Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/2016

Jóhann Guðbrandsson (Kristján Stefánsson hrl.)
gegn
Lánasjóði íslenskra námsmanna (Stefán A. Svensson hrl.)

Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Ábyrgð
  • Frávísunarkröfu hafnað

Reifun

L höfðaði mál gegn J til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi sem H gaf út árið 2009 og J og O höfðu gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. O lést á árinu 2013. Fékk J í kjölfarið leyfi til setu í óskiptu búi eftir O og var honum stefnt til greiðslu skuldarinnar á grundvelli ábyrgðar hennar. Ekki var fallist á með J að vísa bæri málinu frá dómi vegna vanreifunar. Þá var ekki fallist á það, eins og málið væri vaxið, að forsendur stæðu til þess að lögum að ætlaður brestur á skilyrðum þess að J var veitt heimild til setu í óskiptu búi eftir O yrði endurskoðaður. Loks var ekki fallist á að J hefði sýnt fram á að O hefði að lögum skort hæfi til að gangast undir sjálfskuldarábyrgðina á greindum tíma. Var J því dæmdur til að greiða L hina umkröfðu fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. janúar 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 9. mars 2016 og var málinu áfrýjað öðru sinni 6. apríl 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af kröfu stefnda, en að því frágengnu að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gekkst Oddný S. Sigurðardóttir, eiginkona áfrýjanda, í ábyrgð 23. janúar 2011 gagnvart stefnda vegna námsláns sonar þeirra hjóna, Hlyns Jóhannssonar. Oddný andaðist 25. febrúar 2013 og fékk áfrýjandi leyfi til setu í óskiptu búi eftir hana 5. mars sama ár.

Fallist er á það með héraðsdómi að málatilbúnaður áfrýjanda sé nægjanlega glöggur svo dómur verði lagður á málið. Þá varðar það ekki frávísun þótt málið hafi ekki jafnframt verið höfðað á hendur fyrrgreindum Hlyni, enda er ekki nauðsynlegt að beina málsókn samhliða að aðalskuldara þegar gengið er að ábyrgðarmanni. Að þessu gættu verður kröfu áfrýjanda um frávísun hafnað, enda eru ekki þeir annmarkar á málshöfðuninni að leitt geti til þess að sú krafa verði tekin til greina.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að eins og mál þetta er vaxið standi ekki að lögum forsendur til þess að dómurinn endurskoði ætlaðan brest á skilyrðum þess að áfrýjanda var veitt heimild til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína Oddnýju S. Sigurðardóttur.

Áfrýjandi hefur jafnframt byggt á því að Oddnýju hafi, vegna heilsubrests, skort hæfi til þess að samþykkja sjálfsskuldarábyrgðina 23. janúar 2011. Til stuðnings þessu hefur áfrýjandi lagt fyrir Hæstarétt afrit úr sjúkraskrám Oddnýjar fyrir tímabilið 8. júní 2010 til 25. febrúar 2013, en þann dag lést hún. Umrædd gögn benda til þess að andlegri heilsu Oddnýjar hafi farið hrakandi á þeim tíma er hún undirgekkst ábyrgðina. Hins vegar verður ekki fullyrt á grundvelli þeirra gagna að Oddnýju hafi skort hæfi til þess að undirgangast ábyrgðina í janúar 2011. Af áfrýjanda hálfu hefur þess hvorki verið freistað að afla vottorðs læknis né mats dómkvadds manns til þess að styðja röksemdir í þá veru. Hefur áfrýjanda því ekki tekist að sýna fram á það að Oddnýju hafi að lögum skort hæfi til þess að undirgangast ábyrgðina á nefndum tíma.

Að framangreindu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið 29. september sl., var höfðað 4. júní 2014.

                Stefnandi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21 í Reykjavík.

                Stefndi er Jóhann Guðbrandsson, Suðurgötu 17 í Sandgerði.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 8.057.119 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júní 2014 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                                                                                              I

                Krafa stefnanda er til komin vegna námsláns Hlyns Jóhannssonar sem stefndi og Oddný S. Sigurðardóttir tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á. Hlynur gaf út skuldabréf nr. G-107816 þann 25. október 2009, í samræmi við lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem hann viðurkennir að skulda stefnanda 9.338.957 krónur, miðað við grunnvísitölu 379,5, og er þar um að ræða samanlagða fjárhæð útborgaðra námslána hans. Stefndi gekk í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 4.500.000 krónum með undirritun sinni á skuldabréfið. Oddný S. Sigurðardóttir tók á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir höfuðstól allt að 7.000.000 króna, miðað við grunnvísitölu 363,8 með undirritun sinni á sjálfskuldarábyrgð til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð 23. janúar 2011. Ábyrgðin tók einnig til greiðslu vaxta, verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar. Skuldabréfið er verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs. Lánið ber breytilega vexti sem eru 1% samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 602/1997 og reiknast frá námslokum. Oddný er nú látin en stefndi situr í óskiptu búi eftir lát hennar og tekur á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins. Honum er því stefnt til greiðslu skuldarinnar á grundvelli ábyrgðar Oddnýjar.

                                                                                              II

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að um endurgreiðslu af láninu fari samkvæmt lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok lántakanda. Árleg endurgreiðsla skuldabréfsins ákvarðist í tvennu lagi, þ.e. annars vegar föst ársgreiðsla með gjalddaga 1. mars ár hvert, sem taki breytingum í hlutfalli við neysluvísitölu og hins vegar tekjutengd ársgreiðsla með gjalddaga 1. september hvert ár, sem sé ákveðið hlutfall af útsvarsstofni lánþega árið á undan, að frádreginni föstu greiðslunni. Á árinu 2011 hafi Hlynur Jóhannsson fengið afgreitt námslán að fjárhæð 897.519 krónur sem síðar hafi komið í ljós að hann hafi ekki átt rétt á. Í samræmi við úthlutunarreglur stefnanda, sem eigi stoð í lögum nr. 21/1992, sem og ákvæðum skuldabréfsins sjálfs, hafi Hlyni verið ákvörðuð aukaafborgun með gjalddaga 14. júní 2012, samtals að fjárhæð 1.026.076 krónur miðað við grunnvísitölu 379,5 er ofgreiðslan hafi átt sér stað, uppreiknuð miðað við vísitölu á gjalddaga aukaafborgunar 398,2 og 1% vexti af upphaflegum höfuðstól skuldabréfsins 9.338.957 krónur frá lokun skuldabréfsins miðað við vísitölu 402,2 og 1% vexti.

                Hlynur hafi ekki staðið skil á greiðslu aukaafborgunarinnar. Samkvæmt heimild í skuldabréfinu hafi lánið því verið gjaldfellt miðað við 17. febrúar 2013 en þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar numið 9.006.755 krónum frá lokun skuldabréfsins 4. ágúst 2011. Eftirstöðvar skuldarinnar séu því 10.032.821 króna.

                Þann 30. október 2013 hafi verið árituð stefna á hendur aðalskuldaranum Hlyni, auk stefnda vegna upphaflegu ábyrgðarinnar. Stefndi sitji í óskiptu búi og taki við skuldum dánarbús Oddnýjar S. Sigurðardóttur samkvæmt sjálfskuldarábyrgð hennar. Höfuðstóll ábyrgðarinnar sé samtals 8.075.590 krónur, uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs í maí 2014 sem hafi verið 419,7.

                                                                                              III

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að engar eignir hafi verið í búi eiginkonu hans, Oddnýjar S. Sigurðardóttur, sem hafi látist 25. febrúar 2013. Forsendur fyrir því að veita honum leyfi til setu í óskiptu búi hafi því ekki verið fyrir hendi. Þá hafi ekki verið grundvöllur fyrir því að veita leyfið þar sem stefndi hafi enga fjárhagslega burði haft til þess að takast á hendur ábyrgð á skuldinni. Þá hafi Oddný verið farin að heilsu vegna andlegrar bilunar þegar til ábyrgðarinnar hafi verið stofnað. Hún hafi verið vistmaður á hjúkrunarheimilinu Garðvangi og ekki haft neina burði til þess að skilja og takast á hendur fjárskuldbindingar, hvað þá til lengri tíma.

 

                                                                                              IV

                Stefnandi krefst í máli þessu greiðslu vegna sjálfskuldarábyrgðar Oddnýjar S. Sigurðardóttur á námslánum Hlyns Jóhannssonar. Oddný er nú látin og stefndi situr í óskiptu búi eftir hana. Hann ber því ábyrgð á skuldum búsins, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Stefndi telur að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði laga til þess að veita honum leyfi til setu í óskiptu búi. Fram hefur komið að stefndi leitaði eftir því við sýslumann að leyfið yrði fellt niður, en ekki var fallist á það. Stefndi hefur engin gögn lagt fram til stuðnings framangreindri málsástæðu. Þá er það ekki á forræði dómsins að fella búsetuleyfið úr gildi. Verður því ekki fallist á sýknukröfu stefnda á þessum grunni.

                Stefndi byggir jafnframt á því að Oddnýju hafi skort hæfi til þess að samþykkja sjálfskuldarábyrgðina. Stefndi hefur lagt fram tölvuskeyti frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem fram kemur að Oddný hafi notið þjónustu heimahjúkrunar varðandi lyfjagjöf og bað. Hún hafi svo verið í biðplássi eftir hjúkrunarheimili frá maí til nóvember 2011 en þá farið á Garðvang.

                Af framangreindu tölvuskeyti verður ekkert ráðið um það hvernig andlegu hæfi Oddnýjar var háttað á þeim tíma sem hún undirritaði sjálfskuldarábyrgðina. Engin önnur gögn liggja fyrir um heilsufar hennar, þrátt fyrir að stefndi hafi fengið langa fresti til öflunar gagna þar um, og engin vitni komu fyrir dóminn. Þá er ekki gerð nánari grein fyrir því í greinargerð hvernig heilsu Oddnýjar var háttað og hvers vegna hún eigi að leiða til ógildingar ábyrgðarinnar. Stefndi hefur því ekki leitt rök að því að Oddnýju hafi skort hæfi til þess að gangast undir ábyrgðina.

                Við aðalmeðferð málsins byggði stefndi jafnframt á því að vísa bæri málinu frá dómi vegna vanreifunar. Taldi hann gögn málsins svo óskýr að ekki yrði á þeim byggt. Stafaði það einkum af þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi fengið áritaða stefnu á hendur stefnda og Hlyni Jóhannssyni án þess að stefnan væri lögð fram eða gerð nokkur sundurgreining á kröfunni. Ekki hafi verið gerð grein fyrir ástæðu þess að Oddný hafi gengist undir sjálfskuldarábyrgð eftir útgáfu skuldabréfsins og ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um greiðslugeta lántakanda. Þá vísaði hann til þess að fengi stefnandi dóm fyrir dómkröfu sinni nú væri hann kominn með dóm á hendur stefnda fyrir mun hærri fjárhæð en skuldinni nemi, þar sem hann hafi þegar fengið áritaða stefnu vegna sjálfskuldarábyrgðar stefnda sjálfs.

                Stefnandi hafnaði framangreindum nýjum málsástæðum stefnda sem of seint fram komnum og haldlausum. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða ef aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Stefnandi gerði engar athugasemdir við form stefnu í greinargerð sinni en tók til efnislegra varna. Þá var málinu margoft frestað til þess að gefa stefnda færi á að afla gagna. Sú athugasemd við aðalmeðferð málsins að skorti á gagnaframlagningu og upplýsingar af hálfu stefnda þykir því of seint fram komin. Þá þykir lýsing á málsástæðum stefnanda vera nægjanlega glögg, sbr. áskilnað e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá veitir dómur á hendur stefnda vegna framangreindrar sjálfskuldarábyrgðar stefnanda ekki rétt til innheimtu hærri fjárhæðar en skuldinni nemur, en heimilt er að stefna ábyrgðarmönnum í aðskildum málum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 15/2015.

                Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda og stefndi dæmdur til greiðslu skuldarinnar, en ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar eða dráttarvexti.

                Með hliðsjón af málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Jóhann Guðbrandsson, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 8.057.119 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júní 2014 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.