Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/1998
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla skatta
- Skilorðsbinding
- Fyrning sakar
- Aðfinnslur
- Sérálit
Fimmtudaginn 14. janúar 1999.
Nr. 246/1998. Ákæruvaldið
(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)
gegn
Sigurði Jóhannssyni
(Kristján Stefánsson hrl.)
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla skatta. Skilorðsbinding. Fyrning sakar. Aðfinnslur. Sérálit.
S var ákærður sem framkvæmdastjóri hlutafélags fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á tilteknum fjárhæðum virðisaukaskatts og staðgreiðslu launþega. Ekki voru talin efni til þess að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að rannsókn hefði eingöngu miðast við starfsemi þess hlutafélags sem S veitti forstöðu. Af framburði S þótti sýnt að honum hefði verið kunnugt um vanskil skattgreiðslna og skipti í því sambandi engu þótt bókhaldsskrifstofa hefði sinnt skattskilum hlutafélagsins. Sök S þótti ófyrnd hvernig sem litið yrði á framgang málsins. Við ákvörðun vangreiddra fjárhæða var m.a. tekið tillit til innborgunar sem innheimtumaður ríkissjóðs hafði ráðstafað inn á aðrar skuldir félagsins. Sakarmat og heimfærsla héraðsdóms var samkvæmt þessu staðfest. Ákvörðun héraðsdóms um fangelsisrefsingu var staðfest en sektarrefsing þyngd. Fundið var að töfum við meðferð málsins í héraði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu var skotið til Hæstaréttar 28. maí 1998 að ósk ákærða með vísun til a., b., c. og e. liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu ellegar þess, að refsing verði milduð og að öllu leyti skilorðsbundin.
Frávísunarkröfu ákærða var hrundið í héraði. Verður ekki talið, að við meðferð málsins fyrir Hæstarétti hafi honum tekist að skjóta styrkari stoðum undir málatilbúnað, er lýtur að þessari kröfu. Eru því engin efni til þess að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu frá héraðsdómi.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir því, hvernig þær fjárhæðir virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tilgreindar voru í ákæru, hafi verið lækkaðar til hagsbóta fyrir ákærða. Ákæruvaldið fellst á þá lækkun og ákærði hefur ekki sýnt fram á, að lækkunin ætti að vera meiri. Af framburði ákærða fyrir héraðsdómi verður örugglega ráðið, að honum hefur verið kunnugt um vanskil skattgreiðslna af hálfu hlutafélagsins Brota, sem hann átti með öðrum og veitti sjálfur forstöðu. Um refsiábyrgð skiptir þá engu, þótt hann hafi keypt þjónustu á bókhaldsskrifstofu, er meðal annars sá um skattskil félagsins á grundvelli þeirra gagna, sem ákærði hafði látið í té. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti forsendum héraðsdóms verður staðfest sakarmat dómsins og færsla brota til refsiákvæða.
Samkvæmt 5. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrnist sök samkvæmt 30. gr. laganna, sbr. nú lög nr. 42/1995, á sex árum miðað við upphaf lögreglu- eða skattrannsóknar. Samsvarandi ákvæði er í 5. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna sakar samkvæmt 40. gr. þeirra laga, sbr. nú lög nr. 42/1995. Gjalddagar elstu vanskila samkvæmt ákæru voru í maí og júní 1992 og málið var til rannsóknar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og skattrannsóknarstjóra á árunum 1995 til 1997. Það var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 18. mars 1997 og ákærði lýsti viðhorfi sínu til ákæruefna 3. febrúar 1998. Hvernig sem á framgang málsins yrði litið eru sakir ákærða að öllu leyti ófyrndar.
Brot ákærða eru stórfelld. Þótt vanhöld hafi orðið á umræddum skattgreiðslum um nærfellt tveggja ára skeið, eins og rakið er í héraðsdómi, er ekki annað fram komið en að skilagreinar hafi réttilega verið afhentar innheimtuaðilum á hverjum tíma. Eftir atvikum verður staðfest ákvörðun héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar. Rétt þykir, að ákærði greiði jafnframt sekt í ríkissjóð að fjárhæð 3.500.000 krónur, og komi sjö mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Eins og í héraðsdómi segir kvað dómsformaður upp þann úrskurð 16. maí 1997, að sýslumaðurinn í Keflavík viki sæti sem sækjandi málsins. Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð með dómi sínum 10. júní 1997. Málið var ekki tekið fyrir að nýju í héraðsdómi fyrr en átta mánuðum síðar eða 3. febrúar 1998. Hefur þessi langi dráttur í opinberu máli ekki verið skýrður og er hann aðfinnsluverður. Þá dróst uppsaga héraðsdóms í tæpar sex vikur frá dómtöku og koma skýringar að nokkru fram í dóminum, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Þar sem ákærði og sakflytjendur voru viðstaddir dómsuppsögu og gerðu ekki athugasemdir, svo að séð verði, verður við svo búið látið sitja.
