Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2013
Lykilorð
- Byggingarleyfi
- Grennd
- Tómlæti
- Stjórnsýsla
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 141/2013.
|
Kristján Kristjánsson (sjálfur) gegn Kópavogsbæ (Torfi Ragnar Sigursson hrl.) Jóni Guðmundssyni og Ernu Jónsdóttur (Skúli Bjarnason hrl.) |
Byggingarleyfi. Grennd. Tómlæti. Stjórnsýsla. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir.
KK höfðaði mál gegn K, J og E og krafðist þess meðal annars að viðurkennt yrði að útgáfa K á byggingarleyfi vegna breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs sem voru í eigu J og E væri ólögmæt og að mannvirkin yrðu fjarlægð. Kröfum er lutu að viðurkenningu á ólögmæti útgáfu leyfisins var vísað frá á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hefði verið heimilt að gefa þáverandi eiganda hinnar umdeildu fasteignar kost á að sækja um byggingarleyfi, enda þótt mannvirkin hefðu þá þegar verið reist. Á hinn bóginn var leyfið veitt þótt hvorki hefði farið fram grenndarkynning né verið fjallað um málið af skipulagsnefnd K eins og áskilið var í þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Í byggingarreglugerð var kveðið á um að byggingarnefnd gæti heimilað gerð svo stórra bílgeymsla eins og bílskúr J og E var. Vegna umsóknar um byggingarleyfi á sínum tíma höfðu nágrannar lýst því yfir að þeir gerðu engar athugasemdir við bílskúrinn. Var því ekki talið að brotið hefði verið gegn umræddu ákvæði byggingarreglugerðarinnar með útgáfu byggingarleyfisins. Enda þótt annmarkar hefðu verið á meðferð K á byggingarleyfisumsókninni voru K, J og E sýknuð. Vísað var til þess að KK hefði engar athugasemdir gert við bílskúrinn þegar sótt var um byggingarleyfi og fyrst átta árum síðar hreyft athugasemdum við að ekki hefði verið staðið löglega að veitingu þess. Þá varð ekki séð að áðurgreint brot K á formreglum hefði haft áhrif á efni þeirrar ákvörðunar K að veita byggingarleyfið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2013. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfa vegna breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi sé ólögleg. Einnig krefst hann þess að stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Jónsdóttur verði gert að viðlögðum dagsektum að fjarlægja fyrrgreindan bílskúr og viðbyggingu eða borðstofu á norðurhlið hússins og færa þannig útlit þess til fyrra horfs í samræmi við gildandi teikningu af því frá 1944. Til vara gerir áfrýjandi þá kröfu að í stað þess að fjarlægja bílskúrinn verði stefndu Jóni og Ernu gert að viðlögðum dagsektum að lækka hann í 2,7 metra að efri brún plötu eða efri brún veggjar. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi krefst þess sem fyrr segir að stefndu Jóni og Ernu verði gert að fjarlægja viðbyggingu eða borðstofu á norðurhlið húss þeirra að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi og fjarlægja bílskúr, sem stendur við húsið, en til vara verði þeim gert að lækka hann. Jafnframt gerir áfrýjandi þær kröfur að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfa vegna þessara mannvirkja sé ólögleg. Forsenda fyrir því að fyrrnefndar kröfur hans um brottnám mannvirkjanna verði teknar til greina er sú að leyfin hafi verið ólöglega gefin út. Ættu síðarnefndu kröfurnar því að réttu lagi að vera málsástæður fyrir þeim fyrrnefndu, en eiga ekki erindi í málið sem sjálfstæðar dómkröfur. Ber því að vísa þeim frá héraðsdómi án kröfu á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í héraðsdómsstefnu reisir áfrýjandi kröfur sínar á þeim málsástæðum að skipulagsnefnd stefnda Kópavogsbæjar hafi ekki fjallað um umsókn þáverandi eiganda Álfhólsvegar 61 um áðurnefnd byggingarleyfi og engin grenndarkynning hafi farið fram, svo sem boðið hafi verið í þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Ennfremur að bílskúrinn hafi ekki verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem hann hafi verið of hár. Við munnlegan flutning málsins í héraði og í greinargerð sinni hér fyrir dómi hefur áfrýjandi teflt fram frekari málsástæðum fyrir kröfum sínum. Gegn andmælum stefndu eru þær málsástæður of seint fram komnar og fá því ekki komist að í málinu samkvæmt 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
II
Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt gögnum þess kom í ljós í árslok 1997 að þáverandi eigandi Álfhólsvegar 61 hafði gert breytingar á húsinu og reist bílskúr við það án þess að hafa fengið til þess tilskilin byggingarleyfi. Í kjölfarið ákvað bæjarstjórn stefnda Kópavogsbæjar 24. mars 1998, að tillögu byggingarnefndar, að eigandanum skyldi gefinn kostur á að leggja fram teikningar af öllum mannvirkjum á lóðinni, þar með töldum þeim óleyfilegu, til umfjöllunar í nefndinni og samþykktar í bæjarstjórn. Eigandinn sendi 14. maí 1998 umsókn til byggingarnefndar, þar sem hann sótti um leyfi fyrir „reyndar teikningar að húsi og bílskúr á lóðinni nr. 61 við Álfhólsveg ... samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum“. Eftir að hafa fjallað um umsóknina beindi nefndin ýmsum ábendingum til eigandans, þar á meðal var afgreiðslu á henni frestað vegna þess að samþykki nágranna vantaði. Hinn 22. júlí 1998 ákvað nefndin síðan að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og gerði bæjarstjórn það á fundi sínum 18. ágúst sama ár.
