Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 30. maí 2011.

Nr. 259/2011.

Soffanías Cecilsson hf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

NBI hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

S hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem aðalkröfu í máli hans á hendur N hf. var vísað frá dómi. Með aðalkröfu sinni krafðist S hf. þess að tveir lánasamningar hans við L hf. yrðu lýstir ógildir frá upphafi. Hins vegar og samhliða krafðist hann ógildingar á tilgreindri ráðstöfun lánsfjárins. Með úrskurði héraðsdóms var aðalkröfu S hf. í heild sinni vísað frá og var í Hæstarétti staðfest sú niðurstaða að um væri að ræða atriði sem dómara máls bæri að gæta að sjálfsdáðum. Síðari hluta aðalkröfu S hf. taldi Hæstiréttur jafngilda kröfu um að kaupsamningarnir sem um ræddi yrðu ógiltir. S hf. hefði ekki gert neina grein fyrir því hvernig unnt væri að dæma um ógildingu þessara viðskipta í máli sem eingöngu væri beint að N hf. og þá í stað L hf. en ekki þeim aðilum sem kynnu að hafa selt umrædd verðbréf í þessum viðskiptum. Taldi Hæstiréttur að krafan væri vanreifuð að þessu leyti og uppfyllti ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í fyrri hluta kröfu sinnar krafðist S hf. ógildingar á lánasamningum sínum við L hf. Taldi Hæstiréttur að yrði krafan tekin til greina myndi slíkur dómur leiða til þess að skuldbindingar hans til að endurgreiða lánin samkvæmt samningnum teldust ógildar. S hf. hefði hins vegar látið hjá líða að gera grein fyrir í kröfugerð sinni hvernig fara skyldi með lánsféð sem hann tók við. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa einnig frá dómi fyrri hluta kröfu S hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 20. apríl 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2011, þar sem aðalkröfu sóknaraðila í máli hans á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka aðalkröfu hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Með aðalkröfu sinni, sem vísað var frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði, krefst sóknaraðili þess annars vegar að tveir lánasamningar hans við Landsbanka Íslands hf. 12. mars og 22. ágúst 2007 verði lýstir ógildir frá upphafi. Hins vegar og samhliða krefst hann ógildingar á tilgreindum ráðstöfunum lánsfjárins sem hann telur upp í einstökum liðum. Var lánsfénu þar sagt hafa verið varið til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og „peningabréfum Landsbankans“ sem sóknaraðili segir bankann hafa annast á grundvelli samnings „um ráðgjöf um skulda- og áhættustýringu“ frá október 2005.

Af hálfu varnaraðila var í greinargerð til héraðsdóms krafist frávísunar á kröfum sóknaraðila um ráðstöfun lánsfjárins. Taldi hann kröfurnar ekki uppfylla skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki væri unnt að taka þær upp í dómsorð og mjög óljóst væri hvað sóknaraðila gengi til með kröfunum meðal annars vegna þess að ekki væri gerð krafa um að sá aðili sem sá um ráðstöfun fjárins, Landsbanki Íslands hf., sem nú væri í slitameðferð, endurgreiddi féð. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu varnaraðila 25. mars 2011 breytti hann kröfunni og krafðist nú frávísunar á málinu í heild. Sóknaraðili mótmælti því sérstaklega við málflutninginn að þessi breyting kæmist að. Héraðsdómur taldi að um væri að ræða atriði sem dóminum bæri að gæta af sjálfsdáðum og væri þess vegna ekki fallist á að krafan væri of seint fram komin. Komst dómurinn síðan að þeirri niðurstöðu að vísa bæri aðalkröfu sóknaraðila í heild frá dómi en féllst ekki á kröfu varnaraðila að því er snerti varakröfu sóknaraðila. Verður staðfest sú niðurstaða í hinum kærða úrskurði að um hafi verið að ræða atriði máls sem dómara bar að gæta að sjálfsdáðum og verður hinum kærða úrskurði því ekki hnekkt á þeirri forsendu að héraðsdómur hafi farið út fyrir kröfu varnaraðila.

Í stefnu til héraðsdóms er tekið fram að varnaraðila sé stefnt þrátt fyrir að viðskipti sóknaraðila hafi verið við Landsbanka Íslands hf. Kveðst sóknaraðili í því efni styðjast við samkomulag málsaðila um málshöfðunina. Vísar hann þar til yfirlýsingar 17. febrúar 2010, sem undirrituð er af hálfu varnaraðila og Landsbanka Íslands hf., og hefur meðal annars að geyma svofelldan texta: „Hér með lýsa NBI hf. ... og Landsbanki Íslands hf. ... því yfir að NBI hefur tekið yfir réttindi og skyldur LBÍ gagnvart Soffaníasi Cecilssyni hf. ... þar með talið kröfuréttindi og tryggingarréttindi, í samræmi við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda LBÍ til NBI.“

II

Síðari hluti aðalkröfu sóknaraðila lýtur að ógildingu á ráðstöfun lánsfjárins til tilgreindra kaupa á hlutabréfum og öðrum verðbréfum. Þessi krafa jafngildir kröfu um að kaupsamningar sem hér um ræðir verði ógiltir. Ekki verður séð að krafan sé byggð á því að Landsbanki Íslands hf. hafi verið seljandi þeirra bréfa sem um ræðir. Sóknaraðili hefur ekki gert neina grein fyrir því hvernig unnt sé að dæma um ógildingu þessara viðskipta í máli sem eingöngu er beint að varnaraðila, og þá í stað Landsbanka Íslands hf. á grundvelli nefndrar yfirlýsingar, en ekki þeim aðilum sem kunna að hafa selt umrædd verðbréf í þessum viðskiptum. Verður talið að krafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og sé því vanreifuð að þessu leyti. Verður hinn kærði úrskurður af þessari ástæðu staðfestur um þennan hluta kröfu sóknaraðila.

Í fyrri hluta kröfu sinnar kefst sóknaraðili ógildingar á lánasamningum sínum við Landsbanka Íslands hf. Fyrir liggur að sóknaraðili fékk lánsféð greitt við lántökuna, þó að því hafi síðan verið ráðstafað með þeim hætti sem getur í síðari hluta kröfunnar og lánveitandinn Landsbanki Íslands hf. hafi séð um þá ráðstöfun fyrir hönd sóknaraðila. Ef krafa sóknaraðila um ógildingu lánasamninganna yrði tekin til greina myndi slíkur dómur leiða til þess að skuldbindingar hans til að endurgreiða lánin samkvæmt samningunum teldust ógildar. Í kröfugerð sinni hefur hann hins vegar ekki gert grein fyrir því hvernig færi þá með lánsféð sem hann veitti viðtöku. Ef lánasamningur er ógiltur með dómi hlýtur ógildingin að leiða til skyldu lántaka til að skila lánsfénu, eftir atvikum að frádregnum kröfum sem hann kynni að eiga á hendur viðsemjanda sínum vegna ógildingar samningsins. Má ef til vill ráða af samhengi fyrri og síðari hluta aðalkröfu sóknaraðila að hann telji sér ekki skylt að endurgreiða lánsféð þó að fallist yrði á kröfu hans um ógildingu lánssamninganna, þó að ekki sé sú ályktun vafalaus. Eins og hér stendur á verður að telja það nauðsynlega forsendu fyrir nefndri kröfu sóknaraðila að hann geri í kröfunni grein fyrir því hvernig fara skuli með lánsféð sem hann tók við. Verður ekki talið að varnaraðili þurfi að sæta því að um þetta sé dæmt án þess að jafnframt sé kveðið á um svo veigamikinn þátt við uppgjör á lánsviðskiptunum sem sóknaraðili krefst að ógilt verði. Hann hefur látið hjá líða að kveða á um þetta við kröfugerð sína og verður af þessari ástæðu fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa einnig frá dómi fyrri hluta kröfu sóknaraðila.

Eftir atvikum þykir rétt að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2011.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 25. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Soffaníasi Cecilssyni hf., kt. 611292-2959, Borgarbraut 1, Grundarfirði, með stefnu, birtri 27. janúar 2010, á hendur NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þessar aðallega:

         Að lánasamningur milli hans og Landsbanka Íslands nr. 7206, dags. 12. marz 2007 að fjárhæð kr. 1.500.000.000 verði lýstur ógildur frá upphafi.

         Jafnframt er krafizt ógildingar á ráðstöfun andvirðis lánsins til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. í eftirtöldum viðskiptum:

         Þann 12. marz 2007 voru hlutabréf í Landsbankanum keypt fyrir kr. 165.000.000 (viðskipti nr. 1.443.282). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 165.495.000.

         Þann 13. marz 2007 var keypt fyrir kr. 96.000.000 (viðskipti nr. 1.444.316). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 96.288.000.

         Þann 14. marz 2007 var keypt fyrir kr. 158.500.000 (viðskipti nr. 1.445.411). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 158.975.500.

         Þann 15. marz 2007 var keypt fyrir kr. 219.392.600 (viðskipti nr. 1.447.301). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 220.050.778.

         Þann 16. marz 2007 var keypt fyrir kr. 406.437.747 (viðskipti nr. 1.448.515). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 407.657.060.

         Þann 22. marz 2007 var keypt fyrir kr. 159.000.000 (viðskipti nr. 1.451.530). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 159.477.000.

         Þann 23. marz 2007 var keypt fyrir kr. 160.000.000 (viðskipti nr. 1.452.454). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 160.480.000.

         Þann 30. marz 2007 var keypt fyrir kr. 133.560.000 (viðskipti nr. 1.457.065). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 133.960.680.

         Stefnandi krefst þess einnig, að lánasamningur milli hans og Landsbanka Íslands nr. 9089, dags. 22. ágúst 2007 að fjárhæð kr. 1.500.000.000 verði lýstur ógildur frá upphafi.

         Jafnframt er krafizt ógildingar á ráðstöfun andvirðis lánsins til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og Peningabréfum Landsbankans ISK í eftirtöldum viðskiptum:

         Fyrst kaup í Peningabréfum Landsbankans ISK 24. ágúst 2007 fyrir kr. 1.450.000.000 (viðskipti nr. 1.627.234).

         Síðan sala á Peningabréfum Landsbankans ISK 27. ágúst 2007 (viðskipti nr. 1.627.982), að fjárhæð kr. 501.500.000,- að meðtöldum kostnaði.

         Þá kaup á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. 21. ágúst 2007 (viðskipti nr. 1.622.528). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð kr. 501.500.000.

         Til vara er krafizt viðurkenningar á því, að stefnandi eigi rétt á því gagnvart stefnda, að uppgjör lánanna nr. 7206 og 9089 skuli framkvæmd í íslenzkum krónum, án viðmiðunar við gengi erlends gjaldeyris.

         Þá krefst stefnandi þess í öllum tilvikum, að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Í öllum tilvikum er þess krafizt, að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

II

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum í stefnu í megindráttum svo, að starfsemi stefnanda lúti að útgerð og fiskverkun, sem hafi frá og með árinu 1992 verið í höndum og eigu félagsins Soffanías Cecilsson hf.  Félagið eigi og geri út þrjú skip; Sigurborgina SH012, Sóley SH124 og Grundfirðing SH24.  Að auki eigi félagið og reki fiskverkun sína að Borgarbraut 1 í Grundarfirði og sé félagið einn helzti atvinnuveitandi í Grundarfirði.

         Stjórn félagsins hafi, frá 13. nóvember 2006, verið skipuð Rúnari S. Magnússyni stjórnarformanni, Sigurði Sigurbergssyni og Sigríði Finsen, en þau tvö síðastnefndu hafi sagt sig úr stjórninni í desember 2009.  Varamenn í stjórn séu Kristín Soffaníasdóttir, Hulda Vilmundardóttir og Sóley Soffaníasdóttir.  Frá 30. apríl 1999 hafi Sigurður Sigurbergsson gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

         Þegar félagið var stofnað 1992 hafi tilgangur þess, samkvæmt samþykktum og tilkynningu um hlutafélag til hlutafélagaskrár, verið almenn atvinnustarfsemi svo sem fiskverkun, útgerð, heildsala, smásala, umboðssala, framleiðsla, rekstur fasteigna, lánastarfsemi svo og nauðsynleg umsvif þessu tengd.

         Þann 20. nóvember 2006 hafi hlutafélagaskrá móttekið nýjar samþykktir félagsins.    tilgangsákvæðið í þeim samþykktum að finna í 3. gr. þeirra.  Samkvæmt hinum nýju samþykktum sé tilgangur félagsins þessi:

Almenn atvinnustarfsemi svo sem fiskverkun, útgerð, kaup og sala hlutabréfa sem og annarra verðbréfa, heildsala, smásala, umboðssala, framleiðsla, rekstur fasteigna, lánastarfsemi svo og nauðsynleg umsvif þessu tengt.  Einnig er tilgangur þess að reisa og reka almennar kaupleiguíbúðir og skal bygging þeirra vera langtímaverkefni.  Íbúar í almennum kaupleiguíbúðum eiga kost á að

a.     leigja íbúðina með kauprétti

b.    leigja með kaupum á eignarhluta í íbúð

c.     kaupa íbúðina.

