Hæstiréttur íslands
Mál nr. 770/2015
Lykilorð
- Umboðssvik
- Bókhaldsbrot
- Ársreikningur
- Skilorð
- Dráttur á máli
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. október 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Að því frágengnu krefst ákærði þess að honum verði ekki gerð refsing en að öðrum kosti að héraðsdómur verði staðfestur. Að því frátöldu krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.
I
Í I. kafla ákæru málsins eru ákærða gefin að sök umboðssvik með því að hafa á tímabilinu 6. júní til 24. október 2008 sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. misnotað aðstöðu sína og ráðstafað frá félaginu 31 fasteign sem félagið leigði út án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir og að lánum, sem hvíldu á eignunum, hafi verið skuldskeytt. Þessum eignum hafi verið ráðstafað til félaga sem ákærði var í fyrirsvari fyrir og höfðu þann tilgang að reka og leigja út fasteignir. Með þessu hafi Bílakot ehf. orðið fyrir tjóni þar sem félagið hafi verið svipt öllum tekjum og um leið rekstargrundvelli. Í II. kafla ákærunnar er ákærða gefið að sök bókhaldsbrot með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhaldsgögn félagsins vegna starfsemi þess á árinu 2008. Loks eru ákærða í III. kafla ákærunnar gefin að sök í þremur liðum nánar tilgreind brot gegn lögum um ársreikninga.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með honum var ákærði sýknaður af því broti sem honum var gefið að sök í I. kafla ákærunnar en sakfelldur eftir II. kafla hennar. Þá var ákærði fundinn sekur um eitt af þeim brotum sem honum var gefið að sök í III. kafla ákærunnar en sýknaður að öðru leyti.
II
Við meðferð málsins í héraði krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu hafnaði dómurinn með úrskurði 24. febrúar 2015. Ákærði gerir sem fyrr segir aðallega sömu kröfu hér fyrir dómi.
Ákærði reisir kröfu sína um frávísun fyrst í stað á því að ákæran á hendur honum lýsi ekki refsiverðum verknaði. Verknaðarlýsing hennar sé óskýr og fullnægi ekki c. og d. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af efni ákærunnar, sem tekin er upp orðrétt í héraðsdómi, verður glögglega ráðið hvaða refsiverða háttsemi ákærða er gefin að sök og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Verður því ekki fallist á þessa röksemd ákærða fyrir frávísun málsins.
Í annan stað byggir ákærði kröfu sína um frávísun á því að ákæran sé ekki í samræmi við gögn málsins. Þessu til stuðnings heldur ákærði því fram að lýsing á atvikum fái ekki staðist í ljósi gagna málsins. Einnig beri gögnin með sér að skattframtal Bílakots ehf. og skil á ársreikningum félagsins hafi verið til fyrirmyndar. Þannig hafi félög í eigu ákærða fært bókhald lögum samkvæmt og skilað skattframtölum og ársreikningum á réttum tíma og án sérstakra athugasemda skattyfirvalda. Þá telur ákærði að rannsókn málsins sé verulega áfátt og að við hana hafi ekki verið gætt hlutlægni og meðalhófs.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar sakamáls að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Að rannsókn lokinni tekur ákærandi ákvörðun um hvort sækja skuli sakborning til sakar og telji hann það sem fram er komið nægilegt eða líklegt til sakfellis höfðar hann mál á hendur honum, sbr. 145. gr. laganna. Ákærandi hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grundvelli hennar gefið út ákæru. Ákvörðun ákæranda þar að lútandi felur í sér beitingu hans á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Jafnframt er þess að gæta að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu eftir 108. gr. laganna og verður það að bera hallann af því ef rannsókn máls er ábótavant og ákæra af þeim sökum ekki reist á nægjanlega traustum grunni. Það sama gildir ef ákæran er að einhverju leyti í ósamræmi við gögn málsins. Loks eru ekki efni til að fallast á það með ákærða að rannsókn málsins beri þess merki að ekki hafi verið gætt að þeirri hlutlægnisskyldu sem leiðir af 2. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi.
III
Um refsinæmi umboðssvika fer eftir 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir að misnoti maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað er annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, varði það fangelsi allt að 2 árum. Ef sakir eru mjög miklar má þyngja refsingu í allt að 6 ára fangelsi. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið um misnotkun aðstöðu, til að gera eitthvað er annar maður verður bundinn við, eigi ekki einungis við um umboð, heldur og aðra raunverulega aðstöðu til þess að gera eitthvað er bindur annan mann. Þar segir einnig að ákvæðið sé sett til verndar því að menn er hafi á hendi fjárreiður fyrir aðra, svo sem fjárhaldsmenn, framkvæmdastjórar félaga eða stofnana, misnoti aðstöðu sína sér eða öðrum til hags en umbjóðanda sínum til tjóns.
Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið fela umboðssvik í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið unnið af ásetningi og í auðgunarskyni. Felur brotið í sér þrjú efnisatriði, en þau eru í fyrsta lagi að gerandi hafi verið í aðstöðu til að skuldbinda annan aðila, í öðru lagi að hann hafi misnotað aðstöðu sína og í þriðja lagi að ráðstöfun hafi valdið tjóni eða í öllu falli haft í för með sér verulega fjártjónshættu.
Ákærði var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf., auk þess sem hann var eigandi félagsins, þegar hann ráðstafaði 31 fasteign frá því á tímabilinu 6. júní til 24. október 2008, eins og nánar er rakið í I. kafla ákærunnar. Að því gættu var hann í aðstöðu til að skuldbinda félagið og er það ágreiningslaust í málinu.
Við mat á því hvort ákærði hafi sem eini eigandi Bílakots ehf. misnotað aðstöðu sína með því að ráðstafa fasteignum frá félaginu er þess að gæta að einkahlutafélög eru eftir ákvæðum laga um þau nr. 138/1994 sjálfstæðar lögpersónur. Þótt slíkt félag lúti forræði hluthafa, sem hafa hagsmuni af hlutafjáreign sinni og réttindum sem hún veitir, tengist félagið ekki að öðru leyti fjárhag hluthafa vegna takmörkunar á ábyrgð þeirra á skuldbindingum þess, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994. Fjárhagslegir hagsmunir af einkahlutafélagi snúa á hinn bóginn fremur að lánardrottnum þess og hvílir sú meginskylda á félagi að haga ráðstöfunum sínum á þann veg að hagsmuna þeirra sé gætt. Í því felst meðal annars að óheimilt er að gera nokkrar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins, sbr. 1. mgr. 51. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður við mat á því hvort sá sem er í aðstöðu til að ráða gerðum einkahlutafélags hafi misnotað þá aðstöðu, þannig að varði við 249. gr. almennra hegningarlaga, að horfa til hagsmuna félagsins sem sjálfstæðrar einingar og þar með einnig lánardrottna þess en ekki samsama félagið við hluthafa í því, sbr. dóm Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015.
