Hæstiréttur íslands

Mál nr. 530/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gerðardómur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 10

 

Þriðjudaginn 10. desember 2002.

Nr. 530/2002.

Betri Pizzur ehf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Papa John’s International Inc.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Gerðardómur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

B ehf. höfðaði mál á hendur P Inc. til heimtu skaðabóta vegna atvika, sem vörðuðu sérleyfissamning hans við P Inc. Málinu var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að aðilarnir hefðu samið um að leggja þann ágreining, sem málið var sprottið af, undir gerðardóm samkvæmt kröfu annars hvors þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta til heimtu skaðabóta vegna atvika, sem varða samning hans við varnaraðila frá 15. nóvember 1999, en í samningnum var meðal annars kveðið á um sérleyfi sóknaraðila til að reka hér á landi veitingahús undir vörumerki varnaraðila og nýta til þess framleiðsluaðferðir hans. Í 19. gr. þessa samnings var mælt fyrir um að ágreiningur aðilanna um atriði, sem hann tæki til eða aðrir samningar þeirra, um samband aðilanna, um gildi samningsins eða annarra samninga þeirra eða um hvers konar staðla eða verklagsreglur varðandi þróun, stofnun eða rekstur veitingahúss undir vörumerki varnaraðila skyldi eiga samkvæmt kröfu annars hvors þeirra undir gerðardóm með heitinu „The London Court of International Arbitration“. Eftir hljóðan þessa ákvæðis tekur það meðal annars til þeirra ágreiningsefna, sem mál þetta er sprottið af. Sóknaraðili hefur ekki með haldbærum rökum sýnt fram á heimild sína til að víkjast undan þessari samningsbundna skyldu til að sæta lögsögu áðurnefnds gerðardóms, en í málatilbúnaði varnaraðila kemur skýrlega fram að hann haldi þessu gerðardómsákvæði upp á sóknaraðila. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Betri Pizzur ehf., greiði varnaraðila, Papa John’s International Inc., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2002.

   Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 31. október sl., er höfðað með stefnu birtri 5. febrúar 2002 af Betri pizzum ehf., Grensásvegi 3, Reykjavík, á hendur Papa John's International, Inc., 2002 Papa John's Boulevard, Louisville, Kentucky í Banda­ríkjum Norður-Ameríku.

   Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 409.415.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 27. október 2001 til greiðsludags, en til vara 56.302.450 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda.

   Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda en til þrautavara er krafist lækkunar á þeim. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

   Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins.

I.

   Stefndi rekur pizzukeðju í Bandaríkjunum undir heitinu Papa John's Pizza. Stefndi selur viðskiptasérleyfi, franchise, en það er gert með sérleyfis­samningum. Með þeim taka aðilar að sér rekstur á pizzustöðum undir merkjum stefnda. Sér­leyfiskaupinn fær heimild til notkunar á vörumerki stefnda og jafnframt aðgang að stöðlum og forskriftum frá honum. Á móti greiðir hann stefnda aðgangs­gjald að keðjunni og síðan hlutfall af veltu sinni. Fjöldi pizzustaða er rekinn undir merkjum stefnda í Bandaríkjunum og víðar.

   Stefnandi er einkahlutafélag sem skrásett var l. nóvember 1999. Fram hefur komið að aðaleigendur félagsins séu bræðurnir Helgi Steinar, stjórnarformaður félagsins, og Heimir Þór Hermannssynir. Hlutafé félagsins hafi verið 500.000 krónur en um sé að ræða lítið fjölskyldufyrirtæki. Stefnandi lýsir máls­atvikum þannig að síðla árs 1997 hafi þeir bræður fengið áhuga á því að hefja rekstur á pizzustað í Reykjavík. Þeir hafi kannað hvaða pizzukeðjur væru áhugaverðar og hafi þeim litist vel á keðju stefnda, "Papa John's Pizza".

   Eftir undir­búning, gerð viðskiptaáætlunar og þjálfun gerðu málsaðilar sérleyfis­samning 15. nóvember 1999. Stefnandi opnaði fyrsta pizzustaðinn 31. ágúst 2000. Reksturinn gekk illa að sögn stefnanda og hefur nú lagst af. Stefnandi heldur því fram að verulegt tap hafi verið á rekstrinum sem rakið verði til þess að hrá­efnis­kostnaður hafi verið alltof hár. Stefnandi kveðst hafa séð sig knúinn til að rifta samningnum við stefnda og hafi það verið gert með bréfi, dagsettu 27. september 2001.

