Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 156/2006. |
101 Fasteignafélag ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Stafna á milli ehf. Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing.
Talið var að skilyrði 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 væru uppfyllt til að þinglýsa mætti stefnu í máli sem F hafði höfðað á hendur S, F og H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að þinglýsa stefnu í máli hans gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að heimilað verði að þinglýsa stefnu í málinu eða útdrætti úr henni á þær fasteignir, sem kaupsamningur aðila málsins fjallar um og tilgreindar eru í stefnunni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði, sem og röksemdir aðila fyrir kröfum sínum. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum vísað sjálfkrafa frá dómi. Þeim úrskurði var hrundið með dómi Hæstaréttar í dag í máli nr. 157/2006 og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga getur dómari ákveðið með úrskurði að þinglýsa megi stefnu í máli er varðar réttindi yfir fasteign, eða útdrætti úr stefnu. Markmið þessarar heimildar er að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem varðar réttindi yfir fasteign. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til þinglýsingalaga kemur fram að til þess að rétt sé að taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því sem 2. mgr. 27. gr. laganna gerir ráð fyrir. Sá sem þess krefst þarf því að færa fram veigamikil rök fyrir staðhæfingu um réttindi sín yfir viðkomandi fasteign, þótt ekki verði á því stigi máls tekin efnisleg afstaða til ágreinings aðila. Þegar litið er til þeirra atriða sem fram eru komin um ágreiningsefni máls þessa og nánar eru rakin í hinum kærða úrskurði, má telja fullnægt skilyrðum til að fallist verði á kröfu sóknaraðila um þinglýsingu stefnu í málinu eða útdráttar úr henni á þær fasteignir sem þar eru taldar upp. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Sóknaraðila, 101 Fasteignafélagi ehf., er heimilað að fá þinglýst stefnu í máli sínu nr. E-366/2006, gegn varnaraðilum, Stafna á milli ehf., Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf., á eftirgreindar fasteignir: Laugaveg 41, fastanúmer 200-4759, 200-4760 og 226-4800, eignarhluta 010101, 010201 og 010301; Laugaveg 41a, fastanúmer 200-4761 og 200-4762, eignarhluta 010001 og 010101; Laugaveg 41a, bílskúr, fastanúmer 200-4763, eignarhluta 020101; Laugaveg 43, fastanúmer 200-4757 og 223-9070, eignarhluta 010101 og 010401; Laugaveg 45, fastanúmer 200-4755 og 200-4756, eignarhluta 040101 og 040201; Laugaveg 45a, sem er hluti af Frakkastíg 8; Laugaveg 45b, sem er hluti af Frakkastíg 8; Frakkastíg 8, fastanúmer 200-4739, 200-4740, 200-4741, 200-4742, 200-4743, 200-4744, 200-4745, 200-4746, 200-4747, 200-4748, 200-4749, 200-4750, 200-4751, 200-4752, 200-4753 og 200-4754, eignarhluta 010101, 010201, 010202, 010203, 010204, 010205, 010206, 010301, 010302, 010303, 010304, 010305, 010306, 010401, 010402 og 010403; Hverfisgötu 58, fastanúmer 200-4728, 200-4729, 200-4730, 200-4731, 200-4732 og 200-4733, eignarhluta 010001, 010101, 010201, 020101, 020102 og 020103; Hverfisgötu 58a, fastanúmer 200-4734 og 200-4736, eignarhluta 010001 og 010201; Hverfisgötu 62, sem er hluti af Frakkastíg 8; Lindargötu 44, fastanúmer 200-3339, 200-3340 og 200-3341, eignarhluta 030101, 030201 og 030301; Frakkastíg 6a, fastanúmer 200-3349, eignarhluta 010201; Frakkastíg 