Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-70
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Kynferðisleg áreitni
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 19. apríl 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 335/2023: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið yfir rass brotaþola og strokið yfir og káfað á kynfærum hennar utanklæða þar sem hún lá uppi í rúmi. Jafnframt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu leyfisbeiðanda, fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola 500.000 krónur í miskabætur.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að beiðni um leyfi til áfrýjunar málsins lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu sem varði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 109. gr. laga nr. 88/2008. Hafi ákvæði þessi verið virt að vettugi með dómi Landsréttar sem gefi fordæmi um sakfellingu sakbornings án þess að sök hans hafi verið sönnuð með fullnægjandi hætti. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að meðferð málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið litið til allra þeirra atriða sem nauðsynlegt var að líta til við mat á sekt hans eða sýknu. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur, enda hafi leyfisbeiðandi verið sakfelldur án viðhlítandi sönnunargagna.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.