum til bráðabirgða XI. og XV. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010, í skiptum sínum við sóknaraðila og aðra þá sem aðild áttu að samningnum. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Bergur Sandholt, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með beiðni móttekinni 5. nóvember 2014 og var þingfest 23. mars sl. Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Varnaraðili er Bergur Sandholt, Leiðhömrum 12, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst í málinu dómsúrskurðar um að bifreiðin TY423-Dodge Magnum árgerð 2005 verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tillit til virðisaukaskatts.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 5. júní sl.
I
Málavextir
Með yfirlýsingu 17. ágúst 2009 tók varnaraðili yfir réttindi og skyldur samkvæmt kaupleigusamningi sem upphaflegur leigutaki, Bendingar ehf., gerði sem leigutaki, og Avant hf., sem leigusali, 7. desember 2007 um bifreiðina PG-642 FORD F250. Þá hafði varnaraðili um leið gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna efnda samningsins. Staða samningsins við yfirtöku varnaraðila á skuldbindingum hans á þeim tíma var sögð nema 7.875.620 krónum. Þá gekkst Eyþór Berg Elmarsson á sama tíma í sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum samningsins.
Upphaflegi samningurinn er í fjórum greinum auk þess sem vísað er til almennra samningsskilmála á bakhlið samningsins, sem alls telja 22 greinar, þar sem m.a. er kveðið á um leigutíma, leigugreiðslur, vanskil, riftun og afhendingu. Samningurinn ber með sér að um staðlað samningsform er að ræða þar sem efni fyrstu fjögurra greinanna er fyllt út, eftir því sem við á, en aðrar greinar hans eru staðlaðar.
Í upphafi samningsins er varnaraðili tilgreindur sem leigutaki og Avant hf. sem leigusali. Það er ítrekað í upphafi hinna almennu samningsskilmála. Í 1. gr. samningsins er hinu leigða lýst en um er að ræða bifreið af gerðinni PG-642 FORD F250. Í 2. gr. er kaupverð hennar tilgreint 4.290.000 krónur, innborgun 540.000 krónur, stofngjald 96.410 krónur og umsýslugjald 10.000 krónur. Samningsfjárhæðin er 3.856.410 krónur. Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi fjöldi gjalddaga vera 84, sá fyrsti 5. janúar 2008 og samningstími frá 7. desember 2007 til 5. desember 2014. Í 3. gr. samningsins kemur fram að mánaðarleg leiga með virðisaukaskatti skuli vera 54.682 krónur að meðaltali yfir lánstímann. Um vexti sagði í sömu grein að þeir skyldu vera óverðtryggðir vextir bílasamninga samkvæmt ákvörðun Avant hf. á hverjum tíma. Vextir miðist við myntkörfuna AV3 sem sé samsett úr JPY 50% og CHF 50% og að endanleg fjárhæð á myntkörfum ráðist af útgreiðsludegi samnings. Kaupleigusamningur þessi bar númerið 105513. Við undirritun samningsins og samkvæmt 4. gr. hans gerðist varnaraðili sjálfskuldarábyrgðaraðili á samningnum. Samkvæmt greiðsluáætlun sem samningnum fylgdi skyldu heildargreiðslur nema 4.593.334 krónum.
Gerðar voru skilmálabreytingar á samningum 23. febrúar 2008, 3. desember 2008 og 21. janúar 2010 og 26. janúar 2010 varðandi greiðslutilhögun. Með skilmálabreytingu 2. júlí 2010 var gerð breyting á leigumun sem þá varð bifreiðin TY-423 Dodge Magnum í stað PG-642 Ford F250 sem samningurinn hafði upphaflega tekið til.
Með yfirlýsingu 23. febrúar 2009 tók félagið Flökt ehf., sem mun vera félag með sömu kennitölu og upphaflegur leigutaki, Bendingar ehf. en breyttu nafni, yfir réttindi og skyldur samkvæmt samningnum.
Sóknaraðili endurreiknaði samninginn 8. júlí 2014. Við endurútreikning komu samtals 2.084.479 krónur til lækkunar á fjárhæð hans, sem þá nam 11.890.923 krónum, og varð ný staða hans, eða leiðréttar eftirstöðvar, 9.806.444 krónur. Hvað varnaraðila varðar, sem hafði yfirtekið samninginn með yfirlýsingu 17. ágúst 2009, var útreikningur leiðréttur frá þeim tíma til 5. júlí 2010. Á því tímabili var upphafleg lánsfjárhæð sögð vera 7.875.620 krónur, afborgarnir, vanskil og önnur gjöld 348.314 krónur og eftirstöðvar 5. júní 2010 7.527.306 krónur. Leiðrétting átti sér einnig stað fyrir tímabilið frá 5. júní 2010 til 8. júlí 2014 og við lok þess námu eftirstöðvar höfuðstóls 9.800.931 krónu, áfallnir ógreiddir vextir voru 5.513 krónur og leiðréttar eftirstöðvar 9.806.444 krónur.