Eignar- og afnotaréttur takmarkast við starfsmenn félagsins.  Réttur einstaklinga til íbúða er bundinn við atriði er fram koma í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og IV. kafla reglugerðar nr. 46/1991 um félagslegar íbúðir og Byggingarsjóð verkamanna.  Stofnuð skal sjálfstæð rekstrareining um hverja byggingarframkvæmd.

Þar sem ákvæði samþykkta þessa segja ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga nr. 86/1988, nr. 76/1989 og nr. 70/1990 um Húsnæðisstofnun ríkisins og reglugerðar nr. 46/1991 varðandi almennar kaupleiguíbúðir.

Félagið mun standa við þær fjárhagslegu skuldbindingar sem það tekst á herðar vegna byggingar almennra kaupleiguíbúða í samræmi við lög og reglugerðir.  Íbúar munu greiða leigu í samræmi við verð og rekstrarkostnað íbúðar eða kaupa íbúðina og færast þá skuldbindingar vegna láns Byggingarsjóðs verkamanna á viðkomandi íbúð yfir á kaupandann.  Félagið gerir ráð fyrir að nýta alltaf forkaupsrétt.

         Skv. 16. gr. eldri samþykktanna frá 1992 skyldi stjórn félagsins skipuð fjórum mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn og undirritun tveggja stjórnarmanna skuldbatt félagið.  Skv. 18. gr. eldri samþykkta skyldi stjórn félagsins ráða framkvæmdastjóra.

         Skv. 25. gr. nýrri samþykktanna frá 2006 skuli stjórn félagsins skipuð þremur aðalmönnum ásamt þremur varamönnum.  Skuli stjórnin kjósa sér formann úr sínum hópi og skv. 2. mgr. 27. gr. samþykkta skuli stjórnin ráða félaginu framkvæmdastjóra.  Skv. 3. mgr. 27. gr. samþykktanna skuldbindi undirskriftir tveggja stjórnarmanna félagið.

Lántökur hjá Landsbanka Íslands

Landsbanki Íslands hf. hafi verið eini viðskiptabanki stefnanda frá vorinu 2005 og hafi annazt alla ráðgjöf varðandi rekstur stefnanda, lántökur, gjaldeyrismál og fjárfestingar, þ.á m. í hlutabréfum og í Peningabréfum Landsbankans.  Í október 2005 hafi stefnandi og bankinn jafnframt gert samning um ráðgjöf um skulda- og áhættustýringu.  Bankanum hafi þannig verið ljóst hver reynsla og þekking stefnanda hafi verið á sviði fjárfestinga og í verðbréfum.

         Þann 12. marz 2007 hafi verið haldinn stjórnarfundur í félaginu.  Mættir á fundinn skv. fundargerð hafi verið Sigríður Finsen og Sigurður Sigurbergsson, en Rúnar Magnússon hafi verið í símasambandi inn á fundinn.  Í fundargerð stjórnar segi svo:

Framkvæmdastjóri óskar eftir heimild stjórnar til að taka lán upp á 3 milljarða. Láninu verður varið til að efla fjárfestingasjóð. Ætlunin er að 50% fari til hlutabréfakaupa og 50% til kaupa á peningabréfum.

Engin skrifleg fjárfestingarstefna hafi á þessum tíma verið til fyrir félagið, og ofangreind bókun á stjórnarfundi þann 12. marz 2007 varði einvörðungu samþykki á lántöku til ótilgreindra hlutabréfakaupa.  Ekki sé tekið fram, í hvaða félögum skyldi fjárfest eða veitt sérstakt umboð eða heimild til fjárfestinga andvirðis lánanna.

Samdægurs hafi framkvæmdastjóri félagsins, Sigurður Sigurbergsson, haft milligöngu um að útvega tvö lán frá Landsbanka Íslands til félagsins, og skyldi nota andvirði lánanna til tiltekinna fjárfestinga í nafni félagsins.  Gengið hafi verið frá tveimur lánasamningum í þessum tilgangi, þ.e. láni nr. 7206, að fjárhæð kr. 1.500.000.000, og láni nr. 7204, einnig að fjárhæð kr. 1.500.000.000.  Báðir lánasamningarnir hafi verið undirritaðir þann 13. marz 2007.  Fyrir hönd félagsins hafi Sigurður Sigurbergsson framkvæmdastjóri „e.u.“ undirritað lánasamningana.  Í lánasamningunum sé ekki að finna sérstakt samningsákvæði um það, hvernig andvirði lánanna skyldi varið.  Í þeim séu hins vegar ákvæði um tryggingar.  Í samningi nr. 7204 skyldi, skv. grein 10.1, setja bankanum að handveði Peningabréf LÍ, og í samningi nr. 7206 skyldi, skv. grein 10.1, setja að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands, sem kaupa skyldi fyrir andvirði lánanna.

Til skýringar skuli tekið fram, að Landsbanki Íslands hf. hafi verið yfirtekinn af stjórnvöldum í október 2008, og í framhaldi af því hafi bankanum verið skipt í tvö félög, nýja og gamla bankann.  Eignir og skuldir hafi að hluta verið fluttar úr gamla bankanum í nýja bankann, sem nú heiti NBI hf.  Viðskipti stefnanda hafi verið flutt úr gamla bankanum í þann nýja, þar á meðal kröfur bankans á hendur stefnanda og þeirra á meðal fyrrnefndir lánasamningar.  Stefndi, NBI hf., hafi tekið á sig allar skyldur og réttindi gagnvart stefnanda, sem áður hafi verið í höndum gamla bankans, sem sé nú í slitameðferð.

Vegna lántakanna og fjárfestinganna hafi Sigurður Sigurbergsson framkvæmdastjóri komið fram fyrir hönd félagsins.  Samskiptaaðilar hans innan bankans hafi verið Ari Wendel, forstöðumaður fyrirtækjasviðs, Steinþór Gunnarsson, forstöðumaður verðbréfa­miðlunar, Viggó E. Hilmarsson, starfsmaður á verðbréfasviði, og Ísak S. Hauksson og Stefán Álfsson vegna skuldastýringar og afleiða.

Þann 13. marz 2007 hafi Rúnar S. Magnússon, stjórnarformaður félagsins, undirritað sérstakt umboð til handa Sigurði Sigurbergssyni framkvæmdastjóra.  Í umboðinu segi m.a.:

Undirritaður Rúnar Sigtryggur Magnússon, kt. 230862-4359, veiti hér með Sigurði Sigurbergssyni, kt. 150364-5239, Grunargötu 94, 350 Grundarfjarðarbæ, fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita Lánssamninga hvor að fjárhæð ISK 1.500.000.000,-, eittþúsundogfimmhundruðmilljónir, milli Landsbanka Íslands hf. [...] og Soffaníasar Cecilssonar hf. [...] dags. í mars 2007. Í umboðinu felst heimild til að undirrita ofangreinda lánssamninga og veðskjöl sem gefin eru út í tengslum við lánssamninginn. 

Í umboðinu felist ekki sérstök heimild til að ráðstafa andvirði lánanna, þar sem umboðið nái einungis til undirritunar ofangreindra lánasamninga. 

Ekki liggi fyrir, hvort Landsbankanum hafi verið afhent ofangreint umboð á undirritunardegi,  en skv. 8. gr. lánasamninganna nr. 7204 og 7206 hafi það reyndar verið eitt af skilyrðum fyrir útborgun skv. samningunum, að lántaki hefði afhent bankanum t.a.m. eftirtalin skjöl þess efnis og í því formi, sem væri fullnægjandi að mati bankans:

(1)           Staðfestingu á að lögformlega hafi verið staðið að öllum ákvörðunum um lántökuna, þannig að um skuldbindandi samning væri að ræða af hálfu lántaka og hverjum hafi verið veitt umboð til undirritunar lánasamninganna.

(2)           Skilríki fyrir að lántaki hafi keypt vátryggingar á helstu eignir.

(3)           Skriflega beiðni um útborgun.

(4)           Að lántaki hafi afhent bankanum í ásættanlegu formi að mati bankans, tryggingar sem nánar er lýst í 10. gr. samninganna og skyldi þinglýsing trygginga hafa verið framkvæmd án athugasemda þar sem það ætti við.

Tryggingar skv. lánasamningunum, sbr. 10. gr. þeirra, hafi annars vegar verið þær, að til tryggingar greiðslum á samningi nr. 7204, hafi Peningabréf Landsbankans verið sett bankanum að handveði og muni það vera sömu bréfin og láninu skyldi ráðstafað til að kaupa.  Hins vegar, til tryggingar greiðslum á samningi nr. 7206, hafi hlutabréf í Landsbankanum verið sett bankanum að handveði, og muni það vera sömu bréfin og láninu skyldi ráðstafað til að kaupa.

Á kvittun Landsbankans, dags. 14. marz 2007, sjáist, að andvirði láns nr. 7204 hafi nánast að öllu leyti verið varið til kaupa á Peningabréfum Landsbankans, þ.e. hlutdeildarskírteinum (númer verðbréfs 1078642, ISIN IS0000007037), að fjárhæð kr. 1.495.500.000.  Andvirði hins lánsins, nr. 7206, hafi verið varið til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum í eftirfarandi viðskiptum:  

Þann 12. marz 2007 hafi hlutabréf í Landsbankanum verið keypt fyrir kr. 165.000.000 (nafnvirði 5.000.000 á gengi 33,0).

Þann 13. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 96.000.000 (nafnvirði 3.000.000 á gengi 32,0).

Þann 14. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 158.500.000 (nafnvirði 5.000.000 á gengi 31,7).

Þann 15. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 219.392.600 (nafnvirði 7.000.000 á gengi 31,3418).

Þann 16. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 406.437.747 (nafnvirði 12.800.000 á gengi 31,752949).

Þann 22. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 159.000.000 (nafnvirði kr. 5.000.000 á gengi 31,8).

Þann 23. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 160.000.000 (nafnvirði kr. 5.000.000 á gengi 32,0).

Þann 30. marz 2007 hafi verið keypt fyrir kr. 133.560.000 (nafnvirði kr. 4.200.000 á gengi 31,8).

Á kvittunum vegna ofangreindra viðskipta komi jafnframt fram þóknanir til Landsbankans vegna þeirra.  Samkvæmt kvittununum hafi viðskiptin með bréfin hafizt daginn áður en lánasamningar aðila og umboð stjórnarmanns var undirritað.

Þann 25. júlí 2007 hafi lánið nr. 7204 verið greitt að fullu.  Til að greiða upp lánið hafi Peningabréf stefnanda í Landsbankanum verið seld og andvirðinu ráðstafað til ofangreindrar fullnaðargreiðslu lánsins.

Þann 22. ágúst 2007 hafi verið tekið nýtt lán hjá Landsbanka Íslands, lán nr. 9089, að fjárhæð kr. 1.500.000.000.  Andvirði nýja lánsins nr. 9089 hafi verið ráðstafað með eftirtöldum hætti:

Þann 24. ágúst hafi verið keypt í Peningabréfum Landsbankans fyrir kr. 1.495.000.000 (viðskipti nr. 1.627.234).

Þann 21. ágúst 2007 hafi verið keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands fyrir kr. 500.000.000 (viðskipti nr. 1.622.528).  Dags. viðskiptanna hafi verið 21. ágúst 2007, en dags. uppgjörs 24. ágúst 2007.  Fjárhæð viðskiptanna ásamt kostnaði hafi numið kr. 501.500.000.

Þann 27. ágúst 2007 hafi verið seld Peningabréf Landsbankans fyrir kr. 500.000.000 (viðskipti nr. 1.627.982.  Fjárhæð viðskiptanna ásamt kostnaði hafi numið kr. 501.500.000.  Andvirðið muni hafa verið nýtt til uppgjörs á fyrrgreindum kaupum á hlutabréfum fyrir sömu fjárhæð.

Þessar ráðstafanir hafi farið fram, án þess að fyrir lægi umboð frá stjórn félagsins eða umfjöllun eða bókanir á stjórnarfundum til að taka lánið og til að ráðstafa lánsfénu með tilteknum hætti.

Í lánasamningi nr. 9089 sé að finna ákvæði nr. 1.3, sem ekki hafi verið í eldri lánasamningum, þar sem fram komi, að lántaki skuli ráðstafa útborgunarfjárhæðinni til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og Peningabréfum Landsbanka Íslands hf. sem síðan skyldi handveðsetja bankanum skv. grein 10.2 og 10.3.

Í lánasamningunum sé tekið fram, að verið sé að lána tiltekna fjárhæð í íslenzkum krónum, en síðan vitnað til erlendra mynta í eftirfarandi hlutföllum:

Lán nr. 7206: CHF 50%, JPY 50%

Lán nr. 9089: JPY 100%

Stefnandi hafi einungis verið skuldfærður hjá bankanum fyrir skuld í íslenzkum krónum, og hann hafi ekki fengið greiddar fjárhæðir í annarri mynt en íslenzkri krónu.  Lánsfénu hafi síðan verið varið til fjárfestinga í íslenzkum fjármálagerningum, þar sem nafnverð hafi verið tilgreint í íslenzkum krónum, svo og markaðsvirði.  Viðskiptin hafi því engin tengsl haft utan Íslands.

