Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

                                     

Miðvikudaginn 29. maí 2013.

Nr. 341/2013.

Theodór Magnússon og

Helga Margrét Guðmundsdóttir

(Þórður Heimi Sveinsson hdl.)

gegn

Íbúðalánasjóði

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli T og M á hendur Í var vísað frá dómi. T og M höfðu aðallega krafist þess að viðurkennt yrði að Í væri óheimilt að krefjast greiðslu á nokkrum hluta heildarlántökukostnaðar í merkingu tiltekins lagaákvæðis af tilteknu húsnæðisláni Í til T og M. Til vara kröfðust þau viðurkenningar þess að Í hefði verið óheimilt að krefjast greiðslu á nokkrum hluta heildarlántökukostnaðar vegna sama láns sem fælist í verðbótum af láninu á grundvelli vísitölu neysluverðs. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kröfugerð T og M fæli í sér að dómstólar skýrðu tilgreind ákvæði laga án þess að það tengdist úrlausn um ákveðið sakarefni. Bryti hún því í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að viðurkennt verði með dómi ,,að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu á neinum hluta heildarlántökukostnaðar í merkingu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 121/ 1994, um neytendalán, af húsnæðisláni stefnda til stefnenda nr. 1004-74-78830, samkvæmt fasteignaveðbréfi útgefnu 11. febrúar 2003.“ Til vara krefjast þau þess ,,að viðurkennt verði að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu neins þess hluta heildarlántökukostnaðar vegna fyrrgreinds húsnæðisláns ... sem felist í verðbótum af láninu á grundvelli vísitölu neysluverðs, er Hagstofa Íslands reikni út samkvæmt lögum um þá vísitölu.“

Kröfugerð sóknaraðila felur í sér að dómstólar skýri tilgreind ákvæði laga, þar á meðal ákvæði laga nr. 121/1994, án þess að það tengist úrlausn um ákveðið sakarefni. Hún brýtur því í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir þessum málsúrslitum verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Íbúðalánasjóði, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl.

I. Kröfur aðila

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 4. apríl sl., er höfðað 18. október 2012 af Theodóri Magnússyni og Helgu Margréti Guðmundsdóttur, Kríuási 37, Hafnarfirði á hendur Íbúðalánasjóði, Borgartúni 21, Reykjavík til viðurkenningar á neðangreindum dómkröfum og til greiðslu málskostnaðar.

                Dómkröfur stefnenda eru þessar:

                Aðallega, að viðurkennt verði að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu á neinum hluta heildarlántökukostnaðar í merkingu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, af húsnæðisláni stefnda til stefnenda nr. 1004-74-78830, samkvæmt fasteignaveðbréfi útgefnu 11. febrúar 2003.

                Til vara, að viðurkennt verði að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu neins þess hluta heildarlántökukostnaðar vegna fyrrgreinds húsnæðisláns nr. 1004-74-78830 til stefnenda, sem felist í verðbótum á láninu á grundvelli vísitölu neysluverðs, er Hagstofa Íslands reikni út samkvæmt lögum um þá vísitölu.

                Dómkröfur stefnda, Íbúðalánasjóðs eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilkvikum krefst stefndi málskostnaðar sameiginlega (in solidum) úr hendi stefnenda að mati réttarins.

                Þann 4. apríl sl., fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómkröfur stefnenda eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málskostnaður látinn bíða efnisdóms.

II. Málsatvik

Í máli þessu er deilt um gildi og efni fasteignaveðbréfs fyrir húsnæðisláni samkvæmt V. og VI. kafla laga nr. 44/1998, um húsnæðismál sem stefnendur gáfu út sem skuldarar þann 11. febrúar 2003 og er kröfuhafi samkvæmt bréfinu Íbúðalánasjóður, stefndi í máli þessu. Fasteignaveðbréfið sem er að fjárhæð 6.034.066 krónur er til 40 ára með mánaðarlegum afborgunum hjá stefnda. Fyrsti gjalddagi afborgunar, vaxta og verðbóta var hinn 15. maí 2003. Í bréfinu kemur einnig eftirfarandi fram: Tegund bréfs Frumbréf, Númer umsóknar 70-030840. Skipt fyrir húsbréf úr flokki nr. HUSBR01/2. Fjöldi afborgana 478. Gjalddagar á ári 15. hv. mán. Grunnvísitala 224,7. Vextir á ári 5,10. Vextir reiknast frá 10.2.2003.

