Hæstiréttur íslands

Mál nr. 633/2014

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Landsneti hf. og Landsvirkjun og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Fasteign


Skaðabætur. Líkamstjón. Fasteign.

A, starfsmaður L hf., krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda L og L hf. vegna líkamstjóns sem hún hlaut er hún datt í stiga í húsnæði L. Talið var að A hefði fært sönnur á að hálkuvörnum og umbúnaði stigans þar sem hún féll hefði verið ábótavant og að L og L hf. hefðu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að varna því að menn sem leið ættu þar um rynnu á hálum flísum ef blautt væri í veðri en ágreiningslaust var að mikið rigndi umræddan dag. Var talið í ljós leitt að ekki hefði verið um einstakt óhappatilvik að ræða. Var krafa A því tekin til greina. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2014. Hún krefst þess að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu, Landsnets hf. og Landsvirkjunar, vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir í vinnu sinni hjá stefnda Landsneti hf. 20. mars 2007. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að aðeins verði viðurkennd skaðabótaskylda stefndu að hluta og að málskostnaður verði felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins slasaðist áfrýjandi, sem þá starfaði hjá stefnda Landsneti hf., er hún féll þriðjudaginn 20. mars 2007 í stiga í húsnæði Landsvirkjunar að Krókhálsi 5 c í Reykjavík. Breidd stigans er 125 cm og handrið meðfram stiganum vinstra megin þegar niður er gengið. Hæðarmunur frá stigapalli upp á anddyrisgólfið er um 150 cm. Ágreiningslaust er að mikið rigndi þennan dag. Áfrýjandi hefur haldið því fram að ekki hafi verið motta í anddyrinu við útidyr hússins og mikil bleyta á gólfi innan við dyrnar, en því hafa stefndu mótmælt. Áfrýjandi hélt áfram vinnu sinni eftir slysið og fór ekki til læknis fyrr en laugardaginn 24. mars 2007. Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins 27. ágúst sama ár og fór engin rannsókn fram á aðstæðum á slysstað af hálfu þess.

Stefndi Landsnet hf. gerði með þátttöku stefnda Landsvirkjunar svokallaða ÖHU skýrslu 9. maí 2007 um atburðinn. Þar er haft eftir áfrýjanda að mikil rigning hafi verið á slysdegi og ekki ósennilegt að gólfflísarnar hafi verið hálar vegna bleytu sem barst inn. Var viðfangsefni þeirra er komu að skýrslunni fyrir hönd stefndu meðal annars að kanna hvort gera þyrfti úrbætur í anddyri og stigahúsi til að fyrirbyggja slys af því tagi sem áfrýjandi varð fyrir. Fóru öryggisstjóri stefnda Landsnets hf., B, og fulltrúi stefnda Landsvirkjunar, C umsjónarmaður fasteignarinnar, á vettvang og skoðuðu aðstæður. Var það niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum, þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið. Í niðurlagi skýrslunnar kom fram að í tilviki áfrýjanda væri um einstakt óhapp að ræða sem engin ástæða væri til að ætla að myndi endurtaka sig.

Rúmum sjö mánuðum eftir að áfrýjandi slasaðist féll áðurnefndur B við efsta þrep stigans á sama stað og áfrýjandi hafði fallið og rann niður tröppurnar. Hlaut hann áverka við fallið, en þó ekki eins alvarlega og áfrýjandi. Var hann fenginn til að gera ÖHU skýrslu um atvikið ásamt fyrrgreindum C. Samkvæmt skýrslunni 26. október 2007 var haft eftir öryggisstjóranum að þegar komið var að fyrsta þrepi stigans sem liggur niður á næstu hæð, hafi honum virst eins og fótunum væri kippt undan sér og hann runnið harkalega niður stigann. Þennan dag hafi verið mjög blautt á. Ekki hafi verið að sjá neina bleytu á gólfflísunum við stigann, nema eftir skóför hans. Í skýrslunni sagði að sams konar óhapp hefði átt sér stað nánast með nákvæmlega sama hætti ,,23.3. 2007.“ Þeir C mátu það svo að ,,nauðsynlegt væri að setja borða með grófu yfirborði á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna“ og að með þeim aðgerðum yrði ekki betur gert til ,,að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtaki sig.“ Öryggisstjórinn bar fyrir dómi að bleyta hefði borist inn í anddyrið er hann féll í stiganum og það verið ástæða þess að hann rann. Af ljósmyndum, sem teknar voru eftir að framangreindar úrbætur voru gerðar, sést að fjórir samsíða borðar voru settir á stigapall í anddyri hússins, auk borða sem límdir voru á sjálf þrepin.

Fyrir dómi bar áfrýjandi að umrætt sinn hafi verið bleyta á ganginum ,,bara pollur þarna“ og hún tekist á loft í efsta þrepi stigans og ekki haft neitt til að grípa í. Hún hafi sennilega gengið hægra megin niður stigann. Þá kvað hún að sér væri mjög minnisstætt að engar mottur hafi verið í anddyrinu. Fyrrnefndur C bar hins vegar fyrir dómi að hann hefði keypt mottur um sumarið 2003 sem settar hafi verið við útidyr fasteignarinnar. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við bleytu sem bærist inn, en sagði að sér hafi alltaf fundist ,,sjálfar gólfflísarnar svolítið hálar“, en eins konar ,,hálkuvörn“ hefði hins vegar verið á öllum þrepunum, því brúnir þeirra voru með rákum í. Þá kvað hann að eftir slys áfrýjanda hafi verið settur upp miði við hlið lyftunnar, sem varaði við hálum flísum þegar komið væri inn á blautum skóm. Vitnið C kvað áðurnefnda límborða virka sem hálkuvörn, en yfirborð þeirra væri ekki ólíkt sandpappír og þeir væru notaðir víða.

