Hæstiréttur íslands
Mál nr. 530/2015
Lykilorð
- Veiðiréttur
- Kaupsamningur
- Fasteign
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2015. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að þau eigi, sem eigendur jarðarinnar Langanesmelar í Rangárþingi ytra, veiðirétt fyrir landi jarðarinnar í Eystri-Rangá. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Guðmundur Júlíusson og Katrín Stella Briem, greiði óskipt stefndu, Lambhagabúinu ehf. og Walter Ausserhofer, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. maí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 21. apríl sl., er höfðað af Guðmundi Júlíussyni, kennitala 090828-5179 og Katrínu Stellu Briem, kennitala 200235-3989, báðum til heimilis að Laugarásvegi 54, Reykjavík, gegn Lambhagabúinu ehf., kennitala 500502-5090, Lambhaga, Rangárþingi ytra og Walter Ausserhofer, kennitala 030350-2279, til heimilis að Hjarðarbrekku 1, Rangárþingi ytra.
Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að þau eigi, sem eigendur jarðarinnar Langanesmela 164529, Rangárþingi ytra, veiðirétt fyrir landi jarðarinnar í Eystri-Rangá í sama sveitarfélagi. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Málavextir
Samkvæmt veðbandayfirlitum Creditinfo, sem eru meðal gagna málsins, er fasteign stefnenda, Langanesmelar með fastanúmer 16-4529, tilgreind sem jörð í byggð. Fasteign stefnda Lambhagabúsins ehf., Lambhagi með fastanúmer 16-4528, er í lýsingu tilgreind sem jörð. Fasteign stefnda Walter Ausserhofer, Hjarðarbrekka með fastanúmer 16-4516, er í lýsingu tilgreind sem jörð í byggð. Fasteignirnar eru allar í Rangárþingi ytra. Í málavaxtalýsingu stefndu í greinargerð segir að Lambhaga sé fyrst getið í máldaga Oddakirkju 1270 og hafi bærinn líklega verið kominn í byggð fyrir kristnitöku. Þórunn Sigurðardóttir hafi eignast jörðina árið 1916, en selt hana sonum sínum, þeim Nikulási og Ólafi Gíslasonum, árið 1937. Árið 1953 hafi farið fram landskipti á jörðinni Lambhaga og kom vesturpartur jarðarinnar í hlut Ólafs og fékk nafnið Hjarðarbrekka, en austurparturinn, sem kom í hlut Nikulásar, bar áfram nafnið Lambhagi.
Samkvæmt gögnum málsins tilheyrðu Langanesmelar í upphafi jörðinni Lambhaga í Rangárvallahreppi, nú Rangárþingi ytra, allt þar til Þórunn Sigurðardóttir í Lambhaga seldi spilduna með kaupsamningi, dagsettum 28. júní 1928. Þar segir: „Ekkja Þórun [sic] Sigurðard. Lambahaga og skósmiður Sigursteinn Þorsteinsson í Djúpadal fyrir hönd Odds kaupmanns Þorsteinssonar í Vestmannaeyjum, gera svofelldan: Kaupsamning: 1. Þórun Sigurðardóttir skuldbindur sig til að selja Oddi Þorsteinssyni landspildu úr Lambhagalandi svonefnda Langanesmela...“ Í kaupsamningi er merkjum spildunnar, sem er tangi við Rangá eystri, lýst og fram kemur að hún afmarkast á aðra vegu af ánni, eins og segir í kaupsamningnum. Þá segir orðrétt í kaupsamningnum: „Öll veiði á landspildunni bæði til lands og vatns fylgir með í kaupinu“. Í málavaxtalýsingu í stefnu er spilda sögð seld Sigursteini Þorsteinssyni, f.h. Odds Þorsteinssonar.
Næsta framlagða heimildarskjal um Langanesmela er afsal frá 27. mars 1965, þar sem Sigursteinn Þorsteinsson, Djúpadal í Hvolhreppi, selur sveitarsjóði Rangárvallahrepps Langanesmela. Í málavaxtalýsingu stefndu segir að svo virðist sem Oddur Þorsteinsson hafi falið bróður sínum, Sigursteini í Djúpadal, umboð til að ráðstafa Langanesmelum í greint sinn. Í afsalinu segir: „Eignin er seld með öllum þeim gögnum og gæðum, sem ég hef eignast hana með og öllum þeim réttindum og skyldum, sem henni fylgja og fylgja ber.“ Samhljóða ákvæði var í afsali sveitarsjóðs Rangárvallahrepps fyrir Langanesmelum til Nikulásar Gíslasonar í Lambahaga, sonar áðurnefndrar Þórunnar Sigurðardóttur, tæpum tveimur vikum síðar, þann 9. apríl 1965.
