Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 19. janúar 2015. |
|
Nr. 12/2015.
|
Glitnir hf. (Jón Elvar Guðmundsson hdl.) gegn ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl.) |
Kærumál. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með beiðni í febrúar 2011 sótti G hf. um heimild til samsköttunar með dótturfélögum sínum, þar á meðal GH ehf. Með ákvörðun R var umsókninni hafnað. G hf. höfðaði mál gegn R og Í til þess að fá ákvörðuninni hnekkt fyrir dómi auk þess sem krafist var viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna hennar annars vegar og lögfestingar tiltekins lagaákvæðis hins vegar. Til stuðnings viðurkenningarkröfum sínum vísaði G hf. til þess að GH ehf. hefði greitt mun hærri tekjuskatt á árunum 2011 til 2013 en ef félögin hefðu verið samsköttuð. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var tekið fram að G hf. hefði höfðað mál þetta einn án aðildar GH ehf. og því kæmi ætlað tjón þess félags ekki til umfjöllunar. Talið var að G hf. hefði ekki sýnt fram á að hann hefði lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, af því að fá sérstaklega leyst úr viðurkenningarkröfum sínum enda væru þær efnislega reistar á sömu málsástæðum og krafa hans um ógildingu ákvörðunar R. Yrði fallist á eina eða fleiri af þessum málsástæðum, þannig að það myndi varða ógildingu ákvörðunarinnar, yrði að ætla að GH ehf. ætti kröfu um endurgreiðslu oftekins skatts á hendur Í. Hefði G hf. ekki fært rök fyrir því að sú niðurstaða myndi ekki ná að rétta hlut hans sem eiganda GH ehf. með viðhlítandi hætti. Voru viðurkenningarkröfum G hf. því vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðilum, ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu, hvorum fyrir sig 175.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2014.
I.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 18. nóvember sl., er höfðað 26. maí sl. af Glitni hf., Sóltúni 26 í Reykjavík, gegn Ríkisskattstjóra, Laugavegi 166 í Reykjavík, og íslenska ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega eftirfarandi:
i) að felld verði úr gildi ákvörðun Ríkisskattstjóra frá 24. maí 2011 um að synja stefnanda og dótturfélögum hans um heimild til samsköttunar skv. 55. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og
ii) að viðurkennt verði með dómi að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ákvörðunar Ríkisskattstjóra frá 24. maí 2011 um að synja stefnanda og dótturfélögum hans um heimild til samsköttunar skv. 55. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
Til vara gerir stefnandi eftirtaldar kröfur:
i) að felld verði úr gildi ákvörðun Ríkisskattstjóra frá 24. maí 2011 um að synja stefnanda og dótturfélögum hans um heimild til samsköttunar samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt vegna gjaldársins 2011, og
ii) að viðurkennt verði með dómi að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ákvörðunar Ríkisskattstjóra frá 24. maí 2011 um að synja stefnanda og dótturfélögum hans um heimild til samsköttunar skv. 55. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, vegna gjaldársins 2011.
Til þrautavara gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna lögfestingar 8. gr. laga nr. 165/2010. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast þess aðallega að liðum ii) í aðal- og varakröfu og þrautavarakröfu verði vísað frá dómi og að stefndu verði sýknaðir af öllum öðrum kröfum stefnanda. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Málið var flutt um frávísunarkröfu stefndu 18. nóvember sl. og er sú krafa einungis til umfjöllunar í úrskurði þessum. Í þeim þætti málsins krefst stefnandi að frávísunarkröfunni verði hafnað.
II.
Eins og greinir í stefnu er stefnandi félag í slitameðferð samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í árslok 2009 mun stefnandi hafa gert samkomulag við íslenska ríkið þess efnis að stefnandi eignaðist meirihluta í Íslandsbanka hf., en þeim banka hafði verið komið á fót í október 2008 og hann tekið við ýmsum eignum og skuldbindingum stefnanda. Stefnandi segir að hlutur hans í Íslandsbanka hf. nemi 95% af hlutafé bankans og að íslenska ríkið eigi 5% í honum. Í stefnu greinir svo frá að eignarhald stefnanda á Íslandsbanka hf. sé í höndum félagsins ISB Holding ehf., en það félag mun vera í fullri eigu GLB Holding ehf. sem er 100% dótturfélag stefnanda. Fram kemur í stefnu að GLB Holding ehf. eigi þrjú önnur félög, þ.e. SAT Eignarhaldsfélag hf., GL Investments ehf. og Steinvirki ehf. Saman myndi þessi dótturfélög ásamt stefnanda samstæðu og að svo hafi verið frá árslokum 2009.
Í október 2009 leitaði Kaupþing banki hf. og Kaupskil ehf. eftir bindandi áliti stefnda Ríkisskattstjóra meðal annars á því hvort álitsbeiðendur og Nýi Kaupþing banki hf. uppfylltu skilyrði samsköttunar samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2003 frá og með 1. janúar 2010. Því var hafnað af hálfu Ríkisskattstjóra með bindandi áliti frá 3. febrúar 2010. Álitið var kært til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð 27. október sama ár í tilefni af kærunni. Þar var fallist á að skilyrði samsköttunar væru uppfyllt.
