Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/2017

Héraðssaksóknari (Lúðvík Bergvinsson settur héraðssaksóknari)
gegn
X (Jónas Jóhannsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gögn
  • Afhending gagna
  • Verjandi

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu X um að H yrði gert að afhenda verjanda hennar afrit af öllum skjölum sem vörðuðu hana í nánar tilgreindu máli. Hafði H fellt niður rannsókn málsins á hendur X á þeim grundvelli að það sem fram væri komið væri ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Ákvörðun H um niðurfellingu málsins var skotið til setts ríkissaksóknara sem felldi úr gildi ákvörðunina sökum vanhæfis lögreglufulltrúa sem vann að rannsókn málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eftir að H felldi málið niður hefði X átt rétt á því að kynna sér gögn málsins, sbr. 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipti þá engu þótt bera mætti þá ákvörðun undir ríkissaksóknara. Hefði H því í síðasta lagi á því tímamarki borið að afhenda X eða lögmanni hennar skjöl málsins, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að afhenda verjanda varnaraðila öll rannsóknargögn í tilgreindu máli. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðili fái aðeins afhent nánar tilgreind rannsóknargögn.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði var sóknaraðila sem settum héraðssaksóknara falið 17. ágúst 2016 af settum ríkissaksóknara að fara með tvær kærur á hendur varnaraðila þar sem henni var gefin að sök misbeiting á lögregluvaldi í starfi hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum við rannsókn máls sem var til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Að ósk varnaraðila var henni tilnefndur verjandi 26. október sama ár og sama dag var tekin af henni skýrsla hjá sóknaraðila. Við það tilefni mun sóknaraðili hafa greint verjanda frá því að hann fengi ekki vegna rannsóknarhagsmuna afrit af skjölum málsins næstu þrjár vikur, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.

Verjandi varnaraðila ritaði sóknaraðila tölvupóst 15. nóvember 2016 til að minna á að daginn eftir rynni út fyrrgreindur þriggja vikna frestur. Fór verjandinn þess á leit að honum yrðu send gögn málsins eða tilkynnt um að hann mætti vitja þeirra. Þessu erindi svarði sóknaraðili með tölvupósti 16. sama mánaðar þar sem fram kom að verið væri að rita endurrit af upptökum af skýrslum og þær yrðu sendar um leið og þær væru tilbúnar. Önnur gögn væru að berast og fleiri á leiðinni og bað sóknaraðili verjandann um að sýna sér biðlund af þessum sökum.

Verjandinn áréttaði beiðni sína um afhendingu gagna með tölvupósti 6. desember 2016. Því erindi svaraði sóknaraðili með tölvupósti samdægurs þar sem beiðninni var hafnað að svo stöddu með vísan til rannsóknarhagsmuna. Í kjölfarið fóru fram bréfaskipti milli verjandans og sóknaraðila um afhendingu gagnanna, en ekki eru efni til að rekja þau nánar. Verjandinn bar synjun sóknaraðila síðan undir héraðsdóm með bréfi 14. desember 2016.

Með ákvörðun sóknaraðila 16. desember 2016 var málið á hendur varnaraðila fellt niður á þeim grundvelli að það sem fram væri komið væri ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Í kjölfar þess afturkallaði lögmaður varnaraðila kröfu sína fyrir héraðsdómi um afhendingu gagna og heldur varnaraðili því fram að það hafi verið gert í trausti þess að gögnin yrðu afhent úr því málið hefði verið fellt niður.

Ákvörðun sóknaraðila um niðurfellingu málsins var skotið til setts ríkissaksóknara á grundvelli 3. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008. Með ákvörðun hans 27. janúar 2017 var ákvörðunin felld úr gildi sökum vanhæfis lögreglufulltrúa sem vann að rannsókn málsins.