6b, lóð, landnúmer 101086, greinitala 0000-01-1152514; Vatnsstíg 8, fastanúmer 200-3322, eignarhluta 010101; Vatnsstíg 10, fastanúmer 200-3325, 200-3326, 200-3327, 200-3328 og 200-3329, eignarhluta 010101, 010201, 020101, 030101 og 040101; Vatnsstíg 10b, fastanúmer 200-3323 og 200-3324, eignarhluta 010101 og 010201; Hverfisgötu 53, fastanúmer 200-3375, eignarhluta 010201; Hverfisgötu 55, fastanúmer 200-3371, 200-3372 og 200-3373, eignarhluta 010101, 010102 og 010201; Hverfisgötu 57, fastanúmer 200-3365, eignarhluta 010101; Hverfisgötu 59, sem er skráð sem Hverfisgata 59a; Hverfisgötu 59a, fastanúmer 200-3358, 200-3359, 200-3360, 200-3361, 200-3362 og 200-3363, eignarhluta 010101, 010102, 010201, 010301, 010401 og 010402; Hverfisgötu 61, fastanúmer 200-3352, 200-3353, 200-3354, 200-3355, 200-3356 og 200-3357, eignarhluta 010101, 010201, 020001, 020101, 020102 og 030101.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 23. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af 101 Fasteignafélagi ehf., Grandagarði 3, 107 Reykjavík, til efnda in natura á kaupsamningi, auk málskostnaðar, með stefnu birtri 11. janúar 2006.
Stefndu eru Stafna á milli ehf., Frakkastígur ehf. og Hverfisgata 59 ehf., öll til heimilis að Lynghálsi 4, 110 Reykjavík.
Réttargæslustefndu eru Vatn og land ehf., Kringlunni 7, 103 Reykjavík, og Verðbréfastofan hf., Suðurlandsbraut 18, 108 Reykjavík. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefndu. Þeir hafa ekki látið málið til sína taka en stefnan var birt þeim 12. janúar 2006.
Í þessum þætti málsins eru dómkröfur stefnanda eftirfarandi:
Að dómur ákveði með úrskurði, að stefnu í málinu eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á þær fasteignir sem kaupsamningur aðila málsins fjallar um og tilgreindar eru í stefnu.
Stefndu krefjast þess að dómari verði ekki við kröfum stefnanda um að heimila þinglýsingu stefnu í máli þessu eða útdrætti úr henni á þær fasteignir sem mál þetta tekur til og stefndu áttu.
Málsatvik.
Hinn 19. nóvember 2005 undirrituðu Magnús Ingi Erlingsson f.h. óstofnaðs hlutafélags (nú stefnandi 101 Fasteignafélag ehf.) og fyrirsvarsmenn stefndu Stafna á milli ehf., Frakkastígs ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. fyrir hönd félaganna kauptilboð um eftirfarandi fasteignir:
Frakkastígsreitur:
Laugavegur 41, fastanúmer 200-4759, 200-4760, og 226-4800, eignarhlutar 010101, 010201 og 010301,
Laugavegur 41a, þinglýst gagntilboð í eignina, fastanúmer 200-4761 og 200-4762, eignarhlutar 010001 og 010101,
Laugavegur 41a, bílskúr, fastanúmer 200-4763, eignarhluti 020101,
Laugavegur 43, fastanúmer 200-4757 og 223-9070, eignarhlutar 010101, 010401,
Laugavegur 45, fastanúmer 200-4755 og 200-4756, eignarhlutar 040101 og 040201,
Laugavegur 45a, er hluti af Frakkastíg 8,
Laugavegur 45b, er hluti af Frakkastíg 8,
Frakkastígur 8, fastanúmer 200-4739, 200-4740, 200-4741, 200-4742, 200-4743, 200-4744, 200-4745, 200-4746, 200-4747, 200-4748, 200-4749, 200-4750, 200-4751, 200-4752, 200-4753 og 200-4754, eignarhlutar 010101, 010201, 010202, 010203, 010204, 010205, 010206, 010301, 010302, 010303, 010304, 010305, 010306, 010401, 010402 og 010403,
Hverfisgata 58, fastanúmer 200-4728, 200-4729, 200-4730, 200-4731, 200-4732 og 200-4733, eignarhlutar 010001, 010101, 010201, 020101, 020102, og 020103,
Hverfisgata 58a, fastanúmer 200-4734 og 200-4736, eignarhlutar 010001 og 010201,
Hverfisgata 62, er hluti af Frakkastíg 8.