Samkvæmt framlagðri skiptayfirlýsingu, dagsettri 30. nóvember 1995, afhenti Nikulás Gíslason syni sínum, Gísla I. Nikulássyni, Langanesmela sem fyrirframgreiddan arf. Skiptayfirlýsingin er svohljóðandi: „Skv. erfðafjárskýrslu, dags. 30. nóvember 1995, afhendir Nikulás Gíslason, 070414-3929, Bjarnhólastíg 11, Kópavogi, syni sínum Gísla I. Nikulássyni, kt. 080971-4869, Bjarnhólastíg 11, Kópavogi, landspilduna Langanesmelum, Ragárvallahreppi [sic], Rangárvallasýslu, sem fyrirframgreiddan arf. Þessu til staðfestingar rita arfleifandi og sá sem tekur verið arfi nöfn sín hér undir.“ Það er frá nefndum Gísla sem stefnendur sækja eignarétt sinn að spildunni. Samkvæmt framlögðu kauptilboði stefnenda til Gísla I. Nikulássonar, sem samþykkt var þann 12. desember 1995, er lýsing eignar eftirfarandi: „Spilda um. þ.b. 30 ha. úr jörðinni Lambhaga í Rangárvallahreppi, nefnd Langanesmelar sem er tangi við Rangá eystri, ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber.“ Kaupsamningur og afsal, sem einnig liggur frammi, er dagsettur 8. mars 1996. Þar segir: „Seljandi lofar að selja og kaupandi að kaupa neðangreinda eign seljanda: Langanesmela Rangárvallahreppi, Rangárvallasýslu, ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. hlunnindi.“
Í málavaxtalýsingu í stefnu rekja stefnendur hvernig arðgreiðslum hafi verið háttað til Langanesmela frá árinu 1999. Þar segir að þann 25. mars 1999 hafi verið samþykkt arðskrá fyrir Eystri-Rangá á framhaldsaðalfundi í Veiðifélagi Eystri-Rangár og hafi Langanesmelum verið úthlutað 151 einingu í ánni í samræmi við tillögu að arðskrá sem öllum aðilum veiðifélagsins hafi verið send nokkru fyrir fundinn. Umrædd arðskrá, undirrituð af öllum stjórnarmönnum veiðifélagsins, hafi síðan verið send til birtingar í Stjórnartíðindum. Það hafi ekki verið fyrr en mörgum árum síðar sem stefnendur hefðu frétt af bréfi Landbúnaðarráðuneytisins til veiðifélagsins, dagsettu 15. apríl 1999, þar sem upplýst hafi verið að jörðina Langanesmela væri ekki að finna í samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga frá árinu 1994 og því geti arðskráin ekki náð til Langanesmela. Rekja stefnendur að svo hafi virst sem stjórnarmaður í veiðifélaginu hafi breytt samþykktri arðskrá, tekið Langanesmela út úr skránni en hækkað hlut Lambhaga (Lambhaga, Hjarðarbrekku) úr 889 einingum í 1040, þ.e. sem numið hafi samþykktum hlut Langanesmela. Hin breytta arðskrá hafi síðan verið auglýst í Stjórnartíðindum án vitneskju stefnenda, sem komið hafi í veg fyrir að þau hafi getað nýtt sér lögbundinn kærufrest vegna hinna óheimiluðu breytinga á samþykktri arðskrá. Með bréfi Veiðifélags Eystri-Rangár til stefnanda Guðmundar, dagsettu 25. nóvember 2010, hafi verið tilkynnt um að stefndu hafi mótmælt rétti stefnanda til arðs af veiði í ánni. Óumdeilt er að frá árinu 1999 til 2010 hefur stefnendum verið greiddur arður af veiði í ánni í samræmi við arðskrá þá sem samþykkt var á fundinum 25. mars 1999. Eftir áðurnefnt bréf veiðifélagsins til stefnanda Guðmundar hafa arðgreiðslur til stefnenda vegna 151 eininga Langanesmela hins vegar verið greiddar inn á bundinn reikning. Þá gera stefnendur grein fyrir kærum til Fiskistofu samkvæmt heimild í 43. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006.