Með bréfi verjanda varnaraðila 31. janúar 2017 var enn áréttuð krafa um afhendingu allra gagna í málinu. Því erindi svaraði sóknaraðili með tölvupósti 3. febrúar sama ár þar sem afhendingu gagnanna var synjað. Fyrir því voru færð þau rök að endurtaka þyrfti að stórum hluta rannsóknina vegna vanhæfis lögreglufulltrúans og því gæti rannsóknin skaðast ef gögnin yrðu afhent. Með bréfi verjandans 7. sama mánaðar var synjun sóknaraðila aftur borin undir héraðsdóm og krafa hans tekin til greina með hinum kærða úrskurði.

II

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Af sömu ástæðu er lögreglu heimilt að neita verjanda um afrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur. Bera má synjun undir dómara.

Þegar mál er fellt niður fellur sjálfkrafa úr gildi tilnefning verjanda sakbornings við rannsóknina, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008. Með því að ríkissaksóknari hnekkti ákvörðun sóknaraðila 16. desember 2016 um niðurfellingu málsins leiðir af sjálfu sér að verjandi varnaraðila tók aftur við hlutverki sínu við rannsóknina og gat borið undir héraðsdóm synjun sóknaraðila. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að verjandinn sé ekki bær til að setja fram kröfur eftir 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.

Eftir að sóknaraðili hafði fellt málið niður 16. desember 2016 átti varnaraðili rétt á því að kynna sér gögn málsins, sbr. 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipti þá engu þótt bera mætti þá ákvörðun sóknaraðila undir ríkissaksóknara. Í síðasta lagi á því tímamarki bar sóknaraðila að afhenda varnaraðila eða lögmanni hennar skjöl málsins. Getur engu breytt í því tilliti staðhæfing sóknaraðila um að aðgangur að gögnum málsins geti spillt rannsóknarhagsmunum án þess að því hafi nánar verið lýst í hverju þeir hagsmunir séu fólgnir. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðili, héraðssaksóknari, skal afhenda verjanda varnaraðila, X, afrit af öllum skjölum sem varða hana í máli nr. 300-2016-[...].

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2017.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 17. febrúar sl., barst dóminum 8. febrúar sl. með kröfu lögmanns sóknaraðila, sem verjanda hennar, um afhendingu gagna samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.

Með kröfu lögmannsins var synjun setts héraðssaksóknara, um að afhenda honum sem verjanda sóknaraðila afrit af öllum rannsóknargögnum í lögreglumáli nr. 300-2016-[...] á hendur henni, borin undir héraðsdóm. Með kröfubréfinu fylgdi afrit af tilnefningu lögmannsins sem verjanda sóknaraðila, dags. 26. október 2016, gögn um samskipti hans við settan héraðssaksóknara og við settan ríkissaksóknara í málinu varðandi afhendingu gagna, á tímabilinu 16. nóvember 2016 til 3. febrúar 2017, bréf verjandans til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 14. desember 2016, og ákvörðun setts héraðssaksóknara, dags. 16. desember 2016, um niðurfellingu málsins á hendur sóknaraðila.

Við fyrirtöku máls þessa 15. febrúar sl. hafnaði varnaraðili, settur héraðssaksóknari, kröfu verjandans um afhendingu gagna og óskaði frests til að skila greinargerð, sem hann lagði fram við fyrirtöku málsins 16. febrúar sl. Þá lagði hann einnig fram afstöðu setts ríkissaksóknara til kæru samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 16. gr. laga nr. 47/2015, dags. 27. janúar 2017. Þar var fallist á kröfu Garðars Steins Ólafssonar hdl. fyrir hönd A og B um að felld yrði úr gildi ákvörðun setts héraðssaksóknara frá 16. desember 2016 um að fella niður málið á hendur sóknaraðila. Við fyrirtöku máls þessa 17. febrúar sl. lagði verjandinn fram kærubréf Garðars Steins Ólafssonar hdl. til setts ríkissaksóknara, dags. 16. janúar 2017. Við málflutning sama dag gerðu aðilar eftirtaldar kröfur.

