Hæstiréttur íslands
Mál nr. 84/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 84/2013.
|
Sýslumaðurinn á Selfossi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi) gegn X (Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. febrúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. febrúar 2013 klukkan 13 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er gerð krafa um kærumálskostnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að kröfu um kærumálskostnað verði hafnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. febrúar 2013.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að X [...], til heimilis að [...] á [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 13:00 föstudaginn 15. febrúar n.k. Þá er þess krafist af hálfu lögreglustjóra að kærða verði gert með úrskurði að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð lögreglunnar á Selfossi kemur fram að um klukkan 04:30 að morgni laugardagsins 2. febrúar 2012 hafi verið tilkynnt um menn á svartri [...] fólksbifreið sem væru að ónáða íbúa í íbúðarhúsi við [...] á [...]. Skömmu síðar hafi aftur verið hringt og þá greint frá því að skotið hafi verið á húsið. Lögreglumenn á [...] og sérsveit ríkislögreglustjóra hafi þegar farið á vettvang. Aðvífandi sérsveitarmenn hafi mætt [...] bifreiðinni í Þrengslum og handtekið þar þrjá karlmenn og konu. Í farangursgeymslu bifreiðarinnar hafi verið haglabyssa.
Einu haglaskoti hafi verið hleypt af á húsið, úr bifreiðinni með stefnu á eldhúsglugga, en fyrir innan eldhúsgluggann hafi þá staðið ungur karlmaður, sambýlismaður hálfsystur varnaraðila. Hafi verið kveikt ljós í eldhúsinu og færið aðeins um 5 metrar. Höglin hafi endað á steinvegg við eldhúsglugga, eftir að hafa lítillega breytt um stefnu við það að fara fyrst á steinsúlu undir þakskeggi og borað sig tæpa 2 cm inn í steypan vegg, í höfuðhæð mannsins er stóð fyrir innan gluggann. Hafi dreifing haglanna verið mjög lítil eða um 8 x 4 cm. Mikla mildi megi telja að skotið hafi ekki hafnað í höfði mannsins. Forhlað hafi fundist á vettvangi.
Skýrslutökur hafi staðið yfir í gær. Varnaraðili viðurkenni sjálfur að hafa hleypt af haglabyssunni. Varnaraðili tjái sig ekki um tilurð vopnsins. Einn aðili í bifreiðinni hafi viðurkennt að hafa stolið vopninu. Misræmi komi fram í frumskýrslutökum af aðilum um tilkomu og tilurð hinnar örlagaríku ferðar.
Rannsókn málsins sé umfangsmikil og varði mjög alvarlegt sakarefni og sé skammt á veg komin. Einungs hafi unnist færi á að taka stutta skýrslu af aðilunum í bifreiðinni. Eftir eigi að sviðsetja atburðinn, rannsaka skotstefnu, birtuskilyrði og framkvæma rannsókn á skotvopninu sjálfu. Einnig eigi eftir að yfirheyra alla aðila ýtarlega og kanna hvort fleiri vitni finnist á svæðinu, nokkur vitni hafi gefið sig fram eftir áskorun í fjölmiðlum, en ekki hafi unnist tími til að kanna vitneskju þeirra aðila.
Lögregla rannsaki nú meint brot varnaraðila á 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. hegningarlaga nr. 19, 1940. og ákvæðum vopnalaga nr. 16, 1998, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög alvarlegt sakarefni og einungs hending að mati lögreglu að ekki hafi hlotist mannskaði af verknaðinum. Verði varnaraðili látinn laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.
Með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Nái krafa þessi fram að ganga sé þess óskað að varnaraðila verði gert með úrskurði að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi kannaðist kærði við að hafa verið á umræddum stað og tíma sem að ofan greinir. Hann kannaðist jafnframt við að hafa hleypt af haglabyssu.
Að virtum rannsóknargögnum og ofansögðu ber að að fallast á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um framanlýstan verknað sem getur varðað við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og ákvæði vopnalaga nr. 16/1998, en brot gegn ákvæðum þessum varða fangelsisrefsingu.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið mjög alvarlegt afbrot. Ljóst er að taka þarf frekari og rækilegar skýrslur við rannsókn málsins. Þá blasir við að frekari rannsókna er þörf að öðru leyti eins og nánar er lýst í ofangreindri kröfu lögreglustjóra. Má ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og annan þann hátt sem greinir í a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en af því getur hann haft augljósa hagsmuni.
Ber því að fallast á að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er, en tímalengd kröfunnar þykir ekki úr hófi.
Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. 2. mgr. 98. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. febrúar 2013 kl. 13:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.