II

Samkvæmt grein 202.10 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem ágreiningslaust er að tók til umræddrar fasteignar, telst einföld gangbreidd í tröppum vera 0,90 m. Á tröppum sem fara yfir einfalda gangbreidd skulu ávallt vera handrið beggja megin. Ágreiningslaust er að stiginn þar sem áfrýjandi féll var um 125 cm breiður. Áfrýjandi bar fyrir dómi að hún hafi gengið hægra megin niður stigann, þar sem ekki var handrið og því ekkert til að grípa í. Var umbúnaður stigans samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðarinnar um handrið beggja megin og með því dregið úr öryggi þeirra er leið áttu um stigann.

Vinnueftirliti ríkisins var ekki gert viðvart um slysið fyrr en 27. ágúst 2007. Jafnvel þótt ekki hafi verið fært að tilkynna um það innan sólarhrings, eins og áskilið er í 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefði tilkynning stefnda Landsnets hf. í kjölfar vitneskju hans um afleiðingar slyss áfrýjanda, er hún kom ekki til vinnu 26. mars 2007, getað varpað ljósi á hvort motta hafi verið við útidyr, en um það er ágreiningur í málinu. Þar sem ekki var tilkynnt um slysið fyrr en löngu síðar og áfrýjandi heldur því fram að engin motta hafi verið í anddyrinu, verður að leggja til grundvallar framburð hennar um það atriði og hlaut því vatn að eiga greiðari leið en ella inn í anddyri hússins.

Öryggisstjóri stefnda Landsnets hf. bar fyrir dómi að bleyta sem borist hafi inn í anddyrið hafi verið ástæða þess að hann missti fótanna í efsta þrepi stigans, um sjö mánuðum eftir að áfrýjandi féll í stiganum. Áfrýjandi lýsti atvikinu á sama veg í svokallaðri ÖHU skýrslu stefnda Landsnets hf. 9. maí 2007. Í kjölfar slyss öryggisstjórans voru gerðar úrbætur á umbúnaði stigans sem fólust í því að límdir voru fjórir samsíða borðar á stigapall í anddyri, auk þess sem límdir voru borðar á þrep stigans sem draga áttu úr hálku. Þá var sett upp aðvörun um hálar flísar í blautu veðri við hlið lyftu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið hefur áfrýjandi fært sönnur á að hálkuvörnum og umbúnaði stigans þar sem hún féll hafi verið ábótavant og stefndu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að varna því að menn sem leið ættu þar um rynnu á hálum flísunum ef blautt væri í veðri. Í ljós hefur verið leitt að ekki var um einstakt óhappatilvik að ræða. Bera báðir stefndu sök á tjóni hennar og eru ekki efni til þess að skipta sök milli þeirra og áfrýjanda eins og atvikum er háttað. Samkvæmt framansögðu verður krafa hennar tekin til greina og viðurkennt að stefndu beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því sem áfrýjandi hlaut.

Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, en ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndu, Landsnet hf. og Landsvirkjun, beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því er áfrýjandi, A, varð fyrir 20. mars 2007 að Krókhálsi 5c í Reykjavík.

Stefndu greiði sameiginlega 850.000 krónur í málskostnað í héraði er renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal óraskað.

Stefndu greiði áfrýjanda sameiginlega 850.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2014.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní sl., er höfðað af A, […], á hendur Landsneti hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík, og Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, með stefnu birtri 22. júlí 2013. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.      

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu, Landsnets hf. og Landsvirkjunar, vegna líkamsáverka er hún varð fyrir í vinnuslysi 20. mars 2007. Þá verði stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað óskipt samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Stefndi, Landsnet hf., krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 20. mars 2007 og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi, Landsvirkjun, krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 20. mars 2007 og að málskostnaður verði felldur niður.

Réttargæslustefndi gerir engar sjálfstæðar kröfur í málinu en tekur fram að hann taki undir málatilbúnað og málsástæður stefndu.

II.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru þau að um kl. 13.15, þriðjudaginn 20. mars 2007, var stefnandi, sem þá var starfsmaður stefnda Landsnets hf., á leið á fund í höfuðstöðvum þess fyrirtækis að Krókhálsi 5c þegar hún féll í stiga sem liggur frá anddyri hússins niður á næstu hæð. Féll hún niður á stigapall fyrir neðan með þeim afleiðingum að hún slasaðist og var óvinnufær um tíma af þeim sökum. Fasteignin var í eigu stefnda Landsvirkjunar en stefndi Landsnet hf. leigði skrifstofuhúsnæði á neðstu hæð.

Aðstæður á vettvangi eru þær að á gólfum og þrepum eru gegnheilar gólfflísar og á köntum þrepanna eru sérstakar þrepaflísar með riffluðum brúnum. Beint á móti innganginum eru lyftudyr en hægra megin við lyftuna er stigi niður á næstu hæð þar sem skrifstofur stefnda Landsnets hf. voru. Handrið er með stiganum vinstra  megin þegar gengið er niður og er það fest við vegg lyftuhússins.

Umræddan dag mun hafa rignt töluvert. Stefnandi heldur því fram að útidyrnar hafi verið búnar að standa lengi opnar, engin motta hafi verið þar fyrir innan og mikil bleyta og hálka því myndast innan við dyrnar. Báðir stefndu hafna þessu hins vegar alfarið sem röngu. Segja þeir að stór gólfmotta hafi verið þarna á gólfinu, auk þess sem á hurðinni hafi verið hurðapumpa þannig að dyrnar lokuðust sjálfkrafa.

