Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2007


Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Fjárdráttur
  • Sönnun
  • Sýkna
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 18. september 2008.

Nr. 510/2007.

Ákæruvaldið

(Ólafur Hauksson, settur saksóknari)

gegn

Eggerti Haukdal

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Endurupptaka. Fjárdráttur. Sönnun. Sýkna. Sératkvæði.

Opinbert mál var höfðað á hendur E með ákæru 15. febrúar 2000. Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var E sýknaður af tveimur ákæruliðum en sakfelldur fyrir fjárdrátt, með því að hafa á árinu 1996, sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps, dregið sér 500.000 krónur með því að hafa látið færa sér til inneignar á viðskiptareikning sinn umrædda fjárhæð sem hafði verið gjaldfærð hjá sveitasjóði sem kostnaður vegna vegagerðar við Þúfuveg í hreppnum, án þess að reikningar lægju þar að baki. Vegna beiðni E um endurupptöku á umræddum dómi lagði Hæstiréttur fyrir settan saksóknara í málinu að kveða til tvo óhlutdræga matsmenn til að semja rökstudda matsgerð um nánar tilgreind atriði í ákvörðun réttarins. Í kjölfar matsgerðarinnar og skýrslutöku af matsmönnum varð Hæstiréttur við beiðni E um endurupptöku á dómi Hæstaréttar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að ekki yrði talið að þáverandi ríkissaksóknari hefði verið vanhæfur til að fara með málið þrátt fyrir að bróðir hans væri einn af eigendum endurskoðunarskrifstofu þeirrar er vann ársreikninga hreppsins, og synir hans ynnu hjá fyrirtækinu. Þá lá fyrir í málinu að umræddar 500.000 krónur hefðu verið færðar hreppnum til gjalda í ársreikningi fyrir árið 1996. Verulegt misræmi var annars vegar milli framburðar M, fyrrverandi endurskoðanda hreppsins, um það hvenær umrædd færsla hefði verið færð til inneignar á viðskiptareikning E og aðdragandann að því, og framlagðra bókhaldsgagna og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna hins vegar. Í ljósi þess að vafi léki á hvort E hefði vitað um færsluna og hvort huglæg skilyrði um ásetning E samkvæmt 247. og 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væru uppfyllt, var það mat meirihluta Hæstaréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sannað sekt E og var hann því sýknaður af kröfum þess.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómarinn Páll Hreinsson, Benedikt Bogason dómstjóri, Símon Sigvaldason héraðsdómari, Stefán Már Stefánsson prófessor og Viðar Már Matthíasson prófessor.

 Með bréfi 22. ágúst 2005 óskaði dómfelldi eftir endurupptöku hæstaréttarmálsins 71/2001 sem dómur var kveðinn upp í 17. maí 2001. Hinn 21. júní 2006 lagði Hæstiréttur fyrir settan ríkissaksóknara í málinu að kveða til tvo óhlutdræga, sérfróða matsmenn í málinu til að semja rökstudda matsgerð um nánar tilgreind atriði sem tilgreind voru í ákvörðun réttarins. Þeir skiluðu matsgerð sinni 6. febrúar 2007 og voru skýrslur af þeim teknar fyrir héraðsdómi 19. febrúar sama ár. Hinn 16. maí 2007 ákvað Hæstiréttur að verða við beiðni dómfellda um endurupptöku málsins. Í samræmi við ákvörðun Hæstaréttar gaf ríkissaksóknari út fyrirkall í málinu 10. september 2007.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómfelldi verði sakfelldur samkvæmt ákærulið II-2 í ákæru 15. febrúar 2000 og að dómfellda verði gerð sama refsing og honum var gerð með dómi Hæstaréttar frá 17. maí 2001 í máli nr. 71/2001. Þá er þess krafist að dómfellda verði gert að greiða sakarkostnað í samræmi við niðurstöðu síðast nefnds dóms.

Dómfelldi krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður og allur kostnaður hans af endurupptöku málsins verði lagður á ríkissjóð.

Málið var áður flutt í Hæstarétti 9. maí 2001 sem mál nr. 71/2001 og var kveðinn upp dómur í því 17. sama mánaðar. Með þeim dómi var dómfelldi sýknaður af tveimur ákæruliðum en sakfelldur samkvæmt ákærulið II-2 fyrir fjárdrátt, með því að hafa á árinu 1996, sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps, dregið sér 500.000 krónur með því að hafa látið færa sér til inneignar á viðskiptareikning sinn umrædda fjárhæð, sem hafði verið gjaldfærð hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar við Þúfuveg í hreppnum án reikninga að baki þeirri færslu.

I.

Krafa dómfellda um frávísun málsins frá héraðsdómi er byggð á því að ríkissaksóknari, Bogi Nilsson, hafi verið vanhæfur til að fara með málið þar sem bróðir hans sé einn af eigendum KPMG Endurskoðunar hf. og synir hans vinni hjá því fyrirtæki og eigi þar frekari aðild að rekstri en venjulegir launþegar. Þá muni orðspor fyrirtækisins bíða hnekki þegar í ljós komi að ekki verði byggt á endurskoðunarskýrslu sem frá fyrirtækinu stafi.