Í ákærunni er miðað við að andvirði þeirra fasteigna sem ákærði ráðstafaði frá Bílakoti ehf. hafi numið 518.775.329 krónum, en sú fjárhæð er miðuð við bókfært verð 23 eigna og fasteignamat átta eigna. Áhvílandi heildarskuldir á eignunum hafi hins vegar numið 616.878.859 krónum þegar eignunum var ráðstafað. Af hálfu ákæruvaldsins er miðað við að veðskuldir er hvíldu á hverri eign fyrir sig hafi numið hærri fjárhæðum en andvirði hennar á þessum tíma. Af því leiðir að Bílakot ehf. varð hvorki fyrir tjóni né skapaðist veruleg fjártjónshætta við það eitt að félagið missti eignarhaldið, enda verður með hliðsjón af saksókninni að leggja til grundvallar að engin af eignunum hafi hrokkið fyrir áhvílandi skuldum. Skiptir þá engu þótt ekki hafi verið aflað samþykkis veðhafa fyrir skuldskeytingu þannig að Bílakot ehf. yrði leyst undan áhvílandi skuldum. Verður í því tilliti að miða við að markaðsverð eignanna kæmi að fullu til frádráttar áhvílandi skuldum ef veðhafar leituðu fullnustu í þeim með nauðungarsölu, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Á hinn bóginn fól ráðstöfunin í sér að félagið var svipt leigutekjum af eignunum og þar með rekstrargrundvelli sínum. Með þessu varð félagið af tekjum sem samtals námu 60.863.124 krónum, eins og ákærði hefur gengist við eftir að ákæruvaldið hafði lækkað þá fjárhæð sem að þessu snýr í verknaðarlýsingu ákærunnar um 450.000 krónur. Um refsinæmi þessa brots breytir engu þótt lagt verði til grundvallar að ákærði hafi notað alla þessa fjármuni til viðhalds og framkvæmda á eignunum, en því hefur ákæruvaldið ekki mótmælt. Að þessu marki verður ákærði sakfelldur eftir I. kafla ákærunnar fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína sem fyrirsvarsmaður Bílakots ehf. og valdið með því fjártjóni. Varðar brotið við 249. gr. almennra hegningarlaga.
IV
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur í samræmi við II. kafla ákærunnar fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhald félagsins vegna starfsemi þess á árinu 2008 í samræmi við II. kafla laga um bókhald nr. 145/1994. Af þessu leiðir að ógerningur er að rekja bókhaldsfærslur til viðskipta og byggja bókhaldsbækur á þeim, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laganna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1995. Skiptir þá engu þótt ársreikningur 2008 hafi verið tekinn saman fyrir félagið, enda verða niðurstöður hans ekki sannreyndar án þess að bókhaldið sé fyrir hendi. Varðar brotið því við umræddan 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, en slík brot eru ætíð meiri háttar samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 37. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður brotið jafnframt heimfært til 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
V
Í 1. tölulið III. kafla ákærunnar er ákærða gefið að sök brot gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 3/2006 um ársreikninga með því að hafa í september 2009 sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. rangfært ársreikning félagsins fyrir árið 2008 með því að tilgreina í efnahagsreikningi að langtímaskuldir væru „0“ þegar hið rétta væri að langtímaskuldir væru verulegar vegna skuldbindinga sem hvíldu á fasteignum sem ráðstafað hafði verið frá félaginu án endurgjalds. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu, miðað við ráðstöfun á fasteignum félagsins á árinu 2008, að rétt hefði verið að færa af efnahagsreikningi verðmæti eignanna og fjárhæð veðskulda. Jafnframt hefði að réttu lagi átt að gera grein fyrir í skýringum í ársreikningi þeim skuldbindingum sem á félaginu hvíldu vegna ráðstöfunar á eignunum. Efnahagsreikningurinn hefði því verið réttur hvað ákæruefnið varðar. Samkvæmt þessu verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna ákærða af þessum ákærulið, enda kemur ekki til greina að sakfella hann fyrir atriði sem lúta að gerð annarra þátta í ársreikningnum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærða er í 2. tölulið III. kafla ákærunnar gefið að sök brot gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 3/2006 með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. greint svo frá í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins 2008 að ákveðið hefði verið að stofna nýtt eignarhaldsfélag um fasteignir félagsins og selja þær úr því á bókfærðu virði þegar raunin var að þeim var ráðstafað án endurgjalds og án þess að áhvílandi lánum væri skuldskeytt. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Loks er ákærða í 3. tölulið III. kafla ákærunnar gefið að sök brot gegn tilteknum ákvæðum umræddra laga með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. látið undir höfuð leggjast að láta fylgja yfirlit um sjóðsstreymi með ársreikningi félagsins 2008. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu að ársreikningurinn hafi verið ófullnægjandi af þessari ástæðu. Með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga verður brot þetta talið varða við 3. tölulið 1. mgr. 122. gr., sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 3/2006, svo sem þeim var breytt með 71. gr. laga nr. 73/2016. Aftur á móti er brotið ekki meiri háttar þannig að það varði jafnframt við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
VI
Ákærði hefur unnið sér til refsingar með umboðssvikum, meiri háttar broti gegn lögum um bókhald og broti gegn ákvæðum laga um ársreikninga.
Ákærði er 74 ára að aldri og hefur ekki áður hlotið refsidóm. Brotin framdi hann á árunum 2008 og 2009, en kæra var send embætti sérstaks saksóknara með bréfi skiptastjóra þrotabús Bílakots ehf. 28. febrúar 2012. Þótt rannsókn málsins hjá lögreglu hafi verið umfangsmikil og tímafrek ber að líta til þess við ákvörðun refsingar að langt er um liðið frá því brotin voru framin. Þá horfir ákærða að sínu leyti til málsbóta að tekjur þær sem umboðssvik hans lutu að munu að öllu leyti hafa runnið í rekstur þeirra eigna sem tilgreindar eru í I. kafla ákærunnar. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða, sem tiltekin verður eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, ákveðin fangelsi í eitt ár, en hún verður bundin skilorði eins og greinir í dómsorði.
Ákærða verður gert að greiða sakarkostnað í héraði sem eru málsvarnarlaun verjanda hans með þeirri fjárhæð sem þar var ákveðin.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Örn Haraldsson, sæti fangelsi í eitt ár, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns í héraði 9.207.000 krónur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 2.775.021 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 2.232.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 1. þ.m., er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 22. ágúst 2014, á hendur Gunnari Erni Haraldssyni, kt. [...], Smiðjuvegi 4a í Kópavogi.
Í I. kafla ákæru er ákærði sóttur til saka fyrir umboðssvik „með því að hafa, á tímabilinu 6. júní til 24. október 2008, sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots, kennitala [...], sem var leigufélag og hafði að aðalstarfsemi að eiga, reka og leigja út fasteignir, misnotað aðstöðu sína og ráðstafað frá félaginu 31 fasteign, sem voru að andvirði 518.775.329 króna, sem félagið leigði út, án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir og að lánum, sem hvíldu á viðkomandi fasteignum, hafi verið skuldskeytt. Námu áhvílandi heildarskuldir fasteignanna við ráðstöfun þeirra samtals 616.878.859 krónum. Fasteignunum var öllum ráðstafað til félaga sem ákærði var í fyrirsvari fyrir og höfðu þann tilgang að reka og leigja út fasteignir en um var að ræða einkahlutafélagið X, kennitala [...], þar sem ákærði gegndi starfi stjórnarformanns og framkvæmdastjóra, einkahlutafélagið Y, kennitala [...], þar sem ákærði gegndi starfi stjórnarmanns og framkvæmdastjóra, og einkahlutafélagið Z, kennitala [...], þar sem ákærði gegndi starfi stjórnarformanns og framkvæmdastjóra. Um var að ræða eftirtaldar fasteignir:
Ráðstöfun til X ehf. 6. júní 2008
1) Smiðjuvegur 4a í Kópavogi, fasteignanúmer 206-5239. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 16.053.989 krónur.
2) Smiðjuvegur 4a í Kópavogi, fasteignanúmer 223-7134. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 10.355.340 krónur.
3) Smiðjuvegur 6 í Kópavogi, fasteignanúmer 225-8562. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 43.240.000 krónur.
Ráðstöfun til X ehf. 10. júní 2008
4) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5625. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 9.385.000 krónur.
5) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 228-3445. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 23.023.000 krónur.
Ráðstöfun til X ehf. 15. júní 2008
6) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5619. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 21.150.000 krónur.
7) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5623. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 21.620.000 krónur.
Ráðstöfun til X ehf. 16. júní 2008
8) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5640. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 13.295.000 krónur.
Ráðstöfun til Y ehf. 21. júní 2008
9) Blöndubakki 6 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7514. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 15.106.000 krónur.
