Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/1999


Lykilorð

  • Handtaka
  • Skaðabótamál
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 1999.

Nr. 267/1999.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Garðari H. Björgvinssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Handtaka. Skaðabótamál. Gjafsókn.

G var handtekinn af lögreglunni í Árnessýslu í Kömbum við Hellisheiði að morgni 2. desember 1996 og færður á lögreglustöð á Selfossi, en látinn laus tæplega þremur tímum síðar eftir að tekin hafði verið af honum skýrsla. Krafðist G bóta úr hendi Í þar sem handtaka hans hefði verið ólögmæt. Nægilega þótti komið fram, að G hefði haft í frammi ýmis konar hótanir í tengslum við fyrirhugaða brottför fyrrverandi eiginkonu sinnar og dóttur af landinu, sem meðal annars miðuðu að því að koma í veg fyrir förina. Var talið, að slíkar hótanir gætu varðað við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafði G borið fyrir dómi að hann hefði tjáð lögreglumönnunum sem stöðvuðu för hans, að hann væri að fara til Keflavíkur til þess að reyna að láta dóttur sína sjá sig og ná henni út af flugvellinum á meðan flugvélin færi í loftið, en atferli sem þetta hefði getað bakað G refsiábyrgð samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið var til þess hvernig málið bar að höndum lögregluyfirvalda og hvað fyrir þeim lá, þótti verða að telja, að þau hefðu haft réttmæta ástæðu til að óttast að G hefði í huga að fylgja eftir hótunum um refsivert athæfi í tengslum við brottför mæðgnanna. Hefði því með rökum mátt telja nauðsynlegt að handtaka hann umræddan morgun til að koma í veg fyrir að hann fremdi afbrot, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en gögn málsins þóttu engar vísbendingar veita um að handtakan hefði verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Voru því ekki talin uppfyllt skilyrði 176. gr. laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta vegna handtöku G og var Í því sýknað af bótakröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 1999 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dæmdri fjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

Greint er frá málavöxtum í héraðsdómi. Í málinu liggur fyrir óumdeilt að stefndi var handtekinn af lögreglunni í Árnessýslu í Kömbum við Hellisheiði kl. 06.32 hinn 2. desember 1996. Var hann færður á lögreglustöðina á Selfossi og hófst skýrslutaka af honum þar kl. 08.50. Að henni lokinni kl. 09.20 var hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að bótakrafa stefnda sé ekki fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Áður en til handtöku og yfirheyrslu stefnda kom höfðu lögreglu borist frásagnir um ýmis konar hótanir af hálfu hans. Daginn fyrir handtökuna voru lögmaður fyrrverandi eiginkonu hans og félagsmálastjórinn í Hveragerði í sambandi við lögregluyfirvöld og skýrðu frá því að stefndi hefði hótað alvarlegum ofbeldisverkum vegna fyrirhugaðrar ferðar fyrrverandi eiginkonu sinnar með dóttur þeirra úr landi að morgni næsta dags. Hjá báðum kom fram að stefndi hótaði meðal annars að sprengja upp flugvél þá, sem konan hygðist ferðast með. Í bréfi til lögreglunnar 30. nóvember 1996 hafði lögmaðurinn talið ljóst að öryggi konunnar og barnsins væri hætta búin vegna hótana stefnda, svo og öðrum flugfarþegum er ferðuðust með sömu flugvél. Báðir þessir aðilar hafa staðfest fyrir dómi í máli þessu að stefndi hafi viðhaft slíkar hótanir við þau og að hafa skýrt lögreglu frá þeim daginn áður en til handtöku  kom. Kom fram hjá báðum að þau hefðu tekið hótanirnar alvarlega og lögmaðurinn sagði að þær hefðu valdið sér hræðslu um eigið öryggi. Stefndi hefur neitað því að hafa sett fram slíkar hótanir. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt ljósrit bréfs, er hann skrifaði Lögmannafélagi Íslands 26. febrúar 1997, þar sem hann skýrir frá samskiptum sínum við lögmann fyrrverandi eiginkonu sinnar. Segist hann þar hafa sagt við lögmanninn að ef eitthvað kæmi fyrir dóttur sína í umræddri ferð eða að hann fengi ekki að sjá hana oftar þá hafi hann ekki áhuga á því að lifa lengur „og því mun ég taka þig með mér yfirum. ... Þetta er ekki hótun þetta er alvara, ég mun sprengja okkur bæði í loft upp.” Síðar í bréfinu segir stefndi að sennilega hefði hann tekið þá afstöðu „að rota sem flesta karlmenn sem (lögmanninum) eru kærastir, svo sem eiginmann, bræður, föður og þ.h. áður en ég hefði hvolvt í mig úr einu pilluglasi.”

