Hæstiréttur íslands
Mál nr. 594/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 13. september 2012. |
|
Nr. 594/2012.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til 9. október 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til 9. október 2012 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögregla hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði sé m.a. grunaður um líkamsárásir, brot gegn valdstjórninni, auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. ágúst 2012 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Hafi sá úrskurður verið staðfestur af Hæstarétti í máli nr. 553/2012 frá 21. ágúst sl.
Nú sé rannsókn flestra málanna lokið og í dag, 11. september, hafi ákæra verið gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna fjölda brota, m.a. auðgunarbrota og fíkniefnabrota. Jafnframt rannsaki lögregla ennþá nokkur mál þar sem kærði sé m.a. grunaður um gróft ofbeldi gagnvart sambýliskonu sinni:
Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi brot:
Mál 007-2012-45838
Í þessu máli sé kærði, undir rökstuddum grun um að hafa framið húsbrot og ofbeldi gagnvart opinberum starfsmönnum.
Mál 007-2011-68202
Fyrir líkamsárás þann 17. 11. 2011 í Hagkaup í Skeifunni með því að veitast að öryggisverði, er hafi vísað kærða út úr versluninni, með höggum og spörkum. Í ákökum þeirra hafi kærði einnig veist að öryggisverðinum með kústskafti. Í átökunum hafi öryggisvörðurinn hlotið brot á þumli, tognun í brjósthrygg, tognun í lendhrygg, mar á mjaðmagrind og mar á hendi.
Mál 007-2012-29578
Fyrir vopnalagabrot með því að hafa þann 26. maí 2012 á Lebowski bar við Laugaveg 20 hér í borg haft í vörslum sínum veiðihníf með 14 cm löngu blaði sem lögreglumenn hafi fundið við leit á kærða og hafi lagt hald á.
007-2012-39180
Fyrir tilraun til þjófnaðar og fíkniefnabrot með því að hafa þann 9. júlí 2012 reynt að brjóta upp lás á reiðhjóli, sem læst hafi verið við [...] hér í borg, og í kjölfar þess að vera handtekinn hafi verið með ógnanir og óbeinar hótanir í þeirra garð. Við leit á kærða í kjölfar handtökunnar hafi 1,93 g af maríhúana og 0,90 g af amfetamíni fundist.
Mál 008-2012-6214
Fyrir líkamsárás þann 19. maí 2012 að [...] með því að hafa slegið A, unnustu sína, með krepptum hnefa á vinstri vanga og með flötum lófa á hægri vanga, kastað henni utan í vegg, tekið um höfuð hennar og slegið höfði hennar ítrekað utan í vegg þar til hún hafi misst meðvitund.
Mál 008-2012-6429
Í málinu sé kærði grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna en af frásögnum vitna megi ráða að kærði hafi ekið bifreiðinni [...] vestur Reykjanesbrautar þann 24. maí 2012, misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafi oltið. Kærði hafi neitað allri sök en samkvæmt vitni sem með honum hafi verið í för og vitni sem komið hafi að vettvangi strax eftir slysið hafi kærði setið undir stýri bifreiðarinnar er það hafi átt sér stað. Málið sé enn í rannsókn.
Mál 008-2012-6498
Í málinu sé kærði grunaður um líkamsárás. Lögreglan á Suðurnesjum hafi verið kölluð að [...] í [...] vegna heimilisofbeldis. Þar hafi lögreglumenn hitt fyrir fyrrgreinda A sem hafi sagt kærða hafa veist að sér, rifið gat á íþróttabuxur og sett fingur sína upp í leggöng hennar, kallað hana hóru og hlegið. Skömmu síðar hafi hann hrint henni í gólfið, sparkað ítrekað í hægra lærið á henni, tekið hana hálstaki og slegið í framan.
Þá hafi ríkissaksóknari til meðferðar 5 mál þar sem ákærði sé grunaður um brot gegn valdstjórninni og verði ákvörðun um saksókn tekin á allra næstu dögum.
Að mati lögreglu sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggi við.
Ákærði eigi að baki töluverðan sakaferil og hafi hlotið dóma á árunum 1994 fyrir þjófnað, 2000 fyrir brot gegn 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2002 og 2005 fyrir þjófnað og 2008 fyrir auðgunarbrot, brot gegn valdstjórninni og umferðarlögum. Auk þessa hafi ákærði gengist undir nokkrar lögreglustjórasáttir.
Samkvæmt framburði ákærða sé hann án atvinnu en sé á örorkubótum og virðist því sem hann framfleyti sér og fjármagni vímuefnafíkn sína að einhverju leiti með afbrotum.
Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Jafnframt sé vísað til framangreinds dóms Hæstaréttar frá 21. ágúst sl. en að mati lögreglustjóra sé ekkert komið fram sem breytt geti mati Hæstaréttar.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Niðurstaða
Varnaraðili er með ákæru, sem dagsett er í dag en hefur ekki verið birt varnaraðila, ákærður fyrir hylmingu, fíkniefnabrot, líkamsárás og eignaspjöll, en brot þessi eiga samkvæmt ákæru, sem er í átta liðum, að hafa átt sér stað á tímabilinu frá febrúar til ágúst á þessu ári. Lögregla hefur enn fremur til rannsóknar sjö mál á hendur varnaraðila. Lúta tvö þessara mála að ætluðu ofbeldi í garð sambúðarkonu hans. Þá er upplýst að ríkissaksóknari hafi til meðferðar fimm mál þar sem fyrir liggur rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi á undanförnum mánuðum ítrekað gerst sekur um brot gegn valdsstjórninni. Skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi er fullnægt. Varnaraðili á að baki allnokkurn brotaferil og hefur hann m.a. hlotið dóma fyrir auðgunarbrot, fíkniefnabrot og brot gegn valdstjórninni. Gögn málsins bera með sér að kærði eigi við vímuefnavanda að etja og að brotaferil hans megi rekja til þess að hann er í neyslu. Þegar á framangreint er litið og með vísan til þess rökstudda gruns, sem liggur fyrir um brotaferil varnaraðila að undanförnu, má ætla að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ólokið, sbr. c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Í ljósi brotaferils varnaraðila eru allar líkur á að hann verði dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar verði hann fundinn sekur í þeim málum sem til meðferðar eru. Samkvæmt framansögðu og með skírskotun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 553/2012, þar sem fallist var á að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli fyrrgreindrar lagaheimildar, verður krafa sóknaraðila tekin til greina.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 9. október 2012, kl. 16:00.