Hæstiréttur íslands

Mál nr. 323/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnkrafa
  • Gagnsök
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. september 2002.

Nr. 323/2002.

Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Kára Stefánssyni

(Othar Örn Petersen hrl.)

 

Kærumál. Gagnkrafa. Gagnsök. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

K höfðaði mál á hendur EH ehf. þar sem hann krafðist viðurkenningar á því að kaupsamningur á milli sín og ES ehf. væri skuldbindandi fyrir fyrrnefnda félagið. Af hálfu EH ehf. var þess krafist aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að það yrði sýknað af kröfu K en til þrautavara „að umræddum kaupsamningi verði vikið til hliðar þannig að stefnanda verði gert að greiða hærri fjárhæð í kaupverð og/eða sæta því að hið selda land verði minnkað frá því sem kaupsamningurinn gerir ráð fyrir“. EH ehf. kærði úrskurð héraðsdómara um að vísa þrautavarakröfu félagsins frá dómi til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar segir að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé stefnda í héraði heimilt án gagnstefnu að hafa uppi í greinargerð um varnir sínar gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi. Að öðrum kosti verði gagnkröfu ekki komið að í máli nema með því að gagnsök sé höfðuð. Fyrrgreind þrautavarakrafa EH ehf. geti ekki í neinum skilningi komið til skuldajafnaðar við þá dómkröfu, sem K hafi gert í héraðsdómsstefnu. Verði þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða héraðsdómara um að vísa þessari kröfu EH ehf. frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um frávísun máls varnaraðila gegn honum, en þrautavarakröfu sóknaraðila í málinu vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun þrautavarakröfu hans verði fellt úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

I.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er mál þetta sprottið af samningi, sem varnaraðili gerði 6. september 2001 við Eignarhaldsfélagið Skorradal ehf. um kaup á landi úr jörðinni Hvammi í Skorradal. Eftir þessi kaup stóð umrætt félag ásamt Þerney ehf. og Jóhanni Kristjáni Sigurðssyni að stofnun sóknaraðila þessa máls, Eignarhaldsfélagsins Hvammsskógar ehf. Í tengslum við það gerðu fyrstnefndu félögin tvö ásamt Jóhanni skriflegt samkomulag 2. október 2001, þar sem meðal annars var kveðið á um það að sóknaraðila yrði afsöluð jörðin Hvammur, en hann myndi yfirtaka „kaupsamninga sem gerðir hafa verið um kaup á sumarhúsalóðum, samning við Háfell um vegaframkvæmdir á jörðinni, svo og kaup Háfells á lóðum samhliða verksamningnum.“ Í samræmi við þetta var gefið út afsal til sóknaraðila fyrir jörðinni 15. október 2001. Í framhaldi af því reis ágreiningur milli aðilanna um hvort sóknaraðili væri bundinn af fyrrnefndum kaupsamningi varnaraðila.

Vegna framangreinds ágreinings höfðaði varnaraðili mál þetta á hendur sóknaraðila 10. apríl 2002 og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að kaupsamningurinn frá 6. september 2001 væri skuldbindandi fyrir sóknaraðila. Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi krafðist hann þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að hann yrði sýknaður af kröfu varnaraðila, en til þrautavara að umræddum kaupsamningi yrði vikið til hliðar þannig að varnaraðila yrði „gert að greiða hærri fjárhæð í kaupverð og/eða sæta því að hið selda land verði minnkað frá því sem að kaupsamningurinn gerir ráð fyrir, allt í samræmi við niðurstöðu matsgerðar sem stefndi hyggst afla undir rekstri málsins.“ Héraðsdómari tók málið fyrir 12. júní 2002 til munnlegs flutnings um frávísunarkröfu sóknaraðila, en beindi því um leið til aðilanna að reifa málið með tilliti til þess hvort vísa ætti þrautavarakröfu sóknaraðila einni sér frá dómi án kröfu. Með hinum kærða úrskurði var frávísunarkröfu sóknaraðila sem fyrr segir hafnað, en þrautavarakröfu hans vísað frá dómi.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er stefnda í héraði heimilt án gagnstefnu að hafa uppi í greinargerð um varnir sínar gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Að öðrum kosti verður gagnkröfu ekki komið að í máli nema með því að gagnsök sé höfðuð. Fyrrgreind þrautavarakrafa sóknaraðila getur ekki í neinum skilningi komið til skuldajafnaðar við þá dómkröfu, sem varnaraðili gerði í héraðsdómsstefnu. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Getur hann því ekki komið að fyrir Hæstarétti kröfu um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf., greiði varnaraðila, Kára Stefánssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2002.

