Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Upplýsingaréttur


                                     

Fimmtudaginn 15. maí 2014.

Nr. 303/2014.

A hf.

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

B og

C

(Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Upplýsingaréttur.

Með úrskurði héraðsdóms var ákvörðun sýslumanns breytt á þann veg að lagt var fyrir hann að óska upplýsinga frá ríkisskattstjóra um það hvort tiltekið skattframtal B hefði að geyma upplýsingar um að hann hefði fengið greitt frá C söluandvirði tilgreindrar fasteignar og ef svo væri hverju fjárhæðin hefði numið. Ákvörðun sýslumanns var á hinn bóginn staðfest að öðru leyti um að hafna kröfum A hf. er lutu að frekari öflun upplýsinga um fjárhag B, meðal annars hjá C. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014 þar sem ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar 2013 var breytt á þann veg að lagt var fyrir hann að óska upplýsinga frá ríkisskattstjóra um það hvort skattframtal varnaraðilans B 2011 vegna tekjuársins 2010 hafi að geyma upplýsingar um að hann hafi fengið greitt frá varnaraðilanum C söluandvirði tiltekinnar íbúðar að D í [...] og ef svo væri hverju fjárhæðin hafi numið, en ákvörðun sýslumanns staðfest að öðru leyti. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði dæmd ógild og lagt fyrir hann að framkvæma eftirfarandi: „1. Að sýslumaður óski upplýsinga frá ríkisskattstjóra úr skattframtölum C ... árin 2011 og 2012, fyrir tekjuárin 2011 og 2010, um kaup og sölu fasteignanna nr. [...] við A, og nr. [...] við [...]... og hvort þau beri það með sér að hún hafi greitt varnaraðila B fyrir framangreindar eignir og ef svo er þá með hvaða fjármunum. 2. Að sýslumaður kanni hvort söluandvirði framangreindra eigna sé að finna á bankareikningum hjá Íslandsbanka h.f., Landsbanka h.f., Arion banka h.f. og MP banka h.f. eða hafi á einhverjum tíma verið lagt inn á reikninga í eigu [varnaraðilans] í þessum sömu fjármálafyrirtækjum. 3. Að sýslumaður kanni hjá Seðlabanka Íslands hvort varnaraðili B hafi eftir þær sölur er um ræðir á framangreindum eignum fengið heimild til gjaldeyrisyfirfærslu á söluandvirði þeirra.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A hf., greiði varnaraðilum, B og C, hvoru um sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014.

Þetta mál var þingfest 5. apríl 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 24. mars sl. Sóknaraðili er A hf., [...],[...] en varnaraðilar eru B, [...],[...],[...], og C, [...].

                Sóknaraðili krefst þess að ómerkt verði með úrskurði sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar 2013 í máli nr. 011-2012-[...] að hafna kröfu sóknaraðila um neðangreint. Þá er þess krafist að lagt verði fyrir sýslumann að afla upplýsinga um neðangreint:

                Upplýsinga frá ríkisskattstjóra um það hvort skattframtal varnaraðila, B, árið 2011 vegna tekjuársins 2010, hafi að geyma upplýsingar um að hann hafi fengið greitt söluandvirði íbúðar nr. [...] við A, fastanúmer [...], frá varnaraðila, C, og ef svo er hvert söluandvirðið hafi verið.

                Upplýsinga frá ríkisskattstjóra úr skattframtölum varnaraðila, C, árin 2011 og 2012, fyrir tekjuárin 2011 og 2010, um kaup og sölu fasteignanna nr. [...] við [...], og nr. [...] við [...], fastanúmer [...], og hvort þau beri það með sér að hún hafi greitt varnaraðila, B, fyrir framangreindar eignir og ef svo er þá með hvaða fjármunum.

                Hvort söluandvirði framangreindra eigna sé að finna á bankareikningum í Íslandsbanka hf., Landsbanka hf., Arion banka hf. og MP banka hf. eða hafi á einhverjum tíma verið lagt inn á reikninga í eigu gerðarþola í þessum sömu fjármálafyrirtækjum.

                Að sýslumaður kanni hjá Seðlabanka Íslands hvort varnaraðili B hafi eftir þær sölur er um ræðir á framangreindum eignum fengið heimild til gjaldeyrisyfirfærslu á söluandvirði þeirra.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila óskipt.