Lánsféð hafi, a.m.k. í tilviki láns nr. 7206, verið greitt Landsbankanum sjálfum, án viðkomu á reikningum stefnanda.

Til að gæta samhengis sé einnig rétt að telja upp fyrri lántökur og fjárfestingar stefnanda hjá Landsbanka Íslands.  Þann 4. júlí 2006 hafi stefnandi fengið lán hjá Landsbankanum, að fjárhæð kr. 900 milljónir (nr. 5686), og því láni hafi verið ráðstafað þann 2. september 2006 til kaupa á Peningabréfum hjá Straumi-Burðarási, að fjárhæð kr. 600.000.000, og inn á bankareikning félagsins í Landsbankanum, kr. 300.000.000.  Peningabréfin í Straumi-Burðarási hafi verið endurgreidd stefnanda þann 9. nóvember 2007 og hluti af þeim, eða kr. 497.670.000, hafi verið nýttur til að fjárfesta í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf.  Þess beri að geta, að náin eignatengsl hafi verið á milli Landsbankans og Straums-Burðaráss.

Um umboð

Frá því, að bókað hafi verið um heimild til að taka lán í nafni félagsins, samtals að fjárhæð þrír milljarðar króna, í stjórn félagsins þann 12. marz 2007 og heimilað að ráðstafa þeim fjármunum til helmings til kaupa á hlutabréfum og til helmings til kaupa á  peningabréfum, hvorutveggja án frekari tilgreiningar, hafi ekki verið haldnir stjórnarfundir hjá félaginu fyrr en í nóvember 2007.  Þá séu engar bókanir stjórnar til um nýja lánið nr. 9089, sem hafi verið tekið þann 22. ágúst 2007.  Ekki hafi verið gerðar sérstakar bókanir í fundargerðum stjórnar félagsins, áður en ákveðið hafi verið að selja peningabréf en auka eign í hlutabréfum á móti, eða um lántökuna í ágúst 2007.  Stjórnarfundir hafi verið haldnir reglulega, þegar leið að lokum ársins 2007, en einstakir stjórnarmenn, eða stjórnin í heild, hafi ekki borið fram neinar tillögur á þeim fundum um samþykki á hlutabréfakaupunum í Landsbankanum.  Þó hafi verið fjallað um þær fjárfestingar að takmörkuðu leyti á stjórnarfundi 5. desember 2007.  Stjórnarfundir hafi verið haldnir þann 7. nóvember, 14. nóvember, 5. desember og 12. desember 2007.

Þann 5. desember 2007 hafi verið haldinn stjórnarfundur í félaginu og hafi þá verið bókað, að Sigríður Finsen stjórnarmaður hefði óskað eftir umræðu um fjárfestingasjóð og hafi hún gert athugasemd um, að „peningabréf hafi verið minnkuð og færð yfir í LÍ“.  Rúnar S. Magnússon hafi látið bóka á sama fundi, að fyrir þeirri ráðstöfun hafi verið meirihluti, án þess að nánar sé tilgreint, hvaða ráðstöfun hafi verið um að ræða.  Fjárfestingin og lántakan hafi þó ekki verið rædd í stjórn félagsins áður.  Ekki hafi verið gefin út eða bókuð önnur umboð eða heimildir af hálfu stjórnarinnar til framkvæmdastjóra til fjárfestinga, fyrir utan umboð Rúnars stjórnarformanns, dags. 13. marz 2007, sem veitt hafi verið framkvæmdastjóra í tilefni upphaflegu fjárfestinganna, sem samþykktar höfðu verið að hluta á stjórnarfundi 12. marz 2007.

Næsta umboð, sem stjórn hafi veitt framkvæmdastjóra, hafi verið samþykkt á stjórnarfundi 5. desember 2007.  Það umboð hafi síðar verið dæmt ólögmætt með dómi Hæstaréttar, dags. 24. september 2009 (mál nr. 678/2008), þar sem stjórn félagsins hafi ekki verið heimilt, samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um hlutafélög, að framselja vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir, án tillits til þess hvort þær væru óvenjulegar eða mikils háttar, og hafi þar engu breytt, þótt hluthafafundur samþykkti slíkt framsal.

Um lán nr. 9089

Þegar lán nr. 9089 hafi verið veitt stefnanda af Landsbankanum þann 22. ágúst 2007, skyldi, skv. samningnum, veita bankanum eftirfarandi tryggingar: 

(1)     Grein 10.1:           Þáverandi allsherjarveð, tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.

(2)     Grein 10.2:           Hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. sett að handveði með handveðsyfirlýsingu nr. 0106-63-8627, samtals 12.500.000,- að nafnvirði,

(3)     Grein 10.3:           Hlutabréf í Landsbanka Íslands og peningabréf Landsbanka Íslands skv. grein 1.3. 

Hafi bankinn þannig aukið við tryggingar sínar frá því sem áður hafði verið við lántökurnar í marz 2007.  Fyrir þessari ráðstöfun sé ekki heimild frá stjórn, hvorki í formi umboðs né bókunar í fundargerðabók stjórnar.

Þá sé í lánasamningi vegna láns nr. 9089 einnig að finna sams konar ákvæði í 8. gr. og í fyrri samningunum, þ.e. að skilyrði fyrir útborgun væri að afhenda bankanum tiltekin gögn, sem talin hafi verið upp áður.

Rétt sé að taka fram, að samningsaðili stefnanda hafi í öllum tilvikum verið Landsbanki Íslands hf., sem hafi ýmist komið fram sem lánveitandi, seljandi eigin hlutabréfa eða seljandi eigin Peningabréfa.

Aðalfundur 2008 og aðdragandi málshöfðunar

Aðalfundur félagsins hafi verið haldinn 16. apríl 2008 og hafi þá verið lagður fram ársreikningur félagsins fyrir reikningsárið 01.09. 2006 til 31.08. 2007 til samþykktar skv. dagskrárlið 4.  Í fundargerð aðalfundar komi fram, að endurskoðandi félagsins hafi farið yfir ársreikning félagsins, og að stjórnarmaður Sigríður Finsen hafi gert fyrirspurn um fjárhæð fjárfestinga í Landsbanka Íslands.  Hafi endurskoðandi þá upplýst, að fjárhæð þeirrar fjárfestingar næmi 2,1 milljarði króna.  Sé þetta fyrsta bókun í fundargerð stefnanda, þar sem sú fjárhæð komi fram.

Við bankahrunið í október 2008 hafi orðið ljóst, að hlutabréf stefnanda í Landsbanka Íslands væru orðin verðlaus.  Lánin, sem bankinn hafi veitt stefnanda til fjárfestinganna, hafi hins vegar stökkbreytzt til hækkunar vegna hruns hinnar íslenzku krónu, eins og alkunna sé.  Stefnandi horfist nú í augu við, að viðskipti þau við Landsbanka Íslands, sem nú hafi verið lýst með lántökum og fjárfestingum, muni að óbreyttu fara með félagið í þrot.

Í október 2009 hafi stefnandi og stefndi gert með sér samkomulag um málssókn þessa.  Sé málsóknin þannig til komin.

         Stefndi kveðst í greinargerð leggja á það áherzlu, að hann mótmæli lýsingu stefnanda á málavöxtum.  Sérstaklega sé því mótmælt, að Landsbanki Íslands hafi átt frumkvæði að lántöku stefnanda og/eða ákvörðun um, hvernig skyldi fjárfest.  Stefndi, NBI hf., hafi um það upplýsingar, að stefnandi hafi leitað til Landsbanka Íslands vegna áhuga stefnanda á kaupum á hlutabréfum og peningabréfum, þ.e. átt frumkvæðið að lántökunni með fyrir fram ákveðnar hugmyndir um ráðstöfun lánanna.  Hafi stefnandi þá þegar verið hluthafi í bankanum, og hafi hann fjármagnað þau kaup með láni frá öðrum banka, líklegast Kaupþingi.  Ástæða áhuga stefnanda muni hafa verið sú, að verð á aflaheimildum hafi verið hátt á þessum tíma og því ekki vænlegt að kaupa aflaheimildir, en hann hafi verið að leita að fjárfestingartækifærum.  Hafi stefnandi fyrir fram haft hugmyndir um, að álitlegt væri að kaupa bréf í bankanum og peningabréfum, eins og fyrr segi, en stefnandi hafi talið sig geta hagnazt á vaxtamismuninum, þ.e. mismun á vöxtum erlendra lána og innlendra innlánsvaxta.  Hafi það alfarið verið ákvörðun stefnanda að taka lán í erlendri mynt, en félagið hafi tekið umtalsverð lán í erlendri mynt og löngu fyrir umþrættar lántökur, líkt og ársreikningar þess staðfesti.

Hvað varði málavaxtalýsingu stefnanda að öðru leyti beri að hafa í huga, að stefnandi kjósi að beina kröfum sínum á hendur stefnda, NBI hf., í stað þess að beina þeim á hendur viðsemjanda sínum, Landsbanka Íslands.  Eðli málsins samkvæmt hafi stefndi ekki yfir að ráða upplýsingum um allt, sem kunni að hafa farið á milli stefnanda og Landsbanka Íslands, sem nú sé í slitameðferð.  Lögð sé á það áherzla, að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllum staðhæfingum sínum.  Í þessu sambandi skuli sérstaklega vísað til þess, sem segi í stefnu undir kaflanum „áskoranir“, en þar sé því haldið fram, að verði stefndi ekki við áskorunum stefnanda um gagnaframlagningu, þá eigi það að leiða til þess að leggja beri staðhæfingar stefnanda um staðreyndir til grundvallar.  Sé þessu harðlega mótmælt af hálfu stefnda, sérstaklega í ljósi þess, að í mörgum tilvikum beini stefnandi áskorunum sínum að röngum aðila.

Málatilbúnaður stefnanda gangi meira og minna út frá þeirri staðhæfingu, að félagið sé fórnarlamb bankastofnunar, sem hafi nýtt sér reynsluleysi félagsins og/eða stjórnar og þvingað þannig upp á félagið lán og ráðstafað því láni í andstöðu við vilja þess til kaupa á bréfum í bankanum sjálfum og/eða peningabréfum hjá dótturfélagi bankans.  Ef ekki verði fallizt á framangreint, telji stefnandi, að skort hafi umboð til lántökunnar og ráðstöfunar lánsins, auk þess sem óheimilt hafi verið að veita stefnanda lán í erlendri mynt.  Málavaxtalýsingu þessari og málatilbúnaði sé mótmælt af hálfu stefnda, en um málavexti vísist að öðu leyti til umfjöllunar um málsástæður.

III

Málsástæður stefnanda

Röng ráðgjöf

Stefnandi byggir m.a. á því, að milliganga bankans um lánveitingar, sem mál þetta snýst um, og fjárfestingar fyrir andvirði lánanna og ráðgjöf í sambandi við alla þá gerninga hafi verið röng og haldin galla.  Ráðgjöfin og milliganga og framganga bankans í máli stefnanda hafi valdið stefnanda ómældu tjóni og stuðlað að því, að félagið sé nú á fjárhagslegri vonarvöl.  Á því tjóni beri stefndi ábyrgð, þar sem hann hafi yfirtekið réttindi og skyldur Landsbankans gagnvart stefnanda.

Þessi málsástæða tengist rökum og málsástæðum, sem raktar verði síðar og eigi einnig við um þetta atriði.

Hlutabréfakaupin hafi, a.m.k. að hluta til, verið fyrir frumkvæði og áeggjan starfsmanna bankans sjálfs.  Starfsmenn bankans hafi m.a. fullyrt við framkvæmdastjóra stefnanda, að verð bréfanna myndi klárlega hækka.  Framkvæmdastjóri stefnanda skýri svo frá, að Ari Wendel hafi fullyrt, að hann hefði það eftir áreiðanlegum heimildum innan úr stjórn bankans, að eftir tvö ár yrði gengið á hlutabréfum í Landsbankanum komið yfir 50.

Bankinn hafi tekið fulla þóknun af viðskiptunum, og telji stefnandi, að síðan hafi sölumennirnir í verðbréfadeild bankans fengið hlutfall eða hlutdeild í þeirri þóknun.  Þá sé einnig ástæða til að ætla, að málum hafi að auki verið þannig háttað innan bankans, að starfsmenn annarra deilda hafi einnig fengið hlutdeild í þóknun eða einhvers konar bónusa fyrir þau lán, sem veitt hafi verið til stefnanda, og ráðstöfun þeirra. 

Stefnandi byggi á því, að háar þóknanir til starfsmanna vegna seldra hlutabréfa hafi stuðlað að því, að bankinn hafi ekki haft hagsmuni stefnanda í huga við viðskiptin, og hafi bankinn þannig farið á skjön við lagaskyldur sínar gagnvart stefnanda sem viðskiptavini og fjárfesti.