Varnaraðila var sent bréf 23. september 2014 sem ber yfirskriftina „riftun samnings og greiðsluáskorun og áskorun um upplýsingar um greiðslu kröfunnar, sbr. 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991“. Kom þar fram að skuld vegna kaupleigusamnings um leigumuninn TY-423-Dodge Magnum árg. 2005 væri í vanskilum frá 5. ágúst 2014. Var höfuðstóll að fjárhæð 9.800.931 króna gjaldfelldur. Heildarfjárhæð var þar sögð nema 10.331.698 krónum auk áfallandi dráttarvaxta til greiðsludags og annars áfallandi kostnaðar. Var samningnum rift vegna verulegra vanefnda og krafist umráða yfir leigumuninum. Jafnframt var skorað á varnaraðila að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar, að frádregnu andvirði leigumunarins hafi honum verið skilað. Yrðu vanskilin greidd eða um þau samið innan tíu daga yrði fallið frá riftuninni en að öðrum kosti yrði leitað atbeina dómstóla og sýslumanns við að ná umráðunum. Þá var einnig skorað á varnaraðila að lýsa því yfir skriflega hvort og þá hvenær, innan skamms tíma, hann gæti greitt skuldina. Bærust slíkar upplýsingar ekki innan þriggja vikna frá birtingu áskorunarinnar gæti varnaraðili átt von á því að krafist yrði gjaldþrotaskipta á búi hans án frekari fyrirvara, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með beiðni sóknaraðila til dómsins 24. október 2014 fylgdi yfirlit um stöðu málsins. Ber bréfið yfirskriftina „staða innheimtumáls“ og staðan þar tilgreind sem „innsetningarbeiðni“. Skuldin er þar sögð nema að höfuðstól 9.800.931 krónu en að heildarfjárhæð 10.495.580 krónum með áföllnum vöxtum, dráttarvöxtum og ýmsum kostnaði.
Varnaraðili hefur ekki greitt leigugreiðslur vegna bifreiðarinnar eftir útreikninginn eða frá 5. ágúst 2014.
Sóknaraðili tók í janúar 2011 yfir réttindi og skyldur upphaflega leigusala, Avant hf. við samruna hans og SP Fjármögnunar hf. við sóknaraðila sbr. auglýsingu Fjármálaeftirlitsins 14. júní 2011.
Upphaflegur leigutaki, Bendingar ehf. sem síðar fékk nafnið Flökt ehf., mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 30. janúar 2009 og mun skiptum ekki vera lokið í búinu.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann sé réttmætur eigandi bifreiðarinnar Dodge Magnum árgerð 2005 með fastanúmerið TY-423 samkvæmt ákvæðum samnings aðila og skráningu í ökutækjaskrá. Varnaraðili hafi vanefnt samning aðila og ekki fallist á að afhenda hið leigða þrátt fyrir áskoranir þar um og þrátt fyrir vangoldnar leigugreiðslur. Enginn vafi sé um tilkall sóknaraðila til bifreiðarinnar og krefst hann þess að fá umráð hennar með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989. Krafa sóknaraðila sé réttmæt og einnig fjárhæðin að baki henni.
Málið kveður sóknaraðili varða kaupleigusamning sem upphaflega hafi verið gerður milli félagsins Bendinga ehf. og Avant hf. um umrædda bifreið. Félagið Bendingar ehf. hafi verið í eigu varnaraðila og Eyþórs Bergs Elmarssonar. Það hafi síðar fengið nafnið Flökt ehf. en verið rekið á sömu kennitölu. Varnaraðili hafi tekið samninginn yfir með yfirlýsingu 17. ágúst 2009. Andvirði samningsins og staða hans hafi þá verið að fjárhæð samtals 7.875.620 krónur. Sóknaraðili hafi þann 8. júlí 2014 leiðrétt endurútreikning samningsins þann tíma sem varnaraðili hafi verið greiðandi hans í samræmi við b-lið 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Staðan fyrir leiðréttingu hafi numið 11.890.923 krónum og eftir leiðréttingu 9.806.444 krónum. Elsti gjalddagi í vanskilum sé nú eftir endurútreikning 5. ágúst 2014. Í raun liggi þó fyrir að ekkert hafi verið greitt af samningum síðan á árinu 2010.
Sóknaraðili kveðst byggja réttmæti riftunar sinnar á ákvæðum 15. gr. í skilmálum samningsins. Varnaraðili hafi vanefnt verulega greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum. Eitt af skilyrðum riftunar samkvæmt áðurnefndu ákvæði samningsins séu vanskil afborgana. Sóknaraðili telur varnaraðila bundinn við öll ákvæði upphaflega samningsins með vísan til samningsviðaukans um yfirtöku önnur en ákvæði um gengisbindingu sem Hæstiréttur hefur með afgerandi hætti dæmt ólögmæta eins og alkunna sé og sóknaraðili byggi á því að hann hafi í hvívetna farið að dómafordæmum Hæstaréttar við endurútreikning samningsins. Sóknaraðili hafni því að til staðar sé einhvers konar skuldajöfnunarréttur varnaraðila við sóknaraðila vegna hugsanlegrar inneignar hans vegna þrotabús Bendinga ehf. eða Flökts ehf. og kveðst um uppgjör vísa til b-liðar 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.
Sóknaraðili kveðst alfarið hafna þeirri málsástæðu varnaraðila að riftun hafi verið ólögmæt og að varnaraðili hafi beitt lögmætum greiðsludrætti. Varnaraðili hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að endurútreikningur sóknaraðila hafi verið rangur. Eigi það líka við um útreikning á eftirstöðvum samningsins við yfirtöku varnaraðila sem hann hafi mótmælt en ekki heldur á nokkurn hátt sýnt fram á að hafi hann verið rangur. Þá skipti það í raun ekki máli vegna þess að varnaraðili hafi átt þess kost að kynna sér hvernig yfirtökutalan hafi verið fundin er hann tók samninginn yfir. Sóknaraðili telji fjárhæðina rétta auk þess sem líta verði svo á að varnaraðili hafi samþykkt hana.
