Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                              

Föstudaginn 15. febrúar 2013.

Nr. 23/2013.

Holt Funding 2008-1 Ltd.

(Aðalsteinn Egill Jónasson hrl.)

gegn

Klakka ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi breytingu á kröfugerð H til lækkunar í máli sem hann hafði höfðað gegn K ehf. til greiðslu skuldar vegna uppgjörs á gjaldmiðlaskiptasamningi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K ehf. hefði lýst sig samþykkt því að félagið yrði dæmt til að greiða H stefnufjárhæðina og að það samþykki hefði staðið óraskað þótt H hefði síðar kosið að ívilna K ehf. með því að lækka upphaflega kröfu sína með bókun um breytta kröfugerð í málinu. Á því stigi hefðu lög ekki staðið til annars en að dómur yrði felldur á málið, eins og skýlaust væri boðið í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, en í staðinn hefði héraðsdómur látið það viðgangast að K ehf. bæri fram kröfu um frávísun á breyttri kröfugerð H í málinu og síðan lagt úrskurð á hana. Þá var talið að héraðsdómara hefði ekki verið rétt að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði fjallað um það hvort vísa bæri breyttri kröfugerð H frá dómi, þar sem slík skipting á sakarefninu, sem K ehf. hafði leitað eftir á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, gæti aðeins varðað efnisatriði máls, en ekki formsatriði, sem taka þyrfti afstöðu til undir rekstri málsins, meðal annars samkvæmt 100. gr. sömu laga. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2012, þar vísað var frá dómi kröfu, sem sóknaraðili gerði í máli sínu á hendur varnaraðila um að þeim síðarnefnda yrði gert að greiða sér 18.995.691.317 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 10.735.196.334 krónum, sem greiðst hafi með skuldajöfnuði 14. nóvember 2008. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi með því „að frávísunarkröfu varnaraðila á þeirri lagfæringu sem sett var fram í endanlegri dómkröfu sóknaraðila á hdskj. nr. 49 verði hafnað“ og lagt fyrir héraðsdóm að taka „málið á ný til efnismeðferðar.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að „hinn kærði úrskurður verði staðfestur þannig að breytingu á kröfu sóknaraðila, sem hann setti fram með bókun á hdskj. 49 við fyrirtöku málsins 11. maí 2012, verði vísað frá dómi“, en til vara að „breytingarkröfunni verði hafnað.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins var gerður samningur 26. ágúst 2005 milli Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf., og varnaraðila, sem þá bar nafnið Exista ehf., um að sá síðarnefndi tæki að láni hjá bankanum jafnvirði allt að 150.000.000 evra í gjaldmiðlum, sem varnaraðili myndi greina frá í beiðni um útborgun lánsins. Lánið átti að endurgreiða í einu lagi að liðnum tveimur árum frá útborgun þess, en varnaraðila var þó veittur réttur til að fá lánstímann lengdan með nánar tilteknum skilyrðum. Ákvæði í samningnum um hæð vaxta voru með þrennu móti eftir því hvort sá hluti lánsins, sem þeir yrðu greiddir af, yrði í íslenskum krónum, evrum eða öðrum erlendum gjaldmiðlum, en í öllum tilvikum áttu þeir að svara til nánar tilgreindra millibankavaxta að viðbættu 1,75% álagi. Vextir skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn að liðnum þeim tíma frá útborgun lánsins. Varnaraðili beindi 30. ágúst 2005 útborgunarbeiðni til bankans og óskaði þar eftir að helmingur lánsins yrði í íslenskum krónum, fimmtungur í bandaríkjadölum, sama hlutfall í sterlingspundum og einn tíundi í svissneskum frönkum. Lánið virðist hafa verið greitt út í samræmi við þetta 2. september 2005. Varnaraðili og Glitnir banki hf. gerðu 17. ágúst 2007 viðauka við þennan samning, þar sem nokkrum atriðum í skilmálum hans var breytt, þar á meðal um tryggingar fyrir skuld varnaraðila, en í því sambandi var tekið upp ákvæði, sem lagði bann við því að hann hyglaði einum lánardrottni umfram aðra, svo sem „með skuldajöfnun krafna eða öðrum sambærilegum ráðstöfunum.“ Af gögnum málsins verður ráðið að lánstími samkvæmt samningnum hafi jafnframt verið framlengdur í ágúst 2007 um eitt ár.

Glitnir banki hf. framseldi sóknaraðila 2. maí 2008 kröfu sína samkvæmt lánssamningnum. Í samningi um framsalið kom meðal annars fram að sóknaraðili tilnefndi bankann sem umboðsmann sinn til að fara með öll réttindi og úrræði samkvæmt lánssamningnum. Í framhaldi af þessu gerðu málsaðilarnir ásamt bankanum yfirlýsingu 31. ágúst 2008 og var sóknaraðili þar nefndur lánveitandi og varnaraðili lántaki. Þar var kveðið á um að bankinn myndi „gera eða halda við einum eða fleiri gjaldeyrisskiptasamningum við lántaka á næsta 3 mánaða tímabili“, svo sem segir í framlagðri þýðingu þessarar yfirlýsingar, og skyldi lágmarksvirði gjaldmiðlaskiptasamninganna vera 420.000.000 evrur. Tekið var fram að yrðu þessir samningar ekki framlengdir að liðnu þriggja mánaða tímabili eða á síðari stigum yrði varnaraðila heimilt að „skuldajafna allri útistandandi hreinni stöðu sem er lántaka í hag á móti skuldbindingu lántaka við lánveitanda skv. núverandi láni ... Ef þær skuldbindingar sem á að skuldajafna eru í mismunandi gjaldmiðlum getur lántaki umreiknað hvora skuldbindinguna sem er miðað við markaðsgengi til þess að hægt sé að skuldajafna.“ Í tengslum við þetta gerðu málsaðilarnir síðan annan viðauka við lánssamninginn og var þar meðal annars kveðið á um lengingu lánstímans um eitt ár til 1. september 2009 og hækkun áðurnefnds álags á millibankavexti í 5,5%.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Tveimur dögum síðar óskaði varnaraðili eftir því við bankann að öllum gjaldmiðlaskiptasamningum um íslenskar krónur og evrur milli þeirra yrði lokað og þeir gerðir upp eftir gengi, sem Evrópski seðlabankinn styddist við, en samkvæmt því hafi hver evra kostað 305 krónur. Þetta ítrekaði varnaraðili með bréfum 11. og 22. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. sama mánaðar var tilteknum eignum og skuldbindingum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem nú ber heitið Íslandsbanki hf. Gjaldmiðlaskiptasamningar varnaraðila við eldri bankann munu ekki hafa verið meðal þess, sem flutt var til nýja bankans með þeirri ákvörðun, en í henni var þess sérstaklega getið að framsal kröfuréttinda samkvæmt henni svipti ekki „skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.“ Varnaraðili lýsti 14. nóvember 2008 yfir skuldajöfnuði á kröfum sínum á hendur Glitni banka hf. samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningum, sem væru með „nettaðri stöðu“ varnaraðila í hag að fjárhæð 43.671.271.897 krónur, gegn kröfum þess banka, Nýja Glitni banka hf. og sóknaraðila á hendur sér, sem væru samtals 39.211.962.993 krónur. Í yfirlýsingunni var tekið fram að „uppgjör afleiðusamninga og lánssamninga miðar við skráð gengi Seðlabanka Evrópu á þeim degi þegar krafa var gerð um lokun afleiðusamninga, þann 9. október 2008.“ Með bréfi 18. desember 2008 tilkynnti Nýi Glitnir banki hf. varnaraðila að hafnað væri skuldajöfnuði, meðal annars á þeirri forsendu að útreikningar varnaraðila á stöðu gjaldmiðlaskiptasamninga væru rangir. Þessu andmælti varnaraðili með bréfi 2. mars 2009 og tilkynnti hann jafnframt sóknaraðila 4. sama mánaðar að hann hafi neytt réttar til skuldajafnaðar, sem kveðið hafi verið á um í fyrrnefndri yfirlýsingu þeirra og Glitnis banka hf. 31. ágúst 2008, milli inneignar sinnar samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningum við bankann og skuld við sóknaraðila samkvæmt lánssamningnum frá 26. ágúst 2005. Af þessum sökum teldi varnaraðili sóknaraðila ekki eiga kröfu á hendur sér. Með bréfi til varnaraðila 27. maí 2009 lýsti Glitnir banki hf. yfir gjaldfellingu á skuld þess fyrrnefnda samkvæmt lánssamningnum frá 26. ágúst 2005, meðal annars sökum þess að hann hafi ekki staðið skil á vöxtum á gjalddaga 2. mars 2009, og ítrekaði um leið að hafnað væri fyrrgreindri yfirlýsingu um skuldajöfnuð.