Stefnandi, sem útgerðarfélag og fiskverkandi, miði ársreikninga sína við kvótaárið, sem hefjist 1. september ár hvert og ljúki 31. ágúst árið þar á eftir.  Ársreikningur stefnanda fyrir 1. september 2006 til 31. ágúst 2007 beri með sér, að lántökurnar og fjárfestingar á þeim tíma nemi tæpum 223% af rekstrartekjum félagsins, sbr. dskj. nr. 31.  Þar að auki megi sjá, að lántökurnar hafi numið tæplega sexföldu eigin fé félagsins, miðað við efnahagsstöðu félagsins 31. ágúst 2008, skv. þeim ársreikningi, sem aðgengilegur hafi verið, er lánin voru veitt.  Bankanum hafi þannig mátt vera ljóst, að fjárfestingar þær, sem um ræði í máli þessu, hafi verið af þeirri stærðargráðu, að félagið færi beinustu leið í þrot, ef verðmæti hlutabréfa í bankanum myndu ekki standa í stað eða hækka.  Þetta hafi bankinn átt að taka til sérstakrar skoðunar vegna sérstaks eðlis viðskiptanna, þ.e. að bankinn hafi verið að selja stefnanda hlutabréf í sjálfum sér, auk Peningabréfa, þó að minna marki, sem bankinn hafi síðan fjármagnað sjálfur að fullu með lánum til stefnanda.

Stefnandi vísi jafnframt til þess, að bankanum hafi borið rík skylda til að gera stefnanda sérstaklega grein fyrir áhættunni, sem hafi falizt í því að fjárfesta að öllu leyti í einungis einu félagi, þ.e. í bankanum sjálfum.  Sérstaklega skipti máli, að hér sé um að ræða fjárfestingar, algerlega fyrir lánsfé, sem hafi numið meira en 220% af rekstrartekjum stefnanda.  Eigi þetta bæði við um kaup á hlutabréfum í bankanum sjálfum og í Peningabréfum bankans.  Áhættunni af fjárfestingunum, og þar með lántökunum, hafi ekkert verið dreift.  Bæði varði þetta hlutfall eignar stefnanda í bankanum miðað við heildarhlutabréfaeign stefnanda, og hvað varði fjárhæðir fjárfestinga stefnanda í bankanum miðað við efnahag stefnanda, og þ.a.l. fjárhæðir lánanna, sem stefnandi hafi fengið lánaðar hjá bankanum fyrir fjárfestingunum, sem þar að auki hafi verið bundnar við gengi erlendra mynta.

Bankinn hafi búið yfir umfangsmiklum og tæmandi upplýsingum um rekstur stefnanda og bankaviðskipti hans og tilgang félagsins sem útgerð og fiskverkanda, sbr. t.d. dskj. 11 (5. gr.), dskj. 9, 10 og 22 (9. gr.).  Hafi bankanum borið að haga ráðgjöf, og sérstaklega viðvörunum, hvað varði áhættutöku við lántökur og fjárfestingar, í samræmi við þessa þekkingu bankans.

Háttsemin og ráðgjöf bankans í máli þessu sé einnig brot gegn samningi aðila um ráðgjöf um skulda- og áhættustýringu milli stefnanda og Landsbankans, sbr. dskj. nr. 38.  Bankanum beri að bæta stefnanda það tjón, sem ráðgjöfin og háttsemin hafi valdið stefnanda með því að úr gildi verði felldar skuldbindingar stefnanda samkvæmt hinum umstefndu viðskiptum.

Í raun var Landsbankinn að kaupa hlutabréf í sjálfum sér

Stefnandi byggi á því, að lánveiting bankans til stefnanda og sala bankans á hlutabréfum í sjálfum sér og eigin peningabréfum til stefnanda hafi í raun verið sala bankans á ofangreindu til sjálfs sín.  Tilgangurinn hafi verið sá að halda uppi verðbréfaverði í bankanum sjálfum, stækka efnahagsreikning bankans og útvega bankanum sjálfum aukið fé til rekstrar.

Stefnandi telji, að lánveitingar bankans til hans og ráðstöfun andvirðis lánanna hafi verið liður í umsvifamikilli ráðagerð bankans til að halda uppi verði á hlutabréfum í bankanum til eigin hagsbóta og til að stækka efnahagsreikning bankans.  Þessi framkvæmd bankans á sölu bréfa í sjálfum sér í eigin þágu virðist hafa verið afar umfangsmikil og átt sér stað alveg fram að hruni, sbr. m.a. dskj. nr. 32.

Stefnandi telji, að Fjármálaeftirlitið (FME) rannsaki nú grun um, að stjórnendur Landsbankans hafi staðið fyrir allsherjar markaðsmisnotkun með því að lána fyrir hlutabréfakaupum í bankanum með veði í bréfunum sjálfum og þannig haldið verði á þeim uppi.  Stefnandi telji ástæðu til að ætla, að bankinn hafi þannig með kerfisbundnum hætti reynt að hafa áhrif á eigið hlutabréfaverð og þannig sent röng skilaboð til markaðarins um raunvirði bréfanna, sbr. dskj. nr. 33.  Lánveitingin til stefnanda og fjárfestingarnar með andvirði lánanna hafi verið liður í þessari markaðsmisnotkun bankans.  Löggerningarnir allir, sem hér um ræði, bæði lánveitingarnar til stefnanda og fjárfestingarnar, séu þar með óheimilir og í andstöðu við lög.  Á því beri bankinn ábyrgð en ekki stefnandi.

Stefnandi vísi til þess, að slíkar lánveitingar bankans og veðsetningar, þar sem tekin séu að veði eigin hlutabréf banka, sem nemi hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár bankans, séu óheimilar skv. 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (fmfl).  Þar að auki séu viðskiptin með sömu rökum brýnt brot gegn 55. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 (hfl).

         Bankinn hafi þannig ekki mátt, lögum samkvæmt, stuðla að eða taka þátt í þeim viðskiptum, sem hér um ræði á þann máta, sem gert hafi verið.  Styðji þetta fullyrðingu stefnanda um, að hann hafi í raun ekki verið eigandi bréfanna, heldur bankinn sjálfur.  Bankinn hafi hins vegar ekki getað skráð sjálfan sig fyrir bréfunum, með vísan til 26. gr. fmfl. og 55. gr. hfl.  Því hafi stefnandi verið skráður eigandi bréfanna, þótt hann hafi ekkert lagt til fjármögnunar kaupanna sjálfur.  Bankinn, nú stefndi, verði því sjálfur að bera ábyrgðina af slíkum ólögmætum viðskiptaháttum.

Bankinn beri sönnunarbyrði fyrir því, að hann hafi gætt ákvæða 20. fmfl.

Þá byggi stefnandi á því, að söluverð bréfanna til stefnanda hafi verið rangt, of hátt, og að það söluverð skýrist af lögbrotum bankans sjálfs.  Bankanum sé því ekki kleift að krefja stefnanda um greiðslur fyrir söluverð bréfanna, sem bankinn hafi sjálfur átti þátt í, að verðlögð hafi verið allt of hátt.

Peningabréf

Hvað kaup á peningabréfum varði sé rétt að ítreka, að í þeim tilvikum hafi einnig verið um að ræða fjárfestingar í þágu Landsbankans. 

Peningabréf Landsbankans séu fjárfestingarsjóður skv. lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.  Sjóðurinn hafi verið rekinn af Landsvaka hf., dótturfélagi Landsbankans, nú NBI hf., en Landsbankinn hafi verið vörzluaðili sjóðsins.  Sjóðnum hafi verið slitið 28. október 2008 og hafi þeir, sem höfðu lagt sjóðnum til fé, endurheimt 68,8% af fjármunum sínum.  Upplýsingar um slit sjóðsins komi fram á dskj. nr. 39.

Stefnandi telji, að fjármunir Peningabréfa Landsbankans hafi að umtalsverðu leyti verið nýttir í þágu Landsbankans sjálfs.  Þannig hafi rekstraraðili sjóðsins upplýst, að við slit sjóðsins hafi 14,3% sjóðsins verið bundin í eignum, útgefnum af Landsbankanum sjálfum, og þar að auki 5,2% í eignum, útgefnum af Samson, aðaleiganda bankans, og þar að auki hafi verið í sjóðnum stórar eignir í tengdum aðilum, t.d. Eimskip (8,4%).  Þá sé bent á, að umtalsverður hluti sjóðsins muni hafa verið fjárfestur í innlánum, sbr. dskj. nr. 39, bls. 6, en slíkt hafi ekki verið í samræmi við fjárfestingarstefnu, sbr. dskj. nr. 40, fyrr en henni var breytt í júlí 2008, sbr. dskj. 43.

Þannig hafi Landsbankinn lánað stefnanda fé til þess að fjárfesta í fjárfestingasjóðnum, Peningabréf Landsbankans ISK, sem hafi síðan nýtt þessa sömu fjármuni til þess að fjármagna Landsbankann.  Þetta hafi nánar tiltekið verið gert með því að kaupa skuldabréf,  útgefin af Landsbankanum, fjárfesta í innlánum í Landsbankanum, og kaupa bankavíxla og ýmiss konar peningamarkaðsskjöl.  Nánari upplýsingar um samsetningu sjóðsins fyrir slit og á þeim tíma, sem skipti máli, liggi ekki fyrir, en séu hins vegar í vörzlu stefnda.  Stefnandi leggi þó fram skýringarmynd, sem stafi frá stefnda, þar sem fram komi þróun eignaflokka og stærðar Peningabréfa Landsbankans ISK frá 1. október 2007 til 3. október 2008, sbr. dskj. nr. 39, bls. 6.  Þar komi m.a. fram, hvernig hlutfall krafna með ríkisábyrgð hafi minnkað á meðan hlutfall skuldabréfa fjármálafyrirtækja, innlána og bankavíxla, þ.e. fjármögnunarleiða fjármálafyrirtækja, hafi aukizt.  Stefnandi telji, að verulegur hluti sjóðsins hafi á þeim tíma, sem máli skipti, verið nýttur til fjármögnunar Landsbankans, en allar nánari upplýsingar um samsetningu sjóðsins séu sem fyrr segi í vörzlum stefnda.  Landsbankinn hafi því fjármagnað sjálfan sig með lánsfé, sem bankinn hafi veitt stefnanda og fleirum með því skilyrði, að féð yrði notað til þess að kaupa í Peningabréfum Landsbankans.

Stefnandi telji, að Landsbankinn hafi nú þegar notið góðs af því lánsfé, sem lagt hafi verið í Peningabréf Landsbankans.  Með endurgreiðslu lánanna fengi bankinn í raun fjármunina afhenta í annað sinn.  Þetta telji stefnandi m.a. valda því, að rétt sé að beita ógildingarreglum 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 til þess að ógilda lánasamningana.

Þá ítreki stefnandi málsástæður um ranga ráðgjöf af hálfu bankans og bendi á yfirlýsingar bankans um, að fjárfesting í Peningabréfum væri örugg.  Bankinn hafi ráðlagt stefnanda með þessu að fjárfesta nær að öllu leyti á sama stað, þ.e. hjá Landsbankanum sjálfum.  Teljist það brýnt brot á reglum laga um verðbréfaviðskipti um hagsmunaárekstra, svo sem rakið verði síðar.

Skilyrði um fjárfestingu lánanna í bankanum sjálfum

Af gögnum málsins verði ráðið, að Landsbanki Íslands hafi gert það að skilyrði fyrir lánveitingunum til stefnanda, að andvirði lánanna yrði einungis notað til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum annars vegar og Peningabréf bankans sjálfs hins vegar.  Slíkt skilyrði geri lánveitingarnar óheimilar, andstæðar lögum og ógildanlegar, eins og nánar verði rakið.  Lánveitingarnar hafi vegna þessa skilyrðis valdið stefnanda stórkostlegu tjóni, auk þess sem slíkt skilyrði brjóti gegn því og öllum meginreglum og sjónarmiðum um hagsmunaárekstra og sérfræðiráðgjöf.

Þetta skilyrði sé raunar sérstaklega tekið fram í lánasamningi nr. 9089 frá 22. ágúst 2007, sbr. dskj. nr. 22, í grein 1.3, þar sem tiltekið sé, hvernig andvirði lánsins skyldi varið.  Þar að auki sé tekið fram í grein 10, hverjar tryggingar skyldu settar fyrir réttum efndum lánsins, og sé þar m.a. um að ræða þau bréf, sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánsins.

Sambærileg ákvæði og grein 1.3 í lánasamningi nr. 9089 sé reyndar ekki að finna í lánasamningnum nr. 7206,  sbr. dskj. nr. 9, sem undirritaður hafi verið 13. marz 2007, og ekki tiltekið þar, til hvers andvirði lánsins skyldi varið.  Hins vegar sé í báðum marzsamningunum, nr. 7206 og 7204, að finna ákvæði í 10. gr., sem kveði á um, að til trygginga réttum efndum á samningunum skyldu látin að handveði einmitt þau bréf, hlutabréf og Peningabréf, sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánanna sjálfra.  Veðin sjálf hafi þannig ekki orðið til fyrr en búið hafi verið að ráðstafa andvirði lánanna til að kaupa veðin.

