Hæstiréttur íslands
Mál nr. 817/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Réttaráhrif dóms
- Sakarefni
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 20. janúar 2014. |
|
Nr. 817/2013. |
Margrét Ingibjörg Marelsdóttir (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) gegn Gildi-lífeyrissjóði (Þórarinn V. Þórarinsson hrl.) |
Kærumál. Réttaráhrif dóms. Sakarefni. Málsástæður. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M á hendur G var vísað frá dómi. Í málinu reisti M kröfur sínar á því að G væri óheimilt að draga frá lífeyrisgreiðslum til hennar nánar tilteknar bætur á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sem áður var kveðið á um í lögum nr. 118/1993 með sama heiti. M hafði áður höfðað mál á hendur G þar sem hún krafðist þess að viðurkennt yrði að við útreikning G á örorkulífeyrisgreiðslum til sín skyldi ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum. Að virtum óskýrum forsendum héraðsdóms í því máli taldi Hæstiréttur að ekki yrði fullyrt að þar hafi verið skorið úr um heimild til að draga umræddar greiðslur frá lífeyrisgreiðslum til M. Yrði því ekki talið að í málinu hafi verið dæmt um það sakarefni, sem M freistaði að fá dóm um í málinu nú, þannig að til frávísunar leiddi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem M áfrýjaði ekki fyrir sitt leyti héraðsdómi í fyrra málinu yrði að líta svo á að hún hefði firrt sig rétti samkvæmt meginreglu 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 til að höfða nýtt dómsmál í því skyni að fá leyst í reynd úr sömu kröfum og hún tefldi þar fram nema ný atvik réttlætti slíka málshöfðun. Þá girti meginreglan á sama hátt fyrir að M gæti í nýju dómsmáli byggt á öðrum og frekari málsástæðum en hún gerði í fyrra málinu. Þótt M höfði málið nú til heimtu fjár úr hendi G og byggði að nokkru leyti á öðrum málsástæðum en hún gerði í fyrra málinu væri markmiðið með málshöfðuninni enn sem fyrr að fá leyst úr því með dómi hvort heimilt væri að draga lífeyris- og bótagreiðslur almannatrygginga frá lífeyrisgreiðslum G til hennar án þess að séð yrði að atvik hefðu breyst svo máli skipti frá því að G höfðaði fyrra málið. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2013 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili höfðaði 15. október 2007 mál á hendur varnaraðila þar sem hún krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi „að við útreikning stefnda á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum.“ Í dómi héraðsdóms 4. júlí 2008 var komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að draga örorkulífeyri og tekjutryggingu, er sóknaraðili fengi frá Tryggingastofnun ríkisins, frá örorkulífeyri varnaraðila til hennar. Varnaraðili áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og krafðist sýknu af kröfu sóknaraðila sem krafðist staðfestingar héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar 17. desember 2009 í máli nr. 665/2008 segir meðal annars að samkvæmt dómsorði hins áfrýjaða dóms sé varnaraðila óheimilt að draga frá örorkulífeyri sóknaraðila „þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins.“ Þá segir í hæstaréttardóminum að í yfirliti frá þeirri stofnun um greiðslur til sóknaraðila komi fram að örorkulífeyrir og tekjutrygging séu stærstu einstöku tegundir greiðslna sem sóknaraðili njóti úr almannatryggingum vegna örorku sinnar. Tegundir greiðslna séu þó fleiri sem samkvæmt hljóðan dómsorðs falli þá utan þess sem héraðsdómur hafi talið óheimilt að draga frá lífeyri hennar.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar í máli þessu á því að varnaraðila sé óheimilt að draga frá lífeyrisgreiðslum sínum til sóknaraðila umönnunarbætur, uppbætur á lífeyri, uppbót vegna kaupa á bifreið og endurgreiðslu útgjalda vegna læknishjálpar og lyfja samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sem áður voru í lögum nr. 118/1993 með sama heiti. Voru ákvæðin flutt óbreytt í fyrrnefndu lögin. Bætur samkvæmt ákvæðunum eru eftir sem áður greiddar af Tryggingastofnun ríkisins.