Fyrir liggur að Bogi Nilsson ríkissaksóknari vék sæti 12. desember 2001 í tilefni af erindi Eggerts Haukdal um endurupptöku málsins 3. desember 2001 þar sem vikið væri á mjög gagnrýnan hátt að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG og skýrslu sem einn af endurskoðendum fyrirtækisins ritaði, eins og segir í bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins 12. desember 2001 þar sem hann tilkynnti ráðuneytinu að hann teldi sig vera vanhæfan til að gera tillögu til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 187. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 11. nóvember 1998 var samþykkt samhljóða að fá Einar Sveinbjörnsson endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf. til þess að vinna nýjan ársreikning fyrir árið 1997 í samræmi við lög og góðar reikningsskilavenjur. Í samræmi við það ritaði dómfelldi sem oddviti hreppsins Einari bréf 12. nóvember 1998 til þess að fá hann til að vinna verkið. Einar vakti meðal annars athygli á umræddum færslum á viðskiptareikningi dómfellda nr. 416 í árslok 1996. Sú ábending var studd við útskriftir úr tölvufærðu bókhaldi hreppsins auk fylgiskjala. Þótt lögregla hafi byggt rannsókn sína á þessari og öðrum ábendingum Einars og síðar ákæruvald við saksókn í málinu verður ekki fram hjá því litið að grundvöll rannsóknarinnar var að finna í bókhaldsgögnum hreppsins frá þeim árum er þau tóku til. Ekki verður séð að synir ríkissaksóknara eða bróðir hans hafi haft afskipti af málinu en því er ekki haldið fram að svo hafi verið. Þegar litið er til þáttar Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda og aðkomu hans að málinu verður heldur ekki talið að fyrrnefnd tengsl Boga Nilssonar við eiganda og starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins leiði til þeirrar ályktunar að hann hafi ekki við saksóknina geta litið óhlutdrægt á málavöxtu, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 19/1991. Eru því ekki efni til að taka kröfu dómfellda um frávísun málsins frá héraðsdómi til greina. Ekki eru heldur aðrir þeir annmarkar á málinu, eins og það liggur nú fyrir Hæstarétti, að taka beri þessa kröfu dómfellda til greina.

II.

Eins og áður greinir lagði Hæstiréttur fyrir settan ríkissaksóknara í málinu 21. júní 2006 að kveða til tvo sérfróða matsmenn til að semja matsgerð um atriði sem tilgreind voru í ákvörðun réttarins. Óskað var eftir að matsgerðin tæki meðal annars á eftirtöldum atriðum:

  1. Voru gerðar leiðréttingar á bókhaldi áranna 1994, 1995 og 1996 á árinu 1998 og var eðlilega staðið að þeim leiðréttingum?
  2. [...]
  3. Hver er skýringin á að lokatala ársins 1995 er ekki sú sama og opnunartala ársins 1996?
  4. Frá hvaða tíma má rekja þetta misræmi og hvernig átti þeim færslum að vera réttilega háttað?
  5. Hafi verið um skuld að ræða á árinu 1996 verði því svarað hvort hún hafi verið ranglega leiðrétt, meðal annars með þeim færslum sem tengjast Þúfuvegi.
  6. Upplýsa þarf, svo sem unnt er, hvers vegna fylgiskjöl að baki færslum, sem skipta verulegu máli um sakleysi og sekt dómfellda, finnast ekki.  Er hér a.ö.l. átt við fylgiskjöl nr. 290-296 áranna 1996 og dagbókarútprentanir úr vélfærðu bókhaldi vegna sömu skjala.
  7. Lagt er fyrir matsmenn að skoða sérstaklega og leggja mat á lögregluskjal nr. II/D-1.18.1 sem dómfelldi heldur fram að hafi verið átt við með ólögmætum hætti.
  8. [...]

 

Matsmenn skiluðu matsgerð sinni 6. febrúar 2007 og eru svör þeirra við framangreindum spurningum eftirfarandi:

 

„Spurning nr. 1

Það liggur fyrir í málinu að ákveðnar lokafærslur, sem tilheyra fskj. 346/1994, fskj. 239/1995 og fskj. 290-296/1996 eru ekki í samræmi við ársreikninga framangreindra ára og með færslu þeirra breytast lokaniðurstöður ákv. reikninga í bókhaldinu og verða þær þá ekki í samræmi við viðkomandi ársreikninga.  Í fyrri gögnum v/málsins hefur komið fram að hluti þessa fylgiskjala finnst ekki í bókhaldi Vestur-Landeyjarhrepps og dagbækur vegna sömu bókhaldsfærslna eru ekki heldur á meðal bókhaldsgagna hreppsins.  Það er því ekki hægt að fullyrða með fullri vissu hvenær þessar leiðréttingar voru framkvæmdar.  Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram ljósrit af fskj. 346/1994, fskj. 239/1995 og fskj. 296/1996.  Á þessum fylgiskjölum kemur fram að þau eru send úr faxtæki Aðalendurskoðunar (Magnús Benediktsson) 3/8 1998.  Af því má leiða líkur á, að leiðréttingar, skv. þeim séu gerðar í ágúst 1998, enda eins og áður sagði ekki í samræmi við ársreikninga hvers árs.

[...]

 

Spurning nr. 3

Ekki verður annað séð á gögnum málsins en að lokafærslur áranna 1994 til og með 1996 hafi allar verið færðar á árinu 1998.  Bókhald hvers árs hefur verið opnað handvirkt þ.e. niðurstöður reikninga hafa verið slegnar inn m.v. stöðu þeirra í árslok án þess að tekið hafi verið tillit til „allra“ lokafærslna.  Þetta skýrir af hverju opnunarfærslur 1/1 1996 og loka niðurstöður 31/12 1995 bera ekki saman. 

Ljóst er að áður en „sérstakar“ lokafærslur MB, sem eru á fskj. nr. 239/1995 eru færðar er staðan á viðsk.reikn. 26-63-416, skuld dómfellda kr. 694.206 og inneign á viðsk.reikn 26-63-430 (GB), kr. 193.364.  Mismunurinn er því kr. 500.842, sem verður opnunartalan á viðskiptareikningi dómfellda (fskj. nr. 279/1996).  Með fskj. nr 239/1995, sem virðast færðar 1998 er reikn. 26-63-416 settur á 0!!