Hverfisgötureitur:
Lindargata 44, fastanúmer 200-3339, 200-3340 og 200-3341, eignarhlutar 030101, 030201 og 030301,
Frakkastígur 6a, fastanúmer 200-3349, eignarhluti 010201,
Frakkastígur 6b, lóð, landnúmer 101086, greinitala 0000-01-1152514,
Vatnsstígur 8, fastanúmer 200-3322, eignarhluti 010101,
Vatnsstígur 10, fastanúmer 200-3325, 200-3326, 200-3327, 200-3328 og 200-3329, eignarhlutar 010101, 010201, 020101, 030101 og 040101
Vatnsstígur 10b, fastanúmer 200-3323 og 200-3324, eignarhlutar 010101 og 010201,
Hverfisgata 53, fastanúmer 200-3375, eignarhluti 010201,
Hverfisgata 55, fastanúmer 200-3371, 200-3372 og 200-3373, eignarhlutar 010101, 010102, og 010201,
Hverfisgata 57, fastanúmer 200-3365, eignarhluti 010101,
Hverfisgata 59, er skráð sem Hverfisgata 59a,
Hverfisgata 59a, fastanúmer 200-3358, 200-3359, 200-3360, 200-3361, 200-3362 og 200-3363, eignarhlutar 010101, 010102, 010201, 010301, 010401, og 010402,
Hverfisgata 61, fastanúmer 200-3352, 200-3353, 200-3354, 200-3355, 200-3356 og 200-3357, eignarhlutar 010101, 010201, 020001, 020101, 020102 og 030101.
Samkvæmt 1. gr. kauptilboðsins skyldi afsal undirritað við kaupsamningsgerð og afhent réttargæslustefnda Verðbréfastofunni hf., þar til yfirtaka lána og lokagreiðsla samkvæmt samningnum hefði farið fram.
Í 3. gr. kauptilboðsins kom fram að allar áhvílandi skuldir vegna hins selda væru hjá Verðbréfastofunni hf. Jafnframt gerðu aðilar fyrirvara um að samkomulag næðist við Verðbréfastofuna hf. vegna uppgjörs áhvílandi veðskulda.
Á fasteignum þessum hvíla veðskuldir, sem nema liðlega 1,5 milljörðum króna við réttargæslustefnda, Verðbréfastofuna hf. Af þessari fjárhæð eru kröfur að höfuðstól 1.040.025.000 kr. samkvæmt 295 handhafaskuldabréfum. Skuldabréf þessi eru öll fallin í gjalddaga og í vanskilum; annars vegar eru 177 skuldabréf að höfuðstól 570.875.000 kr. í vanskilum frá 1. október 2005 og hins vegar eru 118 skuldabréf að höfuðstól 469.150.000 kr. í vanskilum frá 10. október 2005.
Samkvæmt 4. gr. kauptilboðsins var kaupverð ákveðið 1.375.000.000 kr. og skyldu 1.275.000.000 kr. greiðast við kaupsamningsgerð, en 100.000.000 kr. sex mánuðum eftir gerð kaupsamnings. Þá skuldbundu stefndu sig til að veita kaupanda öll nauðsynleg veðleyfi til að kaupin gengju eftir.
Samkvæmt 5. gr. kauptilboðsins skyldi afhenda fasteignirnar við kaupsamningsgerð, sem stefnt var að að halda 15. desember 2005, en skyldi ekki gerður síðar en 31. desember 2005.
Í 9. gr. kauptilboðsins gerði kaupandi fyrirvara um að samkomulag næðist við Þorstein Steingrímsson um sölu eignar hans. Fallið var frá þeim fyrirvara tveimur dögum eftir gerð samningsins.