Sé þannig augljóst, að það hafi verið skilyrði fyrir lánveitingunni, að keypt yrðu bréf í bankanum sjálfum, og hafi bankinn þannig haldið verði hlutabréfa og Peningabréfa uppi.  Styðji þetta einnig þá málsástæðu stefnanda, að bankinn hafi í raun verið eigandi bréfanna, en ekki stefnandi.

Þá bendi stefnandi á, að skv. ákvæðum lánasamninganna, einkum greinum 9.1. (i) og 11.1 (e) hafi stefnandi ekki haft frjálsar hendur um það, hvort hann kysi að selja verðbréfin, sem keypt hafi verið fyrir andvirði lánanna, þar sem stefnanda hafi, skv. ofangreindum ákvæðum, verið meinað að selja verulegan hluta eigna sinna.  Það liggi í augum uppi, að 19. stærsti hluturinn í Landsbanka Íslands, auk Peningabréfa, falli undir verulegan hluta eigna stefnanda.  Slík sala hafi, skv. lánasamningunum, getað haft í för með sér, að bankinn segði þeim upp og gjaldfelldi í kjölfarið.  Að auki hafi verðbréfin verið handveðsett bankanum og forræði á þeim því ekki í höndum stefnanda.

Um vitneskju bankans og upplýsingaskyldu

Stefnandi byggi á því, að sannað sé, að bankinn hafi vitað, eða mátt vita um, að fjárhagsstaða bankans á lántökutíma og sölutíma hlutabréfanna og Peningabréfanna hafi ekki verið með þeim hætti, að bankinn mætti mæla með fjárfestingum stefnanda í bankanum, og hafi bankanum því verið skylt að vara stefnanda við þessum fjárfestingum.  Vitneskja bankans um stöðu hans hefði þá að minnsta kosti átt að stuðla að ráðgjöf um, að bréfin yrðu seld löngu áður en bankinn fór í þrot, enda stjórnendum löngu ljóst, hvert stefnt hafi. 

Bankanum hafi, strax á árinu 2006, verið ljóst, að rekstur og efnahagur hans væri á þann veg farið, að verulegar líkur væru á því að hann myndi a.m.k. lenda í alvarlegum erfiðleikum, sér í lagi vegna vandræða við endurfjármögnun og minnkandi tiltrú alþjóðamarkaðarins á íslenzku bankakerfi.  Um þetta sé m.a. vísað til dskj. nr. 34, þar sem fjallað sé um hina svokölluðu míní-krísu ársins 2006, þegar lánalínur lokuðust bankanum á alþjóðamörkuðum og endurfjármögnun bankans hafi sífellt orðið erfiðari.  Um allt þetta hafi bankanum verið kunnugt, en ekki stefnanda. 

Þá sé og bent á, að nýlega hafi verið sýnt fram á, að allir íslenzku bankarnir, sem fóru í þrot í bankahruninu, hafi fegrað stöðu sína, m.a. gagnvart FME og öðrum eftirlitsaðilum, sbr. dskj. nr. 34, einkum bls. 24-25, m.a. með því að afhenda eftirlitsaðilum sjálfir gögn, tölur og áætlanir og að halda því fram, að endurfjármögnun væri trygg, þegar svo hafi í raun ekki verið, og að afhenda áætlanir, sem byggðar hafi verið á óraunhæfum væntingum  um niðurgreiðslu skulda.

Hvað Landsbanka Íslands varði sérstaklega og stöðu hans og vitneskju stjórnenda um þá stöðu sé m.a. bent á, að í apríl 2008 hafi Willem H. Buiter og Anne Sibert skrifað skýrslu, að beiðni Landsbankans (dskj. nr. 35), um orsakir fjármálakreppunnar, sem Ísland hafi staðið frammi fyrir, og hafi bankinn beðið höfunda um að þegja yfir efni hennar. Hvorki Landsbankinn né íslenzk stjórnvöld, sem kynnt hafi verið skýrslan í júlí 2008, hafi gert efni skýrslunnar opinskátt.

vað þetta varði, byggi stefnandi á því, að Landsbankinn hefði átt að miðla öllum upplýsingum, sem máli skiptu, um stöðu bankans til stefnanda, með tilliti til ráðgjafar bankans til stefnanda um fjárfestingar hans. Bankanum hafi borið skylda til þess að miðla slíkum upplýsingum, m.a. á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og m.a. með vísan til upplýsingaskyldu seljanda í lausafjárkaupum og skyldur gagnvart viðskiptavini við sérfræðiráðgjöf.  Í það minnsta hefði bankinn átt að vara við kaupunum á bréfunum. Bankinn hafi haft milligöngu um fjárfestingar stefnanda í hlutabréfum og peningabréfum í bankanum, látið fjármögnun í té til fjárfestinga stefnanda að öllu leyti og hafði síðan frumkvæði að því að halda áfram að hvetja framkvæmdastjóra stefnanda til að kaupa meiri hlut í bankanum á síðari hluta ársins 2007.

Á sama tíma telji stefnandi, að bankinn hafi meinað öðrum stórum fjárfesti sínum, viðskiptavini og hluthafa að selja bréf sín í bankanum.  Vísað sé til þess, sem áður segi, að hendur stefnanda varðandi sölu á verðbréfunum hafi einnig verið bundnar skv. ákvæðum samninganna nr. 9.1 (i) og 11.1 (e) og skv. handveðsetningu verðbréfanna.

Þar með telji stefnandi augljóst, að í upplýsingagjöf sinni til stefnanda hafi bankinn gefið rangar og villandi upplýsingar, leynt upplýsingum, sem hafi skipt höfuðmáli fyrir stefnanda um fjárfestingar hans og fjárhagslega framtíð, og einungis miðlað ráðgjöf sem hafi verið til hagsbóta fyrir bankann sjálfan.

Með vísan til framlagðra gagna um stöðu bankanna og vitneskju stjórnenda Landsbankans þegar á árinu 2006 og sér í lagi á sama tíma og Landsbankinn hafi fjármagnað og selt stefnanda nógu mikið af hlutabréfum í sjálfum sér til að færa stefnanda í hóp stærstu hluthafa bankans, sé augljóst, að bankinn hafi gerzt sekur um ranga og gallaða sérfræðiráðgjöf.  Stefnandi telji það blasa við, að ef verðbréfin hefðu verið í einhverju öðru fyrirtæki en bankanum sjálfum þá hefði bankinn ekki ráðlagt stefnanda að kaupa þau.

Stefnandi byggi á því, að engir Kínamúrar hafi verið virkir hjá bankanum, hvað þetta snerti.  Verðbréfadeild bankans hafi haft allar þær sömu upplýsingar og lánadeild bankans og allar aðrar deildir.  Til að mynda vísi stefnandi til þess að hafa átt fundi með starfsmönnum beggja deilda; lánasviðs (fyrirtækjasviðs) og verðbréfasviðs sameiginlega.  Til dæmis hafi verið haldinn fundur með stefnanda, þar sem viðstaddir hafi verið Steinþór Gunnarsson, forstöðumaður verðbréfasviðs, og Ari Wendel, starfsmaður fyrirtækjasviðs.  Hafi þessir aðilar báðir haft allar upplýsingar um stöðu mála stefnanda.

Þá sé bent á, að sú háttsemi bankans að lána viðskiptavinum peninga til þess að kaupa bréf í bankanum sjálfum, þegar staða bankans var jafn ískyggileg og hún hafi orðið þegar í míní-krísunni 2006, gerir það að verkum, að engar reglur um Kínamúra geti forðað bankanum frá ábyrgð í málinu.  Í það minnsta hafi stjórnendum og millistjórnendum bankans verið ljóst, að bankinn hafi verið að selja bréf í sjálfum sér, þar sem kaupin hafi að öllu leyti verið fjármögnuð af bankanum sjálfum.  Þá telji stefnandi, að um slíkt hafi verið almenn vitneskja meðal starfsmanna bankans.  Vitneskja stjórnenda og/eða millistjórnenda nægi til að fella ábyrgð á bankann, hvað sem reglum um Kínamúra líði.

Hér er ekki við það miðað að stefnandi hafi átt rétt á innherjaupplýsingum og því haldið fram að starfsmönnum bankans hafi verið fullkomlega kleift að veita stefnanda hlutlæga og málefnalega ráðgjöf um fjárfestingar í bankanum án þess að veita honum upplýsingar sem hann ekki átti rétt á.

Óréttmætir viðskiptahættir

Stefnandi byggi á því, að þau viðskipti, sem bankinn hafi átt við stefnanda, teljist til óréttmætra viðskiptahátta.  Bankinn hafi lánað stefnanda fjárhæðir, sem ekki samrýmdust efnahag og greiðslugetu stefnanda.  Bankinn hafi síðan tekið þátt í því að ráðstafa lánsfénu til kaupa á verðbréfum í þágu bankans, án nokkurrar dreifingar á áhættu.  Jafnframt hafi skuld stefnanda verið færð í erlendri mynt til kaupa á verðbréfum í íslenzkum krónum, sem hafi verið til þess fallið að auka áhættu stefnanda sérstaklega.  Bankinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda, þar sem stefnandi hafi ekki haft þekkingu og reynslu á þess háttar lántökum og fjárfestingum, sem hér um ræði.  Stefnandi uppfylli ekki skilyrði til þess að teljast fagfjárfestir og skipti ekki máli í því sambandi, hvernig Landsbanki hafi flokkað stefnanda að þessu leyti.

Stefnandi vísi til þess, að með háttsemi sinni hafi bankinn brotið gegn meginreglunni um trúnaðar- og tillitsskyldur í viðskiptasambandi.  Einkum sé vísað til þess, að bankinn hafi sett eigin hagsmuni ofar hagsmunum stefnanda sem viðskiptavinar síns.  Eigin hagsmunir bankans hafi m.a. verið að halda verði á hlutabréfum og Peningabréfum í bankanum háu, eða a.m.k. að koma í veg fyrir, að það lækkaði og að stækka efnahagsreikning bankans.  Einnig sé vakin athygli á, að bankinn hafi greitt starfsmönnum sínum sérstakar þóknanir fyrir að koma á lánasamningum við viðskiptavini bankans og fyrir að fá viðskiptavini bankans til að fjárfesta í bankanum, hvort heldur sem var í hlutabréfum eða Peningabréfum.  Hafi þetta verið til þess fallið að hafa áhrif á ráðgjöf starfsmannanna og auka hættuna á, að ekki væri gætt þeirra trúnaðarskyldna, sem starfsmönnunum hafi borið að fara eftir. 

Tilgangsákvæði samþykkta stefnanda

Stefnandi byggi á því, að lántökur og fjárfestingar þær, sem um ræði í máli þessu, falli ekki að tilgangsákvæði samþykkta félagsins, sbr. dskj. nr. 7.  Þann 30. júní 2004 hafi fyrst verið bætt inn í tilgangsákvæði samþykkta félagsins kaupum á hlutabréfum og verðbréfum, sbr. dskj. nr. 36,  en það blasi hins vegar við, að slíkar áhættufjárfestingar, sem hér um ræði, sem hafi að öllu leyti verið fjármagnaðar með lántökum frá bankanum, fái ekki samrýmzt tilgangsákvæði samþykkta félagsins og séu því óheimilar og ógildar.  Landsbanka Íslands hafi borið að ganga úr skugga um, að lántökurnar og fjárfestingarnar samrýmdust tilgangi stefnanda.  Bankinn hafi ríkar skyldur gagnvart viðskiptamönnum sínum og búi yfir mikilli sérþekkingu á sviði lánveitinga og fjárfestinga.  Bankinn hafi gjörþekkt rekstur og tilgang stefnanda, enda hafi bankinn séð um öll viðskipti hans, og stefnandi hafi ekki haft bankaviðskipti annars staðar.  Það að bankinn hafi ekki gætt þess, að stefnandi færi ekki út fyrir mörk tilgangsákvæðis í samþykktum félagsins, tengist málsástæðunni um varúðarskyldu bankans.  Slíka varúðarskyldu hafi bankinn sett sér sjálfur í 8. gr. lánasamninganna, sbr. dskj. 9, 10 og 22.

Einnig sé vísað til þess, að með viðskiptunum, og þar með lántökunum, hafi stefnandi, Soffanías Cecilsson hf., komizt í hóp stærstu hluthafa bankans, samtals með 0,70% eignarhlut í bankanum í desember 2007, sbr. dskj. nr. 37.  Eftir lántökurnar og fjárfestingarnar hafi stefnandi þannig verið orðinn 19. stærsti eigandi bankans.  Slíkur rekstur, slíkt eignarhald og þær skyldur og sú áhætta, sem slíku eignarhaldi fylgi, rúmist ekki innan tilgangsákvæðis samþykkta félagsins, sem leyfi félaginu ekki að taka þátt í bankastarfsemi og rekstri banka.  Hér skipti umfang eignarhalds stefnanda á bankanum máli, enda sé eðlismunur á að kaupa hlutabréf í banka eða að gerast einn af aðaleigendum bankans.  Hafi bankanum því borið, skv. 8. gr. lánasamninganna, skv. ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vbvl) og skv. skyldum bankans sem sérfræðiráðgjafa, að hafna útborgun á lánunum, þar sem gerningarnir hafi ekki rúmazt innan tilgangsákvæðis samþykkta félagsins, reynslu þess eða þekkingar.

