Hæstiréttur íslands
Mál nr. 538/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 17. janúar 2006. |
|
Nr. 538/2005. |
Húsfélagið Hringbraut 2c Grétar Guðnason Jóhanna M. Sveinsdóttir Ingigerður Karlsdóttir Njáll Haraldsson Þorsteinn Hálfdánarson og Ásta Sigurðardóttir (Ásdís J. Rafnar hrl.) gegn Fjarðarmótum ehf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) Benedikt Steingrímssyni og Hafnarfjarðarbæ (enginn) |
Kærumál. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Allir eigendur fjöleignarhússins H og húsfélag stefndu F, sem byggði húsið, B byggingastjóra þess og H til greiðslu skaðabóta vegna galla sem þeir töldu á húsinu. Í stefnu höfðu þeir sett fram sameiginlega óskipta kröfu um greiðslu skaðabóta að óskiptu úr hendi framangreindra aðila. Talið var að til að nýta mætti réttarfarshagræði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri skilyrði að hver aðili setti fram aðgreinda, sjálfstæða kröfu. Þar sem eigendur hússins og húsfélag höfðu í kæru sinni til Hæstaréttar aðgreint kröfur sínar með fullnægjandi hætti, þóttu ekki lengur vera fyrir hendi þær aðstæður sem með réttu hefðu átt að leiða til frávísunar málsins og þótti skilyrðum að öðru leyti fullnægt til samlagsaðildar í málinu. Var hinn kærði frávísunarúrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2005, þar sem kröfum sóknaraðila gegn varnaraðilunum Fjarðarmótum ehf. og Benedikt Steingrímssyni var vísað frá dómi og kröfum gegn varnaraðilanum Hafnarfjarðarbæ var vísað frá dómi að hluta, í máli sem sóknaraðilar höfðuðu á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili Fjarðarmót ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í kæru sinni til Hæstaréttar hafa sóknaraðilar sundurgreint kröfur sínar með þeim hætti að krafa húsfélagsins er sögð vera 3.066.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum, en kröfur vegna hvers séreignarhluta eru sagðar nema 596.000 krónum með nánar tilgreindum vöxtum. Sundurliðun krafnanna kveða sóknaraðilar byggða á þeim gögnum sem legið hafi fyrir við þingfestingu málsins og telja að þau hafi með henni bætt úr þeim ágalla sem héraðsdómari hafi talið vera á málatilbúnaði þeirra. Jafnframt hafa sóknaraðilar lækkað kröfur sínar þannig að samanlagður höfuðstóll þeirra er nú 5.450.000 krónur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerðu sóknaraðilar í málinu sameiginlega óskipta fjárkröfu um skaðabætur úr hendi varnaraðila vegna galla sem þau telja vera á fjöleignarhúsinu að Hringbraut 2 c í Hafnarfirði, en sóknaraðilar eru húsfélag og allir eigendur hússins. Sóknaraðilar telja að galla þessa megi í fyrsta lagi rekja til vanefnda varnaraðilans Fjarðarmóta ehf. sem byggði og seldi þeim húsið, í öðru lagi til vanrækslu varnaraðilans Benedikts Steingrímssonar, sem hafi borið sem byggingarstjóra hússins að sjá til þess að byggt væri í samræmi við gildandi lög og reglugerðir, og í þriðja lagi til vanrækslu starfsmanna varnaraðilans Hafnarfjarðarbæjar við framkvæmd lögbundinna úttekta á verkinu, sem og með því að samþykkja með ólögmætum hætti breytingar á teikningum hússins. Telja sóknaraðilar kröfur sínar verða raktar til þeirrar sameiginlegu aðstöðu þeirra að hús það, er þau festu kaup á, sé haldið göllum sem stefndu beri ábyrgð á hver með sínum hætti. Verður fallist á með sóknaraðilum að í málinu sé fyrir hendi sú aðstaða til aðilasamlags, sem greinir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, bæði til sóknar og varnar, og augljóst hagræði af því, eins og atvikum máls þessa er háttað, að það fáist rekið í einu lagi.
Í dómafordæmum Hæstaréttar kemur fram að ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta sér réttarfarshagræði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er að hver kröfuhafi geri sjálfstæða aðgreinda kröfu og varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þetta ekki gert, sbr. dóma réttarins 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 og 21. október sama ár í máli nr. 439/2005. Eins og að framan er rakið gættu sóknaraðilar ekki þessa skilyrðis í málatilbúnaði sínum. Bar héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 að beina því til þeirra að bæta úr þessum ágalla. Sóknaraðilar hafa hins vegar í kæru sinni til Hæstaréttar ráðið bót á þessu. Eru því ekki lengur fyrir hendi annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti, sem að réttu hefðu leitt til frávísunar. Eins og hér stendur á verður ekki fallist á með varnaraðilanum Fjarðarmótum ehf. að leiðrétting krafna sóknaraðila sé of seint fram komin, enda ekki sýnt fram á að vörnum kunni að verða áfátt af þessum sökum. Þá verður ekki fallist á með sama varnaraðila að ágallar séu á aðild húsfélagsins í máli þessu. Með vísan til þess sem að framan greinir er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2005.