Hjörtur Torfason tekur fram, að hann telji fésektarákvæði héraðsdóms eiga að vera óbreytt.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Jóhannsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði í sekt til ríkissjóðs 3.500.000 krónur og komi sjö mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun á báðum dómstigum, 120.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 1998
Ár 1998, miðvikudaginn 6. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu við Brekkugötu 2 í Hafnarfirði af Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara og meðdómsmönnunum Einari S. Hálfdánarsyni löggiltum endurskoðanda og Sveini Sigurkarlssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-0049/1997: Ákæruvaldið gegn Sigurði Jóhannssyni, sem tekið var til dóms 27. mars s.l. eftir munnlegan málflutning.
I.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 25. febrúar 1997 á hendur Sigurði Jóhannssyni, Bjarmalandi 20, Sandgerði, fæddum 21. mars 1954, fæðingarnúmer 22633 og sem framkvæmdastjóra hlutafélagsins Brota hf., kennitala 680291-11369, Sandgerði „fyrir brot á skattalögum framin á árunum 1992 og 1993 í rekstri þess félags, sem úrskurðað var gjaldþrota 16. júní 1994.
Brot á lögum um virðisaukaskatt:
Ákærða er gefið að sök að hafa eigi í samræmi við það sem lög áskilja staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem félagið hafði innheimt samtals að fjárhæð kr.6.064.763 og sundurliðast sem hér greinir:
Árið 1992:
Mars-apríl kr. 1.910.709
- innborgun “ 638.100 kr. 1.272.609
Maí-júní kr. 1.298.683
- innborgun “ 1.000.000 “ 298.683
Júlí-ágúst “ 1.579.520 kr. 3.150.812
Árið 1993:
Maí-júní kr. 1.481.600
- innborgun “ 425.785 kr. 1.055.815
Júlí-ágúst “ 896.590
September-október “ 961.546 kr. 2.913.951
Samtals kr. 6.064.763
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988 um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 422,1995 og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 39,1995.
Brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda:
Ákærða er gefið að sök að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á kr. 4.985.796, sem hafði verið haldið eftir við útborgun á launum til starfsmanna félagsins í samræmi við lög nr. 45,1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. lög nr. 90,1987, og sundurliðast vanskilafjárhæðin sem hér greinir:
Árið 1992:
Apríl kr. 1.485.481
- innborgun “ 277.400 kr. 1.208.081
Júní kr. 698.218
- innborgun “ 38.535 “ 659.683
September kr. 346.217
- innborgun “ 37.978 “ 308.239 kr. 2.176.003
Árið 1993:
Apríl kr. 877.249
- innborgun “ 51.128 kr. 826.121
Maí kr. 276.802
- innborgun “ 110.075 “ 166.727
Júní “ 500.277
Júlí “ 510.502
Ágúst “ 141.144
September “ 118.773
Október “ 318.865
Nóvember “ 201.143
Desember “ 26.241 kr. 2.809.793
Samtals kr. 4.985.796
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 7. mgr. 30. gr.laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sjá nú 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. lög nr. 39, 1995. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Fyrir aðalmeðferð málsins var sú breyting gerð á II. kafla ákæru, að heildarfjárhæð sem ákærði er talinn hafa vanrækt að standa ríkissjóði skil á var lækkuð úr kr. 4.985.796 í kr. 4.849.781. Stafar lækkunin af því að gjöld vegna maí 1993 eru lækkuð úr kr. 276.802 í kr. 140.787 vegna tvíbókunar sem átt hafi sér stað. Ógreidd gjöld vegna maí 1993 nema því að frádreginni innborgun kr. 30.712 og lækkar því niðurstaða vegna ársins 1993 úr kr. 2.809.793 í kr. 2.673.778.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og til þrautavara að ákærði verði dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa og að það verði skilorðsbundin sekt. Þá krefst verjandinn réttargæslu- og málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
II.