Verjandi sóknaraðila krefst aðallega afhendingar á öllum rannsóknargögnum í máli nr. 300-2016-[...]. Til vara krefst verjandinn afhendingar á þeim gögnum sem krafist var afhendingar á í fyrra erindi hans til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 14. desember 2016. Þá var gagna krafist þannig:

„1. Afrits af framburðarskýrslu X 26.10.2016

2. Afrits af vitnaskýrslu C (skýrsla líklega tekin 19.10.2016)

3. Afrits af vitnaskýrslu D saksóknara (skýrsla tekin 20.10.2016)

4. Afrits af vitnaskýrslu E lögreglumanns (skýrsla tekin í lok okt.)

5. Afrits af vitnaskýrslum annarra lögreglumanna (gefnar á tímabilinu frá okt. til 22. nóv.)

6. Afrits af öllum skjalfestum gögnum frá ríkissaksóknara, til og með 22.11.2016

7. Lista yfir öll rannsóknargögn málsins, frá 18.10 til og með 22.11.2016“

Í varakröfunni er í stað gagna sem aflað hafi verið til og með 22. nóvember 2016 samkvæmt töluliðum 5-7 í fyrra erindi, nú krafist afhendingar gagna samkvæmt þeim liðum sem aflað var til og með 27. janúar 2017.

Varnaraðili, settur héraðssaksóknari, krefst þess að kröfum verjanda sóknaraðila um afhendingu afrita rannsóknargagna í máli nr. 300-2016-[...] verði hafnað.

Yfirlit helstu málsatvika og ágreiningsefna

Settur héraðssaksóknari kveður málsatvik vera þau að þann 17. ágúst 2016 hafi settur ríkissaksóknari falið honum, sem settum héraðssaksóknara, að fara með meðferð á tveimur kærum. Kærurnar hafi lotið að meintum brotum sóknaraðila, sem nú starfi [...] hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, á 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 28. gr. laga nr. 47/2015, ákvæðum laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, o.fl. lagaákvæðum.

Lögmaður sóknaraðila kveðst þann 26. október 2016 hafa verið tilnefndur verjandi sóknaraðila, í málinu sem settur héraðssaksóknari stjórni rannsókn á. Sama dag hafi verið tekin framburðarskýrsla af sóknaraðila, kærðu í því máli. Í lok skýrslugjafar hafi hún að eigin frumkvæði afhent skjalabunka með öllum eða nær öllum tölvupóstsamskiptum við lögreglumenn og aðra samstarfsmenn í tengslum við rannsókn svokallaðs [...] máls, frá september 2013 til júlí 2014. Hún hafi og veitt ótvírætt samþykki fyrir óheftum aðgangi rannsóknara að öllum tölvupóstsamskiptum gegnum netfangið [...]. Við sama tækifæri hafi verjandinn, með vísun til meginreglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, spurst fyrir um hvenær honum yrðu afhent afrit af rannsóknargögnum málsins eða í það minnsta einhver hluti þeirra. Settur héraðssaksóknari hafi svaraði því til að hann „tæki þriggja vikna frestinn“.

Verjandinn hafi sent settum héraðssaksóknara tölvupóst 15. nóvember s.á., minnt á að daginn eftir rynni á enda svokallaður þriggja vikna frestur og áréttað beiðni um afhendingu málsgagna eða í það minnsta hluta þeirra. Í svarpósti 16. nóvember s.á. hafi settur héraðssaksóknari ekki sagst hafa aðgang að riturum saksóknaraembætta og yrði því að láta vinna hljóðupptökur á lögmannsstofu sinni, en skýrslur yrðu sendar verjandanum um leið og þær væru tilbúnar. Þá hafi verjandinn sent settum héraðssaksóknara tölvupóst 6. desember s.á. og áréttað beiðni um afhendingu málsgagna eða í það minnsta hluta þeirra. Þeim pósti hafi settur saksóknari svarað samdægurs, og þá borið fyrir sig rannsóknarhagsmuni samkvæmt undanþáguákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 og synjað alfarið um afhendingu rannsóknargagna málsins.