                Var lánið veitt til byggingar á fasteign stefnenda að Kríuási 37, Hafnarfirði, með veði í fasteigninni. Frá því að lánið var tekið hafa stefnendur greitt af því reglulega.

                Texti meginmáls skuldabréfsins er í 15 töluliðum. Samkvæmt 1. tölul. viðurkennir skuldari „að skulda kröfuhafa fasteignaveðbréfs þessa eða þeim sem síðar kann að eignast það á löglegan hátt, tilgreinda fjárhæð. Skuldari tekst á hendur endurgreiðslu skuldarinnar eins og greinir í 2. tölul. hér á eftir, á þeim gjalddögum ár hvert og þeim árafjölda, sem að ofan greinir. Heimilt er skuldara að greiða aukaafborganir eða greiða skuldina að fullu fyrir lokagjalddaga.“

                Í 2. tölul. fasteignaveðbréfsins segir: „Skuldin endurgreiðist með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana og breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs á eftirstöðvum lánstímans, sbr. 3. tölul. “ Í 3. tölul. bréfsins segir: „Skuldin er bundin vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar út, skv. lögum nr. 12/1995 og sbr. lög nr. 38/2001. Skuldin tekur breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu skuldabréfsins til gildandi vísitölu á gjalddaga.“ Þá segir í 4. tölul. bréfsins: „Skuldari greiði vexti af höfuðstól skuldarinnar samkvæmt ofangreindu frá tilgreindum upphafsdegi vaxta eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Vextir eru óbreytanlegir allan lánstímann. Vextir á hverjum gjalddaga skulu reiknast þannig út, að deilt er með fjölda gjalddaga á hverju ári í ársvextina. Ofangreind hundraðstala vaxta tekur mið af vöxtum framangreinds húsbréfaflokks að viðbættu föstu vaxtaálagi skv. 28. gr. laga nr. 44/1998.“ Samkvæmt 5. tölul. ber skuldara „að greiða allan innheimtukostnað þeirrar lánastofnunar, sem innheimtir fasteignaveðbréfið.“

                Með umsókn stefnenda til Íbúðalánasjóðs um lánveitingu fylgdi greiðslumat þeirra og kostnaðaráætlun um nýbyggingu. Stefnendur höfðu þann 17. desember 2012,  greitt samtals 4.638.170 krónur af umræddu láni sem skiptist í afborgun nafnverðs 575.322 krónur, vexti 2.876.722 krónur, verðbætur 1.170.782 krónur og kostnað 15.345 krónur. Samkvæmt gögnum málsins var bókfærð staða lánsins þann 17. desember 2012, 9.734.396 krónur,  sbr. umsögn Íbúðalánasjóðs, dags. 17. desember 2012 til ríkislögmanns.

                Í greinargerð stefnda kemur fram að þegar stefnendur gáfu út umrætt fasteignaveðbréf, hafi verið við lýði svokallað húsbréfakerfi sem upphaflega hafi verið komið á fót með lögum nr. 76/1989 um breytingu á lögum nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins. Húsbréfakerfið byggði á því að seljandi og kaupandi íbúðarhúsnæðis leystu fjármögnun fasteignaviðskipta sín á milli þannig að kaupandi gaf út við kaupsamning/afsal verðtryggt fasteignaveðskuldabréf til seljanda sem hluta kaupverðs. Seljandi gat síðan, ef hann kaus svo, selt Íbúðalánasjóði fasteignaveðbréfið og fengið í staðinn markaðshæf húsbréf gefin út af sjóðnum. Hlutverk húsnæðiskerfisins hafi því fyrst og fremst verið að skapa traustan samningsgrundvöll milli kaupanda og seljanda um lánsviðskiptin með skuldabréfaskiptunum. Húsbyggjendur hafi átt þess kost vegna nýbygginga að gefa skuldabréf með veði í húseigninni og selja Íbúðalánsjóði í skiptum fyrir húsbréf gefin út af sjóðnum.

