Hæstiréttur íslands
Mál nr. 424/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Aðild
- Einkahlutafélag
|
Fimmtudaginn 26. ágúst 2010. |
|
|
Nr. 424/2010. |
Stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009 (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 9. október 2009 (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka. Aðild. Einkahlutafélög.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem bú S ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Báðir aðilar töldu sig fara með stjórn S ehf. Byggði sóknaraðili á því að ekki hafi verið uppfyllt efnisleg skilyrði fyrir yfirtöku SÍ á hlutafé félagsins, þar sem SÍ hafi verið búinn að fá fullnustu krafna sinna á hendur S ehf., en til handveðs í hlutafé félagsins hafi verið stofnað til tryggingar þeim skuldum. Talið var að sóknaraðili gæti ekki reist kröfu sína á þessu þar sem lögskiptin sem varði veðsetninguna og yfirtöku SÍ á hlutafénu væru milli SÍ og veðsalanna. SÍ hafi haft í höndum formlega heimild til hlutabréfanna þegar hluthafafundurinn hafi verið haldinn. Sóknaraðili ætti ekki aðild að kröfu sem byggð væri á því að efnisleg skilyrði hafi skort fyrir yfirtöku SÍ á hlutafénu. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2010, en með honum var hafnað endurupptöku á máli þar sem bú SevenMiles ehf. var með úrskurði héraðsdóms 16. nóvember 2009 tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila fyrir hönd félagsins. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til q. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að endurupptaka framangreint mál. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að Pétri Þór Halldórssyni, stjórnarmanni í SevenMiles ehf samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009, verði gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili byggir á því að hann fari með stjórn SevenMiles ehf., þar sem Sparisjóðabanki Íslands hf. hafi verið orðinn eigandi alls hlutafjár í félaginu, þegar bankinn boðaði til hluthafafundar sem haldinn var 8. október 2009. Bankinn byggði tilkall sitt til hlutafjárins á tveimur handveðsyfirlýsingum 11. febrúar 2005 þar sem Anna Brynja Ísaksdóttir, eigandi 82% hlutafjárins, og Tómas Ottó Hansson, eigandi 18% þess, settu allt hlutaféð bankanum að handveði. Í þessum yfirlýsingum var tekið fram að í þeim fælist meðal annars fullt og ótakmarkað umboð til veðhafa til að framselja hina veðsettu hluti til veðhafa, eins og þetta var orðað. Af hálfu varnaraðila hafa verið lögð fram framsöl 7. október 2009, þar sem allt hlutaféð var framselt Sparisjóðabanka Íslands hf. á grundvelli umboðanna.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki hafi verið uppfyllt efnisleg skilyrði fyrir því að Sparisjóðabanki Íslands hf. tæki hlutaféð yfir, þar sem bankinn hafi verið búinn að fá fullnustu krafna sinna á hendur SevenMiles ehf., en til handveðsins hafi verið stofnað til tryggingar þeim skuldum. Er málflutningi sem að þessu lýtur lýst í hinum kærða úrskurði. Ekki verður fallist á með sóknaraðila að hann geti reist kröfu sína á þessu, þar sem lögskiptin sem varða veðsetninguna og yfirtöku bankans á hlutafénu eru milli Sparisjóðabanka Íslands hf. og framangreindra veðsala. Bankinn hafði í höndum formlega heimild til hlutabréfanna, þegar hluthafafundurinn var haldinn. Sóknaraðili á ekki aðild að kröfu sem byggð er á því að efnisleg skilyrði hafi skort fyrir yfirtöku bankans á hlutafénu.
Af framangreindum ástæðum verður hinn kærði úrskurður staðfestur en rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2010.
Með bréfi sem barst héraðsdómi 12. nóvember 2009 óskaði Hjördís Edda Harðardóttir hæstaréttarlögmaður, sem stjórnarformaður SevenMiles ehf., kt. 670504-3360, eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Beiðni þessi var tekin fyrir á dómþingi 16. nóvember. Meðal þeirra gagna sem lögð voru fram var vottorð úr fyrirtækjaskrá um félagið. Þar kemur fram að Hjördís Edda sitji ein í stjórn. Sama dag var kveðinn upp úrskurður um að bú félagsins væri tekið til gjaldþrotaskipta og var skipaður skiptastjóri.
Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar, en málinu var vísað frá Hæstarétti með dómi 10. desember 2009.
