Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2017

Strætó bs. (Anton B. Markússon hrl.)
gegn
Allrahanda GL ehf. (Hjördís Halldórsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Frestur

Reifun

Eftir áfrýjun héraðsdóms í máli A ehf. gegn S bs., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að S bs. hefði mismunað þátttakendum í útboði um akstur almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu, óskaði A ehf. eftir dómkvaðningu matsmanns í því skyni að afla sönnunar um útreikning á fjártjóni sínu vegna háttseminnar og fá þannig staðfestingu eða leiðréttingu á þeim útreikningum sem félagið hefði þegar lagt fyrir Hæstarétt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sameiginlegur frestur aðila til gagnaöflunar fyrir réttinum hefði upphaflega verið ákveðinn 28. desember 2016 og hefði sá frestur verið framlengdur til 4. janúar 2017. Þar sem fresturinn væri liðinn væri tilgangslaust til sönnunar í málinu að afla umbeðins mats, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var beiðni A ehf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 6. mars 2017 en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Hinn 16. júní 2016 var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila til heimtu bóta vegna fjártjóns sem sá fyrrnefndi taldi sig hafa orðið fyrir í útboði á vegum hins síðarnefnda í febrúar 2010. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði mismunað þátttakendum í útboðinu á saknæman og ólögmætan hátt og dæmdi sóknaraðila til að greiða varnaraðila skaðabætur að fjárhæð 100.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar. Málinu var áfrýjað af hálfu sóknaraðila og gagnáfrýjað af hálfu varnaraðila.

Varnaraðili óskaði 15. desember 2016 eftir dómkvaðningu matsmanns í því skyni af afla sönnunar um útreikning á fjártjóni sínu og fá þannig annað hvort staðfestingu eða leiðréttingu á þeim útreikningum sem þegar hefðu verið lagðir fyrir Hæstarétt. Hinn 7. desember 2016 var aðilum hæstaréttarmálsins með vísan til 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 veittur sameiginlegur frestur til gagnaöflunar til 28. sama mánaðar. Með bréfi 21. sama mánaðar óskaði varnaraðili eftir því að málsaðilum yrði veittur lengri frestur til gagnaöflunar en þeirri beiðni andmælti sóknaraðili með bréfi tveimur dögum síðar.  Með bréfi 28. desember 2016 tilkynnti Hæstiréttur að ákveðið hefði verið að framlengja áður veittan frest til 4. janúar 2017. Þar sem sá frestur er liðinn er tilgangslaust til sönnunar í málinu að afla umbeðins mats. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að hafna beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Beiðni varnaraðila, Allrahanda GL ehf., um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Strætó bs., samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2017

Mál þetta var þingfest 13. janúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munn­legum málflutningi 6. febrúar sl.

                Sóknaraðili, Allarhanda GL ehf., Klettagörðum 4, Reykjavík, óskar eftir því með vísan til 1. mgr. 61. gr. og XII. kafla, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta þau atriði sem síðar greinir í matsbeiðni. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili, Strætó bs., Þönglabakka 4, Reykjavík, krefst þess að umbeðinni dóm­kvaðningu verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

Málatilbúnaður sóknaraðila:

                Sóknaraðili vísar til þess að málið eigi rætur að tekja til útboðs sem hafi farið fram á vegum varnaraðila í febrúar 2010. Útboðið hafi tekið til aksturs al­menn­ings­vagna á höfuðborgarsvæðinu. Sjö fyrirtækjum hafi verið boðið að taka þátt í útboðinu, þ. á m. sóknaraðila, að undangengnu forvali. Sóknaraðili hafi gert tilboð í tiltekinn verk­þátt. Í forvals- og útboðsskilmálum hafi verið gerðar töluverðar kröfur til fram­boðinna vagna og hafi sóknaraðili gert ráð fyrir að hann myndi kaupa nýja vagna til þess að nota við verkið. Í tilboðinu hafi jafnframt verið gert ráð fyrir fjár­mögnun­ar­kostnaði vegna þessara nýju vagna sem reiknaður hafi verið á grundvelli tilboðs frá SP fjár­mögnun hf. um kaupleigusamning til sjö ára. Tilboðinu hafi hins vegar ekki verið tekið heldur hafi varnaraðili gengið að tilboðum Hagvagna hf. og Kynnisferða ehf.