Landsbanka Íslands sé kunnugt um, að félagið, Soffanías Cecilsson hf., sé fyrst og fremst útgerðarfélag en ekki vogunarsjóður eða áhættufjárfestingafélag eða eignarhaldsfélag og enn síður félag, sem taki þátt í bankastarfsemi.

Byggt sé á því, að slíkar fjárfestingar og lántökur til þeirra fjárfestinga, sem  stefnandi hafi tekið þátt í fyrir tilstuðlan Landsbankans, rúmist alls ekki innan tilgangsákvæðis samþykktanna.  Heimild félagsins til verðbréfakaupa sé aukastarfsemi félagsins, en ekki aðalstarfsemi.  Umfang þeirra lántaka og verðbréfakaupa, sem hér um ræði, sé svo stórfellt, að það verði ekki réttlætt með aukastarfsemi félags skv. tilgangsákvæði samþykktanna.  Óréttlætanlegt hafi verið að skuldbinda félagið með áhættufjárfestingum þessum.  Fjárfestingarnar hafi allar verið tengdar einu félagi, Landsbankanum, og hafi numið meira en tvöföldum rekstrartekjum félagsins og tvöföldu eigin fé félagsins.  Þetta hafi bankanum verið ljóst, eða mátt vera ljóst.  Verðbréfakaup sem aukastarfsemi takmarkist við heimild til að fjárfesta laust fé úr aðalstarfsemi og aðalrekstri félags á hverjum tíma í auðseljanlegum verðbréfum, sem sé síðan ráðstafað á tímum, þegar lausafé sé minna, eða skortur á því.

Lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003

Um samskipti stefnanda og Landsbankans í tengslum við kaup á verðbréfum fari eftir lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. áður eldri lög um sama efni nr. 33/2003.

Stefnandi byggi á því, að það sé einsýnt, m.t.t. þeirrar háttsemi, sem þegar hafi verið lýst, að Landsbanki Íslands hafi brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vbvl.) og lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 fyrir gildistöku vbvl. þann 1. nóvember 2007.  Vísað sé til þess, að stefndi hafi þar að auki brotið gegn meginreglum samningaréttar og laga með háttsemi sinni, sem lýst sé í stefnunni.  Háttsemin brjóti einnig gegn samningi aðila um ráðgjöf um skulda- og áhættustýringu, sbr. dskj. nr. 38.

Meðal annars bendi stefnandi á, að brotið hafi verið gegn eftirfarandi ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti:

1. mgr. 8. gr. vbvl. (áður 13. gr. verðbréfaviðskiptalaga nr. 33/2003 og 3. mgr. 13. gr. og 18. gr. MiFID-tilskipunarinnar, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB), með því að hafa, sem fjármálafyrirtæki, ekkert gert til að koma í veg fyrir, að hagsmunaárekstrar þeir, sem hafi verið til staðar við viðskiptin eins og þegar hafi verið lýst, sköðuðu stefnanda sem viðskiptavin bankans. 

3. mgr. 8. gr. vbvl., með því að hafa ekki upplýst stefnanda um eðli og ástæður hagsmunaárekstranna, sem fyrir hendi hafi verið, þ.e. að bankinn hafi, við viðskiptin, einungis verið að vinna að hagsmunum sjálfs sín og eigenda sinna og stjórnenda með því að halda hlutabréfaverði í bankanum (og gengi peningabréfa) háu og stækka efnahagsreikning bankans.

14. gr. vbvl. (áður m.a. 5. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 2. og 3. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar), með því að veita ekki lögboðnar, skýrar, sanngjarnar og eigi villandi upplýsingar um áhættu og fjárfestingarkosti.  Með viðskiptaháttum þeim. sem nú hafi komið í ljós, m.a. þeim að lána ítrekað til kaupa á verðbréfum í bankanum sjálfum til að halda verði bréfanna háu og með brotum bankans á þessu ákvæði, hafi bankinn komið í veg fyrir, að stefnandi gæti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun.

15. gr. vbvl. (áður m.a. 1. mgr. 5. gr. eldri laga nr. 33/2003 og 4. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar) og 16. gr. vbvl. (áður m.a. 1. mgr. 5. gr. og 8. gr. eldri laga og 5. og 6. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar), með því að hafa ekki aflað sér upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta, fjárhagsstöðu hans og markmið með fyrirhugaðri fjárfestingu, og að hafa ekki nýtt sér þær upplýsingar um þessi atriði, sem bankinn hafi haft til að ráðleggja stefnanda.  Sérstaklega sé bent á, að fjárhagsstaða stefnanda sé nú með þeim hætti, að viðskiptin við bankann, sem hér um ræði, muni sliga félagið fjárhagslega.  Þá sé einnig bent á, að þrátt fyrir það að bankinn hafi haft upplýsingar um takmarkaða þekkingu og reynslu stefnanda á sviði bankaviðskipta, þá hafi stefnandi, með verðbréfaviðskiptunum, komizt í hóp stærstu eigenda bankans.  Stefnandi hafi ekki haft þekkingu eða reynslu, sem snúi að rekstri banka.  Þessi lögbundna athugun og upplýsingaöflun bankans hefði einnig leitt í ljós, að þátttaka í bankastarfsemi rúmist ekki innan tilgangsákvæðis samþykkta stefnanda.  Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. vbvl. hafi bankanum þannig verið óheimilt að stunda viðskiptin við stefnanda, sem mál þetta snúist um.

18. gr. vbvl. með því að gæta ekki reglna um beztu framkvæmd, svo sem nánar verði gerð grein fyrir við munnlegan flutning málsins. 

Svik

Stefnandi byggi á því, að háttsemi bankans, sem lýst hafi verið og sé þáttur í lánveitingum bankans til stefnanda og ráðleggingum og milligöngu við fjárfestingarnar fyrir andvirði lánanna í hlutabréfum og Peningabréfum í bankanum sjálfum, falli undir 30. gr. samningalaga nr. 7/1936 (smnl.) og teljist svik.  Vísað sér til sömu raka og rakin séu í stefnu í heild, enda hafi Landsbankinn með ólögmætum hætti og gegn betri vitund gefið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar og leynt atriðum, sem máli hafi skipt, með þeim ásetningi að fá með því stefnanda til að stofna til löggernings.  Séu því allir löggerningarnir ógildir og skuldbindi ekki stefnanda.

Óheiðarleiki, ósanngirni og góðar viðskiptavenjur

Verði ekki fallizt á, að háttsemi bankans, lánveitingar bankans til stefnanda og/eða milligangan um fjárfestingarnar séu sviksamlegar í skilningi 30. gr. smnl., vísi stefnandi til 33. gr. smnl. og byggi á því, að bankinn geti ekki borið fyrir sig lánasamningana, þar sem það teljist óheiðarlegt vegna atvika, sem fyrir hendi voru við samningsgerðina.

Sé þar einkum átt við þá háttsemi bankans að selja verðbréf í sjálfum sér til viðskiptavina sinna með því að fjármagna viðskiptin að fullu og öllu með lánum frá bankanum sjálfum gegn veði í bréfunum, sem keypt hafi verið.  Einnig sé átt við, að þannig hafi bankinn ranglega haldið verði bréfa í bankanum uppi og skapað falska eftirspurn eftir bréfunum og þar með falskt verð, og að einn hvatinn fyrir viðskiptunum hafi verið bónusgreiðslur og háar þóknanir og bónusar til starfsmanna og stjórnenda, bæði vegna sölu á verðbréfunum og vegna lánveitinganna.

Sérstaklega sé tekið fram, að framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Sigurbergsson, hafi ekki notið sérfræðiráðgjafar annarra við viðskiptin, og bankanum hafi verið það ljóst.

Því sé haldið fram, að það sé óheiðarlegt af bankanum að ætla nú að innheimta lánin, sem bankinn hafi sjálfur veitt til kaupa á bréfum í sjálfum sér gegn verði, sem bankinn hafi sjálfur haldið uppi með lánveitingum með veði í bréfunum sjálfum.  Sér í lagi þegar aðalástæða viðskiptanna af hálfu bankans hafi verið að halda verði á hlutabréfum bankans háu.  Í slíkri háttsemi kunni að felast markaðsmisnotkun.

Stefnandi hafi hvorki haft vitneskju um þessa háttsemi bankans né heldur um, hvernig bankinn hafi fjármagnað sölu á eigin bréfum til annarra að fullu með eigin lánveitingum og gegn veði í eigin bréfum.

Einnig vísi stefnandi til 36. gr. smnl. og byggi á því að víkja megi lánasamningunum og fjárfestingunum í kjölfarið til hliðar í heild sinni, enda væri það bæði ósanngjarnt af bankanum og andstætt góðri viðskiptavenju að bera slíka samninga fyrir sig.  Bankinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda.  Þá hafi bankinn búið yfir upplýsingum, sem stefnandi hafi ekki búið yfir, sem hefðu gjörbreytt viðhorfi stefnanda til fjárfestinganna og lántakanna og komið í veg fyrir þær.  Bankinn hafi einnig haft að gegna sérstökum trúnaðarskyldum við stefnanda sem viðskiptabanki stefnanda.  Enn fremur hafi bankanum verið fullkunnugt um tilgang stefnanda og rekstur sem útgerðarfélags, og að stjórnendur  félagsins hafi ekki búið að þekkingu og reynslu á umræddu sviði.  Að öðru leyti sé vísað til háttsemi bankans, sem þegar hafi verið lýst.

Hvað 36. gr. varði sé einnig vísað til þess, að lánasamningar þeir, sem um ræði í máli þessu, séu tengdir gengi erlendra gjaldmiðla.  Stjórnendur stefnanda hafi, að ráði Landsbankans, tekið stöðu með krónunni í framvirkum gjaldeyrissamningum til þess að verja tekjur félagsins af reglulegum rekstri, sem séu í erlendum myntum, sbr. dskj. nr. 44.  Á sama tíma hafi Landsbankinn og aðilar tengdir bankanum hins vegar tekið stöðu á móti krónunni, eins og gerð hafi verið grein fyrir opinberlega, sem leitt hafi til verulegs fjártjóns fyrir stefnanda.  Skuli þetta sérstaklega haft í huga varðandi mat skv. 36. gr. vegna atvika, sem síðar hafi komið til.

Á grundvelli 36. gr. smnl. sé til vara byggt á því, að ákvæði lánasamninganna um, að þeir séu tengdir gengi erlendra gjaldmiðla, sé ógildalegt, með vísan til ofangreindrar ráðgjafar bankans um stöðutöku stefnanda með krónunni og ráðgjafar um, að krónan myndi styrkjast á meðan bankinn hafi sjálfur tekið stöðu á móti krónunni.  Þá sé ástæða til að ætla, að kjölfestueigendur bankans hafi gert það sama, sbr. dskj. nr. 45.  Þess háttar stöðutaka bankans og eigenda hans gegn krónunni hafi orðið til þess, að gengi hennar hafi veikzt.

Andskýringarregla samningaréttar

Stefnandi vísi sérstaklega til andskýringarreglu samningaréttarins, hvað varði túlkun löggerninga þeirra allra og lánasamninga, sem fyrir liggi í máli þessu.  Löggerningarnir hafi allir verið samdir af bankanum sjálfum og hafi stefnanda ekki gefizt kostur á að breyta orðalagi þeirra og efni að neinu leyti.  Stefnandi hafi þannig hvergi komið nálægt samningu löggerninganna, og skuli þeir túlkaðir stefnda í óhag, þar sem eitthvað kunni að vera óskýrt um efni þeirra.  Sérstök athygli sé vakin á því, að umboðið á dskj. nr. 11 hafi verið samið af Landsbanka Íslands.

Eðli máls, meginreglur laga og sanngirnisrök

Með vísan til alls þess, sem nú hafi verið rakið, geti það ekki staðizt eðli máls, meginreglur laga eða sanngirnisrök að láta stefnanda bera fjárhagslega ábyrgð á viðskiptum aðila, þrátt fyrir háttalag bankans í máli þessu.

Stefnandi telji, að kröfurnar á hendur honum, sem um ræði í máli þessu, hafi verið færðar yfir frá gamla Landsbanka Íslands hf. til stefnda, annaðhvort án greiðslu eða gegn afar lítilli greiðslu.  Stefnandi vísi til þess, að það stangist á við sanngirnisrök að láta hann bera ábyrgðina af háttalagi Landsbanka Íslands, sem lýst hafi verið í máli þessu, sér í lagi þegar stefndi myndi í raun engum fjármunum tapa á því, að lánasamningar stefnanda yrðu dæmdir ógildir og ólögmætir. 

Yrði stefnanda gert að greiða andvirði lánanna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, myndi það leiða til verulegrar auðgunar hjá stefnda.