Í málinu liggur fyrir skjal, dagsett 24. júní 1998 og undirskrifað af áfrýjanda, sem er svohljóðandi: „Við undirrituð íbúar aðliggjandi húsa, höfum skoðað teikningar Bjarna Árnasonar tæknifræðings af skúrbyggingu að Álfhólsvegi 61 og höfum engar athugasemdir í frammi.“ Enginn fyrirvari kemur þar fram af hálfu áfrýjanda. Á hinn bóginn kveðst hann hafa veitt samþykki sitt fyrir byggingu bílskúrsins gegn því að lóðarhafi Álfhólsvegar 61 myndi ekki gera athugasemdir við það áform sitt að fá að stækka bílskúr sinn að Löngubrekku 5 að mörkum lóðanna tveggja. Þáverandi eigandi Álfhólsvegar 61 kannaðist við fyrir dómi að hafa gert slíkt samkomulag við áfrýjanda, en ekki hafi verið gengið frá því formlega, heldur hafi verið um að ræða munnlegt samkomulag er aðeins hafi gilt þeirra á milli. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningslaust með aðilum að á þeim tíma þegar áfrýjandi skrifaði undir áðurgreint skjal var umræddur bílskúr risinn. Af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi fyrst hreyft athugasemdum við að ekki hafi verið staðið löglega að veitingu leyfis til byggingar bílskúrsins í bréfi til byggingarfulltrúa stefnda Kópavogsbæjar 3. júlí 2006. Í bréfi til skipulagsstjóra stefnda 1. nóvember 2006 virðist áfrýjandi svo í fyrsta sinn hafa gert athugasemdir við veitingu leyfis til breytinga á húsinu að Álfhólsvegi 61.
III
Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og féllu þá úr gildi byggingarlög nr. 54/1978. Byggingarreglugerð nr. 177/1992, sem sett hafði verið á grundvelli síðarnefndu laganna, gilti þó áfram uns ný byggingarreglugerð nr. 441/1998, sett samkvæmt fyrrnefndu lögunum, öðlaðist gildi við birtingu hennar í Stjórnartíðindum 23. júlí 1998.
Í 1. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 var meðal annars kveðið á um að óheimilt væri að breyta húsi eða gera mannvirki, sem áhrif höfðu á útlit umhverfisins, nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarnefndar. Óumdeilt er að þáverandi eigandi Álfhólsvegar 61 braut gegn þessari lagareglu þegar hann breytti húsi sínu og reisti bílskúr við það á árunum 1995 til 1997.
Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 bar byggingarfulltrúa að stöðva byggingarframkvæmd tafarlaust, ef hún var hafin án þess að leyfi væri fengið fyrir henni og hún braut í bága við skipulag, og síðan skyldi hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægður. Í 5. mgr. sömu lagagreinar sagði síðan að byggingarnefnd gæti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta. Þar sem ekki lá fyrir deiliskipulag fyrir Álfhólsveg á árinu 1998 var stefnda Kópavogsbæ heimilt, en ekki skylt, á grundvelli síðarnefnds lagaákvæðis að mæla fyrir um að húsið að Álfhólsvegi 61 skyldi fært í fyrra horf og bílskúrinn fjarlægður. Í stað þess ákvað stefndi eins og áður greinir að gefa þáverandi eiganda kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjunum á grundvelli raunteikninga af þeim, enda þótt þau hefðu þá þegar verið reist.
Þar sem umsókn eigandans um byggingarleyfi barst stefnda í maí 1998 bar að fara með hana samkvæmt fyrirmælum þágildandi skipulags- og byggingarlaga. Í 7. mgr. 43. gr. laganna var meðal annars kveðið á um að þegar sótt væri um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag lægi ekki fyrir skyldi skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlyti afgreiðslu byggingarnefndar. Grenndarkynning fælist í því að nágrönnum, sem hagsmuna ættu að gæta, væri kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skyldi vera að minnsta kosti fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar niðurstaða skipulagsnefndar lægi fyrir skyldi byggingarnefnd taka málið til afgreiðslu. Þeim sem hafi tjáð sig um málið skyldi tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar og byggingarnefndar. Ljóst er að stefndi fór ekki eftir þessum lagaákvæðum við meðferð umræddrar umsóknar. Þannig fjallaði skipulagsnefnd stefnda ekki um málið og ekki var heldur efnt til grenndarkynningar á þann hátt sem þar var kveðið á um. Þótt aflað hafi verið samþykkis nágranna fyrir byggingu bílskúrsins að frumkvæði byggingarnefndar kom það ekki í stað formlegrar grenndarkynningar að tilhlutan skipulagsnefndar á mannvirkjunum sem sótt hafði verið um leyfi fyrir.