   Stefnandi telur að samkomulag hafi verið milli málsaðila um að hráefnishlutfall vegna framleiðslu stefnanda á Papa John's pizzum yrði undir 34%. Einnig hafi verið samkomulag um að hráefnishlutfall vegna framleiðslu stefnanda yrði þannig að fram­leiðslan gæti staðið undir sér. Samkomulag um þetta hafi stefndi rofið og beri hann ábyrgð á því gagnvart stefnanda. Verði ekki á þetta fallist byggi stefnandi á því að upplýsingar stefnda, sem gefnar hafi verið, bæði fyrir og eftir gerð samningsins frá 15. nóvember 1999 um væntanlegt hráefnishlutfall, hafi verið rangar og beri stefndi af þeim sökum skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Leiði þetta jafnframt til þess að samningur aðila í heild sinni teljist ógildur þar sem forsendur fyrir samningsgerðinni hafi verið rangar eða að þær hafi brostið.

   Af hálfu stefnda hefur komið fram að stefnandi hafi ekki staðið við samninginn. Hann hafi ekki greitt stefnda sérleyfisgjöld, hann hafi ekki staðið við að opna fleiri pizzustaði eins og samningurinn kveði á um og starfsemi stefnanda hafi í ýmsum atriðum ekki verið í samræmi við umsamda skilmála. Stefndi hafi því lýst yfir riftun samningsins með símskeyti til stefnanda 17. september 2001. Stefndi hafi hvorki vanefnt samninginn né brotið gegn skilmálum hans. Stefnandi geti ekki gert þá kröfu að stefndi víki frá gæðastöðlum á framleiðslunni. Hins vegar hafi stefnandi sjálfur brugðist í áætlanagerð sinni og í samningsgerðinni við stefnda með því að ráðast í gersamlega vonlausan rekstur.

II.

   Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að samkvæmt 19. gr. í samningi málsaðila frá 15. nóvember 1999 eigi alþjóðlegur gerðardómur, "London Court of International Arbitration", úrskurðarvald um hvers konar kröfur milli málsaðila, sem leiði af samningnum og samningssambandi þeirra. Með þessu hafi málsaðilar samið um að úrlausn ágreinings­mála eigi undir gerðar­dóm og þar með falli utan lögsögu dómsins að dæma um sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning kom fram að hið umdeilda gerðardómsákvæði hefði ekki verið fellt úr gildi, hvorki með dómi né á annan hátt, og verði málsaðilar þar af leiðandi að hlíta því.

   Stefndi mótmæli að samningsákvæðið um gerðardómsmeðferð sé ógilt eins og stefnandi haldi fram. Ákvæðið sé skýrt og á því tungumáli sem samningurinn og samskipti aðila hafi farið fram á. Stefnandi geti ekki borið fyrir sig að hafa ekki skilið samningsákvæðið. Skipti engu máli í því sambandi hvort hann hafi notið aðstoðar lögmanns við samningsgerðina. Samningurinn sé allflókinn viðskiptasamningur. Það hafi verið á ábyrgð og áhættu stefnanda að meta hvort og hvenær hann þyrfti á lög­manns­aðstoð að halda en stefnandi hafi ekki einu sinni falið lögmanni að lesa samninginn yfir. Fyrirsvars­menn stefnanda geti engum um kennt nema sjálfum sér, hafi þeir ekki skilið einstök efnisatriði samningsins, ekki verið með réttarstöðu sína á hreinu eða að þá hafi skort skilning á því að samningurinn hafi verið alþjóðlegur viðskiptasamningur. Stefnandi geti ekki velt ábyrgð sinni á taprekstri og skilningsleysi á eigin réttarstöðu yfir á stefnda og krafist samhliða gríðarlegra fjárhæða í skaðabætur. Engin ákvæði laga nr. 7/1936 standi til þess að samnings­ákvæðið verði ógilt eða því vikið til hliðar. Fullyrðingar stefnanda um kostnað við gerðardómsmeðferð, sem stefndi telji málinu allsendis óviðkomandi, séu engum gögnum studdar og með miklum ólíkindum. Stefnandi haldi því fram að líklegur kostnaður af lögmannsaðstoð yrði 30 milljónir króna. Algengur taxti reyndra lögmanna, sem séu eigendur að stærri lögmannsstofum í London, liggi á bilinu 200-300 pund. Forsendur og staðhæfingar stefnanda um ætlaðan kostnað af gerðarmeðferð fái ekki staðist.