                Varnaraðili krefst þess að ómerkingarkröfu sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar 2013 í máli nr. 011-2012-[...] verði látin standa óhögguð.

Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

Varnaraðili, B, hefur búið í [...] síðan árið 1998, en fram til ársins 2010 var hann [...] E, sem var lengst af dótturfélag sóknaraðila. Varnaraðili, C, kveðst hafa búið í [...] síðan árið 2001. Varnaraðilar eru systkin.

Í nóvember 2010 stefndi sóknaraðili varnaraðila B til riftunar þeirrar ráðstöfunar stjórnar sóknaraðila 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð varnaraðila á greiðslu lána samkvæmt fjórum lánssamningum hans við sóknaraðila og til greiðslu skuldar samkvæmt sömu lánssamningum. Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og er nr. E-[...] í málaskrá réttarins. Lyktir málsins urðu þær að fallist var á riftun þessarar ráðstöfunar og varnaraðili var dæmdur til að greiða sóknaraðila 717.334.575 krónur. Varnaraðili áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands en með dómi réttarins 25. október 2012 í máli nr. 176/2012 var dómur héraðsdóms staðfestur.

Varnaraðili B hefur frá árinu 2010 notið stöðu sakbornings við rannsókn nokkurra mála [...]. Í tveimur þessara mála var gefin út ákæra á hendur varnaraðila. Þessi mál eru rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og eru nr. S-[...] og S-[...] í málaskrá réttarins. Með dómi í fyrra málinu 12. desember 2013 var varnaraðili dæmdur til að greiða 20.255.700 krónur í málskostnað, en síðarnefnda málið er enn rekið fyrir dómi.

Hinn 20. október 2010 gáfu varnaraðili B og F út afsal til varnaraðila C fyrir íbúð að A, fastanr. [...]. Tekið er m.a. fram að kaupverð hinnar seldu eignar hafi þegar verið reitt af hendi og að eignin sé seld án veðbanda og kvaðalaus að öðru leyti en því sem fram komi í afsalinu. Hinn 3. janúar 2011 gaf varnaraðili B út afsal til varnaraðila C fyrir íbúð að [...], fastanr. [...]. Tekið er m.a. fram að kaupverð hinnar seldu eignar hafi þegar verið reitt af hendi og að eignin sé seld án veðbanda og kvaðalaus að öðru leyti en því sem fram komi í afsalinu. Í báðum afsölunum er varnaraðili C sögð til heimilis að A í [...].

Hinn 6. nóvember 2012 lagði sóknaraðili fram aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík. Varnaraðili B var boðaður til fyrirtöku hjá sýslumanni 21. nóvember 2012, en hann mætti ekki til fyrirtökunnar. Lögmaður sóknaraðila óskaði eftir því, með vísan til þess að skilyrði væru uppfyllt fyrir því að ljúka gerðinni án árangurs, að sýslumaður kannaði nánar hag varnaraðila B. Sýslumaður féllst á að taka skýrslu af varnaraðila C varðandi viðskipti með fyrrnefndar fasteignir, væri hún tilbúin til að gefa skýrslu, en beið með að taka afstöðu til kröfu lögmanns sóknaraðila um að leita upplýsinga samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gerðin var næst tekin fyrir 28. nóvember 2012 og féllst sýslumaður á kröfu lögmanns sóknaraðila um að leita upplýsinga hjá skattyfirvöldum vegna sölu fyrrnefndra eigna. Með bréfi, dags. 12. desember 2012, upplýsti ríkisskattstjóri að á skattframtali 2011 vegna tekjuársins 2010 kæmi fram að varnaraðili B hefði selt fasteign að A í [...] til varnaraðila C. Sama skattframtal bæri ekki með sér að varnaraðili B ætti kröfu á hendur varnaraðila C. Skattframtal 2012 vegna tekjuársins 2011 hefði ekki borist ríkisskattstjóra. Við fyrirtöku gerðarinnar 17. janúar 2013 hafnaði sýslumaður kröfu sóknaraðila um þá upplýsingaöflun sem dómkrafa sóknaraðila lýtur að. Lögmaður sóknaraðila lýsti því þá yfir að hann krefðist þess að málinu yrði vísað til héraðsdóms með vísan til 85. og 86. gr. laga nr. 90/1989.