        Hvað sem líður nákvæmlega innihaldi ummæla stefnda við fyrrnefnda aðila þykir nægilega fram komið í málinu að hann hafi haft í frammi ýmis konar hótanir í tengslum við fyrirhugaða brottför fyrrverandi eiginkonu og dóttur, sem meðal annars miðuðu að því að koma í veg fyrir förina. Slíkar hótanir gátu varðað við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefndi hefur viðurkennt, að hann hafi verið á leið til Keflavíkurflugvallar er lögregla stöðvaði för hans í Kömbum. Hugðist hann þar að eigin sögn reyna að koma í veg fyrir að dóttir hans færi úr landi, en móðirin hafði forsjá hennar og félagsmálayfirvöld höfðu samþykkt að hún færi með hana í ferð þessa til heimalands síns. Þegar stefndi kom fyrir dóm vegna bótamáls þessa kvaðst hann hafa tjáð lögreglumönnum þeim, er stöðvuðu för hans, að hann væri að fara til Keflavíkur til þess að reyna að láta dóttur sína sjá sig og að ná henni út af flugvellinum á meðan flugvélin færi í loftið. Atferli sem þetta gat bakað stefnda refsiábyrgð samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga.

Þegar litið er til þess, hvernig málið hafði borið að höndum lögregluyfirvalda og hvað fyrir þeim lá samkvæmt framansögðu, verður að telja að þau hafi haft réttmæta ástæðu til að óttast að stefndi hefði í huga að fylgja eftir hótunum um refsivert athæfi í tengslum við brottför mæðgnanna. Mátti því með rökum telja nauðsynlegt að handtaka hann þar sem hann var á leið til Keflavíkurflugvallar umræddan morgun til að koma í veg fyrir að hann fremdi afbrot, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Verður ekki talið að þetta úrræði hafi verið of harkalegt eins og hér stóð á. Gögn málsins veita enga vísbendingu um að handtakan hafi verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Var stefndi látinn laus tæpum þremur klukkustundum eftir handtökuna.

 Að því athuguðu, sem hér hefur verið rakið, verða ekki talin uppfyllt skilyrði 176. gr. laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta vegna handtöku stefnda. Ber því að sýkna áfrýjanda af kröfum hans í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

                                                 Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnda, Garðars H. Björgvinssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hans, 150.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 18. ágúst 1998 af Garðari Björgvinssyni, Herjólfsgötu 18, Hafnarfirði, á hendur dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhvoli við Lindargötu í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1996 til 2. janúar 1997 og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Enn fremur er þess krafist að stefnda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, dagsettu 19. febrúar 1999.

Endanlegar kröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Í greinargerð stefnda var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi þann 21. desember 1998.

 

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að lögreglan í Árnessýslu handtók stefnanda mánudags-morguninn 2. desember 1996 og færði hann til yfirheyrslu á lögreglustöðina á Selfossi.  Ástæðan var sú að fulltrúa sýslumannsins á Selfossi hafði verið tilkynnt að fyrrverandi eiginkona stefnanda færi úr landi þá um morguninn ásamt dóttur sinni og stefnanda frá Keflavíkurflugvelli.  Jafnframt hafði honum verið tilkynnt að stefnandi hefði haft í frammi hótanir um að sprengja flugvélina í loft upp, færu þær mæðgur úr landi.  Tveir lögreglumenn voru sendir að heimili stefnanda í Hveragerði þá um nóttina.  Þeir fylgdu stefnanda eftir er hann ók heiman frá sér snemma morguns og stöðvuðu akstur hans í Kömbum.  Lögreglumennirnir spurðu stefnanda hvert hann væri að fara og þegar hann svaraði því að hann væri á leið til Keflavíkur tilkynntu þeir honum að hann væri handtekinn og var hann færður til yfirheyrslu eins og hér að framan greinir.  Í skýrslu lögregluvarðstjóra, sem gerð var í tilefni af handtökunni, segir að ástæða handtökunnar hafi verið hótanir.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda 2. desember 1996 í framhaldi af handtökunni, er haft eftir honum að hann hafi aldrei verið með hótanir um að sprengja flugvélina og að honum hafi ekki komið slíkt til hugar.  Hann kvaðst hafa ætlað til Keflavíkur til að reyna að tefja fyrir dóttur sinni þannig að hún kæmist ekki með móður sinni í flugvélina eða a.m.k. til að fá tækifæri til að kveðja hana. 

Þann 3. desember 1996 var tekin lögregluskýrsla af félagsmálastjóranum í Hveragerði í tilefni af rannsókn lögreglunnar á meintum hótunum stefnanda.  Í skýrslunni er haft eftir honum að stefnandi hafi sagt að hann myndi aldrei hleypa konunni úr landi með barnið.  Einnig hafi hann sagt að hann “mundi sprengja flugvélina í loft upp án þess að nokkur mundi slasast því vélin yrði tóm á stæðinu”. 