Í málavaxtalýsingu í greinargerð rekja stefndu að hvorki í gjaldskrá fyrir Fiskræktarfélag Rangár, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda í janúar 1931, né í samþykktum fyrir Veiði- og Fiskræktarfélag Rangæinga, sem birt hafi verið á sama stað í september 1943, eða arðskrá fyrir Fiskræktarfélagið, sem einnig hafi verið birt á sama stað í september 1944, hafi Langnesmela verið getið. Hins vegar hafi Lambhagi verið talinn upp meðal þeirra 81 jarða sem skipt hafi með sér kostnaði samkvæmt áðurnefndri gjaldskrá, sem og í áðurnefndum samþykktum og arðskrá. Eftir landskipti, er hluti jarðarinnar hlaut nafnið Hjarðarbrekka, hafi Lambhaga verið getið í samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæing, sbr. auglýsingu nr. 128/1955. Þá hafi Lambhaga og Hjarðarbrekku verið getið í samþykkt fyrir félagið frá apríl 1960, en ekki Langanesmela.
Stefndu rekja einnig samþykkt fyrir framangreint veiðifélag, sbr. auglýsing nr. 64/1977, en þar hafi Lambhaga og Hjarðarbrekku verið getið en ekki Langanesmela. Þá hafi á stofnfundi Veiðifélags Eystri-Rangár verið samþykkt ákvæði um að félagsmenn skyldu vera ábúendur allra jarða og eigendur eyðijarða á félagssvæðinu. Um hafi verið að ræða 32 jarðir, þar á meðal Lambhaga og Hjarðarbrekku en Langanesmela hafi ekki verið getið. Sama hafi gilt um samþykkt nr. 115/1994. Loks víkja stefndu að tilurð arðskrár Veiðifélags Eystri-Rangár á árinu 1999. Þar segir að tillaga að arðskrá hafi verið samþykkt á aðalfundi félagsins þann 28. febrúar 1999. Þá hafi Lambhagi verið í eigu dánarbús Helga Jónssonar, en ekkja hans, sem setið hafi í óskiptu búi, ekki átt heimangengt á fundinn, en sonur hennar hafi mætt. Þáverandi eigandi Hjarðarbrekku hafi heldur ekki átt heimangengt á fundinn. Þá rekur stefndi bréf Landbúnaðarráðuneytisins frá 15. apríl 1999 þar sem tilkynnt hafi verið að arðskráin yrði ekki samþykkt vegna annmarka, þ.e. að jörðinni Langanesmelum, sem úthlutað hafi verið 151 einingu, sé ekki að finna í samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga nr. 115/1994 og því geti arðskráin ekki náð til þeirrar jarðar. Í kjölfarið hafi arðskránni verið breytt og hún þannig birt sem auglýsing nr. 282/1999. Þegar stefndu hafi verið orðið ljóst að veiðifélagið hafi greitt eigendum Langanesmela arð þvert á gildandi arðskrá hafi þeir með bréfi til félagsins, dagsettu 18. ágúst 2010 eins og áður greinir, krafist þess að framvegis yrði arður greiddur í samræmi við staðfesta arðskrá.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur byggja kröfu sína um viðurkenningu á veiðirétti í Eystri-Rangá í fyrsta lagi á því að veiðiréttur hafi fylgt jörðinni Langanesmelum við sölu hennar úr landi Lambhaga árið 1928. Vísa stefnendur í því sambandi til orðalags í kaupsamningi frá 28. júní 1928, en þar segi að jörðinni fylgi öll veiði, bæði til lands og vatns. Á þessu hafi engin breyting orðið við síðari eigendaskipti á jörðinni eins og viðkomandi heimildarskjöl beri með sér. Óumdeilt sé að Langanesmelar eigi bakka að Eystri-Rangá og því hafi framangreind ráðstöfun verið í samræmi við ákvæði laga og tilskipana frá örófi, en umrædd ákvæði hafi verið mjög skýr um að veiði fylgi landi. Þá hafi lax- og silungsveiði fylgt ám sem séu í landi viðkomandi veiðiréttarhafa. Stefnendur rekja ákvæði laga og tilskipana er snerta veiðirétt allt frá Jónsbók og Grágás til vatnalaga nr. 15/1923, og laga um lax- og silungsveiði nr. 61/1932, og laga nr. 112/1941, sem tekið hafi við af ákvæðum áðurnefndra vatnalaga en þau ákvæði hafi lagt bann við að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti frá landareign. Sú skipan sé enn í dag, sbr. núgildandi lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Með vísan til framangreindra laga og tilskipana og þess að veiðirétti var afsalað með jörðinni sé réttur stefnenda til veiðiréttar í Eystri-Rangá ótvíræður að teknu tilliti til þess lands og bakka sem fylgi Langanesmelum.
Stefnendur segja engu breyta að þessu leyti þó ekki hafi verið stofnað til sjálfstæðs lögbýlis að Langanesmelum, enda hvergi í lögum kveðið á um að veiðiréttur geti eingöngu fylgt lögbýli. Ef um slíka reglu væri að ræða hefði það í för með sér að víða um land væri veiðiréttarhafi ekki sá sem ætti land að á, heldur sá sem ætti ekki land að á. Slík skipan væri hins vegar á skjön við vilja löggjafans frá örófi alda.