         Umboðsskortur

Stefnandi byggi á því, að lánasamningarnir, sem um ræði í máli þessu, séu ekki skuldbindandi fyrir félagið, enda hafi ekki legið fyrir lögformleg eða nægjanleg heimild frá félaginu til að gangast undir þær skuldbindingar, sem í þeim og öðrum löggerningum í máli þessu felist.  Sé þar byggt á eftirfarandi málsástæðum:

Í fyrsta lagi sé samþykkt stjórnar frá 12. marz 2007, sbr. dskj. nr. 8, ólögmæt og á skjön við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 (hfl).  Í samþykkt stjórnarinnar skv. fundargerðarbók, sbr. dskj. nr. 8, segi:

Framkvæmdastjóri óskar eftir heimild stjórnar til að taka lán upp á 3 milljarða.  Láninu verður varið til að efla fjárfestingasjóð.  Ætlunin er að 50% fari til hlutabréfakaupa og 50% til kaupa á peningabréfum.

Stefnandi byggi á því, að samþykkt stjórnar á ofangreindri tillögu fullnægi ekki skilyrðum m.a. 68. gr. hfl., þar sem engin tilgreining sé í samþykkt stjórnar, í hvaða félögum skyldi fjárfest í nafni félagsins, og engin fjárfestingastefna hafi legið fyrir í félaginu, hvorki skrifleg né annars konar.  Þar af leiðandi sé undirritun framkvæmdastjóra á lánasamninga félagsins óskuldbindandi fyrir félagið, þar sem framkvæmdastjóri hafi þar með ekki haft umboð til að skuldbinda félagið á þann máta, sem gert hafi verið.  Hvað þetta varði, sé byggt á því, að ekki hafi legið fyrir nægjanleg eða lögmæt heimild frá stjórn til lántökunnar eða fjárfestinganna, og þar með séu löggerningar framkvæmdastjóra, sem framkvæmdir hafi verið í nafni stefnanda á grundvelli ófullnægjandi stjórnarsamþykktar, ógildir.

Að auki sé á því byggt, að þar með hafi ekki legið fyrir lögmæt heimild stjórnar til ráðstöfunar andvirðis lánanna, enda sé samþykkt stjórnar um ráðstöfun andvirðis lánanna of víðtæk, þar sem ekki sé tilgreint í hlutabréfum hvaða félags eða félaga skyldi fjárfest fyrir andvirði lánanna eða í peningabréfum hvaða banka.  Bókunin nái bæði til innlendra og erlendra hlutabréfa, án tillits til þess hvort þau séu skráð félög á verðbréfamarkaði eða ekki. Þá heimili bókunin ekki lántöku í erlendum gjaldeyri til fjárfestinganna.  Til þess hafi þurft sérstakt samþykki stjórnar.  Ekki sé heldur ráðgert í bókuninni, að ráðstafanir á grundvelli hennar séu í samræmi við fyrir fram mótaða fjárfestingarstefnu, enda hafi stefnandi ekki markað sér neina slíka stefnu.  Fari samþykktin þannig í bága við ákvæði hfl. um starfsskipulag hlutafélaga.

Vísað sé til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 678/2008 (Soffanías Cecilsson hf. gegn Magnúsi Soffaníassyni), en dómurinn sé sönnun þess, að félagið hafi ekki haft fyrir fram markaða fjárfestingastefnu á þeim tíma, sem lánin voru tekin hjá stefnda og fjárfestingarnar framkvæmdar.  Sú ályktun verði dregin af dóminum, að ótilgreindar heimildir stjórnar til framkvæmdastjóra til ótilgreindra fjárfestinga, og að auki án fyrirliggjandi fjárfestingastefnu, séu ólögmætar.

Í öðru lagi sé umboð Rúnars S. Magnússonar, dags. 13. marz 2007, sbr. dskj. nr. 11, til Sigurðar Sigurbergssonar framkvæmdastjóra ekki umboð frá stjórn, heldur einum stjórnarmanna og einungis til undirritunar lánasamninganna, sem dagsettir séu í marz, en ekki til ráðstöfunar andvirðis lánanna.  Sigurður Sigurbergsson framkvæmdastjóri hafi því ekki haft umboð stjórnar stefnanda til að ráðstafa andvirði lánanna á þann máta, sem gert hafi verið.  Fyrir ráðstöfun framkvæmdastjóra á andvirði lánanna hafi í fyrsta lagi ekkert umboð legið frá stjórn, og í öðru lagi hafi engar lögmætar ákvarðanir stjórnar legið til grundvallar ráðstöfuninni.  Þá skuli haft í huga, að umboðið hafi verið samið af Landsbankanum sjálfum.

Í þriðja lagi sé byggt á því, að sú ráðstöfun framkvæmdastjóra stefnanda að taka þriðja lánið nr. 9089, sbr. dskj. nr. 22, þann 22. ágúst 2007, sé með öllu óskuldbindandi fyrir stefnanda.  Gildi það bæði um lántökuna sjálfa sem og um ráðstöfun andvirðis þess láns, sem varið hafi verið til frekari kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum og Peningabréfum bankans.  Fyrir þessari ráðstöfun hafi hvorki verið umboð frá stjórn stefnanda til framkvæmdastjóra, né heldur hafi stjórn félagsins samþykkt slíka lántöku eða fjárfestingu á stjórnarfundum, eða yfirhöfuð fjallað um slíka lántöku eða fjárfestingu.  Jafnvel þótt bókun stjórnar á stjórnarfundi þann 12. marz 2007 væri talin lögmæt, þá rúmist lántaka framkvæmdastjóra í nafni stefnanda í ágúst 2007 ekki innan þeirrar stjórnarsamþykktar.

Stefnandi bendi á, að það sé augljóst, að ofangreindar ráðstafanir falli ekki undir daglegan rekstur félagsins, sbr. 2. mgr. 68. gr. hfl.

Í fjórða lagi sé bent á 8. gr. lánasamninganna, sbr. dskj. nr. 9, 10 og 22.  Ákvæðin séu  samhljóða í öllum lánasamningunum, og þar sé það gert að skilyrði fyrir útborgun skv. samningunum, að lántaki hafi afhent m.a. „staðfestingu á að lögformlega hafi verið staðið að öllum ákvörðunum um lántökuna, þannig að um skuldbindandi samning sé að ræða af hálfu lántaka, og hverjum hafi verið veitt umboð til undirritunar lánssamningsins.“  Stefndi geti þar með ekki borið fyrir sig grandleysi eða góða trú, enda hafi bankanum og sérfræðingum, sem þar starfi, verið ljóst, hversu takmarkaðs efnis umboðið frá í marz 2007 hafi verið og borið að ganga úr skugga um, að það hvíldi á lögformlegri og löglegri stjórnarsamþykkt, sem það hafi ekki gert.  Auk þess hafi ekkert umboð frá stjórn stefnanda legið fyrir um ráðstöfun framkvæmdastjóra á andvirði lánanna.  Þetta hafi bankanum verið ljóst.  Þar sem bankinn hafi greitt út lánið og ráðstafað því síðan til kaupa á hlutabréfum og Peningabréfum í bankanum sjálfum, sé ljóst, að bankinn hafi brotið gegn 8. gr. lánasamningsins, sem bankinn hafi sjálfur samið.  Skv. skýrum ákvæðum lánasamninganna hafi bankanum borið að ganga úr skugga um, að lögformlega hafi verið staðið að öllum ákvörðunum um lántökuna.  Það hafi bankinn ekki gert.  Stefnandi verði ekki látinn bera hallann af þeim mistökum bankans.

Þá sé einnig ljóst, að bankinn hafi verið grandsamur um, að fyrir lántökunni þann 22. ágúst 2007 lægi hvorki umboð né samþykkt stjórnar, enda hafi hvorugt verið lagt fram af hálfu stefnanda við útborgun lánsins, þrátt fyrir ákvæði 8. gr. samningsins og ákvæði hfl.  Bankanum hafi verið ljóst, eða í minnsta lagi mátt vera ljóst, að umboðið, sem Rúnar S. Magnússon undirritaði 13. marz 2007, sbr. dskj. nr. 11, hafi einungis verið til undirritunar lánasamninganna, sem dagsettir voru í marz, skv. skýru orðalagi umboðsins sjálfs.  Undirritun nýs lánasamnings geti ekki fallið undir það umboð.  Bankinn hafi þannig greitt út lán og ráðstafað andvirði þess til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér með vitund aðila, sem hafi augljóslega verið umboðslaus.  Sá gerningur geti fráleitt skuldbundið stefnanda lögum samkvæmt.  Tillögu til að veita umboð til svo mikilvægra ráðstafana beri að leggja fyrir stjórn félagsins til umræðu og ákvörðunar og ekki verði tekin ákvörðun um slíka ráðstöfun af meirihluta stjórnar utan stjórnarfundar.  Jafnvel þó svo, að fyrir lægi annað umboð Rúnars vegna láns nr. 9089, þá breyti það engu um það, að sú lántaka hafi ekki verið samkvæmt heimild frá stjórn stefnanda eða í umboði stjórnarinnar og þar með félagsins.

Fjárfestingin og lántakan, sem framkvæmdastjórinn hafi efnt til umboðslaus í nafni félagsins í ágúst 2007 sé einnig í andstöðu við samþykkt stjórnarfundar frá 12. marz 2007, væri sú samþykkt á annað borð talin lögleg.

Þá sé einnig lögð áherzla á, að þar með séu tryggingargerningar skv. lánasamningi nr. 9089 ógildir og ólögmætir.  Allsherjarveð það, tryggt með veði í ýmsum eignum lántaka, sem kveðið sé á um í grein nr. 10.1 í lánasamningi nr. 9089 liggi því ekki til skuldbindingar láni skv. lánasamningi 9089, og sé veðsetningin þannig ógild og óheimil, enda hafi framkvæmdastjóri félagsins ekki haft umboð stjórnar til að skuldbinda félagið með þeim hætti, eða ráðstafa eignum félagsins með allsherjarveði með þessum hætti.  Skv. 8. gr. lánasamningsins hafi bankinn jafnframt sjálfur átt að ganga úr skugga um, að svo væri.

Eftir á staðfesting hluthafafundar þann 16. apríl 2008 „á fjárfestingarstefnu félagsins sem fylgt hefur verið undanfarin ár af hálfu stjórnar félagsins“, sbr. fundargerð aðalfundar 16. apríl 2008 á dskj. nr. 30 hafi ekkert gildi, hvað varði fjárfestingar og lántökur þær, sem mál þetta fjalli um.  Í fyrsta lagi sé á því byggt, að þær fjárfestingar hafi ekki hvílt á lögmætum grundvelli, þar sem bókun á stjórnarfundi þann 13. marz 2007 um þriggja miljarða króna lántöku og fjárfestingu standist ekki ákvæði hfl.  Eftir á samþykkt fundarins breyti því ekki, sbr. Hæstaréttardóm í máli nr. 678/2008.  Í öðru lagi sé vísað til þess, að ofangreind bókun hluthafa á aðalfundi varði einungis fjárfestingarstefnu, sem fylgt hafi verið af hálfu stjórnar félagsins, en varði ekki þær ráðstafanir, lántökur og fjárfestingar, sem framkvæmdastjóri félagsins hafi framkvæmt í nafni félagsins og stefnandi haldi fram, að ekkert umboð eða heimild hafi verið fyrir.

Sama gildi um bókun stjórnarmanns, Rúnars S. Magnússonar, á stjórnarfundi 5. desember 2007.  Sú bókun geti heldur ekki skoðazt sem samþykki stjórnar á þessum tilteknu gerningum, þ.e. láni nr. 9089, sbr. dskj. nr. 22, og ráðstöfun andvirðis þess láns.  Bókun Rúnars hafi verið svar við bókun stjórnarmannsins, Sigríðar Finsen, en fyrirspurn hennar hafi varðað lækkun á innstæðu félagsins á reikningum hjá Straumi, en ekki hjá Landsbanka Íslands.  Bókunin varði því ekki þau viðskipti, sem hafi átt sér stað í kjölfar lántökunnar 22. ágúst 2007.  Bókun Rúnars vísi heldur ekki til neinnar formlegrar atkvæðagreiðslu eða ákvörðunartöku stjórnarinnar varðandi lán 9089, enda hafi slík tillaga aldrei verið borin upp formlega í stjórn og þar af leiðandi liggi ekki fyrir lögleg stjórnarsamþykkt fyrir þeim gerningi.  Bókun Rúnars geti því ekki átt við um lántökuna nr. 9089 eða fjárfestingarnar.

Séu löggerningar þeir, sem um ræði í máli þessu, þannig ekki skuldbindandi fyrir félagið, með vísan til 77. gr. hfl.  Bankanum hafi verið eða hafi mátt vera þetta ljóst.