II

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 29. október 2009 til greiðslu skuldar að fjárhæð 18.995.691.317 krónur með dráttarvöxtum frá 27. maí 2009 til greiðsludags. Samkvæmt héraðsdómsstefnu nam sú fjárhæð höfuðstól skuldar varnaraðila samkvæmt lánssamningnum 26. ágúst 2005, sem umreiknaður væri yfir í íslenskar krónur að því leyti, sem skuldin var í erlendum gjaldmiðlum, eftir skráðu gengi þeirra hjá Seðlabanka Íslands 27. maí 2009 þegar hún var gjaldfelld. Við höfuðstól væri síðan bætt umsömdum vöxtum til gjalddaga 2. mars 2009 og dráttarvöxtum af þeim samningsvöxtum frá gjalddaganum til 27. maí sama ár, svo og umsömdum vöxtum af skuldinni á tímabilinu milli þessara tveggja dagsetninga. Í stefnunni var sérstaklega tekið fram að sóknaraðili hafnaði því að varnaraðili hafi greitt skuld sína með skuldajöfnuði, sem sá síðarnefndi hafi lýst yfir 14. nóvember 2008, en í því sambandi var meðal annars vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki staðið í nokkurri skuld við varnaraðila.

Varnaraðili tók til varna gegn framangreindri dómkröfu sóknaraðila í greinargerð, sem lögð var fram á dómþingi 15. desember 2009. Í henni krafðist varnaraðili þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfu sóknaraðila. Sýknukrafa varnaraðila var reist annars vegar á því að sóknaraðili væri rangur aðili að málinu með því að hann ætti ekki þau réttindi, sem hann leitaði dóms um, og hins vegar því að varnaraðili hafi nýtt gagnkröfu á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamninga við Glitni banka hf. til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila, en gagnkrafan hafi numið hærri fjárhæð. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 var aðalkrafa varnaraðila um frávísun málsins ekki tekin til meðferðar, en hann lýsti yfir að fallið væri frá henni í þinghaldi 5. desember 2012.

Sóknaraðili lagði fram svonefnda bókun í þinghaldi í málinu 20. desember 2011, þar sem vísað var til þess að varnaraðili hafi frá öndverðu borið fyrir sig að krafa sóknaraðila væri fallin niður fyrir skuldajöfnuð, sem varnaraðili hafi lýst yfir 14. nóvember 2008. Í framhaldi af þessu sagði meðal annars eftirfarandi: „Þrátt fyrir að lögbundnum skilyrðum skuldajafnaðar sé ekki fullnægt ... hefur stefnandi ákveðið í þessu tilviki að samþykkja skuldajafnaðaryfirlýsingu stefnda miðað við stöðu krafna þann 9. október 2008 eins og lögmaður stefnda hefur haldið fram og gengi gjaldmiðla eins og það var skráð hjá Seðlabanka Íslands þann dag. Ekki er hins vegar fallist á að miða skuli við gengi gjaldmiðla eins og það var skráð hjá Seðlabanka Evrópu á þeim degi. ... Meginágreiningur aðila snýst því framvegis um hvaða gengi beri að leggja til grundvallar við útreikning á þeim afleiðukröfum sem stefndi hefur ákveðið að nota til skuldajafnaðar. ... Af þeim sökum mun stefnandi leggja fram nýja kröfugerð í næsta þinghaldi, sem felur í sér lækkun á kröfunni miðað við þessar forsendur.“

Í tilefni af framangreindu lagði varnaraðili fram í þinghaldi 23. apríl 2012 bókun, þar sem sagði meðal annars: „Kröfur stefnanda í máli þessu eru samningskröfur er falla undir nauðasamning stefnda sem Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti með úrskurði uppkveðnum 10. október 2010 ... Í þinghaldi 20. desember 2011 breytti stefnandi kröfugerð sinni í málinu og lýsti því yfir að hann hefði ákveðið að samþykkja skuldajafnaðaryfirlýsingu stefnda. Yfirlýsingin var gefin á forsendum sem stefndi samþykkir ekki og því er ekki samkomulag um skuldajöfnuðinn. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnanda í málinu. Stefndi hefur lýst kröfunum, sem stefnandi hefur nú samþykkt til skuldajafnaðar, við slit Glitnis hf. Ágreiningur er um fjárhæðir krafnanna við slitastjórn Glitnis hf. ... Vegna framangreindrar breytingar á kröfugerð stefnanda lýsir stefndi því yfir að hann samþykki kröfur stefnanda eins og þeim er lýst í stefnu aðrar en málskostnaðarkröfu. Þess er krafist að málskostnaður falli niður.“

Sóknaraðili lagði fram skjal í þinghaldi 11. maí 2012, þar sem „endanlegar dómkröfur“ hans komu fram og hljóðuðu svo: „Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 18.995.691.317,- með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 10.735.196.334,- sem stefndi greiddi inná kröfuna með skuldajöfnuði samkvæmt skuldajafnaðaryfirlýsingu dags. 14. nóvember 2008.“ Þá krafðist sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili lagði fram bókun í þinghaldi 30. maí 2012. Þar var því einkum borið við að vegna samþykkis varnaraðila á dómkröfu sóknaraðila, sem lýst var yfir 23. apríl sama ár, væri dómara „óheimilt að dæma kröfuna með öðrum hætti en samkvæmt upphaflegri kröfugerð í stefnu.“ Enn lagði varnaraðili fram bókun í þinghaldi 15. júní 2012, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Í því skyni að einfalda málsmeðferðina og komast hjá óþörfum töfum og kostnaði óskar stefndi þess að sakarefninu verði skipt þannig að sérstaklega verði fjallað um hvort breytt kröfugerð stefnanda komist að í málinu og þá hvort yfirlýsing stefnanda um að hann samþykki skuldajafnaðaryfirlýsingu stefnda, en á öðrum forsendum en lýst var af hálfu stefnda, leiði til þess að stefndi geti ekki fallið frá kröfu sinni um skuldajöfnuð. Kröfur stefnda í þessum þætti málsins yrðu eftirfarandi: Aðallega að breytingu á kröfu stefnanda, sem hann setti fram með bókun á dskj. 49 við fyrirtöku málsins 11. maí 2012, verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.“ Sóknaraðili lagði af þessu tilefni fram enn eina bókun í þinghaldi 19. júní 2012, þar sem hann kvaðst ekki gera athugasemd við ósk varnaraðila um að sakarefni í málinu yrði skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991.

Í þinghaldi 19. júní 2012 ákvað héraðsdómari að verða við beiðni varnaraðila um skiptingu sakarefnis í málinu „þannig að fyrst verði málið flutt um gagnkröfu stefnda, sbr. fyrri bókanir lögmanna“, svo sem sagði í bókun í þingbók. Málið var næst tekið fyrir 5. desember 2012 og var það þá munnlega flutt um kröfu varnaraðila um að „breytingu á kröfu varnaraðila ... verði vísað frá dómi“. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp af þessu tilefni 21. sama mánaðar.

III

Samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars, sem ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 eru meðal annarra reist á, hefur stefnandi máls í héraði einn forræði á því hvers hann krefst um úrlausn máls og er honum á þessum grunni í sjálfsvald sett að draga úr dómkröfu sinni undir rekstri máls uns það er tekið til dóms. Um þetta getur stefndi engu ráðið og er honum undir engum kringumstæðum fært að krefjast þess að stefnanda verði dæmt annað og meira en hann sjálfur krefst, heldur getur stefndi að því er efni máls varðar samþykkt kröfu stefnanda í einu og öllu, krafist sýknu af kröfunni eða krafist þess að stefnanda verði dæmt annað og minna en hann gerir kröfu um. Samþykki stefndi kröfu stefnanda skal málið dómtekið og dómur lagður á það í samræmi við það samþykki, sbr. 1. mgr. 98. gr. sömu laga.