   Stefndi eigi ekki varnarþing hér á landi en engin varnarþingsregla laga nr. 91/1991 leiði til þess að stefnandi geti höfðað mál á hendur stefnda hér án samþykkis hans. Íslenskur dómur geti ekki orðið aðfararhæfur á starfsstöð stefnda.             

   Kröfur stefnanda séu vanreifaðar og engin gögn lögð fram til stuðnings þeim. Útreikningur ætlaðs tjóns sé byggður á rekstraráætlun sem stefnandi hafi útbúið sjálfur. Ekki virtist gert ráð fyrir skattgreiðslum af þeim ofurhagnaði sem stefnandi telji að hafi verið fyrirsjáanlegur. Varakrafa stefnanda sé heldur engum gögnum studd, heldur aðeins sagt að tjónsþættir séu varlega metnir.

   Stefnandi vísi til íslenskra lagareglna á tilteknum sviðum lögfræðinnar en í samningi málsaðila frá 15. nóvember 1999 sé tekið fram að um réttarsamband aðila, meðal annars um hugsanlegar bótakröfur annars aðila á hendur hinum, gildi ensk lög. Við efnismeðferð málsins beri því að leysa úr kröfu stefnanda á grundvelli enskra laga en ekki íslenskra. Málsástæður stefnanda virtust allar byggjast á því að leyst verði úr málinu á grundvelli íslenskra laga, án þess að stefndi hafi samþykkt slíkt og þvert á efni samningsins. Stefnandi fullyrði að ljóst sé að ensk lög leiði til sömu niðurstöðu og íslensk lög, án þess að leitast við að færa á það sönnur. Stefndi mótmæli þessu sem röngu eða að minnsta kosti ósönnuðu og vísi til reglu 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, en samkvæmt henni beri þeim sem beri fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist hennar og efni í ljós, sem stefnandi hafi ekki gert. Ágalli á málssókn stefnanda sé enn fremur sá að framlögð gögn séu nánast öll á ensku án þýðingar, þrátt fyrir að þing­málið sé íslenska, sbr. 1. mgr. 10. gr. framangreindra laga. Málatilbúnaður stefnanda svo og málsgrundvöllurinn sé óljós.

   Af öllu þessu leiði að málssókn stefnanda uppfylli ekki réttarfarsskilyrði til að hljóta efnismeðferð og beri því að vísa málinu frá dómi. Málskostnaðarkröfu stefnanda í þessum þætti málsins er mótmælt og er þess krafist af hálfu stefnda að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms, verði málinu ekki vísað frá dómi.

III.

   Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi byrjað að vinna við viðskiptaáætlun í apríl 1998. Þeir hafi fengið ýmsar lykilupplýsingar frá stefnda til að styðja áætlunargerðina við, svo sem að hráefnishlutfall væri 30%-34%. Í lok ágúst 1999 hafi fulltrúi stefnda komið hingað til lands að kynna sér aðstæður. Um haustið 1999 hafi Heimir farið til Bandaríkjanna á 12 vikna námskeið í rekstri Papa John's pizzastaða hjá stefnda. Hafi m.a. verið ítrekað fyrir honum mikilvægi þess að halda niðri hráefniskostnaði en þar hafi hráefnishlutfall verið um 27%-30%. Málsaðilar hafi gert samning 15. nóvember 1999 en samkvæmt honum skyldi stefnandi hafa einkarétt til að selja Papa John's pizzur á Íslandi. Í samningnum hafi falist margvíslegar skyldur fyrir stefnanda. Af hálfu stefnda hafi ekki komið til álita að semja frá stöðluðum skilmálum samningsins. Stefnanda hafi því verið gert að samþykkja alla skilmálana en ella hafna því að eiga nokkur viðskipti við stefnda. Að lokinni samningsgerð hafi síðan hafist frekari undirbúningur. Fulltrúar stefnda hafi í mörg skipti komið hingað til lands frá ársbyrjun 2000 og fram á sumar til að taka ákvarðanir um hráefni í pizzurnar. Stefnandi hafi gert leigusamninga 28. apríl 2000 um afnot af húsnæði fyrir pizzustað. Stefnandi hafi greitt gjöld til stefnda, samtals 5.752.450 krónur, sem verði að teljast veruleg fjárhæð miðað við efnahag stefnanda, en hann hafi engar tekjur haft nema af samningnum.

