Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-21

Þorbjörn Halldór Jóhannesson (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Ísafjarðarbæ (Andri Andrason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Opinberir starfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Sveitarfélög
  • Stjórnsýsla
  • Valdmörk
  • Jafnræðisregla
  • Réttmætisregla
  • Rannsóknarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 10. febrúar 2023 leitar Þorbjörn Halldór Jóhannesson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. janúar 2023 í máli nr. 688/2021: Þorbjörn Halldór Jóhannesson gegn Ísafjarðarbæ. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna starfsloka hans hjá gagnaðila en starf hans sem yfirmaður eignasjóðs gagnaðila var lagt niður.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að sérstök úttekt um stjórnsýslu, rekstur og fjármál gagnaðila hefði legið til grundvallar því mati bæjarstjóra að leggja starf leyfisbeiðanda niður. Landsréttur taldi að líta yrði svo á að niðurstaða bæjarstjóra hefði verið reist á viðhlítandi rannsókn á þeim kostum sem fyrir hendi voru í því augnamiði að ná fram tiltekinni hagræðingu í rekstri gagnaðila. Það fjárhagslega markmið sem hefði búið að baki ákvörðun um að leggja starfið niður hefði verið málefnalegt, sbr. 64. og 77. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Af því hefði einnig leitt að líta hafði mátt til mismunandi launa starfsfólks til að ná fram hinu lögmæta markmiði. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að með niðurlagningu á starfinu hefði ekki verið gengið lengra en nauðsyn bar til. Hvorki lægi því fyrir að með ákvörðuninni hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu, réttmætisreglu eða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar né að farið hefði verið í bága við jafnræðisreglu. Loks taldi Landsréttur að bæjarstjóri hefði verið bær til að veita leyfisbeiðanda lausn frá störfum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um hvaða takmarkanir jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði setji uppsagnarrétti vinnuveitanda þegar svo hagi til að skammt sé til starfsloka. Þá byggir hann á því að málið hafi verulega fjárhagslega þýðingu fyrir sig. Hann byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem sú niðurstaða dómsins að ekki liggi fyrir að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, réttmætisreglu eða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og ekki hafi verið farið í bága við jafnræðisreglu hafi verið röng. Jafnframt hafi sú niðurstaða Landsréttar að niðurlagning starfs leyfisbeiðanda hjá gagnaðila hafi verið innan stöðuumboðs bæjarstjóra verið röng enda hafi hann ekkert umboð haft til að grípa til ráðstafana á grundvelli úttektarinnar án þess að gera bæjarráði eða bæjarstjórn grein fyrir þeim aðgerðum fyrirfram.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.