10) Ferjubakki 2 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7620. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 15.035.000 krónur.
11) Ferjubakki 8 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7641. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 12.596.000 krónur.
12) Grýtubakki 2 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7678. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 12.831.000 krónur.
13) Grýtubakki 18 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7732. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 16.005.000 krónur.
14) Hjaltabakki 28 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7875. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 13.195.000 krónur.
15) Hjaltabakki 28 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7878. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 13.286.000 krónur.
16) Kríuhólar 4 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-9001. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 13.832.000 krónur.
17) Sólheimar 23 í Reykjavík, fasteignanúmer 202-1530. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 17.072.000 krónur.
18) Torfufell 25 í Reykjavík, fasteignanúmer 205-2911. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 11.446.000 krónur.
Ráðstöfun til Z ehf. 17. júlí 2008
19) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5433. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 8.380.000 krónur.
20) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5614. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 10.355.000 krónur.
21) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5615. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 20.210.000 krónur.
22) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5616. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 8.300.000 krónur.
23) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5617. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 11.656.000 krónur.
24) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5621. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 10.810.000 krónur.
25) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 228-3449. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 23.500.000 krónur.
26) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5637. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 18.210.000 krónur.
27) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5638. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 18.100.000 krónur.
28) Miðhraun 14 í Garðabæ, fasteignanúmer 225-5639. Fasteignamat eignarinnar um áramótin 2007/2008 var 18.080.000 krónur.
Ráðstöfun til X ehf. 20. júlí 2008
29) Smiðjuvegur 4a í Kópavogi, fasteignanúmer 206-5232. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 31.020.000 krónur.
Ráðstöfun til X ehf. 24. október 2008
30) Hólaberg 22 í Reykjavík, fasteignanúmer 205-1203. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 26.675.000 krónur.
31) Maríubakki 14 í Reykjavík, fasteignanúmer 204-7950. Bókfært virði fasteignar við ráðstöfun hennar til nýs eiganda var 14.946.000 krónur.
Bílakot ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember 2010 og lauk skiptum þrotabúsins 2. mars 2012. Frá þeim tíma sem téðum fasteignum var ráðstafað frá Bílakoti ehf. uns lánardrottnar félagsins leystu þær til sín og/eða skiptum bús lauk hafði ákærði leigutekjur af því sem næst öllum fasteignunum sem runnu til félaga í hans eigu eða á hans vegum og til hans sjálfs. Námu tekjur þessar að minnsta kosti 61.313.124 krónum. Með framangreindri háttsemi varð Bílakot ehf. fyrir tjóni en félagið var með ráðstöfunum þessum svipt öllum tekjum og um leið rekstrargrundvelli en aðeins voru greiddar 8.229.991 króna af lánum félagsins, sem tryggð voru með veði í fasteignum, frá þeim tíma sem ákærði ráðstafaði fasteignunum uns félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur í þrotabú Bílakots ehf. námu 1.537.966.045 krónum.“
Framangreind háttsemi er í ákæru talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða er í II. kafla ákæru gefið að sök „meiri háttar bókhaldsbrot, með því að hafa, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots, kennitala, [...], látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhaldsgögn félagsins í samræmi við ákvæði II. kafla laga um bókhald nr. 145/1994 vegna starfsemi þess á árinu 2008.“
Telst þetta varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. og 3. tölulið 1. mgr. 38. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Loks er ákærði í III. kafla ákæru saksóttur fyrir meira háttar ársreikningsbrot svo sem hér greinir:
„1) [Með] því að hafa, í september 2009, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots, kennitala, [...], rangfært ársreikning Bílakots ehf. fyrir árið 2008, með því að tilgreina í efnahagsreikningi að langtímaskuldir félagsins væru „0“ þegar hið rétta var að langtímaskuldir voru verulegar vegna skuldbindinga þeirra er hvíldu á 31 fasteign sem ráðstafað var frá félaginu á árinu 2008, án endurgjalds, en skuldir þær námu 616.878.859 krónum við ráðstöfun fasteignanna, svo sem lýst er í ákærulið I.
2) [Með] því að hafa, í september 2009, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots, kennitala, [...], greint svo frá í skýrslu stjórnar í ársreikningi fyrir Bílakot ehf. fyrir árið 2008, að ákveðið hafi verið að stofna nýtt eignarhaldsfélag utan um fasteignir félagsins og selja þær úr félaginu á bókfærðu virði þeirra en raunin var að fasteignunum var ráðstafað frá félaginu, án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir og án þess að áhvílandi lánum væri skuldskeytt, svo sem lýst er ákærulið I.
3) [Með] því að hafa, í september 2009, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots, kennitala, [...], látið undir höfuð leggjast að láta fylgja yfirlit yfir sjóðstreymi með ársreikningi Bílakots ehf. fyrir árið 2008.“
Háttsemi samkvæmt ákærulið 1 telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, sbr. 2. mgr. 121. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2006.
Háttsemi samkvæmt ákærulið 2 telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 122. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 2. gr. laga nr. 160/2006.
Háttsemi samkvæmt ákærulið 3 telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, sbr. 2. gr. laga nr. 14/2013, og 28. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 2. mgr. 122. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 2. gr. laga nr. 160/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara er sú krafa gerð að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.
I
Svo sem greinir í ákæru var bú Bílakots ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 2. desember 2010, en það mun hafa verið stofnað árið 1988. Skiptastjóri þrotabúsins ritaði embætti sérstaks saksóknara bréf 28. febrúar 2012. Því fylgdi afrit af skýrslu sem skiptastjórinn tók af ákærða, en hann var eigandi félagsins, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri þess. Í bréfinu var vísað til skýrslutökunnar og tekið fram að samkvæmt henni lægi fyrir að ákærði hefði í aðdraganda bankahrunsins 2008 fært allar fasteignir félagsins, 16 talsins, yfir í tvö einkahlutafélög í eigu hans og sonar hans en að skuldir við Byr sparisjóð, Íbúðalánasjóð og Frjálsa fjárfestingarbankann hf., sem tengdust kaupum á þessum eignum, hefðu verið skildar eftir í hinu gjaldþrota félagi. Fasteignirnar hafi verið í útleigu og eftir þessa eignayfirfærslu hafi leigutekjur af þeim verið innheimtar í gegnum hina nýju eigendur og ekki skilað sér til ofangreindra lánardrottna. Þá er þess að geta að við skýrslutökuna var ákærði spurður út í bókhald og ársreikninga félagsins. Svaraði hann því til að bókhald hefði verið fært fram til áramóta 2009/2010 og að ársreikningum fram til ársins 2008 hefði verið skilað. Á grundvelli tilkynningar skiptastjóra og frekari gagna og upplýsinga frá honum hóf embætti sérstaks saksóknara rannsókn á málinu. Ákæra sem er byggð á henni var svo sem áður greinir gefin út 22. ágúst 2014.
Í málinu er enginn ágreiningur um að ákærði hafi á tímabilinu 6. júní til 24. október 2008 sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. ráðstafað þeim fasteignum félagsins sem tilgreindar eru í ákæru til þriggja annarra einkahlutafélaga í eigu hans, þ.e. Y, X og Z. Ekki er heldur um það deilt að bókfært virði eignanna við þessa ráðstöfun þeirra hafi verið 518.775.329 krónur og að áhvílandi veðskuldir hafi á sama tíma numið 616.878.859 krónum. Þá hefur ákærði gengist við því að hann hafi, á þeim tíma sem leið frá því að umræddum fasteignum var ráðstafað frá Bílakoti ehf. og þar til lánardrottnar félagsins leystu þær til sín eða skiptum á þrotabúi þess lauk, móttekið leigutekjur af því sem næst öllum fasteignunum að fjárhæð samtals 60.863.124 krónur. Hefur ákæruvaldið lýst því yfir að það uni við þessa tilgreiningu ákærða á innheimtum leigutekjum og til samræmis við það lækkað þá fjárhæð sem að þessu snýr í verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru um 450.000 krónur. Þar að auki hefur ákæruvaldið lýst því yfir að því sé ekki mótmælt að ákærði hafi notað alla þessa fjármuni til að kosta nauðsynlegt viðhald á fasteignunum. Þetta atriði hafi ekki verið rannsakað sérstaklega, enda ekki talin þörf á því. Loks er þess að geta að ákærði hefur ekki vefengt að frá þeim tíma sem hann ráðstafaði fasteignunum og þar til bú Bílakots ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta hafi greiðslur inn á áhvílandi veðkröfur numið 8.229.991 krónu, en lýstar kröfur í búið námu samkvæmt gögnum málsins 1.537.966.045 krónum.