Í kjölfar slyssins, eða 9. maí 2007, var gerð svokölluð ÖHU-skýrsla stefnda Landsnets hf. um slysið. Kemur þar meðal annars fram að hinn 11. júní sama ár hafi öryggisstjóri fyrirtækisins, ásamt starfsmanni stefnda Landsvirkjunar, farið á vettvang og skoðað aðstæður. Hafi það orðið niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið.

Stefndi Landsnet hf. tilkynnti Vinnueftirlitinu um slysið hinn 27. ágúst 2007.

Samkvæmt læknisvottorði frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 25. september 2007, leitaði stefnandi á slysa- og bráðadeildina í Fossvogi hinn 24. mars 2007. Kemur þar meðal annars fram eftirgreind sjúkdómsgreining slysa- og bráðadeildar: Brot á öðrum og ótilgreindum hlutum úlnliðs og handa, mar á öxlum og upphandlegg, tognun og ofreynsla á axlarlið og tognun og ofreynsla á lendhrygg.

Samkvæmt örorkumatsgerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. júlí 2009, var stefnandi metin til 16% varanlegrar örorku vegna umrædds slyss. Hinn 19. nóvember 2009 tóku Sjúkratryggingar Íslands endurskoðaða ákvörðun um slysaörorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins og var hún þá hækkuð í 23%.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafnaði rétti stefnanda til bóta úr húseigendatryggingu stefnda Landsnets hf. hjá réttargæslustefnda í úrskurði sínum hinn 26. september 2008.

Stefnandi sendi réttargæslustefnda bréf, dags. 11. desember 2012, þar sem þess var krafist að viðurkennd yrði bótaskylda úr almennri ábyrgðartryggingu tryggingarfélagsins vegna slyss stefnanda. Var bréf þetta ítrekað með bréfum, dags. 19. sama mánaðar og 16. janúar 2013.

Með kæru til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, dags. 23. janúar 2013, krafðist stefnandi þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefndu og greiðsluskylda réttargæslustefnda úr ábyrgðartryggingum stefndu hjá réttargæslustefnda vegna slyss stefnanda. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 19. mars 2013, var kröfu stefnanda vegna ábyrgðartryggingar stefnda Landsnets hf. hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að rekja mætti óhapp stefnanda til vanrækslu eða ófullnægjandi aðstæðna sem stefndi bæri ábyrgð á. Breytti í því sambandi engu þótt óhappið hefði ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins á sínum tíma.

Stefnandi fékk hins vegar greiddar bætur úr almennri slysatryggingu, sem stefndi Landsnet hf. hafði keypt fyrir starfsmenn sína, samtals að fjárhæð 9.159.476 krónur, með tveimur greiðslum hinn 5. október 2009 og 10. desember 2009, auk útlagðs kostnaðar. 

Við aðalmeðferðina voru teknar skýrslur af stefnanda og vitnunum B, öryggisstjóra stefnda Landsnets hf., D, skrifstofustjóra stefnda Landsnets hf., og C, starfsmanni stefnda Landsvirkjunar.

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi Landsnet hf. beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda vegna umrædds vinnuslyss á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar og sakarábyrgðarreglu skaðabótaréttar. Þá sé og byggt á því að stefndi Landsvirkjun beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda á grundvelli sakarábyrgðar, sem eigandi fasteignarinnar þar sem slysið varð og sem atvinnurekandi í húsnæðinu, sem beri ábyrgð á að gönguleiðir séu þar greiðar og öruggar. Vegna opinbers hlutverks stefnda Landsvirkjunar eigi fjölmargir þangað erindi og því sé enn mikilvægara en ella að aðkomuleiðir að húsnæðinu séu hættulausar með öllu.  

Bendir stefnandi á að bæði hin stefndu félög séu opinber félög í eðli sínu, en þau hafi verið stofnuð á grundvelli laga, sbr. lög um stofnun Landsnets nr. 75/2004 og lög um Landsvirkjun nr. 42/1983, þau starfi í þágu almannahagsmuna og séu bæði í meirihlutaeigu ríkisins. Þá verði að gera ríkar kröfur til vinnuveitenda og umráðaaðila fasteignar þar sem margir starfi, þannig að öryggi gangandi starfsmanna og viðskiptavinafyrirtækisins sé tryggt. Stefnandi telji að aðstæður í umræddum stigagangi hafi verið ófullnægjandi og slysahætta mikil. Hafi stefndu því ekki sinnt skyldu sinni og þar með orsakað slys stefnanda í greint sinn.

Stefnandi vísi til 17. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en þar komi fram að þar sem fleiri atvinnurekendur eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað skuli þeir og aðrir sem þar starfi sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.

Varðandi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu Landsvirkjunar og Landsnets hf. kveðst stefnandi einnig vísa til þeirra meginreglna sem fram koma í reglugerð nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Sérstaklega sé vísað til 2. og 4. tl. 3. gr. sem og 5. tl. 6. gr. Einnig skírskotar stefnandi til laga nr. 46/1980, sérstaklega til 4., 5., 12. og 13. gr., sem og c-liðar 43. gr. og  1. tl. 52. gr.

Stefnandi byggir á því að stiginn þar sem stefnandi féll fullnægi ekki ákvæðum 10. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1988, um hættulausa aðkomuleið að vinnustað, einkum 199. og 202. gr.