Hinn 15. desember 2009 var krafist endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi. Var krafan gerð í nafni stjórnar SevenMiles ehf., kt. 670504-3360, af Ragnari Guðmundssyni hdl. Beiðni þessari var hafnað með úrskurði 12. janúar 2010. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar og var hann ómerktur með dómi réttarins 11. febrúar 2010. Málið var tekið fyrir á ný og beiðni um endurupptöku hafnað með úrskurði 25. febrúar 2010. Var hann kærður til Hæstaréttar og aftur var úrskurður héraðsdóms ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný. Var dómur Hæstaréttar kveðinn upp 25. mars 2010. Málið var tekið fyrir enn á ný og beiðni um endurupptöku hafnað með úrskurði 19. apríl. Var hann kærður til Hæstaréttar og enn var úrskurður héraðsdóms ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar á ný.
Málið var tekið fyrir fyrr í dag og tekið til úrskurðar að loknum endurflutningi. Sóknaraðili krefst endurupptöku málsins, en varnaraðili krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað. Aðilar krefjast jafnframt málskostnaðar.
Anna Brynja Ísaksdóttir og Tómas Ottó Hansson voru eigendur alls hlutafjár í SevenMiles ehf. Hlutabréf þeirra voru öll veðsett Sparisjóðabanka Íslands hf. með handveðsyfirlýsingum, dags. 11. febrúar 2005. Þar settu þau Anna og Tómas hlutabréfin að veði til tryggingar á öllum skuldum T.O.H. ehf. Nafni félagsins var síðar breytt í SevenMiles.
Með handveðsyfirlýsingum dags. 2. febrúar 2009 setti SevenMiles Sparisjóðabankanum að veði hlutabréf sín í einkahlutafélögunum Spori og Sporbaugi, til tryggingar öllum skuldum sínum og félaganna við bankann.
Hinn 7. október 2009 var útbúið framsal á hlutum Önnu Brynju Ísaksdóttur og Tómasar í SevenMiles ehf. Undirritaði fulltrúi Sparisjóðabankans framsölin fyrir þeirra hönd. Vísaði hann til sérstakrar heimildar í áðurnefndum handveðsyfirlýsingum. Þar er veðhafa veitt umboð til að framselja hið handveðsetta, kvitta fyrir allar greiðslur og framkvæma allt það sem með þarf og hann álítur sér hagkvæmt til þess að handveðið komi honum að fullum notum, allt fyrirvaralaust og án aðvörunar.
Með bréfi sama dag tilkynnti Sparisjóðabankinn þeim Önnu, Tómasi og félaginu, að hann hefði gengið að veðum sínum samkvæmt heimild í handveðssamningunum.
Í bréfum til Önnu og Tómasar er vísað til tveggja lánssamninga SevenMiles við bankann. Segir að Sparisjóðabankinn hafi tekið til sín hlutina í SevenMiles til niðurgreiðslu skuldar félagsins við sig. En síðan er bætt við: Bankinn leysti til sín hlutina í SevenMiles ehf. á núll krónur þar sem skuldir félagsins eru meiri en eignir þess.
Í bréfi til SevenMiles segir að hlutir félagsins í Spori og Sporbaugi séu teknir til að greiða niður skuldir félaganna þriggja. Þá segir að hlutirnir séu teknir miðað við verðmat VBS fjárfestingabanka hf. á félögunum. Virði 32% hlutar í Spori nemi 110.200.000 krónum, en 32% hlutur í Sporbaugi nemi 310.080.000 krónum.
Ekki kemur fram í þessu bréfi til SevenMiles hversu háar skuldir félaganna séu. Er einungis vísað til þriggja lánssamninga og tilkynningar um gjaldfellingu eftirstöðva, dags. 10. september 2009. Þar er skorað á SevenMiles að greiða EUR 251.703, JPY 53.587.141, USD 157.000, CHF 379.566 og 4.563.312 íslenskar krónur.
Þann 8. október var haldinn hluthafafundur í SevenMiles ehf. Var þar kjörin ný stjórn, afturkölluð prókúra fyrri framkvæmdastjóra og hann og fyrri stjórnarmenn leystir frá störfum. Þessar breytingar voru tilkynntar fyrirtækjaskrá.
Með bréfi til fyrirtækjaskrár 11. nóvember 2009 mótmælti sóknaraðili þessa máls breytingum á skráningu félagsins. Hinn 3. desember 2009 hafnaði fyrirtækjaskrá mótmælum þessum. Er komist að þeirri niðurstöðu að Sparisjóðabankinn hafi haft lögmæta heimild til að ganga að veðunum vegna vanefnda félagsins á lánasamningi þeirra.
