Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-68
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Börn
- Heimfærsla
- Miskabætur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 27. apríl 2023 leitar Brynjar Joensen Creed leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 427/2022: Ákæruvaldið gegn Brynjari Joensen Creed. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn fimm stúlkum sem allar voru börn þegar brotin áttu sér stað. Landsréttur staðfesti sakfellingu leyfisbeiðanda en breytti heimfærslu brota samkvæmt 3., 5. og 17. ákærulið og féllst á með ákæruvaldinu að háttsemi ákærða yrði heimfærð til 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sjö ár auk þess sem ákvæði héraðsdóms um upptöku voru staðfest. Brotaþolum voru dæmdar miskabætur og leyfisbeiðanda gert að greiða sakarkostnað málsins.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um hvort undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga geti heyrt sú háttsemi að fjarstaddur maður þvingi aðra til kynferðislegra athafna í einrúmi og með öðrum. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu meirihluta Landsréttar um 3., 5. og 17. ákærulið ranga og fer fram á að hún verði endurskoðuð. Beiðni sinni til stuðnings vísar hann til þess að í niðurstöðu héraðsdóms og minnihluta Landsréttar hafi háttsemin sem honum var gefið að sök í framangreindum ákæruliðum verið heimfærð til 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga á þeim grundvelli að um rafræn samskipti hafi verið að ræða og háttsemin geti því ekki átt undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Telur leyfisbeiðandi að rétturinn hafi vikið frá því sem almennt er lagt til grundvallar í lögskýringarfræðum að refsiheimildir beri að túlka þröngt.
5. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda og um önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar verður að virtum gögnum málsins að telja að úrlausn þess um heimfærslu háttsemi leyfisbeiðanda samkvæmt ákæruliðum 3, 5 og 17 til refsiákvæða og ákvörðun refsingar kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.