Undir rekstri þessa máls hefur fyrrgreindum grundvallarreglum einkamálaréttarfars ekki verið gefinn gaumur sem skyldi. Eftir að málið hafði velkst fyrir héraðsdómi í nærfellt tvö og hálft ár kaus varnaraðili í þinghaldi 23. apríl 2012 að hverfa frá upphaflegri dómkröfu sinni um sýknu af kröfu sóknaraðila og lýsa þess í stað yfir samþykki á henni eins og hún hafði verið sett fram í stefnu. Áður hafði þó sóknaraðili lýst því yfir í þinghaldi 20. desember 2011 að hann hafi ákveðið að breyta dómkröfu sinni þannig að hún sætti lækkun vegna skuldajafnaðar af hendi varnaraðila. Við svo búið hefði að réttu lagi átt að taka málið til dóms samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, eftir atvikum að undangengnu því að sóknaraðila gæfist þegar í stað kostur á að breyta dómkröfu sinni á þann hátt að hann leitaði aðeins dóms um lægri fjárhæð en hann gerði í öndverðu. Þrátt fyrir þetta frestaði héraðsdómur málinu til annars þinghalds 11. maí 2012, þar sem sóknaraðili breytti dómkröfu sinni þannig að hann krafðist dóms um aðra og lægri fjárhæð úr hendi varnaraðila en gert hafði verið í stefnu. Málið hafði þá ekki verið dómtekið og gat því sóknaraðili enn komið að þessari breytingu á upphaflegri kröfu sinni. Úr því að varnaraðili hafði í þinghaldinu 23. apríl 2012 lýst sig samþykkan því að hann yrði dæmdur til að greiða sóknaraðila 18.995.691.317 krónur með dráttarvöxtum frá 27. maí 2009 til greiðsludags leiðir af áðursögðu að það samþykki tók eðli máls samkvæmt einnig til þess, sem minna var, en sóknaraðili hafði í þinghaldinu 11. maí 2012 kosið að ívilna varnaraðila með því að 10.735.196.334 krónur yrðu dregnar frá upphaflegu kröfunni. Á þessu stigi stóðu lög ekki til annars en að dómur yrði felldur á málið, eins og skýlaust er boðið í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, en í þeim dómi hefði í engu átt að taka afstöðu til málsástæðna aðilanna eða annarra röksemda, heldur leggja dóm á endanlega kröfu sóknaraðila í ljósi þess eins að varnaraðili hafi samþykkt hana. Gat dómstóla ekki varðað á hvaða forsendum aðilarnir hafi ákveðið að ráðstafa á þennan hátt sakarefninu hvor fyrir sitt leyti eða úr því sem komið var leyst úr hugsanlegum ágreiningi aðilanna um réttmæti slíkra forsendna.

Í stað þess að fara með málið á þann hátt, sem að framan segir, lét héraðsdómur viðgangast að varnaraðili bæri fram kröfu í þinghaldi 15. júní 2012 um að breytingu á kröfu sóknaraðila yrði vísað frá dómi. Án tillits til þess að varnaraðili hafði þegar á því stigi ráðstafað sakarefninu á þann hátt að hann samþykkti að verða dæmdur til að greiða sóknaraðila hærri fjárhæð en sá síðarnefndi nú kaus að fá dóm um, gat með engu staðist að breytingu til lækkunar á upphaflegri kröfu sóknaraðila yrði vísað frá dómi. Að auki verður ekki fram hjá því horft að þessi breytta krafa var eina dómkrafan, sem sóknaraðili hafði orðið uppi í málinu, og leiðir af sjálfu að ekki hefði verið annað unnt en að vísa því í heild frá dómi ef annmarkar hefðu verið á kröfunni, sem frávísun gætu valdið. Til viðbótar þessu var síðan sem áður segir farin sú leið í þinghaldi 19. júní 2012 samkvæmt beiðni varnaraðila að skipta sakarefni í málinu til þess eins að fjalla fyrst um það hvort vísa ætti kröfu sóknaraðila frá dómi. Slík skipting á sakarefninu, sem varnaraðili leitaði á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, getur aðeins varðað efnisatriði máls, en ekki formsatriði, sem taka þarf afstöðu til undir rekstri þess, meðal annars samkvæmt 100. gr. sömu laga.

Í ljósi þess alls, sem að framan greinir, verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að fella á þann hátt, sem áður er rakinn, efnisdóm á málið í samræmi við 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991.

Í ljósi atvika eru ekki efni til annars en að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Það athugast að verulegar tafir hafa orðið á rekstri málsins fyrir héraðsdómi, sem haldbærar skýringar hafa ekki verið færðar fyrir. Einnig hafa aðilarnir eins og áður greinir ítrekað lagt fram í héraði bókanir, sem þeir hafa nefnt svo og geyma í verulegum mæli skriflegan málflutning. Þá hefur í hinum kærða úrskurði verið farin sú leið að nefna stefnda í héraði sóknaraðila og stefnanda varnaraðila, sem lagastoð er ekki fyrir og horfir síst til skýringar eins og atvikum er hér háttað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Holt Funding 2008, til heimilis að 5 Harbourmaster Place, International Financial Services Centre, Dublin 1, Írlandi, gegn Klakka ehf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 29. október 2009.

Varnaraðili, stefnandi Holt Funding, gerði upphaflega þá dómkröfu að sóknaraðili, stefndi Klakki ehf., yrði dæmdur til að greiða varnaraðila 18.995.691.317 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. maí 2009 til greiðsludags. Þá gerði varnaraðili kröfu um að sóknaraðili yrði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Sóknaraðili krafðist þess aðallega að kröfum varnaraðila yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum kröfum varnaraðila og honum gert að greiða sóknaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, þ.m.t. kostnað vegna virðisaukaskattskyldu lögmanna.

Í þinghaldi í máli þessu þann 5. desember sl. féll varnaraðili frá ofangreindri frávísunarkröfu sinni.

Krafa sóknaraðila í máli því sem hér er til úrskurðar er aðallega sú að breyting á kröfu varnaraðila sem hann setti fram með bókun í þinghaldi þann 11. maí 2012 verði vísað frá dómi en breytingarkrafan er svohljóðandi: „… að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 18.995.691.317 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 10.735.196.334 kr. sem stefndi greiddi inn á kröfuna með skuldajöfnuði samkvæmt skuldajafnaðaryfirlýsingu dagsettri 14. nóvember 2008.“

Til vara gerir sóknaraðili þá kröfu að breytingarkröfunni verði hafnað.

Krafa varnaraðila í þessum þætti málsins er að frávísunarkröfu sóknaraðila verði hafnað sem og öðrum kröfum hans á dómskjali 53 og málið tekið til efnismeðferðar þar sem útkljáð verði hvaða gengi beri að leggja til grundvallar við uppgjör á skuldajafnaðarkröfu sóknaraðila.

Hvorugur málsaðila gerir kröfu um málskostnað úr hendi hins í þessum þætti málsins.

Með bókun sóknaraðila sem lögð var fram þann 15. júní 2012 óskaði hann eftir því að sakarefni málsins yrði skipt samkvæmt heimild í 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að fyrst yrði sérstaklega úrskurðað um það hvort breytt kröfugerð varnaraðila komist að í málinu. Með bókun varnaraðila sem lögð var fram þann 19. júní 2012 tók hann undir þessa kröfu sóknaraðila. Dómari féllst á framangreinda ósk málsaðilja með vísan til tilvitnaðrar 31. gr. laga nr. 91/1991 og er sakarefni málsins því skipt í samræmi við hana. Verða aðrir þættir málsins því látnir bíða niðurstöðu í ofangreindum ágreiningi.

Málavextir, málsatvik og lagarök

Þann 26. ágúst 2005 gerði sóknaraðili, Klakki ehf., þá Exista ehf., og þá Íslandsbanki hf., síðar Glitnir og nú Íslandsbanki hf., með sér lánssamning þar sem sóknaraðili lofaði að taka að láni og Íslandsbanki að lána sóknaraðila fjárhæð að jafnvirði 150.000.000 evra í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum. Lánið var upphaflega veitt til tveggja ára og skuldbatt sóknaraðili sig til að endurgreiða það með einni greiðslu að þeim tíma liðnum. Til tryggingar greiðslu settu sóknaraðili og aðilar honum tengdir að handveði hlutabréf í Bakkavör Group hf. að nafnverði 75.000.000 kr., hlutabréf í Kaupþing banka hf. að nafnverði 17.500.000 kr. og hlutabréf í Vátryggingafélagi Íslands hf. að nafnverði 92.000.000 kr.