   Pizzustaður stefnanda hafi opnað 31. ágúst 2000. Fljótlega hafi komið í ljós að hráefnishlutfallið í rekstri stefnanda hafi verið allt of hátt. Í stað þeirra 30%­-34%, sem þeir hefðu vænst, hafi hlutfallið verið nær 50%­-60%. Fyrirsvars­menn stefnanda hafi ítrekað kvartað undan þessu við stefnda en af hans hálfu hafi aldrei verið brugðist af alvöru við þessum umkvörtunum og engin mark­viss umfjöllun hafi farið fram um málið af stefnda. Í stað þess hafi fulltrúar stefnda gert sína eigin útreikninga á hráefnishlutfallinu sem hafi verið afar villandi. Af hálfu stefnanda hafi ítrekað verið óskað eftir því að honum yrði heimilað að setja minna hráefni á pizzur en tíðkist í Bandaríkjunum svo og að gæðakröfur til hráefnisins yrðu minnkaðar og vinnuferlar við hráefnisvinnsluna einfaldaðir til að lækka kostnað. Stefndi hafi aldrei sýnt þessu vandamáli áhuga og stefnandi hafi engin ráð fengið frá stefnda um hvernig bregðast skyldi við þessu.

   Rekstur stefnanda hafi gengið illa og hafi orðið verulegt tap á rekstrinum sem rakið verði til hráefniskostnaðar. Samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2000 hafi hráefnishlutfallið verið meira en 100% og rekstrartap á því ári hafi verið  16.539.201 krónur. Það hafi verið fjármagnað með lántökum sem aðilar tengdir stefnanda standi að miklu leyti í ábyrgðum fyrir. Rekstur stefnanda hafi verið kominn í algjörar ógöngur í mars 2001, u.þ.b. 7 mánuðum eftir opnun, og hafi stefnanda verið ómögulegt að standa við gerðar skuldbindingar sínar gagnvart öðrum en starfs­mönnum. Þrátt fyrir þetta hafi enga úrlausn verið að fá hjá stefnda varðandi hráefnið. Loksins hafi stefndi, 12. mars 2001, ljáð máls á því að pizzustærðir yrðu minnkaðar sem hafi þó verið háð því skilyrði að skuld stefnanda við stefnda yrði gerð upp. Þá hafi hins vegar verið ljóst að smækkun á pizzustærðum ein og sér myndi engan vanda leysa. Stefnandi hafi á endanum séð sig knúinn til að rifta samningnum við stefnda 27. september 2001.

   Stefnandi hafi talið á rétti sínum brotið og hafi hann haft í hyggju að sækja skaðabætur vegna þess. Ákvæðið í samningi aðila frá 15. nóvember 1999 um að ágreiningsmál vegna samningsins skyldu rekin fyrir gerðardómi í London hafi þá komið til sérstakrar skoðunar. Í ljós hafi komið að kostnaður af því yrði óhóflegur. Greiðslur til gerðar­dómsins yrðu jafnvel 15.000.000 til 20.000.000 króna og kostnaður við að ráða lögmann í London til að meðhöndla málið gæti orðið 30.000.000 króna. Hér sé um slíkar fjárhæðir að ræða að fjárhagur stefnanda, sérstaklega eins og honum sé háttað eftir skaðann sem stefndi hafi valdið honum, gæti aldrei staðið undir þessu. Sé honum því nauðugur sá kostur að höfða mál þetta hér á landi til heimtu bóta úr hendi stefnda vegna tjónsins sem hann telji sig hafa orðið fyrir og stefndi beri bótaábyrgð á.

   Stefnandi byggi á því að ákvæði í samningi aðila frá 15. nóvember 1999 um gerðardóm séu ógild og verði ekki beitt gagnvart þeim. Verði gerðar­dómsákvæðinu í 19. samningsins haldið upp á stefnanda feli það í sér að honum yrði vegna mikils kostnaðar af meðferð málsins í raun meinaður aðgangur að óhlutdrægum og óvil­höllum dómstóli til að fjalla um ágreiningsmál hans við stefnda. Slíkt fái ekki staðist vegna ákvæðis 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Þegar samningur málsaðila hafi verið undirritaður hafi stefnandi ekki haft hugmynd um hverjar afleiðingar ákvæðisins yrðu og að með því afsalaði hann sér mikil­vægum réttindum. Þrátt fyrir vitneskju stefnda um það hafi hann ekki veitt stefnanda nokkrar viðvaranir. Stefnandi hafi ekki notið lögmannsaðstoðar fyrir undirritun samningsins og afstaða stefnda hafi auk þess verið sú að ekki yrði um neinar samningaviðræður að ræða um efni einstakra ákvæða samningsins. Sé ljóst að aðdragandi samningsgerðarinnar, staða samnings­aðila og efnisleg áhrif gerðardóms­ákvæðisins leiði til þess að stefndi geti ekki borið það fyrir sig. Vísað sé til 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem og þeirrar meginreglu samningaréttarins að lög­gern­ingar andstæðir lögum og siðferði teljist ógildir. Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnda að samningsákvæðið væri ógilt þar sem það væri allt of víðtækt en í því fælist að öll ágreiningsefni milli málsaðila ætti að leggja í gerð.