Hinn 16. júní 2016 hafi verði kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sóknaraðila gegn varnaraðila þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að varnar­aðili hefði veitt Hagvögnum hf. ólögmætan afslátt af kröfum útboðsins og mismunað þátttakendum bæði í forvali og útboði á saknæman og ólögmætan hátt. Hafi dómurinn talið sannað að orsakatengsl væru á milli þeirra saknæmu og ólögmætu vinnubragða og þess að tilboði sóknaraðila hafi verið hafnað. Þá hafi héraðsdómur fallist á að sóknar­aðili hefði orðið fyrir fjártjóni og ætti hann því rétt á skaðabótum úr hendi varnaraðila. Til sönnunar á fjárhæð tjóns hafi sóknaraðili lagt fram tvær matsgerðir fyrir héraðsdómi. Þá hafi jafnframt legið fyrir héraðsdómi yfirmatsgerð sem varnar­aðili hafi aflað. Við mat á fjárhæð dæmdra skaðabóta hafi héraðsdómur lagt yfirmatið til grundvallar. Dómurinn hafi hins vegar gert athugasemdir við útreikning fjár­magns­gjalda í yfirmatsgerð. Fjármagnsgjöld þessi vörðuðu hina áðurnefndu nýju vagna sem sókn­araðili áætlaði að kaupa til verksins. Dómurinn hafi talið að verðbætur í yfir­matsgerð hefðu verið tvífærðar til gjalda, annars vegar sem áfallnar verðbætur en hins vegar sem verðbætt afborgun. Þá hafi dómurinn ekki talið réttan útreikning yfir­mats­manna á lækkun höfuðstóls. Af þeim sökum hafi dómurinn komist að þeirri niður­stöðu að ekki væri hægt að byggja á mati yfirmatsmanna á fjármagnskostnaði.

Dómi héraðsdóms hafi nú verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 619/2016. Sóknar­aðili kveðst ósammála þeirri niðurstöðu héraðsdóms að færa skuli allan kostnað af vögnunum til gjalda á hinu fjögurra ára verktímabili og telur að kostnaðinn skuli færa á sjö ára tímabil eins og tilboðið frá SP fjármögnun hf. hafi kveðið á um. Með greinar­gerð sinni fyrir Hæstarétti hafi hann lagt fram útreikninga löggilts endur­skoðanda á fjármagnskostnaði vegna hinna nýju vagna, þar sem forsendur yfirmats voru lagðar til grundvallar að teknu tilliti til athugasemda héraðsdóms, en kostn­að­urinn reiknaður yfir sjö ára tímabil. Í athugasemdum sínum við greinargerð sóknar­aðila hafi varnaraðili mótmælt sönnunargildi skjalsins. Tilgangur matsbeiðni þessarar sé að fá matsmann til að reikna hvaða fjármagnskostnað sóknaraðili hefði þurft að greiða hefðu vagnarnir verið greiddir upp á sjö árum og fá þannig annað hvort staðfestingu eða leiðréttingu á þeim útreikningum sem þegar hafa verið lagðir fyrir Hæstarétt.

Sóknaraðili vísað í munnlegum málflutningi til þess að í 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991, væri að finna heimild fyrir Hæstarétt til þess að heimila aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar.

Sóknaraðili óskar í beiðni sinni eftir að hinn dómkvaddi matsmaður reikni og skili af sér sundurliðuðum útreikningum sem sýni hvaða fjármagnskostnað sóknaraðili hefði þurft að greiða á samningstíma, 22. ágúst 2010 til 23. ágúst 2014, af 23 nýjum vögnum á grundvelli kaupleigusamnings þar um sem greiddur hefði verið upp á sjö árum.