Með bréfi 7. desember s.á. hafi verjandinn sent settum héraðssaksóknara erindi, rakið gang fyrri samskipta verjanda og saksóknara og tiltekið sérstaklega hverra gagna væri krafist á grundvelli meginreglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Því bréfi hafi verið svarað með tölvupósti 8. desember s.á., erindi verjandans drepið á dreif og engin afstaða tekin til fyrri krafna um afhendingu gagna. Næst hafi verjandinn sent settum héraðssaksóknara erindi 9. desember s.á., ítrekað enn og aftur kröfu um afhendingu tilgreindra rannsóknargagna og gefið saksóknara frest til 13. desember s.á. til að bregðast við þeirri skyldu, en ellegar yrði synjun hans borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Því erindi hafi ekki verið svarað. Málinu hafi því verið skotið til héraðsdóms 14. desember s.á. Óskað var afhendingar nánar tiltekinna gagna. Héraðsdómur hafði ekki boðað til þinghalds þegar settur héraðssaksóknari hafi tekið þá ákvörðun 16. desember s.á. að hætta rannsókn þar sem það sem fram hafði komið við rannsóknina væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Krafa verjandans til héraðsdóms var þá afturkölluð, enda hafi hann treyst því að fyrst rannsókn væri lokið fengi hann loks margumbeðin gögn í málinu.

Verjandinn kveðst hafa haft símasamband við settan héraðssaksóknara um miðjan janúar 2017. Hann hafi vísað til þess að nú lægi ákvörðun fyrir og ekkert gæti verið því til fyrirstöðu að afhenda afrit af öllum skjölum málsins. Settur héraðssaksóknari hafi játað því að öll gögn væru til staðar á skrifstofu hans og búið að vélrita allar skýrslur vegna málsins.

Áður en orðið hafi af afhendingu gagna hafi greind ákvörðun setts héraðssaksóknara verið kærð til Boga Nilssonar, setts ríkissaksóknara í málinu. Í bréfi Boga, dags. 20. janúar sl., til verjandans sé vísað til fram kominnar kæru, sem og athugasemda verjanda vegna synjana setts héraðssaksóknara um afhendingu gagna. Þar segi: Tel ég víst að settur héraðssaksóknari ad hoc muni hafa samband við yður með það fyrir augum að afhenda yður eintak af gögnum málsins eins fljótt og unnt er. Verði á því misbrestur bið ég yður að gera mér viðvart.

Ákvörðun setts héraðssaksóknara um að fella málið niður var felld úr gildi 27. janúar sl. og lagt fyrir saksóknarann að taka kærur á hendur X til meðferðar að nýju. Ákvörðun setts ríkissaksóknara er á því byggð að lögreglumaður sá er aðstoðaði settan héraðssaksóknara við rannsóknina hafi verið vanhæfur þar sem hann tjáði sig með afgerandi hætti um rannsóknina og niðurstöður hennar á Facebook samskiptasíðu sóknaraðila eftir að ákvörðun setts héraðssaksóknara lá fyrir. Settur ríkissaksóknari hafi ekki tekið efnislega afstöðu til ákvörðunar varnaraðila um niðurfellingu málsins þar sem ákvörðun hans hafi alfarið byggt á vanhæfi aðstoðarmannsins. Með því að fella ákvörðun setts héraðssaksóknara úr gildi og fela honum að taka umræddar kærur til meðferðar á nýjan leik, hafi rannsókn hans verið ómerkt. Fyrir liggi að umræddur lögreglufulltrúi hafi komið að undirbúningi, rannsókn og meðferð málsins að öðru leyti. Ný ákvörðun verði því hvorki byggð á skjölum né gögnum sem aflað hafi verið af, eða með þátttöku hins vanhæfa lögreglufulltrúa við rannsókn máls nr. 300-2016-[...].