Í grein 6.10.3.4. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 var kveðið á um tiltekna stærð og hæð bifreiðageymsla. Í niðurlagi þeirrar greinar sagði orðrétt: „Byggingarnefnd getur þó leyft stærri bifreiðageymslur og hærri, þar sem slíkt veldur ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður að öðru leyti leyfa.“ Sambærileg ákvæði um bílageymslur minni en 100 fermetrar var að finna í grein 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Að teknu tilliti til þess að áfrýjandi og aðrir nágrannar Álfhólsvegar 61 gerðu engar athugasemdir við bílskúrinn þegar byggingarnefnd stefnda Kópavogsbæjar lagði til við bæjarstjórn að leyfi yrði veitt fyrir byggingu hans verður ekki talið að stefndi hafi brotið gegn fyrrgreindum reglugerðarákvæðum með því að veita þáverandi eiganda byggingarleyfið.
Samkvæmt framansögðu er fallist á með áfrýjanda að stefndi Kópavogsbær hafi á árinu 1998 brotið gegn ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við meðferð á umsókn þáverandi eiganda Álfhólsvegar 61 um byggingarleyfi á því ári. Eins og áður er rakið gerði áfrýjandi hins vegar engar athugasemdir fyrir sitt leyti við bílskúrinn sem reistur hafði verið á þeirri lóð. Það var fyrst átta árum síðar að hann hreyfði athugasemdum við að ekki hafi verið staðið löglega að veitingu leyfis til byggingar hans og breytinga á húsinu að Álfhólsvegi 61. Þegar litið er til þessa tómlætis áfrýjanda og jafnframt þess, að ekki verður séð að áðurgreint brot stefnda Kópavogsbæjar á formreglum hafi haft áhrif á efni þeirrar ákvörðunar hans að veita byggingarleyfi fyrir hinum umdeildu mannvirkjum, ber að sýkna stefndu af kröfum áfrýjanda um brottnám mannvirkjanna eða breytingu á þeim.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu Jóni og Ernu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en rétt er að málskostnaður hér fyrir dómi falli að öðru leyti niður.
Dómsorð:
Kröfum áfrýjanda, Kristjáns Kristjánssonar, um að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfa vegna breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi sé ólögleg er vísað frá héraðsdómi. Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti.
Áfrýjandi greiði stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Jónsdóttur 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, en málskostnaður hér fyrir dómi fellur að öðru leyti niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2012.
Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 16. nóvember s.l., var höfðað 8. mars 2012.
Stefnandi er Kristján Kristjánsson, Löngubrekku 5, Kópavogi.
Stefndu eru Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi og Jón Guðmundsson og Erna Jónsdóttir, bæði til heimilis að Álfhólsvegi 61, Kópavogi.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis, samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998, vegna breytinga á íbúðarhúsinu að Álfhólsvegi 61, Kópavogi, sé ólöglegt.
2. Að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis, samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998, vegna byggingar bílskúrs að Álfhólsvegi 61, Kópavogi, sé ólöglegt.
3. Að stefndu Jóni og Ernu verði með dómi gert að viðlögðum dagsektum að fjarlægja ólöglegan bílskúr á lóðinni Álfhólsvegi 61, Kópavogi. Til vara undir þessum lið er þess krafist að stefndu Jóni og Ernu verði með dómi gert að viðlögðum dagsektum að lækka bílskúr á sömu lóð í lögmæta hæð, eða 2,7 metra að efri brún plötu eða efri brún veggjar.
4. Að stefndu Jóni og Ernu verði með dómi gert að viðlögðum dagsektum að fjarlægja viðbyggingu/borðstofu, á norðurhlið hússins að Álfhólsvegi 61, og færa þannig útlit hússins til fyrra horfs í samræmi við gildandi teikningu af húsinu frá 1944.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndi Kópavogsbær krefst þess að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að hafnað verði kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis samþykktu í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998 vegna breytinga á íbúðarhúsinu að Álfhólsvegi 61, sé ólöglegt. Þá er þess einnig krafist að hafnað verði kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis samþykktu í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998 vegna byggingar bílskúrs að Álfhólsvegi 61, sé ólögleg.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefndu Jón Guðmundsson og Erna Jónsdóttir krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda á hendur þeim.
Þau krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Frávísunarkröfum stefndu var hrundið með úrskurði 18. júní sl.
I.