Krafa sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjavíkur 28. janúar 2013.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að hann geti ekki farið fram á gjaldþrot á búi varnaraðila, B, þar sem hann sé með lögheimili erlendis, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig hafi ekki verið hægt að rifta þeim ráðstöfunum sem fram fóru milli hans og systur hans, varnaraðila C, um áramótin 2010/2011. Afar ólíklegt sé að varnaraðilinn C, sem fædd sé árið [...], hafi á þessum tíma getað staðgreitt varnaraðila C um 55 milljónir króna fyrir tvær skuldlausar íbúðir í hans eigu. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að kaupverð virðist staðgreitt, þar sem engin veðbönd séu á eignunum. Þá sé vandséð af hverju hún kaupi tvær íbúðir og það af bróður sínum. Líklegra sé að varnaraðili B eigi kröfu á hendur henni sem hægt sé að gera aðför í. Hafi varnaraðili B fengið söluandvirði eignanna greitt sé að sama skapi afar líklegt að það sé enn hér á landi vegna gjaldeyrishafta. Ef ekki, séu afsölin afar líklega málamyndagerningar, enda hafi engum kaupsamningum verið þinglýst, einungis afsölum og viðskipti milli varnaraðila þannig í raun viljandi falin. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að gerð kaupsamnings væri nauðsynleg til að ákvarða kaupverð. Þá hafi lögmaður varnaraðila B útbúið afsölin, þannig að allt bendi til þess að í raun eigi varnaraðili B enn umræddar eignir þótt þær hafi verið skráðar yfir á systur hans, varnaraðila C. Sóknaraðili hygðist gera fjárnám annað hvort í umræddum fasteignum, væri sala þeirra til málamynda, ella í kröfu varnaraðila B um greiðslu kaupverðs.

Með vísan til 64. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þeirra skjala sem lögð voru fram við gerðina, og atvika málsins telur sóknaraðili að krafa hans til sýslumanns hafi að öllu leyti verið eðlileg og í samræmi við nefnt lagaákvæði. Þannig hafi sóknaraðili rökstutt að ástæða sé til að ætla að varnaraðili B eigi mjög líklega eign hér á landi sem hægt sé að gera fjárnám í. Sýslumanni hafi því verið rétt að kanna hagi varnaraðila B með þeim hætti sem segir í 64. gr. laga nr. 90/1989. Sýslumaður hafi þannig heimild samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 til þess að leita upplýsinga hjá opinberum stofnunum, stjórnvöldum og viðskiptabönkum um eignir, megi ætla að gerðarþoli eigi eignir hér á landi. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að ákvæði 64. gr. laga nr. 21/1991 heimilaði leit að gögnum annars en gerðarþola, enda væru engar skorður settar í ákvæðinu. Þá væri ákvæðið haldlaust ef aðeins mætti leita gagna um gerðarþola.

Lögmaðurinn sagði einnig að fyrsta skilyrði þess að hagur gerðarþola væri kannaður samkvæmt 64. gr. laga nr. 90/1989 væri að skilyrði 62. gr. sömu laga væru uppfyllt. Svo væri í þessu máli gagnvart varnaraðilanum B, þar sem hann hafi verið boðaður til gerðarinnar en ekki mætt. Þá verði gerðarbeiðandi að hafa rökstuddan grun um að ástæða sé til að ætla að gerðarþoli eigi tilteknar eignir. Ekki sé nóg að varnaraðili kunni að eiga einhverjar eignir. Í þessu máli væru skráð viðskipti með tvær eignir.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á hendur varnaraðila C á því að sýslumaður hafi þegar samþykkt að tekin yrði skýrsla af henni. Hún hafi hins vegar flutt lögheimili sitt til [...] og finnist þar ekki þrátt fyrir leit utanríkisráðuneytis. Umkrafin gagnaöflun komi því í stað þeirrar skýrslu er sýslumaður heimilaði, sbr. 1. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989.

Lögmaður sóknaraðila mótmælti því við munnlegan flutning málsins að varnaraðili B hefði selt umræddar eignir til að greiða málskostnað í öðrum málum. Krafa sóknaraðila sé gerð í maí 2010 og viðskipti varnaraðila eigi sér stað eftir það. Þá hafi varnaraðili C verið með lögheimili á Íslandi þar til í febrúar 2011. Ótrúverðugt sé að varnaraðili C hafi greitt kaupverðið erlendis þar sem hún hafi átt lögheimili á Íslandi.

Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður sóknaraðila til þess að í greinargerð sinni hefði hann skorað á varnaraðila að gefa skýrslu fyrir dóminum, en við því hafi þau ekki orðið. Þessa höfnun beri að virða þeim í óhag. Þá hafi varnaraðilar ekki heldur orðið við áskorun um að leggja fram kaupsamninga þeirra á milli um fasteignirnar nr. [...] við A, fastanúmer [...], og Lunda[...], fastanúmer  [...], og yfirlit um ráðstöfun kaupverðs vegna sömu eigna og bankayfirlit því til sönnunar. Þetta veiki málstað varnaraðila, enda hefði verið auðvelt að leggja þessi gögn fram ef kaupin hefðu verið raunveruleg.

                Um heimild sína til þess að krefjast úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur vísar sóknaraðili til 85. gr. laga nr. 90/1989. Þetta mál sé rekið eftir ákvæðum 14. kafla laga nr. 90/1989. Sóknaraðili byggir á því að skilyrði 1. mgr. 24. gr. sömu laga séu uppfyllt. Skilyrði 2. tl. 62. gr. sömu laga séu uppfyllt þannig að aðför á hendur varnaraðila B teljist árangurslaus.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðilar hafna því að skilyrði 64. gr. laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt. Hvað varðar kröfu sóknaraðila um öflun upplýsinga um varnaraðila, B, byggja varnaraðilar í fyrsta lagi á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt nægilega fram á að ástæða sé til að ætla að varnaraðili B eigi tiltekna eign sem taka megi fjárnámi. Í athugasemdum við 64. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 90/1989 segi m.a. að slíkar aðgerðir komi aðeins til greina ef gerðarbeiðandi geti rökstutt að gerðarþoli kunni að eiga tiltekna eign, en ekki sé nóg að gerðarbeiðandi telji víst að gerðarþoli hljóti að eiga einhverjar ótilteknar eignir. Þvert á móti eigi varnaraðili B engar eignir hér á landi. Varnaraðili B hafi á undanförnum árum þurft að greiða háar þóknanir vegna varna sinna í dómsmálum. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að varnaraðili B hefði verið dæmdur í héraði til að greiða um 20 milljónir króna í málskostnað í sakamálinu nr. S-[...]. Varnaraðili B hafi selt eignir til þess að mæta málskostnaði. Bréf ríkisskattstjóra, dags. 12. desember 2012, beri þetta með sér, en þar sé vísað til þess að varnaraðili B eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila C. Þá hefði varnaraðili B ekki gefið út afsöl ef hann ætti enn kröfu á hendur varnaraðila C vegna kaupanna. Varnaraðilar búi báðir erlendis og því hafi engir peningar verið fluttir til Íslands vegna þessara viðskipta. Sóknaraðili hefði því aldrei átt þess kost að láta gera fjárnám í greiðslunum. Sóknaraðili hafi viðurkennt að ekki sé hægt að rifta umræddum gerningum og því sé beiðni hans bersýnilega þarflaus og sóknaraðili hafi enga lögvarða hagsmuni af henni.

                Í öðru lagi rúmist krafa sóknaraðila ekki innan ákvæðis 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt orðalagi sínu nái heimild ákvæðisins til þess að leita upplýsinga um ákveðna eign hjá opinberum stofnunum, öðrum stjórnvöldum, viðskiptabönkum eða sparisjóðum. Varnaraðili B eigi engar eignir á Íslandi. Krafa sóknaraðila snúist frekar um að sýslumanni verði gert að rekja slóð ótilgreindra fjármuna út fyrir landsteina Íslands sem á einhverju stigi kunni að hafa verið eign varnaraðila B en hafi verið notaðir í löglegum tilgangi. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að krafa sóknaraðila væri óljós og varðaði ekki tiltekna eign. Þá séu engar dagsetningar tilgreindar í kröfunni varðandi færslur á bankareikningum varnaraðila B. Krafan feli í sér gríðarlega vinnu sýslumanns og brot gegn friðhelgi einkalífsins.