Ráðstöfun á 16 af 31 fasteign Bílakots ehf. yfir til annarra félaga í eigu ákærða átti sér ekki stað með hefðbundnum hætti, það er með kaupsamningi og afsali, heldur með yfirlýsingum um eigendaskiptin þar sem tekið var fram að við yfirfærslu félagsins yfir í annað einkahlutafélag í eigu ákærða hafi falist eignarhluti Bílakots ehf. í tilgreindum fasteignum. Í yfirlýsingunum var jafnframt tekið fram að sem gagngjald fyrir fasteignirnar fengi félagið einungis hluti í þeim félögum sem eignarréttur að fasteignunum færðist yfir til. Þá sagði svo í yfirlýsingunum: „Þar sem fyrrum eignarhlutar Bílakots ehf. í framangreindum fasteignum eru nú að öllu leyti í eigu félagsins [X] er hér með óskað eftir að ofangreindar fasteignir verði skráðar sem eign einkahlutafélagsins [X]. Um leið er þess óskað að ekki verði gerð krafa um greiðslu stimpilgjalds, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald“ Yfirlýsingar þessar urðu þannig heimildarskjöl fyrir eignarrétti að viðkomandi fasteignum og var þinglýst sem slíkum. Í þeim er ekki sérstaklega vikið að áhvílandi veðskuldum. Að því er varðar þær 15 fasteignir sem eftir standa, en þar er alfarið um að ræða 15 eignarhluta í fasteigninni að Miðhrauni 14 í Garðabæ, sem hver og einn hefur sérstakt fasteignanúmer, liggja fyrir þinglýst afsöl. Í hverju þeirra er tekið fram að umsamið kaupverð sé þegar greitt „meðal annars með yfirtöku áhvílandi veðskulda.
Í röksemdum ákæruvalds, sem málsóknin er reist á, sbr. d. liður 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er gerð grein fyrir veðkröfum sem hvíldu á þeim fasteignum sem ákæra tekur til, getið um skilmálabreytingar, uppgreiðsluverðmæti hvers láns við ráðstöfun fasteignar til nýs eiganda og hversu mikið hafi verið greitt af því eftir ráðstöfunina. Er ekki þörf á að gera hér sérstaka grein fyrir þessum atriðum, en þó skal þess getið að auk þeirra lánastofnana sem þegar hafa verið nefndar tekur málið til veðlána Bílakots ehf. hjá Sparisjóði Siglufjarðar og Landsbankanum hf. Afrit af öllum þessum veðbréfum eru á meðal rannsóknargagna málsins, svo og lánssamningar sem tengdust áhvílandi tryggingarbréfum. Að því er varðar lán frá Íbúðalánasjóði er þess að geta að samhliða þinglýsingu veðskuldabréfa sem ákærði gaf út til sjóðsins fyrir hönd Bílakots ehf. var þinglýst kvöð þess efnis að óheimilt væri að hafa eigendaskipti á veðsettri eign nema til kæmi uppgreiðsla lánsins eða samþykki stjórnar sjóðsins fyrir yfirtöku á því og þar um ýmist vísað til 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál eða 43. gr. reglugerðar nr. 458/1999 um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, sbr. 16. gr. laganna. Ákvæði sama efnis var og að finna í hluta þessara veðskuldabréfa. Í veðbréfum annarra lánastofnana var í flestum tilvikum mælt fyrir um heimild til að gjaldfella lán ef eigendaskipti yrðu á hinni veðsettu eign án þess að aflað hefði verið samþykktar viðkomandi lánveitanda til eigendaskiptanna og yfirtöku skuldarinnar. Í framangreindum lánssamningum sem ákærði gerði fyrir hönd Bílakots ehf. var síðan samhljóða ákvæði þar sem skuldari skuldbatt sig til að selja ekki allar eignir sínar eða verulegan hluta þeirra án samþykkis lánveitanda. Þar var einnig kveðið á um heimild til handa lánveitanda til að gjaldfella lán fyrirvaralaust ef samningur yrði vanefndur að þessu leyti.
Ákærði hefur haldið því fram, svo sem skýrlega megi ráða af framangreindum yfirlýsingum um eigendaskipti, að samhliða yfirfærslu á eignarrétti að 16 fasteignum sem um ræðir í málinu frá Bílakoti ehf. til annarra félaga í eigu hans hafi hinir nýju eigendur eignanna tekið að sér greiðslu áhvílandi veðskulda. Þá hafi viðkomandi lánastofnanir í öllum tilvikum veitt samþykki sitt fyrir eigendaskiptum.
Bú ákærða var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 21. maí 2010.
II
Ákærði hefur haldið því fram að í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga hjá Íbúðalánasjóði hafi hann ákveðið að grípa til þeirrar eignayfirfærslu sem lýst er í ákæru. Þau félög í eigu hans sem fasteignum var ráðstafað til, það er X ehf., Y ehf. og Z ehf., hafi fengið heimild frá félagsmálaráðuneytinu til að starfa sem fasteignaleigufélög. Með sérstöku samþykki Íbúðalánasjóðs hafi Bílakot ehf. afsalað íbúðum til Y ehf., en atvinnuhúsnæði hafi verið ráðstafað til hinna félaganna. Með þessu hafi verið leitast við að treysta rekstrargrundvöll félaganna og sérhæfa rekstur þeirra svo sem frekast var unnt.