Með 8. gr. laga nr. 165/2010 var bætt við 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003 nýrri málsgrein sem var svohljóðandi: „Samsköttun skal þó falla niður með félagi sé það tekið til gjaldþrotameðferðar eða sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002.“ Lögin voru birt í Stjórnartíðindum 30. desember 2010 og tóku því gildi 31. sama mánaðar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2010 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, sbr. b-lið 69. gr. laga nr. 165/2010.
Stefnandi sótti 1. febrúar 2011 um heimild til samsköttunar með framangreindum dótturfélögum sínum fyrir rekstrarárið 2010 og síðari rekstrarár. Með ákvörðun Ríkisskattstjóra 24. maí 2011 var umsókn stefnanda um samsköttun hafnað með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003 eins og henni hafði verið breytt með 8. gr. laga nr. 165/2010. Sérstaklega var þar vísað til þess að í 55. gr. laganna væri kveðið á um það að skilyrðin þyrftu að vera uppfyllt allt viðkomandi tekjuár.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Með málshöfðun sinni freistar stefnandi þess að fá framangreindri ákvörðun Ríkisskattstjóra hnekkt fyrir dómi auk þess sem krafist er viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins, vegna hennar. Stefnandi styður kröfur sínar ýmsum rökum. Rétt er að víkja að þeim í stuttu máli. Í fyrsta lagi telur hann túlkun stefnda Ríkisskattstjóra á 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003 vera ranga. Því til stuðnings vísar stefnandi til nefndarálits meirihluta efnahags- og skattanefndar, en hann telur að hvorki orðalag ákvæðisins né „löggjafarviljinn“, eins og hann komi fram í nefndarálitinu, girði fyrir það að félag, sem þegar er í slitameðferð, verði samskattað með dótturfélögum sínum eftir að slitameðferð hefst. Þá standi engin rök til þess að skapa óhagræði í rekstri fjármálastofnunar í slitameðferð með því að setja skorður við samsköttun þess með dótturfélögum, en það sé til þess fallið að skaða möguleika þess til endurskipulagningar og farsæls rekstrar. Þá sé eðlilegt að ákvæðið sé skýrt þrengri lögskýringu eða allavega samkvæmt orðanna hljóðan.
Verði ekki fallist á framangreind rök reisir stefnandi kröfur sínar á því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, eins og því hafi verið breytt með lögum nr. 165/2010, mismuni stefnanda á ómálefnalegan hátt þannig að það fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar og óskráða jafnræðisreglu skattaréttar. Vísar stefnandi til þess að honum hafi með lögfestingu ákvæðisins verið gert ókleift að vera samskattaður með dótturfélögum sínum vegna þess að hann eigi í rekstrarerfiðleikum eins og fjölmörg önnur félög sem þó séu ekki látin lúta sömu íþyngjandi reglum.
Verði ekki fallist á þessi rök byggir stefnandi á því að í öllu falli sé um afturvirka skattlagningu að ræða sem ekki geti komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi á rekstrarárinu 2011. Því taki hún ekki til rekstrarársins 2010. Jafnframt er á því byggt að af fyrrgreindri lagabreytingu leiði ekkert annað en upptaka eigna stefnanda, sem ekki verði gerð nema fullt verð komi fyrir samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er á því byggt að ákvæðið sem um ræði brjóti gegn stjórnskipulegri meðalhófsreglu.
Til stuðnings viðurkenningarkröfu um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vísar stefnandi til þess að skilyrði skaðabótaréttar um saknæmi og ólögmæti séu uppfyllt þar sem ákvörðun Ríkisskattstjóra hafi ekki verið í samræmi við lög og stjórnarskrá. Byggir stefnandi á því að ákvörðunin leiði til þess að hann hafi, með ólögmætum hætti, ekki notið samsköttunar með dótturfélögum sínum á tímabilinu. GLB Holding ehf. hafi greitt mun hærri fjárhæðir í tekjuskatt gjaldárin 2011 til 2013 vegna tekna Íslandsbanka en ef GLB Holding ehf. og stefnandi hefði verið samsköttuð frá árinu 2010. Fram kemur í stefnu að skattalegt tap stefnanda rekstrarárin 2010, 2011 og 2012 hafi samtals numið 554.533.910.406 krónum. Skattalegur hagnaður GLB Holding ehf. hafi á sama tíma numið 62.337.007.153 krónum vegna tekna Íslandsbanka. Af honum hafi verið greiddar 11.790.256.362 krónur í tekjuskatt til ríkisins. Samsköttun hefði leitt til þess að skattskyldur hagnaður samsteypunnar hefði verið enginn allt frá árinu 2010. Samsteypan hefði því ekki greitt neinn skatt á tímabilinu. Þá væri eign stefnanda í Íslandsbanka verðmætari sem næmi hinum ofgreiddu skattgreiðslum.