Þann 2. september 2005 var varnaraðila greiddur höfuðstóll lánsins með þeim hætti að 50% lánsfjárhæðarinnar var greiddur í íslenskum krónum inn á tékkareikning varnaraðila í Kaupþing banka, 20% á gjaldeyrisreikning varnaraðila í sama banka í Bandaríkjadölum, 20% á annan gjaldeyrisreikning varnaraðila í sama banka, í breskum pundum, og 10% á enn annan gjaldeyrisreikning stefnda í sama banka, í svissneskum frönkum.

Þann 17. ágúst 2007 var undirritaður viðauki við lánssamninginn og segir þar að lántaki hafi verið að vinna að því með lánaveitendum sínum og dótturfélaga sinna að hann þurfi framvegis ekki að leggja fram sérstakar tryggingar fyrir lánum. Í viðaukanum sömdu aðilar um að breyta skilmálum samningsins um tryggingar og sérstakar skuldbindingar þannig að þær tryggingar sem lántakandi setti lánveitanda upphaflega í formi handveða falli niður. Í stað þess var bætt við fjárhagslegar kvaðir sem lántakandi skuldbatt sig til að hlíta uns lánið yrði að fullu greitt. Segir m.a. í IX. lið 10. kafla að lántakandi skuli ekki gera neitt annað „sem hefur það í för með sér að einum kröfuhafa lánataka er hyllt umfram annan, s.s. með skuldajöfnun krafna eða öðrum sambærilegum ráðstöfunum“.

Þann 2. maí 2008 framseldi Glitnir banki hf. lánsamninginn til varnaraðila. Þann 12. maí 2008 gerðu varnaraðili o.fl. umboðssamning við Glitni banka hf. þar sem bankinn tók að sér hlutverk umboðsmanns fyrir varnaraðila og fól það m.a. í sér umsjón með kröfu varnaraðila samkvæmt lánssamningnum og að sinna hagsmunagæslu er tengist kröfunni. Þann 27. ágúst 2008 gaf varnaraðili út umboð til handa bankanum til að gæta hagsmuna varnaraðila í samræmi við samninginn.

Þann 31. ágúst 2008 undirritaði Glitnir banki hf., sóknaraðili og starfsmenn Glitnis banka hf. fyrir hönd varnaraðila, skjal, „Side Letter“, þar sem tilgreint er að sóknaraðili og Glitnir banki hf. hafi gert með sér áðurnefndan lánssamnings dagsettan 26. ágúst 2005 og að samningurinn hafi verið framseldur til varnaraðila þann 11. apríl 2008. Skilmálum og tryggingum samkvæmt samningnum hafi verið breytt í ágúst 2007 og síðar í sama mánuði hafi varnaraðili, með sérstökum viðauka, m.a. samþykkt að framlengja lokagjalddaga lánsins til 1. september 2009. Í 1. gr. segir m.a. að með hliðsjón af breytingum lánveitanda á láni lántaka samkvæmt skilmálum lánssamningsins, sbr. breytingarsamningana, hafi lántaki og lánveitandi komið sér saman um að Glitnir gerði eða héldi við einum eða fleiri gjaldeyrisskiptasamningum við lántaka á næsta þriggja mánaða tímabili eftir undirritunardagsetningu hliðarsamnings þessa. Í 3. mgr. 1. gr. segir að ef ofangreindir gjaldeyrisskiptasamningar séu ekki framlengdir umfram upphaflega þriggja mánaða tímabilið, eða ekki framlengdir síðar, hafi lántaki rétt til að skuldajafna allri útistandandi hreinni stöðu sem sé lántaka í hag á móti skuldbindingu lántaka við lánveitanda samkvæmt núverandi láni, hvort sem slík skuldbinding sé til staðar nú eða í framtíðinni, og hvort sem hægt sé að verðleggja slíka skuldbindingu eða ekki.

Þann 1. september 2008 var gerður viðauki við framlengingu samningsins frá 26. ágúst 2005 og var þar m.a. ákvæði þar sem sóknaraðili skuldbatt sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 1. september 2009.

Þann 7. október 2008 setti Alþingi lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þann sama dag sendi stjórn Glitnis banka hf. bréf til Fjármálaeftirlitsins. Þar kom fram að stjórnin telji að fjárhagsleg staða bankans væri slík að skilyrði 5. gr. laganna nr. 125/2008 væru uppfyllt. Í framhaldi tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008 að taka yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf., víkja félagsstjórn í heild frá störfum þegar í stað og skipa bankanum skilanefnd.

Þann 9. október 2008 sendi starfsmaður sóknaraðila tölvupóst til Glitnis banka hf. þar sem stefndi óskar eftir lokun á öllum „EUR/ISK gjaldeyrissamningum“ og að þeir yrðu gerðir upp á viðmiðunargengi EUR/ISK gefnu út af Evrópska Seðlabankanum, European Central Bank.

Þann 11. október 2008 sendi sóknaraðili skilanefnd Glitnis bréf þar sem hann telur að þar tilgreindu skuldbindingum sóknaraðila gagnvart Glitni banka hf. verði skuldajafnað á móti kröfum sóknaraðila og dótturfélaga gagnvart varnaraðila.

Í bréfi dagsettu 22. október 2008 til Glitnis banka hf. ítrekar sóknaraðili gerðar kröfur félagsins um að fyrrgreindir samningar séu gerðir upp miðað við gengi EUR/ISK þann 9. október 2008.

Þann 14. nóvember 2008 barst Glitni banka yfirlýsing um skuldajöfnuð frá sóknaraðila. Segir í yfirlýsingunni að með vísan til 13. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins dagsettri 14. október 2008 og Side Letter milli sóknaraðila, Glitnis banka og Holt Funding 2008-1 Limited, dagsettri. 31. ágúst 2008, lýsi sóknaraðili yfir skuldajöfnuði á hendur Glitni banka með 43.671.271.897 kr. sem byggi á nettaðri stöðu afleiðusamninga sem tilgreindir eru í viðauka A með skuldajafnaðaryfirlýsingunni á móti kröfum sem Glitnir banki, Nýi Glitnir banka hf. og HOLT Funding 2008-1 Ltd. eiga á hendur sóknaraðila, samtals að fjárhæð 39.211.962.993 kr. á grundvelli skuldaskjala sem fylgdu í viðauka B. Ein þeirra gagnkrafna sem sóknaraðili skuldajafnar með gegn Glitni banka hf., Nýja Glitni banka hf. og HOLT Funding 2008-1 Ltd. er framangreindur lánssamningur í eigu varnaraðila. Segir í yfirlýsingunni að forsenda hennar sé að ógjaldfallnir samningar falli í gjalddaga miðað við dagsetningu yfirlýsingarinnar og að uppgjör allra afleiðusamninga, gjaldfallinna sem ógjaldfallinna, miðist við dagsetningu yfirlýsingarinnar. Þá segir að forsendan sé sú að kröfurnar séu hæfar til að mætast, enda séu hinir framvirku gjaldmiðlasamningar og lánveitingar varnaraðila, Nýja Glitnis banka hf. og Glitnis banka meðal annars tengdir viðskiptum vegna áhættustýringar auk þess sem vísað er til skuldajöfnunarheimildar í 1. gr. Side Letterfrá 30. ágúst 2008 og uppgreiðsluheimilda í lánssamningunum. Tiltekur sóknaraðili sérstaklega að séu einhverjar kröfur ekki hæfar til að mætast skuli skuldajafnaðaryfirlýsingin skoðast sem skuldajöfnun að því er tekur til þeirra krafna sem hæfar eru til að mætast.

Þann 18. desember 2008 ritaði Nýi Glitnir banki sóknaraðila bréf þar sem hann hafnaði, fyrir sína hönd og vegna Glitnis banka hf., skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila frá 14. nóvember 2008.

Þann 4. mars 2009 sendi sóknaraðili varnaraðila bréf vegna framangreinds lánssamnings. Tilgreinir sóknaraðili þar að lánssamningurinn hafi verið framseldur af Glitni til varnaraðila. Þá er vísað til Side Letter dagsetts 31. ágúst 2008 sem sagt er vera milli Glitnis, sóknaraðila og varnaraðila þar sem meðal annars hafi verið samþykkt að sóknaraðili myndi gera tiltekna samninga (FX agreements) við Glitni. Sóknaraðili tiltekur að samkvæmt 1. gr. Side Letter telji hann sig eiga rétt til að skuldajafna við varnaraðila. Segir sóknaraðili að í samræmi við yfirlýsingu um skuldajöfnuð þann 14. nóvember 2008 hafi sóknaraðili lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart lánssamningi í eigu varnaraðila gegn kröfu sóknaraðila samkvæmt nettaðri stöðu afleiðusamninga á hendur Glitni. Lýsti sóknaraðili því yfir að hann hefði efnt allar skyldur og skuldir samkvæmt lánssamningnum og hann væri að fullu greiddur.

