Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 431/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa að morgni 2. ágúst 2002 veist að Z, sem var gestkomandi á heimili varnaraðila, meðal annars slegið hann margsinnis í höfuðið og klippt hluta úr eyra hans með gatatöng á meðan hann lá rotaður á gólfi. Hefur hann jafnframt viðurkennt að hafa þá um morguninn ásamt bróður sínum, Y, skilið Z eftir í blóði sínu á lóð leikskóla nærri heimili þeirra þar sem hann var algjörlega hulinn runna. Við komu á sjúkrahús var Z, sem var höfuðkúpubrotinn og með fjölmarga áverka á líkama, þar á meðal eftir eggvopn, talinn í bráðri lífshættu. Gekkst hann þegar í stað undir aðgerð vegna þessa, en hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Er varnaraðili því grunaður um brot sem kunna að varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, auk 1. mgr. 220. gr. sömu laga. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af því hversu alvarleg brotin eru teljast uppfyllt skilyrði til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda geta brotin varðað að lögum 10 ára fangelsi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október 2002 kl. 16.
Laust eftir kl. 11 þann 2. ágúst sl. barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að tveir bræður hefðu sést styðja blóðugan og ölvaðan mann við Skeljagranda í Reykjavík. Stuttu síðar kom önnur tilkynning um að tveir menn hefðu ýtt manni yfir grindverk við leikskóla við Rekagranda 14 og taldi tilkynnandi að hugsanlegt væri að um lík væri að ræða. Eftir ábendingu vitna fundu lögreglumenn mikið slasaðan mann á leikskólalóðinni. Reyndist þar vera um að ræða Z. Kærði var handtekinn ásamt bróður sínum, Y, við bensínafgreiðslu við Austurströnd á Seltjarnarnesi kl. 12.36 sama dag í kjölfar árásar á annan mann við verslunarmiðstöðina við Eiðistorg. Lögreglan hefur rætt við nokkur vitni í málinu. Fram kemur hjá þeim að mikil læti hafi borist frá íbúð kærða að [...] aðfaranótt umrædds dags og um morguninn. Telja vitnin að þessi hávaði hafi líkst því að um slagsmál væri að ræða, húsgögn hafi verið færð til og mikil köll og læti hafi borist frá íbúðinni. Eitt vitni, sem fór út úr húsinu snemma morguns, sá blóð á svalargólfi fyrir framan íbúðina. Við vettvangsrannsókn lögreglu í íbúðinni kom í ljós að þar var mikið blóð m.a. á veggjum og gólfum. Skilríki Z fundust í íbúðinni. Vitni, sem þekkir kærða í sjón, hefur borið að það hafi séð kærða og bróður hans henda manni yfir girðingu við lóð leikskólans.
Samkvæmt vottorði tveggja lækna og vottorði réttarmeinafræðings var Z höfuðkúpubrotinn og með blæðingu inn á heila við komu á Landspítala og voru áverkarnir svo alvarlegir að þeir hefðu leitt hann til dauða hefði hann ekki komist undir læknishendur svo fljótt sem raunin varð. Þá er í vottorðunum lýst margháttuðum áverkum sem Z hafi verið veittir m.a. með hnífum, eggvopnum og bareflum. Kærði hefur játað að hafa ráðist á Z og m.a. kýlt hann í andlitið þannig að hann féll aftur fyrir sig og lenti með höfuðið á ofnbrún. Hafi komið stór skurður á kollinn á Z og fossblætt úr honum.
Verið er að rannsaka ætlað brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er kærði undir sterkum grun um að eiga aðild að broti sem getur að lögum varðað 10 ára fangelsi. Verður að telja að brotið sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þykja því vera uppfyllt lagaskilyrði til að taka kröfuna til greina eins og hún er fram sett.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október 2002 kl. 16.