Þá kveðst sóknaraðili benda á að boð varnaraðila um greiðslu hafi ávallt verið undir þeim formerkjum að málinu væri þannig lokið. Það hafi sóknaraðili ekki getað fallist á og ekki talið endurútreikning varnaraðila eiga við rök að styðjast. Ekki hafi verið sýnt fram á að neitað hafi verið að taka við greiðslu af hálfu sóknaraðila. Því sé ekki um neinn viðtökudrátt af hans hálfu að ræða.
Sóknaraðili kveðst hafna öllum sjónarmiðum varnaraðila um að samningur aðila eigi að vera ógildur vegna 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ekki getið verið ólögmætt eða ósanngjarnt að halda samningi upp á aðila sem skrifað hafi undir hann af fúsum og frjálsum vilja og tekið upplýsta ákvörðun um að gangast undir þær skuldbindingar sem í honum felist. Varnaraðili hafi vissuleg haft þekkingu á fjármálum enda hafi hann rekið fyrirtæki sem var upphaflega leigutaki samkvæmt samningnum. Einstaklingar bera líka ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera og geta ekki borið fyrir sig aðstöðumun vegna sérþekkingar fjármálastofnunar sem eðli málsins sé ávallt fyrir hendi. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að aðstæður við samningsgerðina hafi verið með þeim hætti að beita beri áðurnefndri lagagrein um samning aðila.
Þá kveðst sóknaraðili hafna því að vanhöld á tilkynningum til ábyrgðarmanna um endurútreikning skipti nokkru máli. Ljóst sé að varnaraðili var sjálfskuldaábyrgðaraðili að láninu áður en hann gerðist aðalskuldari þessi og var eigandi þess fyrirtækis ásamt Eyþóri Elmari Berg sem einnig hafi verið sjálfskuldarábyrgðaraðili að láninu. Það að tilkynningar hafi ekki verið sendar til ábyrgðarmanna geti ekki haft þýðingu í málinu auk þess sem slíkar tilkynningar hafi ekki verið af nokkurri fjármálastofnun svo að sóknaraðila sé kunnugt um.
Þá hafnar sóknaraðili því að ákvæði XV til bráðabirgða með lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, geti átt við um tilvik þetta þar sem ákvæðið varði uppgjör milli aðila í tilefni af því að lánveitandi hafi leyst til sín eign samkvæmt kaupleigusamningi. Á þetta ákvæði myndi því fyrst reyna þegar sóknaraðili hafi fengið umráð leigumunarins, verðmetið hann og framkvæmt uppgjör á grundvelli þess. Í þessu máli sé eingöngu verið að fjalla um umráðatöku sóknaraðila á grundvelli riftunar vegna vanefnda á samningi.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa með skuldskeytingu yfirtekið umræddan kaupleigusamning 17. ágúst 2009 og þá hafi samningurinn staðið í 7.875.620 krónum. Sóknaraðili líti svo á að við yfirtöku varnaraðila hafi fyrra samningssamband tekið enda. Ekki hafi þó orðið til nýtt lán eins og varnaraðili haldi fram. Samkvæmt útreikningum varnaraðila hafi staða samningsins numið 3.181.601 krónu. Sóknaraðili kveðst mótmæla útreikningi varnaraðila sem röngum enda hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti hans. Sóknaraðili hafi í hvívetna farið að lögum og dómafordæmum Hæstaréttar við endurútreikning samningsins gagnvart varnaraðila. Varnaraðili hafi með yfirtöku samningsins tekið yfir það lán sem að baki hans lá til fjármögnunar á umræddum bifreiðakaupum. Ekki sé rétt að líta svo á að um nýtt lán sé að ræða eins og varnaraðili virðist ganga út frá. Þá gæti misskilnings hjá varnaraðila þegar hann haldi því fram að við yfirtöku varnaraðila hafi farið fram uppgreiðsla á eldra láni sem feli í sér að farið hafi fram greiðsla á láninu. Staða lánsins við yfirtöku kemur fram sem innborgun í uppgjöri og því sé eingöngu um bókhaldsatriði að ræða.
Þá kveðst sóknaraðili hafna þeim sjónarmiðum varnaraðila að endurútreikningur þess hluta samningsins eða samningstímans sem snúi að upphaflegum leigutaka, Bendingum ehf. eða Flökts ehf., geti haft einhverja þýðingu í máli þessu enda sé uppgjör sóknaraðila við fyrri leigutaka málinu óviðkomandi. Þá verði að hafa í huga að yfirtaka varnaraðila hafi farið fram áður en ólögmæti gengistryggingarinnar var staðfest með dómum Hæstaréttar og var því rétt á þeim tíma. Því hafi þurft að leiðrétta bæði gagnvart fyrri skuldara, Flökti ehf., og varnaraðila og ráðstafa henni bæði til Flökts ehf. og varnaraðila. Það hafi verið gert í samræmi við ákvæði laga. Yfirtökufjárhæðin hafi verið eftirstöðvar lánsins auk gengismunur sem síðar reyndist ólögmætur og hafi samningurinn verið leiðréttur hvað það varðar.