                Þegar fasteignaveðbréfið var gefið út á árinu 2003 var mælt fyrir um í þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, að skilyrði þess að húsbréfadeild samþykkti skipti á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf færi eftir viðmiðunarreglum sem stjórn Íbúðalánasjóðs setti um veðhæfni fasteigna og greiðslugetu skuldara fasteignaveðbréfa. Var húsbréfadeild heimilt að synja um skipti á skuldabréfum væru þau skilyrði ekki uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. og 3. mgr. 18. gr. ákvæðisins hljóðuðu svo:

                 „Við skipti á húsbréfum gegn fasteignaveðbréfum skv. 2. tölul. 17. gr. skal liggja fyrir mat á eftirfarandi þáttum:
1. Veðhæfni þeirrar fasteignar sem lögð er að veði fyrir tilgreindri skuld.
2. Greiðslugetu skuldara.
3. Verðmæti húsbréfa og fasteignaveðbréfa miðað við markaðsvexti sambærilegra verð bréfa á viðskiptadegi. Sé ekki unnt að miða við vexti á viðskiptadegi skal miða við nýjustu og bestu heimildir um markaðsvexti.

                Stjórn Íbúðalánasjóðs skal, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, semja við viðskiptabanka og aðrar fjármálastofnanir um að annast mat skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr. og hafa með höndum samskipti útgefanda fasteignabréfa við húsbréfadeild. Jafnframt má ákveða í reglugerð að mat skv. 1. tölul. 2. mgr. megi fela sérstökum trúnaðarmönnum.“

                Ákvæði 1. mgr. 19. gr. laganna var svohljóðandi:

                „Fasteignaveðbréf skal vera verðtryggt með vísitölu neysluverðs, sbr. lög um vísitölu neysluverðs, og hafa sömu lánskjör og þau húsbréf sem skipta á fyrir fasteignaveðbréfið, sbr. 24. gr., að viðbættu föstu vaxtaálagi, sbr. 28. gr.“

Í 21. gr. laganna var mælt fyrir um lánstíma og lánskjör fasteignaveðbréfa. Samkvæmt 1. mgr. skyldi hámarkslánstími fasteignaveðbréfa sem húsbréfadeild kaupir vera 40 ár og skyldu þau bera vexti og verðbætur frá þeim degi sem kaup tækjust eða þeim degi sem aðilar kæmu sér saman um sbr. 2. mgr., og skyldu vextir vera óbreytanlegir allan lánstímann.

                Samkvæmt 24. gr. um greiðslukjör húsbréfa skyldu húsbréf gefin út í verðbréfaflokkum og öll bréf í sama flokki bera sömu upphæð. Stjórn Íbúðalánasjóðs skyldi gera tillögu til félagsmálaráðherra um verðtryggingarskilmála, endurgreiðsluform, lánstíma, vexti og heildarfjárhæðir í hverjum flokki. Félagsmálaráðherra skyldi taka ákvörðun um framangreind atriði að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands.

                Samkvæmt 28. gr. laganna var húsbréfadeild heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði og áætluðum útlánatöpum. Félagsmálaráðherra skyldi ákveða vaxtaálag þetta að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

                Á árinu 2003 voru áskildir fastir vextir vegna fasteignaveðbréfa 5,1%.

                Samkvæmt 1. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 3/1999 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs skyldi Íbúðalánasjóður innheimta 1% lántökugjald af fasteignaveðbréfi sem keypt væri fyrir húsbréf og skyldi því haldið við eftir kaupin.

                Á árinu 2003 gilti reglugerð nr. 157/2001 um húsbréf og húsbréfaviðskipti með síðari breytingum. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. hennar skyldi fasteignaveðbréf endurgreiðast með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana, þ.e. jafngreiðslulán að viðbættum verðbótum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ákvæði um greiðslumat voru í 30. gr. reglugerðarinnar og var þar kveðið á um það, að áður en kauptilboð væri gert, bygging eða viðbygging hafin eða endurnýjun eða endurbætur hafnar, skyldi væntanlegur íbúðarkaupandi, húsbyggjandi eða íbúðareigandi fá greiðslugetu sína metna hjá fjármálastofnunum sem Íbúðalánasjóður hefði gert samninga við.

                Fram kemur í gögnum málsins að stefnendur hafi gengist undir greiðslumat hjá Landsbanka Íslands hf. og staðist það mat á greiðslugetu og veðrými fyrir hámarksfyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs við skipti á fasteignaveðbréfi fyrir húsbréf vegna nýbygginga, sem var á þeim tíma 9.000.000 króna. Í greiðslumati bankans, dags. 31. janúar 2003 sem sent var Íbúðalánasjóði kemur fram að greiðslugeta stefnenda á mánuði án vaxtabóta hafi verið 100.000 krónur. Greiðslubyrði þeirra á mánuði vegna nýrra lána að fjárhæð 6.515.000 krónur hafi verið 47.000 krónur. Í greiðslumatinu kom einnig fram að útreikningur á fjárhæð greiðslna af lánsfjárhæð fasteignaveðbréfa sem lögð var til grundvallar í greiðslumati hafi annars vegar verið miðaður við 25 ára lánstíma og hins vegar hafi verið miðað við 40 ára lánstíma. Kom þar fram að útreiknuð greiðslubyrði af 9.000.000 króna fasteignaveðbréfi til 40 ára væri 44.000 krónur á mánuði. Útreikningar bankans á þeirri fjárhæð mánaðarlegrar greiðslubyrði hafi verið byggðir á því að um væri að ræða jafngreiðslulán með 478 gjalddögum og að öðru leyti á reikniforriti í samræmi við kröfur um samræmt greiðslumat skv. lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál. Reiknuð hefði verið út heildargreiðsla í krónum á lánstímanum miðað við óbreytt verðlag og sú fjárhæð sundurliðaðist annars vegar í höfuðstól og hins vegar í vexti. Í útreikningi skv. því reikniforriti birtist auk þess árleg hlutfallstala kostnaðar þar sem 1% lántökugjald auk vaxta kom fram, til þess að auðvelda umsækjendum samanburð ólíkra lána.

III. Málsástæður aðila

1. Helstu málsástæður stefnanda

Á því er byggt af hálfu stefnenda að engin greiðsluáætlun hafi fylgt lánssamningi aðilanna eða verið gerð vegna hans. Telja stefnendur að veiting lánsins hafi farið fram án þess að ákvæða laga nr. 121/1994, um neytendalán hafi verið gætt með eðlilegum og lögboðnum hætti, einkum af þeirri ástæðu að engin árleg hlutfallstala kostnaðar af láninu hafi verið tilgreind í lánssamningi aðila. Er vitnað til 14. gr. laganna í því sambandi. Stefnendur telja það eitt af meginatriðum laga nr. 121/1994 og tilskipunar 87/102/EBE að neytandinn fái upplýsingar um lántökukostnað í prósentum samkvæmt „árlegri hlutfallstölu kostnaðar“ sem sé alltaf sama prósentutalan á ári og gildi út lánstímann. Við töku lánsins hafi stefnendur ekki verið upplýstir um þann heildarkostnað sem félli á lánið á lánstímanum, þrátt fyrir ákvæði laganna þess efnis og að engin greiðsluáætlun hafi fylgt láninu.

                Í öðru lagi er á því byggt að skort hafi á upplýsingagjöf stefnda, sbr. 5. gr. laga nr. 121/1994, þar sem mælt er fyrir um að lánssamningur skuli gerður skriflega og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8. gr. sömu laga, þ.e.a.s. að fjárhæð verðbótaþáttar hafi þurft að liggja fyrir. Til þess að stefnendur gætu tekið ákvörðun á grundvelli þekkingar á staðreyndum er vörðuðu lánið hefðu þau átt að fá fullnægjandi upplýsingar um allan kostnað, vexti og verðbætur áður en þau tóku lánið. Samkvæmt 24. gr. laganna hafi stefndi ekki mátt víkja frá ákvæðum laganna með lánssamningi (fasteignaveðbréfinu og fylgiskjölum þess) stefnendum í óhag, en með því að tilgreina ekki hver fjárhæð verðbótaþáttar lánsins væri við töku lánsins hafi stefndi brotið gegn fyrrgreindum ákvæðum.

                Í þriðja lagi er á því byggt að í lánsskjölum aðila þ.m.t. fasteignaveðbréfinu, hafi engin ákvæði eða upplýsingar verið að finna sem sögðu til um fjárhæð heimilaðrar verðtryggingar eða hversu miklar breytingar yrðu á skuld stefnenda á lánstímanum vegna breytinga á vísitölu neysluverðs. Útreikningi eins og áskilinn væri í 12., sbr. 11. gr. laga nr. 121/1994, hafi ekki legið fyrir og því hafi lánið og upplýsingar um það verið í andstöðu við 5. og 24. gr. sömu laga.