Sýslumaðurinn á Selfossi sendi málið til rannsóknarlögreglu ríkisins þann 17. desember sama ár og var óskað skýrslutöku af lögmanni fyrrverandi eiginkonu stefnanda um meintar hótanir stefnanda um að sprengja upp loftfarið og af starfskonum Kvennaathvarfsins um það sama.

Stefnandi krafðist rannsóknar á handtökunni og ásökunum í sinn garð um sprengjuhótanir með bréfi til ríkissaksóknara, dagsettu 28. janúar 1997, en í bréfinu segir m.a að sprengjuhótunin hafi verið tilbúningur. 

Með bréfi lögmanns stefnanda til sýslumannsins á Selfossi, dagsettu 25. febrúar sama ár, er óskað eftirrits skýrslna um handtökuna.  Einnig er farið fram á upplýsingar um nauðsyn handtökunnar eða hvort mál stefnanda hafi verið sent ríkissaksóknara og ef svo væri hvort kunnugt væri um ákvarðanir varðandi málið.  Lögmanninum voru send ljósrit lögregluskýrslna með bréfi fulltrúa sýslumanns, dagsettu 20. mars 1997.  Í bréfinu eru jafnframt upplýsingar um að málið hafi verið sent rannsóknarlögreglu ríkisins hinn 17. desember 1996 til frekari skýrslutöku. 

Í bréfi lögmanns stefnanda til ríkissaksóknara, dagsettu 2. maí 1997, er óskað rannsóknar á tilefni og framkvæmd handtöku stefnanda en í bréfi ríkissaksóknara frá 27. maí sama ár var stefnanda tilkynnt að með vísan til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þættu ekki efni til að mæla fyrir um frekari aðgerðir í tilefni af kröfu stefnanda vegna handtökunnar.

Með bréfi lögmanns stefnanda þann 23. júní 1997 til rannsóknarlögreglu ríkisins var óskað upplýsinga um hvort málið, sem sýslumaður sendi rannsóknarlögreglunni þann 17. desember 1996 til frekari skýrslutöku, hafi verið sent ríkissaksóknara og hvort búast mætti við frekari aðgerðum á hans vegum eða rannsóknarlögreglunnar í tengslum við það.  Var einkum óskað upplýsinga um hvort tekin hafi verið ákvörðun um að fella málið niður eða um að rannsaka ekki frekar það sem leiddi til handtöku stefnanda 2. desember 1996.  Með bréfi rannsóknar-lögreglunnar, sem dagsett er þann 30. júní 1997, var lögmanni stefnanda tilkynnt að málið hafi verið sett til hliðar með hliðsjón af afstöðu kæranda.  Rannsóknargögn verði því til staðar ef kærði gefi tilefni til endurupptöku málsins.  

Í bréfi lögmanns stefnanda til ríkissaksóknara, dagsettu 17. mars 1998, er óskað upplýsinga um hvort ákvörðun hafi verið tekin um ráðstafanir eða aðgerðir gagnvart stefnanda í tilefni af því sem leiddi til handtökunnar.  Samkvæmt bréfi ríkissaksóknara til lögmannsins þann 31. mars 1998 hafði mál á hendur stefnanda ekki borist ríkissaksóknara.

Stefnandi krefst miskabóta úr hendi stefnda vegna handtökunnar sem hann telur ólögmæta.  Af hálfu stefnda er kröfunni mótmælt en því er bæði haldið fram að krafan sé fyrnd samkvæmt 181. gr. laga um meðferð opinberra mála og að handtakan hafi verið lögmæt og því sé ekki grundvöllur fyrir bótakröfunni.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að lögreglumenn hafi stöðvað hann í Kömbum um klukkan 6.30 að morgni mánudagsins 2. desember 1996, handtekið hann og fært á lögreglustöðina á Selfossi.  Hafi hann síðan verið yfirheyrður milli klukkan 8.50 og 9.20 þá um morguninn og hafi hann verið spurður að því hvort hann hefði komið fyrir eða hygðist koma fyrir sprengju í loftfari á Keflavíkurflugvelli.  Hann hafi verið látinn laus að yfirheyrslu lokinni.  Honum hafi síðan ekkert verið tjáð frekar um lögmætar ástæður handtökunnar, hvort rannsókn væri lokið eða hún stæði enn yfir eða hvort mál yrði höfðað gegn honum vegna þess tilefnis sem ætla mætti að hafi verið fyrir handtökunni.

Hinn 28. janúar 1997 hafi stefnandi ritað ríkissaksóknara bréf og kvartað undan handtökunni.  Hinn 25. febrúar sama ár hafi lögmaður stefnanda ritað sýslumanninum á Selfossi bréf og óskað að fá í hendur skýrslur um handtökuna og tilefni hennar.  Honum hafi síðan borist gögn frá sýslumanni þar sem meðal annars hafi komið fram að rannsóknarlögregla ríkisins hefði verið beðin um að annast skýrslutökur í tengslum við málið. 