Kröfu sína um sýknu af ákæru fyrir umboðssvik byggir ákærði á því að hann hafi eingöngu verið að skuldbinda félög sem hann átti alfarið sjálfur. Hann hafi verið eini forsvarsmaður þeirra og haft ótakmarkaðar heimildir til að skuldbinda þau. Um umboðsskort geti því ekki verið að ræða. Þá felist ekki í ákærunni lýsing á auðgun ákærða eða annarra aðila. Í öllu falli sé reyndin sú að ákærði hafi engan fjárhagslegan ávinning haft af þeirri háttsemi sem lýst er í þeim kafla ákærunnar sem tekur til umboðssvika. Það að kaupa yfirveðsettar fasteignir geti ekki talist hagstæð kaup og hafi einhver hagnast af þeim viðskiptum hafi það verið Bílakot ehf. Það sé fjarstæðukennt að halda því fram við þessar aðstæður að kaupendur eignanna hafi átt að láta af hendi endurgjald fyrir þær. Við þessa eignayfirfærslu hafi engin breyting orðið að því er varðar þær veðkröfur sem hvíldu á umræddum fasteignum, allar veðsetningar hafi staðið óhaggaðar. Óhagstæð viðskipti séu ekki ólögleg. Leigugreiðslur hafi ekki runnið til ákærða sjálfs heldur hafi hann ávallt tekið við þeim fyrir hönd leigufélaga sinna og gefið út kvittanir í nafni þeirra. Ákærði hafi nýtt tekjur af leigu fasteignanna í það að ljúka framkvæmdum við þær svo að þær væru boðlegar til útleigu. Veðhafarnir hafi augljóslega notið góðs af því. Hann hafi einnig látið leigufélögin greiða eins mikið af veðkröfum og þau höfðu burði til. Það eigi hins vegar að vera alkunna að ekki þurfi samþykki veðhafa fyrir ráðstöfun á leigugreiðslum, en á öðru sé byggt í ákæru, og það geti aldrei talist umboðssvik að greiða ekki af lánum, hvað þá ólögmætum gengistryggðum lánum „sem bankarnir innheimtu af hörku eftir ólögmætar ofurhækkanir“. Bílakot ehf. hefði hæglega getað tekið ákvörðun um að greiða ekki af veðlánum ef fasteignir í eigu þess hefðu ekki verið seldar. Það hefði ekki verið refsivert. Ekkert sé ólögmætt við þá ráðstöfun fasteigna sem í ákæru greinir. Ákærði hafi fengið samþykki frá tilteknum veðhöfum fyrir skuldskeytingu enda þótt hann hafi ekki þurft að afla slíks samþykkis. Þessum veðhöfum hafi þannig verið kunnugt um eigendaskiptin. Í öðrum lánssamningum hafi verið kveðið á um það að skuldari mætti ekki selja meirihluta eigna sinna nema að höfðu samráði við viðkomandi lánastofnun. Ef farið var á svig við slíkt samningsákvæði hafi það veitt lánastofnun heimild til að gjaldfella viðkomandi lán. Í þessum tilvikum geti reynt á ákvæði í einkaréttarlegum samningi en vanefndir á honum varði ekki við almenn hegningarlög. Þá beri gögn málsins það með sér að skattframtalsskil Bílakots ehf. og skil á ársreikningum félagsins hafi verið til fyrirmyndar. Ákærði og félög í hans eigu hafi látið færa bókhald með þeim hætti sem lög áskilja og hafi ákærði og félög hans skilað skattframtölum og ársreikningum innan lögmæltra fresta og án sérstakra athugasemda af hálfu skattyfirvalda.
Ákærði hefur sérstaklega vísað til þess að veðkröfum á hendur Bílakoti ehf. við gjaldþrotaskipti á búi þess hafi verið lýst sem almennum kröfum en eðli máls samkvæmt hafi þær hvílt áfram á viðkomandi fasteignum sem þá voru komnar í eigu annarra leigufélaga. Flestar lýstar kröfur samkvæmt framansögðu hafi verið alltof háar í ljósi þess að um ólögmæt gengislán hafi verið að ræða. Skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til krafnanna og því sé ekkert að marka fjárhæðir þeirra samkvæmt kröfulýsingum.
III
Í röksemdum ákæruvalds kemur fram að ákæruefnin séu af þrenns konar toga sem öll tengist, en skoða þurfi háttsemina sem brotasamsteypu þar sem auðgunarbrot tæmi ekki sök gagnvart meiri háttar brotum gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga, sbr. 2. mgr. 262. almennra hegningarlaga. Að því er varðar saksókn fyrir umboðssvik vísar ákæruvaldið til þess að samkvæmt orðalagi 249. gr. almennra hegningarlaga, sem og dómaframkvæmd, þurfi háttsemi að uppfylla þrjú hlutlæg skilyrði til þess að um umboðssvik teljist vera að ræða. Gerandi þurfi að vera í aðstöðu til að skuldbinda annan mann, hann þurfi að misnota aðstöðu sína og loks þurfi háttsemin að minnsta kosti að hafa í för með sér verulega fjártjónshættu. Óumdeilt sé að ákærði var eigandi Bílakots ehf., hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra félagsins, var stjórnarmaður og prókúruhafi þess og gat þannig skuldbundið félagið, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Skilyrðið um misnotkun á aðstöðu sé að mati ákæruvalds einnig uppfyllt. Í skilgreiningu umboðssvika þurfi gerandi að hafa gerst sekur um misnotkun á aðstöðu eða trúnaði til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem annar maður eða lögpersóna verður bundin við. Ákærði hafi ráðstafað 31 fasteign án samráðs við lánardrottna sem áttu veð í þeim. Vegna kvaða sem hvíldu á fasteignunum hafi ákærða ekki verið þetta heimilt í þeim tilvikum þar sem Íbúðalánasjóður var lánardrottinn nema að fengnu skriflegu samþykki hans. Þess samþykkis hafi ákærði ekki aflað. Hann hafi fengið eignarrétti að fasteignunum þinglýst á nýja eigendur með því að leggja fram skjöl hjá sýslumanni sem hefðu falið í sér rangar og villandi upplýsingar. Annars vegar sé um ræða fjórar yfirlýsingar um eigendaskipti á fasteignum. Skjöl þessi séu dagsett 6. júní og 20. júní 2008, lögð fram hjá sýslumanninum í Kópavogi, og 21. júní 2008 og 24. október 2008, lögð fram hjá sýslumanninum í Reykjavík. Í þeim sé tilkynnt um „yfirfærslu“ Bílakots ehf. og/eða einstaklingsrekstur ákærða sjálfs yfir í félögin X ehf. og Y ehf., líkt og félagasamruni hefði átt sér stað, án þess að svo væri. Á grundvelli þessa hafi nýr aðili verið skráður sem þinglýstur eigandi að umræddum fasteignum. Hins vegar sé um að ræða þrjú skjöl, dagsett 10. og 15. júní og 17. júlí 2008, sem öll hafi verið lögð fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og fólu í sér afsal til nýrra eigenda, félaganna X ehf. og Z ehf., á tilgreindum fasteignum Bílakots ehf., þar sem fram kom að hinir nýju eigendur hefðu tekið við áhvílandi skuldum. Engin skuldskeyting hafi þó átt sér stað. Í öllum framangreindum tilvikum hafi mjög lítið verið greitt af þeim veðlánum sem hvíldu á fasteignunum eftir ráðstöfun þeirra, en á sama tíma og ákærði ráðstafaði þeim hafi hann sótt um frestun á greiðslu afborgana flestra áhvílandi lána og/eða að greiða aðeins vexti tímabundið. Með þessu hafi Bílakot ehf. áfram verið bundið af viðkomandi lánssamningum. Leigutekjur þær, sem til urðu vegna útleigu umræddra fasteigna eftir ráðstöfun þeirra frá Bílakoti ehf., hafi svo runnið til annarra félaga á vegum ákærða eða til ákærða sjálfs. Tjón Bílakots ehf. hafi falist í því að ákærði ráðstafaði öllum fastafjármunum félagsins án nokkurs endurgjalds og án þess að til skuldskeytingar kæmi að því er tekur til áhvílandi lána. Að auki hafi Bílakot ehf. orðið af leigutekjum sem ella hefðu runnið til félagsins. Með þessu hafi félagið orðið því sem næst eignalaust. Hvað auðgunarásetning varðar er því haldið fram að ákærða hafi verið kunnugt um að skuldir að baki fasteignunum urðu eftir í Bílakoti ehf., því sem næst ekkert hafi verið af þeim greitt eftir að fasteignunum var ráðstafað frá félaginu og tekjum sem fasteignirnar skiluðu hafi verið ráðstafað í annað en að greiða af skuldbindingum Bílakots ehf. Breyti þá engu hvort fjármunum var í einhverjum mæli ráðstafað til framkvæmda við tilteknar fasteignir gagngert til þess að auka verðmæti þeirra.
Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að eignarhald lögpersónu skeri ekki úr um refsiábyrgð umboðssvika. Því sé mótmælt að fyrirsvarsmaður lögpersónu hafi ótakmarkaðar heimildir til að skuldbinda hana. Lögpersóna í formi hlutafélags eða einkahlutafélags með takmarkaða ábyrgð kunni að bera réttindi og skyldur að íslenskum rétti. Í því felist að kröfuhafar og lánardrottnar kunni að hafa hagsmuna að gæta þegar kemur að ráðstöfunum sjálfstæðrar lögpersónu. Þá var á því byggt að hlutrænir efnisþættir auðgunar samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga séu uppfylltir í málinu. Hvað efnislega skerðingu varðar sé gengið út frá því að Bílakot ehf. hafi orðið fyrir tjóni, það er félagið hafi verið svipt öllum lausafjármunum sínum án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir og án yfirtöku skulda. Félagið hafi staðið eftir því sem næst eignalaust og með miklar skuldir. Það hafi að auki misst leigutekjur sem með réttu hefðu átt að renna til þess. Hvað varðar röskun á fjárskiptagrundvelli sé gengið út frá verðmati á fasteignunum sem ráðstafað var frá félaginu. Að því er tekur til ólögmætrar fjármunayfirfærslu sé á því byggt að ákærði hafi ekki haft heimild til þessara ráðstafana án þess að hafa samráð þar um við lánardrottna Bílakots ehf. eða afla samþykkis þeirra, en vegna skuldbindinga félagsins hefðu þeir haft mikilla hagsmuna að gæta. Um huglæga efnisþætti auðgunar skipti hér mestu máli að líta til þess að ákærði hafi sjálfur verið eigandi þeirra félaga sem eignuðust allar fasteignirnar, allar tekjur sem komið hefðu af þeim hefðu runnið til hans sjálfs eða félaga á hans vegum og því hafi ákærði algjörlega stýrt sjálfur.
Að því er varðar þá staðhæfingu ákærða að ákæra um bókhaldsbrot styðjist ekki við gögn málsins heldur ákæruvaldið því fram að ekki verði betur séð en að skiptastjóri þrotabús Bílakots ehf. hafi án árangurs skorað á ákærða að afhenda bókhaldsgögn félagsins fyrir árið 2008. Ákvæði laga um varðveislu bókhalds séu skýr og refsiábyrgð vegna brota á þeim hvíli til dæmis á fyrirsvarsmanni lögpersónu. Ákærði geti í tilviki Bílakots ehf. ekki velt þessari skyldu yfir á aðra, til dæmis skiptastjóra. Þá geti það engu breytt varðandi refsiábyrgð fyrir brot á bókhaldslögum eða lögum um ársreikninga hvernig skattskilum hafi verið háttað, en ákærði hafi haldið því fram að upplýsingar um skattframtalsskil sem liggi fyrir í málinu séu sönnun þess að færsla bókhalds og skil á ársreikningum hafi verið innan marka laga.
IV
Í skýrslu sinni fyrir dómi staðhæfði ákærði að allar lánastofnanir sem áttu veð í þeim fasteignum Bílakots ehf. sem getið er um í ákæru hefðu veitt samþykki sitt fyrir því að þeim yrði ráðstafað til annarra félaga í eigu hans. Áréttaði ákærði áður raktar ástæður þess að til þessara ráðstafana var gripið og að málið hafi allt verið unnið í samráði við lánastofnanir, ekki hvað síst Íbúðalánasjóð. Í flestum tilvikum hafi verið um að ræða munnlegt samþykki fyrir eigendaskiptum. Tiltók ákærði sérstaklega í þessu sambandi að engin lánastofnun hafi gjaldfellt lán vegna þessara ráðstafana, en þær hefðu getað gripið til þess úrræðis ef eigendaskipti hefðu átt sér stað í andstöðu við vilja þeirra. Í einhverjum tilvikum hefðu meira að segja verið gerðar skilamálabreytingar á lánum eftir að eigendaskipti höfðu átt sér stað og þau engum athugasemdum sætt. Hann hafi einn verið eigandi Bílakots og þeirra félaga sem fasteignum var ráðstafað til og verið einn í forsvari fyrir þau. Hann hafi sjálfur lagt mikla fjármuni, allan sinn ævisparnað, til kaupa á þessum fasteignum en fjármagnað þau að stærstum hluta með lánum. Lánardrottnar hafi ekki eingöngu átt veðréttindi í umræddum fasteignum til tryggingar kröfum sínum heldur hafi ákærði persónulega gengist í ábyrgð fyrir greiðslu þeirra. Ekki hafi annað staðið til en að endurgreiða öll þessi lán en hrun bankanna í árslok 2008 hafi komið í veg fyrir það. Öll lán hafi margfaldast í kjölfarið. Hann hafi greitt inn á lánin, svo sem honum var frekast unnt, en ráðstafað leigutekjum til að koma fasteignum í leiguhæft ástand. Veðhafar hefðu haft ótvíræðan hag af því. Nefndi ákærði fasteignina að Miðhrauni 14 í Garðabæ sérstaklega í þessu sambandi. Það ástand sem skapast hafi í kjölfar hrunsins hafi að endingu gert út um þennan rekstur og hann sjálfur orðið gjaldþrota. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi ráðið A endurskoðanda til að sjá um bókhald Bílakots ehf. og gerð ársreiknings. Það hafi allt verið samviskusamlega unnið. Bókhaldið hafi verið í vörslum hans allt þar til hann hafi afhent skiptastjóra það. Kvaðst hann hafa farið með bókhaldsgögnin á skrifstofu [...] í [...] í Reykjavík og afhent þau í afgreiðslu lögmannsstofunnar þar sem tveir starfsmenn hennar hefðu móttekið þau.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn sjö vitni sem öllum var ætlað að bera um þá staðhæfingu ákærða að lánastofnanir hefðu veitt samþykki sitt fyrir þeim eigendaskiptum á fasteignum Bílakots ehf. sem getið er í ákæru. Aðeins eitt þeirra, vitnið B, staðfesti framburð ákærða um þetta og þá að því er Íbúðalánasjóð varðar, en vitnið kvaðst hafa litið svo á að í samskiptum sem það hefði átt við starfsmenn sjóðsins fyrir hönd ákærða hefði komið fram að beiðni um samþykki fyrir eigendaskiptum hefði verið samþykkt. Í vitnisburði C, [...] Íbúðalánasjóðs, var þessu hafnað. Sjóðnum hafi borist erindi frá ákærða fyrir hönd Bílakots ehf. þar sem annars vegar hafi verið óskað eftir frestun á greiðslu veðlána og hins vegar heimild til flutnings á leiguíbúðum milli leigufélaga. Beiðni um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika hafi verið samþykkt með skilyrðum en ekki það erindi sem laut að eigendaskiptum. Vitnið D, fyrrverandi [...] Íbúðalánasjóðs, kvað ákveðin skilyrði hafa verið sett af hálfu stjórnar Íbúðalánasjóðs fyrir þeirri fyrirgreiðslu sem Bílakot ehf. óskaði eftir og það hafi verið í höndum starfsmanna sjóðsins að afgreiða málið á þeim grundvelli, en hann hafi ekki komið að málinu á því stigi. Vitnið E, fyrrverandi starfsmaður Byrs hf., hafnaði þeim framburði ákærða að samþykki fyrir eigendaskiptum hafi verið veitt af hálfu þess lánveitanda og F, fyrirverandi [...] og [...] hjá Landsbankanum hf., kannaðist ekki við að bankinn hafi gefið slíkt samþykki. Þau tvö vitni sem eftir standa voru ekki við störf hjá viðkomandi lánastofnunum á þeim tíma sem um ræðir í málinu og grundvölluðust svör þeirra því alfarið á skoðun gagna. Vitnið G, [...], sem gegndi starfi [...] hjá slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á árunum 2009 til 2013, kvaðst í vitnisburði sínum ekki hafa komið auga á gögn þar sem bankinn hafi heimilað að fasteignir í eigu Bílakots ehf. yrðu færðar yfir í önnur félög í eigu ákærða. Vitnið H, a[...] hjá Sparisjóði Siglufjarðar, bar á sama veg um könnun sína á gögnum í vörslum sjóðsins. Í vitnisburði G kom hins vegar fram að hann liti svo á að Frjálsa fjárfestingarbankanum hafi eigi síðar en í janúar 2009 verið kunnugt um að fasteign, sem hann átti veð í og sem áður hafi verið eign Bílakots ehf., hefði verið afsalað til nýs eiganda, X ehf. Vísaði vitnið hvað þetta varðar til skilmálabreytingar frá 2. desember 2008 þar sem þetta kemur fram, en hún er á meðal gagna málsins.