Í 11. gr. segir að aðilar samþykki kauptilboðið með fyrirvara um samþykki Verðbréfastofunnar hf.
Hinn 30. nóvember 2005 barst stefnanda símskeyti frá stefndu þar sem stefnanda var gefinn frestur til kl. 16:00 mánudaginn 5. desember 2005 til að leggja fram staðfesta yfirlýsingu um fjármögnun kaupanna eða að leggja fram tímasetta áætlun, sem stefndu sættu sig við, um með hvaða hætti kaupin verði fjármögnuð. Að öðrum kosti myndu stefndu líta svo á að tilboðið væri niður fallið.
Vegna símskeytisins hélt forsvarsmaður stefnanda tvo fundi, það er 5. og 20. desember 2005.
Hinn 15. desember 2005 var undirrituð viljayfirlýsing með fjárfestum um sameiginlega þátttöku í verkefninu og í kjölfarið eða 19. desember var félagið 101 Fasteignafélag ehf. stofnað en það er stefnandi málsins.
Formlegt svar við símskeytinu 30. nóvember er frá 21. desember 2005. Þar er riftuninni mótmælt sem þýðingarlausri (en það hafði áður verið gert af fasteignasölunni 5. desember 2005.) Þá var stefndu tilkynnt um framgang fjármögnunar kaupanna auk þess sem því var harðlega mótmælt að stefndu létu þinglýsa riftun kauptilboðsins á eignirnar.
Hinn 21. desember 2005 var lögð fram beiðni til Verðbréfastofunnar um áritun á kauptilboðið og tímabundna yfirtöku lána. Áritunin fékkst ekki og sendi stefnandi Verðbréfastofunni áskorun dags. 27. desember 2005 um áritun á kauptilboðið.
Með bréfi 29. desember 2005 svaraði lögmaður Verðbréfastofunnar beiðni/áskorun stefnanda og upplýsti að tveir óháðir aðilar, báðir í krafti undirritaðra kauptilboða við þinglýsta seljendur þ.e. stefnandi annars vegar og Vatn og land ehf. hins vegar, óskuðu eftir aðkomu Verðbréfastofunnar. Í bréfinu var afstaða Verðbréfastofunnar skýrð og tekið fram að hvorugt tilboðið yrði áritað.
Hinn 30. desember fékk stefnandi bankaábyrgð hjá Íslandsbanka hf. fyrir allt að 1.275.000.000 kr. og gilti hún til 31. janúar 2006.
Þann 31. desember átti í síðasta lagi að undirrita kaupsamninginn, en ekkert varð af því þar sem stefndu mættu ekki til undirritunarinnar.
Stefnandi ritaði lögmanni Verðbréfastofunnar tölvupóst 2. og 3. janúar 2006 og fékk svar 4. janúar um óbreytta afstöðu frá fyrra bréfi 29. desember 2005. Daginn eftir ritar stefnandi lögmanninum aftur til að árétta lagalega stöðu málsins, en tekur fram að stefnandi líti svo á að beiðni um áritun hafi verið hafnað.
Stefnandi höfðaði síðan mál þetta.
Rök stefnanda fyrir kröfu sinni.
Dómkröfur stefnanda ganga út á það að stefnda verði gert að standa við kauptilboð er undirritað var með aðilum 19. nóvember sl. Stefnandi telur að þá hafi komist á bindandi kaupsamningur, sbr. 7. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002.
Stefnandi kveður, að hinn 31. desember hafi fyrirsvarsmenn stefndu verið boðaðir til kaupsamningsgerðar. Þá hafi stefnandi verið búinn að útvega bankaábyrgð til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem greiða átti við kaupsamning og því hafi greiðsla staðið þeim til boða á þeim degi. Stefndu hafi hins vegar ekki mætt.