Á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 4. febrúar 1998 var lögð fram greinargerð byggingarfulltrúa og bæjarverkfræðings um óleyfilegar framkvæmdir að Álfhólsvegi 61. Um væri að ræða byggingu bílskúrs í stað skúrs sem staðið hafði á lóðinni en hafði verið 2-3 sinnum minni og þá hefði verið byggð rishæð á íbúðarhúsið en áður hefði verið þar valmaþak. Byggingarnefnd lagði til við bæjarstjórn að eiganda Álfhólsvegar 61 yrði gefinn kostur á að leggja fram teikningar af öllum mannvirkjum á lóðinni, þ. m. t. óleyfilegum mannvirkjum, til umfjöllunar í byggingarnefnd og til samþykktar í bæjarstjórn. Bæjarstjórn staðfesti þessa afgreiðslu byggingarnefndar og bæjarráðs á fundi sínum 24. mars 1998. Eigandi Álfhólsvegar 61, Egill Viggósson, skilaði inn tilskyldum teikningum og umsókn um byggingarleyfi. Á fundi sínum 8. júlí 1998 frestaði byggingarnefnd erindinu þar sem samþykki nágranna vantaði. Samþykki nágranna fyrir bílskúrnum og þar með talið samþykki stefnanda í máli þessu var síðan lagt fram til byggingarfulltrúa. Á fundi byggingarnefndar þann 22. júlí 1998 var tekið fyrir erindi eiganda Álfhólsvegar 61 um að fá samþykktar reyndarteikningar að einbýlishúsi og bílskúr á lóðinni og lagði byggingarnefnd til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt þar sem erindið væri í samræmi við skipulag og ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Bæjarstjórn samþykkti erindið á fundi sinum 18. ágúst 1998.
Með bréfi dagsettu 3. júlí 2006 til byggingarfulltrúa upplýsti stefnandi að skipulagsstjóri hefði tilkynnt honum að hann fengi ekki samþykki fyrir byggingu bílskúrs á Löngubrekku 5 að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 þar sem ekki lægi fyrir þinglýst samþykki eigenda Álfhólsvegar 61, stefndu Jóns Guðmundssonar og Ernu Jónsdóttur sem höfðu fest kaup á eigninni. Með erindi til byggingarfulltrúa gerði stefnandi athugasemdir við þá ákvörðun að hafna umsókn hans um stækkun bílskúrs að Löngubrekku 5 og benti á að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu sams konar bílskúrs að Álfhólsvegi 61. Hann óskaði skýringa á því hvers vegna leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu þess bílskúrs í ágúst 1998 svo nálægt Löngubrekku 5 án þinglýsts samþykkis lóðarhafa Löngubrekku 5 og án undanfarandi grenndarkynningar. Beiðni stefnanda var hafnað á grundvelli 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga þar sem frestur til að leggja fram beiðni um rökstuðning fyrir tilgreindri ákvörðun var löngu liðinn.
Með bréfi dagsettu 15. nóvember 2006 gerði stefnandi kröfu um að bílskúrsbyggingin að Álfhólsvegi 61 yrði fjarlægð eða færð frá lóðarmörkum Löngubrekku 5, minnst 3 metra og lækkuð til samræmis við aðrar næstu bílskúrsbyggingar við Álfhólsveg. Þessu erindi stefnanda var svarað með bréfi dagsettu 28. nóvember 2006 og fylgdi því bréfi yfirlýsing undirrituð af stefnanda, dagsett 24. júní 1998, þar sem fram kom að honum hafi verið kynntar teikningar af umræddum skúr og að hann hefði engar athugasemdir gert. Í ljósi þess væri kröfu hans hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfisins væri haldin annmörkum.
Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dagsettu 27. desember 2006. Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar kemur fram að hina kærðu afstöðu byggingarfulltrúa verði að skilja svo að krafist hafi verið íhlutunar byggingaryfirvalda og beitingar þvingunarúrræða. Afgreiðsla slíks erindis hefði þurft að koma til kasta bæjarstjórnar og verði svar byggingarfulltrúa ekki talið fela í sér ákvörðun sem bindi enda á meðferð máls. Sæti hin umdeilda afgreiðsla byggingarfulltrúa því ekki kæru samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé þessum lið kærunnar því vísað frá. Varðandi útgáfu byggingarleyfisins þá hafi kærufrestur verið löngu liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni og síðbúið erindi til bæjaryfirvalda geti ekki markað upphaf nýs kærufrests varðandi leyfisveitinguna. Bæri því að vísa þessum lið einnig frá.
Stefnandi kveðst frá árinu 1993 hafa verið lóðarhafi og eigandi hússins að Löngubrekku 5, sem sé næsta lóð beint í norður frá lóð Álfhólsvegar 61. Egill Viggósson þáverandi eigandi að Álfhólsvegi 61 hafi komið að máli við hann á árinu 1996 eða 1997 og lýst áhuga á að byggja bílskúr í stað kofa sem var á lóðinni. Stefnanda hafi litist vel á að byggður yrði snyrtilegur bílskúr í stað kofans sem hafi verið veruleg óprýði við lóðarmörkin. Hann hafi búist við að Egill færi lögboðna leið með umsókn um byggingu bílskúrsins til byggingaryfirvalda í Kópavogi. Er bílskúrinn var risinn hafi hann lýst þeirri skoðun sinni að bílskúrinn væri of hár. Skúrinn skyggði verulega á sólarbirtu úr suðri inn á lóð stefnanda og væri eins og risahár múrveggur við lóðamörkin. Hægt hefði verið að hafa þetta með öðrum hætti, t.d. með flötu þaki eða lægri bílskúrsbyggingu ef grenndarkynning hefði farið fram og gefist hefði næði til að velta þeim möguleikum fyrir sér. Engu að síður hafi stefnandi ritað nafn sitt á skjal þess efnis að honum hefði verið sýnd teikning af bílskúrnum og að hann gerði ekki athugasemdir, enda bílskúrinn risinn og stefnandi í þeirri trú að farið hefði verið að lögum. Öðrum þræði hefði hann ritað undir skjalið sökum áhuga á að byggja við sinn bílskúr upp að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 og viljað sem nágranni halda frið við lóðarhafa Álfhólsvegar 61. Undirskriftin hafi þannig verið háð munnlegu samkomulagi um að lóðarhafi Álfhólsvegar 61 myndi ekki gera athugasemdir við áform stefnanda þegar þar að kæmi, um að fá að stækka sinn bílskúr að lóðarmörkunum. Núverandi lóðarhafar Álfhólsvegar 61, stefndu Jón og Erna hafi ekki sýnt vilja til að viðurkenna samkomulagið um að gera ekki athugasemdir við stækkun bílskúrs á lóð stefnanda að lóðarmörkum þeirra lóðar þó ekki verði séð hvaða ama þau hefðu af þeim framkvæmdum.
Stefndu Jón Guðmundsson og Erna Jónsdóttir segja að fyrir kaup þeirra á Álfhólsvegi 61 árið 2002 hafi þau kynnt sér hvort ekki væru leyfi fyrir íbúðarhúsi og bílskúr, ásamt viðbyggingu við íbúðarhús. Þau hafi fengið þær upplýsingar hjá stefnda Kópavogsbæ að öll leyfi væru til staðar og því til staðfestingar hafi þau fengið áritaðar teikningar um að svo væri. Þau hafi því verið í góðri trú um að öll leyfi væru í lagi. Stefndu kannast ekki við að samkomulag hafi verið gert við stefnanda varðandi heimildir hans til að byggja allt að lóðarmörkum þeirra að Álfhólsvegi 61.
II.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að byggingarleyfi samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 18. ágúst 1998 sé ólögmætt og mannvirki að Álfhólsvegi 61 beri af þeim sökum að færa til lögmæts horfs eða fjarlægja. Stefnandi telji eftirtalda annmarka hafa verið á veitingu leyfisins:
- Skipulagsnefnd hafi ekki fjallað um umsókn um byggingarleyfið eins og kveðið sé á um í 12. gr. 12.5 byggingarreglugerðar, sbr. 43. gr. laga nr. 73/1997.
- Engin grenndarkynning hafi farið fram eins og kveðið sé á um í 12. gr. 12.5. byggingarreglugerðar.
- Byggingarnefnd hafi ekki fjallað um umsókn um byggingarleyfi eins og kveðið sé á um í 12. gr. 12.5 byggingarreglugerðar.
- Bílskúrinn sé í ósamræmi við 113. gr. 113.1 byggingarreglugerðar þar sem hann sé of hár. Mesta hæð skuli ekki vera meiri en þurfi til að ná múropi í dyrum 2.40 m að hæð ásamt beranlegum veggfleti ofan dyra. Skúrinn sé 4.05 m og gæti auðveldlega verið mun lægri, en samt náð 2.40 m hæð dyraops.
Samkvæmt 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 43/1998 beri að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum af þessu tagi og í 12. gr. 12.5 segi m.a.: „Þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi eða deiliskipulag liggur ekki fyrir ..skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar“.Ennfremur vísar stefnandi til 113. gr. 113.1 byggingarreglugerðar þar sem segi m.a: „Bílageymsla fyrir einn bíl skala að jafnaði ..vegghæð fyrir miðjum aðaldyrum upp á efri brún plötu eða efri brún veggjar, ekki vera hærri en 2.70 m ef bílgeymslan er með flötu þaki. Sé bílgeymsluþakið með risi eða halli meira en 1:15 skal mesta hæð þaks ekki vera meiri en þarf til að ná múropi í dyrum 2.40 m að hæð ásamt beranlegu veggfleti ofan dyra.
Ekki sé til deiliskipulag fyrir Álfhólsveg, sem geri það að verkum að enn ríkari ástæða ætti að vera til að láta fara fram grenndarkynningar vegna byggingarframkvæmda.