Þann 27. maí 2009 sendi Glitnir banki fyrir hönd varnaraðila sóknaraðila bréf þar sem sóknaraðila var tilkynnt um vanefnd á nánar tilgreindum ákvæðum lánssamningsins, að samningurinn hefði verið gjaldfelldur og að þess væri krafist að sóknaraðili greiddi þegar eftirstöðvar lánsins. Í lok framangreinds bréfs kemur fram yfirlýsing af hálfu Glitnis banka hf. þar sem ítrekuð er fyrri afstaða bankans um höfnun á þeirri skuldajafnaðaryfirlýsingu sem borist hafi frá sóknaraðila þann 14. nóvember 2008.

Sóknaraðili svaraði með bréfi dagsettu 4. júní 2009 þar sem hann áréttaði þann skilning sinn að hann liti svo á að umrædd krafa væri að fullu greidd af sinni hálfu.

Varnaraðili sendi sóknaraðila bréf dagsett 13. október 2009, þar sem því er lýst yfir að varnaraðili sé ekki bundinn af framangreindu Side Letter, þar sem sóknaraðila hafi verið eða mátt vera ljóst að Glitnir hefði farið út fyrir umboð sitt samkvæmt því umboðsskjali sem vísað er til á Side Letter og ítrekaði kröfu um greiðslu.

Í greinargerð sóknaraðila gerir hann þá kröfu að hann verði sýknaður af kröfu varnaraðila á grundvelli aðildarskorts en verði ekki orðið við þeirri kröfu verði hann sýknaður þar sem krafa varnaraðila hafi verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingu sem send var Glitni banka hf. þann 11. október 2008 og ítrekuð 22. sama mánaðar og 14. nóvember 2008.

Með bókun sem lögð var fram í þinghaldi þann 20. desember 2011 lýsti varnaraðili því yfir að hann hefði, þrátt fyrir að lögbundnum skilyrðum skuldajafnaðar væri ekki fullnægt, ákveðið að samþykkja skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila miðað við stöðu krafna þann 9. október 2008 og gengi gjaldmiðla eins og það var skráð hjá Seðlabanka Íslands þann dag.

Í þinghaldi þann 23. apríl 2012 lagði sóknaraðili fram bókun og segir þar að þann 20. desember 2011 hafi varnaraðili breytt kröfugerð sinni og lýst því yfir að hann hefði ákveðið að samþykkja skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila. Yfirlýsingin var gefin á forsendum sem sóknaraðili samþykkir ekki og því er ekki samkomulag um skuldajöfnuðinn. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu varnaraðila í málinu. Sóknaraðili hefur lýst kröfunum, sem varnaraðili hefur nú samþykkt til skuldajafnaðar, við slit Glitnis hf. Ágreiningur er um fjárhæðir krafnanna við slitastjórn Glitnis hf. Verði kröfurnar ekki viðurkenndar eða um þær takist samkomulag verður ágreiningnum vísað til héraðsdóms, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Vegna framangreindrar breytingar á kröfugerð varnaraðila lýsti sóknaraðili því yfir að hann samþykki kröfur varnaraðila eins og þeim er lýst í stefnu aðrar en málskostnaðarkröfu.

Þann 11. maí 2012 lagði varnaraðili fram bókun um endanlega kröfugerð sína þar sem fram kemur sú kröfugerð sem hér er tekist á um og forsendur varnaraðila fyrir henni. Með annarri bókun framlagðri sama dag gerði varnaraðili þá kröfu að þar sem sóknaraðili hafi fallist á kröfu hans yrði málið dæmt um málskostnaðarkröfu.

Með bókun sóknaraðila framlagðri 30. maí 2012 ítrekaði hann að hann samþykki dómkröfur eins og þær koma fram í stefnu en ekki miðað við breytta kröfugerð varnaraðila. Hann mótmælti því að forsendur séu til að dæma kröfuna í samræmi við bókun varnaraðila frá 11. maí 2012 þar sem varnaraðila sé óheimilt að gera breytingar á dómkröfum sínum nema að þær feli í sér lækkun. Um slíkt væri ekki að ræða hér heldur ráðstöfun á hluta kröfunnar til greiðslu umdeildar gagnkröfu.

Með framlagðri bókun sóknaraðila frá 15. júní 2012 óskaði hann eftir því að sakarefni málsins yrði skipt á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Segir í bókun hans að í því skyni að einfalda málsmeðferðina og komast hjá óþörfum töfum og kostnaði óski sóknaraðili þess að sakarefninu verði skipt þannig að sérstaklega verði fjallað um hvort breytt kröfugerð varnaraðila komist að í málinu og þá hvort yfirlýsing varnaraðila um að hann samþykki skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila, en á öðrum forsendum en lýst var af hálfu sóknaraðila, leiði til þess að sóknaraðili geti ekki fallið frá kröfu sinni um skuldajöfnuð. Kröfur sóknaraðila í þessum þætti málsins yrðu eftirfarandi: Aðallega að breytingu á kröfu stefnanda, sem hann setti fram með bókun á dómskjali nr. 49 við fyrirtöku málsins 11. maí 2012, verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.

Með bókun varnaraðila sem lögð var fram þann 19. júní 2012 lýsti hann því yfir að hann gerði ekki athugasemd við ósk sóknaraðila um skiptingu sakarefnis og mótmælti því að dómara væri skylt að dómtaka mál á grundvelli lækkaðrar kröfugerðar eins og hún væri sett fram í bókun.

Vegna þess ágreiningsefnis sem hér er til úrlausnar er nauðsynlegt að rekja að einhverju leyti þær málsástæður sem aðilar byggja á vegna upphaflegrar stefnukröfu.

Krafa varnaraðila um að sóknaraðili greiði gjaldfallinn höfuðstól, vexti, dráttarvexti og kostnað er byggð á ákvæðum og skilmálum lánssamnings aðila, dagsettum 26. ágúst 2005, viðauka við hann dagsettum 17. ágúst 2007, og viðauka við hann dagsettum 1. september 2008. Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins skuldbatt sóknaraðili sig til þess að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti í fyrsta sinn sex mánuðum frá útborgunardegi og síðan á sex mánaða fresti. Greiddi sóknaraðili vexti af skuld sinni í samræmi við ákvæði lánssamningsins fram að vaxtagjalddaga þann 2. mars 2009, en frá þeim tíma hefur sóknaraðili verið í vanskilum og ekki greitt áfallna vexti í samræmi við ákvæði lánssamningsins.

Samkvæmt ákvæðum 11. gr. (i) í lánssamningi aðila var varnaraðila heimilt að gjaldfella samninginn ef stefndi stæði ekki við greiðslu vaxta samkvæmt ákvæðum samningsins og slík vanefnd stæði lengur en í 14 daga. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. samningsins var varnaraðila heimil slík gjaldfelling án fyrirvara og viðvörunar.

Með tilkynningu dagsettri. 27. maí 2009, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila um gjaldfellingu lánssamningsins vegna vanefnda á greiðslu vaxta, sem þá hafði staðið frá 2. mars 2009. Var krafan gjaldfelld miðað við stöðu hennar á gjaldfellingardegi þann 27. maí 2009 miðað við skráð sölugengi hjá Seðlabanka Íslands og er það stefnufjárhæð málsins.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki heimild að lögum til að greiða kröfu samkvæmt lánssamningnum með skuldajöfnun þeirri sem hann lýsti yfir með yfirlýsingu þann 14. nóvember 2008 og að meginskilyrði skuldajafnaðar, þess efnis að um gagnkvæmar kröfur sé að ræða, sé ekki uppfyllt enda varnaraðili ekki skuldari á kröfum sem sóknaraðili notaði til skuldajafnaðar.

Varnaraðili byggir einnig á því að þegar sóknaraðili undirritaði viðauka með skilmálabreytingum á lánssamningnum þann 17. ágúst 2007 hafi sóknaraðili afsalað sér öllum rétti til að lýsa yfir skuldajöfnuði gagnvart varnaraðila og öðrum kröfuhöfum sóknaraðila.

Þá byggir varnaraðili á því að hann sé ekki bundinn við efni „Side Letter“ þar sem skjalið hafi verið undirritað af umboðsmanni varnaraðila, Glitni banka hf., sem með undirrituninni hafi farið út fyrir umboð sitt samkvæmt umboðssamningi og hafi sóknaraðila verið fullkunnugt um efni og umfang umboðsins.