Stefnandi vísar til dóms Hæstaréttar Íslands frá 25. mars 1999 í málinu nr. 126/1999 um skýringu á 28. gr. þinglýsingarlaga. Samkvæmt dóminum sé þinglýsing stefnu háð því að stefnandi færi fram veigamikil rök fyrir staðhæfingu sinni, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.
Stefnandi telur sig hafa verulega hagsmuni af því að fá stefnunni þinglýst. Það sé nauðsynlegt að gera grandlausum viðsemjendum stefndu grein fyrir hagsmunaárekstri varðandi fasteignirnar til að komast hjá frekari tjóni, jafnframt því sem verulegir hagsmunir eru því samfara að tryggt verði að ekki sé frekar gengið á rétt stefnanda.
Stefnandi byggir réttindi sín á undirrituðu kauptilboði sem sýslumaður hefur samþykkt að þinglýsa á eignirnar. Kauptilboðið hafi aldrei fallið úr gildi og stefnandi telur að óljós yfirlýsing stefndu um riftun breyti engu þar um.
Stefnandi segir að ástæða þess að stefndu hafi ekki verið greitt kaupverðið sé að stefndu hafi ekki viljað veita greiðslunni viðtöku, en hún hafi staðið til boða frá 31. desember 2005.
Stefnandi telur að um verulega fjárhagslega hagsmuni sé að ræða. Stefndu hafi sýnt í verki ásetning sinn um að standa ekki við undirritað kauptilboð. Það sé sýnt í verki með því að 3. febrúar sl. hafi verið þinglýst veðleyfi frá Landsbanka Íslands á eignirnar, en sú veðsetning hafi tengst tilraun stefndu til að losna undan samningi sínum við stefnanda og selja eignirnar þriðja manni. Stefnandi telur sig því hafa verulega hagsmuni af að tryggja að þriðji maður sé grandsamur um rétt stefnanda samkvæmt undirrituðu kauptilboði.
Með því að stefnandi hafi undir höndum undirritað kauptilboð og að kaupsamningur hafi ekki komist á 31. desember sl. vegna atvika sem stefndu bera ábyrgð á, telur stefnandi sig hafa sýnt fram á veigamikil rök fyrir staðhæfingu sinni. Hann hafi öðlast slík réttindi yfir hinum umdeildu fasteignum að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga þannig að taka eigi kröfu hans til greina um að þinglýsa stefnu í málinu á fasteignirnar.
Rök stefndu fyrir kröfu sinni.
Stefndu benda í fyrsta lagi á, að krafa stefnanda í þessum þætti málsins hafi átt að koma fram strax í stefnu málsins þannig að hægt væri að taka afstöðu til hennar í greinargerð. Kröfunni ber því að hafna sem of seint fram kominni.
Í öðru lagi er byggt á því að stefnandi hafi ekki öðlast nein þau réttindi yfir fasteignum stefndu sem stefnandi þurfi að upplýsa með þinglýsingu eða að upplýsa grandlausan þriðja mann um. Rétt sé að kauptilboð hafi verið til staðar en það var háð því skilyrði að Verðbréfastofan samþykkti kaupin. Stefnanda hafi ekki tekist að afla þess samþykkis innan tímamarka. Í raun hafi stefndu einnig verið búnir að rifta fyrirhuguðum kaupum áður vegna fyrirsjáanlegra vanefnda stefnanda. Stefnandi hafi 15 dögum eftir riftunina lagt skilyrta kauptilboðið inn til þinglýsingar og því verið þinglýst þrátt fyrir skort á samþykki Verðbréfastofunnar.
Þá mótmæla stefndu þeim málflutningi stefnanda, að stefndu hafi ekki viljað taka við greiðslu sem stefnandi hafi boðið fram. Stefndu benda á í þessu sambandi að stefnandi hafi ekki enn boðið fram greiðslu kaupverðs með þeim hætti að Verðbréfastofan hf. hafi sætt sig við og samþykkt stefnanda sem kaupanda.
