Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-295
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lausafjárkaup
- Samningur
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 25. nóvember 2021 leitar Eik fasteignafélag hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í máli nr. 244/2020: Eik fasteignafélag hf. gegn Andra Má Ingólfssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur í tengslum við kaup hans á öllu hlutafé í tilgreindu félagi af gagnaðila. Í þeim efnum byggir hann á því að gagnaðili hafi ekki gefið réttar upplýsingar um áskilda eiginleika hins selda við kaupin. Nánar tiltekið telur hann að viðhaldssjóður og framlög í hann hafi verið ranglega færð í bókhaldi félagsins sem var hluti af kaupsamningnum. Framangreint hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem hann fékk frá gagnaðila við kaupin og hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem hann hafi meðal annars þurft að greiða vanreiknaðan tekjuskatt vegna þessa. Þá gerði leyfisbeiðandi kröfu um greiðslu á ýmsum kostnaði sem hafi verið ranglega eignfærður í bókhaldi félagsins.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Þar kom fram að leyfisbeiðandi hefði ekki verið í góðri trú um hvort rétt hefði verið staðið að skattskilum vegna viðhaldssjóðsins. Þá hefði ekki falist sérstakt skaðleysisloforð að því er viðhaldssjóðinn varðaði í yfirlýsingum gagnaðila við kaupin. Loks taldi Landsréttur, að því er varðaði kröfu um greiðslu á ýmsum kostnaði, að gegn mótmælum gagnaðila og með vísan til gallaþröskulds í kaupsamningi hefði þessi kostnaður ekki skapað rétt til skaðabóta úr hendi gagnaðila.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að í dómi Landsréttur virðist vera lagt til grundvallar að ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup gangi framar kaupsamningi aðila, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laganna. Þá hafi það verulegt almennt gildi að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun ábyrgðaryfirlýsinga í kaupsamningum og þýðingu laga nr. 50/2000 í því sambandi. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Annars vegar hafi Landsréttur gert mistök við beitingu laga nr. 50/2000. Hins vegar sé þar ranglega staðhæft að hann hafi ekki verið í góðri trú um hvort rétt hafi verið staðið að skattskilum vegna viðhaldssjóðsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.