Loks byggir varnaraðili á því að verði talið, þrátt fyrir skort á gagnkvæmni krafna, afsal á rétti til skuldajöfnunar og að Glitnir banki sem umboðsmaður varnaraðila hafi farið út fyrir umboð sitt, að sóknaraðili geti átt rétt til skuldajöfnunar á hendur varnaraðila, þá sé sá réttur leiddur af mögulegum rétti sóknaraðila til að skuldajafna við Glitni banka hf. Byggir varnaraðili á því að ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 standi því í vegi að sóknaraðili eigi rétt til skuldajöfnunar á hendur Glitni banka hf. og því geti hann ekki átt afleiddan rétt til skuldajöfnunar á hendur varnaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli frá árinu 1995, blaðsíðu 1700.

Varnaraðili byggir á því að samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða, í lögum nr. 44/2009, eigi ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., við um skuldajöfnuð sóknaraðila. Þar segir að hver sá, sem skuldi þrotabúi, geti dregið það frá sem hann eigi hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið. Skilyrði þess að beita megi skuldajöfnuði samkvæmt 100. gr. er að lánardrottinn hafi eignast kröfu þá sem hann hyggst nota til skuldajöfnunar a.m.k. þremur mánuðum fyrir frestdag.

Frestdagur vegna Glitnis banka hf. var þann 15. nóvember 2008 og því er óheimilt að skuldajafna gagnvart honum kröfum sem urðu til eftir 15. ágúst 2008. Þeir gjaldmiðlaskiptasamningar sem sóknaraðili notaði til skuldajafnaðar með yfirlýsingu sinni frá 14. nóvember 2008 urðu allir til eftir 15. ágúst 2008. Sóknaraðila er því þegar af þeirri ástæðu óheimil skuldajöfnun gagnvart Glitni banka hf. og þar með átti hann ekki afleiddan rétt til þess að skuldajafna við varnaraðila, óháð réttmæti krafna hans að öðru leyti.

Varnaraðili byggir einnig á því að yfirlýsing sóknaraðila um skuldajöfnuð uppfylli ekki almenn skilyrði kröfuréttar um skuldajöfnuð. Slíkar yfirlýsingar þurfi að vera nægilega skýrar og ótvíræðar til að viðkomandi kröfuhafi geti áttað sig á því hvaða skuld sé verið að jafna á móti annarri og án skilyrða og nokkurra fyrirvara en svo sé ekki háttað í þessu tilviki.

Lausnardagur kröfu varnaraðila var ókominn er sóknaraðili sendi yfirlýsingu um skuldajöfnuð. Sóknaraðila var þannig óheimilt að greiða upp lánið á þeim degi og varnaraðili ekki skyldugur til að taka við greiðslu.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að honum hafi verið tæk vanefndaúrræði, s.s. að gjaldfella eða flýta lausnardegi á afleiðusamningum, gagnvart varnaraðila þann 14. nóvember 2008 er hann lýsti yfir skuldajöfnuði.

Verði ekki fallist á sjónarmið varnaraðila um að skuldajöfnun sóknaraðila sé honum ekki tæk, hvort sem væri vegna hindrana samkvæmt lögum eða formgalla, byggir varnaraðili á því að sóknaraðili geti ekki miðað uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga við gengi Evrópska Seðlabankans þann 9. október 2008, heldur beri að miða við skráð gengi Seðlabanka Íslands, sbr. 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.

Þá byggir varnaraðili á því að ef svo yrði talið að sóknaraðila hefði verið heimilt að skuldajafna þeim gjaldmiðlaskiptasamningum sem komnir voru í gjalddaga þann 14. nóvember 2008 þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann eigi kröfur vegna umræddra gjaldmiðlasamninga eða að hann hafi efnt gjaldmiðlaskiptasamninga af sinni hálfu. Forsenda uppgjörs á grundvelli þeirra er að gagnkvæmt uppgjör þeirra á skyldum hvors aðila um sig fari fram.

Sóknaraðili byggir á því að honum hafi verið heimilt að lögum að skuldajafna kröfum sínum á hendur Glitni banka hf. gegn kröfu Glitnis banka hf. og varnaraðila á grundvelli lánssamningsins. Öll skilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt þegar skuldajafnaðaryfirlýsingin var gefin og framsal Glitnis banka hf. á kröfunni til varnaraðila breyti engu um rétt sóknaraðila til að bera skuldajöfnuðinn fyrir sig, sbr. 1. gr. „Side Letter“.

Sóknaraðili hafnar því jafnframt að varnaraðili sé ekki bundinn við efni „Side Letter“ þar sem Glitnir banki hf. hafi farið út fyrir umboð sitt. Sóknaraðili bendir í fyrsta lagi á að varnaraðili líti alfarið fram hjá hinu raunverulega umboðsskjali dagsettu 27. ágúst 2008 sem varnaraðili gaf út til handa Glitni banka hf. Varnaraðili gerir á engan hátt grein fyrir því hvernig Glitnir banki hf. fór út fyrir umboðið. Verður varnaraðili að bera áhættuna af því ef orðalag umboðsins varð víðtækara en hann hafði hugsað sér. Jafnframt bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi sýnt af sér algjört tómlæti sem leiði til þess að hann geti ekki borið fyrir sig þessa málsástæðu. Varnaraðili hefur engum mótmælum hreyft við heimild sóknaraðila til að skuldajafna vegna meints umboðsskorts, eða borið því við að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila hafi ekki verið nægilega birt varnaraðila, fyrr en með bréfi sínu dagsettu 13. október 2009. Ljóst sé að varnaraðila hafi í síðasta lagi verið kunnugt um skuldajöfnuðinn með bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dagsettu 4. mars 2009.

Sóknaraðili hafnar því að hann hafi afsalað sér rétti til að lýsa yfir skuldajöfnuði gagnvart varnaraðila og öðrum kröfuhöfum sóknaraðila samkvæmt IX-lið 10. kafla í lánssamningi aðila eins og honum var breytt með viðauka 17. ágúst 2007 og telur texta ákvæðisins vera merkingarleysu. Skilmálarnir voru samdir af Glitni banka hf. Hafi í umræddu ákvæði átt að felast fortakslaust bann við skuldajöfnuði gagnvart bankanum sjálfum hefði þurft að taka það fram með skýrum og afdráttarlausum hætti, sbr. þær ríku kröfur sem gerðar eru til aðgæsluskyldu fjármálafyrirtækja. Hvað sem ofangreindu líður er ljóst að heimild sóknaraðila til skuldajafnaðar á grundvelli 1. gr. „Side Letter“ víkur ofangreindu ákvæði lánssamningsins til hliðar.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, gilda sömu reglur um slit fjármálafyrirtækis og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita, leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sóknaraðila hafi verið óheimilt að nota afleiðusamningana til skuldajafnaðar gagnvart kröfu varnaraðila samkvæmt lánssamningnum þar sem afleiðusamningarnir hafi allir orðið til eftir 15. ágúst 2008. Varnaraðili vísar í þeim efnum til 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga sem kveður m.a. á um að lánardrottinn þurfi að hafa eignast kröfu áður en þrír mánuðir séu til frestdags svo unnt sé að nota hana til skuldajafnaðar.

Sóknaraðili telur að undirritun varnaraðila á „Side Letter“ leiði til þess að sóknaraðili eigi sjálfstæðan rétt til að skuldajafna kröfum á grundvelli afleiðusamninganna sem tilgreindir eru sem fylgiskjal með yfirlýsingu frá 9. nóvember 2009, á móti lánssamningnum. Réttur til skuldajöfnunar sé m.ö.o. ekki afleiddur af mögulegum rétti hans til skuldajöfnunar gagnvart Glitni banka hf., eins og haldið sé fram í stefnu. Í öllu falli telur sóknaraðili að ákvæði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga komi ekki í veg fyrir skuldajöfnun.

Varnaraðili hefur lagt fram samantekt yfir framvirka gjaldmiðlasamninga sóknaraðila og Glitnis banka hf. sem sýni að sóknaraðili og Glitnir banki hf. stofnuðu til afleiðusamninganna, sem notaðir voru til skuldajöfnunar, löngu fyrir 15. ágúst 2008.