II
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Verður dæmd krafa ekki borin undir sama eða hliðsettan dómstól og ber að vísa frá dómi máli um slíka kröfu, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Að virtum óskýrum forsendum héraðsdóms í fyrra máli milli aðila þessa máls verður ekki fullyrt að þar hafi verið skorið úr um heimild varnaraðila til að draga frá lífeyrisgreiðslum sínum til sóknaraðila þær bætur samkvæmt lögum nr. 99/2007 sem áður greinir. Verður því ekki talið að í málinu hafi verið dæmt um það sakarefni, sem sóknaraðili freistar að fá dóm um í þessu máli, þannig að til frávísunar leiði samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Í 5. mgr. 101. gr. sömu laga er svo fyrir mælt að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Þar sem sóknaraðili áfrýjaði ekki fyrir sitt leyti héraðsdómi í fyrra málinu til að fá endurskoðaða niðurstöðu dómsins, sem var sem áður greinir í ósamræmi við kröfugerð hennar í héraði, verður litið svo á að hún hafi firrt sig rétti samkvæmt umræddri meginreglu til að höfða nýtt dómsmál í því skyni að fá leyst í reynd úr sömu kröfum og hún tefldi þar fram, nema ný atvik réttlæti slíka málshöfðun. Þá girðir meginreglan á sama hátt fyrir að sóknaraðili geti í nýju dómsmáli byggt á öðrum og frekari málsástæðum en hún gerði í fyrra málinu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 2. apríl 2004 í máli nr. 100/2004.
Þótt sóknaraðili höfði mál þetta til heimtu fjár úr hendi varnaraðila og byggi að nokkru leyti á öðrum málsástæðum en hún gerði í fyrra málinu er markmiðið með málshöfðuninni enn sem fyrr að fá leyst úr því með dómi hvort heimilt sé að draga lífeyris- og bótagreiðslur almannatrygginga frá lífeyrisgreiðslum varnaraðila til hennar. Samkvæmt því sem að framan greinir og þar sem ekki verður séð að atvik hafi breyst svo að máli skipti frá því að sóknaraðili höfðaði fyrra málið verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Margrét Ingibjörg Marelsdóttir, greiði varnaraðila, Gildi-lífeyrissjóði, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2013:
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 14. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Margrét Ingibjörgu Marelsdóttur, Hólmgarði 10, Reykjavík á hendur Gildi lífeyrissjóði, Sætúni 1, Reykjavík, með stefnu birtri 27. mars 2013.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 1.330.028 kr., með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 25.154 kr. frá 1. nóvember 2007 til 1. desember 2007,
en frá þeim degi af kr. 50.408 til 1. janúar 2008,
en frá þeim degi af kr. 75.717 til 1. febrúar 2008,
en frá þeim degi af kr. 101.359 til 1. mars 2008,
en frá þeim degi af kr. 127.202 til 1. apríl 2008,
en frá þeim degi af kr. 153.363 til 1. maí 2008,
en frá þeim degi af kr. 179.749 til 1. júní 2008,
en frá þeim degi af kr. 206.251 til 1. júlí 2008,
en frá þeim degi af kr. 233.078 til 1. ágúst 2008,
en frá þeim degi af kr. 260.107 til 1. september 2008,
en frá þeim degi af kr. 287.260 til 1. október 2008,
en frá þeim degi af kr. 314.552 til 1. nóvember 2008,
en frá þeim degi af kr. 341.125 til 1. desember 2008,
en frá þeim degi af kr. 367.548 til 1. janúar 2009,
en frá þeim degi af kr. 394.144 til 1. febrúar 2009,
en frá þeim degi af kr. 420.898 til 1. mars 2009,
en frá þeim degi af kr. 447.652 til 1. apríl 2009,
en frá þeim degi af kr. 474.436 til 1. maí 2009,
en frá þeim degi af kr. 501.167 til 1. júní 2009,
en frá þeim degi af kr. 527.944 til 1. júlí 2009,
en frá þeim degi af kr. 554.773 til 1. ágúst 2009,
en frá þeim degi af kr. 581.700 til 1. september 2009,
en frá þeim degi af kr. 608.635 til 1. október 2009,
en frá þeim degi af kr. 635.637 til 1. nóvember 2009,
en frá þeim degi af kr. 657.608 til 1. desember 2009,
en frá þeim degi af kr. 679.902 til 1. janúar 2010,
en frá þeim degi af kr. 702.263 til 1. febrúar 2010,
en frá þeim degi af kr. 724.649 til 1. mars 2010,
en frá þeim degi af kr. 745.151 til 1. apríl 2010,
en frá þeim degi af kr. 765.675 til 1. maí 2010,
en frá þeim degi af kr. 786.227 til 1. júní 2010,
en frá þeim degi af kr. 805.702 til 1. júlí 2010,
en frá þeim degi af kr. 825.609 til 1. ágúst 2010,
en frá þeim degi af kr. 845.579 til 1. september 2010,
en frá þeim degi af kr. 871.423 til 1. október 2010,
en frá þeim degi af kr. 897.349 til 1. nóvember 2010,
en frá þeim degi af kr. 923.350 til 1. desember 2010,
en frá þeim degi af kr. 951.826 til 1. janúar 2011,
en frá þeim degi af kr. 980.354 til 1. febrúar 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.008.889 til 1. mars 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.038.233 til 1. apríl 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.067.676 til 1. maí 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.097.150 til 1. júní 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.126.750 til 1. júlí 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.157.497 til 1. ágúst 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.188.555 til 1. september 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.212.148 til 1. október 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.235.920 til 1. nóvember 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.259.859 til 1. desember 2011,
en frá þeim degi af kr. 1.275.282 til 1. janúar 2012,
en frá þeim degi af kr. 1.290.753 til 1. febrúar 2012,
en frá þeim degi af kr. 1.306.224 til 1. mars 2012,
en frá þeim degi af kr. 1.314.104 til 1. apríl 2012,
en frá þeim degi af kr. 1.322.069 til 1. maí 2012,
en frá þeim degi af kr. 1.330.028 til 11. maí 2013,
en frá þeim degi með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði henni málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst þess að málið verði tekið til efnismeðferðar. Ekki er gerð krafa um málskostnað í þessum þætti málsins.
I
Á árinu 1982 var stefnandi metin algerlega óvinnufær vegna örorku. Fékk hún greiddan fullan örorkulífeyri úr lífeyrissjóði frá þeim tíma til 1. nóvember 2007 og síðast frá stefnda. Í samræmdri reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða var kveðið á um rétt til örorkulífeyris, sem skyldi aldrei vera hærri en sem næmi þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefði sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Nánast samhljóða ákvæði var í samþykktum þeirra lífeyrissjóða sem stefnandi naut örorkulífeyris úr, samanber gr. 12.3 í samþykktum fyrir stefnda. Á aðalfundi stefnda hinn 26. apríl 2006 voru samþykktar tillögur stjórnar sjóðsins um breytingar á greininni, þannig að við bættist að við útreikning tekjumissis skyldi meðal annars tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans og lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum sem hann nyti vegna örorkunnar. Hinn 7. júlí 2006 staðfesti fjármálaráðherra breytingarnar og fékk stefnandi í kjölfarið tilkynningu um lækkun lífeyris. Ástæðan var sú að leitt hafði verið í ljós að tekjur hennar væru hærri eftir orkutap en fyrir. Samkvæmt því yrði henni greiddur 37% örorkulífeyrir. Hinn 1. nóvember 2007 kom skerðingin á örorkulífeyrinum fyrst til framkvæmda. Vegna þessarar skerðingar eða hinn 15. október 2007 höfðaði stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Lauk þeim málaferlum með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 665/2008 frá 17. desember 2009.
Mál þetta snýst um heimild stefnda til að draga ákveðnar bætur frá greiðslum til stefnanda. Tekur dómkrafan til bóta sem greiddar eru stefnanda á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þó það komi ekki skýrt fram í stefnu er hér um að ræða uppbót vegna lyfjakostnaðar, vegna umönnunar, bensínstyrks og framfærslu.
Stefndi málsins byggir frávísunarkröfu sína aðallega á því að nú þegar sé búið að fjalla um ágreiningsefni málsins, sbr. tilvitnaðan dóm Hæstaréttar frá 17. desember 2009. Með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála eigi að vísa máli þessu frá dómi.
II
Í fyrsta lagi byggir stefndi á réttaráhrifum (res judicata áhrifum) dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-6780/2007, Margrét Ingibjörg Magnúsdóttir gegn Gildi-lífeyrissjóði sem kveðinn var upp 4. júlí 2008. Í því máli var dómkrafa stefnanda sú, „að viðurkennt verði með dómi að við útreikning stefnda á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem stefnandi fær greiddar frá öðrum“. Stefndi krafðist frávísunar á dómkröfunni á þeim grundvelli að viðurkenningarkrafan væri of víðtæk til að unnt væri að fallast á hana. Úrskurður var kveðinn upp 19. febrúar 2008 og var kröfu stefnanda vísað frá dómi að því er varðaði frádrátt lífeyris- og bótagreiðslna frá öðrum en stefnda og kjarasamningsbundinna tryggingabóta frá örorkulífeyri stefnanda. Stóð þá eftir svohljóðandi dómkrafan: „að viðurkennt verði með dómi að við útreikning stefnda á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum.“ Héraðsdómur taldi annmarka á staðfestingu fjármálaráðuneytis á breytingu á samþykktum stefnda, þar sem grundvöllur fyrir greiðslu örorkubóta var skýrður og gert afdráttarlaust að bætur lífeyrissjóðsins kæmu til viðbóta bótum almannatrygginga, en þó aðeins upp að því marki að framreiknuðum töpuðum tekjum væri náð. Dæmdi hann að stefnda væri óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda „þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins“.
Stefndi áfrýjaði framangreindum dómi en ekki stefnandi. Þar með sætti stefnandi sig við þá niðurstöðu sem fólst í dómsorði Héraðsdóms að aðrar tegundir greiðslna sem hún fékk frá Tryggingastofnun ríkisins falla „utan þess sem héraðsdómur taldi óheimilt að draga frá lífeyri hennar,“ eins og það sé orðað í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Það sé því afar misvísandi sem fullyrt sé í stefnu, að umræddar aðrar greiðslur en örorkulífeyrir og tekjutrygging, hafi fallið utan sakarefnis í fyrrgreindu dómsmáli; rétt sé að um þær var ekki fjallað í dómi Hæstaréttar, en réttara hefði þó verið að tiltaka að ágreiningi um frádráttarbærni þeirra hafi ekki verið skotið til Hæstaréttar. Standi því óhögguð sú niðurstaða héraðsdóms í málinu E-6780/2007, að af dómkröfum stefnanda var aðeins fallist á að stefnda væri óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda, „örorkulífeyri og tekjutryggingu frá Tryggingastofnun“. Samkvæmt því var frádráttur heimill að því er varðar aðra greiðsluliði Tryggingastofnunar, þ.e. þá sem mál þetta lýtur að. Verði ágreiningur þar um ekki borinn undir dóm á ný skv. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml).
Stefndi áréttar að í öllum málatilbúnaði stefnanda í framangreindu héraðsdómsmáli hafi um talnalega útleggingu verið vísað til allra greiðslna sem stefnandi naut frá Tryggingastofnun ríkisins, óháð því hvort greiðslur áttu sér stoð í lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 eða lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 eða fyrirrennara þeirra laga. Í héraðsdómsstefnu í fyrra málinu hafi ekki verið vísað til framangreindra lagaákvæða eða yfirhöfuð nokkur greinarmunur gerður í skýringum á dómkröfum, sem á því byggði að einstakir liðir greiðslna til stefnanda frá Tryggingastofnun ættu sér mismunandi rót eða skyldu meðhöndlast með mismunandi hætti. Lutu kröfur og málsástæður stefnanda að því að óheimilt væri að telja nokkuð af þeim greiðslum til tekna stefnanda við útreikning rétti hennar til örorkubóta úr hendi stefnda.
Stefndi bendir á að skjöl sem stefnandi leggur fram í máli þessu hafi sum hver áður verið lögð fram í fyrrnefndu héraðsdómsmáli og gerir stefndi nánari grein fyrir þeim í greinargerð sinni.
Þá byggir stefndi jafnframt á því að Hæstiréttur hafi í fyrrgreindum dómi sínum lagt til grundvallar að dómur héraðsdóms um frádráttarbærni annarra greiðslna en örorkulífeyris og tekjutryggingar væri endanlegur og bindandi.
Stefndi mótmælir því að stefnandi fái á ný krafist dóms um kröfur sem áður hefur verið dæmt um á þeim grundvelli einum að nýjum málsástæðum sé teflt fram þeim til stuðnings. Stefnandi teflir auk þess fram sömu málsástæðum og í fyrra máli sínu en hefur aukið því við, að uppbót á lífeyri, bensínstyrkur og uppbót vegna umönnunarkostnaðar sem greidd er skv. ákvæðum laga nr. 99/2007 sé sérstaks eðlis og eigi því ekki að hafa sömu áhrif og aðrar bætur almannatrygginga. Stefndi hafnar því að sú málsástæða ein og sér nægi til að víkja frá fortakslausum ákvæðum 1. og 2. mgr. 116. gr. laga 2007 enda hafði stefnandi öll færi á að halda þessum málsástæðum til haga við upphaflega meðferð málsins.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun jafnframt á því að framsetning á kröfum stefnanda í stefnu sé þeim annmörkum háð að ekki verði af henni ráðið hvaða hluti stefnukröfu stafi af hverjum þeirra fjögurra bótaliða sem stefnandi virðist þó byggja á að stefnda hafi verið óheimilt að líta til við útreikning á greiðslu örorkubóta til stefnanda. Verði þannig ekki af stefnunni ráðið hverju stefnandi telur það varða ef fallist yrði á kröfur hans hvað einn lið umræddra greiðslna varðar en ekki annan. Stefndi telur þessa vanreifun þeim mun alvarlegri ágalla að vægi einstakra greiðsluliða sýnist hafa verið mismunandi yfir það tímabil, sem stefnandi miðar kröfur sínar við, svo samhengi dómkröfu og málsástæðna fyrir henni að því er fjárhæðir varðar er öldungis óljóst svo í bága fari við ákvæði e-liðar 1. mgr. laga 91/1991.
Í stefnu séu rakin efnisatriði 5., 9., 10. og 11. gr. laga nr. 99/2007 sem hver um sig tilgreinir heimild til greiðslu á fjárstuðningi af tilteknu tilefni og sú ályktun dregin að greiðslurnar eigi það sammerkt að eiga að mæta sérstökum útgjöldum en þeim sé ekki ætlað að bæta tekjutap vegna skerts aflahæfis. Engin tilraun sé þó gerð til að heimfæra greiðslutilefnin til aðstæðna stefnanda sérstaklega heldur látið við það sitja að fullyrða almennt að allar greiðslur skv. tilvitnuðum lögum eigi sér framangreint tilefni. Þetta sé þó órökstutt í stefnu og ekki óumdeilt; þannig sýnist ljóst að umönnunarbætur sem greiddar séu skv. 5. gr. laganna hafi a.m.k. að hluta það yfirbragð að vera ætlað að mæta skerðingu á aflahæfi sem leiðir af umönnun með öldruðum eða fötluðum maka. Hefði því verið brýnt tilefni til þess fyrir stefnanda að rökstyðja nánar fullyrðingu sína um ólíkt eðli greiðslna skv. lögum nr. 99/2007 og örorkubóta frá stefnanda; hvort tveggja mun þó almennt nýtt til að kosta framfærslu þeirra sem við taka og tilefni til nánari umfjöllunar og heimfærslu til aðstæðna stefnanda því ærið. Telur stefndi því mikið vanta á að samhengi málsástæðna kröfugerðar sé nægjanlega glöggt til þess að vörnum verði við komið með fullnægjandi hætti svo í andstöðu sé við áskilnað e-liðs 1. mgr. 80. gr. eml.
Þá torveldi það stefnda að taka efnislega til varna gagnvart kröfum stefnanda, að þær byggja að uppistöðu til á sömu málsástæðum og dæmt var um í málinun nr. 665/2008. Þó tefli stefnandi fram nýrri málsástæðu sem byggir á þeirri staðhæfingu hans að stefndi hafi þvert á ákvæði 16. gr. laga nr. 100/2007 „eignað sér bætur Tryggingastofnunar án lagaheimildar“. Byggir stefnandi á því að skv. tilvitnuðu lagaákvæði skuli [Tryggingastofnun] „skerða örorkulífeyri og tekjutryggingu skv. lögunum með hliðsjón af greiðslum frá lífeyrissjóðum“. Skerðing á bótum almannatrygginga vegna greiðslna örorkulífeyrisþega frá lífeyrissjóði sé í samræmi við lög; skerðing lífeyrissjóðs á bótagreiðslum vegna tekna örorkulífeyrisþega frá almannatryggingum sé það hins vegar ekki. Stefnandi byggir þannig á því að grunnur örorkulífeyrisgreiðsla skuli vera greiðslur frá lífeyrissjóði og eftir atvikum með viðbót sem komi frá almannatryggingum en ekki öfugt, sem Hæstiréttur hefur þó dæmt lögmætt í fyrri skiptum aðila.
