Hæstiréttur íslands
Mál nr. 515/2004
Lykilorð
- Almannatryggingar
- Dánarbætur
|
|
Fimmtudaginn 26. maí 2005. |
|
Nr. 515/2004. |
Helga Sigrún Aspelund(Helgi Birgisson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Almannatryggingar. Dánarbætur.
P eiginmaður H lést af slysförum og gerði H kröfu á hendur T um greiðslu dánarbóta á grundvelli III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Talið var ósannað að slysið hafi átt sér stað þegar P var við vinnu í skilningi 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 og var kröfu H því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. desember 2004. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt til dánarbóta hjá stefnda á grundvelli III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, vegna andláts eiginmanns síns Péturs Guðna Einarssonar 29. október 2000. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Af yfirlýsingu stefnda við málflutning fyrir Hæstarétti og greinargerðum hans í héraði og fyrir Hæstarétti verður við það að miða að hann byggi meðal annars á því að ekki sé unnt að staðreyna að slys það sem dró Pétur Guðna Einarsson til dauða hafi orðið fyrir klukkan 17:00 hinn 30. október 2000, en þá mun hafa lokið útskipun þeirri sem Pétur Guðni hafði unnið við. Af því sem fram er komið í málinu er hins vegar fallist á ályktun héraðsdómara um hvenær dagsins slysið varð. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir atvikum verður málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn falla niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004.
I
Mál þetta sem dómtekið var 3. nóvember sl. höfðaði Helga Sigrún Aspelund, [kt.], Holtastíg 13, Bolungarvík gegn Tryggingastofnun ríkisins, [kt.], Laugavegi 114, Reykjavík með stefnu birtri í maí 2004, en málið var þingfest 25. sama mánaðar.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt til dánarbóta hjá stefnda á grundvelli III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar vegna andláts eiginmanns hennar, Péturs Guðna Einarssonar.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
II
Eiginmaður stefnanda, Pétur Guðni Einarsson, andaðist 29. október árið 2000. Stefnandi sótti um makabætur til stefnda sem synjaði um þær 31. ágúst 2001. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti synjun stefnda með úrskurði 6. mars 2002. Stefnandi leitaði eftir endurupptöku málsins hjá úrskurðarnefndinni með bréfi dagsettu 19. febrúar 2004 og var synjað um hana af hálfu stefnda með bréfi dagsettu 12. mars 2004.
III
Aðilar máls þessa hafa ekki gefið skýrslu fyrir dóminum. Eitt vitni hefur gefið skýrslu. Þau atvik málsins sem málatilbúnaður beggja aðila byggist á eru nokkurn veginn óumdeild. Deilan snýst hins vegar um það hverjar réttarverkanir þessi atvik hafa. Allítarlegar lögregluskýrslur hafa verið lagðar fram og byggist eftirfarandi atvikalýsing að mestu á þeim.
Pétur Guðni Einarsson, eiginmaður stefnanda, átti og rak tvær vörubifreiðar í Bolungarvík. Hinn 29. október 2000 var Pétur með báðar bifreiðarnar í vinnu við það að aka fiskimjöli frá verksmiðju fyrirtækisins Gnáar hf. í Bolungarvík að skipi sem lá við svokallaðan Brimbrjót þar sem útskipun mjölsins fór fram. Vinnan mun hafa byrjað um kl. 13.00 þennan dag. Pétur Guðni ók annarri bifreiðinni en hinni frændi hans að nafni Pétur Guðmundsson. Samkvæmt uppdrætti af Bolungarvík, sem lagður hefur fram í málinu, sýnist stutt sú leið sem þurfti að aka og lá hún aðallega um götuna Aðalstræti.
Stjúpdóttir Péturs Guðna, Arna Aspelund, sem býr á Vitastíg 11 í Bolungarvík, en Vitastígur gengur út frá Aðalstræti u.þ.b. á miðri þeirri leið sem vörubifreiðunum var ekið, sagði Pétur Guðna hafa komið heim til hennar á milli kl. 15.30 og 16.00 þennan dag, líklega nær kl. 16.00. Arna kvaðst hafa haft að láni fólksbifreið sem Pétur Guðni og móðir sín hafi átt þar sem bifreið sín hafi verið biluð. Þau hjónin hafi rekið bílaleigu og leigt þessa bifreið út af og til. Arna sagðist hafa verið sofandi þegar Pétur Guðni kom en dóttir sín hefði vakið sig og sagt sér að afi sinn, Pétur Guðni, þyrfti að fá lyklana að bifreiðinni. Arna kvaðst hafa farið niður í forstofu þar sem Pétur Guðni hafi beðið og fengið honum lyklana. Hann hafi sagt eitthvað á þá leið að hann yrði fljótur eða að hann kæmi fljótt aftur. Arna kvaðst hafa ætlað að fara til Ísafjarðar á bílnum um daginn og taldi að það hefði Pétur Guðni vitað. Pétur Guðni kom á vörubifreið sinni til þess að ná í fólksbifreiðina og skildi hana eftir við heimili Örnu. Voru þá tómir mjölsekkir á palli bifreiðarinnar.