Í öðru lagi byggja stefnendur kröfu sína á því að stefndu séu bundnir við þá arðskrá sem samþykkt hafi verið á framhaldsaðalfundi veiðifélagsins þann 25. mars 1999. Samkvæmt henni hafi stefnendum verið úthlutað 151 einingu í Eystri-Rangá. Eigendur beggja jarðanna, Lambhaga og Hjarðarbrekku, hafi fengið í hendur tillögu að arðskrá fyrir fundinn og hafi tillagan ekki sætt mótmælum af þeirra hálfu. Þá hafi fulltrúi eiganda Lambahaga mætt á framangreinda fund og engar athugasemdir gert við fyrirliggjandi arðskrá sem samþykkt hafi verið á fundinum. Í þessu sambandi breyti engu að önnur arðskrá hafi verið birt í Stjórnartíðindum enda ljóst af framlögðum gögnum að sú arðskrá hafi ekki verið í samræmi við samþykkta arðskrá á fundi veiðifélagsins. Hin birta arðskrá sé marklaus enda aldrei samþykkt af félagsmönnum eða borin undir félagsfund.
Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að eigendur Langanesmela hafi, á hverjum tíma, hefðað veiðirétt í ánni, en veiði hafi staðið allt frá því jörðin var seld úr landi Lambhaga, eða í nær áttatíu og sex ár. Samkvæmt þessu séu uppfyllt ákvæði hefðalaga um afnotahefð.
Um lagarök vísa stefnendur til Stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sérstaklega 72. gr., 1. gr. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, forvera þeirra laga, vatnalaga nr. 15/1923 og hefðalaga nr. 46/1905, aðallega 1.-3. gr., en til vara 8.-9. gr. laganna. Málskostnaðarkröfu byggja stefnendur á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu byggja í fyrsta lagi á því að ákvæði afsalsins frá 28. júní 1928, þar sem segir að „veiði á landspildunni bæði til lands og vatns fylgi með í kaupinu“ hafi farið gegn þágildandi ákvæði 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923, um bann við aðskilnað veiðiréttar frá landareign. Stefndu vísa til þess að íslenskri veiðilöggjöf hafi um langan aldur verið ætlað að tryggja að veiðiréttur væri ekki skilin frá lögbýlum bújarða. Þegar umræddri landspildu hafi verið skipt út úr jörðinni árið 1928 hafi áðurnefnt ákvæði vatnalaga verið í gildi, en með ákvæðinu hafi verið lagt bann við því að réttur til fiskveiða í ám og vötnum væri skilinn frá landareign. Landareign hafi í 1. gr. laganna verið skilgreind sem land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Með framangreindu ákvæði 1. mgr. 121. laga nr. 15/1923 hafi verið tekið upp í íslenska löggjöf afdráttarlaus takmörkun á heimildum manna til skilja rétt til fiskveiða frá landi. Hafi ákvæðið verið í góðu samræmi við 1. mgr. 4. gr. veiðitilskipunar nr. 20/1849 og hafi landbúnaðarsjónarmið ráðið mestu um lögfestingu framangreinds banns. Talið hafi verið eðlilegt að veiðiréttindi fylgdu öðrum nytjum jarða og hlunnindi bújarða yrðu ekki skert að þessu leyti. Stefna löggjafans hafi því um langan aldur verið sú að sporna við því að veiðiréttur væri skilinn frá bújörðum.
Stefndu vísa til þess að árið 1928 hafi Lambhagi verið lögbýli í skilningi laga. Á Langanesmelum, hinni útskiptu landsspildu, hafi hins vegar ekki verið stofnað sjálfstætt lögbýli og þar hafi aldrei verið stundaður búskapur. Vegna þess hafi það beinlínis verið óheimilt að láta veiðirétt fylgja með umræddri landspildu og ákvæði afsalsins frá 28. júní 1928 um að landinu fylgdi veiðiréttur í vötnum hafi því ekki getað haft gildi samkvæmt efni sínu. Ómöguleiki á framsali veiðiréttar kunni hins vegar að hafa haft aðrar afleiðingar í réttarsambandi aðila. Þá vísa stefndu til dómafordæmis Hæstaréttar sem staðfesti að grundvallarmunur sé því, hvað veiðirétt áhræri, hvort spildu hafi verið skipt út úr jörð í byggð eða eyðijörð, þar sem eyðijarðir teljist ekki lögbýli og þar með ekki landareign í áðurnefndum skilningi. Þá rekja stefndu ákvæði 94. gr. laga nr. 61/1932, sem hafi fellt úr gildi 121. gr. vatnalaga, og setningu hliðstæðs ákvæðis í 2. gr. lax- og silungsveiðilaga sem hafi verið í lögum allt frá þeim tíma til dagsins í dag.