Hinn 2. maí 1997 hafi ríkissaksóknara verið ritað bréf, þar sem beðið hafi verið um rannsókn á tilefni og framkvæmd handtöku stefnanda.  Í bréfi dagsettu 27. sama mánaðar hafi ríkissaksóknari tilkynnt lögmanni stefnanda að ekki þætti tilefni til aðgerða ákæruvaldsins vegna kæru stefnanda. 

Hinn 23. júní 1997 hafi lögmaður stefnanda ritað rannsóknarlögreglu ríkisins bréf, þar sem óskað hafi verið upplýsinga um hvort búast mætti við aðgerðum ríkissaksóknara eða rannsóknarlögreglu ríkisins, vegna þess sem leiddi til handtöku stefnanda, og beðið hafi verið um ljósrit skýrslna sem kynnu að hafa verið teknar.  Þessu hafi verið svarað með bréfi dagsettu 30. júní 1997 og hafi ekki verið talið unnt að verða við beiðni um ljósrit skýrslna.

Í mars 1998 hafi stefnandi tjáð lögmanni sínum að hann hefði frétt frá embætti ríkissaksóknara að þar væri litið svo á að í bréfi ríkissaksóknara frá 27. maí 1997 hefði komið fram að embættið teldi ekki ástæðu til aðgerða gagnvart stefnanda í framhaldi af handtökunni.  Hafi lögmaðurinn sent ríkissaksóknara bréf af þessu tilefni, þess efnis að á bréfið frá 27. maí 1997 hefði verið litið sem svarbréf við beiðni stefnanda um rannsókn á aðgerðum lögreglunnar.  Tilkynnt hefði verið að ekki væri talin ástæða til aðgerða gagnvart lögreglumönnunum, sem handtökuna framkvæmdu.  Stefnanda hafi hins vegar ekki ennþá verið tilkynnt hvort rannsókn stæði enn yfir á málinu, sem hann var handtekinn vegna, hvort mál yrði höfðað gegn honum eða hvort eitthvað annað hefði verið gert í tilefni handtökunnar.  Hafi ríkissaksóknari þann 31. mars 1998 ritað lögmanni stefnanda bréf þar sem honum hafi verið tjáð að umrætt mál á hendur stefnanda hefði ekki borist ríkissaksóknara til meðferðar.

Stefnandi hafi höfðað mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna handtökunnar hinn 2. desember 1996 sem hann telji ólögmæta.  Við munnlegan málflutning var það af hálfu stefnanda stutt þeim rökum að sagan um að hann hefði hótað að sprengja flugvélina hafi verið tilbúningur eða uppspuni.  Hvorki hafi verið haldbær ástæða fyrir handtökunni né lagaheimild.  Þótt tilefni hafi verið til skýrslutöku vegna ásakana í garð stefnanda um hótanir hefði verið réttara að boða stefnanda til hennar.  Handtaka hafi verið algerlega ónauðsynleg í því sambandi.  Stefnandi byggir jafnframt á því að honum hafi ekki enn verið tjáð hvort fallið hafi verið frá rannsókn eða ákæru í tilefni af atvikum, sem ætla mætti að hafi átt að réttlæta handtökuna.  Hafi því ekki enn verið farið eftir 114. gr. laga nr. 19/1991, og frestur sá, sem um geti í 181. gr. laganna, sé því ekki enn byrjaður að líða. 

Verði engu að síður talið að atvik málsins leiði til þess að líta verði svo á að frestur til málshöfðunar hafi hafist, er því haldið fram að fresturinn hafi ekki getað byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi er stefnanda var tilkynnt, með bréfi ríkissaksóknara hinn 31. mars 1998, að embætti hans hefði ekki borist til meðferðar mál á hendur stefnanda í tengslum við handtökuna.  Fram til 1. júlí 1997 hafi ríkissaksóknari einn farið með ákæruvald og haft á hendi yfirstjórn lögreglu.  Hafi því stefnanda verið rétt að ætla að því embætti hefði verið tilkynnt um málið, enda hafi ákvörðun um saksókn vegna þeirra atvika, sem stefnandi var spurður um við yfirheyrslu í framhaldi af handtökunni, enn verið á verksviði þess embættis eftir gildistöku laga nr. 84/1996. 