Um aðalkröfu

Með aðalkröfu sinni geri stefnandi kröfu um ógildingu á lánasamningum nr. 9089 og 7206 og öllum ráðstöfunum á andvirði lánanna tveggja.  Eins og gögn málsins beri með sér, hafi 2/3 hlutar af andvirði lánsins dags. 22 ágúst 2007 nr. 9089 verið notaðir til kaupa á Peningabréfum Landsbankans.  Þegar komið hafi að uppgjöri á þeirri kröfu eftir bankahrun hafi fengizt greidd 68,8% af andvirði peningabréfanna miðað við gengi á tilteknum degi.  Andvirðið sé í vörzlum stefnda og ekki til ráðstöfunar fyrir stefnanda.  Að gengnum lokadómi í máli þessu hafi sú inneign áhrif á skuldauppgjör milli aðila máls þessa.  Stefnandi telji ekki rétt að gera kröfur í dómsmáli þessu um framkvæmd uppgjörsins.

Um varakröfu

Þrautavarakrafa stefnanda byggi á því, að lánveitingar með þeim hætti, sem um ræði í málinu, séu ólöglegar að íslenzkum rétti.  Sé þar fyrst og fremst átt við, að óheimilt sé að miða lánið, sem tilgreint sé í íslenzkum krónum, við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þegar hafi verið útskýrt, að lántakan og ráðstöfun fjármunanna hafi engin tengsl haft utan Íslands eða við aðra gjaldmiðla en íslenzka krónu.  Til dæmis sé á forsíðu lánasamninganna tilgreint, að um sé að ræða lán í íslenzkum krónum, og hvergi í samningnum séu fjárhæðir tilgreindar í öðrum gjaldmiðlum.

Í 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé heimilaður sá verðbreytingarstuðull, sem felist í verðtryggingu samkvæmt vísitölu neyzluverðs.  Með gildistöku laganna hafi verið felld úr gildi heimild eldri laga til að verðbreyta skuldbindingum, sparifé eða lánsfé með vísan til gengis erlendra gjaldmiðla.

Stefnandi telji, að lánasamningarnir hafi í reynd verið lán í íslenzkum krónum en að samningarnir mæli fyrir um, að lánsfjárhæðin sé verðtryggð með vísan til gengis erlendra mynta (svissneskra franka og japanskra yena) gagnvart krónunni.  Séu ákvæði samninganna þar að lútandi í andstöðu við íslenzk lög samkvæmt framansögðu, og bankinn geti því ekki byggt rétt á þeim.

Þar að auki telji stefnandi, að umrædd samningsákvæði séu ógildanleg á grundvelli 36. gr. smnl. og óskráðra reglna samningaréttar um brostnar forsendur.  Sé vísað til þess, að utanaðkomandi áhrif, sem stefnandi hafi enga stjórn á, hafi valdið því, að fjárhæðir lánanna hafi margfaldazt vegna gengishruns krónunnar.  Í skilningi 36. gr. smnl. sé ósanngjarnt, að stefnandi beri skaða vegna þessa, og teljast þessar breytingar, ásamt algeru hruni íslenzks fjármálakerfis, brostnar forsendur, sem leiði til ógildanleika lánasamninganna að þessu leyti.  Um allt þetta hafi bankanum mátt vera kunnugt.

Jafnframt bendi stefnandi á, að Landsbankinn, ásamt öðrum íslenzkum bönkum, muni hafa tekið stöðu gegn krónunni í framvirkum gjaldeyrissamningum og þannig skaðað hagsmuni viðsemjanda, þ.e. stefnanda, í andstöðu við reglur um trúnaðarskyldu í samningssambandi. 

Enn fremur vísi stefnandi til alls þess, sem reifað hafi verið um skort á upplýsingum, ranga ráðgjöf og ófullnægjandi vinnubrögð af hálfu bankans, sem gefi sig þó út fyrir að búa yfir sérþekkingu á þessu sviði.  Sérstaklega sé byggt á því, að ráðgjöf um lántöku, með tengingu við gengi erlendra mynta, án þess að bankinn hafi kynnt fyrir stefnanda þá áhættu, sem felist í slíkum viðskiptum, uppfylli engar þær faglegu kröfur, sem gera verði til ráðgjafar fjármálastofnunar.

Aðild

Í máli þessu sé NBI hf. stefnt, þrátt fyrir að viðskipti stefnanda hafi verið við Landsbanka Íslands hf.  Styðjist stefnandi við samkomulag aðila um málshöfðun þessa, þar sem NBI hf. gangi sjálfur út frá aðild sinni að málinu.  Í því felist viðurkenning á því, að lána­samningarnir séu nú á ábyrgð og í eigu NBI hf.  Um þetta vísist einnig til opinberra tilkynninga og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins um skiptingu Landsbankans í tvö félög.  Stefnandi haldi því öllum þeim mótbárum og réttindum, sem hann eigi gegn Landsbanka Íslands einnig gegn stefnda.

Verði stefndi ekki við áskorunum í stefnu um gagnaframlagningu, beri að leggja staðhæfingar stefnanda um staðreyndir til grundvallar.

Lagarök

Stefnandi vísi m.a. til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og eldri laga nr. 33/2003 auk MiFID tilskipunar ESB, þ.e tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/12/EB.  Vísað sé til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hlutafélagalaga nr. 2/1995 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga, einkum III. kafla.  Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Stefndi gerir þær kröfur aðallega, að hluta dómkrafna stefnanda verði vísað frá dómi, og er sá þáttur málsins einungis hér til umfjöllunar.

Stefndi krefst þess, að kröfum stefnanda, um ógildingu á ráðstöfun andvirðis lána, samkvæmt lánasamningum nr. 7206 og nr. 9089, í nánar tilgreindum viðskiptum, verði vísað frá dómi.  Krafa stefnda um frávísun þessara krafna sé byggð á d-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en samkvæmt ákvæðinu skuli í stefnu greina svo glöggt sem verða megi eftirfarandi:

Dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla, málskostnað o.s.frv.

Eins og dómkrafa stefnanda sé orðuð uppfylli hún ekki skilyrði þessa ákvæðis.  Krafa sé gerð um ógildingu á ráðstöfun andvirðis tiltekinna lána.  Í fyrsta lagi hafi það ekki verið stefndi, sem hafi ráðstafað andvirði umræddra lána, heldur Landsbanki Íslands hf., að beiðni stefnanda.  Sé því óskiljanlegt, af hverju þessi krafa sé gerð á hendur stefnda.  Í öðru lagi sé ljóst, að krafan sé ekki í samræmi við meginregluna um ákveðna og ljósa kröfugerð, en reglan mæli fyrir um, að kröfugerð stefnanda þurfi að meginreglu að vera svo ákveðin og ljós í stefnu, að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu í máli.  Ekki sé hægt að taka umrædda kröfu stefnanda upp í dómsniðurstöðu, enda sé mjög óljóst, hvað stefnanda gangi til með kröfunni.  Umræddum peningum hafi þegar verið ráðstafað af hálfu Landsbanka Íslands hf., en það félag sé nú í slitameðferð.  Ekki sé því ljóst, hvaða réttaráhrif það eigi að hafa að ógilda ráðstöfun tiltekins fjár, og hafi stefnandi ekki skýrt það nánar.  Í þessu sambandi skuli sérstaklega bent á, að stefnandi krefji hvorki stefnda né þrotabú Landsbanka Íslands hf. um greiðslu á þeim fjárhæðum, sem um ræði, sbr. ákvæði d-liðar 80. gr. eml.  Í staðinn sé gerð krafa á hendur stefnda um að þola ógildingu á ráðstöfun, sem Landsbanki Íslands hf. hafi framkvæmt, án þess að samhliða sé gerð krafa um greiðslu, eða að í dómi verði kveðið á um ákveðna skyldu eða viðurkenningu réttinda.  Verði því jafnframt að telja, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfunnar, sbr. 1. mgr. 25. gr. eml., þar sem engin réttaráhrif myndu fylgja slíkum dómi.

Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda

Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað fyrir þennan þátt málsins sérstaklega.  Þá mótmælir stefnandi því að krafa stefnda um frávísun málsins í heild, sem sett var fram við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna, komist að á því stigi.

IV

Forsendur og niðurstaða

Upphaflega gerði stefndi þær dómkröfur aðallega, að kröfum stefnanda um ógildingu á ráðstöfun andvirðis lána, samkvæmt lánasamningum nr. 7206 og nr. 9089, í nánar tilgreindum viðskiptum, yrði vísað frá dómi og var sýknu krafizt af kröfum stefnanda um, að lánasamningar nr. 7206 og nr. 9089 verði lýstir ógildir frá upphafi sem og sýknu af varakröfu stefnanda.  Í upphafi þinghalds, þegar munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna skyldi fara fram, breytti lögmaður stefnda frávísunarkröfunni á þá leið, að hann krafðist frávísunar málsins í heild sinni og vísaði í dóm Hæstaréttar Íslands nr. 68/2011, sem hann taldi hafa fordæmisgildi í máli þessu.

Lögmaður stefnanda hafnaði því, að breytt frávísunarkrafa kæmist að á því stigi.

Frávísunarkrafa stefnda byggir á því, að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki formskilyrði einkamálalaga.  Ber dómara að gæta að því af sjálfsdáðum, að formskilyrði séu uppfyllt, og er því þegar af þeim sökum ekki fallizt á, að krafan sé of seint fram komin.

Aðalkrafa stefnanda lýtur að því, að tveir lánasamningar milli stefnanda og stefnda verði lýstir ógildir frá upphafi, auk þess sem krafizt er ógildingar á ráðstöfun andvirðis lánanna, annars vegar til kaupa á hlutabréfum í átta viðskiptum, og hins vegar til kaupa á hlutabréfum og peningabréfum í þrennum viðskiptum.  Varakrafa stefnanda lýtur að rétti stefnanda á uppgjöri lánanna í íslenzkum krónum.

Ekki er fullt tölulegt samræmi milli lánasamninga þeirra, sem krafizt er ógildingar á annars vegar, og ráðstöfun á andvirði lánanna til kaupa á bréfum í bankanum hins vegar.  Þannig er samanlögð fjárhæð kaupverðs bréfanna án kostnaðar samkvæmt láni nr. 7206 kr. 1.497.890.347, en með kostnaði kr. 1.502.384.018.  Er ekki ljóst af stefnu, hvort krafan lýtur að ógildingu ráðstöfunar með kostnaði, sem er þannig 2.384.018 kr. hærri fjárhæð en sjálft lánið, sem nam kr. 1.500.000.000, meðan einungis er talað um ógildingu á ráðstöfun á andvirði lánsins. 

Hvað varðar lán nr. 9089, dags. 22. ágúst 2007, að fjárhæð kr. 1.500.000.000, þá er krafizt ógildingar á ráðstöfun andvirðis þess í fyrsta lagi vegna kaupa á Peningabréfum hinn 24. ágúst 2007, að fjárhæð kr. 1.450.000.000, síðan á sölu á Peningabréfum hinn 27. sama mánaðar, að fjárhæð kr. 501.500.000, að meðtöldum kostnaði, og loks kaupum á hlutabréfum hinn 21. ágúst 2007, að fjárhæð kr. 501.500.000, að meðtöldum kostnaði.  Samkvæmt þessari kröfugerð kaupir stefnandi hlutabréf í Landsbankanum fyrir kr. 501.500.000 daginn áður en lánið er veitt, þremur dögum síðar kaupir hann Peningabréf í bankanum fyrir kr. 1.450.000.000, og hefur þá samkvæmt kröfugerðinni ráðstafað samtals 1.950.000.000 af láni, sem nemur þó einungis kr. 1.500.000.000.  Að lokum selur hann hinn 27. ágúst Peningabréf fyrir kr. 501.500.000.  Er misræmi þetta óskýrt í málatilbúnaði stefnanda, að öðru leyti en því að kaupin á hlutabréfum hinn 21. ágúst voru gerð upp þremur dögum síðar, eða sama dag og Peningabréfin voru keypt.

Fram kemur í stefnu, að lánunum hafi verið ráðstafað að ósk stefnanda, og verður ekki af málsgögnum ráðið á hvaða grunni stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda, NBI.  Þá er ekki ljóst af málatilbúnaði stefnanda, hvaða réttaráhrif ógilding ráðstöfunar hinna einstöku viðskipta með lánsféð eigi að hafa fyrir stefnanda.

Eru framangreindir þættir kröfugerðar stefnanda ekki nægilega skýrir og uppfylla ekki skilyrði 80. gr. eml. nr. 91/1991 um skýran og ljósan málatilbúnað, og ber að vísa þessum hluta kröfunnar frá dómi.

Af framangreindu leiðir jafnframt, að vísa ber frá dómi fyrri hluta aðalkröfunnar, þ.e. um ógildingu lánasamninganna frá upphafi, en ekki verður séð, hvaða réttarverkanir þessi krafa, ein og sér, hefur fyrir stefnanda, þar sem búið er að ráðstafa lánsfénu, og kröfu stefnanda um ógildingu á þeim ráðstöfunum er hér vísað frá dómi.

Ekki þykja efni til að vísa varakröfu stefnanda frá dómi, en af hálfu stefnda hafa engin rök verið færð fyrir þeirri niðurstöðu, og hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 68/2011 ekki fordæmisgildi, hvað þennan kröfulið varðar, enda málsatvik ekki sambærileg.

Samkvæmt þessari niðurstöðu þykir rétt að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Aðalkröfu stefnanda í máli þessu er vísað frá dómi.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.