Hæstiréttur íslands
Mál nr. 216/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til þriðjudagsins 5. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. mars 2016.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, f.d. [...], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 12. apríl 2016, kl. 16.00, með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Verjandi kærða mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð héraðssaksóknara segir að þann 22. september sl. hafi kærði komið hingað til lands ásamt erlendri konu á bifreiðinni [...] með ferjunni [...]. Kærði, X sé umráðamaður bifreiðarinnar [...]. Lögreglan hafi verið með eftirlit með bifreiðinni þar sem henni hafi verið ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22. – 25. september. Föstudaginn 25. september hafi kærði farið með flugi frá Íslandi, en skilið bifreiðina eftir á bifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Kærði hafi komið aftur til landsins þann 28. september og sótt bifreiðina. Hann hafi ekið sem leið lá inn í [...] á [...]að gistiheimili við [...] í [...]. Kærði hafi þar hitt meðkærða Y og hafi báðir verið handteknir af lögreglu stuttu eftir komu þeirra í húsnæðið. Bifreiðin hafi verið haldlögð af lögreglu og við leit í henni hafi fundist rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem búið var að fela í bifreiðinni. Alls hafi fjórir aðilar verið handteknir vegna málsins og hafi þeir allir sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þess.
Fram kemur að kærði hafi í fyrstu neitað sök við skýrslutökur hjá lögreglu, en hafi nú játað að hafa flutt fíkniefni í bílnum til landsins. Í framburði kærða og meðkærða Y hafi komið fram að tveir Hollendingar hafi átt þátt í skipulagningu innflutningsins og að kærði hafi ekið bifreiðinni að beiðni þeirra og átt að fá greitt fyrir. Kærði hafi upplýst lögreglu um það að hann hafi nokkrum sinnum hitt samverkamenn sína á fundum í Hollandi, áður en haldið var til Íslands, þar sem ferðin hafi verið skipulögð. Er vísað nánar til meðfylgjandi framburðarskýrslu kærða og annarra gagna sem liggja fyrir.
Kærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati lögreglu sé meint aðild kærða mikil en hún er talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Þá sé um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna að ræða. Meti lögregla það svo að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræði en staða kærða þykir sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum sbr. mál Hæstaréttar nr. 736/2015, 152/2013, 149/2013, 269/2010, 164/2010 og 91/2010, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þegar legið hefur fyrir sterkur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni.
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2015, en sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar. Þar sem kærði sætti gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að mál hafi verið höfðað á hendur honum hafi lögregla talið, í samræmi við 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að ekki væri unnt að úrskurða hann áfram í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Í samræmi við það hafi verið farið fram á og kærði í kjölfarið úrskurðaður í farbann og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar. Síðan hafi Hæstiréttur tvisvar staðfest úrskurði um áframhaldandi farbann yfir kærða, sbr. dóma nr. 57/2016 og 127/2016. Sé því farið fram á að kærði verði úrskurðaður í áframhaldandi farbann á grundvelli 100. gr. laga nr. 88/2008 en á því er byggt að skilyrði 2. mgr. 95. gr. séu uppfyllt eins og áður hafi verið rakið. Jafnframt teljist fyrir hendi skilyrði til að úrskurða kærða í farbann á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærði sé erlendur ríkisborgari og hafi engin sérstök tengsl við landið. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati héraðssaksóknara sé brýnt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans er til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans er til lykta leitt.
Nánar segir í greinargerð að rannsókn lögreglu hafi að hluta til verið unnin í samstarfi við erlend yfirvöld þar sem óskað hafi verið eftir húsleitum og skýrslutökum. Rannsókn lögreglu sé nú lokið og hafi málið verið sent til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar þann 7. mars sl. og bíði nú ákvörðunar um saksókn.
Héraðssaksóknari telur brot kærða varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til að úrskurða kærða í farbann er vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins sé þess beiðst að krafa lögreglustjóra um farbann nái fram að ganga.
Með dómi Hæstaréttar þann 18. febrúar 2016 í máli nr. 127/2016, var kærða gert að sæta farbanni til dagsins í dag á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Er ekkert fram komið í málinu sem leiðir til þess að ekki séu lengur fyrir hendi skilyrði til að kærða verði gert að sæta farbanni, en rannsókn málsins, sem hefur verið mjög umfangsmikil, mun vera á lokastigi og var málið sent héraðssaksóknara í síðustu viku til ákvörðunar um saksókn. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu héraðssaksóknara um áframhaldandi farbann, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, f.d. [...], skal sæta farbanni allt til þriðjudagsins 5. apríl 2016, kl. 16:00.