Varnaraðili krafðist eins og áður segir gjaldþrotaskipta á búi félagsins með bréfi dags. 12. nóvember 2009. Hann lagði fram vottorð fyrirtækjaskrár, dags. 12. október 2009, þar sem sagði að í stjórn félagsins sæti Hjördís Edda Harðardóttir og að Jón Ármann Guðjónsson væri varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Hjördís Edda ritaði undir beiðnina og Jón Ármann mætti í dómi við fyrirtöku hennar.
Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki verið bær til að setja fram kröfu um gjaldþrotaskipti. Allar kröfur Sparisjóðabankans á hendur félaginu hafi verið að fullu greiddar þegar gengið hafi verið að hlutunum í félaginu sjálfu. Hafi bankinn því ekki haft heimild til að halda hluthafafund og kjósa nýja stjórn. Full greiðsla hafi fengist með innlausn hlutabréfa í Spori og Sporbaugi.
Skuldir félagsins við bankann hafi verið um 190.000.000 krónar, þegar gengið hafi verið að bréfunum í Spori og Sporbaugi, samkvæmt því sem fram hafi komið í tilkynningu um gjaldfellingu. Bréfin hafi verið innleyst á samtals 501.082.500 krónur. Samkvæmt þessu hafi eftirstöðvum andvirðis bréfanna verið varið til að greiða niður skuldir Spors og Sporbaugs við bankann. Bankinn hafi lýst þeirri fyrirætlun sinni að ef til innlausnar hlutanna kæmi yrði andvirði þeirra skuldajafnað við kröfu á hendur félaginu. Kveðst sóknaraðili telja að bankinn sé skuldbundinn til að ráðstafa andvirði hlutanna í samræmi við þessa yfirlýsingu.
Þar sem bankinn hafi ekki getað gengið að umræddum veðum hafi hann ekki orðið lögmætur eigandi hlutabréfanna. Því hafi honum verið óheimilt að halda hluthafafund og þær breytingar sem þar voru ákveðnar hafi sömuleiðis verið óheimilar. Verði að líta framhjá þessum breytingum.
Þá telur sóknaraðili að ekki hafi verið hægt að boða stjórnarfund í félaginu án þess að sitjandi stjórn kæmi þar að.
Loks bendir sóknaraðili á að forkaupsréttur hluthafa hafi ekki verið virtur. Samkvæmt samþykktum félagsins eigi hluthafar forkaupsrétt og hafi tveggja mánaða frest til að beita þeim rétti, eftir að þeir fá tilkynningu um tilboð.
Varnaraðili bendir á að yfirtaka Sparisjóðabankans á hlutum í Sevenmiles hafi byggst á handveðsyfirlýsingum eigenda hlutabréfanna. Í yfirlýsingum þessum sé einnig að finna heimild til að taka yfir hina veðsettu hluti og umboð til að undirrita framsal á hlutunum. Veðhafinn hafi gert hvort tveggja.
Varnaraðili segir að hvorki hann né sóknaraðili eigi aðild að ágreiningnum. Ekki verði séð hvaðan fyrri stjórn félagsins fái heimild til að hafa uppi málsástæður sem varði hluthafana, eða hvernig leysa megi úr ágreiningnum án þess að deiluaðilar komi nærri. Varnaraðili segir að deila hluthafa um viðskipti með hlutabréf geti ekki valdið því að að stjórn félags teljist umboðslaus. Fyrst yrði að hnekkja niðurstöðu hluthafafundar. Varnaraðili vísar til 71. gr. laga nr. 138/1994 og 25. gr. laga nr. 91/1991.
Loks vísar varnaraðili til þess að Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi neitað beiðni fyrri hluthafa um breytingu á skráningu stjórnenda félagsins, með bréfi dags. 3. desember 2009. Hann bendir á að frestur til að höfða mál til ógildingar á hluthafafundinum 8. október 2009 sé liðinn. Þá hafi ekki verið höfðað mál vegna skráningar nýrrar stjórnar, sbr. 6. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994.
Niðurstaða
Beiðni um endurupptöku er sett fram í nafni stjórnar SevenMiles ehf. Í yfirlýsingu um fyrirsvar segir að lögmaður sóknaraðila fari með mál þetta „fyrir skuldara, í umboði réttmætrar stjórnar SevenMiles ehf.“ Sóknaraðili byggir mál sitt á því að hann stýri félaginu og að hinir nýju stjórnendur hafi ekki gilda heimild til að fara með málefni félagsins. Rétt var því að setja beiðnina fram í nafni félagsins.