 

Spurning nr. 4  

Af fyrirliggjandi gögnum er ekki annað að ráða en að þetta misræmi hafi  viðgengist a.m.k. frá árinu 1994.  Loka niðurstaða hvers árs á að vera í samræmi við ársreikning ársins og yfirfærð saldo 1/1 hvers árs á að vera lokaniðurstaða efnahags-reikninga liðins árs.  Það er með öllu óskiljanlegt hvað liggur að baki þeim ruglingi sem á sér stað með þessum „sérstöku“ lokafærslum og ekki séð annað en þær eigi engan rétt á sér gagnvart viðskiptareikningi dómfellda og séu með öllu ónauðsynlegar og sumar jafnvel villandi.

 

Spurning nr. 5

Með fskj. nr. 289 eru kr. 500.000.- færðar sem kostnaður við Þúfuveg og til skuldar við Ræktunarsamband Landeyja.  Til grundvallar þessari færslu liggur ekki fullnægjandi reikningur skv. ákvæðum bókhaldslaga, heldur er þetta handskrifað fylgiskjal, sem ekki uppfyllir almennar reglur um fylgiskjöl í bókhaldi skv. bókhalds-lögum s.s. með tilvísun til hins formlega reiknings, hafi verið um að ræða leiðréttingu á áður færðu fylgiskjali. Þessi færsla er síðan bakfærð af viðskiptareikningi Ræktunarsambands Landeyja nr. 29-63-417 yfir á viðskiptareikning Eggerts Haukdal nr. 29-63-416. 

Hér er augljóslega um ranga leiðréttingu að ræða því ef þessi skuldfærsla var ekki rétt færð í bókhaldinu þá var gjaldfærslan ekki rétt heldur. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins þá féll enginn kostnaður á Vestur Landeyjahrepp vegna framkvæmda við Þúfuveg.  Rétt færsla er því að bakfæra viðskiptareikning Ræktunarsambands Landeyja nr. 29-63-417 og lækka kostnað vegna Þúfuvegar, reikningslykil að nafni „viðhald gatna“ nr. 10-22-444-1. 

 

Spurning nr. 6 

Í gögnum málsins kemur það margoft fram að þessi umræddu fylgiskjöl eru sögð glötuð.  Við undirritaðir höfum ekki, frekar en aðrir sem að þessu máli hafa komið, haft möguleika á  því að upplýsa hvað hafi orðið um hin glötuðu fylgiskjöl og hver beri ábyrgð á því.  Það bendir þó allt til þess að fylgiskjölin hafi verið færð eftir að ársreikningur vegna ársins 1996 var lagður fram og samþykktur. Því til staðfestingar eru afrit af símbréfum (föxum) sem borist hafa frá Magnúsi Benediktssyni þáverandi endurskoðanda Vestur Landeyjahrepps. Í framlögðum gögnum Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda kemur fram að þessi fylgiskjöl innihaldi fyrst og fremst færslur á milli einstakra efnahagslykla.

Færslur einstakra fylgiskjala eru eftirfarandi:

  • Með fylgiskjali nr. 290 er verið að færa kr. 500.000.- af viðskiptareikningi Ræktunarsambands Landeyja á viðskiptareikning Eggerts Haukdals.
  • Með fylgiskjali nr. 291, 292, 293, 294 og 296 er eingöngu verið að færa færslur á milli viðskiptareikninga nr. 29-63-413 og 29-63-430 sem eru viðskiptareikningar Eggerts Haukdals og Guðrúnar Bogadóttur í bókhaldi hreppsins.
  • Með fylgiskjali 295 er verið að færa ýmsar leiðréttingar vegna saldo 1/1 eins og fram kemur í texta fylgiskjalsins.  Miðað við hvernig fylgiskjalið liggur fyrir verður ekki dregin önnur ályktun af því en með færslunum sé verið að eyða út ýmsum mismunum á viðskiptareikningum til að bókhaldið verði í samræmi við innsendan viðskiptamannalista til Félagsmálaráðuneytisins.  Að minnsta kosti fjórar færslur eru vegna mismuna sem tilgreindir eru á handskrifuðum viðskiptalistum m.v. 31/12 1994 og 31/12 1996 og fjórar aðrar færslur eru vegna millifærslna á milli virðisaukaskattsreikninga.  Ein færsla snertir dómfellda sérstaklega en með þessu fylgiskjali eru kr. 362.014.- færðar dómfellda til skuldar á viðskiptareikning hans nr. 29-63-430.  Engar nánari tilvísanir eða upplýsingar liggja fyrir á hvaða grundvelli þessar færslur eru færðar.  Eins og fylgiskjal 295 er uppsett verður ekki dregin önnur ályktun af þeim færslum en að með þeim hafi bókhaldið verið leiðrétt þannig að innsendur viðskiptamannalisti til Félagsmálaráðuneytis væri í samræmi við bókhaldið.

 

Spurning nr. 7

Í huga matsmanna er alveg ljóst að lögregluskjal nr. II/D1.18.1 sem ber merki 290/1997 er sama skjalið og fylgiskjal sem merkt er 270/1997.  Skjölin eru nákvæmlega eins og með sama innihaldi.  Hvort og hver hafi átt við skjalið er ekki á okkar færi að kveða upp úr um.

            [...]

Niðurstöður

Það er skoðun matsmanna eftir að hafa skoðað bókhaldsgögn Vestur Landeyjahrepps að færslu bókhalds hreppsins fyrir árin 1994, 1995 og 1996 hefur á ýmsan hátt verið ábótavant.  Má í því sambandi benda á að hluti lokafærslna hvers árs voru ekki færðar fyrr en löngu eftir að bókhaldsárinu lauk og ársreikningur hafði verið saminn.  Yfirfærð staða bókhaldsreikninga á milli reikningsára stemmdi ekki við árs-reikning viðkomandi árs.  Leiðréttingar á röngum færslum voru ekki rétt færðar og varðveisla bókhaldsgagna s.s. millifærslu fylgiskjala og dagbókaútskrifta, var ekki með eðlilegum hætti. [...].“

III.