Samkvæmt skýrslu stefnda Landsnets um slysið komi fram að sams konar slys hafi átt sér stað nánast með nákvæmlega sama hætti sjö mánuðum síðar, eða 26. október 2007. Í kjölfar seinna slyssins hafi verið farið í lagfæringar á stigaganginum. Komi fram í skýrslunni að haft hafi verið samband við húsráðanda að Krókhálsi 5c og ákveðið að skoða hvað væri til ráða svo unnt væri að koma í veg fyrir álíka slys. Komi og fram í skýrslu, dags. 14. nóvember 2007, sem nefnist „úrbætur“, að C, starfsmaður stefnda Landsvirkjunar, ásamt öryggisstjóra stefnda Landsnets hf. hafi skoðað vettvang mjög vel og metið það svo að nauðsynlegt væri að setja borða með grófu yfirborði á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna. Settir hafi verið þrír til fjórir 25 mm límborðar á allar flísar, við upp- og niðurstig í stigaganginum. Með þessum aðgerðum hafi þeir metið það svo að ekki yrði betur gert til að koma í veg fyrir að slík óhöpp myndu endurtaka sig. Muni verkið hafi verið unnið hinn 30. október 2007.

Í ljósi ofangreinds liggi fyrir að starfsmenn stefnda Landsvirkjunar hafi verið sammála um að augljós hætta stafaði af inngangi húsnæðisins og stigaganginum og að öryggi á vinnustaðnum hefði verið verulega ábótavant. Umræddar ráðstafanir hafi fyrst komi til eftir að tvö slys hefðu orðið með svipuðum hætti í stigaganginum. Auðvelt hefði verið að fara í umræddar úrbætur til að draga verulega úr slysahættu, eins og fram komi í áðurnefndri skýrslu. Hins vegar hafi þær ráðstafanir komið of seint. Samkvæmt þessu megi ljóst vera í fyrsta lagi að raunveruleg hætta hafi stafað af stiganum, eins og hann hafi verið útbúinn, er stefnandi slasaðist. Í öðru lagi megi telja líklegt að líkamstjón gæti hlotist af því að einhver félli í stiganum. Í þriðja geti geti það vart hafa verið erfiðleikum bundið fyrir eiganda og rekstraraðila í húsnæðinu að gera sér grein fyrir hættuástandi því sem þarna hafi skapast þegar bleyta barst inn í anddyrið því stiginn sé þar í seilingarfjarlægð. Loks blasi við að auðvelt hafi verið að bæta úr og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón. Samkvæmt því liggi fyrir að bæði sé um að ræða huglæga ábyrgð stefndu gagnvart stefnanda en einnig hlutlæga ábyrgð á grundvelli reglugerðarbrots. 

Lögð sé áhersla á að engan veginn hafi verið auðvelt fyrir stefnanda að gera sér grein fyrir því hættuástandi sem myndast hafi sökum bleytunnar þennan dag, enda hafi verið um að ræða byggingu þar sem fyrirtæki í opinberri þjónustu höfðu aðsetur sitt og margir áttu leið um. Þegar slysið varð hafi engin skilti verið uppi til að vara gangandi vegfarendur við þeirri hættu sem stafað gæti af blautu gólfinu og aðbúnaði stigans. Úr þessu hafi síðan verið bætt í kjölfar seinna slyssins og með því verið viðurkennt að aðvörunar og úrbóta hefði verið þörf. Stefnandi hafi ekki haft neina ástæðu til að gæta sín sérstaklega þegar hún gekk inn um anddyri byggingarinnar í greint sinn, enda hafi hún mátt treysta því að gönguleiðir í byggingu hálfopinberra aðila væru öruggar. 

Bent sé á að engin motta hafi verið til staðar við útidyrahurðina á slysdegi og því hafi vatnið átt greiðan inngang inn í anddyrið, þar sem hurðin virðist hafa verið opin talsvert lengi. Bætt hafi verið úr þessu nokkru eftir slysið og mottu þá komið fyrir við útidyrahurðina. Hljóti það að teljast til alvarlegrar vanrækslu að skilja dyrnar eftir opnar, sérstaklega í ljósi veðurs og þess að engin motta hafi verið við útidyrahurðina til að hindra flæði vatns inn um dyrnar. Hefði starfsmönnum Landsvirkjunar mátt vera ljós sú slysahætta sem af kynni að hljótast.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið telji stefnandi að sök stefndu sé fyrir hendi, enda hafi þeir viðurkennt að stiginn hafi verið hættulegur og að fara þyrfti í úrbætur til að draga úr slysahættunni.

Þá bendi stefnandi á að einungis hafi verið handrið öðrum megin í umræddum stigagangi. Stefnandi hafi því ekki haft möguleika á því að stöðva fall sitt með því að grípa í handrið þeim megin sem hún féll og hún hafi ekki náð í handriðið hinum megin. 

Á því sé byggt að skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 sé skylt að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins, án ástæðulausrar tafar, öll slys þar sem starfsmaður verði óvinnufær í einn eða fleiri daga. Þar sem líkur séu á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna það eftirlitinu eigi síðar en innan sólahrings. Fram komi í gögnum málsins að slysið hafi ekki verið tilkynnt fyrr en 27. ágúst 2007 og því hafi slysið ekki verið rannsakað af vinnueftirlitinu. Sé í þessu sambandi bent á að fram komi í læknisvottorði til atvinnurekanda, dags. 24. mars 2007, að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi. Ljóst sé að vinnuveitanda hennar hafi mátt vera það ljóst að hún hefði orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og að aðstæður væru með þeim hætti að tilkynna þyrfti slysið og rannsaka það. Þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti hafi ekki verið rannsakað hvernig bleytan barst inn í anddyrið á slysadegi og hvort aðstæður hafi verið forsvaranlegar er slysið varð. Auðvelt hefði verið að rannsaka orsakir slyssins og með slíkri rannsókn hefði mátt leiða í ljós hvort aðbúnaður hafi verið í samræmi við lög og skráðar hátternisreglur. Sé á því byggt að þar sem slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti og rannsakað hljóti að verða að taka mið af lýsingu hennar af tjónsatburðinum.