Samkvæmt framburði ákærða og svo sem áður greinir á A að hafa annast færslu bókhalds fyrir hann. Í vitnisburði sínum kannaðist A ekki við þetta. Hann kvaðst þó hafa unnið fyrir Bílakot ehf., en sú vinna hans hafi einskorðast við gerð ársreikninga, þar á meðal fyrir árið 2008, og skattauppgjör. Ársreikningana hafi hann byggt á bókhaldi sem búið hefði verið að vinna. Þá kannaðist A við að hafa komið að samningu skjala þar sem fasteignir Bílakots ehf. voru færðar yfir í önnur félög í eigu ákærða.
Á meðal gagna málsins er yfirlýsing I hæstaréttarlögmanns, skiptastjóra í þrotabúi Bílakots ehf., þar sem hann kveðst ekki hafa móttekið frekari bókhaldsgögn frá fyrrverandi fyrirsvarsmanni félagsins, Gunnari Erni Haraldssyni, en þau sem þegar hafi verið send embætti sérstaks saksóknara. Gerð hafi verið sérstök leit að þeim bókhaldsgögnum sem Gunnar Örn haldi fram að hann hafi afhent, bæði á starfsstöð [...] og í geymsluhúsnæði lögmannsstofunnar, en þau hafi ekki fundist. Þá kannist starfsmenn stofunnar ekki við að hafa móttekið þessi bókhaldsgögn. I kom fyrir dóm og staðfesti þessa yfirlýsingu sína.
V
1.
Af hálfu ákæruvalds er saksókn á hendur ákærða fyrir umboðssvik á því byggð að hann hafi með þeirri ráðstöfun á fasteignum í eigu Bílakots ehf., sem lýst er í ákæru, misnotað aðstöðu sína. Er þar um vísað til þess að ekkert endurgjald hafi komið fyrir fasteignirnar og að lánum sem hvíldu á þeim hafi ekki verið skuldskeytt. Þá er saksókn að þessu leyti jafnframt reist á því að leigutekjur af fasteignunum sem ákærði innheimti á tilgreindu tímabili hafi ekki runnið til félagsins. Með þessu hafi Bílakot ehf. orðið fyrir tjóni þar sem það hafi verið svipt öllum tekjum og rekstrargrundvelli þar með verið kippt undan því.
Samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar það fangelsi allt að tveimur árum ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna kemur fram að ákvæðið um misnotkun aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eigi ekki einungis við um umboð, heldur og aðra raunverulega aðstöðu til þess að gera eitthvað sem bindur annan mann. Þá sé greinin sett til verndar því að menn sem hafa á hendi fjárreiður fyrir aðra, svo sem fjárhaldsmenn, framkvæmdastjórar félaga og stofnana o.s.frv., misnoti aðstöðu sína sér eða öðrum til hags, en umbjóðanda sínum til tjóns. Samkvæmt fræðilegri umfjöllun fela umboðssvik í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið unnið af ásetningi og í auðgunarskyni.
Samkvæmt framansögðu er trúnaðarbrot megineinkenni umboðssvika. Ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga miðar þannig að því samkvæmt orðalagi sínu og framangreindum athugasemdum við það að vernda hagsmuni þess aðila sem veitt hefur geranda umboð, heimild eða aðra aðstöðu til einstakra fjárhagsráðstafana eða til almennrar fjárvörslu og fjárhagsskuldbindinga í þágu aðilans. Snúa umboðssvik þannig fyrst og síðast að sambandi umbjóðanda og umboðsmanns eða annarri sambærilegri aðstöðu.
Í verknaðarlýsingu ákæru er tekið fram, svo sem gögn málsins bera með sér, að ákærði hafi verið „eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílakots“. Í ljósi þessarar stöðu ákærða gagnvart félaginu sjálfu var ákvörðun um þá ráðstöfun á fasteignum þess sem í ákæru greinir alfarið í hans höndum og þannig ekki háð samþykki annarra. Hið sama á við um ráðstöfun á leigugreiðslum. Refsinæmi umboðssvika byggist samkvæmt framansögðu á heimildarleysi geranda til ráðstafana, sem í því tilviki sem hér um ræðir voru skuldbindandi fyrir einkahlutafélag sem var að fullu í eigu ákærða. Umboðsskortur eða sambærileg vöntun á heimild til ráðstöfunar er því ekki fyrir hendi. Að þessu virtu og án þess að annað þurfi að koma til kemur refsiábyrgð á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis almennra hegningarlaga ekki til álita í málinu. Er ákærði því sýknaður af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru.
2.
Í II. kafla ákæru er ákærði sóttur til saka fyrir meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bílakots ehf. látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhaldsgögn félagsins í samræmi við ákvæði II. kafla laga um bókhald nr. 145/1994 vegna starfsemi þess á árinu 2008. Er háttsemi ákærða samkvæmt þessum kafla ákærunnar talin varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. og 3. tölulið 1. mgr. 38. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Ákærði hefur haldið því fram, svo sem áður er rakið, að hann hafi afhent skiptastjóra í þrotabúi Bílakots ehf. þau bókhaldsgögn sem hér um ræðir. Því hefur skiptastjórinn hafnað. Á hinn bóginn liggur það fyrir að ársreikningur var gerður fyrir árið 2008, honum skilað inn til ríkisskattstjóra með skattframtali og hann sendur ársreikningaskrá. Kom fram í vitnisburði A að hann hafi annast gerð ársreikningsins og byggt hann á bókhaldi sem búið hefði verið að vinna.
Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 telst það meiri háttar brot gegn lögum ef fyrirsvarsmaður lögaðila varðveitir ekki fylgiskjöl eða önnur bókhaldsgögn eða gerir það á svo ófullnægjandi hátt að ógerningur sé að rekja bókhaldsfærslur til viðskipta og byggja bókhaldsbækur og ársreikning á þeim. Samkvæmt framansögðu liggur ekki annað fyrir í málinu en að ársreikningur Bílakots ehf. fyrir árið 2008 hafi byggst á fyrirliggjandi bókhaldsgögnum. Verður saksókn á hendur ákærða að því er varðar varðveislu bókhalds þar með ekki reist á því að hann hafi brotið gegn tilvitnuðu lagaákvæði. Á hinn bóginn telst komin fram sönnun fyrir því að ákærði hafi ekki tryggt vörslur bókhalds og bókhaldsgagna vegna ársins 2008 svo sem honum bar skylda til. Gerðist hann með því sekur um brot gegn 3. tölulið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 145/1994. Svo sem hér háttar til verður ekki talið að brotið varði jafnframt við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
3.