                Hvað varðar kröfu sóknaraðila um öflun upplýsinga um varnaraðila C telja varnaraðilar að heimild 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 nái eingöngu til þess að leitað sé upplýsinga um gerðarþola. Varnaraðili C hafi ekki verið gerðarþoli við umrædda aðfarargerð og því verði kröfunni ekki komið að. Slíkri upplýsingaöflun verði ekki jafnað við skýrslutöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 64. gr. sömu laga, enda sé ekki að finna heimild til þess í ákvæðinu. Þess utan sé heimild 1. tl. 1. mgr. 64. gr. laganna bundin því skilyrði að sá sem gefi skýrslu sé reiðubúinn til þess. Samþykki varnaraðila C liggi ekki fyrir.

                Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að í þessu máli fari ekki fram sönnunarfærsla fyrir dómi, heldur sé eingöngu metið hvort skilyrði séu uppfyllt fyrir því að sýslumaður fari í eignakönnun. Skýrslur varnaraðila séu því þýðingarlausar.

Um lagarök vísa varnaraðila til 64. gr. laga nr. 90/1989. Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í 1. og 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 um aðför segir að rökstyðji gerðarbeiðandi að ástæða geti verið til að ætla, að gerðarþoli eigi tiltekna eign, sem taka megi fjárnámi, en það fáist ekki staðfest af hálfu gerðarþola og skilyrði séu að öðru leyti til að ljúka gerðinni án árangurs að nokkru eða öllu, sé sýslumanni rétt að kröfu gerðarbeiðanda að kanna frekar hag gerðarþola með því annars vegar (1. tl.) að taka við skýrslum annarra en gerðarþola, sem veitt geta vitneskju um eignina og reiðubúnir eru til að gefa slíka skýrslu að ósk gerðarbeiðanda, hins vegar (2. tl.) með því að leita upplýsinga um eignina hjá opinberum stofnunum, öðrum stjórnvöldum, viðskiptabönkum eða sparisjóðum. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er þeim, sem 2. tl. 1. mgr. tekur til, skylt að veita þær upplýsingar, sem sýslumaður krefst og varða hag gerðarþola.

Í athugasemdum við 64. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 90/1989 segir m.a. að ákvæðið heimili sýslumanni, samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda, bæði að taka við skýrslum annarra en gerðarþola, ef þeir búa yfir vitneskju um eign hans og eru viljugir til að gefa skýrslu að ósk gerðarbeiðanda, og að leita svara opinberra stofnana, annarra stjórnvalda, viðskiptabanka eða sparisjóða um tilvist tiltekinnar eignar gerðarþola. Þessar aðgerðir komi aðeins til greina, geti gerðarbeiðandi rökstutt að gerðarþola kunni að tilheyra ákveðin eign, sem fæst ekki staðfest við gerðina. Ekki nægi að gerðarbeiðandi telji víst að gerðarþoli hljóti að eiga einhverjar ótilteknar eignir. Sé þessu fullnægt, skipti ekki höfuðmáli hver tilsvör gerðarþola eða málsvara hans yrðu. Skýrslur að hætti 1. tl. 1. mgr. 64. gr. verði ekki teknar nema með vilja þess, sem hlut á að máli. Í 2. tl. 1. mgr. 64. gr. sé á hinn bóginn gert ráð fyrir að sýslumaður afli sjálfur upplýsinga frá þeim, sem þar eru taldir, að kröfu gerðarbeiðanda. Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. sé þessum aðilum skylt að veita umbeðnar upplýsingar, að því marki sem þær varða efnahag gerðarþola.

Krafa sóknaraðila lýtur m.a. að því að sýslumaður óski upplýsinga frá ríkisskattstjóra úr skattframtölum varnaraðila, C. Í upphafsorðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 er könnun sýslumanns afmörkuð þannig að hún beinist að ,,hag gerðarþola“. Ákvæðið heimilar samkvæmt orðalagi sínu ekki að gagna sé aflað um hag annarra en gerðarþola og fær sú ályktun stuðning í tilvitnuðum athugasemdum með ákvæðinu. Varnaraðili, C, er ekki gerðarþoli í aðfararmáli sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2012-[...]. Umkrafin upplýsingaöflun varðar bersýnilega hag varnaraðila C. Ekki er hægt að jafna þessari upplýsingaöflun til skýrslutöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 64. gr., auk þess sem ekki liggur fyrir samþykki varnaraðila C til skýrslugjafar. Af þessari ástæðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að afla upplýsinga frá ríkisskattstjóra úr skattframtölum varnaraðila C.