Samkvæmt matsgerð E læknis vegna bóta úr launþegatryggingu, dags, 14. apríl 2009, hafi stefnandi tognað illa í baki, hálsi og öxlum í slysinu. Hafi einkenni og skoðun komið heim og saman við tognunaráverka af ýmsu tagi. Hafi hún alls verið metin til 25% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku og tímabundin örorka hennar hafi verið metin 100% frá slysdegi til 1. apríl 2008, en 50% frá þeim tíma til 15. september sama ár. Liggi því fyrir að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að gera viðurkenningarkröfu í málinu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda Landsnets hf.

Stefndi Landsnet hf. byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að óhapp stefnanda sé ekki að rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum, hvorki á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar né sakarábyrgðar, eins og stefnandi byggi á. Þá mótmæli stefndi því að húsnæðið hafi verið vanbúið á nokkurn hátt.

Inngangur, stigagangur og frágangur stiga að Krókhálsi 5c hafi verið hefðbundinn og viðurkenndur. Gólfmotta hafi verið innan við aðalinngang, anddyri hafi verið lagt hefðbundnum gólfflísum og stiginn verið lagður sérstökum þrepaflísum með riffluðum brúnum. Vinstra megin við stigann hafi verið handrið í 90 cm hæð. Hafi aðbúnaður og frágangur því verið í góðu lagi og gönguleiðir greiðar og öruggar. Með hliðsjón af þessu sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða gegn reglum settum með stoð í þeim lögum. Aðstæður í stigagangi húsnæðisins hafi uppfyllt allar opinberar kröfur sem gerðar séu til vinnustaða. Því sé og mótmælt að brotið hafi verið með einhverjum hætti gegn reglum nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Telji stefndi að ákvæði 2. og 4. tl. 3. gr. reglugerðarinnar, sem varði vinnurými, sem og 5. tl. 6. gr., sem varði gólf, séu uppfyllt að því marki sem ákvæðin geti átt við um húsnæðið. Þá sé ljóst að yfirborð gólfsins og stigans og allur frágangur hafi verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1988 og að engar athugasemdir hafi verið gerðar við frágang anddyris eða stigans af hálfu byggingaryfirvalda. Stefndi telji því fullljóst að tjón stefnanda verði ekki rakið til atvika sem hann sem vinnuveitandi beri skaðabótaábyrgð á eða hafi valdið með saknæmum hætti og sé því sérstaklega mótmælt að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins eða stigaganginum. 

Stefndi mótmælir því að gerðar verði ríkari kröfur til hans sem vinnuveitanda þar sem um opinbert fyrirtæki sé að ræða sem sé í meirihluta eigu ríkisins. Ekki sé um að ræða opinbert húsnæði þar sem fjöldi fólks þurfi að sækja þjónustu. Viðskiptavinir stefnda séu fáir og stórir notendur raforku sem ekki eigi oft leið um húsnæðið og verði því ekki lagðar sömu kvaðir á stefnda og aðila sem margir sæki sér þjónustu til, svo sem verslun eða opinbera þjónustuaðila. Þá sé því alfarið mótmælt að á stefnda hvíli hlutlæg ábyrgð vegna slyss stefnanda.

Rétt sé að annað óhapp hafi orðið hálfu ári seinna, er öryggisstjóri stefnda hafi fallið í stiganum. Hafi þá verið mjög blautt úti en enga bleytu hafi verið að sjá á gólfflísunum við stigann nema bleytu eftir hans eigin skóför. Í kjölfar síðara slyssins hafi verið settir borðar með grófu yfirborði fremst á stigaþrepin. Stefndi mótmæli því að frekari öryggisráðstafanir, borðar og skilti, í kjölfar síðara slyssins feli í sér viðurkenningu á að aðstæðum hafi verið ábótavant. Þá sé því mótmælt að starfsmenn stefnda hafi verið sammála um að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins og stigaganginum og að vinnustaðnum hafi verið verulega ábótavant.

Þegar stefnandi hafi slasast hefði ekkert slys orðið í stiganum áður og engin vitneskja legið fyrir hjá stefnda um að tröppurnar gætu reynst hálar í bleytu, önnur en almenn vitneskja um að allar flísar gætu reynst hálar í bleytu. Yfir þeirri vitneskju hafi stefnandi búið eða mátt búa. Ítrekað sé í þessu sambandi að hefðbundnar þrepaflísar með riffluðum brúnum hafi verið á stiganum en slíkar flísar sé að finna mjög víða í byggingum hér á landi. Hafi því ekki verið um að ræða hálli flísar en almennt tíðkist.

Mótmælt sé þeim fullyrðingum stefnanda að útidyrnar hafi staðið lengi opnar þennan dag, sem og að motta hafi ekki verið fyrir innan dyrnar. Báðar þessar fullyrðingar séu rangar og ósannaðar.

Stefndi vísi til þess að byggingarreglugerð geri ekki kröfu um að handrið sé beggja vegna stiga sem þessa. En að auki sé á því byggt að stefnandi hafi vitað að ekki væri handrið beggja vegna og því hafi henni borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu og ganga niður stigann þeim megin sem handriðið sé.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðbúnaði fasteignarinnar hafi verið ábótavant sé á því byggt að meðstefndi beri skaðabótaábyrgð á því sem eigandi fasteignarinnar en ekki stefndi.