Málavextir.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 16. júní 1994 var bú Brota hf., kt. 680291-1369, Strandgötu 12, Sandgerði, tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sýslumannsins í Keflavík. Jón Eiríksson, héraðsdómslögmaður, var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Lýstar kröfur í búið námu alls kr. 25.396.309. Búið reyndist eignalaust og var skiptum því lokið 9. maí 1995 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Meðal lýstra krafna var krafa sýslumannsins í Keflavík sem innheimtumanns ríkissjóðs vegna ógreidds virðisaukaskatts vegna áranna 1992 og 1993 samtals að fjárhæð kr. 9.201.869 miðað við úrskurðardag og krafa Gjaldheimtu Suðurnesja vegna ógreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna áranna 1992, 1993 og 1994, samtals að fjárhæð kr. 4.148.474 miðað við úrskurðardag.
Með bréfi dagsettu 2. maí 1995 tilkynnti skiptastjóri ríkissaksóknara um framangreindar kröfur í samræmi við 84. gr. laga nr. 21/1991. Hann vakti athygli á skýrslu sem hann hefði tekið af framkvæmdastjóra félagsins, sem viðurkennt hefði að hafa vanrækt að greiða virðisaukaskatt og staðgreiðslu launamanna. Vakti skiptastjóri athygli á því í bréfinu, að um verulegar fjárhæðir sé að ræða og því hljóti að teljast nauðsynlegt að málið verði rannsakað nánar með tilliti til þess hvort um refsiverð brot fyrirsvarsmanna félagsins hafi verið að ræða.
Með bréfi dagsettu 14. júní 1995 framsendi ríkissaksóknari bréf skiptastjóra ásamt fylgigögnum til Rannsóknarlögreglu ríkisins með ósk um opinbera rannsókn á meintum brotum forráðamanna félagsins á lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.
Með bréfi dagsettu 5. nóvember 1995 óskaði Rannsóknarlögregla ríkisins eftir því við Skattrannsóknarstjóra ríkisins að embætti hans rannsakaði skattskil félagsins eins og efni stæðu til í þágu rannsóknar málsins. Rannsókn fór fram hjá embætti Skattrannsóknarstjóra ríkisins og með bréfi dagsettu 18. september 1996 var Rannsóknarlögreglu ríkisins send skýrsla um niðurstöður þeirrar rannsóknar. Málið sætti síðan rannsókn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem að rannsókn lokinni sendi rannsóknargögn til ríkissaksóknara þann 19. febrúar 1997, sem gaf síðan út ákæru þann 25. sama mánaðar.
Ákærði kvað félagið Brota hf. hafa verið stofnað á árinu 1991 af honum, föður hans Jóhanni Guðbrandssyni og Gunnari Guðmundssyni, til útgerðar og fiskvinnslu. Gunnar Guðmundsson hafi síðar gengið úr félaginu. Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi. Hann kvað Gunnar Guðmundsson hafa verið skráðan fyrir 0,5% hlutafjár en hann og faðir hans fyrir helmingi hvor af því sem þá var eftir. Hann kvað Endurskoðunarmiðstöðina Mancher & Co hafa séð um bókhald fyrir félagið og útfyllingu skilagreina vegna opinberra gjalda starfsmanna og gerð virðisaukaskattskýrslna. Ákærði hefur ekki gert neina athugasemdir við skilagreinarnar og virðisaukaskattskýrslurnar sem á er byggt í máli þessu en vísar til þess að félagið hafi falið endurskoðendum þessa vinnu. Hann segir að skýrslurnar hafi verið unnar eftir bókhaldsgögnum félagsins, sem endurskoðendum hafi verið afhent hverju sinni.