Stefnandi telur þessa málsástæðu stefnanda vekja upp áleitna spurningu um það, hvort stefnandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, þar sem hann sjálfur hefur á svo fortakslausan máta bent á að auknar greiðslur lífeyrissjóða eigi að leiða til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar. Raunverulegur rétthafi að umkröfðum greiðslum, a.m.k. að umtalsverðum hluta, sé skv. því Tryggingastofnun ríkisins. Hvorki sé þó í stefnu eða öðrum málsskjölum að finna upplýsingar um framangreint samspil, þ.e hvort eða að hvaða marki stefnandi fengi notið umkrafinna fjármuna eða hvort þeir gengju allir til lækkunar á greiðslum Tryggingastofnunar fyrir umrædd greiðslutímabil, eftir endurkröfu stofnunarinnar um ofgreiddar bætur skv. 55. gr. laga 100/2007, sbr. 16. gr. laga 99/2007. Sé málið vanreifað að þessu leyti, einkum með hliðsjón af fyrrgreindri málsástæðu, þannig að í bága fer við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga 91/1991.
Þá telur stefndi að framangreindar aðstæður kunni að leiða til frávísunar málsins án kröfu (ex officio), þar sem krafa stefnanda sé í reynd sett fram í þágu þriðja manns, Tryggingastofnunar ríkisins, sem ekki á aðild að málinu, auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni stefnda af úrlausn málsins. Málsástæður stefnanda bendi raunar til þess að málið feli fyrst og fremst í sér lögspurningu um hlutverk lífeyrissjóða og almannatrygginga, þ.e. hvor aðilinn skuli leggja til grunn að lífeyrisgreiðslum og hvor leggi til viðbót við þann grunn, sem í bága fari við ákvæði 1. mgr. 25. gr. eml.
Telur stefndi því slíka ágalla á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt hljóti að teljast að vísa kröfugerð hans frá dómi.
III
Stefnandi hafnar því að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 665/2008 hafi réttaráhrif (res judicata áhrif). Með dóminum var stefnda talið heimilt að skerða lífeyrisgreiðslur vegna greiðslna Tryggingastofnunar ríkisins á örorkulífeyri og tekjutryggingu. Stefnandi bendir á að örorkulífeyri og tekjutryggingu sé ætlað að bæta skerta starfsgetu og launamissi og séu þannig af sama meiði og lífeyrisgreiðslur stefnda. Uppbótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð sé aftur á móti ætlað að koma til móts við sérstök útgjöld sem skapast við sérstakar aðstæður. Uppbótunum sé ekki ætlað að bæta launamissi og séu þannig í eðli sínu ólíkar lífeyrisgreiðslum stefnda.
Stefnandi telur hér vera um annað mál að ræða en í leyst var úr í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 665/2008. Þar sé einungis fjallað um tvær tegundir bóta, þ.e. örorkulífeyri og tekjutryggingu. Sakarefni þessa máls hafi því aldrei komið til skoðunar hjá Hæstarétti.
Breytingarnar á samþykktum stefnda, sem tóku gildi 1. nóvember 2007, áttu einungis að ná til þeirra tekna sem beinlínis komu til vegna örorku. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir að slíkar greiðslur yrðu ekki hærri en framreiknaðar atvinnutekjur fyrir örorku. Uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð séu ekki bætur vegna örorku. Uppbæturnar grundvallast ekki á örorkumati, tekjutapi eða öðrum samanburði núverandi ástands lífeyrisþega og þess sem hefði annars orðið ef ekki hefði komið til örorku. Uppbæturnar eiga að koma til móts við aukaútgjöld en ekki skerðingu tekna. Því sé í máli þessu verið að fjalla um aðrar bætur en fjallað var um í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 665/2008.
Þá sé því hafnað að málabúnaður stefnanda fullnægi ekki skilyrðum 80. gr. laga um meðferð einkamála. Á framlögðu dómskjali með stefnu sé nákvæmlega skilgreint um hvaða bótategundir sé að ræða og fjárhæð hverrar og einnar á mánuði. Þetta sé reiknað út af tryggingarstærðfræðingi. Þá hafnar stefnandi því að málið sé vanreifað eða málatilbúnaðurinn óskýr svo og að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu í málið.
IV
Í málinu gerir stefnandi kröfu um að stefndi endurgreiði vangoldnar lífeyrisgreiðslur. Stefnandi byggir á því að um sé að ræða uppbætur sem stefnandi hafi fengið á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og ekki hafi verið fjallað um þá bótaflokka í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 665/2008.