Málið var höfðað 10. apríl 2002.  Stefnandi er Kári Stefánsson, kt. 060449-3849, til heimilis að Víðihlíð 6, Reykjavík.  Stefndi er Eignarhaldsfélagið Hvamms­skógur ehf., kt. 431001-2760, Skeiðarási 12, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að kaupsamningur hans og Eignarhaldsfélagsins Skorradals ehf., dagsettur 6. september 2001, sé skuld­bindandi fyrir hið stefnda félag.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist sýknu, en til þrautavara að umræddum kaupsamningi verði vikið til hliðar þannig að stefnanda verði gert að greiða hærri fjárhæð í kaupverð og/eða sæta því að hið selda land verði minnkað frá því sem kaupsamningurinn gerir ráð fyrir.  Þá krefst stefndi máls­kostnaðar.

Málið var tekið til úrskurðar um formhlið máls 12. júní 2002 og voru lögmenn aðila þá jafn­framt beðnir að flytja málið með hliðsjón af því að þrautavarakrafa stefnda kynni ein sér að sæta frávísun frá dómi án kröfu, sbr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Í þessum þætti málsins var þess krafist af hálfu stefnanda að frávísunarkröfunni verði hrundið og stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.  Jafn­framt var tekið undir sjónarmið þess efnis að þrautavarakrafa stefnda sæti frávísun frá dómi án kröfu.  Af hálfu stefnda var því mótmælt að skilyrði væru fyrir hendi til að vísa þrautavarakröfunni frá dómi, með eða án kröfu. 

I.

Með kaupsamningi 22. maí 2001 keypti Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf., kt. 580501-2140, jörðina Hvamm í Skorradalshreppi af erfingjum Hauks Thors.  Um var að ræða 380 ha. jörð, ásamt tilheyrandi mannvirkjum og réttindum, sem seld var án veðbanda fyrir krónur 120.000.000.  Jörðinni var afsalað 7. september sama ár.  Daginn áður seldi eignar­halds­félagið stefnanda nánar tiltekna spildu úr jörðinni fyrir krónur 24.000.000.  Umsamið kaupverð skyldi greiðast við afsal, en fyrir afsalsgerð skyldi félagið efna nánar tilgreindar skyldur, þar á meðal kappkosta að vinnu við deili­skipulag yrði flýtt þannig að spildan yrði byggingarhæf sem fyrst.  Afsalsdagur var ekki tilgreindur í kaupsamningnum, en við útgáfu þess skyldi spildan vera veð­banda­laus.

Hinn 2. október 2001 var haldinn stofnfundur stefnda, Einkahlutafélagsins Hvamms­skógs ehf.  Hlutafé var ákveðið krónur 500.000.  Eignarhaldsfélagið Skorra­dalur ehf. var skráð fyrir 98% hluta í félaginu og Þerney ehf. og Jóhann K. Sigurðsson fyrir 1% hvor.  Jóhann var kjörinn stjórnarformaður og meðstjórnendur Kristjón Bene­­diktsson og Hjörtur Aðalsteinsson.  Samhliða var undirritað samkomulag um stofnun hins nýja félags.  Þar segir að stofnað verði félag um eignarhald á jörðinni Hvammi, sem yfir­taki alla kaupsamninga, sem gerðir hafi verið á sumarhúsalóðum, samning við Háfell um vegaframkvæmdir á jörðinni, svo og kaup Háfells á lóðum sam­hliða verk­­samningum.  Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. afsali jörðinni til hins nýja félags í þáverandi ástandi, þ.e. samkvæmt sömu lýsingu og við kaup Eignar­halds­félagsins Skorra­dals ehf. af áður­nefndum erfingjum.  Þá yfirtaki hið nýja félag við­skiptaskuldir við Sparisjóð Mýrar­sýslu og vinnuskuld vegna skipulagsvinnu.  Einnig segir að Eignar­haldsfélagið Skorradalur ehf. skuld­bindi sig til að þinglýsa ekki öðrum kvöðum á jörðina en þeim sem fyrir séu og stafi frá sparisjóðnum.  Auk hins nýja stjórnar­for­manns rituðu undir stofnskrána, fundar­gerð og samkomulagið Hjörtur Aðalsteinsson fyrir hönd Þerneyjar ehf. og Kristjón Benediktsson fyrir hönd Eignar­halds­félagsins Skorradals ehf.

Með afsali 15. október 2001 færðist eignarhald á jörðinni Hvammi frá Eignarhaldsfélaginu Skorradal ehf. til stefnda.