Af stefnanda hálfu er talið að lögregluyfirvöld geti ekki valdið fyrningu á skaðabótakröfu vegna ólögmætrar handtöku með því einu að tilkynna ekki um raunverulegar eða meintar ástæður hennar eftir réttri boðleið.  Þrátt fyrir þetta telur stefnandi að líta verði svo á að nú sé liðinn svo langur tími frá handtökunni að ekki sé unnt að bíða lengur með að hefjast handa vegna skaðabótaréttar hans.  Stefnandi telur sig einnig eiga rétt á skýringum á handtökunni og tilefni hennar og að málssókn geti stuðlað að því að þær skýringar fáist, enda telji hann ólíklegt, úr því sem komið er, að þar til bær yfirvöld stundi enn eða íhugi rannsókn þeirra atvika, sem kunni að hafa átt að réttlæta handtöku hans, eða undirbúi ákæru á hendur honum.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið handtekinn hinn 2. desember 1996 af einhvers konar hagkvæmnisástæðum í tengslum við umgengni við dóttur sína, forsjá hennar og/eða umgengni við fyrrverandi eiginkonu sína og til að koma í veg fyrir að hann færi til Keflavíkur umræddan dag.  Þar sem lög hafi ekki heimilað handtöku stefnanda eigi hann skaðabótakröfu á hendur stefnda.  Hafi löggæsluyfirvöld látið hinar meintu sakir stefnanda afskiptalausar síðan.  Þrátt fyrir að stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um neinn eftirmála handtökunnar eins og 114. gr. laga nr. 19/1991 geri ráð fyrir, telji hann nauðsynlegt að höfða mál þetta án frekari tafa.  Frelsissvipting sé harkaleg og særandi aðgerð, sem hafi mikil áhrif fyrir þann sem fyrir henni verði, sérstaklega ef hann viti ekki annað en að hann sé saklaus.  Krafa stefnanda sé miskabótakrafa, þar sem hann muni ekki færa fram sannanir í málinu fyrir því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni.

Vegna hlutverks dómsmálaráðherra sem yfirmanns löggæslu í landinu sé honum stefnt til efnislegra varna, ef um þær væri að ræða, svo og fjármálaráðherra, ef hann hafi einnig slíkar varnir, en að öðru leyti sé fjármálaráðherra stefnt sem gæslumanni hagsmuna ríkissjóðs.  Af hálfu stefnanda er m.a. vísað til 67. gr. stjórnarskrár og XII. og XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum 97., 114., 175., 176., 178., 179. og 181. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi verið handtekinn í umræddu tilviki samkvæmt beiðni fulltrúa sýslumannsins á Selfossi vegna margvíslegra hótana sem lögreglan hafi fregnað af og séð ástæðu til að vera á varðbergi gagnvart.  Í því sambandi er af hálfu stefnda vísað til þess að fulltrúinn hafi fengið upplýsingar um að stefnandi hefði ekki aðeins haft í hótunum við lögmann fyrrverandi eiginkonu sinnar heldur hafi hann einnig sagst ætla að spengja flugvél sem hafi verið á leið af landi brott frá Keflavíkurflugvelli með fyrrverandi eiginkonu stefnanda og dóttur þeirra.  Hafi verið áætlað að flugvélin færi frá Keflavíkurflugvelli klukkan 8.50 daginn sem stefnandi var handtekinn.

Í bréfi lögmanns fyrrverandi eiginkonu stefnanda til sýslumannsins á Selfossi, dagsettu 30. nóvember 1996, sé meðal annars vikið að því að fyrrum eiginkona stefnanda hafi ætlað til Filippseyja, þar sem hún sé fædd og uppalin, til að heimsækja fjölskyldu sína yfir jólin og hafi dóttirin átt að vera með í för.  Hafi stefnandi verið þessari ferð andvígur og ítrekað hótað í eyru starfsmanna félagsmálayfirvalda í Hveragerði að flugvélin yrði sprengd í loft upp.  Þá hafi stefnandi hótað eiginkonunni fyrrverandi því að hann myndi með öllum ráðum koma í veg fyrir að hún færi utan og látið þau orð falla í eyru starfskonu í Kvennaathvarfi að hann myndi sjá til þess að barnsmóðir sín kæmist ekki á leiðarenda og auk þess myndi hann koma fyrir sprengju í garði Kvennaathvarfsins.  Þessar hótanir hafi allar verið hafðar í frammi í október- og nóvember­mánuði 1996.  Í bréfi lögmannsins sé því lýst að stefnandi hafi tjáð lögmanninum að hann myndi fremja sjálfsmorð og lífláta hana um leið og eiginkonan fyrrverandi kæmist úr landi.  Sé þess getið í bréfi lögmannsins hvernig stefnandi hafi lýst aftökunni, sem hann hafi áformað, og að þær lýsingar hefðu einnig verið kynntar ritara lögmannsins.  Lögmaðurinn hafi upplýst í bréfi sínu til sýslumanns að ugg hefði sett að henni um eigið öryggi.  Í bréf lögmannsins hafi einnig komið fram að lögmanninum hefðu borist fregnir af því að stefnanda væri kunnugt um að brottför mæðgnanna væri fyrirhuguð þann 2. desember 1996.  Lögmaðurinn hafi því vakið athygli á því að mæðgunum væri hætta búin og að öryggi flugfarþega nefndan dag yrði ógnað.  Væri öryggi lögmannsins einnig ógnað, a.m.k. fyrst um sinn eftir þessa flugferð.  Hafi lögmaðurinn einnig bent á að stefnandi hefði í tvígang verið dæmdur til refsingar fyrir líkamsárás með dómum Hæstaréttar, en í öðru tilvikinu hefði einnig verið ákært fyrir hótanir.