Dómfelldi, Eggert Haukdal, lét af störfum sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps í lok árs 1998 og hafði þá gegnt því starfi í 28 ár. Sem oddviti sá dómfelldi um gjaldheimtu og reikningshald hreppsins, sbr. 67. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Magnús Benediktsson endurskoðandi starfaði fyrir hreppinn á árunum 1993 til 1998 og stillti að eigin sögn upp bókhaldi og ársreikningi fyrir hann eftir að Guðrún Bogadóttir, sambýliskona dómfellda, hafði fært bókhaldið. Hann kveðst einnig hafa endurskoðað ársreikning hreppsins fyrir árið 1997.

Á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 26. nóvember 1994 var samþykkt að leggja fram 300.000 krónur sem framlag hreppsins við lagfæringu á Landeyjavegi, milli Grímsstaðavegar og Ártúnsvegar, á hinum svonefnda Þúfuvegi Hreppsnefndin samþykkti síðan á fundi sínum 3. apríl 1996 að auka framlag hreppsins til þessara vegaframkvæmda í 500.000 krónur. Umdæmisstjóri Vegagerðarinnar staðfesti með bréfi 27. apríl 2001 til KPMG Endurskoðunar hf. að kostnaður af því að lagfæra Þúfuveg hefði verði færður á viðhald vega að öðru leyti en því að 500.000 krónur voru færðar á safnvegi í Vestur-Landeyjum og er fram komið að sá kostnaður var greiddur af sýsluvegasjóði Rangárvallasýslu. Kom því ekki til þess að Vestur-Landeyjahreppur væri krafinn um greiðslu fyrir nefndar vegaframkvæmdir. Fjárhæð þessa átti því ekki að gjaldfæra í bókhaldi hreppsins. Af bókhaldi hreppsins virðist mega ráða að hún hafi verið færð hreppnum til gjalda vegna vegamála án viðhlítandi gagna og í fyrstu til inneignar á viðskiptareikningi með heiti Ræktunarsambands Landeyja en þaðan til inneignar á viðskiptareikning 29-63-416 sem hafði að geyma viðskipti dómfellda og hreppsins. Í árslok voru dómfellda færðar til skuldar 500.841 króna sem „Saldó 1/1 Eggert Haukdal“. Viðskipta­reikningur 416 var jafnaður út miðað við árslok 1996 af ókunnum ástæðum og voru viðskipti dómfellda eftir það færð á reikning 29-63-430 sem var þá á nafni dómfellda. Á hann voru skráðar nær allar færslur ársins 1996 af reikningi 416 en þó ekki framangreindar fjárhæðir, sem gengu hvor á móti annarri með þeim afleiðingum að skuld dómfellda að fjárhæð 500.841 króna jafnaðist að mestu út, áður en fært var yfir á hinn nýja viðskiptareikning.

Í framburði Guðmundar Jens Þorvarðarsonar matsmanns fyrir dómi kom fram að fylgiskjöl 290 til 296 hefðu vantað í bókhaldi hreppsins fyrir árið 1996 svo og dagbókarblöð fyrir þessar færslur, en með fylgiskjali 290 hefðu 500.000 krónur verið færðar af viðskiptareikningi Ræktunarsambands Landeyja á viðskiptareikning dómfellda. Ljósrit af fylgiskjali 296 hefði þó verið til í skýrslu Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda sem hann tók saman fyrir dómfellda. Í svari matsmanna við spurningu 1 og 3 kemur fram að samkvæmt ljósriti af fylgiskjölum 346/1994, 239/1995 og 296/1996 séu þau send úr faxtæki Aðalendurskoðunar, þ.e. Magnúsar Benediktssonar endurskoðanda, 3. ágúst 1998. Af því megi leiða líkur á að leiðréttingar, sem gerðar voru samkvæmt þeim á bókhaldi áranna 1994 til 1996, hafi verið gerðar í ágúst 1998, enda séu þær ekki í samræmi við ársreikninga hvers árs.

Af fylgiskjali 289 úr bókhaldi hreppsins fyrir árið 1996 er ljóst að 500.000 krónur hafi verið færðar hreppnum til gjalda vegna vegamála og til inneignar á viðskiptareikningi með heiti Ræktunarsambands Landeyja. Efst á nefndu fylgiskjali er svohljóðandi áletrun: „03:05 ´97 FRI 10:30 FAX 354 553 9810 Aðalendurskoðun“. Af þessari áletrun virðist mega ráða að fylgiskjal 289 hafi verið sent bókara hreppsins 3. maí 1997 af Magnúsi Benediktssyni endurskoðanda hreppsins. Verður því að gera ráð fyrir að þessi færsla í bókhaldi hreppsins hafi verið framkvæmd 3. maí 1997 eða stuttu síðar. Styður þetta ennfremur niðurstöðu matsmanna um að færsla 500.000 króna á reikning dómfellda hafi ekki verið gerð árið 1996, en hún var flutt af reikningi Ræktunarsambands Landeyja eins og áður segir.