Sóknaraðili kveður að samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 skuli við endurútreikning lána eða samninga, eins og um sé deilt í máli þessu, gert upp við hvern samningsaðila fyrir sig miðað við þau tímabil sem hann hafi verið skuldari að samningnum. Varnaraðili hafi yfirtekið öll réttindi og allar skyldur samkvæmt samningnum en eingöngu frá og með þeim tíma sem yfirtakan átti sér stað. Varnaraðili sé ekki að yfirtaka greiðsluskuldbindingar fyrri leigutaka frá upphafi. Sú aðferðarfræði fái ekki staðist og varnaraðili hafi ekki rökstutt það með neinum hætti hvers vegna beri að líta þannig á málin, enda sé það í andstöðu við fyrirmæli áðurnefnds ákvæðis laga nr. 38/2001. Það sem skipti máli er að varnaraðili hafi samþykkt að yfirtaka samning fyrri leigutaka sem þá hafi verið að eftirstöðvum 7.875.620 krónur og verða þar með greiðandi að láninu.
Um aðild sína vísar sóknaraðili til þess að hann hafi yfirtekið réttindi og skyldur upphaflegs leigusala við samruna í janúar 2011, sbr. auglýsingu Fjármáleftirlitsins frá 14. júní 2011 um samruna Avant hf. og SP Fjármögnunar hf. við sóknaraðila.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til laga um aðför nr. 90/1989, einkum 1. mgr. 78. gr. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Um varnarþing vísist til 3 töluliðar 42. gr. laga nr. 91/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og byggir þá kröfu sína á því að riftun hafi verið ólögmæt þar sem samningur aðila hafi ekki verið endurreiknaður og að skuldbinding varnaraðila um yfirtöku lánsins sé ógild og óskuldbindandi fyrir hann með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Því beri að víkja honum til hliðar. Varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga og því beri að hafna henni.
Varnaraðili byggir nánar tiltekið á því að sóknaraðili hafi ekki haft rétt til að rifta samningi aðila vegna þess að hann hafi ekki endurreiknað umrætt lán með þeim hætti sem dómar Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010 kveði á um. Samkvæmt nýjum útreikningi varnaraðila hafi staða lánsins við síðustu greiðslu, 5. júní 2010, verið að höfuðstól 2.388.566 krónur. Sé við það miðað af hálfu varnaraðila að fullnaðarkvittanir gildi, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 625/2014 þar sem fram komi að lántakar geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir og dóm réttarins í máli nr. 464/2012. Séu vextir reiknaðir samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 ofan á þá fjárhæð nemi þeir 825.724 krónum og skuld varnaraðila sé þá 3.214.290 krónur. Staða lánsins á yfirtökudegi hafi átt að nema þessari fjárhæð.
Ekki nægi að um vanefnd sé að ræða svo að riftun sé heimil, heldur verði vanefndin að vera veruleg. Miðað við þau gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu sóknaraðila hafi eftirstöðvar greiðslna samkvæmt samningi verið gjaldfelldar og samningi rift 23. september 2014. Virðist það gert á grundvelli þess að varnaraðili hafi verið í vanskilum frá 5. ágúst 2014. Riftunin sé að mati varnaraðila ólögmæt þar sem varnaraðili hafi haft rétt til að beita greiðsludrætti og haft til þess réttmætar ástæður þar sem sóknaraðili hafi ekki, og hefur ekki enn, endurreiknað lán hans í samræmi við dóma Hæstaréttar um gengislán. Sóknaraðili hafi með því virt að vettugi ákvæði samnings aðila um að varnaraðili tæki yfir réttindi og skyldur samkvæmt honum. Varnaraðili hafi ekki fengið neinar endurgreiðslur á grundvelli endurútreiknings og því einungis borið skyldur samkvæmt samningnum en engin réttindi.
Miðað við útreikninga sóknaraðila sem fylgt hafi beiðni hans til dómsins virðist hann gera ráð fyrir því að varnaraðili taki nýtt lán að fjárhæð 7.875.620 krónur. Staðreyndin sé sú að einungis hafi verið um skuldskeytingu að ræða þar sem varnaraðili hafi tekið yfir réttindi og skyldur fyrri skuldara, Flökts ehf., samkvæmt samningnum. Þegar yfirtakan fór fram hafi átt eftir að reikna út nýja löglega stöðu í samræmi við dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. Varnaraðili eigi eins og allir aðrir lántakar hjá sóknaraðila rétt á að fá endurútreikning á gengistryggðu láni. Það að fram komi að staða lánsins við yfirtöku sé 7.875.620 krónur á þeim degi geti ekki fyrirgert rétti hans til endurútreiknings, enda sé þetta staða ólöglegs láns.