   Stefnandi hafi höfðað málið á grundvelli 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefndi sé bandarískt fyrirtæki og enginn samningur hafi verið gerður milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarþing í málum sem þessum. Samkvæmt almennum reglum sé varnarþing í málinu hér á landi en tengsl málsins við Ísland séu margvísleg. Til dæmis sé hér til umfjöllunar samningur, sem að stærstum hluta hafi átt að koma til efnda hér á landi, annar aðili samningsins sé íslenskur, andlag hans sé pizzuframleiðsla, sem hafi átt að fara fram hér á landi samkvæmt upplýsingum og stöðlum sem látin skyldu í té hér á landi að stærstum hluta, auk þess sem það varði skaðaverk fulltrúa stefnda hér á landi gagnvart íslenskum aðila með afleiðingum sem hafi komið fram hér á landi. Sé því ljóst að varnarþing geti byggst á fjölmörgum ákvæðum V. kafla laga um meðferð einkamála, svo sem 35. gr. og 37. gr. Ekki skipti máli hvort dómur í málinu geti orðið aðfararhæfur gagnvart stefnda.

   Aðalkrafa stefnanda byggi á því að hann hefði eignast arðbæran atvinnurekstur, sem hefði fært honum 81.883.120 krónur í tekjur fyrir skatta árið 2003, eða árið 2004 að teknu tilliti til mögulegrar seinkunar. Það sé sú fjárhæð sem við­skipta­áætlun stefnanda hafi gert ráð fyrir, en stefndi hafði farið yfir hana og ekki gert neinar athugasemdir. Verðmæti rekstursins hefði mjög varlega mátt meta sem fimmfalt verðmæti árshagnaðar, eða 409.415.600 krónur. Áskilinn sé réttur til að dómkveða matsmenn til að leggja mat á þetta verði því mótmælt.

   Varakrafa stefnanda byggi á því að honum sé haldið skaðlausum af þeim út­gjöldum sem hann hafi haft af stofnun pizzustaðarins. Kostnaðurinn sundurliðist þannig:

1. Byggingarkostnaður við veitingastað                                         21.785.000 krónur

         2. Papa John's gjöld                                                                              5.752.450     "

         3. Vextir                                                                                                   2.500.000     "

         4. Þjálfunarkostnaður                                                                            1.500.000     "

         5. Önnur starfsmannaþjálfun                                                                  450.000     "

         6. Annar undirbúningur 1999-2000                                                        985.000     "

         7. Markaðskostnaður við opnun                                                           750.000     "

         8. Hráefni við þjálfun                                                                               350.000     "

         9. Markaðsrannsóknir                                                                              400.000     "

         10. Kostnaður við hönnun á kassamótum                                            750.000     "

         11. Kaup á bílum og merkingar                                                            1.500.000     "

         12. Rekstrartap september 2000-september 2001                            19.580.000     "

         Samtals                                                                                                  56.302.450 krónur.

Allir tjónsþættir séu varlega metnir. Réttur sé áskilinn til að leggja fram árs­reikning stefnanda vegna ársins 2001 þegar hann liggi fyrir. Sama gildi um gögn á ensku; þau verði lögð fram í íslenskri þýðingu, verði talin þörf á því. Gagnaöflun sé ólokið og verði málinu því ekki vísað frá dómi þótt gögn kunni enn að vanta.

Um lagarök sé einkum vísað til íslenskra laga um réttarfar, samningarétt, kröfurétt og skaðabætur en þar sem ákvæði um bindandi gerðardóm í London sé þess efnis að stefnandi geti ekki byggt rétt á því sé eðlilegt að íslensk lög verði lögð til grundvallar við úrlausn á ágreiningi aðila þar sem leyst verði úr málinu hér á landi. Verði ekki á það fallist sé vísað til enskra lagareglna sem leiddu ekki til annarrar niðurstöðu en íslenskar reglur um úrlausnarefnið. Efnisleg afstaða til þess hvers lands lög gildi skipti ekki máli við úrlausn á því hvort málinu verði vísað frá dómi.