Í gögnum málsins liggur fyrir að félagsmálaráðuneytið ritaði Vestur-Landeyjahreppi bréf 20. apríl 1998 og óskaði meðal annars eftir upplýsingum um hvaða einstaklingar hefðu skuldað hreppnum útsvar og fasteignagjöld árið 1996. Í framburði Reynis Ragnarssonar matsmanns kom fram að ætla mætti að fyrir endurskoðanda hreppsins hefði vakað að koma þessu í þann farveg að bókhaldið passaði við ársreikninga sem hann var búinn að gera og þar af leiðandi hefði hann þurft í ágúst 1998 að færa einhverjar færslur mörg ár aftur í tímann. Virtist honum sem þessar færslur hefðu verið færðar til þess að bókhaldið yrði í samræmi við viðskiptamannalista sem sendur var félagsmálaráðuneytinu, en fyrir liggur í gögnum málsins að það var gert 12. ágúst 1998. Þá bar Guðmundur Jens Þorvarðarson matsmaður að með þessu hefði samþykktum reikningum Vestur-Landeyjahrepp áranna 1994-1996 verið breytt án þess að þeir, í hinni breyttu mynd, hefðu á ný verið lagðir fyrir hreppsnefnd til samþykktar.

Settur saksóknari lét gera reka að því að rannsakað yrði sérstaklega hvenær færsla á 500.000 krónum hefði átt sér stað inn á viðskiptareikning dómfellda í tilefni af endurupptökubeiðni hans. Fram kemur í greinargerð setts ríkissaksóknara 20. nóvember 2002 að þær upplýsingar hafi fengist frá tæknimanni að bókhaldsforritið SFS sem hreppurinn notaðist við á umræddum tíma hefði ekki að geyma bakskrá (loggskrá) sem sýndi hvenær viðkomandi hreyfing væri skráð eða af hverjum. Færslan væri því ekki rekjanleg vélrænt úr tölvu hreppsins. Hins vegar ætti dagbók að sýna innslátt í bókhaldskerfið tilgreindan dag en þá skrá þyrfti að prenta út í lok vinnslunnar til þess að innskráðar breytingar uppfærðust. Með bréfi Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda 8. nóvember 2002 kom hins vegar fram að fylgiskjöl 290-296 væru ekki að finna í fylgiskjalamöppu ársins 1996 né heldur útprentuð dagbók. Lægi því ekki fyrir hvaða dag fylgiskjölin hefðu verið tölvuskráð í bókhaldið.

            Af hálfu dómfellda hefur því verið borið við að honum hafi ekki verið kunnugt um að honum hefðu verið færðar 500.000 krónur til tekna í bókhaldi hreppsins fyrr en hann fór á fund Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf. 24. nóvember 1998 eða rúmum þremur mánuðum eftir að þær höfðu verið færðar á reikning hans.

            Magnús Benediktsson endurskoðandi bar á hinn bóginn fyrir rétti 4. janúar 2001 að fyrrnefnd færsla 500.000 króna á viðskiptareikning dómfellda hefði verið gerð að beiðni dómfellda þar sem að hann hefði ætlað að greiða sjálfur fyrir vegaframkvæmdirnar og leggja síðar fram reikning til framlagningar í bókhaldi. Þá má af framburði hans skilja að færslan hefði verið gerð árið 1996 og var við það tímamark miðað í ákæru svo og þegar dómur var á málið lagður í Hæstarétti 17. maí 2001. Þessi tímasetning, um að færslan hafi verið gerð á árinu 1996, samræmist ekki fyrrnefndum dagsetningum á fylgiskjölum fyrir færslu á reikning Ræktunarsambands Landeyja eða dagsetningu á fylgiskjali fyrir færslu af þeim reikningi yfir á reikning dómfellda og heldur ekki niðurstöðu matsmanna. Þá virðist nærtækast að tilefnið fyrir þeim færslum, sem gerðar voru á bókhaldi hreppsins fyrir árin 1994-1996, hafi verið fyrirspurn félagsmálaráðuneytisins um skuldir gjaldenda í bókhaldi hreppsins. Er þannig verulegt misræmi á milli framburðar Magnúsar Benediktssonar um þessi atriði annars vegar og framlagðra bókhaldsgagna og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna hins vegar.

            Eins og að framan greinir voru 500.000 krónur færðar hreppnum til gjalda í ársreikningi fyrir árið 1996. Gögn málsins benda til að mótfærsla þessarar færslu hafi verið gerð á reikning Ræktunarsambands Landeyja og að þannig hafi verið gengið frá ársreikningi hreppsins fyrir það ár með áritun skoðunarmanna. Færsla til inneignar á viðskiptareikning 29-63-416, sem hafði að geyma viðskipti dómfellda og hreppsins, var hins vegar gerð síðar og sem einhvers konar leiðrétting á fyrri færslum. Í bókhaldi hreppsins fyrir árið 1996 er þó hvorki að finna fylgiskjal 290 um umrædda færslu á reikning dómfellda né heldur útprentaða dagbók eða önnur skrifleg gögn um hana. Er því óljóst um ástæður færslunnar og önnur atvik að henni. Af þessum sökum leikur slíkur vafi á því hvort dómfelldi hafi vitað um hana og þar með hvort uppfyllt séu huglæg skilyrði um ásetning dómfellda til að tileinka sér þessa fjármuni og auðgast, sbr. 247. gr. og 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður Hæstiréttur að meta hvort ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. sömu laga. Slík sönnun hefur samkvæmt framansögðu hefur ekki tekist og verður því að sýkna dómfellda af kröfum ákæruvaldsins.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda dómfellda fyrir Hæstarétti verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði og hefur þar jafnframt verið tekið tillit til vinnu við endurupptökubeiðnir til Hæstaréttar svo og sakarkostnaðar vegna máls Hæstaréttar nr. 71/2001. Þá greiðist úr ríkissjóði kostnaður við sérfræðilegar álitsgerðir, mats- og skoðunargerðir og tengda vinnu sem dómfelldi hefur staðið straum af eins og í dómsorði greinir, sbr. b. liður 164. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Dómfelldi, Eggert Haukdal, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda dómfellda, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttar­lögmanns, 4.257.900 krónur svo og kostnaður dómfellda, við að afla sérfræðilegrar álitsgerðar svo og mats- og skoðunargerðar, 2.922.318 krónur.