Í öðru lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á því að á árunum 1965 til 1995 hafi eignarhald Lambhaga og Langanesmela verið á einni hendi, þ.e. þegar Nikulás Gíslason hafi verið bóndi í Lambhaga og einnig eigandi Langanesmela. Verði fallist á það með stefnendum að veiðiréttur fyrir landi Langanesmela hafi verið skilinn frá Lambhaga árið 1928 byggi stefndu á því að spildan hafi að nýju fallið undir jörðina Lambhaga árið 1965 og hafi eftir það ekki verið skilin frá jörðinni.
Í þriðja lagi hafna stefndu því að stefnendur hafi getað öðlast veiðirétt fyrir landi Langanesmela á grundvelli hefðar og vísa í því sambandi til ákvæða hefða um ósýnileg ítök og dómafordæmis Hæstaréttar um að ekki sé unnt að stofna til veiðiítaks fyrir hefð ef sú tilfærsla réttinda gengur gegn gildandi lagaákvæði.
Í fjórða lagi vísa stefndu til þess að þar sem Langanesmelar hafi ekki verið lögbýli hafi þeirra aldrei verið getið í samþykktum veiðifélaga á félagssvæði Eystri-Rangár, sbr. samþykktir Veiði- og fiskræktarfélags Rangæinga frá árinu 1943, samþykktir Veiðifélags Rangæinga árin 1955, 1960, 1977 og 1994 og samþykkt Veiðifélags Eystri-Rangár frá 1991. Í öllum framangreindum samþykktum sé hins vegar Lambhaga og síðar Hjarðarbrekku getið sem jarða á félagssvæðinu. Þá hafi Langanesmela hvorki verið getið í gjaldskrá Veiðifélags Rangæinga árið 1931 né í arðskrá fyrir Fiskræktarfélag Rangæinga árið 1944. Stefndu hafna þýðingu þess að árið 1991 hafi Landbúnaðarráðuneytinu verið send tillaga að arðskrá þar sem Langanesmelar hafi verið sagðir eiga 151 einingu í Eystri-Rangá. Það sem skipti máli sé að ráðuneytið hafi hafnað umræddri tillögu og að Langanesmela sé ekki getið í samþykkt Veiðifélags Rangæinga nr. 115/1994. Þá hafna stefndu því að félagsfundurinn árið 1999 hafi getað tekið ákvörðum um að framselja veiðirétt frá eigendum lögbýlanna Lambhaga og Hjarðarbrekku til stefnenda. Loks mótmæla stefndu því að heimildarlaus útgreiðsla arðs til eigenda Langanesmela, um tíu ára skeið þvert á gildandi arðskrá, geti skapað stefnendum nokkurn rétt.
Um lagarök vísa stefndu til almennra meginreglna eignarréttar, núgildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 og forvera þeirra laga nr. 61/1932, 112/1941 og 76/1970, og hefðalaga nr. 46/1905. Varðandi málskostnaðarkröfu vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Aðila greinir á um það hvort Langanesmelum hafi fylgt veiðiréttur þegar þáverandi eigandi Lambhaga seldi umrædda spildu, sem fyrir liggur að er u.þ.b. 30 hektara af stærð, úr landi jarðarinnar með kaupsamningi dagsettum 28. júní 1928. Þar segir að hið selda sé landspilda úr Lambhagalandi, svonefndir Langanesmelar. Merkjum spildunnar, sem er tangi við Eystri-Rangá, er lýst í kaupsamningnum. Óumdeilt er að spildan á land að Eystri-Rangá og hafa stefnendur reist sumarbústað á landinu.
Stefnendur leiða veiðirétt sinn frá áðurnefndum kaupsamningi. Þeir eigi jörð með landi að straumvatni og eigi því, samkvæmt þeirri fornu reglu í íslenskum lögum að eignarhaldi á landi fylgi réttur til veiði á eða fyrir því landi, veiðirétt í Eystri-Rangá fyrir landi Langanesmela. Þessu hafna stefndu og vísa til þess að þegar Langanesmelar voru seldir undan jörðinni Lambhaga á árinu 1928 hafi þágildandi löggjöf lagt bann við að skilja veiðirétt frá landareign. Á þeim tíma hafi Lambhagi verið lögbýli og því hafi framangreint orðalag í kaupsamningnum um afsal veiðiréttar ekki getað haft gildi samkvæmt efni sínu.
