Hæstiréttur íslands

Mál nr. 295/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                       

 

Miðvikudaginn 30. maí 2007.

Nr. 295/2007

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.

Fallist var á kröfu L um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 25. júní 2007 kl. 16.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lauk varnaraðili afplánun fangelsisrefsingar fyrir þjófnaðarbrot 26. maí 2007. Hann hefur játað að hafa framið rán í verslun 27. sama mánaðar auk þess sem hann er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og sams konar brot daginn eftir. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 hafnað þar sem skilyrði þóttu ekki uppfyllt. Fram er kominn rökstuddur grunur um varnaraðili hafi eftir að áðurnefndur úrskurður var kveðinn upp gerst sekur um tilraun til þjófnaðar og fíkniefnalagabrot aðfararnótt 29. maí 2007 auk þess sem lögregla mun hafa handtekið hann í morgun vegna gruns um þjófnað og akstur undir áhrifum vímuefna. Framangreind auðgunarbrot varða fangelsisrefsingu ef sök sannast. Að þessu gættu er fallist á með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið, sbr. c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi, en ekki eru efni til að marka því skemmri tíma.

Dómsorð:

Varnaraðili X sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. júní 2007 kl. 16.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2007.

Lögreglustjórinn á  höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 25. júní 2007 kl. 16:00. 

Krafan er reist á ákvæðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjórans og öðrum gögnum málsins kemur m.a. fram að kærði hafi verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. nóvember 2006 í 14 mánaða fangelsi, þar af hafi 12 mánuðir verið skilorðsbundnir í 4 ár.  Dæmt hafi verið fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Kærði hafi afplánað 2 mánuði og hafi afplánun lokið 26. maí s.l.  Í gærnótt, þann 27. maí s.l., hafi lögreglan þurft að hafa afskipti af kærða, en hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar [...] við Skógarsel í Reykjavík.  Aksturslag bifreiðarinnar hafi verið mjög rásandi og hafi lögreglan talið kærða ekki í ástandi til að aka bifreið. Hann hafi verið fluttur á lögreglustöðina í Hafnarfirði og fenginn læknir til þess að úrskurða um hvort hann væri hæfur til aksturs.  Í gærmorgun klukkan 09:05 hafi lögreglan verið kvödd að versluninni 10-11 við Dalveg í Kópavogi vegna ráns.  Fyrir liggi játning kærða um að hann hafi verið þar að verki.  Að sögn vitna hafi kærði komið með langa mjóa járnstöng með sér og skipað afgreiðslumanni að setja peninga úr sjóðsvél í poka.  Einnig hafi hann tekið með sér tóbak og GSM símkort.  Vitni hafi gefið greinargóða lýsingu á kærða sem hafi fundist skömmu síðar.  Þetta mál sé að mestu upplýst og segir í greinargerð lögreglu að kærði hafi verið látinn laus að yfirheyrslum loknum. Þá hafi það gerst í nótt að lögreglan hafi haft afskipti af kærða vegna gruns um ölvunarakstur á bifreiðinni [...] á horni Klapparstígs og Laugavegs.  Kærði hefur játað að hafa drukkið tvo bjóra áður en akstur hófst en hér fyrir dómi sagði hann að hann tæki geðlyf að læknisráði vegna þunglyndis og kynni það að hafa haft áhrif á aksturshæfni hans.

             Í greinargerð lögreglu kemur fram að það sé mat hennar að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn sé ólokið og þar til ákvörðun um saksókn liggi fyrir.

             Fyrir liggur að kærði hefur viðurkennt að hafa framið rán í gær í verslun 10-11 við Dalveg í Kópavogi.  Það mál er að mestu upplýst og því engin fyrirstaða að gefa út ákæru í málinu á næstu dögum. Að auki er kærði sakaður um tvö umferðarlagabrot, lyfjaakstur í gærnótt og ölvunarakstur síðastliðna nótt. Þau mál eru í rannsókn og m.a. beðið eftir niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni.  Það er mat dómsins að skilyrðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé ekki fullnægt til að kærði sæti gæsluvarðhaldi.  Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í þessu máli  er því hafnað.

             Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

      Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi.