Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-38

Embætti ríkislögreglustjóra og íslenska ríkið (Soffía Jónsdóttir lögmaður)
gegn
Ásgeiri Karlssyni (Kristján B. Thorlacius lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Laun
  • Kjarasamningur
  • Embættismenn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 16. mars 2023 leita embætti ríkislögreglustjóra og íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar sama ár í máli nr. 657/2021: Embætti ríkislögreglustjóra og íslenska ríkið gegn Ásgeiri Karlssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að samkomulagi 26. ágúst 2019 milli þáverandi ríkislögreglustjóra og gagnaðila um breytingu á samsetningu launa sem fól í sér að gagnaðili var færður upp um sjö launaflokka og fimm þrep með því að föst yfirvinna var færð inn í grunnlaun hans.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila um að skylt væri að greiða honum laun í samræmi við efni samkomulagsins. Landsréttur vísaði til þess að kjör gagnaðila hefðu ráðist af kjarasamningi Landssambands lögreglumanna við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Við þær aðstæður yrði litið svo á, þótt gagnaðili hefði verið embættismaður, að kjör hans sem aðstoðaryfirlögregluþjóns hefðu farið eftir reglum sem ættu við um samninga á sviði vinnuréttar. Í dómi Landsréttar kom fram að þótt fallast mætti á með leyfisbeiðendum að þáverandi ríkislögreglustjóri hefði teygt nokkuð á því svigrúmi sem ætla mætti að lög, kjarasamningur og stofnanasamningur hefðu veitt honum til launasetningar gagnaðila var ekki talið að hann hefði verið grandsamur um ætlaðan heimildarskort þáverandi ríkislögreglustjóra til að gera hið umdeilda samkomulag.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni þeirra. Leyfisbeiðendur vísa sérstaklega til þeirra áhrifa sem niðurstaða málsins geti haft á það kjarasamningslíkan sem ríkið hefur byggt á frá aldamótum. Byggt hafi verið á miðlægum kjarasamningum og dreifstýrðum stofnanasamningum sem og á lífeyrisskuldbindingum ríkisins, einkum í B-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Opinbera vinnumarkaðnum sé settur mun skýrari lagarammi en þekkist á almennum markaði að því leyti meðal annars að svigrúm til launasetningar sé mun minna og samningsfrelsi í þessu sambandi takmarkaðra og verði alltaf að byggja á heimild í lögum eða kjarasamningi og fullnægjandi fjárheimild forstöðumanns. Þá eigi þær forsendur Landsréttar ekki við rök að styðjast að fordæmi séu fyrir því að gerðar hafi verið ráðstafanir til að hækka grunnlaun yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna með því að færa fastar álags- eða yfirvinnugreiðslur inn í grunnlaun, enda hafi slíkar breytingar verið gerðar í tengslum við kjarasamningsgerð fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Landssambands lögreglumanna.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um svigrúm forstöðumanna ríkisstofnana til að breyta launakjörum embættismanna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.