Vissulega sé langur tími liðinn síðan umdeild viðbygging og skúr voru reist, en það breyti því ekki að útgáfa byggingarleyfanna vegna framkvæmdanna hafi verið og sé ólögleg. Athafnaleysi stefnanda hafi áður verið skýrt að hluta en einnig hafi komið til lítil fjárráð stefnanda til að stefna fyrir héraðsdóm eftir að úrskurðarnefnd vísaði málinu frá. Þá hafi samþykkis stefnanda fyrir framkvæmdunum verið aflað á röngum forsendum og sé það ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Þá geti athafnaleysi stefnanda eða samþykki aukinheldur ekki upphafið ólögmætt ástand og þeir sem viðhaldi því geti ekki vænst þess að það verði lögmætt með tímanum fyrir einhvers konar hefð. Enn síður geti athafnaleysi eða tími ekki leyst sveitarfélag undan lögbundnum skyldum sínum til þess að ráða á því bót.
Til stuðnings kröfu sinni um að mannvirki verði lagfærð, fjarlægð og færð í lögmætt form vísar stefnandi til þess að bílskúr standi á grundvelli byggingarleyfis, sem brjóti í bága við skipulag eða hafi ekki hlotið umfjöllun skipulagsyfirvalda. Samkvæmt fortakslausum fyrirmælum 2. mgr. 56. gr. skipulagslaga beri að fjarlægja byggingu sem svo er ástatt um. Sama gildi um viðbyggingu við íbúðarhús Álfhólsvegar 61.
Stefnandi vísar til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, nú laga nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 411/1998.
III.
Stefndi Kópavogsbær byggir sýknukröfu sína á því að útgáfa byggingarleyfis sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998 vegna breytinga á íbúðarhúsi að Álfhólsvegi 61 sé lögmæt og ekki háð neinum annmörkum. Sýknukrafa sé einnig á því byggð að útgáfa byggingarleyfis, sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 18.8.1998 vegna byggingar bílskúrs að Álfhólsvegi 61 sé lögmæt og ekki háð neinum annmörkum.
Öllum málsástæðum stefnanda sé mótmælt.
Fyrir liggi dómskjal nr. 23 þar sem stefnandi í máli þessu lýsti því yfir þann 24. júní 1998 að hann og annar íbúi aðliggjandi húsa hafi skoðað teikningar Bjarna Árnasonar af skúrbyggingu að Álfhólsvegi 61 og hafi engar athugasemdir í frammi. Þannig hefðu allir þeir aðilar sem rétt áttu á að koma að athugasemdum við grenndarkynningu kynnt sér teikningar og lýst því yfir að ekki væru gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir og hafi því ekki verið talin þörf á frekari grenndarkynningu. Um hafi verið að ræða þegar byggt hverfi og hafi deiliskipulag ekki legið fyrir á þessum tíma og samkvæmt 3. mgr. 23. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 73/1997. Telja verði að með þessu hafi verið uppfyllt skilyrði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem eigendur aðliggjandi fasteigna lögðu blessun sína yfir framkvæmdirnar, en á þessum tíma hafi framkvæmd grenndarkynningar ekki verið fullmótuð, en þágildandi skipulags- og byggingarlög hafi tekið gildi 1. janúar 1998.
Stefnandi byggi öðrum þræði á því að hann hafi skrifað undir skjal þetta þar sem hann hafi haft áhuga á að byggja við sinn bílskúr að lóðamörkum Álfhólsvegar 61. Undirskriftin hafi verið háð munnlegu samkomulagi um að lóðarhafi Álfhólsvegar 61 myndi ekki gera athugasemdir við áform stefnanda þegar þar að kæmi, um að fá að stækka bílskúr sinn. Engin staðfesting á þessu samkomulagi liggi fyrir í málinu og verði að telja útilokað að stefnandi geti nú fjölmörgum árum eftir að hann gaf samþykki sitt haldið fram að það sé niður fallið vegna forsendubrests.
Þá segi stefnandi að núverandi lóðarhafar Álfhólsvegar 61, stefndu Jón og Erna hafi ekki sýnt vilja til að virða samkomulag um að gera ekki athugasemdir við stækkun bílskúrs á lóðinni Löngubrekku 5 að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61. Stefnandi fullyrði að þessum stefndu hafi verið fullkunnungt um alla málavexti. Þetta sé augljóslega hvatinn að málatilbúnaði stefnanda nú.
Stefndi bendir á að samkvæmt núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 53. gr., sé ekki lengur fortakslaust kveðið á um að mannvirki sem reist er í óleyfi séu fjarlægð.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér mikið tómlæti og með því fyrirgert rétti sínum til að koma með athugasemdir og kröfur nú um brottnám mannvirkja auk þess sem hann lagði blessun sína yfir framkvæmdirnar á sínum tíma, en hin umdeildu mannvirki haf staðið í rúmlega 13 ár og beinist krafan nú að meðstefndu sem hafi keypt fasteignina löngu eftir að byggingu mannvirkjanna lauk og byggingarleyfi fyrir þeim var gefið út af stefnda Kópavogsbæ.
Um lagarök vísar stefndi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú skipulagslaga nr. 123/2010 sem tóku gildi 1. janúar 2012.
IV.