Ákærði kvað ástæðu þess að ekki var staðið í skilum með staðgreiðslu opinberra gjalda vegnastarfsmanna félagsins og virðisaukaskatt þá, að allt fé félagsins hafi runnið í reksturinn. Engin sérstök ákvörðun hafi verið tekin um að skila þessu fé ekki, heldur hafi það verið sjálfgert þar sem allir peningarnir hafi runnið í rekstur fyrirtækisins. Hann kvað greiðslur hafa verið inntar af hendi þegar fé var til reiðu en stundum hafi skýrslur verið afhentar án greiðslu og stundum greitt inn á skuldir. Í stuttu máli hafi erfiðleikar í rekstri og áföll valdið því að vanskil urðu af hálfu félagsins á umræddum gjöldum. Hann sagði að vanskil hafi verið á greiðslu virðisaukaskatts frá upphafi. Hins vegar hafi félagið alltaf verið að borga inn á skuldina og þannig fengið frið frá innheimtumanni. Sýslumaður hafi verið með fjánám fyrir gjöldunum og hafi félagið fengið að halda starfsemi áfram þangað til stigið hafi verið ofan á það, t.d. með uppboði á fasteign félagsins, sem hafi verið seld á uppboði langt undir markaðsverði. Hann minnti að starfsemi félagsins hefði stöðvast sjálfkrafa í október 1993 þegar skip félagsins var innsiglað. Innsiglið hefði hins vegar verið rofið 14. desember 1993 eftir að samkomulag var gert við innheimtumann um að greiddar yrðu 21/2-3 milljónir króna upp í virðisaukaskattskuld. Hann hefði farið með þessa peninga til sýslumannsins í Keflavík sem aftur hefði ráðstafað þessum peningum að vild upp í önnur gjöld. Sjálfur hefði hann talið sig vera að greiða virðisaukaskattskuld.
Niðurstaða.
Ákærði byggir frávísunarkröfu sína á því að á skorti rannsókn í málinu svo mátt hafi gefa út ákæru í því. Skattframtöl félagsins séu grundvöllur ákæru og rannsóknar. Rannsóknin hafi miðast við skattaðilann en ekki ákærða. Þá séu sýslumanni sem innheimtumanni ríkissjóðs falin innheimta 30 tegundir mismunandi gjalda. Sýslumaður ráðstafi hins vegar innborgunum að vild. Því skorti heildstæða mynd í málinu.
Rannsókn máls þessa var eðli máls samkvæmt byggð á skilagreinum, virðisaukaskattskýrslum og framtölum félagsins og greiðslustöðu umræddra gjalda gagnvart innheimtumönnum gjaldanna. Rannsóknin beindist einnig að ákærða sem fyrirsvarsmanni félagsins. Þá lýtur það að efnisvörnum í málinu hvort innheimtumaður hafi ráðstafað innborgunum á annan hátt en félagið mælti fyrir um. Af þessum sökum þykir ákærði ekki hafa sýnt fram á , að neinir þeir annmarkar séu á rannsókn málsins eða málatilbúnaði ákæruvalds, að vísa beri málinu frá dómi með eða án kröfu. Er því frávísunarkröfu ákærða hrundið.
Ákærði var framkvæmdastjóri Brota hf. frá stofnun félagsins og bar sem slíkur ábyrgð á daglegum rekstri þess, þar á meðal fjárreiðum. Hann sá þannig um innheimtu og skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda á því tímabili sem I. og II. kafli ákæru taka til.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 var refsivert, að skattskyldur aðili afhenti ekki á lögmæltum tíma staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hann hafði haldið eftir. Í 1.mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 var með samsvarandi hætti lýst refsivert, að skattskyldur aðili afhenti ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt. Eftir þessu verður unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma. Sannað þykir að umrædd gjöld Brota hf., að þeirri fjárhæð, sem síðar verður getið um, voru ekki afhent innheimtumönnum á tilskildum tíma. Með því telst hlutlægum refsiskilyrðum fullnægt. Af gögnum málsins og framburði ákærða fyrir dóminum, þykir ljóst að ákærði ákvað að Broti hf. léti hjá líða að standa á réttum tíma skil á umræddum gjöldum til innheimtumanna gjaldanna. Með hliðsjón af því telst hér fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem leiða má af tilvitnuðum lagaákvæðum. Ber samkvæmt því að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem lýst er í I. og II. kafla ákæru, en á grundvelli þeirra fjárhæða, sem dómurinn telur eiga við og raktar verða hér að neðan. Brot ákærða þykja réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
Í ákæru eru heildarvanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda talin nema kr. 4.985.796, en það er sama tala og varð niðurstaða Skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir sama tímabil. Þessi fjárhæð hefur sætt leiðréttingu vegna tímabilsins maí 1993, þannig að ákært er fyrir kr. 4.849.781 í heild. Ákærði hefur talið vera misræmi á milli kröfulýsingar Gjaldheimtu Suðurnesja vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir sömu tímabil og ákært er fyrir. Svo sem kröfulýsingin ber með sér er hún gerð þann 25. júlí 1994, en skilagreinum vegna staðgreiðslu með leiðréttum, réttum fjárhæðum, hefur verið skilað inn eftir þann tíma og skýrir það sem virðist við fyrstu sýn vera misræmi.