Einar Jónatansson skýrði frá því að hann hefði einhvern tíma á milli kl. 15.30 og 16.00 þennan dag verið á tali við frænda sinn Jón Friðgeir Einarsson, bróður Péturs Guðna, úti á Aðalstræti fyrir utan skrifstofu Gnáar hf., sem hann veitir forstöðu. Þá hafi hann séð Pétur Guðna aka bifreiðinni niður Vitastíg og til hægri inn á Aðalstræti og áfram þar til bifreiðin hafi horfið sjónum við brú sem gatan liggi yfir. Pétur Guðni hafi ekið ákveðið og hiklaust en ekki hratt. Útskipun hafi þá ekki verið lokið. Jón Friðgeir Einarsson skýrir frá hinu sama með svipuðum hætti.
Samkvæmt framangreindum uppdrætti af Bolungarvík er farið yfir brúna sem Einar nefnir nokkru áður en komið er að þeirri götu sem liggur niður að verksmiðju Gnáar hf., en sú gata liggur áfram niður á svokallaðan Grundargarð sem sýnist vera hafnargarður með viðlegukanti.
Ferkari lýsingum sjónarvotta á ferðum Péturs Guðna á fólksbifreiðinni er ekki til að dreifa.
Síðar þennan dag var hafin leit að Pétri Guðna sem lauk með því að kafari staðfesti kl. 11.15 daginn eftir að fólksbifreiðin væri í höfninni við Grandagarð og lík Péturs Guðna í henni.
Pétur Guðmundsson, sem ók annarri bifreið Péturs Guðna, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann sagði að fjórar vörubifreiðar hefðu verið notaðar við útskipunina. Hann hefði farið a.m.k. tvær ferðir eftir að Pétur Guðni hætti keyrslunni. Eftir það hefðu bílarnir verið þrifnir og þá átt að gera klára fyrir flutning á rækjuskel sem átti að ljúka fyrir kvöldmat þennan dag.
Í skýrslu lögreglunnar í Bolungarvík, sem er tímasett kl. 17.50 29. október 2000, kemur fram að ættingjar Péturs Guðna hafi tilkynnt að hann væri horfinn og að þeir hefðu þá leitað hans bæði í Bolungarvík og talsvert á Ísafirði.
IV
Dómkrafa stefnanda er á því byggð að eiginmaður hennar, Pétur Guðni Einarsson, hafi verið sjálfstæður atvinnurekandi og slysatryggður samkvæmt g-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993. Tryggingin hafi náð bæði til þess er hann notaði vörubifreiðar sínar við vinnu hjá Gná hf. og eins er hann notaði bílaleigubíla sem hann hafi verið með í rekstri. Pétur Guðni hafi verið framkvæmdastjóri reksturs síns og gjaldkeri og athafnasvæði hans hafi verið öll Bolungarvík.
Vinnunni við útskipun mjölsins hafi ekki átt að ljúka fyrr en kl. 17.00 þann dag er Pétur Guðni hafi látist og í framhaldi af því hafi staðið til að flytja rækjuskel á vörubifreiðum hans. Pétur Guðni hafi skilið vörubifreiðina eftir við heimili stjúpdóttur sinnar með mjölpoka á pallinum og tekið bílaleigubílinn þar fyrir kl. 16.00. Yfirgnæfandi líkur séu á að slysið hafi orðið í beinu framhaldi af því, en enginn hafi séð til ferða Péturs Guðna frá þeim tíma.
Þannig sé í ljós leitt að Pétur Guðni hafi verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 22. gr. laga nr.117/1993 þegar slys það varð sem leiddi til dauða hans. Að þessari sönnun fenginni sé það stefnda að sanna einhver þau atvik sem leiði til þess að stefnanda eigi ekki að greiða makabætur úr sjúkratryggingu Péturs Guðna.