Stefndu upplýsa að Verðbréfastofan hf. hafi hins vegar heimilað stefndu og réttargæslustefnda Vatni og landi ehf., að veðsetja til Landsbanka Íslands á fyrsta veðrétti fasteignir stefndu, sem málið tekur til og jafnframt samþykkt að stefndu selji fasteignir og afsali þeim til réttargæslustefndu Vatns og lands ehf.
Stefndu taka því fram að stefnandi geti því aldrei fengið stefndu dæmda til efnda in natura, eins og krafa er gerð um í málinu, og af þeim sökum eigi stefnandi engan rétt til að fá stefnunni þinglýst.
Álit dómsins.
Í málinu vegast á sjónarmið málsaðila um það, hvort þinglýsa eigi stefnu eða útdrætti úr henni á fasteignir þær er mál þetta fjallar um. Dómurinn verður því að meta, hvort hagsmunir stefnanda fyrir því að fá stefnu málsins eða útdrætti úr henni þinglýst, séu ríkari en hagsmunir stefndu af því að það verði ekki gert.
Í málinu liggur fyrir, að nokkrum skjölum vegna viðskipta málsaðila hefur verið þinglýst og eru sum þeirra lögð fram í dómi. Fyrst er að líta til kauptilboðs málsaðila frá 19. nóvember sl. Það var afhent til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík 23. desember 2005. Skjalið var innfært í þinglýsingarbækur 3. febrúar 2006 með eftirfarandi athugasemd: „Vakin er athygli á yfirlýsingu Verðbréfastofunnar skjal T 1085/06 “ Nefnt skjal, þ.e. „yfirlýsing Verðbréfastofunnar“, barst sýslumanni 2. febrúar sl. Þetta er bréf lögmanns Verðbréfastofunnar til stefnanda málsins frá 29. desember sl. Í bréfi þessu kom fram yfirlýsing frá Verðbréfastofunni hf. um að hvorugt tilboðið yrði áritað, en tvö tilboð höfðu borist. Bréfi þessu var þinglýst daginn eftir. Af fyrirliggjandi veðbókarvottorði má sjá að fleiri skjölum hafi verið þinglýst að beiðni stefnanda án þess að þau hafi verið lögð fram í dóminum.
Þá liggur fyrir skilyrt veðleyfi útgefið af stefnda Frakkastíg ehf. til handa Vatni og landi ehf., þar sem hinum síðarnefnda er heimilað að veðsetja Landsbanka Íslands hf. á 1. veðrétti eignir félagsins. Þar er jafnframt áritað samþykki Verðbréfastofunnar hf. Skilyrt veðleyfi þetta var móttekið til þinglýsingar 3. febrúar sl. og þinglýst 10. febrúar sl. Mun því hafa verið þinglýst á allar eignirnar. Þá hafa stefndu upplýst, að Verðbréfastofan hf. hafi samþykkt afsal fyrir öllum eignunum til Vatns og lands ehf. og fengið greitt fyrir eignirnar. Afsöl þessi hafa verið lögð inn til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík.
Enda þótt stefnandi hafi einhverja hagsmuni af því að fallist yrði á kröfu hans í þessum þætti málsins, þá verður að líta til þess að hann hefur þegar fengið þinglýst kauptilboði sínu frá 19. nóvember sl., og í því ljósi og einnig með tilliti til þess að eignirnar hafa nú þegar verið seldar og afsal gefið út fyrir þeim, þá þykja hagsmunir stefndu vera ríkari.
Þegar af þessum ástæðum er kröfu stefnanda, um að dómari heimili með úrskurði að þinglýsingu stefnu eða útdráttar úr henni á fasteignirnar, hafnað. Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki ástæða til að taka til umfjöllunar aðrar málsástæður stefndu.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu stefnanda, 101 Fasteignafélags ehf., um það að stefnu í málinu eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á þær fasteignir sem kaupsamningur aðila málsins fjallar um og tilgreindar eru í stefnu.