Stefndu Jón og Erna byggja sýknukröfu sína á því að þau hafi kynnt sér rækilega hvort öll leyfi væru fyrir hendi varðandi fasteignina er þau keyptu árið 2002 og fengið staðfest að öll tilskilin leyfi væru til staðar. Stefnandi hafi samþykkt byggingu bílskúrs á lóðinni, ekki bara með undirritun yfirlýsingar þar um, heldur skuli því haldið til haga að hann samþykkti án skilyrða bygginguna eftir að bílskúrinn hafði verið reistur. Þetta segi stefnandi í stefnu sinni og því sé ekki og geti ekki verið um error facta að ræða. Af hálfu stefnanda hafi ekki komið fram kröfur um að bílskúrinn yrði rifinn eða honum breytt, fyrr en nú 14-15 árum síðar, enda hafi hann gefið skilyrðislaust leyfi til byggingar hans með áritun sinni þar um.
V.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefnandi Kristján Kristjánsson og stefndi Jón Guðmundsson. Skýrslu vitnis gáfu Egill Viggósson, Heiðarbrún 96, Hveragerði og Einar Sigurðsson, aðstoðarmaður byggingafulltrúa Kópavogs, Bæjartúni 8, Kópavogi.
Eins og að framan má ráða snýst mál þetta einkum um gildi stjórnvaldsathafna Kópavogsbæjar varðandi útgáfu byggingarleyfis til Egils Viggóssonar vegna breytinga Egils á íbúðarhúsinu að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi og vegna byggingar bílskúrs á sama stað. Ágreiningslaust er að Egill Viggósson, sem þá átti fasteignina Álfhólsveg 61, réðst í framangreindar framkvæmdir án þess að hafa áður fengið til þess tilskilin leyfi hjá stefnda Kópavogsbæ. Fram hefur komið að Egill ræddi við stefnanda um bílskúrsbygginguna og leist stefnanda ekki illa á að á lóð Egils yrði reistur snyrtilegur bílskúr í stað kofaræksnis sem var þar fyrir og Egill hugðist rífa. Stefnandi kvaðst hafa gengið út frá því að Egill hefði í öllu farið að lögum og aflað sér tilskilinna leyfa.
Eins og fyrr greinir varð byggingarfulltrúi stefnda Kópavogsbæjar þess var að óleyfilegar byggingarframkvæmdir höfðu átt sér stað af hálfu Egils og var málið tekið til skoðunar hjá byggingarnefnd bæjarins. Niðurstaða þeirrar skoðunar var að byggingarfulltrúi og bæjarverkfræðingur lögðu fram greinargerð um málið á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 4. febrúar 2008. Lagði byggingarnefnd síðan til við bæjarstjórn að eiganda Álfhólsvegar 61 yrði gefinn kostur á að leggja fram teikningar af öllum mannvirkjum á lóðinni, þ. m. t. óleyfilegum mannvirkjum, til umfjöllunar í byggingarnefnd og til samþykktar í bæjarstjórn. Bæjarstjórn staðfesti þessa afgreiðslu byggingarnefndar og bæjarráðs á fundi sínum 24. mars 1998. Eigandi Álfhólsvegar 61, Egill Viggósson, skilaði inn tilskyldum teikningum og umsókn um byggingarleyfi. Á fundi sínum 8. júlí 1998 frestaði byggingarnefnd erindinu þar sem samþykki nágranna vantaði. Samþykki nágranna fyrir bílskúrnum og þar með talið samþykki stefnanda í máli þessu var síðan lagt fram. Á fundi byggingarnefndar þann 22. júlí 1998 var tekið fyrir erindi eiganda Álfhólsvegar 61 um að fá samþykktar reyndarteikningar að einbýlishúsi og bílskúr á lóðinni og lagði byggingarnefnd til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt þar sem erindið væri í samræmi við skipulag og ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Bæjarstjórn samþykkti erindið á fundi sinum 18. ágúst 1998.
Stefnandi sótti um leyfi til að stækka bílskúr sinn en var tilkynnt að hann fengi ekki samþykki fyrir byggingu bílskúrs á Löngubrekku 5 að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 þar sem ekki lægi fyrir þinglýst samþykki eigenda Álfhólsvegar 61, stefndu Jóns Guðmundssonar og Ernu Jónsdóttur sem höfðu fest kaup á eigninni. Stefnandi gerði athugasemdir við þá ákvörðun að hafna umsókn hans um stækkun bílskúrs að Löngubrekku 5 og benti á að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu sams konar bílskúrs að Álfhólsvegi 61. Hann óskaði skýringa á því hvers vegna leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu þess bílskúrs í ágúst 1998 svo nálægt Löngubrekku 5 án þinglýsts samþykkis lóðarhafa Löngubrekku 5 og án undanfarandi grenndarkynningar. Beiðni stefnanda var hafnað á grundvelli 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga þar sem frestur til að leggja fram beiðni um rökstuðning fyrir tilgreindri ákvörðun var löngu liðinn.