                Í fjórða lagi hafi stefndi átt að veita stefnendum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994. Í lánssamningi aðila hafi engin hlutfallstala kostnaðar verið tilgreind og því verði að líta svo á að hún hafi verið 0%. Af því leiði að óheimilt hafi verið að krefjast nokkurs þess lántökukostnaðar sem tilgreindur sé í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 121/1994, þ.m.t. lántökugjalds, vaxta og verðbóta skv. 5. gr. og 4.-7. tölul. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

                Í fimmta lagi er því haldið fram að samningurinn fari í bága við 36. gr. a.- d. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. og tilskipun nr. 93/13/EB um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Telja stefnendur að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn og að þeir eigi rétt á því að honum sé vikið til hliðar á þessum lagagrundvelli. Skilmálar samningsins teljist auk þess hvorki á skýru né skiljanlegu máli og séu því ósanngjarnir í skilningi laganna. Upplýsingar um kostnað sem lánveitanda er skylt að hafa skriflega í samningum, en séu þar ekki geti ekki talist vera á skýru og skiljanlegu máli. Af þessu leiði að skilmálar lánssamningsins um kostnað séu ekki bindandi fyrir stefnendur. 

                Loks er á það bent að lög nr. 121/1994 séu sérlög gagnvart lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og eigi samkvæmt því að ganga framar þeim almennu hagsmunum lánveitanda sem mælt er fyrir um í vaxtalögum.

                Varakrafa stefnenda byggir á sömu málsatvikum og málsástæðum og gerð er grein fyrir hér að framan. Hún er nánar á því byggð að stefnda sé ávallt óheimilt að krefja stefnendur um frekari lántökukostnað en:

                a) þann sem tilgreindur er í samningi aðila með svo skýrum hætti að samrýmst geti eindregnum áskilnaði 1. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, þ.e. þann kostnað sem lánþegi hafi með góðu móti mátt sjá fyrir við töku lánsins og/eða

                b) þann sem fullnægir þeim áskilnaði 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, að vera innan marka þeirrar árlegu hlutfallstölu kostnaðar, sem telja megi hafa verið reiknaða svo greinanlegt væri við gerð samningsins.

2. Helstu málsástæður stefnda

Stefndi telur að hvorki hann né hið umstefnda fasteignaveðbréf stefnenda geti fallið undir lög um neytendalán nr. 121/2004 og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann af kröfum stefnenda. Þá er þeim staðhæfingum stefnenda hafnað að fasteignaveðbréfið eða efni þess hafi brotið gegn lögum um neytendalán sbr. og 36. gr. a-c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er því hafnað að ákvæði fasteignaveðbréfa um verðtryggingu geti varðað ógildi þeirra samkvæmt síðargreindum ákvæðum. Engum annmörkum á upplýsingagjöf eða ákvæðum í fasteignaveðbréfinu sjálfu sé fyrir að fara er leyst gæti að lögum stefnendur undan greiðsluskyldu sinni samkvæmt fasteignaveðbréfinu. Engin krafa sé um það í 1.-9. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 að fjárhæð verðbótaþáttar vísitölubundins láns vegna framtíðarverðbóta eigi að liggja fyrir og koma fram í lánssamningi eða sem upplýsingar við gerð lánssamnings. Þá sé ljóst af ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/2004 að þegar um er að ræða breytileg lánskjör sé ekki gerð krafa um útreikning fjárhæða eða hlutfallstölu við gerð lánssamnings er skuldbundið gæti kröfuhafa að lögum. Í því sambandi er bent á að með greiðslumati skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál hafi verið gengið úr skugga um hvort skuldari fasteignaveðbréfs gæti staðið undir væntanlegri greiðslubyrði af fasteignaveðbréfinu. Jafnframt hjálpaði slíkt mat fólki að átta sig sjálft á greiðslugetu sinni og að bera saman mismunandi mögulegar fjármögnunarleiðir. Skýrt hafi legið fyrir í ákvæðum bréfanna að um hafi verið að ræða verðtryggt lán og stefnendur hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að lánin og þar með einstakar greiðslur myndu hækka samhliða vísitölu neysluverðs.

3. Málsástæður aðila varðandi formhlið málsins

Frávísunarkrafa stefnda er á því byggð að kröfugerð stefnenda feli eingöngu í sér almenna álitsbeiðni um lögfræðileg efni andstætt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í kröfugerð sé ekki krafist leiðréttingar á stöðu stefnenda í einni eða annarri mynd og enga sjálfstæða útlistun sé að finna í stefnu á þeim kostnaði sem stefnendur telja stefnda hafa krafið þá um á óheimilan hátt og stefnendur hafi greitt né séu lögð fram gögn til stuðnings greiðslu á ætluðum óheimilum kostnaði. Kröfugerð og málatilbúnaður sé óljós, þversagnakenndur og vanreifaður og vandséð sé að hann geti leitt ágreining til lykta. Þá varði kröfugerð stefnenda enn fremur óorðna atburði sem ekki verði dæmt um, sbr. 4. mgr. 114. gr. sömu laga.