Sóknaraðili telur að 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga taki ekki til krafna sem verða til í virku, gagnkvæmu viðskiptasambandi tveggja aðila, eins og því sem verið hefur á milli Glitnis banka hf. og sóknaraðila.

Skuldajöfnun felur í sér greiðslu á kröfu. Almennar reglur kröfuréttarins gilda um skuldajöfnuð svo lengi sem bú kröfuhafans er ekki undir skiptum. Í því tilviki sem hér um ræðir fór skuldajöfnuður fram fyrir frestdag.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila uppfylli ekki almenn skilyrði kröfuréttar um skuldajöfnuð. Sóknaraðili hafnar þeim sjónarmiðum að yfirlýsingin hafi verið bindandi gagnvart Glitni banka hf. og varnaraðila og jafnframt telur stefndi að 2. mgr. 4. gr. Almennra skilmála B vegna markaðsviðskipta hjá Glitni banka hf. og sóknaraðila, sbr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti, leiði til sömu niðurstöðu.

Sóknaraðili mótmælir því að yfirlýsingin hafi ekki verið nægilega skýr og ótvíræð. Hann bendir í fyrsta lagi á að skuldajafnaðaryfirlýsingin hafi verið samin eftir að viðræður höfðu farið fram milli hans og Glitnis banka hf. og um skuldajöfnuð eftir forskrift sem bankinn lagði sjálfur til. Í öðru lagi bendir sóknaraðili á að afleiðusamningarnir séu nettaðir og tilgreindir hver fyrir sig. Í þriðja lagi bendir hann á að inneign hans samkvæmt skuldajafnaðaryfirlýsingunni umfram skuldir við Glitni banka hf. hafi numið 4,5 milljörðum króna. Því hafi í sjálfu sér ekki verið ástæða til að tilgreina nákvæmlega hvaða krafa ætti að mæta hverri.

Loks bendir sóknaraðili á að þrátt fyrir að ágreiningur sé milli aðila um hvaða gengi skuli notað til viðmiðunar við uppgjör afleiðusamninganna hafi Glitnir banki hf. viðurkennt að sóknaraðili eigi inneign vegna afleiðusamninganna sem nemi 12.350.850.000 kr. auk vaxta frá skráðum gjalddögum samninganna, sbr. yfirlit sem bankinn sendi sóknaraðila 25. febrúar 2009.

Varnaraðili byggir á því að lausnardagur kröfu hans og eftir atvikum Glitnis banka hf. hafi ekki verið kominn þegar sóknaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði þann 14. nóvember 2008. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lánssamningsins, sbr. viðauka við samninginn dagsettan 1. september 2008, er lántaka heimilt að greiða lánið að hluta eða fullu leyti fyrir gjalddaga án greiðslu uppgreiðslugjalds. Skal lántaki tilkynna um uppgreiðsluna með 10 daga fyrirvara. Sóknaraðili bendir á að í bréfi forstjóra stefnda til Glitnis banka hf., dagsettu 11. október 2008, sé lýst yfir skuldajöfnuði á afleiðusamningunum og ákveðnum skuldum sóknaraðila við bankann. Skuldajöfnuðinum var þar af leiðandi lýst að undangengnum fyrirvaranum sem áskilinn er. Þá leiðir einnig af 1. gr. „Side Letter“ að sóknaraðila var heimilt að greiða lánið með skuldajöfnuði fyrir upphaflegan gjalddaga þess, án undanfarandi tilkynningar.

Sóknaraðili telur að allar kröfur Glitnis banka hf. samkvæmt afleiðusamningunum hafi gjaldfallið og verið nettaðar áður en yfirlýsingin var gefin út þann 14. nóvember 2008. Í þeim efnum vísar stefndi til 1. gr. „Side Letter“, reglna kröfuréttarins um fyrirsjáanlega vanefnd, ákvæða gr. 3.1-3.3 í Almennum skilmálum um framvirk gjaldmiðlaviðskipti útgefnum af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998 („skilmálar SFF“), og 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmálanna. Sóknaraðili hafnar þeim mótbárum varnaraðila að honum hafi ekki verið tæk vanefndaúrræði, s.s. að gjaldfella eða flýta lausnardegi á afleiðusamningunum. Þá hafnar sóknaraðili því einnig að hann hafi ekki rift eða sagt afleiðusamningunum upp í samræmi við markaðsskilmálana.

Sóknaraðili byggir á því að frá og með 7. október 2008 hafi verið fyrirsjáanlegt að Glitnir banki hf. gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. gr. „Side Letter“. Sóknaraðila var þar af leiðandi heimilt að krefjast lokunar á afleiðusamningunum á grundvelli sama ákvæðis með tölvubréfi, dagsettu 9. október 2008.

Hafni dómurinn málsástæðum sóknaraðila um að honum hafi verið heimilt að gjaldfella afleiðusamningana byggir sóknaraðili á því að skyldur hans og Glitnis banka hf. samkvæmt afleiðusamningunum hafi sjálfkrafa fallið í gjalddaga og jafnast hvor á móti annarri, án sérstakrar tilkynningar þar að lútandi, á grundvelli 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmálanna, sbr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Því til stuðnings vísar sóknaraðili til orðalags ákvæðisins og tilskipunar EB nr. 96/10 frá 21. mars 1996, sem er fyrirmynd þess. Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 10. gr. markaðsskilmálanna gangi þeir framar skilmálum SFF.

Sóknaraðili telur að öll önnur skilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði þann 14. nóvember 2008, en öðru sé ekki haldið fram af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili telur að við uppgjör afleiðusamninganna beri að miða við raunverulegt markaðsgengi gjaldmiðla 9. október 2008. Þann dag krafðist sóknaraðili lokunar á afleiðusamningunum á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um afleiðingar fyrirsjáanlegrar vanefndar og skilmála SFF. Sóknaraðili bendir jafnframt á að í málatilbúnaði varnaraðila sé því ekki sérstaklega mótmælt að 9. október 2008 sé sá dagur sem notaður skuli til viðmiðunar við uppgjörið. Varnaraðila og sóknaraðila greini einungis á um hvert gengi gjaldmiðla hafi verið umræddan dag.

Fallist dómurinn ekki á að við uppgjör skuli miðað við gengi gjaldmiðla 9. október 2008 telur sóknaraðili að miða beri við raunverulegt markaðsgengi 7. október 2009 en ekki við markaðsgengi gjaldmiðla á þeim degi sem dómurinn telur að samningarnir hafi verið gjaldfelldir eða eftir atvikum tveimur bankadögum fyrir þann dag sem um ræðir.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að við uppgjör afleiðusamninganna verði ekki stuðst við gengi Evrópska Seðlabankans þann 9. október 2008, sem var EUR/ISK 305. Varnaraðili telur að við uppgjörið skuli miða við skráð gengi Seðlabanka Íslands gagnvart gjaldmiðlum og vísar því til stuðnings til 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.

Sóknaraðili hafnar því að líta beri til 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands og miða við skráð gengi Seðlabanka Íslands, enda sé sérstaklega tekið fram í ákvæðinu að það gildi aðeins þegar önnur gengisviðmiðun sé ekki sérstaklega tiltekin í samningi aðila. Sóknaraðili telur að slíka gengisviðmiðun sé annars vegar að finna í gr. 4.2 í skilmálum SFF og hins vegar í 2. mgr. 7. gr. í markaðsskilmálunum.

Í „Side Letter“ segir einnig orðrétt: „Ef þær skuldbindingar sem á að skuldajafna eru í mismunandi gjaldmiðlum getur lántaki umreiknað hvora skuldbindinguna sem er miðað við markaðsgengi til þess að hægt sé að skuldajafna.“

Með vísan til ofangreinds telur sóknaraðili að við uppgjör afleiðusamninganna skuli miðað við markaðsskilyrði, þ.e. raunverulegt markaðsgengi gjaldmiðla og telur að skráð gengi hjá Seðlabanka Evrópu umrædda daga hafi verið raunverulegt markaðsverð, enda byggðist það á frjálsum viðskiptum með krónuna á markaði.