Mál þetta var þingfest 27. apríl 2005 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda Fjarðarmóta ehf. 10. nóvember sl. Stefnendur eru Húsfélagið Hringbraut 2c, Hafnarfirði, Grétar Guðnason, Jóhanna M. Sveinsdóttir, Ingigerður Karlsdóttir, Njáll Haraldsson, Þorsteinn Hálfdánarson og Ásta Sigurðardóttir, öll til heimilis að Hringbraut 2c, Hafnarfirði. Stefndu eru Fjarðarmót ehf., Benedikt Steingrímsson og Hafnarfjarðarbær. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð 6.160.400 krónur með dráttarvöxtum af 5.240.000 krónum frá 10. febrúar 2004 til stefnubirtingardags en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist ógildingar á ákvörðun um breytingu á samþykktum teikningum eignarinnar að Hringbraut 2c, Hafnarfirði samkvæmt áritun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar hinn 4. október 2002 og síðar samþykkt sama efnis í bygginganefnd Hafnarfjarðar hinn 23. september 2003. Loks er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi Fjarðarmót ehf. krefst aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu og til þrautavara að stefnukröfur verði lækkaðar. Málskostnaðar er krafist í öllum tilvikum. Stefndi Benedikt krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar í aðalkröfu en í varakröfu að málskostnaður verði látinn falla niður. Stefndi Hafnarfjarðarbær krefst aðallega að hafnað verði kröfum stefnenda um ógildingu ákvörðunar þeirrar er nánar greinir í dómkröfum stefnenda og að stefndi verði alfarið sýknaður af fjárkröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefst stefndi Hafnarfjarðarbær málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að stefnendur eru íbúðareigendur í fjöleignarhúsinu Hringbraut 2c, Hafnarfirði og félagsmenn í húsfélaginu. Húsið er tveggja hæða fjölbýlishús, alls fjórar íbúðir ásamt kjallara með bílskúrum og geymslum. Stefndi Fjarðarmót ehf. byggði húsið og seldi stefnendum íbúðirnar í húsinu. Stefndi Benedikt Steingrímsson var byggingarstjóri hússins. Í stefnu segir að Hafnarfjarðarbæ sé stefnt vegna ábyrgðar sveitarfélagsins á tjóni stefnenda sem megi rekja til alvarlegrar vanrækslu byggingarfulltrúa sveitarfélagsins við lögbundið eftirlit og úttekt á eigninni og til ólögmætrar og ómálefnalegrar samþykktar byggingarfulltrúans á breytingum frá samþykktum teikningum hússins. Starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra er hjá réttargæslustefnda.
Í stefnu kemur meðal annars fram að byggingarstjóri hússins hafi boðað til lokaúttektar á húsinu 8. nóvember 2001 og í bréfi sínu 21. nóvember 2001 geri byggingarfulltrúinn grein fyrir athugasemdum sínum sem séu í sex liðum. Í lok bréfsins segir byggingarstjóri að lagfæra þurfi það sem athugasemdirnar lúti að og að því búnu verði boðað til nýrrar úttektar. Stefnendur segja að í framhaldi þessara athugasemda byggingarfulltrúa við lokaúttekt hússins hafi aðalhönnuður húseignarinnar breytt aðaluppdrætti af eigninni þannig að athugasemdirnar hafi fallið að teikningum. Að því búnu hafi stefndi Fjarðarmót ehf. lagt nýjar teikningar fyrir byggingarnefnd Hafnarfjarðarbæjar 8. maí 2002 en byggingarnefnd neitað að samþykkja þær. Hinn 16. október 2002 hafi byggingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar gefið út bréf til byggingarstjóra eignarinnar þar sem hann hafi lýst því yfir að lokaúttekt hafi farið fram og engar athugasemdir hafi verið gerðar.
Að ósk stefnenda var dómkvaddur matsmaður 17. september 2003 til að meta meinta galla og skilaði matsmaðurinn Steingrímur Hauksson mati í janúar 2004.
Stefnendur segja að hinn 3. febrúar 2005 hafi húsfélagið farið þess á leit við stefnda Hafnarfjarðarbæ og byggingarnefnd bæjarins að lögformleg lokaúttekt á fasteigninni færi fram. Með bréfi 25. febrúar 2005 hafi stefndi Hafnarfjarðarbær hafnað þeirri málaleitan og vísað til þess að lokaúttekt hafi þegar farið fram.
Stefnandi sundurliðar stefnufjárhæð sína þannig að 5.240.000 krónur séu samkvæmt matsgerð hins dómkvadda matsmanns en 920.400 krónur séu kostnaðarmat Kjartans Rafnssonar tæknifræðings.
II.