                Fáist þannig ekki séð að kröfur stefnenda séu dómhæfar og beri með vísan til greindra ákvæða og d-, e- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi. 

                Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda var m.a. á því byggt af hálfu stefnenda að ljóst væri að þau hefðu lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um sakarefni. Dómkröfur stefnenda væru skýrar og tengdust skýrum málsástæðum þeirra. Þeir hagsmunir stefnenda að fá að sýna fram á að brotið hefði verið gegn neytendalöggjöf og samningalögum og að stefnendur hefðu ekki þurft að greiða kostnað og verðbætur af hinu umþrætta láni væru miklir. Það væru lögmætir hagsmunir þeirra að fá hinu viðvarandi ástandi hrundið og fá leiðréttingu mála sinna. Ekki hefði reynt á álitaefnið áður fyrir dómi. Umfang tjóns stefnenda væri ekki ljóst þar sem í hverjum mánuði verði til nýtt tjón, verðbætur breytist ört, þess vegna þurfi að stöðva hið ólögmæta ástand áður en endurgreiðslukrafa verði lögð fram af hálfu stefnenda. Greiðsluseðill hafi verið lagður fram en greiðslusaga stefnenda verði lögð fram síðar.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur aðila um formhlið máls þessa snýst um það hvort málatilbúnaður stefnenda fullnægi ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hvort hann fái staðist ákvæði 1. og 2. mgr. 25. gr., sbr. einnig 4. mgr. 114. gr. sömu laga.

                Eins og áður segir krefjast stefnendur þess aðallega að viðurkennt verði með dómi „að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu á neinum hluta heildarlántökukostnaðar í merkingu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, af húsnæðisláni stefnda til stefnenda nr. 1004-74-78830, samkvæmt fasteignaveðbréfi útgefnu 11. febrúar 2003“. Til vara er þess krafist „að viðurkennt verði að stefnda sé ekki og hafi ekki verið heimilt að krefjast greiðslu neins þess hluta heildarlántökukostnaðar vegna fyrrgreinds húsnæðisláns nr. 1004-74-78830 til stefnenda, sem felist í verðbótum á láninu á grundvelli vísitölu neysluverðs, er Hagstofa Íslands reikni út samkvæmt lögum um þá vísitölu“.

                Í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán er gert ráð fyrir því að við gerð lánssamnings skuli lánveitandi gefa neytanda upplýsingar m.a. um heildarlántökukostnað í krónum, eins og hann er reiknaður út skv. 7. gr. sömu laga. Í 14. gr. laganna er síðan gert ráð fyrir því að sé vaxta eða annars lántökukostnaðar ekki getið í lánssamningi sé lánveitanda ekki heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra.

                Ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, heimilar að mál sé höfðað til að leita viðurkenningardóms um kröfu ef aðili hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Gildir þetta án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Samanburður við 1. mgr. 25. gr. og 4. mgr. 114. gr. sömu laga sýnir ótvírætt að sakarefni verður þó að vera skýrt afmarkað með hliðsjón af þekktum atvikum sem tengja málsaðila saman. 

                Stefnukrafan eins og hún er sett fram fjallar hvorki um tilvist né efni réttinda eða réttarsambands með beinum hætti heldur lýtur hún fremur að því að stefnda hafi ekki verið heimilt að krefja stefnendur um umræddan heildarlántökukostnað og verði það ekki heldur í framtíðinni. Þessi framsetning dómkrafna er í andstöðu við fyrrgreind ákvæði laga nr. 91/1991 og er auk þess óskýr í meira lagi, m.a. vegna þess að enga útlistun er að finna í kröfugerð á því hver sá heildarlántökukostnaður hafi verið, hvernig einstakir kostnaðarliðir hafi skipst eða hver kostnaður muni verða í framtíðinni, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Framangreind rök eiga einnig við um varakröfu stefnenda en í henni er m.a. ekki gerð grein fyrir þeim verðbótum sem talið er að hafi verið greiddar af lánunum.

                Samkvæmt framangreindu ber að vísa kröfu stefnenda á hendur stefnda frá dómi

                Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

                Kröfu stefnenda á hendur stefnda er vísað frá dómi. Stefnendur, Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir, greiði stefnda Íbúðalánasjóði 200.000 krónur í málskostnað.