Verjandinn kveðst þann 31. janúar sl. hafa sent enn eitt erindi til setts héraðssaksóknara, enn krafist afhendingar málsgagna, nú allra fyrirliggjandi gagna í máli nr. 300-2016-[...] og enn á grundvelli meginreglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Saksóknaranum hafi verið gefinn frestur til 3. febrúar sl. til afhendingar, en að þeim tíma liðnum yrði málið sent héraðsdómi öðru sinni. Erindið hafi einnig verið sent settum héraðssaksóknara með tölvupósti. Í svarpósti, dags. 3. febrúar sl., sé vísað til ákvörðunar setts ríkissaksóknara frá 27. janúar og sagt að rannsóknargögn sem vanhæfisákvörðunin tæki til gætu ekki lengur talist hluti af gögnum málsins. Þar sem endurtaka þyrfti stóran hluta fyrri rannsóknar væri einnig ljóst að afhending gagna úr eldri rannsókn gæti skaðað rannsóknina. Á þessu stigi myndi settur héraðssaksóknari því engin gögn afhenda í máli nr. 300-2016-[...] á hendur X. 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Verjandi sóknaraðila óskar atbeina dómsins við afhendingu umbeðinna gagna, með vísan til 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Verjandinn kveður 15 vikur liðnar frá því að hann hafi verið tilnefndur verjandi sóknaraðila, kærðu X. Á þessum tíma hafi settur héraðssaksóknari ekki afhent verjandanum afrit eins einasta skjals sem varði umbjóðanda hans, sbr. meginreglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Sú staða sé ólíðandi og í hrópandi andstöðu við greinda meginreglu opinbers réttarfars. Málatilbúnaði og útskýringum setts héraðssaksóknara sé mótmælt í einu og öllu sem haldlausum.

Að þessu gættu og með vísan til 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 sé synjun setts héraðssaksóknara borin undir héraðsdóm og óskað atbeina dómsins við afhendingu afrita af öllum rannsóknargögnum í máli nr. 300-2016-[...].  

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Settur héraðssaksóknari kveður skýr og málefnaleg sjónarmið hafa legið að baki þeirri ákvörðun sinni að hafna beiðni þáverandi verjanda um afhendingu skjala og annarra gagna á sínum tíma. Stærstur hluti skjala sem verjandi sóknaraðila hafi gert kröfu um afhendingu á í tengslum við rannsókn málsins á fyrri stigum hafi varðað upplýsingar sem á þeim tíma hafi einkum verið til á hljóð- og mynddiskum. Hæstiréttur hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að réttur verjenda til að fá afhent til sín skjöl á grundvelli 1. mgr. 37. gr. nr. 88/2008, um meðferð sakamála, taki ekki til gagna sem einungis séu til á hljóð- og mynddiskum. Af þeim sökum m.a. hafi afhendingu verið hafnað. Höfnun á afhendingu annarra gagna en skjala hafi einkum verið byggð á því að umbeðin gögn hefðu hvorki orðið til né komist í vörslur héraðssaksóknara innan þess þriggja vikna frests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga þegar um þau hafi verið beðið. Auk þess sem afhending gagnanna á þeim tíma hefði skaðað rannsóknarhagsmuni.

Afstöðu sína um að hafna beri kröfu lögmanns sóknaraðila fyrir dóminum um afhendingu afrita rannsóknargagna byggir varnaraðili einkum á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi að lögmaður sóknaraðila hafi ekki stöðu verjanda við rannsóknina og geti því ekki krafist afhendingar skjala og gagna á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga. Í annan stað að þau gögn sem beðið er um afhendingu á hafi með ákvörðun setts ríkissaksóknara verið ómerkt, og þau séu ekki lengur hluti rannsóknargagna málsins. Í þriðja lagi er á því byggt að afhending gagnanna muni skaða rannsóknarhagsmuni og geti gert stöðu aðila ójafna fyrir dómi þannig að komið verði í veg fyrir að ákæruvaldinu verði gert kleift að sinna hlutverki sínu um sönnunarfærslu.