Mótmælt sé þeirri staðhæfing stefnanda að leggja verði lýsingu hennar til grundvallar þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt fyrr en síðar. Fyrir liggi að stefnandi hafi haldið áfram vinnu sinni þennan þriðjudag og út vikuna en leitað til læknis á laugardegi. Hafi yfirmenn hennar ekki vitað af slysinu fyrr en síðar og því ekki haft tök á að tilkynna það til vinnueftirlitsins samdægurs. Ljóst sé að þegar stefnandi hafi tilkynnt um atvikið til stefnda hafi öll hugsanleg bleyta verið þornuð upp, hafi hún á annað borð verið á gólfinu. Hefði því rannsókn Vinnueftirlits ekkert frekar leitt í ljós en fyrir liggi í máli þessu. Séu því engin skilyrði að lögum til að draga úr sönnunarkröfu í garð stefnanda, sem beri sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og umfang þess.

Fyrir liggi að blautt hafi verið úti þennan dag. Stefnandi hafi því vitað, eða mátt vita í ljósi almennrar þekkingar, að flísar gætu verið hálar í bleytu og að sýna bæri fyllstu varkárni í samræmi við það. Hún hafi þekkt aðstæður að Krókhálsi 5c og ekki verið að koma þar í fyrsta sinn, en hún hafi starfað hjá stefnda sem umsjónarmaður fasteignar hans á […]. Í ljósi þekkingar hennar og reynslu hafi henni borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu í umrætt sinn. Stefndi telji að slys stefnanda sé einkum að rekja til óhappatilviks og hugsanlegrar óaðgæslu hennar sjálfrar en ekki á nokkurn hátt til saknæmrar háttsemi af hálfu stefnda eða starfsmanna hans.

Varakrafa stefnda byggi í fyrsta lagi á því að stefnandi verði að bera mestan hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar og skorts á tilhlýðilegri aðgæslu. Um nánari rökstuðning vísist til rökstuðnings aðalkröfu eftir því sem við eigi. Í öðru lagi sé á því byggt að stefndi sé ekki skaðabótaábyrgur vegna þess tjóns sem rakið verði til vanbúnaðar fasteignarinnar.

V.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda Landsvirkjunar

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að fyrirtækið beri ekki ábyrgð lögum samkvæmt á líkamstjóni stefnanda, hvorki á grundvelli sakarábyrgðar, sem eigandi fasteignarinnar þar sem stefnandi slasast, né sem atvinnurekandi í húsnæðinu. Einnig sé á því byggt að ósannað sé að slysið megi rekja til vanbúnaðar á fasteigninni, ófullnægjandi aðstæðna í stigagangi eða annarra þátta sem stefndi beri ábyrgð á lögum samkvæmt.

Stefndi sé sameignarfyrirtæki í eigu ríkissjóðs og Eignarhluta ehf., sem sé sjálfstæður réttaraðili er stundi starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni, á grundvelli laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Stefndi stundi ekki starfsemi sem talist geti til hefðbundinnar opinberrar starfsemi, þrátt fyrir að vera í meirihlutaeigu íslenska ríkisins, og sé fyrirtækinu ætlað að lúta lögmálum samkeppnismarkaðar samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003. Starfsemi stefnda og starfsstöðvar hans verði því ekki lagðar að jöfnu við húsnæði opinberra stofnana eða bygginga ætluðum almenningi, s.s. pósthús, verslanir, sjúkrahús, skóla, leikhús og sundlaugar. Þá bendi stefndi á að hann hafi haft með höndum mjög takmarkaða starfsemi í húsnæðinu og þangað hafi viðskiptamönnum hans að jafnaði ekki verið stefnt. Sé því mótmælt að við lýði sé strangara sakarmat en ella vegna eignarhalds, tilgangs eða annarra þátta sem snúi að starfsemi stefnda og að á honum hvíli hlutlæg ábyrgð vegna slyssins.

Stefndi byggi á því að hann hafi uppfyllt allar skyldur sem á honum hafi hvílt sem eiganda húsnæðisins að Krókhálsi 5c, með tilliti til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerðar nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Allar aðstæður og aðbúnaður hafi verið í samræmi við þær kröfur sem lögin og reglurnar geri ráð fyrir og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi sem húseigandi gerst brotlegur við eða ekki uppfyllt tilvísuð ákvæði þeirra.

Harðlega sé mótmælt þeim fullyrðingum stefnanda að aðstæður í stigagangi fasteignarinnar hafi verið ófullnægjandi og slysahætta mikil og hafi það orsakað slys stefnanda. Engin vitni hafi verið að slysinu en stefnandi hafi sjálf lýst aðstæðum með þeim hætti að mögulega hafi bleyta borist inn í anddyri húsnæðisins og gert flísarnar þar hálar, án þess að slíkt sé fullyrt eða því haldið beinlínis fram. Fyrir liggi að útidyr hússins hafi á slysdegi verið útbúnar með hurðapumpu sem hafi séð til þess að dyrnar lokuðust sjálfkrafa. Umræddan dag hafi vindur staðið upp á austurgafl hússins en útidyr snúi hins vegar í suður og því ómögulegt að vindur hafi nokkur áhrif haft á vatnsburð inn í húsið. Að auki hafi verið stór motta til staðar í anddyri hússins. Stefndi hafi því gætt þess að aðstæður væru eins öruggar og kostur væri.

Gólfflísar í anddyri og stigagangi húsnæðisins uppfylli allar þær kröfur sem gerðar séu til þess háttar gólfbúnaðar og yfirborð gólfflísa í stiganum, sem stefnandi hafi fallið í, séu með riffluðu yfirborði til að auka viðnám. Breidd stigans sé 118 cm frá vegg í handrið stigans, sem sé vinstra megin þegar gengið sé niður, og sé handriðið í 90 cm hæð. Í stiganum séu níu þrep og sé hæð hvers þreps á bilinu 16,5-17 cm og hæð stigans frá efsta þrepi að stigapalli, sé 150 cm. Stigflötur hvers þreps sé á bilinu 27-28 cm og uppfylli stiginn því öll viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar með talið ákv. 199. og 202. gr.