Sóknaraðili vekur athygli á því að afleiðusamningar af því tagi sem um ræðir, þ.e. svokallaðir gjaldmiðlaskiptasamningar eða framvirkir gjaldmiðlasamningar, feli í sér að samningsaðilar skiptist á höfuðstólum tveggja mynta á ákveðnu gengi í framtíðinni. Enginn vafi leiki á því að hvorki Glitnir banki hf. né sóknaraðili gátu útvegað evrur eða dollara á skráðu gengi Seðlabanka Íslands á uppgjörsdegi samninganna. Bankinn gat því ekki efnt skyldur sínar og sóknaraðili gat ekki takmarkað tjón sitt með kaupum á evrum og dollurum á því gengi sem skráð var hjá Seðlabanka Íslands. Tjón sóknaraðila miðast við raunverulegt verðmæti þeirrar myntar sem hann fékk ekki afhenta þrátt fyrir samning þar um.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um frávísun á því að ágreiningur sé með aðilum um það við hvaða gengi skuli miðað, það er hvort krafan sem skuldajafnað er við kröfu stefnanda verði reiknuð yfir í íslenskar krónur á grundvelli skráðs gengis Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Evrópu. Sé miðað við gengi Seðlabanka Evrópu, eins og sóknaraðili byggir á, er krafan um 45 milljarðar króna en ella um 10 milljarðar. Varnaraðili byggi hins vegar á skuldajöfnun á grundvelli skráðs gengis Seðlabanka Íslands. Ágreiningur um fjárhæð þessara krafna sé í gangi gagnvart slitastjórn Glitnis. Þá telur sóknaraðili að kröfunni sé ranglega lýst í kröfu varnaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi aldrei samþykkt þær forsendur skuldajafnaðar sem varnaraðili byggir á og að hér sé um að ræða breytingu á stefnukröfu en ekki lækkun og því sé ekki um að ræða ívilnun stefnda í hag. Varnaraðili geti ekki breytt kröfu á þennan hátt án samþykkis sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi með bókun í þinghaldi þann 23. apríl 2012 samþykkt stefnukröfu aðrar en málskostnaðarkröfu. Á grundvelli meginreglunnar um forræði aðila á sakarefninu, þar með talið kröfugerð, röksemdum og ágreiningsatriðum, er dómara óheimilt að fara út fyrir kröfugerð aðila í dómi eða reisa niðurstöðu máls á málsástæðum sem ekki er byggt á af hálfu aðila, sbr. 1. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá segir í 1. mgr. 98. gr. að samþykki stefndi kröfur stefnanda í einu og öllu án þess þó að sátt takist um þær skuli mál dómtekið og dómur lagður á það í samræmi við samþykki stefnda.

Þá vísar sóknaraðili til þess að skilyrði þess að kröfu verði breytt komi fram í 29. gr. laga um meðferð einkamála það er að það skuli gert með framhaldsstefnu.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila um frávísun kröfunnar verði hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar

Ágreiningur aðila snýst um tvennt, að mati varnaraðila, hvort sóknaraðila hafi verið skylt að samþykkja skuldajafnaðaryfirlýsingu og við hvaða gengi skuli miðað.

Sóknaraðili hafi með kröfu sinni um skuldajöfnuð í greinargerð verið búinn að leggja mál í farveg sem hann er bundinn við á grundvelli 45. gr. laga um meðferð einkamála en samkvæmt ákvæðinu eru málsaðilar bundnir við yfirlýsingu sem gefin er fyrir dómi sem felur í sér ráðstöfun á sakarefni, eftir reglum um gildi loforða, hafi hann forræði á sakarefninu. Sóknaraðili sé því bundinn við yfirlýsingu sína um skuldajöfnuð.

Varnaraðili byggir á því að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila hafi í upphafi ekki verið bundin neinum fyrirvara um það við hvaða gengi væri miðað. Yfirlýsing sóknaraðila um skuldajöfnuð sé ráðstöfun á sakarefni sem sóknaraðili sé bundinn við. Það hversu langt skuldajöfnuður nái verður að ráðast af dómi þar um.

Þá byggir varnaraðili á því að í kröfunni felist ívilnun sóknaraðila til handa en ekki breytt krafa og því beri að hafna kröfu um frávísun.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila í máli þessu varðar það á hvaða gengi gagnkröfum sem sóknaraðili hefur uppi skuli skuldajafnað við kröfu varnaraðila, skráð gengi Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Evrópu.

Í greinargerð sóknaraðila rökstuddi hann sýknukröfu sína m.a. með því að krafan hefði verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingu sem send var Glitni banka hf. þann 11. október 2008 og ítrekuð 22. október 2008 og 14. nóvember 2008. Í yfirlýsingunni frá 14. nóvember er miðað við að gagnkrafan sem höfð er uppi til skuldajöfnunar sé að fjárhæð 43.671.271.897 kr. og er það miðað við gengi Seðlabanka Evrópu.

Í stefnu hafnar varnaraðili því alfarið að skuldajöfnun hafi átt sér stað og telur að ekki séu skilyrði til skuldajöfnunar. Með bókun sem lögð var fram þann 20. desember 2011 samþykkti varnaraðili hins vegar skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila þrátt fyrir að hann teldi að skilyrði skuldajafnaðar væru ekki uppfyllt ásamt því að hann féllst ekki á að miðað væri við gengi Seðlabanka Evrópu. Sóknaraðili lýsti því yfir í bókun þann 23. apríl 2012 að yfirlýsing varnaraðila hefði verið gefin á forsendum sem sóknaraðili samþykkti ekki og að hann nú samþykkti kröfur varnaraðila eins og þær væru settar fram í stefnu, aðrar en málskostnaðarkröfu.

Í greinargerð sóknaraðila er krafa um skuldajöfnuð gerð á þeirri forsendu að miðað sé við gengi Seðlabanka Evrópu. Vegna ólíkra forsendna gagnkröfu sóknaraðila til skuldajafnaðar og samþykkis varnaraðila og þess að krafa hvors um sig mundi leiða til ólíkrar niðurstöðu varðandi skuldastöðu varnaraðila verður að líta svo á að varnaraðili hafi ekki samþykkt gagnkröfu sóknaraðila til skuldajafnaðar.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili sé bundin við kröfu sína um skuldajöfnuð á sama hátt og aðilar eru bundnir við yfirlýsingar gefnar fyrir dómi og vísar því til stuðnings til 45. gr. laga nr. 91/1991. Krafa sóknaraðila er sett fram á grundvelli 1. mgr. 28. gr. Þrátt fyrir sérreglur sem gilda um kröfur samkvæmt ákvæðinu er hér um dómkröfu að ræða en ekki yfirlýsingu aðila og er því hafnað að krafan sé bindandi fyrir sóknaraðila á grundvelli 45. gr. laga nr. 91/1991.

Málsaðilar geta á hvaða stigi málsmeðferðar sem er fallið frá kröfum sínum og er framsetning þeirra ein og sér ekki bindandi fyrir aðila. Með bókuninni frá 23. apríl sl. þar sem sóknaraðili lýsti því yfir að hann samþykkti kröfur stefnanda eins og þær væru settar fram í stefnu verður að telja að sóknaraðili hafi fallið frá vörnum sínum gagnvart stefnukröfunni, þ. á m. gagnkröfu sinni til skuldajafnaðar.

Það er meginregla að stefnandi máls getur eftir útgáfu stefnu lækkað dómkröfur sína til hagsbóta fyrir stefnda. Sú krafa sem hér er deilt um er að sömu fjárhæð og stefnukrafa. Það sem skilur á milli er frádráttur vegna skuldajafnaðar. Eins og rakið hefur verið er aðalágreiningsefni aðila í máli þessu hvaða gengi skuli nota við útreikning þeirra krafna sem fyrirhugað er að nota til skuldajafnaðar og miðar hvor málsaðila um sig við það gengi sem honum er hagstæðara.

Varnaraðili byggir málatilbúnað sinn samkvæmt stefnu á því að ekki séu skilyrði til skuldajafnaðar. Eru því málsástæður varnaraðila í andstöðu við þessa nýju kröfugerð. Þar sem krafan kallar á nýjar málsástæður verður ekki talið að hér sé um að ræða lækkun á stefnukröfu til hagsbóta fyrir sóknaraðila heldur nýja kröfu. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eiga dómkröfur að koma fram í stefnu. Einnig ber samkvæmt e-lið sama ákvæðis að tilgreina í stefnu þær málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á. Með vísan til þessa verður að telja að málatilbúnaður varnaraðila sé hvað þetta varðar í ósamræmi við d- og e- lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ber því að vísa kröfu varnaraðila frá dómi.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu stefnanda, Holt Funding, um að stefndi, Klakki ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 18.995.691.317 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 10.735.196.334 kr. sem stefndi greiddi inn á kröfuna með skuldajöfnuði samkvæmt skuldajafnaðaryfirlýsingu dagsettri 14. nóvember 2008, er vísað frá héraðsdómi.