Stefnandi hafi verið handtekinn og færður til yfirheyrslu í lögreglustöðinni á Selfossi en þar hafi honum verið kynnt tilefni handtökunnar og réttarstaða.  Stefnandi hafi aðspurður ekki óskað eftir réttargæslumanni.  Stefnandi hafi neitað þar að hafa haft í hótunum eða að hann hefði í fórum sínum sprengju, en hann hafi viðurkennt að hafa verið á leið til Keflavíkur, meðal annars í þeim tilgangi að tefja fyrir dóttur sinni þannig að hún kæmist ekki með móður sinni í flugvélina.  Fleiri skýrslur hafi verið teknar í tengslum við málið þar sem meðal annars hafi komið fram að stefnandi hefði í október 1996 lýst áformum um að sprengja flugvélina og að hann hefði þekkingu til þess að útbúa fjarstýrðar sprengjur.  Enn fremur hafi stefnandi hringt í skýrslugjafa þann 29. nóvember sama ár og tilkynnt að fjórir slagsmálahundar væru reiðubúnir að aðstoða hann við að hefta utanför mæðgnanna.  Hann hafi einnig látið þess getið að færi dóttir hans úr landi gæfi hann lögmanninum þrjá mánuði til að láta sig hverfa, en að öðrum kosti myndi hann snúa hana úr hálslið með berum höndum.  Þessum lýsingum og öðrum hótunum, er beindust að skýrslugjafa sjálfum, hefði verið komið á framfæri við fulltrúa sýslumannsins á Selfossi.

Af hálfu stefnanda hafi rannsóknarlögreglu ríkisins verið ritað bréf þann 23. júní 1997 þar sem spurst hafi verið fyrir um það hvort málið hefði verið sent ríkissaksóknara og hvort búast mætti við frekari aðgerðum.  Svarbréf rannsóknar-lögreglu hafi verið ritað lögmanni stefnanda 30. júní 1997 þar sem fram komi eftirfarandi:

„Málið var sett til hliðar (í geymslu) 5. febrúar s.l. með hliðsjón af afstöðu kæranda, [...], þar sem hún vildi ekki eiga yfir höfði sér að kærði myndi á ný veitast að henni í orði eða athöfnum. Rannsóknargögnin verða því til staðar ef kærði gefur tilefni til endurupptöku málsins.“

Stefndi heldur því fram að með bréfi þessu hafi lögmanni stefnanda verið tilkynnt nægjanlega að rannsókn væri hætt að svo stöddu.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að málshöfðunarfrestur sá, sem kveðið sé á um í 181. gr. laga nr. 19/1991, hafi verið liðinn þegar stefnandi höfðaði málið.  Með bréfi rannsóknarlögreglu ríkisins, dagsettu 30. júní 1997, hafi lögmanni stefnanda verið tilkynnt að málið hefði verið lagt upp, en kærandi málsins hafi ekki viljað halda því áfram.  Mál þetta hafi stefnandi höfðað 18. ágúst 1998 eða  rúmlega ári eftir að honum hafi verið tilkynnt um þessi málalok.  Hafi því hinn lögmælti sex mánaða frestur verið liðinn.  Tilraunir lögmanns stefnanda í bréfi til ríkissaksóknara frá 17. mars 1998, sem ritað hafi verið að liðnum málshöfðunarfresti í þeim tilgangi að vekja málið upp aftur, þrátt fyrir svarbréf rannsóknarlögreglu ríkisins frá 30. júní 1997, breyti engu í þessu sambandi.   Komi fram í bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 31. mars 1998, að umrætt mál á hendur stefnanda hafi ekki borist embætti ríkissaksóknara til meðferðar.  Af hálfu stefnda er því mótmælt að lögregluyfirvöld hafi með einhverjum hætti valdið fyrningu bótaréttar stefnanda, en honum hafi án tafar verið kynnt tilefni handtökunnar og skýrslur verið sendar honum 20. mars 1997 að beiðni lögmanns hans.