Varnaraðili telur mistök hafa orðið hjá sóknaraðila við endurútreikninginn. Enginn nýr lánasamningur hafi verið gerður á milli aðila. Sóknaraðili byggi líklega á því að fyrri lántaki hafi fyrst greitt 35 greiðslur af láninu og hafi svo greitt inn á lánið rúmlega 7.800.000 krónur til viðbótar. Sóknaraðili hafi ranglega endurgreitt Flökti ehf. þá fjárhæð og ætli sér að fá hana tilbaka úr hendi varnaraðila. Slíkt sé bæði ósanngjarnt og óeðlilegt. Þá liggi fyrir í skjölum málsins að varnaraðili greiddi rúmlega 1.200.000 krónur á því tímabili sem Bending ehf. var aðalskuldari og Eyþór tæplega 1.200.000 krónur á sama tímabili. Illa hafi gengið að fá upplýsingar frá bankanum um hvað þeir greiddu síðan á þeim tíma sem Flökt ehf. var aðalskuldari en fyrir liggur að félagið yfirtók samninginn 23. febrúar 2009 og varnaraðili 17. ágúst 2009. Varnaraðili hafi nauðbeygður tekið yfir lánið vegna stöðu Flökts ehf. en það hafi orðið gjaldþrota 30. júní 2009. Varnaraðili var á þeim tíma í sjálfskuldarábyrgð að láninu og ljóst að það myndi hvort sem er falla á hann. Staðan sé því sú að varnaraðili sé sá sem varð fyrir tjóni vegna þess að á hann féll skuldbinding að fjárhæð 7.875.620 krónur fyrir bifreið sem var mun minna virði. Bankanum hafi láðst að taka tillit til þess hver greiddi afborganir af láninu og miða endurgreiðslu við það. Fyrir liggi að þrotabúið stóð ekki sjálft undir öllum greiðslum af láninu en í gögnum málsins séu kvittanir fyrir greiðslu Eyþórs Elmars Bergs til Avant hf. Kveðst varnaraðili vísa til 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 238/2013 um slíkt uppgjör vegna endurútreiknings þegar orðið hafi skuldaraskipti að láni. Í frumvarpi með þessu ákvæði vaxtalaganna komi fram að í þeim tilvikum sem kaupandi eignar hafi yfirtekið skuld með ólögmætum skilmálum um verðtryggingu og vexti er ljóst að fyrri skuldari getur hafa orðið fyrir tjóni sökum þess að lán varð hærri fjárhæðar en raun varð á. Gert verði upp við þann sem varð fyrir tjóni með því að greiðslutilhögun söluverðs hlutar tók mið af rangri lánsfjárhæð. Í 7. mgr. 18. gr. segi að þegar aðilaskipti hafi orðið að láni skuli hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins svo og rétt til leiðréttingar á höfuðstól vegna gengistryggingar. Þetta var ekki gert því að höfuðstóllinn sé með gengistrygginguna inni. Þá hafnar varnaraðili því að hann hafi á einhvern hátt samþykkt fjárhæðina við yfirtökuna.
Við munnlega flutning málsins byggði varnaraðili einnig á því að í ákvæði X til bráðabirgða í vaxtalögum komi fram að lánveitandi eigi að hafa frumkvæði að því að senda endurútreikning til ábyrgðarmanna en það hafi ekki verið gert. Því sé ekki hægt að halda því fram að varnaraðili hafi ekki komið á framfæri mótmælum eða athugasemdum. Vegna aðstæðna hafi varnaraðili haft rétt á að halda eftir eigin greiðslu. Hann hafi ekki áttað sig á því við undirskriftina að fjárhæðin var óréttmæt. Varnaraðili ítrekar að hann hafi með bréfi til sóknaraðila 25. maí 2011 boðið þá greiðslu sem hann hafi talið rétta miðað við sína útreikninga. Það hafi aldrei staðið á varnaraðila að standa við skuldbindingar sínar, heldur sóknaraðila að fara eftir skyldum sínum samkvæmt dómum Hæstaréttar um gengislán og endurreikna samninginn við varnaraðila.
Staða lánsins á yfirtökudegi hafi verið 3.181.791 króna samkvæmt þeim útreikningi sem varnaraðili byggi á. Frá þeim degi hafi varnaraðili greitt afborganir nr. 36-52. Staða lánsins við síðustu greiðslu hafi verið 2.388.566 krónur. Reiknaðir seðlabankavextir á þá fjárhæð nemi 825.724 krónum og skuld varnaraðila nemi þá 3.214.290 krónum. Þá fjárhæð sé varnaraðili tilbúinn að greiða og hafi ávallt verið. Sóknaraðli hafi á hinn bóginn ekki viljað taka við lögmætri greiðslu og því sé um viðtökudrátt að ræða af hans hálfu. Með tilkynningu í heimabanka varnaraðila 11. maí 2011 er staða lánsins sögð 8.008.257 krónur. Lögmaður varnaraðila hafi mótmælt endurútreikningnum 25. maí 2011 með þeim rökum að endurútreikningur hefði ekki verið í samræmi við dóma Hæstaréttar.
Í endurútreikningi sóknaraðila sem fylgt hafi með beiðni hans sé einungis miðað við átta greiðslur af láninu árin 2009 til 2014 samtals að fjárhæð 391.000 krónur en sóknaraðili hafi borgað mun meira eða 14 greiðslur frá varnaraðila samtals að fjárhæð um 1.200.000 krónur.
Þá byggir varnaraðili á því að hafna verði beiðni sóknaraðila á þeim grundvelli að yfirlýsing varnaraðila um yfirtöku sé ógild á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í yfirlýsingunni komi fram að varnaraðili taki yfir skuld að fjárhæð 7.875.620 krónur. Á þeim tíma hafi samningurinn verið um Ford F250 fastanúmer PG-642. Gerð hafi verið breyting á leigumun 2. júlí 2010 þar sem bifreiðin Dodge Magnum árg. fastanúmer TY-423, kom í stað hinnar fyrri. Samkvæmt auglýsingu frá því í júní 2005 hafi markaðsverðmæti Dodge Magnum verið tæpar 4.000.000 króna á þeim tíma. Sú skuld sem varnaraðili hafi tekið yfir á sínum tíma sé tvöföld sú fjárhæð eða tæpar 8.000.000 króna. Þetta geti ekki talist sanngjarnir viðskiptahættir og því beri að hafna aðfarargerðinni. Þá verði við sanngirnismatið að líta til þess að varnaraðili var eigandi Flökts ehf. og tók lánið nauðbeygður yfir vegna fjárhagslegrar stöðu fyrirtækisins. Hann hafi ekki áttað sig á því að yfirtökufjárhæðin var röng og ósanngjarnt sé að hann greiði varnaraðila tvöfalda eða þrefalda þá fjárhæð sem hann hafi þegar greitt. Bankinn hafi sem sérfróður aðili ríkar skyldur gagnvart varnaraðila sem leikmanni í viðskiptum. Með vísan til 45. gr. lausafjárkaupalaga eigi varnaraðili að greiða sanngjarnt verð. Þá sé yfirtökusamningurinn ruglingslegur og í raun ógildur af þeim sökum.