Málsástæður varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að mál, sem varði ágreining málsaðila, sé nú rekið fyrir Hæstarétti Íslands. Með bréfi til réttarins, 21. desember 2016, hafi sóknar­aðili óskað eftir framlengingu á sameiginlegum gagnaöflunarfresti í málinu, í því skyni að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns til að leitast við að tryggja sönnun á fjártjóni sín. Sóknaraðili hafi lagst gegn því að gagnaöflunarfrestur í málinu yrði framlengdur. Með bréfi Hæstaréttar, 28. desember 2016, hafi  lögmanni sóknar­aðila verið tilkynnt að ákveðið hefði verið að framlengja sameiginlegan gagna­öflunar­frest í málinu til 4. janúar 2017. Áður en gagnaöflunarfresturinn hafi runnið út hafi sóknaraðili lagt fram bréf löggilts endurskoðanda, 21. desember 2016, ásamt út­reikningi á fjármagnskostnaði. Með bréfi Hæstaréttar, 5. janúar 2017, hafi lögmönnum aðila verið tilkynnt um að gagnaöflunarfresti hefði lokið hinn 4. janúar 2017 og að málinu hefði verið frestað til flutnings.

                Varnaraðili byggir mótmæli sín gegn framkominni matsbeiðni á því að um­beðin matsgerð dómkvadds matsmanns sé tilgangslaus til sönnunar í hæsta­rétt­ar­málinu, þar sem gagnaöflunarfrestur í því máli sé liðinn. Tilgangur sóknaraðila sé að afla sönnunargagns á milli dómstiga. Um öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi fer samkvæmt XI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en ekki er þó vísað í þann kafla í matsbeiðninni. Í þeim kafla laganna sé m.a. að finna ákvæði 1. mgr. 75. gr. og 1. mgr. 76. gr., en af þeim ákvæðum leiðir að þegar gagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi skal farið eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Samkvæmt þessu er ljóst að VI. kafli laga um meðferð einkamála, sem kveður á um almennar reglur um sönnun, eigi við í því mats­máli sem hér um ræðir. Þar segi m.a. í 3. mgr. 46. gr. að ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vilji sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu.

Niðrstaða

Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða mats­menn nema skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. lag­anna eða matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.   Eins og rakið hefur verið hefur sóknaraðili, í tengslum við áfrýjun ágreinings aðila til Hæstaréttar Íslands (mál réttarins nr. 619/2016) krafist þess að fram fari mat á til­teknum fjármagnskostnaði hans í tengslum við kaup á nýjum vögnum. Í beiðni sókn­araðila er vísað til XII. kafla laga nr. 91/1991, en ljóst er af efni beiðninnar að hún byggist á XI. kafla laganna. Er hér um lagaatriði að ræða sem dómurinn hefur for­ræði á og skiptir þessi ónákvæmi því ekki máli fyrir niðurstöðu matsmáls þessa.

Í málinu liggur fyrir bréf Hæstaréttar til málsaðila, 5. janúar 2017, þar sem fram kemur að fresti til að ljúka gagnaöflun hæstaréttarmálsins nr. 619/2016 hafi lokið 4. sama mánaðar. Að mati dómsins var sóknaraðila í lófa lagið að afla matsins þegar eftir upp­kvaðningu héraðsdóms 16. júní 2016.  Hins vegar er til þess að líta að Hæstiréttur getur, samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar ef ekki var unnt að afla þeirra fyrr eða atvik hafa breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma. Mat á því hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt er í höndum Hæstaréttar en ekki dómara matsmáls þessa. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki efni til þess, að svo stöddu, að meina sóknaraðila að afla matsgerðar og verður því fallist á kröfu hans um dómkvaðningu matsmanns.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Fallist er á beiðni sóknaraðila, Allrahanda GL ehf., um dómkvaðningu mats­manns.

Málskostnaður fellur niður.