Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. apríl 2002.

Nr. 186/2002.

Höfin sjö hf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Guðfinni Pálssyni og

Fasteignafélaginu Rán ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Þinglýsing.

Hæstiréttur hafnaði kröfu H hf. um að því yrði heimilað að þinglýsa í lausafjárbók framhalds- og sakaukastefnu í máli sínu á hendur G og F ehf. vegna lausafjármuna, sem hefðu fylgt nánar tiltekinni fasteign við nauðungarsölu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 19. mars 2002, þar sem meðal annars var hafnað kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá þinglýst í lausafjárbók sýslumannsins á Patreksfirði framhalds- og sakaukastefnu í máli sínu á hendur varnaraðilum vegna lausafjármuna, sem hafi fylgt nánar tiltekinni fasteign við nauðungarsölu. Kæruheimild er í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að heimiluð verði þinglýsing umræddrar stefnu í lausafjárbók.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga, sem er meðal ákvæða IV. kafla þeirra um þinglýsingar, sem varða fasteignir, er kveðið á um heimild þess, sem sækir fyrir dómstóli mál varðandi réttindi yfir fasteign, til að leita úrskurðar héraðsdómara um að þinglýsa megi stefnu í málinu. Þessari heimild verður jafnframt beitt til að fá þinglýst stefnu í dómsmáli varðandi réttindi yfir skrásettu skipi, 5 rúmlestir og stærri, sbr. V. kafla þinglýsingalaga, og stefnu í dómsmáli varðandi réttindi yfir skrásettu skráningarskyldu skipi minna en 5 rúmlestir, sbr. VI. kafla laganna, en um þetta er beinlínis mælt fyrir með tilvísunum til 28. gr. laganna í 1. mgr. 40. gr. og 46. gr. þeirra. Í 5. mgr. 47. gr. þinglýsingalaga, sem heyrir til reglna VII. kafla þeirra, er að finna upptalningu á þeim ákvæðum IV. kafla laganna, sem gilda um þinglýsingar varðandi lausafé almennt. Þar er ekki vísað til 28. gr. laganna. Af þessu leiðir beinlínis að lagaheimild brestur til að verða við kröfu sóknaraðila um heimild til að fá þinglýst fyrrnefndri stefnu að því er lausafjármuni varðar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 19. mars 2002.

Mál þetta barst dómnum hinn 11. mars sl. og var tekið til úrskurðar 15. s.m.

Sóknaraðili, Höfin sjö hf., Laugavegi 97, Reykjavík, krefst þess að heimiluð verði þinglýsing stefnu í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, Guðfinni Pálssyni, Aðalstræti 118 a, Patreksfirði, á fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð, ehl. II, Patreksfirði.  Þá er þess krafist að einnig verði heimilað að þinglýsa á þessa sömu fasteign stefnu í framhalds- og sakaukasök, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn Fasteignafélaginu Rán ehf., Aðalstræti 52, Patreksfirði.  Einnig er þess krafist að „heimild til þinglýsingar verði einnig látin ná til þinglýsingar í lausafjárbók embættis sýslumannsins á Patreksfirði, vegna þeirra lausafjármuna sem fylgdu fasteigninni við nauðungarsölu.“

Varnaraðilar krefjast þess að synjað verði um heimild til þinglýsingar.

I.

Mál, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila Guðfinni Pálssyni með þeirri stefnu sem hann krefst að verði þinglýst, var þingfest hinn 13. febrúar sl. og er nr. E-9/2002 í málaskrá.   Þar er þess krafist að viðurkennt verði með dómi ógildi framsals Jóns A. Pálmasonar hinn 19. desember sl. á boði sóknaraðila í ofan­nefndan eignarhluta í fiskverkunarhúsi við Patrekshöfn við nauðungarsölu hinn 25. nóvember sl. Málavöxtum er þar svo lýst að stefnandi, sóknar­aðili þessa máls, hafi falið stjórnarmanni sínum að bjóða fyrir sína hönd í eignina.  Hafi sóknaraðili orðið hæstbjóðandi og átt að greiða fyrstu greiðslu til sýslumanns hinn 18. desember sl., en ekki getað það.  Beðið hafi verið um frest til 20. desember til að inna greiðsluna af hendi, en sýslumaður hafi krafist þess að greiðsla bærist áður en skrifstofutími rynni út hinn 19., að því viðlögðu að tekið yrði boði næstbjóðanda.  Kveður sóknaraðili sýslumann þó hafa tekið við greiðslu hinn 20. desember, en þá frá varnaraðila Guðfinni Pálssyni, en stjórnarmaður sóknaraðila framseldi honum réttindi og skyldur sóknaraðila samkvæmt boðinu hinn 19. desember sl.  Kveður sóknaraðili sig ekki vera bundinn af þeirri ráð­stöfun, þar sem tvo stjórnarmenn þurfi til að skuldbinda hann. 

Samkvæmt ljósriti afsals 28. febrúar sl. afsalaði sýslumaðurinn á Pat­reks­firði eigninni þann dag til varnaraðila Fasteignafélagsins Ránar ehf., að undangengnu framsali boðs til þess aðila frá varnar­aðila Guðfinni Pálssyni.

Sóknaraðili hefur höfðað framhalds- og sakaukasök gegn varnaraðila Fasteignafélaginu Rán ehf.  Er þess þar krafist að varnaraðili verði dæmdur til að gefa út afsal fyrir eigninni til sóknaraðila, gegn nánar greindri peningagreiðslu.

Sóknaraðili kveður ýmsa lausafjármuni, samkvæmt framlögðum lista, hafa verið selda nauðungarsölu ásamt fasteigninni.

II.

Með úrskurði dómsins 11. mars sl. var sóknaraðila synjað um heimild til þinglýsingar stefnu í frumsök.  Samkvæmt lögjöfnun frá ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ber nú að vísa kröfu sóknaraðila um þinglýsingu þessarar stefnu frá dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 39/1978 getur dómur ákveðið með úr­skurði að þinglýsa megi stefnu eða útdrætti úr henni, ef mál sem varðar réttindi yfir fasteign er sótt fyrir dómstóli.  Mál samkvæmt framhalds- og sakaukasök hefur verið höfðað gegn varnaraðila Fasteignafélaginu Rán ehf. og er því fullnægt því skilyrði að það sé sótt fyrir dómstóli, þótt það hafi ekki ennþá verið þingfest.  Málið varðar réttindi yfir fasteign, með því að krafa er gerð um útgáfu afsals fyrir eigninni.  Ekki er fært að taka hér efnislega afstöðu til þeirra krafna sem sóknaraðili hefur uppi í greindri framhalds- og sakaukasök.  Með því að skilyrði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 39/1978 eru uppfyllt, verður veitt heimild til þinglýsingar fram­halds- og sakaukastefnu.  Ákvæðið tekur einvörðungu til réttinda yfir fasteignum.  Samkvæmt gagnályktun frá því verður því synjað um heimild til að þinglýsa stefnunni í lausafjárbók.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Úskurðarorð:

Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila, Hafanna sjö hf., um heimild til að þinglýsa stefnu í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, Guðfinni Pálssyni, á fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð, ehl. II, Patreksfirði. 

Heimilt er að þinglýsa á greinda fasteign stefnu í framhalds- og sakaukasök, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn Fasteignafélaginu Rán ehf.

Synjað er beiðni sóknaraðila um heimild til að þinglýsa sömu stefnu í lausa­fjár­bók.