Gögn málsins bera með sér að í janúar 2002 hafi risið ágreiningur um tillögu að deili­skipulagi fyrir jörðina Hvamm og taldi stefnandi að verulega væri hallað á rétt sinn samkvæmt kaupsamningi.  Að framkomnu bréfi lögmanns stefnda, þar sem athuga­semdum stefnanda var mótmælt og á það bent að stefndi væri ekki skuld­bundinn af umræddum kaupsamningi, ákvað hreppsnefnd Skorradalshrepps að fresta afgreiðslu málsins þar til niðurstaða væri fengin í deilu málsaðila.  Urðu út af þessu frekari bréfaskriftir milli aðila, sem óþarft er að rekja samhengi máls vegna.    

II.

Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að dómkrafa stefnanda uppfylli ekki kröfur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýra og ljósa kröfugerð, sbr. meðal annars d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna.  Dómkrafan miði ekki að því að binda endi á réttarágreining málsaðila, enda ekki gerð krafa um að stefndi efni tiltekna skyldu.  Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að umræddur kaupsamningur teldist skuld­­­bindandi fyrir stefnda væri enn ekki skorið úr því hverjar skyldur aðila væru samkvæmt samningnum, hvernig skýra bæri ýmis ákvæði hans, hvaða ákvæði hans hefðu þegar verið efnd og að hve miklu leyti stefnandi teldi samninginn yfirleitt skuld­­­bindandi fyrir sig sjálfan.  Séu þetta slíkir annmarkar á kröfugerð stefnanda að vísa beri málinu frá dómi.

Þá mótmælir stefndi því að skilyrði séu fyrir hendi til að vísa þrautavarakröfu sinni frá dómi án kröfu, enda gangi sú krafa skemur en varakrafa hans í málinu.  Með henni sé ekki verið að krefjast sjálfstæðs dóms.  Auk þess verði ekki séð að ákvæði 100. gr. einkamálalaga, einkum 1. mgr., heimili dómara að vísa frá einstökum kröfum aðila fyrr en eftir dómtöku máls.

III.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að kröfugerð í stefnu sé nægilega skýr og afmörkuð í skilningi d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að efnisdómur verður lagður á málið.  Það sé rekið sem viðurkenningarmál á grund­velli 2. mgr. 25. gr. laganna og eigi stefnandi augljósa, lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist réttarsambands milli sín og stefnda, óháð því hvort síðar kunni að koma til réttarágreinings um efni kaupsamningsins frá 6. september 2001 og túlkun á honum.  Stefnandi sé að sjálfsögðu skuldbundinn af gerðum kaupsamningi og eigi rétt á því að staðfest verði með dómi að stefndi sé í dag réttur gagnaðili samkvæmt samningnum, enda hafi slíkt verið dregið í efa.  

IV.

Dómkrafa stefnanda miðar að því að skorið verði úr um tilvist réttar­sambands milli hans og stefnda, þ.e. hvort kaupsamningur milli hans og Eignarhaldsfélagsins Skorra­dals ehf. frá 6. september 2001 um kaup og sölu á tiltekinni spildu úr jörðinni Hvammi í Skorradalshreppi, sé skuldbindandi fyrir stefnda eftir undirritun stofn­samnings milli umrædds eignarhaldsfélags og stefnda 2. október sama ár, en hið stefnda félag var stofnað um eignarhald á sömu jörð.  Með gerð umrædds stofn­samnings eignaðist Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. 98% hlut í stefnda og í kjöl­farið afsalaði félagið jörðinni Hvammi til stefnda.  Við gerð stofnsamningsins sömdu eignarhaldsfélögin svo um að stefndi yfirtæki alla kaupsamninga, sem gerðir hefðu verið um sumarhúsalóðir á jörðinni.  Stefnandi á því lögvarða hagsmuni af því, sem kaupandi slíkrar lóðar, að fá skorið úr um hvort stefndi hafi tekið yfir réttindi og skyldur samkvæmt nefndum kaupsamningi frá 6. september 2001 eður ei, meðal annars í því skyni að geta beint lögmætum kröfum að réttum samningsaðila og eiga þess kost að efna eigin samnings­skyldur, en fyrir liggur að samningurinn hefur enn ekki verið efndur samkvæmt efni sínu.  Í því sambandi verður sú lagaskylda ekki lögð á stefnanda að gera frekari kröfur í málinu að svo stöddu, enda óleyst úr því hvort slíkum kröfum verði réttilega beint að stefnda.  Kröfugerð stefnanda, eins og hún er sett fram í stefnu, er skýr og afdráttarlaus og fullnægir skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Öðrum skilyrðum sömu laga­greinar er einnig fullnægt, sem og skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr. laganna.  Ber því að synja um frávísunarköfu stefnda.

