Hæstiréttur íslands
Mál nr. 360/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 16. október 2001. |
|
Nr. 360/2001. |
M(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærumáli var vísað frá Hæstarétti, þar sem efni kæru var ekki í samræmi við fyrirmæli 145. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá nafngreint barn málsaðila tekið með beinni aðfarargerð úr umráðum varnaraðila og fært sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hún krefst einnig kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Í fyrrnefndri kæru sóknaraðila sagði eftirfarandi:
„Með heimild í 4. mgr. 84. gr. aðfararlaga kæri ég f.h. gerðarbeiðanda til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms í málinu nr. A-191/2001:
[M]
gegn
[K]
sem kveðinn var upp 12. september 2001.
Kærugjald, kr. 11.500, fylgir hjálagt. Nánari rökstuðningur krafna verður sendur í greinargerð til Hæstaréttar. Vegna eðlis málsins og brýnnar þarfar um málshraða er þess óskað að þegar í stað verði hafist handa um endurritun skýrslna sem teknar voru fyrir héraðsdómi.”
Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 gilda um kæru í máli, sem rekið hefur verið fyrir héraðsdómi samkvæmt 13. kafla laganna, sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli, þar á meðal um kæruna sjálfa. Fer þannig um efni kærunnar eftir því, sem segir í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu ber að greina í kærunni dómsathöfnina, sem er kærð, kröfu um breytingu á dómsathöfninni og ástæður, sem kæran er reist á. Í fyrrgreindri kæru sóknaraðila er getið hins kærða úrskurðar. Þar er á hinn bóginn engin krafa gerð um breytingu á honum og ekki tilgreindar ástæður að baki kærunni. Eins og kæra sóknaraðila er úr garði gerð verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 100.000 krónur.