Hæstiréttur íslands

Mál nr. 281/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Miðvikudaginn 25. apríl 2012.

Nr. 281/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. apríl 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendan hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. apríl nk. kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur

Í greinargerð lögreglu kemur fram að sunnudaginn 15. apríl sl. hafi þrír Pólverjar verið handteknir, grunaðir um stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Í farangri þeirra allra hafi fundist samskonar ílát, þ.e. sjampóbrúsar, boddylotionbrúsi og raksápa, sem hafi haft að geyma amfetamín, samtals um 8,5 kíló. Einn hinna handteknu hafi verið stöðvaður við tollskoðun á Keflavíkurflugvelli, en hinir tveir hafi verið handteknir í leigubifreið á [...] í Reykjavík. Framburðir þeirra séu á þann veg að þeir hafi fengið afhendar töskur í [...] og að þeir hafi átt að afhenda þær óþekktum manni við [...] í Reykjavík. Þeir kvæðust hafa haft vitneskju um að fíkniefni væru í töskunum, en ekki vitað magn eða tegund þeirra.

Þá er þess getið að í fórum annars mannsins, sem handtekinn hafi verið í leigubifreiðinni, hafi fundist farsími sem hafi haft að geyma SMS-skeyti með heimilisfangi kærða, X, „[...]“. Kvæðist hann hafa sýnt leigubifreiðastjóranum skeytið og óskað eftir að láta aka sér og samferðamanni sínum þangað skömmu áður en lögregla hafi stöðvað leigubifreiðina, en áður hafi þeir óskað eftir að þeim yrði ekið að [...] í Reykjavík.

Einnig hafi lögregla rætt við leigubílstjóra sem kvæðist hafa tekið Pólverja upp í bifreið sína við Keflavíkurflugvöll að morgni sunnudagsins 15. apríl. Pólverjinn hafi óskað eftir því að sér yrði ekið að [...] í Reykjavík. Eftir um fimm mínútu akstur hafi Pólverjinn fengið SMS-skeyti, hann hafi sýnt bílstjóranum skeytið þar sem staðið hafi: „[...]“, og óskað eftir að þangað yrði ekið. Bílstjórinn kvæðist hafa ekið manninum að [...] og þar séð hann fara inn í húsið. Aðspurður segði hann manninn hafa haft eina tösku meðferðis.

Þennan sama dag, 15. apríl sl., hafi kærði X verið handtekinn grunaður um aðild að innflutningi efnanna. Eins og fram komi í meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 10. apríl sl., hafi lögreglan haft til rannsóknar hóp Pólverja hér á landi sem taldir séu standa fyrir innflutningi fíkniefna hingað til lands. Sé kærði X undir grun um að tengjast þessum hópi Pólverja. Í þágu rannsóknar málsins hafi sími nafngreinds manns verið hlustaður en hann sé talinn skipuleggjandi hins meinta innflutnings. Í símtali sem átt hafi sér stað 16. apríl sl. kl. 16.09 hafi umræddur maður lýst áhyggjum sínum yfir því að X og eiginkona hans A hafi verið handtekin vegna málsins.

Tekið er fram að kærði hafi í skýrslutökum hjá lögreglu neitað sök í málinu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16 á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafi úrskurðurinn verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 254/2012. Rannsókn málsins sé á frumstigi, en málið sé talið tengjast vel skipulögðum og umfangmiklum innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að málið sé umfangsmikið og taka þurfi frekari skýrslur af kærða, meðkærðu og ætluðum samsekum kærða hér á landi. Í ljósi þess að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafan verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, svo sem með því að hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Til rannsóknar er brot er varðað getur fangelsisrefsingu. Dómurinn lítur svo að kominn sé fram rökstuddur grunur um það að kærði eigi þar hlut að máli. Má ætla að kærði gæti torveldað rannsókn málsins fengi hann að ganga laus eða hafa samband við aðra, svo sem með því að hafa áhrif á aðra menn, samseka eða vitni. Þá er þess að gæta að mál þetta er umfangsmikið og mikil rannsóknarvinna óunnin. Fallist er á með sóknaraðila að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, séu uppfyllt. Krafa sóknaraðila um gæsluvarðahald er því tekin til greina svo og sú krafa að hann verði látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. apríl nk. kl. 16. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.