Í þrautavarakröfu stefnda felst að umræddum kaupsamningi frá 6. september 2001 verði vikið til hliðar þannig að stefnanda verði gert að greiða ótilgreint hærra kaup­verð fyrir landspilduna, en sem segir í samningi og/eða að honum verði gert að sæta því að hin selda spilda verði minnkuð frá því, sem í kaupsamningi greinir.  Kröfunni til stuðnings er meðal annars vísað til ákvæða 36. og 38. gr. laga nr. 7/1936 um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga, en stefndi telur afar ósanngjarnt að hann verði bundinn við kaupsamninginn samkvæmt efni sínu, enda fælust meðal annars í því útgjöld fyrir stefnda í þágu stefnanda, sem næmu að minnsta kosti kaup­verði spildunnar samkvæmt samningi.  Í greinargerð stefnda er boðað að aflað verði mats­­gerðar undir rekstri málsins til að sýna fram á réttmæti kröfunnar.

Með nefndri kröfu er raskað þeim grundvelli, sem stefnandi lagði í upphafi að dómkröfu sinni og markaður er í stefnu.  Er hér bersýnilega um gagnkröfu að ræða til sjálfstæðs dóms, sem stefndi varð að hafa uppi með gagnstefnu samkvæmt 28. gr. einkamálalaga.  Fái þrautavarakrafan efnismeðferð fyrir dómi í því horfi, sem hún er í, er stefnanda því gert ókleift að taka til varna gegn henni með þeim hætti, sem reglur nefndra réttarfarslaga gera ráð fyrir.  Er hér um slíkan annmarka að ræða að hann einn leiðir til frávísunar frá dómi án kröfu. 

Þrautavarakrafan er í annan stað þess eðlis að hún er með öllu ótæk til efnis­dóms, eins og hún er sett fram.  Krafan er ekki lögvarin í þeim skilningi að stefnandi verður hvorki dæmdur til að greiða hærra verð fyrir land­spilduna en um var samið, né heldur gert að sæta því að einhver hluti spildunnar verði tekinn af honum með dómi.  Öflun matsgerðar myndi engu breyta í því sambandi.  Vilji stefndi fá samningnum hnekkt verður hann að leita annarra úrræða, svo sem að krefjast þess að samningnum verði vikið til hliðar í heild sinni.  Þessi annmarki á þrauta­varakröfunni leiðir því einnig til frávísunar frá dómi án kröfu.

Af hálfu stefnda er á því byggt að héraðsdómari hafi ekki lagaheimild til að vísa þrautavarakröfunni frá dómi undir rekstri málsins, heldur komi slíkt einungis til skoðunar eftir dómtöku máls samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 100. gr. einkamálalaga.  Á þetta verður ekki fallist.  Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. ber dómara að athuga hvort gallar séu á máli, sem geta varðað frávísun þess án kröfu.  Könnun dómara fer fram þegar stefndi í máli hefur lagt fram greinargerð.  Ákvæðið verður ekki skilið svo, með samanburði við 4. mgr. 100. gr., að dómara sé óheimilt á þessu stigi máls að vísa frá einstökum dómkröfum aðila, heldur felst í 4. mgr. ákveðinn öryggisventill þegar í ljós kemur eftir dómtöku að gallar eru á máli, sem varðað geta frávísun á einni eða fleiri kröfum aðila.  Er þá dómara heimilt að vísa einstökum kröfum frá dómi án sérstaks málflutnings, en leggja efnisdóm á aðrar.  Þrautavarakrafa stefnda í þessu máli er haldin svo verulegum form- og efnisannmörkum að ekki verður bætt úr undir rekstri málsins með þeim hætti, sem mælt er fyrir um í 104. gr. laganna.  Væri því fráleit og óviðunandi fyrir aðila sú aðstaða að þeir verðu tíma og kostnaði í gagnaöflun og síðar málflutning um kröfuna til þess eins að henni yrði vísað frá dómi eftir dómtöku málsins. 

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 100. gr. einkamálalaga verður ekki hjá því komist að vísa þrautavarakröfu stefnda frá dómi án kröfu.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.  Hefur upp­kvaðning dregist vegna embættisanna.

Jónas Jóhannsson héraðsómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu stefnda, Eignarhaldsfélagsins Hvammsskógs ehf., um frávísun máls er hrundið.

Þrautavarakröfu stefnda um að stefnanda, Kára Stefánssyni, verði gert að greiða hærra kaupverð fyrir spildu úr jörðinni Hvammi í Skorradalshreppi og/eða sæta því að spildan verði minnkuð frá því sem kveðið er á um í kaupsamningi 6. september 2001 er vísað frá dómi án kröfu. 

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.