Þá verði í þessu sambandi að hafa til hliðsjónar ákvæði a-liðar XV til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 þar sem segi að fjárhæð eftirstöðva skuldbindinga skuldara skuli aldrei ákvarðast hærri en sem nemi mismun á eftirstöðvum skuldbindingar, að teknu tilliti til útreiknings samkvæmt 18. gr. sömu laga og því verði sem lánveitandi hefur sannanlega fengið við endursölu bifreiðarinnar.
Varnaraðili telur riftun sóknaraðila hafa verið ólögmæta og hald á eigin greiðslu hafi verið heimila af hálfu varnaraðila. Sóknaraðila hafi verið skylt að gera lagfæringar á fjárhæð lánsins eða bjóða lækkun því að varnaraðili hafi yfirtekið tvöfaldan höfuðstól lánsins sem geti ekki verið rétt. Varnaraðili telur að gagnvart honum hafi átt eftir að leiðrétta höfuðstólinn miðað við hina ólögmætu gengistryggingu samningsins. Það hafi verið gert gagnvart Flökti ehf. en ekki gagnvart varnaraðila. Því skiptir máli hver verður fyrir tjóninu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 238/2013 ber mönnum leiðrétting á skuld í samræmi við tjónið og þá skiptir máli hver borgaði. Ber að taka tillit til greiðslna varnaraðila við endurreikning og niðurfærslu höfuðstóls.
Í 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 komi fram að aðfararbeiðni skuli hafnað, verði talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er afla. Í dómaframkvæmd hafi þessi grein verið túlkuð þröngt og aðfararbeiðnum hafnað ef þau réttindi sem krafan er byggð á eru óljós. Telur varnaraðili ljóst að krafa sóknaraðila sé óljós og að verulegur vafi leiki á því hvort hann geti neytt þeirra réttinda sem hann krefst í aðfararbeiðni. Beiðninni beri því að hafna.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga um aðför nr. 90/1989, einkum 78. og 83. gr. þeirra. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að bifreiðin Dodge Magnum með fastanúmerið TY-423, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila, á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og fengin sóknaraðila. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er sóknaraðili eigandi bifreiðarinnar en varnaraðili er skráður umráðamaður hennar. Er þessi skráning í samræmi við ákvæði kaupleigusamnings Avant hf. sem leigusala og Bendinga ehf. sem leigutaka frá 7. desember 2007. Fyrir liggur að aðilaskipti hafa orðið að samningnum þannig að varnaraðili tók við réttindum og skyldum upphaflegs leigutaka og þá liggur jafnframt fyrir að sóknaraðili yfirtók í janúar 2011 réttindi og skyldur upphaflegs leigusala, Avant hf. við samruna þess félags og SP-fjármögnunar hf. við sóknaraðila 8. júní 2011.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um afhendingu bifreiðarinnar á því að hann sé eigandi hennar samkvæmt ökutækjaskrá og samkvæmt ákvæðum samnings aðila. Hann eigi því réttmætt tilkall til þess að fá bifreiðina afhenta sér með beinni aðfarargerð þar sem varnaraðili hafi ekki orðið við áskorunum um að afhenda hana. Ljóst sé að greiðslur samkvæmt samningi aðila séu í vanskilum og samningnum hafi því verið réttilega rift, á grundvelli 15. gr. samnings aðila, vegna vanefnda varnaraðila sem hafi vanefnt samningsbundin afnotaréttindi sín af bifreiðinni. Samningur aðila hafi verið endurreiknaður í samræmi við dóma Hæstaréttar á þessu sviði og í samræmi við fyrirmæli 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þegar skuldaraskipti hafa orðið að samningi um fjármögnun bifreiðakaupanna.
Varnaraðili hefur í máli þessu krafist þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað þar sem riftun sóknaraðila á samningi aðila hafi verið ólögmæt. Sóknaraðili hafi ekki endurreiknað lánið í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dóma Hæstaréttar í máli nr. 153/2010, þar sem fram komi að óheimilt sé að gengistryggja íslensk lán, og í máli nr. 471/2010, þar sem fram komi að ólögleg gengistrygging eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og dóma réttarins í málum nr. 625/2014 og 464/2014 um fullnaðarkvittanir. Þá hefur varnaraðili einnig byggt á því að samningur aðila um yfirtöku varnaraðila sé ógildur og beri að víkja honum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá byggir hann og á því að varnaraðili hafi ávallt boðið fram greiðslu í samræmi við þá útreikninga sem hann hafi talið rétta, strax árið 2011 og svo undir rekstri málsins nú. Þá byggir varnaraðili einnig á því að svo virðist sem sóknaraðili líti svo á að við yfirtöku varnaraðila hafi orðið til nýtt lán en hið rétta sé að einungis hafi orðið um skuldaraskipti að láninu að ræða. Við munnlegan flutning málsins féll varnaraðili frá málsástæðum um fyrningu og að undirbúningsaðgerðum sóknaraðila hafi verið áfátt.