Meginregluna um að landeigandi eigi vatn og veiði fyrir landi sínu má rekja allt aftur til Grágásar. Reglan kom einnig fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar og voru þau ákvæði um margar aldir einu fyrirmælin um veiðirétt og veiði hér á landi. Árið 1849 var tilskipun um veiði sett, en þar segir í 4. gr. að á Íslandi skulu héðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði og fugla, nema öðruvísi sé um mælt í tilskipun þessari. Með setningu vatnalaga nr. 15/1923, sem tóku gildi 20. júní 1923, var hin framangreinda forna meginregla lögfest í XIII. kafla laganna, nánar tiltekið í 1. mgr. 121. gr. laganna. Með setningu lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932 var XIII. kafli vatnalaga felldur úr gildi, en kveðið var á um framangreinda meginreglu í 2. gr. laganna frá 1932. Frá þeim tíma hefur efnislega samhljóða ákvæði um veiðirétt landeigenda á og fyrir landi sínu verið í lax- og silungsveiðilögum, enda leiði aðra skipan ekki af lögum eða samningsskuldbindingum sem löglega hefur verið stofnað til, nánar tiltekið í 1. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 112/1941 og laga með sama nafni nr. 53/1957 og nr. 76/1970. Kveðið er á um framangreinda meginreglu í 1. mgr. 5. gr. núgildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006.
Með XIII. kafla vatnalaga nr. 15/1923 voru lögfest ýmis almenn ákvæði sem snertu veiði og veiðirétt, þ.e. fiskveiðar. Þar var í fyrsta sinn tekið upp hliðstætt bann og var í 4. gr. veiðitilskipunarinnar frá 1849, þ.e. bann við að skilja rétt til fiskveiði í ám og vötnum frá landareign, en á þessum tíma var talið vafasamt að bannið í 4. gr. veiðitilskipunar næði til fiskveiða í ám og vötnum vegna ákvæðis 21. gr. tilskipunarinnar, eins og segir í athugasemdum með 121. gr. í greinargerð með frumvarpinu því sem síðar varð að lögum nr. 15/1923. Með ákvæðinu var lagt bann við að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign. Í framangreindum athugasemdum kemur fram að líklega myndi þykja fullhart að leggja algert bann við slíkri ráðstöfun. Niðurstaðan varð sú að bann 2. mgr. 121. gr. laga nr. 15/1923 gekk skemmra en bann 4. gr. veiðitilskipunnar 1849, þ.e. heimilt var að láta veiðirétt af hendi um allt að tíu ára bil og ekki lengur, nema leyfi ráðherra kæmi til eða að önnur hlunnindi komi á móti, er þeirri landareign sé ekki metin minna verð en veiðirétturinn.
Með setningu lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932 var enn hert á takmörkum til að skilja að land og veiðirétt. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laganna mátti eigi skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Þó mátti skilja rétt til stangveiði við landareign um tiltekið tímabil, er eigi mátti vera lengra en 10 ár, nema leyfi ráðherra kæmi til og meðmæli veiðimálastjóra og veiðimálaefndar fyrir leyfisveitingu. Efnislega óbreytt regla hefur síðan verið í lax- og silungsveiðilögum, nánar tiltekið í 4. mgr. 2. gr. laganna nr. 112/1941 og laga með sama nafni nr. 52/1957 og nr. 76/1970. Núgildandi bann við aðskilnaði veiðiréttar er í 9. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006.
Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. til hliðsjónar dóma réttarins nr. 35/1947, nr. 163/1961, nr. 65/1971, nr. 26/1995 og nr. 173/2003, má ráða að vegna meginreglunnar í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar varð að koma skýrt fram í afsalsgerningum, sem gerðir voru fyrir gildistöku XIII. kafla vatnalaga árið 1923, ef veiðiréttur átti ekki að fylgja með hinu selda landi. Það er því svo að þó aðskilnaður veiðiréttar í ám og vötnum hafi sætt takmörkunum allt frá gildistöku XIII. kafla vatnalaga árið 1923, halda löggerningar um afsal veiðiréttar sem gerðir voru fyrir setningu laga nr. 15/1923 gildi sínu enn í dag, enda var talið vafasamt að bannákvæði 4. gr. veiðitilskipunar frá 1849 næði til veiði í ám og vötnum eins og áður er rakið.
Þegar sala á spildu úr landi Lambhaga, umræddum Langanesmelum, fór fram á árinu 1928 var XIII. kafli vatnalaga nr. 15/1923 í gildi og þar með áðurnefnd takmörkun á aðskilnaði veiðiréttar við landareign í 2. mgr. 121. gr. laganna. Í áðurnefndri greinargerð með frumvarpi til vatnalaga segir í athugasemdum um 121. gr., að menn hafi unnvörpum selt frá jörðum eða leigt veiðirétt í vötnum og ám síðan 1849, aðallega laxveiðina sem sé dýrmætasti veiðirétturinn sem þeir ráði yfir. Því muni síst minni ástæða vera til að banna að skilja veiðirétt í vötnum og ám frá landareign en veiði á landi.
