Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 26. janúar 2001. |
|
Nr. 34/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Guðmundur Ó. Björgvinsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar sl., þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [ ], verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram til þriðjudagsins 30. janúar nk. kl. 16. Kærði var handtekinn 9. þ.m. og sama dag gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16 í dag með úrskurði dómsins. Hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og var úrskurðurinn staðfestur með dómi réttarins 12. s.m.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi síðan í sumar haft til rannsóknar umfangsmikið mál sem snúist um innflutning á miklu magni fíkniefna. Hafi nokkrir aðilar sætt gæsluvarðhaldi vegna þessa. Rannsóknin snúi að nokkrum sendingum á fíkniefnum hingað til lands frá Hollandi. Sé talið að sendingarnar stafi frá nafngreindum íslenskum manni þar í landi en krafist hafi verið framsals yfir honum. Í einu þessara tilvika hafi annar nafngreindur íslenskur maður tekið á móti pakka síðasta sumar í Hollandi til flutnings hingað til lands en hann hafi þá verið skipverji á millilandaskipi. Hafi hann flutt pakkann áleiðis til Íslands með skipinu. Er það hafi átt mjög skammt eftir til Reykjavíkur hafi maðurinn hent pakkanum í hafið og ætlunin verið að kafa síðar eftir honum. Pakkinn hafi ekki fundist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hálfu lögreglu sem og brotamannanna sjálfra. Liggi fyrir að í pakkanum hafi verið a.m.k. 10 kg af hassi, auk talsverðs magns af kókaíni. Sé talið að kærði hafi átt kókaínið sem hafi verið í pakkanum en sá grunur styðjist að miklu leyti við hleranir á símtölum kærða og fleiri. Kærði hafi ekki viljað kannast við sakargiftir. Hafi fjórar skýrslur verið teknar af honum og allmörg símtöl verið borin undir hann en í þeim ætli lögregla að kærði ræði um innflutning fíkniefna við aðra menn. Kærði hafi ekki viljað kannast við símtölin en fyrir liggi framburður um að kærði sé viðmælandi manna í þeim. Þá liggi einnig fyrir framburður um að kærði hafi haft aðgang að sömu símanúmerum sem hann kannast ekki við símtöl úr og í. Rannsókn gangi hægt vegna þess að kærði hafi ekki viljað kannast við aðild að málinu. Þurfi að bera undir kærða nokkur símtöl og nýjan framburð annarra áður en hann fái frelsi sitt aftur en hann gæti torveldað mjög rannsóknina með því að hafa áhrif á framburð viðmælenda sinna í ætluðum símtölum hans. Beri þannig brýna nauðsyn til að halda kærða áfram í gæsluvarðhaldi uns lokið hefur verið að fara yfir gögn málsins með honum til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsóknina.
Verið er að rannsaka ætlað brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og gæti brotið mögulega varðað við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er að mati dómsins rökstuddur grunur um aðild kærða að því. Þykir rétt með vísan til framanskráðs og heimildar í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að verða við kröfu Lögreglustjórans í Reykjavík um framlengingu gæsluvarðhalds yfir kærða þar sem fyrir liggur að yfirheyra þarf hann frekar og hætta kann að vera á sakarspjöllum gangi hann laus. Er krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi til 30. janúar 2001 kl. 16.