Málatilbúnaður beggja aðila mætti að ósekju vera skýrari. Samkvæmt gögnum málsins liggur þó fyrir að sóknaraðili endurreiknaði samning aðila 8. júlí 2014. Staða samningsins fyrir leiðréttingu var 11.890.923 krónur og nam leiðréttingin 2.084.479 krónum. Staða samningsins eftir leiðréttingu var því 9.806.444 krónur. Eftir endurútreikninginn var varnaraðili krafinn um greiðslu en við því var ekki brugðist af hans hálfu. Eftirstöðvar samnings aðila voru því gjaldfelldar og samningi aðila rift 23. september 2014. Nam gjaldfelldur höfuðstóll 9.800.931 krónu en skuldin var þá að heildarfjárhæð 10.331.698 krónur.
Varnaraðili hefur í málinu dregið endurútreikninga sóknaraðila í efa og lagt fram útreikninga sem gera ráð fyrir því að staða samningsins eftir leiðréttingu sé 3.214.290 krónur. Málatilbúnað hans verður að skilja svo að hann telji riftun hafa verið ólögmæta af hálfu sóknaraðila þar sem eftirstöðvar samningsins hafi samkvæmt útreikningi sóknaraðila verið allt of háar. Hann hefur í sjálfu sér ekki mótmælt því að vera í skuld við sóknaraðila og þá hafi hann ávallt boðið greiðslur í samræmi við eigin útreikninga.
Ekki verður betur séð en að endurútreikningur sóknaraðila miðist við það tímamark er varnaraðili yfirtók umræddan samning 17. ágúst 2008 og hann njóti leiðréttingar í samræmi við 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Er því ekki hægt að fallast á að samningurinn hafi ekki verið leiðréttur gagnvart varnaraðila fyrir það tímabil sem hann var aðalskuldari samkvæmt ákvæðum samningsins. Þá verður ekki talið að nokkur áhöld séu um að við yfirtöku varnaraðila urðu skuldaraskipti að láninu og með því hafi varnaraðili tekið yfir réttindi og skyldur fyrri leigutaka. Ekki er unnt að líta svo á að orðið hafi til nýtt lán eins og varnaraðili hefur haldið fram. Í ljósi aðilaskiptanna fór fram uppgjör gagnvart varnaraðila í samræmi við skýr fyrirmæli 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um slík tilvik. Þá verður ráðið af gögnum málsins, þótt ekki hafi það verið reifað með mjög skýrum hætti af hálfu sóknaraðila, að á tímabilinu 17. ágúst 2009 til 5. júní 2010 er samningurinn endurreiknaður með tilliti til fullnaðarkvittana þeirra greiðslna er varnaraðili hafði sannarlega innt af hendi sem aðalskuldari á meðan lánið var ólögmætt gengistryggt lán og á tímabilinu 5. júní 2010 til 5. júlí 2014 er lánið leiðrétt á grundvelli lægstu óverðtryggðu vaxta Seðlabanka Íslands. Verður því að telja að endurútreikningur sóknaraðila hafi verið í samræmi við lög og dómafordæmi Hæstaréttar á þessu sviði og verður ekki talið að varnaraðili hafi hnekkt útreikningum sóknaraðila.
Varnaraðili hefur í málinu einnig haldið því fram að sóknaraðili hafi ekki tekið tillit til þeirra greiðslna sem varnaraðili innti af hendi fyrir fyrri leigutaka og skuldara, Bendingar ehf., síðar Flökt ehf., og vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 238/2013. Dómurinn telur að jafnvel þótt sýnt væri fram á framangreint gæti það ekki haft úrslitaáhrif um niðurstöðu máls þess sem lýtur að því að sóknaraðili fái umráð bifreiðar samkvæmt ákvæðum samnings milli aðila vegna vanskila varnaraðila. Auk þess verður ekki betur séð en þau gögn sem varnaraðili vísar til til marks um að hann hafi greitt fyrir fyrri leigutaka sé annars vegar hreyfingaryfirlit þar sem fyrri leigutaki greiðir umræddar afborganir og hreyfingaryfirlit þar sem varnaraðili greiðir afborganirnar en á þeim tíma sem hann er orðinn aðalskuldari samkvæmt yfirlýsingu um yfirtöku 17. ágúst 2009. Verður því ekki fundin nein stoð í gögnum málsins fyrir fullyrðingum varnaraðila um greiðslur hans í þágu fyrri leigutaka. Þá er honum ekki hald í gögnum sem varða greiðslur Eyþórs Elmars Bergs á afborgunum á þeim tíma er Bendingar ehf. og síðar Flökt ehf. var aðalskuldari.
Í máli þessu verður ekki skorið úr um tölulegan ágreining aðila eða tekin afstaða til eða leyst úr ágreiningi hvað varðar heildaruppgjör milli aðila. Telja verður nægilega í ljós leitt með gögnum málsins að varnaraðili sé í skuld við sóknaraðila og riftun sóknaraðila hafi því verið réttmæt og í samræmi við ákvæði samnings aðila. Þá verður ekki talið að atvik séu með þeim hætti að varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga. Bendir dómurinn á að atvik máls þessa eru ekki sambærileg við atvik sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2010 í máli nr. 663/2010 þar sem í því máli lá fyrir að um verulegar ofgreiðslur var að ræða af hálfu lántaka eða leigutaka til leigusala. Þá getur endurútreikningur gagnvart fyrri leigutaka ekki haft nokkra þýðingu við úrlausn málsins. Þá verður heldur ekki séð að brestur á því að senda tilkynningu til varnaraðila vegna endurútreiknings gagnvart fyrri leigutökum geti haft þýðingu í málinu enda eru atvik málsins að því leyti ósönnuð auk þess sem sjónarmiðum hvað þetta varðar var ekki hreyft í greinargerð varnaraðila. Þá er heldur ekki unnt að fallast á að bráðabirgðaákvæði XV í lögum nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010, eigi við um það tilvik sem hér er til umfjöllunar.
