Hæstiréttur íslands

Mál nr. 699/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


                                              

Föstudaginn 30. nóvember 2012.

Nr. 699/2012.

 

Kaupþing hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

gegn

Luis Lamas Torres og

Julia Hoyos Albert

(Gísli Guðni Hall hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Með úrskurði héraðsdóms var mál L og J á hendur K hf. fellt niður, svo og málskostnaður milli aðilanna. Í málinu krafðist K hf. þess að L og J yrði gert að greiða sér málskostnað. Í málinu lá fyrir að 49 önnur sambærileg mál höfðu verið þingfest sama dag og mál L og J.  Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, kom m.a. fram að lögmenn aðila hefðu litið svo á að nægilegt hefði verið að leita úrlausna dómstóla í þremur málum af 50 til að skýra réttarstöðu L og J og fleiri kröfuhafa. K hf. hefði engu að síður sent umrædd 50 mál til meðferðar dómsins til að tefja ekki fyrir fyrirhugaðri nauðasamningameðferð félagsins. Þá lá fyrir að L og J höfðu afturkallað andmæli sín við afstöðu slitastjórnar K hf. um kröfu þeirra, eftir að úrskurðir höfðu verið kveðnir upp í tveimur málanna. Að öllu þessu virtu var málskostnaður milli aðila látinn niður falla.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2012, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður, en málskostnaður milli þeirra ekki dæmdur. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði hvorum varnaraðila, Luis Lamas Torres og Julia Hoyos Albert, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2012.

Við þingfestingu máls þessa hinn 25. október sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram bókun, sem einnig á við um 49 önnur mál af sama toga sem einnig voru þingfest þann dag. Kemur þar fram að sóknaraðilar hafi ákveðið að draga til baka mótmæli sín gegn þeirri ákvörðun slitastjórnar varnaraðila að viðurkenna ekki kröfur þeirra sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hins vegar geri þeir kröfu um að málskostnaður verði látinn niður falla með vísan til a-liðar 1. tl. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 3. tl. sama ákvæðis, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 þar sem málum þessum hafi verið vísað til héraðsdóms að þarflausu og í andstöðu við samkomulag lögmanna sóknaraðila við lögmann varnaraðila. Lögmaður varnaraðila gerði ekki athugasemd við niðurfellingu málsins en krafðist þess að sóknaraðila yrði gert að greiða varnaraðila útlagðan þingfestingarkostnað vegna þess, en fyrir liggur að sá kostnaður nemur 30.000 krónum. Var málið tekið til úrskurðar um þennan ágreining eftir að lögmenn höfðu tjáð sig stuttlega um kröfur sínar.

Sóknaraðili vísar til þess að þau 50 mál sem þingfest voru samdægurs hinn 25. október sl. vegna skjólstæðinga hans fjalli öll um kröfur á hendur varnaraðila vegna mismunandi skuldabréfaútgáfna bankans. Sóknaraðilar, sem og aðrir aðilar, hafi mótmælt því að skilmálar í mismunandi skuldabréfaútgáfum varnaraðila væru nægjanlega skýrir um það að kröfur samkvæmt útgáfunum væru víkjandi kröfur skv. 114. gr. laga nr. 21/1991. Hafi þess því verið krafist gagnvart slitastjórn að kröfur sem byggðust á umræddum útgáfum yrðu viðurkenndar sem almennar kröfur í skilningi 113. gr. sömu laga.  Á ágreiningsfundi málsaðila hinn 5. ágúst 2011 hafi ekki reynst unnt að jafna ágreining vegna þessa og hafi því verið bókað í fundargerð slitastjórnar varnaraðila að „… ágreiningsefninu yrði í kjölfarið vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. [gþl.]“. Þrátt fyrir þessa bókun hafi þó aldrei staðið til að vísa öllum málunum til héraðsdóms. Þvert á móti hafi verið gert samkomulag við lögmann varnaraðila, Heimi Fannar Hallgrímsson hdl., sem annast hafi fundarstjórn á ágreiningsfundinum, um að vísa einungis nokkrum málum til héraðsdóms, sem þá yrðu fordæmisgefandi fyrir önnur mál. Þessu til stuðnings sé vísað til fyrirliggjandi tölvuskeyta milli lögmanna aðila í október 2011 þar sem fram komi að samkomulag hafi komist á milli aðila um að varnaraðili myndi einungis vísa tilgreindum þremur málum til úrlausnar héraðsdóms. Þar sem varnaraðili hafi hins vegar ákveðið að vísa öllum málunum til héraðsdóms án samráðs við sóknaraðila í þessum málum og í andstöðu við samkomulag aðila sé ljóst að varnaraðili verði sjálfur að sitja uppi með þann kostnað sem af því hljótist.