Varnaraðili B mætti ekki til fyrirtöku fjárnáms 21. nóvember 2012 og ekki var upplýst að hann ætti nokkra eign sem taka mætti fjárnám í. Skilyrði 2. tl. 62. gr. laga nr. 90/1989 eru því uppfyllt fyrir því að gerðinni verði lokið án árangurs.

Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á því að afsöl varnaraðila B til varnaraðila C fyrir umræddum íbúðum séu afar líklega málamyndagerningar og hann eigi enn íbúðirnar. Sé um raunveruleg kaup að ræða eigi varnaraðili B annað hvort kröfu á hendur varnaraðila C um greiðslu kaupverðsins, eða hann eigi kaupverðið líklega enn hér á landi. Gildi umræddra afsala hefur ekki verið hnekkt og röksemdir sóknaraðila fyrir því að um málamyndagerninga kunni að vera, byggja einvörðungu á ágiskunum. Því hefur sóknaraðili ekki leitt að því rök að varnaraðili B eigi umræddar fasteignir.

Í báðum afsölunum er tekið fram að kaupverð eignanna hafi þegar verið reitt af hendi, en í hvorugu afsalinu er þess getið hvert kaupverðið hafi verið. Að mati dómsins hefur sóknaraðili því sýnt nægilega fram á að ástæða geti verið til að ætla að varnaraðili eigi tiltekna eign, sem er greiðsla varnaraðila C á kaupverði umræddra fasteigna. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að óska upplýsinga frá ríkisskattstjóra um það hvort skattframtal varnaraðila B árið 2011, vegna tekjuársins 2010, hafi að geyma upplýsingar um að hann hafi fengið greitt söluandvirði íbúðar nr. [...] við A, fastanúmer [...], frá varnaraðila C og ef svo er, hvert söluandvirðið hafi verið.

Krafa sóknaraðila um að sýslumaður kanni hvort söluandvirði umræddra eigna sé að finna á bankareikningum í Íslandsbanka hf., Landsbanka hf., Arion banka hf. og MP banka hf. er ekki afmörkuð við bankareikninga í eigu tiltekins aðila. Þessi krafa rúmast því ekki innan ákvæðis 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 og verður henni því hafnað. Kröfu sóknaraðila um að sýslumaður kanni hvort söluandvirði umræddra eigna hafi á einhverjum tíma verið lagt inn á reikninga í eigu gerðarþola í þessum sömu fjármálafyrirtækjum verður að skilja þannig að átt sé við reikninga í eigu varnaraðila B, enda var hann gerðarþoli við umrædda aðfarargerð. Þessi krafa er ekki afmörkuð við tiltekið tímabil og sóknaraðili rökstyður ekki hvernig viðkomandi fjármálafyrirtæki geti afmarkað það hvaða færslur á mögulega bankareikninga varnaraðila B tengist umræddum viðskiptum, og þannig látið réttar upplýsingar af hendi. Verður því að hafna þessari kröfu.

                Krafa sóknaraðila um að sýslumaður kanni hjá Seðlabanka Íslands hvort varnaraðili B hafi, eftir sölu framangreindra eigna, fengið heimild til gjaldeyrisyfirfærslu á söluandvirði þeirra, lýtur að mati dómsins ekki að upplýsingum um eign, heldur að því hvort Seðlabanki Íslands hafi tekið stjórnvaldsákvörðun í máli. Þessi krafa rúmast því ekki innan ákvæðis 2. tl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 90/1989 og verður henni því hafnað. 

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður milli sóknaraðila og varnaraðila B. Með vísan til 1. mgr. sömu greinar verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila C málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. 

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar 2013 í máli nr. 011-2012-[...] er breytt á þann veg að lagt er fyrir sýslumann að óska upplýsinga frá ríkisskattstjóra um það hvort skattframtal varnaraðila, B, árið 2011, vegna tekjuársins 2010, hafi að geyma upplýsingar um að hann hafi fengið greitt söluandvirði íbúðar nr. [...] við A, fastanúmer [...], frá varnaraðila, C, og ef svo er, hvert söluandvirðið hafi verið. Að öðru leyti er ákvörðun sýslumanns staðfest.

Málskostnaður fellur niður milli sóknaraðila, A hf., og varnaraðila, B.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, C, 150.000 krónur í málskostnað.