 

Sératkvæði

Símonar Sigvaldasonar héraðsdómara

Ég geri engar athugasemdir við niðurstöðu meirihluta dómenda fram að III. kafla dómsins.

Svo sem rakið er í atkvæði meirihluta dómsins er dómfellda gefið að sök fjárdráttur með því að hafa á árinu 1996 látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn 500.000 krónur, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum, án reikninga að baki þeirri færslu. Mótfærslan hafi í fyrstu verið færð á Ræktunarsamband Vestur-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign dómfellda á viðskiptareikning hans. Dómfelldi hefur m.a. hagað vörnum sínum þannig að framangreind brotalýsing lýsi ekki fjárdrætti samkvæmt 247. gr. laga nr. 19/1940. Að mínu mati verður ekki á þá vörn dómfellda fallist. Brotið miðast við að færðir séu fjármunir á milli reikninga sem leiðir til þess að eign eða skuld samkvæmt viðskiptareikningi tekur breytingum til hækkunar eða lækkunar. Dómfelldi var oddviti Vestur-Landeyjahrepps og voru reikningar hreppsins í vörslu dómfellda. Þegar um það er að ræða að millifærðir eru fjármunir af reikningi hreppsins inn á eigin reikning dómfellda, án þess að baki liggi lögmætur reikningur, er um fjárdrátt að ræða í skilningi 247. gr. laga nr. 19/1940. 

Sakarefni það sem hér er til meðferðar sætti upphaflega lögreglurannsókn í framhaldi af endurskoðun Einars Sveinbjörnssonar endurskoðanda hjá KPMG Endurskoðun hf., en samþykkt var á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 11. nóvember 1998 tillaga þess efnis að unninn skyldi nýr ársreikningur fyrir sveitafélagið fyrir árið 1997. Skilaði endurskoðandinn greinargerð sinni um efnið 10. febrúar 1999. Eftir að fram var komin kæra tiltekinna íbúa Vestur-Landeyjahrepps 23. febrúar 1999 tók embætti Ríkislögreglustjóra málið til rannsóknar. Leiddi sú rannsókn til útgáfu ákæru í málinu.

Svo sem rakið er í dóminum liggur nú fyrir Hæstarétti ný matsgerð sem lokið var 6. febrúar 2007. Verður að telja ótvírætt að á grundvelli upplýsinga í hinni nýju matsgerð hafi Hæstiréttur 16. maí 2007 heimilað endurupptöku málsins. Að mínu mati leggur matsgerðin hins vegar ekki neinn nýjan grunn að málinu. Þær upplýsingar sem þar koma fram ganga í reynd einungis að litlu leyti lengra varðandi upplýsingar um bókhald hreppsins en fyrir lágu fyrir þann tíma. Er það einna helst varðandi það álitaefni hvenær leiðréttingar á bókhaldi hreppsins hafi verið gerðar af Magnúsi Benediktssyni endurskoðanda, en honum hafði verið falið að færa bókhald hreppsins fyrir árin 1994 til 1996. Samkvæmt niðurstöðu matsmanna má leiða líkur að því að leiðréttingar á bókhaldi þessara ára hafi verið gerðar í ágúst 1998. Þá liggur fyrir af fylgiskjali nr. 289 úr bókhaldi hreppsins fyrir árið 1996 að 500.000 krónur voru færðar hreppnum til gjalda vegna vegamála til inneignar á viðskiptareikningi með heiti Ræktunarsambands Landeyja. Af áletrun virðist mega ráða að fylgiskjal nr. 289 hafi verið sent bókara hreppsins 3. maí 1997 af Magnúsi Benediktssyni endurskoðanda. Ályktar meirihluti dómsins út frá þessu að þessi færsla í bókhaldi hreppsins hafi verið framkvæmd 3. maí 1997 eða stuttu síðar. Ég tel þetta í raun geta staðist. Það liggur hins vegar fyrir að bókhald hreppsins var talsvert rangfært og leiðréttingar gerðar aftur í tíma. Ég tel vel geta staðist og ekki ganga gegn sönnunarfærslu ákæruvaldsins að þær færslur sem tilheyra bókhaldi hreppsins fyrir árið 1996 og hér er fjallað um hafi verið færðar á árunum 1997 til 1998. Ég tel að forsendur í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands frá 6. febrúar 2001 þar sem staðhæft er að færslur samkvæmt fylgiskjölum 289 og 290 hafi verið gerðar á sama tíma, í árslok 1996, megi allt eins skilja þannig að miðað sé við bókhald ársins 1996, en ekki hvenær þær hafi í raun verið færðar. Þá verður heldur ekki séð að Hæstiréttur hafi í dómi sínum 17. maí 2001 í máli nr. 71/2001 gengið út frá þeirri forsendu að færslurnar hafi í reynd verið færðar í lok ársins 1996. Af þessum ástæðum tel ég hina nýju matsgerð frá 6. febrúar 2007 um bókhald hreppsins einungis varpa að óverulegu leyti ljósi á atriði sem ekki lágu áður fyrir um bókhald hreppsins. 

Svo sem fram kemur í matsgerðinni og þeim skýrslum sem unnar hafa verið um bókhald Vestur-Landeyjahrepps fyrir árin 1994 til 1996 má almennt segja að verulega hafi á það skort að bókhald hreppsins hafi verið fært í samræmi við lög. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það ákæruefni sem fyrir dóminum liggur er afmarkað og snýr einungis að því að leysa úr því hvort dómfelldi hafi látið færa sér til inneignar á viðskiptareikning 500.000 krónur úr sjóði hreppsins án reikninga að baki þeirri færslu og hvort ákæruvaldinu hafi tekist sönnun um að svo sé. Brotið er fullframið með slíkri færslu. Upplýst er um margvísleg fjármálaleg samskipti dómfellda og hreppsins á þessum árum en mikilvægt er að halda þeim aðskildum frá því sakarefni sem hér er til úrlausnar. Gögn málsins eru mikil að umfangi og eru mörg skjöl þar lögð fram í tví- og jafnvel þrígang, auk þess sem sum þeirra varða ákæruefni samkvæmt I. kafla og 1. tl. II. kafla ákæru frá 15. febrúar 2000 sem dómfelldi hefur þegar verið sýknaður af. Hefði betur mátt vanda til ágripsgerðar að þessu leytinu til, en slíkt hefði leitt til einföldunar málsins. 