Lögmaður sóknaraðila hefur ekki stöðu verjanda

Eins og fram komi í 3. mgr. 30. gr. sakamálalaga falli tilnefning verjenda í sakamáli sjálfkrafa úr gildi þegar rannsókn málsins er hætt eða mál fellt niður með öðrum hætti. Því verði að líta svo á að við niðurfellingu málsins þann 16. desember sl. hafi tilnefning verjanda sóknaraðila sjálfkrafa fallið úr gildi. Sú tilnefning rakni ekki við þó að ákvörðun setts héraðssaksóknara um niðurfellingu málsins hafi verið felld úr gildi. Við rannsókn setts héraðssaksóknara hafi sóknaraðili fengið stöðu sakbornings við skýrslutöku hjá lögreglu. Formlegri sök hafi því verið beint að sóknaraðila við skýrslutöku. Í framhaldi af því hafi sóknaraðila verið tilnefndur verjandi í samræmi við ákvæði sakamálalaga. Það sé ljóst að endurtaka þurfi skýrslutöku af sóknaraðila. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvaða réttarstöðu sóknaraðili fái við þá skýrslutöku. Af þeim sökum hafi lögmaður sá er geri umþrætta kröfu fyrir hönd sóknaraðila um afhendingu gagna í máli þessu ekki stöðu verjanda þar sem hann hafi ekki verið tilnefndur samkvæmt 2. mgr. 30 gr. sakamálalaga. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga sé það aðeins verjandi sakbornings sem geti gert kröfu á hendur lögreglu um afhendingu rannsóknargagna. 

Umbeðin gögn ekki hluti rannsóknargagna málsins

Ákvörðun setts héraðssaksóknara frá 16. desember 2016 hafi verið felld úr gildi sökum vanhæfis lögreglufulltrúa. Um áhrif vanhæfis á gögn sem unnin hafi verið með aðkomu og/eða tilstuðlan vanhæfs starfsmanns, fjalli doktor Páll Hreinsson í bók sinni Stjórnsýsluréttur Málsmeðferð, en þar segi m.a.:

Í öðrum tilvikum kann starfsmaður að hafa unnið að rannsókn máls og í raun markað því þann farveg sem unnið hefur verið eftir. Í slíkum tilvikum verður að endurvinna þann þátt málsins, sem hinn vanhæfi hefur unnið, svo tryggt sé að athafnir og afstaða hins vanhæfa starfsmanns hafi ekki áhrif á ákvörðun málsins. Þegar hinn vanhæfi starfsmaður hefur haft mikil áhrif á undirbúning og meðferð máls kann svo að fara að óhjákvæmilegt reynist að ómerkja málsmeðferðina og byrja málið upp á nýtt.

Umræddur lögreglufulltrúi hafi haft mikil áhrif á undirbúning rannsóknar setts héraðssaksóknara, komið að rannsókn og meðferð málsins og hafi því komið að öllum þáttum meðferðar þess. Af þeim sökum sé ekki hægt að líta svo á að umbeðin gögn séu lengur hluti rannsóknargagna. Varnaraðila hafi verið falið að taka kærurnar til meðferðar á nýjan leik og því komi ekki til álita að verða við beiðni um afhendingu þeirra.

Jafnræði fyrir dómi og rannsóknarhagsmunir

Eins og mál þetta hafi þróast sé ljóst að rannsaka verði málið að nýju frá grunni. Endurtaka þurfi til að mynda skýrslutökur af þeim sem gefið hafi skýrslur við fyrri rannsókn setts héraðssaksóknara. Það liggi því í hlutarins eðli að það færi ekki í bága við almenn sjónarmið um jafnræði og réttláta málsmeðferð að sóknaraðili verði fyrst yfirheyrður áður en hann fái að kynna sér skjöl málsins, þar á meðal fyrirliggjandi framburð annarra vitna, enda standi réttmætar og efnislegar ástæður til þess. Ákæruvaldinu kynni að öðrum kosti að vera gert ókleift að sinna hlutverki sínu um sönnunarfærslu ef sóknaraðili hefði fyrir framan sig öll gögn úr fyrri rannsókn málsins áður en hún gæfi skýrslu á ný hjá lögreglu.

Varnaraðili byggi kröfu sína um að kröfu sóknaraðila verði hafnað einkum á ákvæðum laga nr. 88/2002, um meðferð sakamála, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og áhrifum vanhæfis, meginreglum laga og eðli máls.