Með bréfi dagsettu 15. nóvember 2006 gerði stefnandi kröfu um að bílskúrsbyggingin að Álfhólsvegi 61 yrði fjarlægð eða færð frá lóðarmörkum Löngubrekku 5, minnst 3 metra og lækkuð til samræmis við aðrar næstu bílskúrsbyggingar við Álfhólsveg. Þessu erindi stefnanda var hafnað m.a. með vísan til yfirlýsingar stefnanda sem hann og annar nágranni Egils Viggóssonar höfðu undirritað þar sem þeir gerðu ekki athugasemdir við teikningar af bílskúr þeim er Egill byggði án leyfis. Var kröfu hans hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfisins væri haldin annmörkum.
Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun og útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dagsettu 27. desember 2006. Úrskurðarnefndi vísaði kærunni frá, annars vegar þar sem kærufrestur vegna byggingarleyfisins væri löngu liðinn og hins vegar á því að afgreiðsla byggingarfulltrúa á kröfu stefnanda um íhlutun byggingaryfirvalda sætti ekki kæru þar sem svarið var ekki talið fela í sér ákvörðun er bindi enda á meðferð máls.
Ágreiningslaust er að bílskúrinn að Álfhólsvegi 61 var risinn þegar stefnandi ásamt íbúa að Álfhólsvegi 59 undirritaði yfirlýsingu þann 24. júní 1998 sem er svohljóðandi: ,,Við undirrituð íbúar aðliggjandi húsa, höfum skoðað teikningar Bjarna Árnasonar tæknifræðings af skúrbyggingu að Álfhólsvegi 61 og höfum engar athugasemdir í frammi.” Stefnandi lýsti þeirri skoðun sinni er bílskúrinn var risinn að hann væri allt of hár og skyggði á sólarbirtu úr suðri inn á lóð stefnanda. Engu að síður hafi hann undirritað yfirlýsinguna, enda bílskúrinn risinn og hann í þeirri trú að stefndu hefðu farið að lögum. Öðrum þræði ritaði stefnandi undir yfirlýsinguna sökum áhuga síns á að byggja við sinn bílskúr upp að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 og kvað hann undirskriftina hafa verið háða munnlegu samkomulagi um að lóðarhafi Álfhólsvegar 61 myndi ekki gera athugasemdir við áform stefnanda, þegar þar að kæmi, um að fá að stækka sinn bílskúr að lóðarmörkunum. Þáverandi eigandi Álfhólsvegar 61, Egill Viggósson, staðfesti þennan skilning stefnanda, en tók fram að þetta hafi aðeins verið milli þeirra tveggja en ekki kynnt þeim sem keyptu eignina af honum.
Byggingarnefnd Kópavogs og bæjarstjórn Kópavogs litu svo á í afgreiðslu sinni að með framangreindri yfirlýsingu stefnanda og eiganda Álfhólsvegar 59 hefði nægileg grenndarkynning farið fram áður en byggingarleyfið var gefið út.
Byggja verður á því í máli þessu að stefndu Jóni og Ernu hafi verið ókunnugt um ætlað samkomulag stefnanda og Egils Viggóssonar og telst það á engan hátt bindandi gagnvart þeim.
Þegar umrætt byggingarleyfi var gefið út var deiliskipulag ekki í gildi í því hverfi þar sem umræddar fasteignir eru. Ekki hefur verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfisins vegna breytinganna á íbúðarhúsnæðinu og vegna byggingar bílskúrsins hafi verið haldin slíkum annmörkum að hún teljist ólögmæt. Telur dómurinn að byggja verði á því að umrædda yfirlýsingu stefnanda og annars eiganda nágrannalóðar Álfhólsvegar 61 beri að meta sem fullnægjandi grenndarkynningu eins og á stóð og tíðkaðist á þessum tíma. Er því ekki fallist á að leyfisveitingin hafi verið ólögmæt af þeim sökum.
Þá ber til þess að líta að stefnandi hefur sýnt af sér mikið tómlæti en um 13 ár voru liðin frá leyfisveitingunni þangað til stefnandi höfðaði mál þetta. Þá hefur stefnandi hvorki sýnt fram á að breytingin á húsinu og bygging bílskúrsins séu ekki í samræmi við skipulag og skipulags- og byggingarlög né að þessar framkvæmdir valdi honum ama og óþægindum. Þá verður og að hafa í huga í ljósi aðdraganda þessa máls og þess tíma sem liðinn er að gætt sé meðalhófs.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að útgáfa stefnda Kópavogsbæjar á byggingarleyfi til Egils Viggóssonar hafi ekki verið háð annmörkum, hvorki að formi né að efni og hafi því verið lögleg. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber að sýkna öll stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum og að teknu tilliti til úrslita um frávísunarkröfur stefndu þykir rétt að ákveða að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Kópavogsbæjar falli niður, en að stefnandi greiði stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Jónsdóttur sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til 25,5% virðisaukaskatts.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu Kópavogsbær, Jón Guðmundsson og Erna Jónsdóttir eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda Kristjáns Kristjánssonar í máli þessu.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Kópavogsbæ fellur niður en stefnandi greiði stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Jónsdóttur 300.000 krónur í málskostnað.