Þegar kemur að sönnun um sakarefni samkvæmt ákæru er við ýmis venjubundin sönnunargögn að styðjast, svo sem jafnan er í málum af þessum toga, en sönnunarmat er frjálst, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991. Er þar fyrst að telja hin sýnilegu sönnunargögn sem eru bókhald hreppsins og þær skýrslur endurskoðenda sem unnar hafa verið upp úr bókhaldinu, sem og önnur gögn. Einnig hefur framburður dómfellda gildi um sönnun, sem og framburður vitna, en þar er einna helst við framburð Magnúsar Benediktssonar endurskoðanda að styðjast. Í seinni tíð hefur mál þetta að mínu mati verið talsvert markað af þeirri endurskoðunarvinnu sem átt hefur sér stað varðandi bókhaldið. Skipta framburðir einnig miklu um sönnun en sönnunargildi skýrslna dómfellda og vitna verður að leggja mat á. Tel ég rétt að gera grein fyrir nokkrum atriðum í því sambandi.

Ef litið er til framburðar dómfellda sjálfs hefur hann ekki verið á einn veg frá því mál þetta fór af stað. Er tekin var skýrsla af honum hjá lögreglu 1. október 1999 kvaðst hann ekki geta skýrt gjaldfærslu á 500.000 krónum sem inneign á viðskiptareikningi sínum en bætti því við að hann hefði endurgreitt fjárhæðina. Er sama atriði var borið undir hann við yfirheyrslu hjá lögreglu 29. október sama ár kvaðst dómfelldi vísa til fyrri framburðar síns og kjósa að tjá sig ekki nánar um þetta atriði. Er bornar voru undir dómfellda hjá lögreglu 15. nóvember 1999 endurgreiðslur hans til Vestur-Landeyjahrepps á árinu 1998 staðfesti dómfelldi að 500.000 krónur hafi verið greiddar ,,vegna ólögmætrar lækkunar eigin viðskiptaskuldar 31. desember 1996”. Er sakamálið nr. 76/2000 var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 24. febrúar 2000 er fært í þingbók að dómfelldi játi sök samkvæmt síðari hluta síðari liðar ákæru, en um er að ræða þau sakarefni sem hér eru til meðferðar. Á dómþingi 6. mars 2000 er bókað um þennan lið ákærunnar eftir dómfellda að honum hafi verið ,,þetta” ljóst. Orðið hafi mistök vegna ,,klaufaskapar og vangár” og geti dómfelldi ekki annað en afsakað þau mistök og hafi hann ,,greitt þau”. Eftir að héraðsdómur í ofangreindu máli hafði verið ómerktur og málið sent aftur heim í hérað var það tekið fyrir á dómþingi 1. nóvember 2000. Er þá bókað eftir dómfellda að hann mótmæli þeim sakargiftum sem fram komi í ákæru. Við aðalmeðferð málsins 5. janúar 2001 lýsti dómfelldi því yfir að ráðinn hefði verið endurskoðandi til að sjá um bókhald hreppsins. Þær færslur er um ræddi og frágangur þeirra hafi verið ,,algjörlega hans”. Hafi þetta verið gert ,,gjörsamlega án minnar vitneskju”.  

Tekin var skýrsla af Magnúsi Benediktssyni endurskoðanda hjá lögreglu 7. október 1999. Kvaðst Magnús hafa gert upp bókhald fyrir hreppinn fyrir reikningsárin 1993 til 1997. Hafi hann stillt upp ársreikningi og skilað skýrslu til Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi hvern ársreikning. Hann hafi ekki séð um færslu bókhalds, en það hafi Guðrún Bogadóttir sambýliskona dómfellda gert. Hafi Magnús haft samband við dómfellda sem komið hafi til hans bókhaldsgögnum. Hafi Guðrún í stöku tilfellum haft símasamband við Magnús og leitað ráða um færslur, en hún hafi einnig fengið leiðbeiningar frá dómfellda í því efni. Að því er færslu á 500.000 krónum varði, sem bókfærðar hafi verið 31. desember 1996 sem kostnaður vegna Þúfuvegar án þess að fyrir lægi reikningur, kvaðst Magnús kannast við færsluna. Hafi hún verið gerð í samræmi við skýringar dómfellda, sem hafi sagt að hann myndi koma með fylgiskjöl vegna þessa síðar til færslu í bókhaldi. Hafi Magnús gjaldfært greiðsluna í góðri trú þar sem hann hafi talið dómfellda hafa lagt út fyrir henni af eigin fé, enda hafi Magnús vitað til þess að unnið hafi verið við þennan tiltekna veg. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi bar Magnús með þeim hætti að hann hafi stillt upp bókhaldi fyrir Vestur-Landeyjahrepp eftir að búið hafi verið að færa það í gagnið eftir árinu og hafi hann stillt upp ársreikningi. Einnig hafi hann í gegnum síma ráðlagt dómfellda og Guðrúnu Bogadóttur um einstaka færslur. Magnús kvaðst hafa annast reikningsskil fyrir hreppinn fyrir árin 1994 til 1996 og lagt þau fyrir kjörna skoðunarmenn. Hafi hann því ekki verið endurskoðandi fyrir hreppinn. Magnús kvað þann framburð dómfellda ekki réttan að Magnús hafi fært allt bókhaldið. Að því er varðaði færslu á 500.000 krónum þá hafi dómfelldi tjáð Magnúsi að ,,þetta hafi verið gert” og hafi dómfelldi ætlað að koma með reikning fyrir þessu og hafi Magnúsi skilist að dómfelldi hafi ætlað að lækka viðskiptaskuld sína á móti. Þessu atriði hafi síðan ekki verið fylgt eftir fyrr en Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi hafi farið að skoða málið. Á fundi með Einari, dómfellda og Magnúsi hafi þetta verið tekið upp og hafi það ekki komið dómfellda á óvart. Er Magnús var spurður sérstaklega um nefnda millifærslu varðandi Þúfuveg svaraði Magnús því til að dómfelldi hafi ætlað að koma með reikning fyrir því. Aðspurður hvaða ár ,,það” hafi verið svaraði Magnús því til að það hafi verið árið 1996.

Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að bókhaldsgögn í málinu sýna svo ekki verður um villst að 500.000 krónur voru færðar til inneignar á viðskiptareikning dómfellda í lok ársins 1996 sem gjaldfærðar höfðu verið sem kostnaður vegna vegagerðar í Vestur-Landeyjahreppi. Mótfærsla var í fyrstu færð á Ræktunarsamband hreppsins en síðan millifærð sem inneign dómfellda á viðskiptareikningi hans. Fyrirliggjandi greinargerðir um bókhald hreppsins og matsgerð varpa engu sérstöku ljósi á tilurð þessara færslna og mikilvæg fylgiskjöl þeim tengd hafa aldrei fundist. Dómfelldi hefur verið óstöðugur í framburði sínum um færslurnar frá því mál þetta fór af stað. Hann hafði hins vegar verið oddviti í hreppnum í nærri 30 ár þegar þar var komið og bar sem slíkur ábyrgð á fjármunum hreppsins. Honum bar að sjá um gjaldheimtu og reikningshald hreppsins samkvæmt þágildandi 67. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Í ljósi þess langa tíma sem dómfelldi hafði starfað sem oddviti í hreppnum fær ekki annað staðist en að hann hafi haft góða innsýn inn í og mikla reynslu af fjármálum hreppsins og færslu á bókhaldi. 

Dómfelldi hefur borið því við að Magnús Benediktsson endurskoðandi hafi alfarið sjálfur séð um títtnefndar færslur og að dómfelldi hafi ekki haft minnsta grun um hvernig þær hafi verið færðar fyrr en Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi hafi gert honum grein fyrir því. Magnús ber á hinn bóginn að hann hafi fært umræddar færslur svo sem bókhald ber með sér samkvæmt fyrirmælum dómfellda. Við mat á því á hvorn trúnaður verður lagður að þessu leyti verður ekki fram hjá því litið að þessi færsla er alfarið til hagsbóta dómfellda en ekki Magnúsi Benediktssyni. Er engin skynsamleg skýring á því komin fram af hvaða ástæðu endurskoðandinn ætti að vera að bera ranglega um þetta atriði við rannsókn málsins hjá lögreglu og meðferð þess fyrir dómi, en um þetta atriði hefur framburður hans verið stöðugur. Það sem að auki styður framburð Magnúsar um þetta atriði er að fylgiskjal nr. 290 fyrir árið 1996 hefur aldrei fundist, en það er fylgiskjalið sem Magnús ber að dómfelldi hafi ætlað að útvega en aldrei komið. Hefur framburður Magnúsar verið stöðugur og í reynd ekkert fram komið sem veikir hann, en ég tel hann ekki staðhæfa að hann hafi fært þær færslur sem um ræðir í lok árs 1996. Í því efni verður m.a. að hafa í huga að Magnús hefur ávallt fullyrt að hann hafi gert upp bókhald fyrir hreppinn fyrir hvert ár eftir að Guðrún Bogadóttir hafi fært bókhaldið frá degi til dags, en fram er komið hjá henni og dómfellda að hún hafi m.a. haft það hlutverk að halda til haga fylgiskjölum og raða þeim saman. Þá liggur fyrir að dómfelldi sendi félagsmálaráðuneyti viðskiptamannalista með bréfi dagsettu 12. ágúst 1998 í kjölfar bréfaskrifta hans við ráðuneytið vegna fyrirspurna ráðuneytisins um ráðstafanir hans í málefnum hreppsins. Á lista yfir viðskiptamenn 31. desember 1996 er í engu getið skuldar dómfellda við sveitarfélagið, sem byggir þá á því að tekið hafi verið tillit til lækkunar á skuld með millifærslu 500.000 króna inn á viðskiptareikning dómfellda. Loks liggur það fyrir að á árinu 1998 endurgreiddi dómfelldi hreppnum umtalsverðar fjárhæðir. Verður sundurliðun á endurgreiðslunni ekki skýrð með öðrum hætti en að henni hafi verið varið í endurgreiðslu á nefndum 500.000 krónum sem mál þetta snýst um. Í þessu ljósi fær ekki staðist fullyrðing dómfellda um að honum hafi því fyrst er Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi kynnti honum niðurstöður sínar í lok árs 1998 orðið ljóst um þær færslur sem hér er fjallað um. 

Er það því niðurstaða mín að þær forsendur sem Hæstiréttur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni í máli nr. 71/2001 standi óhaggaðar. Með þeim dómi var héraðsdómur í málinu staðfestur en þann dóm skipaði m.a. endurskoðandi sem sérfróður meðdómandi. Þegar öll framangreind atriði eru virt í heild er það mat mitt að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að dómfelldi hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru. Ber því að sakfella hann samkvæmt ákæru og dæma hann í sömu refsingu og gert var í fyrrgreindu hæstaréttarmáli.