Hugtakið landareign var skilgreint í 1. gr. vatnalaganna sem land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Hins vegar var hugtakið lögbýli ekki skilgreint í vatnalögum né í fyrstu heildstæðu lögunum um ábúð hér á landi, lögum nr. 1/1884. Í áðurnefndri greinargerð með frumvarpi til vatnalaga er jöfnum höndum rætt um landareign og jörð og segir þar í umfjöllun um hina takmörkuðu heimild til að skilja að veiði og landareign, að svo kunni að vera að landareign sé hagur að því að láta af hendi veiðirétt, með því að hún fái önnur gæði, sem hana vanhagar um, t.d. slægjur, beit o.s.frv. Af þessum orðum greinargerðarinnar og umfjöllun um nauðsyn þess að setja hömlur við sölu veiðiréttar frá jörðum má ráða að það hafi verið vilji löggjafans að sett yrðu tiltekin takmörk fyrir aðskilnaði veiðiréttar frá landareign í þeim tilgangi að sporna við því að landkostir jarða sem væru í landbúnaðarnotum skertust, þ.m.t. verðmæt hlunnindi eins og réttur til veiði í ám og vötnum. Hugtakið landareign var síðan notað, án skýringa, í sambærilegu ákvæði lax- og silungsveiðilaganna nr. 61/1932, þ.e. 4. mgr. 2. gr. laga, og sömu lagagrein laga með sama nafni nr. nr. 112/1941, nr. 53/1957 og nr. 76/1970. Í athugsemd um 2. gr. frumvarps til lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932, er enn ítrekuð þýðing veiðiréttar fyrir jarðir í búrekstri, í umfjöllun um stöðu leiguliða en þar segir að eðlilegast sé og heppilegast að veiðin fylgi öðrum landsnytjum og að ábúandi jarðar, sem hafi önnur landsnot hennar njóti einnig veiðinnar. Því skuli meginregla vera sú að ábúð á leigujörð fylgi veiði. Til þessara sjónamiða er einnig vísað til stuðnings því að takmarka enn frekar rétt til að skilja veiði frá landareign en verið hafði í 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923.
Í greinargerð að frumvarpi því sem varð að lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, nánar tiltekið athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins, sem kom í stað 4. og 5. mgr. 2. gr. þágildandi lax- og silungsveiðilaga, má ráða að löggjafinn hafi talið að fyrir hendi væri réttaróvissa varðandi túlkun löggerninga þar sem reynt hefur á bann við aðskilnað veiðiréttar frá landareign. Þar segir að á gildistíma laga nr. 76/1970 hafi gengið dómar sem af ýmsum hafi verið túlkaðir þannig að bann 4. mgr. 2. gr. þeirra laga við skilnað veiðiréttar frá landareign taki ekki til annarra fasteigna en þeirra þar sem stundaður sé búskapur. Til að taka af öll tvímæli sé því með frumvarpsgreininni lagt til að sú meginregla gildi að veiðiréttur verði ekki skilinn frá fasteignum, hvorki með hefðbundnu afsali veiðiréttarins né heldur við uppskiptingu fasteignar eða ráðstöfun einstakra spildna úr henni. Ef til slíks kæmi væri það í öllum tilvikum leyfisskylt og gert ráð fyrir því að við mat á heimild til undanþágu beri sérstaklega að líta til þess hvort kostir fasteignar til landbúnaðarnota skerðist, og jafnframt að fiskistofnar viðkomandi vatns verði ekki ofnýttir. Þá segir að þessi fortakslausa tilhögun sé í betra samræmi við þau meginmarkmið frumvarpsins að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða hluta, á veiðinytjum. Einnig sé ljóst að takmarkalaus uppskipting veiðiréttar einstakra jarða á fleiri hendur gæti stefnt í hættu því markmiði frumvarpsins að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskistofnar ferskvatna séu.