Af hálfu varnaraðila hefur verið vísað til þess að fyrir liggi að ágreiningur hafi verið uppi um kröfu sóknaraðila í þessu máli, og hinum 49 málunum, sem ekki hafi tekist að jafna á kröfuhafafundi sem slitastjórn hafi haldið í því skyni hinn 5. ágúst sl. Enda þótt rætt hafi verið um samkomulag milli varnaraðila og lögmanns sóknaraðila í öllum þessum málum um að bíða með að bera ágreininginn undir héraðsdóm hafi slíkt samkomulag ekki verið staðfest. Þegar komið hafi verið fram á síðasta sumar hafi ekki þótt fært að bíða lengur, meðal annars með tilliti til þess að nauðsynlegt þætti vegna fyrirhugaðrar nauðasamningameðferðar varnaraðila að mál þessi hefðu þá verið send héraðsdómi til þingfestingar.

Niðurstaða

Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr., laga nr. 21/1991, er mál þetta fellt niður.

Eins og fyrr greinir gerir varnaraðili kröfu til þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum útlagðan kostnað vegna þingfestingar máls þessa en það er eitt af fimmtíu málum sem þingfest voru í dag og sama staða er uppi í.

Ekki er í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 að finna sérstakt ákvæði varðandi þá stöðu sem hér er uppi, að eigandi umdeildrar kröfu lýsir því yfir við þingfestingu ágreiningsmáls vegna hennar að hann falli frá mótmælum sínum við afstöðu skiptastjóra, í þessu tilviki slitastjórnar skv. lögum nr.  l61/2002 um fjármálafyrirtæki, og óski eftir niðurfellingu málsins án þess að hafa fengið efndir á þeirri skyldu sem krafa hans lýtur að.  Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 skal því með þetta fara í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar um. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. þeirra laga skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sé mál fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Enda þótt litið hafi verið svo á að ákvæði þetta eigi við í slíkri stöðu sem um ræðir í máli þessu er þó ljóst að staða aðila þeirra mála sem rekin eru á grundvelli 120., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 er ekki í öllu tilliti sambærileg stöðu aðila einkamáls eftir að slíkt mál hefur verið höfðað. Þannig er það í þessu tilviki slitastjórn Kaupþings hf., sem telst varnaraðili máls í samræmi við ákv. 2. mgr. tilvitnaðrar 171. gr., sem hafa skal frumkvæði að því að bera ágreining aðila undir héraðsdóm en ekki eigandi kröfunnar. Er staða sóknaraðila að því leyti ekki sú sama og staða stefnanda í einkamáli. Sóknaraðili hefur í þessu sambandi og vísað til a-liðar 1. mgr. 131. gr. þar sem kveðið er á um að hvernig sem úrslit máls verði megi dæma aðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað ef hann hefur höfðað mál að þarflausu eða án nægilegs tilefnis af hendi gagnaðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð og öðrum gögnum tókst ekki að jafna ágreining milli aðila á fundi sem haldinn var í því skyni hinn 5. ágúst 2011 vegna kröfu sóknaraðilans og fjölmargra annarra sambærilegra krafna. Var á fundinum bókað að ágreiningi vegna þeirra yrði vísað til héraðsdóms skv. 120., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.

Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti að samkomulag hafi tekist milli aðila um að varnaraðili skyldi bíða með að beina umræddum 50 málum, auk fjölda annarra sambærilegra mála sem bíða þingfestingar, til héraðsdóms. Hins vegar má ráða af fyrirliggjandi tölvupóstum, sem gengu milli lögmanns varnaraðila og lögmanns sóknaraðila vegna þessa, að lögmenn beggja aðila hafi litið svo á að nægilegt væri til að skýra hina umdeildu réttarstöðu kröfuhafa slíkra lána að leitað yrði úrlausnar dómstóla vegna tilgreindra þriggja mála. Er upplýst að þessi tilgreindu mál hafi verið send héraðsdómi til meðferðar fljótlega í kjölfar framangreindra tölvupóstsamskipta, eða í nóvember 2011, og er ágreiningslaust að afturköllun á andmælum sóknaraðila í máli þessu og sambærilegum málum er komin til eftir að úrskurðir höfðu verið kveðnir upp í tveimur þessara mála fyrr í þessum mánuði. Þá hefur komið fram hjá varnaraðila að ekki hafi þótt unnt að bíða lengur með að senda umrædd 50 mál, auk fjölda annarra mála vegna víkjandi skuldabréfa, til meðferðar dómsins til að tefja ekki fyrir fyrirhugaðri nauðasamningameðferð varnaraðila.

Þegar allt framangreint er haft í huga þykir rétt, eins og hér stendur á, að málskostnaður verði látinn niður falla.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fellur niður.