IV.

   Í samningi málsaðila frá 15. nóvember 1999 segir að úr öllum ágreinings­efnum í tengslum við og vegna samningsins og annarra samninga milli málsaðila svo og vegna einstakra ákvæða þeirra samninga eða samningssambandsins skuli leysa fyrir gerðar­dómi, "London Court of International Arbitration". Samnings­ákvæðið uppfyllir að því er best verður séð öll almenn skilyrði til að ágreiningur um kröfur stefnanda verði borinn undir gerðardóminn. Stefnandi heldur því fram að ákvæðið sé ógilt af ástæðum sem hann hefur tilgreint og raktar eru hér að framan. Dómurinn á úrlausnarvald um gildi gerðardómsákvæðisins. Við mat á því hvort ákvæðið verði talið ósanngjarnt ber að líta til efnis samningsins, stöðu málsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafa komið til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

   Samningurinn er viðskipta­- og sérleyfissamningur þar sem reynir meðal annars á sérhæfðar lagareglur á alþjóðlegu sviði. Bótakröfur stefnanda í málinu nema veru­legum fjárhæðum eins og hér að framan hefur komið fram. Að jafnaði getur talsverður kostnaður fylgt því að fá úrlausn um slíkar kröfur, hvort sem er fyrir dómstólum eða með því að leggja ágreininginn í gerð. Almennt verður það ekki talið brot á grunnreglunni um aðgang að dómstólum samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnar­skrárinnar nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórn­skipunar­laga nr. 97/1995, þótt máls­aðilar þurfi að hlíta reglum um greiðslu máls­kostnaðar. Þrátt fyrir að stefnandi haldi því fram og hafi reynt að sýna fram á að kostnaður af gerðarmeðferð samkvæmt samningsákvæðinu yrði óhóflegur og stefnanda ofviða á það væntanlega einnig við þegar stefnandi leitar úrlausnar um kröfur sínar og ágreiningsefni fyrir dómi enda er annað ósannað. Af því sem fram hefur komið verður ekki dregin sú ályktun að kostnaður af gerðar­meðferð takmarki aðgang stefnanda að dómstólum umfram það sem almennar reglur um greiðslu máls­kostnaðar í dómsmálum gera.

   Stefnandi hefur borið því við að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hinn mikli kostnaður, sem af gerðarmeðferð hlytist, kæmi í raun í veg fyrir að ágreinings­efni milli málsaðila fengju úrlausn fyrir óhlutdrægum og óvilhöllum dóm­stóli. Þótt þetta kunni að vera rétt verður ekki talið að það sé komið til af því að stefnandi hafi haft lakari samningsstöðu en stefndi. Með því að afla viðeigandi upplýsinga fyrir eða við samningsgerðina mátti stefnanda vera ljóst að gerðardómsákvæðinu gæti fylgt umtalsverður kostnaður, kæmi til þess að á það reyndi. Afleiðingar ­ákvæðisins voru að því leyti fyrirsjáanlegar við samnings­gerðina. Ósannað er að stefnda hafi borið að veita stefnanda sérstakar upplýsingar í þessum efnum. Einnig verður að telja ósannað að starfsmenn stefnda hafi beitt svikum eða að þeir hafi haft í frammi óheiðarleika í sambandi við undir­búning og gerð samningsins eða síðar. Eins og málið liggur fyrir hefur það ekki áhrif á mat á því hvort ósanngjarnt verði talið að stefndi beri gerðar­dómsákvæðið fyrir sig þótt vonir stefnanda og áætlanir varðandi reksturinn hafi brugðist.

   Að öllu þessu virtu þykja hvorki skilyrði til að víkja umræddu gerðardómsákvæði til hliðar samkvæmt 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, né að það verði talið óskuldbindandi af ástæðum sem stefnandi vísar til. Málsaðilar hafa samið um að úr sakarefninu verði leyst fyrir gerðardómi og á dómurinn því ekki úrlausnar­vald um kröfur stefnanda. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

   Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

   Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.         

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

   Máli þessu er vísað frá dómi.

   Stefnandi, Betri pizzur ehf., greiði stefnda, Papa John´s International, Inc., 300.000 krónur í málskostnað.