Heimild sóknaraðila til að krefjast umráða yfir áðurnefndri bifreið á grundvelli samnings aðila vegna vanskila varnaraðila, og að undangenginni riftun samningsins, er ekki háð því að fram fari heildaruppgjör á viðskiptum aðila. Þá getur tölulegur ágreiningur um uppgjör þeirra á milli ekki heldur staðið heimild sóknaraðila í vegi svo framarlega sem ljóst er að um vanskil sé að ræða sem réttlætt hafi riftun samningsins í samræmi við ákvæði hans.
Ljóst verður að telja samkvæmt gögnum málsins að leigugreiðslur samkvæmt kaupleigusamningi aðila eru í vanskilum. Skiptir þá ekki máli í sjálfu sér hvort stuðst er við útreikninga varnaraðila sjálfs eða þau gögn sem sóknaraðili hefur lagt fram máli sínu til stuðnings. Í málinu liggur fyrir að samkvæmt innheimtubréfi 24. október 2014 var varnaraðili í skuld við sóknaraðila sem nam þá að heildarfjárhæð 10.495.580 krónum. Greiðslur samkvæmt samningi aðila eru í vanskilum frá 5. ágúst 2014 eftir endurútreikning sóknaraðila. Þá liggur einnig fyrir að ekkert hefur verið greitt af samningnum frá miðju ári 2010 áður en til útreikninga sóknaraðila kom.
Varnaraðili hefur ekki sinnt áskorunum sóknaraðila um greiðslu skuldar sinnar sem byggir á samningi aðila og er í vanskilum. Er ekki fallist á sjónarmið varnaraðila um að greiðsludráttur af hans hálfu hafi verið réttlætanlegur. Þá er ljóst að varnaraðili gerði engan reka að því að geymslugreiða þá fjármuni sem sóknaraðili krafðist úr hans hendi til efnda á samningnum eða að inna af hendi greiðslu með fyrirvara. Þá er ekki hægt að fallast á að um viðtökudrátt af hálfu sóknaraðila hafi verið að ræða þrátt fyrir að varnaraðili hafi boðið efndir á grundvelli eigin útreiknings sem sóknaraðili var ekki samþykkur. Samningi aðila var því réttilega rift af hálfu sóknaraðila 23. september 2014 eftir skilmálum hans vegna vanskila varnaraðila. Varnaraðili hefur ekki orðið við ósk sóknaraðila um að afhenda umrædda bifreið og hefur hann í sjálfu sér ekki mótmælt því að hún sé eign sóknaraðila. Hefur sóknaraðili því réttilega krafist afhendingar bifreiðarinnar með beinni aðfarargerð fyrir dóminum.
Þá verður ekki talið að varnaraðili hafi á nokkurn hátt sýnt fram á að aðstæður séu með þeim hætti að víkja beri skuldbindingu hans samkvæmt yfirlýsingu um yfirtöku lánsins til hliðar, að hluta eða að öllu leyti, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Er á engan hátt hægt að líta svo á að það form samninga sem hér um ræðir valdi því að þeir séu ólögmætir í heild sinni þótt reynt hafi á einstök ákvæði þeirra fyrir dómstólum. Hvað varðar aðstöðumun með aðilum verður að hafa í huga að varnaraðili stóð í fyrirtækjarekstri og getur því ekki borið fyrir sig að hafa ekki haft þekkingu á viðskiptum. Þá verður ekki séð að ákvæði XV til bráðabirgða með lögum nr. 38/2001 eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 geti komið til álita eins og málið liggur fyrir dóminum þar sem það á við um heildaruppgjör aðila þegar leigumun hefur verið skilað. Auk þess verður ekki heldur séð að við sanngirnismat samkvæmt fyrrnefndu ákvæði laga nr. 7/1936 sé hægt að taka tillit til þess að skuld varnaraðila sé mun hærri en sem nemur markaðsverðmæti umræddrar bifreiðar. Eru því engin efni til að fallast á sjónarmið varnaraðila um að víkja beri skuldbindingu hans til hliðar.
Gögn málsins bera ótvírætt með sér að sóknaraðili sé eigandi umræddrar bifreiðar samkvæmt ökutækjaskrá, sbr. 25. gr. og 3. mgr. 47. gr. laga nr. 39/1978. Þá verður og að telja ljóst að greiðslur á grundvelli samnings aðila séu í vanskilum eins og þegar er rakið þótt ágreiningur kunni að vera á milli aðila um fjárhagslegt uppgjör samningsins. Réttur sóknaraðila til þess að fá umráð bifreiðarinnar er því skýr og ljós. Samkvæmt öllu framangreindu verður því talið að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt og verður ekki talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Af hálfu sóknaraðila flutti málið Bjarni Lárusson hrl., vegna Bjarna Þórs Óskarsson hrl., en af hálfu varnaraðila, Laufey Sigurðardóttir hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 13. apríl sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sóknaraðila, Landsbankanum hf., er heimilt að fá bifreiðina TY-423 Dodge Magnum, árgerð 2005, tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Bergs Sandholt.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.