Í þessum þætti málsins er fjallað um frávísunarkröfu stefnda Fjarðarmóta ehf. Aðrir stefndu gerðu ekki kröfu um frávísun málsins fyrr en í þinghaldi um flutning málsins um frávísunarkröfu stefnda Fjarðarmóta ehf. Var málið reifað af öllum aðilum með tilliti til frávísunar. Frávísunarkrafa stefnda Fjarðarmóta ehf. er reist á því að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi í málinu.
Ákvæði 19. gr. laganna um samlagsaðild heimila að fleiri en einn standi saman að rekstri máls þegar dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Ákvæði þetta er sett til hagræðis fyrir aðila þegar kröfur eiga sér sameiginlegan uppruna, atvik að baki þeim eru hin sömu og byggt er á sömu málsástæðum.
Til grundvallar þessu máli eru fjórir löggerningar sem eru kaupsamningar stefnda Fjarðarmóta ehf. við stefnendur. Þessir kaupsamningar eru með nokkuð misjöfnum hætti. Stefnandi Grétar hefur greitt kaupverð íbúðar sinnar að fullu í samræmi við ákvæði kaupsamningsins og tók við afsali 5. nóvember 2001 án þess að gera fyrirvara. Stefnandi Jóhanna gerði hið sama og tók við afsali án fyrirvara 4. júní 2002. Stefnendur Ásta og Þorsteinn gerðu hins vegar fyrirvara um greiðslu kaupverðs og hið sama gerðu stefnendur Ingigerður og Njáll. Kröfur þessara stefnenda eru því kaupsamningskröfur innan samninga og samkvæmt framansögðu nokkuð ólíkar. Krafa húsfélagsins er aftur á móti af öðrum toga. Því er ekki unnt að fallast á að kröfur allra stefnenda megi rekja til sama atviks eða löggernings
Í öðru lagi eru þeir annmarkar á kröfugerð stefnenda að þeir gera ekki sjálfstæðar kröfur hver fyrir sig. Það er sérstaklega nauðsynlegt þar sem ljóst er að stefnandi Húsfélagið Hringbraut 2c, Hafnarfirði getur ekki átt sömu kröfur og aðrir stefnendur og þeir síðarnefndu geta tæpast heldur allir átt jafnháar kröfur. Stafar það af því að hin meinti galli samkvæmt matsgerð varðar í sumum tilfellum séreign stefnenda. Þannig varðar 8. töluliður matsgerðar milliveggi í íbúðunum og 6. liður matsgerðar varðar sameign og séreign án frekari sundurliðunar. Meintur galli á lagnakerfi samkvæmt kostnaðarmati Kjartans Rafnssonar tæknifræðings varðar séreign hússins eftir því sem segir í stefnu. Burtséð frá þessum vandkvæðum er nauðsynlegt í öllum tilvikum þegar hagræði 1. mgr. 19. gr. er nýtt að hver stefnandi geri sjálfstæða kröfu.
Í þriðja lagi skortir á í málatilbúnaði stefnenda að matsgerð eða önnur gögn málsins sýni hver sé meintur galli á hverri íbúð fyrir sig og hvað það muni kosta að bæta úr þeim galla. Aðeins þannig getur dómur tekið afstöðu til fjárhæða bóta til hvers og eins stefnenda. Stefnendur hafa að þessu leyti ekki lagt nægilega skýran grundvöll að málatilbúnaði sínum.
Verður málinu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 vísað frá dómi hvað stefnda Fjarðarmót ehf. varðar. Vegna þessarra annmarka á kröfugerð, sem hér að framan greinir, verður ekki hjá því komist að vísa málinu einnig frá án kröfu er varðar fjárkröfur á hendur öllum stefndu.
Eftir stendur krafa stefnenda á hendur stefnda Hafnarfjarðarbæ um ógildingu á ákvörðun um breytingu á samþykktum teikningum eignarinnar að Hringbraut 2c, Hafnarfirði samkvæmt áritun byggingafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar hinn 4. október 2002 og síðar samþykkt sama efnis í byggingarnefnd Hafnarfjarðarbæjar hinn 23. september 2003.
Eftir þessum úrslitum verða stefnendur úrskurðaðir til þess að greiða stefnda Fjarðarmótum ehf., 100.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Aðrir stefndu hafa ekki gert kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnenda, Húsfélagsins Hringbraut 2c, Hafnarfirði, Grétars Guðnasonar, Jóhönnu M. Sveinsdóttur, Ingigerðar Karlsdóttur, Njáls Haraldssonar, Þorsteins Hálfdánarsonar og Ástu Sigurðardóttir, á hendur Fjarðarmótum ehf., er vísað frá dómi.
Kröfu stefnenda á hendur stefnda Benedikt Steingrímssyni er vísað frá dómi án kröfu.
Fjárkröfu stefnenda á hendur stefnda Hafnarfjarðarbæ er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnendur greiði stefnda Fjarðarmótum ehf. 100.000 krónur í málskostnað.