Þar sem rigning hafi verið á slysdegi hafi stefnanda mátt vera ljóst á grundvelli almennrar þekkingar að flest gólfefni geti verið hál í bleytu, án þess að um nokkurn vanbúnað sé að ræða. Stefnandi hafi starfað sem umsjónarmaður fasteigna hjá meðstefnda og því þekkt til húsnæðisins að Krókhálsi 5c. Stefndi telji að fall stefnanda hafi verið óhappatilvik sem enginn beri skaðabótaábyrgð á, en hugsanlega megi rekja óhappið til óvarkárni stefnanda, sem verði undir þeim kringumstæðum að bera tjón sitt sjálf vegna eigin sakar.

Rúmu hálfu ári síðar, eða hinn 26. október 2007, hafi orðið annað óhapp í húsnæðinu, þegar öryggisstjóri meðstefnda hafi fallið í sama stiga. Fram komi í lýsingu hans á atburðinum, sem liggi fyrir í málinu, að þennan dag hafi verið mjög blautt og skór hans því blautir. Ekki hafi þó verið að sjá neina bleytu á gólfflísum við stigann nema bleytu eftir skóför hans. Í kjölfar þessa óhapps hafi verið settir límborðar á allar flísar við upp- og niðurstig í stigaganginum til þess að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtæki sig, eins og segir í framkvæmdalýsingu í sama skjali, en öryggisstjóri meðstefnda og fulltrúi stefnda hafi annast framkvæmdina. Starfsmaðurinn hafi því metið fallið sem óhappatilvik en ekki rakið það til vanbúnaðar á fasteigninni.

Sé því mótmælt að framkvæmdir í kjölfar óhappsins hafi falið í sér viðurkenningu á að öryggi á vinnustaðnum hafi verið ábótavant eða að augljós hætta hafi stafað af inngangi húsnæðisins og stigaganginum. Þá sé því mótmælt að lýsing stefnanda á tjónsatburðinum verði lögð til grundvallar í málinu, þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti til Vinnueftirlitsins og rannsakað. Þannig sé fram komið að tilkynning stefnanda til meðstefnda um slysið hafi ekki borist fyrr en nokkrum dögum eftir atburðinn og því hafi meðstefnda ekki verið mögulegt að tilkynna um það samdægurs, enda hafi stefnandi haldið áfram störfum næstu daga. Komist dómurinn þrátt fyrir það að þeirri niðurstöðu að taka skuli mið af atvikalýsingu stefnanda verði meðstefndi að bera hallann af því en ekki stefndi, þar sem tilkynningarskyldan hvíli á honum skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 en ekki stefnda.

Til stuðnings varakröfu sé í fyrsta lagi á því byggt að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar. Vísist til málsástæðna og rökstuðnings um aðalkröfu, eftir því sem við eigi um nánari rökstuðning. Einnig sé á það bent að blautt hafi verið úti í greint sinn og mögulegt að einhver bleyta hafi verið á skóm stefnanda. Stefnandi hefði því átt að sýna tilhlýðilega aðgæslu og notast við lyftuna í stað þess að ganga stigann, án þess að sýna þar nægjanlega aðgæslu, með þeim afleiðingum að hún hafi fallið. Verði stefnandi að bera hallann af eigin óvarkárni.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að slys stefnanda verði með einhverjum hætti rakið til vanbúnaðar eða ófullnægjandi öryggisþátta húsnæðisins sé í öðru lagi á því byggt, með vísan til 17. gr. laga nr. 46/1980, að skaðabótaábyrgð skuli skipt milli stefndu.

VI.

Niðurstaða

Eins og fram er komið á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til slyss er varð þegar stefnandi féll í stiga húseignarinnar að Krókhálsi 5c, þriðjudaginn 20. mars 2007. Var húseignin á þeim tíma í eigu stefnda Landsvirkjunar en stefndi Landsnet hf. leigði skrifstofuhúsnæði á neðstu hæðinni undir höfuðstöðvar sínar. Stefnandi var á þeim tíma starfsmaður Landsnets hf. og átti því oft leið þarna um, að hennar sögn, þó fastur vinnustaður hennar væri annars staðar.

Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en 27. ágúst 2007 og fór því ekki fram nein rannsókn á vegum eftirlitsins á slysstaðnum. Hafa stefndu haldið því fram að þeir hafi ekki haft tök á því að tilkynna slysið samdægurs þar sem stefnda hafi ekki látið vinnuveitanda sinn, stefnda Landsnet hf., vita um slysið fyrr en nokkru síðar. Hafi þá öll hugsanleg bleyta verið þornuð upp hafi hún á annað borð verið á gólfinu þegar slysið var. Fram kom hjá stefnanda fyrir dóminum, og sömuleiðis í tilkynningu hennar til Tryggingastofnunar ríkisins um slysið, að hún hafi mætt til vinnu sinnar næstu daga eftir slysið og ekki leitað til læknis vegna þess fyrr en laugardaginn á eftir, hinn 24. mars 2007. Hins vegar kvaðst hún hafa sagt tilteknum samstarfsmanni sínum frá slysinu er hún kom á vinnustað sinn á ný strax eftir slysið, en engin staðfesting kom þó fram á því fyrir dóminum. Þar sem ekkert annað er komið fram í málinu verður hér við það miðað að stefndu hafi í fyrsta lagi fengið vitneskju um slysið þann dag er stefnandi var fyrst fjarverandi frá vinnu sinni vegna afleiðinga slyssins, mánudaginn 26. sama mánaðar. Með hliðsjón af framangreindu verður hér lagt til grundvallar að stefndu hafi verið ómögulegt að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvíldi skv. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga sömu laga, að tilkynna um umrætt slys innan sólarhrings til Vinnueftirlitsins. Að því virtu þykir eins og hér háttar, og þrátt fyrir þann drátt sem eftir það varð á því að umræddri tilkynningarskyldu væri sinnt, ekki efni til að láta það hafa áhrif á sönnunarstöðu aðila í málinu.

