Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 28. ágúst 2008. |
|
Nr. 463/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði að X sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 3. september nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að forsaga máls þessa sé sú að barnaverndaryfirvöld í Hafnarfirði hafi óskað eftir skýrslutöku af A vegna grunsemda um kynferðisbrot kærða gegn stúlkunni. Hafi hún greint móður sinni, B, frá alvarlegum kynferðisbrotum kærða gegn henni, sem átt hafi sér stað fyrir nokkrum árum síðan. Kærði sé fyrrverandi eignmaður B.
Stúlkan hafi áður en hún greindi frá þessu verið í meðferðarviðtölum í Barnahúsi vegna óviðeigandi kynferðislegrar hegðunar miðað við aldur og þroska. Í viðtölunum greindi stúlkan frá óeðlilegum samskiptum á milli hennar og kærða.
Í kæruskýrslu B kemur fram að C, dóttir hennar og kærða, sem sé einhverf, hafi gengið að systur sinni A, strokið henni um klofið og sagt föður sinn gera það við hana þegar hún færi að sofa.
Telja verði að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot gegn dætrum sínum sem varða allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Brotin séu talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga.
Rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Málið sé á frumstigi og verði nú farið fram á skýrslutöku af stúlkunum fyrir dómi, tekin verði skýrsla af kærða og vitnum, auk þess sem framkvæmdar verði aðrar nauðsynlegar rannsóknaraðgerðir. Afar mikilvægt sé að kærði geti ekki náð til stúlknanna á meðan á þessu stendur.
Eins og lýst hafi verið sé hætt við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, sbr. a- liður 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Telja verður að hætta sé á því að kærði geti spilt fyrir henni með því að hafa áhrif á vitnin áður en náðst hefur að taka skýrslu af þeim. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 3. september nk. kl. 16.00.