Enn fremur er á því byggt að handtaka stefnanda hafi verið lögmæt og að hún hafi farið fram af brýnu tilefni þar sem fram hafi komið kærur þess efnis að stefnandi hefði haft í líflátshótunum við lögmann fyrrverandi eiginkonu sinnar auk annarra og um að flugvél með mæðgurnar innanborðs yrði sprengd í loft upp.  Hafi verið hafðar í frammi hótanir um háttsemi sem varði við almenn hegningarlög nr. 19/1940, meðal annars 165. gr., 211. gr., 225. gr. og 226. gr.  Hafi einnig verið tilefni til handtöku til að kanna og rannsaka brot gegn 233. gr. laganna.

Lögreglan hafi ekki haft ástæðu til að tvístíga þegar svo alvarlegar hótanir höfðu komið fram og sett hefðu ugg að fólki.  Hafi því verið ástæða til að fylgjast með ferðum stefnanda þennan morgun.  Þegar lögregla hafi orðið þess vör að stefnandi væri á leið til Keflavíkur árla morguns þann dag, er flugvélin hafi verið reiðubúin til brottfarar, hafi verið ástæða til að stöðva stefnanda, enda hafi grunur lögreglu styrkst um að einhverra aðgerða vegna brottfarar mæðgnanna væri að vænta af hálfu stefnanda.  Vegna hótana um manndráp, ofbeldi eða frelsissviptingu, sem framkvæmd yrði í beinum tengslum við það ef af fyrrgreindri utanför mæðgnanna yrði, svo og fyrirætlunum um að koma fyrir sprengjum, hafi fullt tilefni og lögmæt ástæða verið til handtökunnar.  Hefði lögreglu ekki verið stætt á því að bíða átekta og horfa aðgerðarlaus á framvindu mála.  Þá hafi handtakan ekki verið framkvæmd á hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.  Því verði bótaréttur stefnanda ekki reistur á 175. gr. eða 176. gr. laga nr. 19/1991 og er því mótmælt að nokkurt skilyrði sé til greiðslu bóta.  Stefndi vísar til 97. gr. laganna, en einnig til hlutverks lögreglu um að halda uppi allsherjarreglu, almannaöryggi og stemma stigum við lögbrotum samkvæmt 1. gr. laga nr. 56/1972 um lögreglumenn, sbr. nú 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnanda hafi ekki enn verið tilkynnt um málalok eða um afdrif málsins.  Ákvæði 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi ekki átt við, enda hafi stefnanda og lögmanni hans verið fullkunnugt um að málið hafi ekki verið til meðferðar af hálfu ákæruvalds og hafi rannsókn verið hætt að svo stöddu af hálfu rannsóknarlögreglu ríkisins.  Tilkynning um það hafi verið send lögmanni stefnanda eftir skriflegri beiðni hans, sem leggja ber til jafns við 76. gr. eins og málum væri háttað.  Þá er því mótmælt sem röngu að stefnandi hafi verið handtekinn af hagkvæmnisástæðum vegna umgengnis- eða forræðisdeilu en stefnanda hafi strax verið tilkynnt um tilefni handtökunnar.

Af framangreindum ástæðum er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara er þess krafist að umkrafðar bætur verði stórlega lækkaðar og einungis metnar hæfilegar að álitum.

Mótmælt er upphafstíma vaxta en stefnandi telur að einungis beri að miða í því sambandi við dómsuppkvaðningu eða í fyrsta lagi þann dag er málið var þingfest.  Vísar hann í þessu sambandi til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.  Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstöður

Í málinu hefur komið fram, eins og hér að framan er rakið,  að lögregluskýrslur voru teknar 2. og 3. desember 1996 hjá lögreglunni í Árnessýslu í tilefni af rannsókn lögreglunnar á meintum hótunum stefnanda.  Einnig var með bréfi sýslumannsins á Selfossi þann 17. desember sama ár óskað eftir frekari skýrslutökum hjá rannsóknarlögreglu ríkisins.  Stefnanda var ekki tilkynnt um afdrif málsins fyrr en með bréfi rannsóknarlögreglunnar þann 30. júní 1997 en þar segir að málið hafi verið sett til hliðar í geymslu þann 5. febrúar 1997.  Í bréfinu segir enn fremur að rannsóknargögn verði því til staðar ef kærði gefi tilefni til endurupptöku málsins. 

Í 111. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 segir að sérhver refsiverður verknaður skuli sæta ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.  Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið skal hann samkvæmt 112. gr. laganna athuga hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki.  Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en ella skal hann höfða opinbert mál með útgáfu ákæru samkvæmt 116. gr. sömu laga.  Ef mál er fellt niður samkvæmt 112. gr. laganna skal ákærandi tilkynna það þeim sem borinn hefur verið sökum, sbr. 114. gr. sömu laga.  Hafi rannsókn á hendur sökuðum manni verið hætt á hann rétt á vottorði rannsóknara eða ákæranda um það samkvæmt 4. mgr. 76. gr. sömu laga. 