Stefnandi heldur því fram að Pétur Guðni hafi tekið bílaleigubílinn á þeim tíma er aðrir starfsmenn Gnáar hf. voru í kaffihléi. Ósannað sé að Pétur Guðni hafi ætlað að rækja erindi ótengd þeirri vinnu sem hann var í og jafnvel þótt svo hefði verið þá hefði hann ekki misst við það vernd sjúkratryggingarinnar. Vernd sjúkratryggingarinnar sé víðtækari en svo að hún nái aðeins til ferða á þeirri akstursleið sem farin var á milli verksmiðju og skips. Hér megi og hafa í huga að ábyrgð húsbónda á starfsmanni falli ekki niður enda þótt starfsmaðurinn víki frá vinnu og vinnusvæði og valdi á þeim tíma tjóni. Makabætur, eins og hér sé krafist, bæti ekki fjártjón vegna missis fyrirvinnu heldur minnki þær tjónið með því að tryggja viðkomandi lágmarksbætur. Um sé að ræða félagslegt úrræði og stefndi hafi ríkar skyldur gagnvart þeim sem njóti félagslegra trygginga. Þegar hið félagslega eðli sjúkratrygginga almannatrygginga sé haft í huga eigi að beita rúmri lögskýringu en ekki þröngri. Það leiði til þess að ríkar kröfur verði að gera til sönnunar um að þau atvik séu fyrir hendi sem verði til þess að stefndi sé undanþeginn því að greiða bætur. Sú sönnunarbyrði hvíli á stefnda og í því tilviki sem hér um ræði hafi honum ekki tekist sönnunin og honum beri því að greiða stefnanda bætur.
Af hálfu stefnda var sérstaklega tekið fram við munnlegan flutning málsins að varnir stefnda byggðust ekki að nokkru leyti á því að Pétur Guðni hefði sjálfur átt þátt í dauða sínum. Varnirnar byggðust einvörðungu á því að ekki hafi verið um vinnuslys að ræða.
Stefndi heldur því þannig fram að slys það sem Pétur Guðni varð fyrir sé ekki vinnuslys í skilningi 22. gr. laga nr. 117/1993. Enda þótt Pétur hafi verið sjálfstæður atvinnurekandi hafi vinnusvæði hans við útskipunina verið þar sem hún fór fram. Engin starfsemi vegna útskipunarinnar hafi farið fram á Grundargarði þar sem slysið hafi orðið og sá staður sé úr þeirri leið sem ekin var við útskipunina. Pétur Guðni hafi þannig farið af vinnustaðnum og því verið utan hans, ekki verið á vörubifreið sinni, heldur á fólksbifreið, sem hann hafi ekki verið að nota við þá vinnu sem hann var í. Hann hafi ekki verið að reka erindi vegna vinnu sinnar.
Því sé alfarið hafnað að stefnda beri að sanna að ekki hafi verið um vinnuslys að ræða í skilningi 22. gr. laga nr. 117/1993 eins og stefnandi haldi fram. Sönnunarbyrðin um skilyrði fyrir greiðslu bóta úr almannatryggingum hvíli á tjónþola með sama hætti og þegar um bætur fari eftir skaðabótalögunum eða almennu skaðabótareglunni. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að um vinnuslys hafi verið ræða og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
V
Telja verður nægilega upplýst svo að á því megi byggja að slys það sem dró Pétur Guðna til dauða hafi orðið á þeim tíma er vinna við útskipun stóð og honum ætlað að vera að störfum við hana, sbr. a-lið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993. Raunar er ekki öðru haldið fram af hálfu stefnda. Hins vegar deila aðilar um hvort Pétur Guðni var á vinnustað sínum, og að sinna vinnu sinni þegar slysið varð, í skilningi a- og b-liða 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, sbr. og 1. málslið 1. mgr. sömu lagagreinar. Eins og atvikum málsins er háttað verður ekki hjá því komist að leggja sönnunarbyrði um hvorttveggja á stefnanda.
Pétur Guðni notaði vörubifreið sína við útskipunarvinnuna og ekki er upplýst að hann hafi ætlað eða verið beðinn um að vinna við útskipunina með öðrum hætti. Vörubifreiðina skildi hann eftir við húsið að Vitastíg 11 og er því ljóst að hann var hvorki að aka vörubifreiðinni né að sinna henni að öðru leyti þegar slysið varð.
Upplýst er að við Vitastíg 11 tók Pétur Guðni fólksbifreið sína og ók af stað út á Aðalstræti og eftir þeirri götu það síðast sást til hans. Bifreiðinni hefur hann, að minnsta kosti að lokum, ekið fram hjá verksmiðjuhúsi Gnáar hf. og niður á Grundargarð þar sem hún fannst í höfninni. Sú leið sem liggur frá verksmiðjuhúsinu niður á Grundargarð var ekki ekin við útskipunina svo vitað sé, eða sá staður viðkomandi þeirri útskipun er unnið var að. Ekki er upplýst, eða að því leiddar neinar líkur, í hvaða erindagerðum Pétur Guðni var á fólksbifreið sinni og því ekki heldur að hann hafi verið að reka erindi vegna útskipunarinnar, bílaleigu sinnar eða einhvers annars aðila. Samkvæmt þessu er ósannað að Pétur Guðni hafi verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 og verður á því að byggja að slys það sem hann varð fyrir hafi ekki staðið í sambandi við vinnu hans. Slysið verður því að telja falla undir ákvæði 1. málsliðar 3. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 og samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að aðilar beri hvor um sig kostnað af rekstri málsins.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Helgu Sigrúnar Aspelund.
Málskostnaður fellur niður.