Í kjölfar slyssins var gerð svokölluð ÖHU-skýrsla Landsnets um atburðinn. Er annars vegar um að ræða skráða lýsingu stefnanda á slysinu og aðdraganda þess, dags. 9. maí 2007, og hins vegar skýrslu B, öryggisstjóra stefnda Landsnets hf., um könnun sem gerð var á aðstæðum á staðnum og hugsanlegar úrbætur til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi. Í skýrslu stefnanda kemur fram eftirfarandi: „Vildi ekki betur til en svo að ég féll úr efstu tröppu og niður á stigapallinn fyrir neðan. Hæðarmunur er um það bil 1,5 m og þrepin 9. Þennan dag var mjög mikil rigning og ekki ósennilegt að flísarnar inni hafi verið hálar, vegna bleytu sem barst inn.“ Þá kemur fram í skýrslu öryggisstjórans að vegna slyssins hafi hann og C, fulltrúi stefnda Landsvirkjunar, skoðað aðstæður þar sem atvikið gerðist hinn 11. júní 2007. Hafi það verið niðurstaða þeirra að ekkert væri hægt að gera til lagfæringar á staðnum þar sem allur frágangur í stigaganginum væri eins og best yrði á kosið. Loks kemur fram í lok skýrslunnar að D, skrifstofustjóri stefnda Landsnets hf., hefði rýnt þessa niðurstöðu skýrslunnar og að það væri hans mat að ekki yrði frekar aðhafst í málinu hvað húsnæðið varðaði. Þar væri allt eins og best yrði á kosið og að um einstakt óhapp hefði verið að ræða sem engin ástæða væri til að þyrfti að endurtaka sig. Í vitnaskýrslum framangreindra manna fyrir dómi staðfestu þeir allt framangreint.

Í málinu liggja frammi ljósmyndir af vettvangi auk þess sem dómari skoðaði sjálfur vettvang, eins og áður er fram komið. Anddyrið er lagt hefðbundnum gólfflísum og stiginn er lagður sérstökum þrepaflísum með riffluðum brúnum. Í miðju anddyrinu er lyfta en til hægri við hana liggur umræddur stigagangur niður á neðri hæð hússins og er handrið í 90 cm hæð, vinstra megin við stigaþrepin. Var allur umbúnaður stigagangsins og anddyrisins sagður vera sá hinn sami og þegar slysið varð, að því undanskildu að umdeilt er hvort motta, sem nú er til staðar fyrir innan innganginn í húsið, hafi verið þar þegar slysið varð. Þá höfðu til viðbótar verið límdir svartir límborðar á allar gólfflísar við hvert niðurstig trappanna. Er fram komið að það hafi verið gert í kjölfar annars slyss sem varð á sama stað hinn 26. október sama ár þegar fyrrgreindur öryggisstjóri stefnda Landsnets hf. rann til og féll efst í stiganum og niður á stigapallinn fyrir neðan. Kemur fram í fyrirliggjandi ÖHU-skýrslu stefnda Landsnets hf. um þann atburð, og í skýrslu öryggisstjórans fyrir dómi, að borðarnir hafi verið settir á í tilraunaskyni til að reyna enn frekar að draga úr líkum á að fólk rynni í tröppunum, þó menn hafi gert sér grein fyrir því að slíkir borðar með stömu yfirborði gætu hugsanlega verið varasamir ef fólk kæmi þar hratt að.

Þrátt fyrir að tvö slys hafi orðið með svipuðum eða sama hætti á umræddum stað er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á annað en að allur frágangur við innganginn í húsið, anddyrið og stigann þar sem slysið varð hafi verið með hefðbundnum og viðurkenndum hætti. Verður stefnandi ekki talin hafa sýnt fram á þá fullyrðingu sína að engin motta hafi verið innan við útidyrahurðina og því hafi bleytupollur verið þar á, enda hefur vitnið B borið fyrir dómi að hann hafi löngu áður keypt og komið þarna fyrir mottu innan við dyrnar.

Fram er komið að húsnæðið var að hluta starfsstöð vinnuveitanda stefnanda, stefnda Landsnets hf., og að stefnandi hafði í fjölmörg skipti átt þar leið um og þekkti því vel allar aðstæður. Umræddan dag var rigning og bleyta úti og því mátti stefnandi búast við að flísar í inngangi og tröppum hússins gætu verið hálar. Skiptir þá ekki máli hvort einhver bleyta hafi borist inn, þannig að flísarnar við dyrnar væru blautar, eða hvort bleyta sem stefnandi hafi borið inn með sér hafi leitt til þess að hún rann til og féll. Var allt að einu brýnt fyrir hana að sýna ýtrustu varkárni fyrst hún valdi við þær aðstæður að ganga niður stigann í stað þess að taka lyftuna, sem einnig var möguleiki. Er það álit dómsins að ekki hafi verið ljós slysahætta vegna aðstæðna í stigaganginum í greint sinn og hefur ekki verið leitt í ljós að vanbúnaður hafi átt þátt í slysi stefnanda.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að aðstæður í anddyri og stigagangi hússins að Krókhálsi 5c hafi ekki verið með þeim hætti að á stefndu verði lögð ábyrgð á því slysi sem stefnandi varð fyrir og að það verði ekki rakið til annars en óhappatilviljunar og aðgæsluleysis stefnanda. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 850.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Landsnet hf. og Landsvirkjun, eru sýknaðir af kröfu stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 850.000 krónur.