Niðurstaða

Með því að ákvörðun setts héraðssaksóknara frá 16. desember 2016 um niðurfellingu málsins var felld úr gildi með ákvörðun setts ríkissaksóknara 27. janúar 2017 þá falla jafnframt niður réttaráhrif þeirrar ákvörðunar sem ógilt var. Þar með talin eru þau réttaráhrif að tilnefning verjanda sóknaraðila falli úr gildi samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008. Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðili hafi í tveimur kærum verið borin sökum um refsiverð brot. Staðfesti varnaraðili við málflutning að í þeim kærum sem honum hefði nú verið falið að taka til meðferðar að nýju væru ekki aðrir bornir sökum en hún. Kveðst varnaraðili enn ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort sóknaraðili myndi fá stöðu sakbornings við nýja rannsókn málsins. Stöðu sóknaraðila sem sakbornings hefur samkvæmt þessu að svo komnu ekki verið breytt. Verjandi sóknaraðila er bær aðili til þess að gera kröfu um afhendingu gagna á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Hvorki sóknaraðili né verjandi hennar munu hafa fengið afhent afrit af fyrrnefndum kærum á hendur henni, en þær eru samkvæmt gögnum málsins dagsettar 14. apríl 2016. Verjandinn upplýsti við málflutning að þeim hefði gefist kostur á að kynna sér kærurnar stuttlega við upphaf skýrslutöku af sóknaraðila 26. október 2016. Verjandinn kvað þau refsiákvæði sem vísað sé til í kærunum skipta tugum, kæruatriði væru margvísleg og ógjörningur væri að gæta hagsmuna sóknaraðila í málinu án þess að hafa afrit þeirra undir höndum.

Upplýst er að verjandinn hefur engin gögn fengið afhent. Varnaraðili synjar alfarið um afhendingu umbeðinna gagna og hefur ekki fallist á að afhenda nokkurt þeirra. Fyrir liggur að við rannsókn málsins var aflað fjölda skjallegra gagna sem varða þær sakargiftir sem kærurnar taka til. Kveður varnaraðili umbeðin gögn ekki lengur vera hluta rannsóknargagna málsins þar sem gögnin sem lögreglufulltrúinn tók þátt í að afla teljist ekki til gagna málsins. Synjun á afhendingu er ekki studd við reglur sem gilda um heimildir sakbornings til að fá afhent gögn úr rannsókn sem lokið er. Varnaraðili hefur ekki afhent lista yfir rannsóknargögn. Þær kærur sem varnaraðila er falið að taka til rannsóknar að nýju hljóta að teljast til gagna málsins. Við málflutning tók varnaraðili fram að sér væri óheimilt að byggja nýja ákvörðun í málinu á gögnum úr fyrri rannsókn og því væri sóknaraðila engin þörf á því að fá þau í hendur.

Í þessu sambandi er þess að gæta að ekki felst í fyrirmælum 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, um að verjanda skuli jafnskjótt og unnt sé fá afrit af öllum skjölum máls sem varði skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu, að verjandi þurfi að rökstyðja það sérstaklega hvers vegna honum sé þörf á að kynna sér gögn. Á hinn bóginn er synjun lögreglu um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur, eða synjun um afrit að einstökum skjölum lengur meðan á rannsókn stendur, því aðeins heimil að lögregla telji að það geti skaðað rannsókn málsins að slíkur aðgangur sé veittur eða að afrit verði afhent. Hvílir því á varnaraðila að rökstyðja synjun sína á kröfu sóknaraðila um afhendingu umbeðinna gagna.