Samkvæmt þessu átti stefnandi rétt á tilkynningu um ákvarðanir sem bar að taka í samræmi við fyrirmæli í framangreindum lagaákvæðum.  Hafði lögmaður hans, áður en mál þetta var höfðað, þrívegis farið fram á upplýsingar um ákvarðanir í þessum efnum, fyrst með bréfi til sýslumannsins á Selfossi þann 25. febrúar 1997, síðan með bréfi til rannsóknarlögreglu ríkisins þann 23. júní sama ár, eftir að hann fékk upplýsingar um að málið hefði verið sent þangað, og loks með bréfi til ríkissaksóknara þann 17. mars 1998.  Í framangreindu bréfi rannsóknarlögreglunnar frá 30. júní 1997 kemur ekki fram með skýrum hætti að ákvörðun hefði verið tekin um að rannsókn hefði verið felld niður.  Engin önnur gögn hafa verið lögð fram í málinu sem gefa til kynna að stefnandi hafi haft vitneskju um slíka ákvörðun.  Hefur því hvorki verið sýnt fram á með nægjanlegum gögnum né rökum að bótakrafa stefnanda, sem sótt er á grundvelli 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála, hafi fallið niður fyrir fyrningu samkvæmt 181. gr. sömu laga en samkvæmt þeirri lagagrein fyrnist bótakrafa á sex mánuðum frá vitneskju aðila um ákvörðun um niðurfall rannsóknar.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að nauðsynlegt hafi verið að handtaka stefnanda vegna hættunnar sem af honum hafi stafað.  Í því sambandi er af hálfu stefnda vísað til þess, sem fram kemur í bréfi lögmanns fyrrverandi eiginkonu stefnanda frá 30. nóvember 1996 um hótanir stefnanda í garð konunnar, lögmannsins og annarra, og sambærilegra upplýsinga frá félagsmálastjóranum í Hveragerði.  Stefnandi hefur staðfastlega neitað því að hafa haft þessar hótanir í frammi.   Þótt lögreglan hafi haft fulla ástæðu til að vera á varðbergi vegna upplýsinga, sem fram höfðu komið, og jafnvel þótt aðgerðir hafi reynst nauðsynlegar í því sambandi, verður ekki fallist á, með vísan til þess, sem fram hefur komið í málinu, að slík yfirvofandi hætta hafi stafað af stefnanda þegar lögreglan hafði tal af honum í umræddu tilviki að handtakan hafi af þeirri ástæðu verið nauðsynleg.  Samkvæmt því og með vísan til c liðar 1. mgr. 5. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, þar sem m.a. kemur fram að handtöku verði ekki beitt til að koma í veg fyrir að afbrot verði framið nema það sé með rökum talið nauðsynlegt, verður ekki talið að lögmæt skilyrði fyrir handtökunni hafi af framangreindri ástæðu verið fyrir hendi.

Af hálfu stefnda er einnig vísað til þess að stefnandi hafi verið færður til skýrslutöku á lögreglustöð vegna rannsóknar á þeim brotum sem hann hafði verið sakaður um að hafa framið.  Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála skal lögregla hefja rannsókn, þegar þörf er á því, ef fyrir liggur vitneskja eða grunur um að refsivert brot hafi verið framið.  Lögreglu er heimilt samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laganna að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot, sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.  Með vísan til þessa og þess, sem hefur að öðru leyti komið fram í málinu, verður að telja ósannað að nauðsynlegt hafi verið að færa stefnanda til yfirheyrslu með því að handtaka hann þar sem hann var á ferð klukkan 6:30 að morgni eins og gert var í því skyni að taka skýrslu af honum í þágu rannsóknar málsins.  Verður því að telja að eins og á stóð hafi ekki verið nægjanlegt tilefni til handtökunnar sem stefnandi var beittur í umræddu tilfelli. 

Samkvæmt framangreindu þykja nægjanleg skilyrði til að taka til greina kröfu stefnanda um miskabætur vegna handtökunnar samkvæmt 176. gr., sbr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Þykja bætur hæfilega ákveðnar 40.000 krónur.  Einnig ber að dæma stefnda til að greiða vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1996 eins og krafist er.  Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi krafið stefnda um bætur fyrr en með birtingu stefnu þann 18. ágúst 1998.  Samkvæmt 15. gr. vaxtalaga bera skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi hefur lagt fram upplýsingar sem þörf er á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.  Þykir því rétt að krafan beri dráttarvexti frá 18. september 1998.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Lúðvíks Emils Kaaber hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur án virðisaukaskatts.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Garðari H. Björgvinssyni, 40.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1996 til 18. september 1998 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Lúðvíks Emils Kaaber hdl., 150.000 krónur án virðisaukaskatts.