Í september 1992 er ákært fyrir vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda að upphæð kr. 346.217 að frádreginni greiðslu að upphæð kr. 37.978, eða kr. 308.239, en skilagrein sú sem liggur fyrir í málinu vegna staðgreiðslu opinberra fyrir sama tímabil tiltekur kr. 76.306 sem skilaskylda staðgreiðslu. Vegna þess að engin grein hefur verið gerð fyrir þessu misræmi verður að virða þennan mun ákærða í hag við ákvörðun þeirrar fjárhæðar staðgreiðslu opinberra gjalda sem sakfellt verður fyrir. Staðgreiðsla opinberra gjalda sem ákærði verður sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á talin nemur þannig kr. 4.579.870.
Áður en vikið verður að fjárhæðum vanskila á virðisaukaskatti verður vikið að þeim vörnum ákærða, að allar greiðslur vegna virðisaukaskatts eigi að koma honum til góða þegar horft sé til sakar hans hvort sem þær hafi verið færðar til lækkunar á virðisaukaskattskuld eða tekjufærðar sem dráttarvextir af innheimtumanni ríkissjóðs. Svo sem gögn málsins bera með sér hefur þetta einmitt verið gert á yfirliti sem Rannsóknarlögregla ríkisins útbjó, þar sem meðal annars er tekið tillit til inneignar sem myndaðist á tímabilinu nóvember - desember 1993, og er tölulegur grundvöllur ákæru í málinu.
Í ákæru eru heildarvanskil virðisaukaskatts talin nema kr. 6.064.763. Á tímabilinu júlí ágúst 1992 er ákæra byggð á að fjárhæð til greiðslu nemi kr. 1.579.520. Ljóst er að fjárhæðin 1.570.520 vegna sama tímabils sem fram kemur á samanburðarblaði virðisaukaskatts í skattframtali ársins 1993 er skökk og fjárhæð í ákæru því rétt. Við ákvörðun samanlagðrar fjárhæðar virðisaukaskatts ber þó að taka tillit til þess að þann 15. desember 1993 greiddi ákærði fyrir hönd Brota hf. kr. 1.157.742. Sýslumaðurinn í Keflavík ráðstafaði fjárhæð þessari til greiðslu tryggingagjalds. Þegar litið er til þess hvernig greiðsla þessi var tilkomin, verður að telja að ákærði hafi mátt ætla að þessari greiðslu yrði varið til greiðslu á virðisaukaskattskuld félagsins. Ber því að virða það honum það til hagsbóta við ákvörðun refsingar og lækka fjárhæð virðisaukaskatts sem ekki var staðið skil á sem þeirri fjárhæð nemur, þannig að í heild verður sú fjárhæð virðisaukaskatts sem ákærði verður sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á talin nema kr. 4.907.021.
Sakaferill ákærða:
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu, sem þýðingu getur haft við ákvörðun refsingar í þessu máli.
Refsing og önnur viðurlög:
Við ákvörðun refsingar verður stuðst við lög eins og þeim hefur verið breytt eftir að ákærði Sigurður framdi brot sín, en þó verður honum ekki gerð þyngri refsing en lög stóðu til á þeim tíma er brotin voru framin, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt því er að framan er rakið og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og sakarferli ákærða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar í tvö ár frá uppsögu dóms þessa og falli hún niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Þá greiði ákærði sekt í ríkissjóð, sem telst hæfilega ákveðin 2.500.000 krónur, og komi fimm mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 60.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar, hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.
Að kröfu ákærða kvað dómsformaður upp þann úrskurð 16. maí 1997, að sýslumaðurinn í Keflavík viki sæti sem sækjandi máls þessa, sem honum hafði verið falið við útgáfu ákæru og sótt hafði þing við þingfestingu málsins. Ríkissaksóknari kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurðinn með dómi 10. júní sama ár og dæmdi að sýslumanninum í Keflavík bæri að víkja sæti sem sækjandi málsins. Eftir þann dóm hefur málið verið sótt af hálfu ríkissaksóknara.
Vegna anna héraðsdómara og páskaleyfis hefur uppkvaðning dóms þessa dregist nokkuð.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Jóhannsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá uppsögu dóms þessa og falli hún niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 2.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 60.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar, hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.