Til stuðnings varakröfu sinni bendir stefnandi á að skattalegt tap stefnanda rekstrarárið 2010 hafi numið 60.437.346.524 krónum meðan skattalegur hagnaður GLB Holding rekstrarárið 2010 hafi numið 33.857.103.417 krónum. Af þessum hagnaði hafi verið greiddar 6.094.278.615 krónur í tekjuskatt til ríkisins, sem stefnandi telur að ekki hafi átt að greiða. Heldur stefnandi því fram að eign hans í Íslandsbanka ætti að vera verðmætari sem þessum ofgreidda skatti næmi. Þrautavarakröfu sína kveðst stefnandi byggja á sömu röksemdum og aðal- og varakröfur hans styðjast við.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu reisa frávísunarkröfur sínar á því að hvergi sé í stefnu rökstutt fyrir hvaða tjóni stefnandi hafi orðið og hvert sé umfang þess, þannig að krefjast megi viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins. Í raun sé lítil sem engin útskýring í stefnu á tjóninu og hvað þá að lögð hafi verið fram gögn því til stuðnings. Málið sé því vanreifað í ljósi 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafi stefnandi hvergi sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn þessarar kröfu sinnar, sbr. 25. gr. sömu laga. Því telja stefndu óhjákvæmilegt að vísa þessum kröfum frá dómi. Til stuðnings framangreindu vísa stefndu til dómaframkvæmdar um það hvenær unnt er að taka til efnismeðferðar kröfu til viðurkenningar á skaðabótaskyldu á grundvelli 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu benda einnig á að reglur skaðabótaréttarins eigi ekki við í málinu. Yrði krafa stefnanda um ógildingu ákvörðunar stefnda Ríkisskattstjóra tekin til greina gæti eftir atvikum komið til endurálagningar eða endurákvörðunar skatta í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003. Stefndu kveða lögin ekki bregðast við með skaðabótum heldur með endurákvörðun eftir atvikum.
Stefndu krefjast einnig sýknu af öllum kröfum stefnanda og reisa þá kröfu á ýmsum málsástæðum sem ekki er ástæða til að gera ítarleg skil í úrskurði þessum. Rétt er þó að lýsa þeim í örfáum orðum. Í grunninn byggja stefndu á því að ekki sé unnt að túlka ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003 á annan veg en lagt hafi verið til grundvallar í niðurstöðu Ríkisskattstjóra, enda sé það meginregla að hvert félag skuli skattlagt sérstaklega en ekki með öðrum félögum. Þá hafna stefndu því að með ákvæðinu sé brotið gegn jafnræðisreglu og að það feli í sér afturvirka skattlagningu. Jafnframt byggja stefndu á því að með ákvörðun Ríkisskattstjóra hafi ekki verið brotið á eignarrétti stefnanda þannig að til bótaskyldu hafi stofnast samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, en játa verði löggjafanum svigrúm til mats á nauðsyn skattheimtu. Þá mótmæla stefndu því að ákvæðið brjóti gegn meðalhófsreglu og mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins er mótmælt, m.a. á þeim grunni að skilyrði um ólögmæti og saknæmi séu ekki fyrir hendi, en einnig þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á eða rökstutt í hverju hið ætlaða tjón hans felist.
IV.
Eins og rakið hefur verið er stefnandi eigandi GLB Holding ehf. sem er aðaleigandi Íslandsbanka hf. Stefnandi höfðar einn mál þetta, en dótturfélag hans, fyrrgreint einkahlutafélag, sem stefnandi kveður hafa þurft að greiða meira en ellefu og hálfan milljarð króna í tekjuskatt til ríkisins á árunum 2011 til 2013, á ekki aðild að málinu. Ætlað tjón GLB Holding ehf., sem ákvörðun Ríkisskattstjóra kann að hafa valdið félaginu, er því ekki til umfjöllunar. Sú ákvörðun getur heldur ekki hafa leitt til þess að stefnandi greiddi hærri skatt en ella. Stefnandi telur á hinn bóginn að ákvörðun Ríkisskattstjóra hafi rýrt verðgildi eignar sinnar og þannig valdið sér tjóni.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er stefnanda heimilt að höfða mál til þess að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands enda hafi hann lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um þau atriði. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur verið skýrður á þá leið að sá sem krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk.
Krafa stefnanda í máli þessu er efnislega reist á sömu málsástæðum og krafa hans um ógildingu ákvörðunar Ríkisskattstjóra. Verði fallist á eina eða fleiri af þessum málsástæðum, þannig að það varði ógildingu ákvörðunarinnar, verður að ætla að GLB Holding ehf. eigi kröfu um endurgreiðslu oftekins skatts á hendur íslenska ríkinu. Stefnandi hefur ekki fært rök fyrir því að sú niðurstaða nái ekki að rétta hlut stefnanda sem eiganda GLB Holding ehf. með viðhlítandi hætti. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega leyst úr kröfum sínum um viðurkenningu á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Því ber að fallast á að liðum ii) í aðal- og varakröfu og þrautavarakröfu verði vísað frá dómi. Ákvörðun um málskostnað bíður lokaniðurstöðu málsins.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Liðum ii) í aðal- og varakröfu stefnanda, Glitnis hf., sem og þrautavarakröfu stefnanda, er vísað frá dómi.
Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.