Í kafla um yfirlit helstu málsatvika hér að framan eru rakin samskipti verjandans og varnaraðila varðandi beiðni verjandans um afrit af gögnum málsins. Svo sem þar greinir kvað varnaraðili í upphafi gögn ekki verða afhent fyrr en að liðnum þriggja vikna fresti. Því næst bar hann fyrir sig að gögnin væru ekki tiltæk og loks það að sökum rannsóknarhagsmuna yrðu þau ekki afhent. Við meðferð málsins hér fyrir dóminum ber varnaraðili fyrir sig rannsóknarhagsmuni með afar almennum hætti. Þannig, að það myndi ekki fara í bága við almenn sjónarmið um jafnræði og réttláta málsmeðferð að sóknaraðili verði fyrst yfirheyrð áður en hún fengi að kynna sér skjöl málsins. Einnig, að ákæruvaldinu kynni að vera gert ókleift að sinna hlutverki sínu um sönnunarfærslu, ef sóknaraðili hefði fyrir framan sig öll gögn úr fyrri rannsókn málsins áður en hún gæfi skýrslu á ný hjá lögreglu.

Við málflutning upplýsti varnaraðili að sóknaraðili hefði enn ekki verið boðuð til skýrslutöku eftir að varnaraðila hefði verið falið að taka að nýju til meðferðar kærur á hendur henni og ekki lægi fyrir hvenær af því yrði. Varnaraðili skýrði drátt á þeirri skýrslutöku þannig að hann hefði enn ekki fengið nýjan lögreglufulltrúa sér til aðstoðar við rannsókn málsins.

Fyrir liggur að kæruefnin verða nú rannsökuð að nýju og að ekki verður við þá rannsókn byggt á þeim gögnum úr fyrri rannsókn sem lögreglufulltrúinn kom að. Samkvæmt þeim fyrirmælum í ákvörðun setts ríkissaksóknara, að taka beri til skoðunar við nýja rannsókn málsins athugasemdir sem fram komi í kæru lögmanns kærenda á ákvörðun um niðurfellingu málsins, munu ný atriði jafnframt koma til skoðunar við rannsóknina. Varnaraðili hefur ekki útskýrt það nánar með hvaða hætti það geti skaðað nýju rannsóknina að verjandinn fái umbeðin gögn afhent. Kveður varnaraðili það jafnframt óráðið hvort sóknaraðili fái réttarstöðu sakbornings við nýja rannsókn. Þegar til þess er litið hversu lengi varnaraðili hefur dregið að taka skýrslu af sóknaraðila að nýju, án þess að séð verði að hún eigi nokkra sök á þeim drætti, verður ekki fallist á að synjun á afhendingu umbeðinna gagna verði með réttu studd þeim rökum einum að ekki hafi enn verið tekin ný skýrsla af sóknaraðila.

Réttur verjanda sóknaraðila til þess að fá gögn afhent á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 er ótvíræður og er aðeins heimilt að synja um afhendingu í afmörkuðum undantekningartilvikum. Hér hefur ekki verið sýnt fram á að verjandi sóknaraðila hefði ekki með réttu átt að fá þau gögn afhent, sem hann óskaði eftir þegar skýrsla hafði verið tekin af sóknaraðila, áður en til þess kom að rannsóknin var felld niður. Þau atvik sem urðu þess valdandi að rannsaka þarf málið að nýju eru ekki á ábyrgð sóknaraðila og verður réttur hennar að þessu leyti ekki skertur vegna þess hvernig haldið var á málum.

Að öllu framangreindu virtu, og að teknu tilliti til þess að ekki hefur verið skýrt fyrir dóminum á hvern hátt afhending umbeðinna gagna geti skaðað nýja rannsókn setts héraðssaksóknara á fyrirliggjandi kærum á hendur sóknaraðila, verður ekki fallist á að varnaraðila sé heimilt að synja verjanda sóknaraðila um gögnin.

Verður því fallist á aðalkröfu verjanda sóknaraðila og verður varnaraðila gert að afhenda honum öll rannsóknargögn í máli nr. 300-2016-[...], svo sem krafist er.

Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Varnaraðila, settum héraðssaksóknara ad hoc, Lúðvík Bergvinssyni hdl., ber að afhenda verjanda sóknaraðila, X, Jónasi Jóhannssyni hrl., öll rannsóknargögn í máli nr. 300-2016-[...].