Í Hæstaréttardómi nr. 36/1972 var vikið að aðskilnaðarbanni 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923 í umfjöllun réttarins um þá málsástæðu gagnáfrýjanda að veiðiréttur hefði áunnist fyrir hefð. Til þessa dóms má líta við túlkun kaupsamningsins frá 1928 í máli þessu, þ.e. við mat á því hvort Lambhagi hafi á árinu 1928 talist landareign í skilningi laga nr. 15/1923. Í áðurnefndum dómi er vísað til þess að bann 2. mgr. 121. gr. nr. 15/1923, við aðskilnaði veiðiréttar frá landareign og síðar 4. tl. 2. gr. laga nr. 76/1970, taki til jarða. Sami skilningur kemur fram í dómi héraðsdóms í Hæstaréttarmálinu nr. 18/1985 frá 11. nóvember 1986, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsenda. Við túlkun löggerninga sem gerðir hafa verið eftir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923, hefur í dómsmálum einnig reynt á það hvort jarðir teljist landareign í skilningi 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og efnislega samhljóða ákvæði 4. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932 og laga með sama nafni nr. 112/1941, nr. 53/1957 og 76/1970 ef búskapur hafi ekki verið stundaður á jörðum og þær farnar í eyði þegar umræddir löggerningar voru gerðir. Vísast í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 552/2008 og 553/2008. Í máli Hæstaréttar nr. 169/1990 kemur fram í héraðsdómi að þannig hafi háttaði til að allur búrekstur á umræddri jörð hafði lagst af um þrjátíu árum áður en umrætt afsalið var gefið út og jörðin farið í eyði. Vegna þessa hafi jörðin ekki verið landareign í skilningi þágildandi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 og hafi hagsmunir þeir, sem ákvæðinu hafi verið ætlað að tryggja, þá ótvírætt ekki verið fyrir hendi. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, sagði að eins og atvikum væri háttað í máli þessu hafi ekkert í lögum staðið því í vegi að umrætt afsal hefði lagagildi að því er tók til veiðiréttar fyrir landi því sem afsalað var og væri það í samræmi við hina fornu reglu í íslenskum rétti, að hver maður eigi vatn og veiði fyrir landareign sinni.
Í máli þessu er ágreiningslaust að þegar umræddri spildu úr landi jarðarinnar Lambhaga var afsalað þann 28. júní 1928 var búrekstur stundaður á jörðinni og því um að ræða jörð í byggð. Telja verður, með vísan til þess sem að framan er rakið um tilurð hins takmarkaða banns í 2. mgr. 121. gr. laga nr. 15/1923, að þeir hagsmunir sem ákvæðinu hafi verið ætlað að tryggja, hafi verið fyrir hendi við kaupsamningsgerðina í máli þessu árið 1928. Í kaupsamningi um spilduna frá 28. júní 1928, sem stefnendur leiða rétt sinn frá segir orðrétt: „Öll veiði á landspildunni bæði til lands og vatns fylgir með í kaupinu“. Samkvæmt framangreindu orðalagi og framlögðum gögnum málsins verður hvorki ráðið að með samningunum hafi staðið til að skilja veiðiréttinn að nokkru eða öllu leyti við jörðina um tiltekið árabil, né að komið hafi á móti hlunnindi sem ekki hafi verið metin fyrir minna verð en veiðirétturinn. Með vísan til þessa, dóms Hæstaréttar í málinu nr. 18/1985, sem áður er getið, og að virtu öllu því sem að framan greinir, er það álit dómsins að framangreint ákvæði í kaupsamningi um Langanesmela hafi ekki samrýmst þágildandi fyrirmælum 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Ákvæðið hafi því verið ólöglegt og ekki stofnast sá veiðiréttur sem kaupsamningurinn kvað á um.
Ekki verður fallist á það með stefnendum að boðun á fund veiðifélags Eystri-Rangár þann 25. mars 1999, sem samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að Langanesmelar voru ekki aðilar að, og í framhaldinu samþykkt arðskrár fyrir ánna á fundinum, sem gerði ráð fyrir 151 einingum í Eystri-Rangá til Langanesmela, hafi nokkurt gildi til stuðnings kröfu stefnenda um veiðirétt í Eystri-Rangá. Þá verður ekki fallist á það með stefnendum að þeir hafi áunnið sér veiðirétt fyrir hefð og vísast í því sambandi til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 36/1972 og 453/2009, þar sem vísað var til þess að ákvæði 2. mgr. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og sambærilegt bann í lax- og silungsveiðilaga allt frá árinu 1932, leiði til þess að veiðiréttur í ám og vötnum geti ekki stofnast fyrir hefð. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.
Í samræmi við kröfugerð stefndu og samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu 1.100.000 krónur í málskostnað.
Ólafur Eiríksson hrl., flutti mál þetta af hálfu stefnenda. Af hálfu stefndu flutti Guðjón Ármannsson hrl., málið.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Stefndu, Lambhagabúið ehf., og Walter Ausserhofer, eru sýkn af öllum kröfum stefnenda, Guðmundar Júlíussonar og Katrínar Stellu Briem, í máli þessu
Stefnendur greiði stefndu 1.100.000 krónur í málskostnað.