Sóknaraðili telur að Sparisjóðabankinn hafi fengið allar kröfur sínar greiddar að fullu, áður en hann gekk að veðum í hlutabréfum í SevenMiles ehf. Af gögnum verður ráðið að hann fer að nokkru rangt með tölur í þessu samhengi. Af tilkynningu bankans sýnist hann hafa reiknað verðmæti hlutanna í Spori og Sporbaugi samtals 420.280.000 krónur. Allt að einu er ljóst að skuldir SevenMiles við bankann námu innan við 200.000.000 króna.
Varnaraðili telur hins vegar að ekki sé unnt að fjalla um þessa málsástæðu sóknaraðila. Sparisjóðabankinn sé ekki aðili að þessum ágreiningi.
Í dómi Hæstaréttar 25. fyrra mánaðar kemur fram að nauðsynlegt sé að leysa úr því hvort Sparisjóðabankanum hafi verið heimilt að leysa til sín hlutabréfin í SevenMiles ehf. Varnaraðili hefur ekki hirt um að leggja fram sundurliðun þeirra skulda er hann hugðist fá greiddar með innlausn á hlutabréfunum. Hann innleysti sama dag hlutabréf í SevenMiles, Spori og Sporbaugi. Bréfin í SevenMiles innleysti hann sem verðlaus, en bréfin í hinum félögunum við tilteknu verði, sem samkvæmt framansögðu dugði til að ljúka öllum skuldum SevenMiles við bankann. Bankinn átti hins vegar einnig veð í bréfunum til tryggingar skuldum Spors og Sporbaugs. Hversu háar þær voru kemur ekki skýrt fram í gögnum málsins. Í bréfi Sparisjóðabankans til fyrirtækjaskrár, þar sem hann hafði uppi andmæli við málatilbúnaði sóknaraðila hjá skránni, segir hann að skuldir félaganna þriggja hafi numið um 650.000.000 króna, miðað við gengi á gjaldfellingardegi. Segir í bréfinu að eftir að gengið hafi verið að veðunum standi eftir um 230.000.000 króna skuldir félaganna. Kveðst bankinn telja sig hafa val um það hvaða kröfur hann greiði niður með andvirði veðanna.
Sóknaraðili hefur ekki reynt að hnekkja því að skuldir sem veðin áttu að tryggja nemi framangreindri fjárhæð. Telur hann að bankinn hafi skuldbundið sig til að nýta verðmæti veðsins fyrst til að greiða niður skuld SevenMiles. Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu sóknaraðila. Ekkert í bréfi bankans frá 10. september 2009 eða öðrum gögnum felur í sér einhverja slíka skuldbindingu og hún verður ekki byggð á almennum reglum.
Sóknaraðili hefur ekki byggt á því að bankinn hafi ekki getað haft hagsmuni af því að leysa til sín verðlaus hlutabréf.
Sparisjóðabankinn var eftir framsal hlutabréfa í félaginu orðinn eini hluthafinn. Því var ekki nauðsynlegt að gæta formsatriða við boðun hluthafafundar, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994. Ekki þurfti atbeina sitjandi stjórnar til að boða fundinn, en á fundinum var mættur aðili sem fór með öll hlutabréf í félaginu. Enginn hafði lýst því yfir að hann beitti forkaupsrétti að hlutabréfunum og því var Sparisjóðabankinn eigandi þeirra. Þó að frestur til að beita forkaupsrétti hafi ekki verið útrunninn, höfðu eigendaskipti orðið að hlutunum og nýji eigandinn fór með allar heimildir hluthafa, en forkaupsréttarhafi hafði ekki lýst því yfir að hann beitti rétti sínum. Heimildir hans eru ekki takmarkaður þó forkaupsrétti kunni að verða beitt síðar. Var hluthafafundurinn 8. október 2009 lögmætur og þær ákvarðanir sem þar voru teknar. Var Hjördís Edda Harðardóttir þar kosin í stjórn félagsins eins og áður segir. Sat hún eftir fundinn í stjórn félagsins og Jón Ármann Guðjónsson var framkvæmdastjóri.
Verður því niðurstaðan sú að Sparisjóðabankanum hafi verið heimilt að leysa til sín hlutabréf allra félaganna. Eftir innlausnina var honum sem eina hluthafanum í SevenMiles ehf. heimilt að halda hluthafafund og kjósa nýja stjórn. Það var því réttkjörin stjórn sem tók ákvörðun um að óska gjaldþrotaskipta á búi félagsins. Verður því að hafna kröfu fyrri stjórnar um endurupptöku málsins.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu um endurupptöku máls nr. G-1128/2009 er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.