Þriðji kafli ákæru tekur til ætlaðra brota ákærða gegn lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og svo sem þar er nánar lýst í þremur liðum. Lýtur fyrsti liðurinn að rangfærslu efnahagsreiknings í ársreikningi Bílakots ehf. fyrir árið 2008. Við þá ráðstöfun á fasteignum félagsins sem í ákæru greinir var gert ráð fyrir að endurgjald fyrir þær fælist í því að kaupendur yfirtækju áhvílandi veðskuldir, enda hvíldu þær áfram á eignunum eftir þinglýsingu á heimildarskjölum nýrra eigenda. Voru veðskuldirnar færðar í efnahagsreikninga þeirra á móti eignfærðum fasteignum. Jafnframt voru skuldirnar færðar út úr efnahagsreikningi Bílakots ehf. við þessa ráðstöfun eignanna. Fram telst komið að lánardrottnar samþykktu ekki skuldskeytingu þannig að ábyrgð á greiðslu veðskuldanna hvíldi áfram á Bílakoti ehf., sem að sama skapi eignaðist kröfu á hendur nýjum eigendum ef til vanefnda kæmi af þeirra hálfu. Það er mat dómsins að rétt hafi verið, miðað við þær ráðstafanir sem gerðar höfðu verið í félaginu, það er að færa fasteignir þess til nýrra lögaðila sem við það tóku yfir greiðsluskyldu á áhvílandi veðlánum sem endurgjald fyrir þær, að færa verðmæti fasteigna og fjárhæð veðskulda niður í núll í efnahagsreikningi. Þar að auki bar í skýringum í ársreikningi að gera grein fyrir þeim skuldbindingum sem á félaginu hvíldu vegna þessa gjörnings. Saksókn fyrir brot gegn lögum um ársreikninga samkvæmt þessum lið ákæru tekur einvörðungu til rangfærslu í efnahagsreikningi, sem samkvæmt framansögðu var réttur hvað ákæruefnið varðar. Kemur því ekki til álita að sakfella ákærða fyrir atriði sem lúta að gerð annarra yfirlita í ársreikningi. Er ákærði því sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.
Þriðji töluliður III. kafla ákæru snýr að því að ákærði hafi látið undir höfuð leggjast að láta sjóðstreymi fylgja ársreikningi Bílakots ehf. fyrir árið 2008. Með því hafi hann brotið gegn 2. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006 með áorðnum breytingum og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 bera stjórn og framkvæmdastjóri ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár og skal hann meðal annars hafa að geyma sjóðstreymi. Í 2. mgr. 122. gr. sömu laga er síðan mælt fyrir um að vanræki stjórnarmenn eða framkvæmastjóri að semja ársreikning eða samstæðureikning er lögin kveða á um teljist sú háttsemi vera brot gegn þeim. Svo sem fram er komið var saminn ársreikningur fyrir Bílakot ehf. fyrir reikningsárið 2008. Ákvæðið á þannig ekki við um þá háttsemi ákærða sem ákært er fyrir. Aftur á móti er í 1. tölulið 1. mgr. sömu greinar meðal annars kveðið á um að stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri félags gerist sekir um refsivert brot ef þeir hagi gerð ársreiknings andstætt lögunum þannig að reikningsskil gefi ekki glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur af rekstrarafkomu á reikningsárinu, eignabreytingu á árinu og efnahag í lok þess.
Óumdeilt er að sjóðstreymi fylgdi ekki ársreikningi Bílakots ehf. fyrir árið 2008. Kemur þá til skoðunar hvort ársreikningurinn hafi af þeim sökum ekki gefið glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur. Í því sambandi er þess fyrst að gæta að ekki gat komið til þess að meginviðskipti félagsins á reikningsárinu, það er að færa fasteignir þess til nýrra lögaðila sem höfðu tekið að sér greiðslu áhvílandi veðskulda, yrðu sýnd sem liður í sjóðstreymi þar sem ekki var um að ræða greiðslu á handbæru fé. Þrátt fyrir það hefðu þær upplýsingar í sjóðstreymi að hvort tveggja eignir og skuldir færu út úr efnahagsreikningi félagsins án greiðslu í handbæru fé gefið gleggri mynd en ella þar sem þessa var heldur ekki getið í skýringum eða skýrslu stjórnar. Þau þrjú yfirlit sem fylgdu ársreikningi, það er rekstrarreikningur, efnahagsreikningur og skýrsla stjórnar, gefa til kynna að eignum félagsins hafi verið ráðstafað út úr því á árinu og að áhvílandi veðskuldir væru ekki lengur skuldir félagsins í árslok. Ekkert kemur þar fram um hvort félagið hafi fengið greitt fyrir eignirnar með handbæru fé, sem aftur hafi verið notað til að greiða veðskuldir, eða hvort veðskuldir hafi verið yfirteknar af kaupanda eignanna við yfirtöku þeirra. Vöntun á sjóðstreymi við þessar aðstæður leiddi að mati dómsins til þess að ársreikningur gaf ekki nægilega glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur af eignabreytingu á árinu 2008 þar sem þær upplýsingar sem fram áttu að koma í sjóðstreymisyfirliti varðandi sölu eigna og endurgjald fyrir þær voru ekki heldur veittar í öðrum yfirlitum ársreikningsins. Gerðist ákærði með þessu sekur um brot gegn 1. tölulið 1. mgr. 122. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006 með áorðnum breytingum, sem hér verður beitt, sbr. lokamálslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda var vörn ekki áfátt að þessu leyti. Aftur á móti er ekki á það fallist með ákæruvaldinu að brotið varði jafnframt við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Annar töluliður III. kafla ákæru lýtur að því að ákærði hafi í skýrslu stjórnar í ársreikningi Bílakots ehf. fyrir árið 2008 greint ranglega frá eða leynt mikilsverðum upplýsingum sem þýðingu hefðu haft um mat á fjárhagslegri stöðu félagsins á reikningsárinu. Nánar tiltekið fyrir að hafa „greint svo frá í skýrslu stjórnar í ársreikningi fyrir Bílakot ehf. fyrir árið 2008, að ákveðið hafi verið að stofna nýtt eignarhaldsfélag utan um fasteignir félagsins og selja þær úr félaginu á bókfærðu virði þeirra en raunin var að fasteignunum var ráðstafað frá félaginu, án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir og án þess að áhvílandi lánum væri skuldskeytt.“ Er ákærði með þessu talinn hafa brotið gegn 2. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga, en samkvæmt ákvæðinu skal í skýrslu stjórnar með ársreikningi upplýsa um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu félags og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í efnahagsreikningi eða rekstrareikningi eða skýringum með þeim.
Í skýrslu stjórnar í umræddum ársreikningi var greint frá sölu fasteignanna. Þá er ekki rétt að líta svo á að ekkert endurgjald hafi komið fyrir þær, svo sem gengið er út frá í framangreindri verknaðarlýsingu í ákæru. Það breytir því á hinn bóginn ekki að rétt hefði verið að veita fyllri upplýsingar um ráðstöfun fasteignanna í skýringum og sjóðstreymi, svo sem að framan er rakið.
Í 3. mgr. 52. gr. laga um ársreikninga kemur fram að veita skuli upplýsingar um heildarfjárhæð fjárskuldbindinga sem eru ekki tilfærðar í efnahagsreikningi, að því leyti sem það skiptir máli við mat á fjárhagsstöðu félags. Skýra verður framangreint ákvæði í 65. gr. laganna á þann veg að þar sé átt við viðbótarupplýsingar, en ekki atriði sem að réttu lagi eiga að koma fram í efnahagsreikningi eða rekstrarreikningi eða skýringum með þeim, eins og þau yfirlit eiga að vera samkvæmt fyrirmælum laganna. Verður að framangreindu virtu að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
VI
Ákærði er samkvæmt því sem að framan greinir sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald samkvæmt II. kafla ákæru og brot gegn lögum nr. 3/2006 um ársreikninga samkvæmt 3. lið í III. kafla hennar, en sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er að öðru leyti gefin að sök í málinu.
Þau brot sem sakfelling nær til varða einungis sektum, sbr. 36. gr. laga um bókhald og 120. gr. laga um ársreikninga. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir sekt sem honum ber að gera hæfilega ákveðin 500.000 krónur. Verði sektin eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í 30 daga.
Í ljósi úrslita málsins og með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða 1/20 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja með hliðsjón af umfangi málsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 9.207.000 krónur, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði ásamt öðrum sakarkostnaði.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Birki Leóssyni löggiltum endurskoðanda og Einar S. Hálfdanarsyni hæstaréttarlögmanni og löggiltum endurskoðanda.
D ó m s o r ð
Ákærði, Gunnar Örn Haraldsson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 9.207.000 krónur, að 1/20 hluta, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði ásamt öðrum sakarkostnaði.