Í stefnu er ekki að finna sundurliðun á því hvaða bótaflokkar liggja til grundvallar kröfugerð stefnanda. Af lestri gagna málsins verður að ætla að bótaflokkar þeir er um er deilt í málinu eigi stoð í 5. gr. (umönnunarbætur), 9. gr. (uppbætur á lífeyri), 10. gr. (bifreiðakostnaður) og 11. gr. (lyf og læknishjálp) laga um félagslega þjónustu nr. 99/2007. Að mati dómsins er stefna málsins ekki svo skýr sem skyldi hvað þetta varðar. Stefnanda hefði borið með vísan til 80. gr. laga um meðferð einkamála að gera nánari grein fyrir bótaflokkunum og þar með ágreiningsefni málsins í stefnu. Þetta eitt nægir þó ekki til frávísunar málsins, enda verður að telja að stefnandi hefði getað komið að skýringum á seinni stigum þess.
Nefndir bótaflokkar eiga, eins að framan greinir, stoð í lögum um félagslega þjónustu nr. 99/2007. Hins vegar er hér ekki um nýja bótaflokka ræða, með því að fyrir gildistöku nefndra laga höfðu þeir stoð í lögum um almannatryggingar.
Í máli því er stefnandi höfðaði á hendur stefnda með stefnu birtri 15. október 2007 var kröfugerðin svohljóðandi: „...að viðurkennt verði með dómi að við útreikning stefnda, Gildis-lífeyrissjóðs, á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda, skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem stefnandi fær greiddar frá öðrum.“ Stefndi krafðist frávísunar á dómkröfunni á þeim grundvelli að viðurkenningarkrafan væri of víðtæk til að unnt væri að fallast á hana. Gekk úrskurður um ágreininginn 19. febrúar 2008 og í úrskurðarorði segir: „Kröfu stefnanda varðandi frádrátt lífeyris- og bótagreiðslna frá öðrum lífeyrissjóðum en stefnda og kjarasamningsbundinna tryggingabóta frá örorkulífeyri hennar er vísað frá dómi. Að öðru leyti er frávísunarkröfu stefnda hafnað.“ Að þessu fengnu stóð eftir eftirfarandi dómkrafa: „Að viðurkennt verði með dómi að við útreikning stefnda á örorkulífeyrisgreiðslum til stefnanda skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum.“ Niðurstaða fjölskipaðs héraðsdóms var sú að stefnda væri óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda „þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins“.
Stefndi áfrýjaði dómi þessum til Hæstaréttar Íslands, en það gerði stefnandi ekki, þrátt fyrir það að viðurkenningarkrafa hennar hafi einungis verið tekin til greina að hluta, þ.e. einungis varðandi örorkulífeyri og tekjutryggingu frá Tryggingastofnun Íslands, en ekki varðandi allar lífeyris- og bótagreiðslur frá almannatryggingum. Þessi framgangur málsins er reifaður í I. kafla dóms Hæstaréttar og síðan segir þar: „Í yfirliti frá Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur til stefndu, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, kemur fram að örorkulífeyrir og tekjutrygging eru stærstu einstöku tegundir greiðslna, sem stefnda nýtur úr almannatryggingum vegna örorku sinnar. Tegundir greiðslna eru þó fleiri, sem samkvæmt hljóðan dómsorðs falla þá utan þess, sem héraðsdómur taldi óheimilt að draga frá lífeyri hennar.“ Í lok IV. kafla dóms Hæstaréttar segir síðan: „Samkvæmt samanburði á tekjum fyrir og eftir orkutap muni greiðslur frá áfrýjanda á mánuði breytast úr 70.014 krónum miðað við ágúst 2007 í 26.277 krónur. Ekki er deilt um tölulegar niðurstöður á grundvelli útreikningsaðferðar áfrýjanda, heldur um heimild til þeirrar skerðingar á lífeyri sem um ræðir.“
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins, að þeir bótaflokkar sem um er fjallað í þessu máli hafi einnig verið undir í málsgrundvelli þeim sem lagður var í fyrri stefnu stefnanda og dæmt var um í héraðsdómi hinn 4. júlí 2008 og var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Hefur krafan því áður verið dæmd. Með vísan til meginreglu 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er máli þessu þegar af þessari ástæðu vísað frá dómi. Þá skiptir ekki máli þótt stefnandi reisi kröfu sína að hluta á nýjum málsástæðum, enda gat hann haft þær uppi í fyrra málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.