Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-275
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Erfðaskrá
- Eignarréttur
- Res Judicata
- Sakarefni
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 25. nóvember 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 421/2020: A gegn dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda í dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested um afhendingu á beinum eignarrétti yfir jörðinni Vatnsenda í Kópavogi, land nr. 116957, sem arfi samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested 4. janúar 1938, með þeim skilyrðum og takmörkunum sem erfðaskráin geymi. Skiptastjóri gagnaðila hafnaði kröfunni. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila skaut skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Í úrskurði Landsréttar voru raktir dómar Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967, 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 og 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015, sem allir vörðuðu fyrrgreinda erfðaskrá og átti faðir leyfisbeiðanda aðild að þeim þremur síðastgreindu. Í úrskurði Landsréttar kemur fram að Hæstiréttur hafi í dómunum slegið því föstu að beinn eignarréttur að jörðinni hefði í kjölfar fráfalls Magnúsar Einarssonar Hjaltested árið 1940 færst á grundvelli erfðaskrárinnar til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og væri enn á hendi dánarbús hans svo og að hann gengi ekki að erfðum samkvæmt erfðaskrá Magnúsar heldur eftir lögerfðareglum. Um rétt til umráða og afnota fasteignarinnar Vatnsenda færi að Sigurði látnum á hinn bóginn eftir ákvæðum erfðaskrár Magnúsar. Að þessu virtu taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi gæti ekki átt tilkall til beins eignaréttar yfir jörðinni á grundvelli erfðaskrárinnar en ætti á hinn bóginn með stoð í henni rétt til umráða og afnota af jörðinni við andlát föður síns 12. desember 2018. Yrði að líta svo á að leyfisbeiðandi hefði að lögum komið í stað föður síns og væri af þeim sökum bundinn af niðurstöðu fyrrgreindra dóma þótt hann hefði sjálfur ekki átt aðild að málunum, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafnaði Landsréttur því að krafa leyfisbeiðanda varðaði annað sakarefni en áður hafði verið leyst úr.
Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða hins kærðar úrskurðar sé röng um að dómar Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 og 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 hafi jákvæð réttaráhrif gagnvart honum þar sem hann leiði rétt sinn frá Magnúsi Einarssyni Hjaltested en ekki þeim sem áður hafi tekið við arfi samkvæmt erfðaskrá Magnúsar. Þá séu réttarlegar afleiðingar af dómkröfu hans aðrar en af dómkröfum í fyrrgreindum málum. Því hafi ekki áður verið leyst úr dómkröfu leyfisbeiðanda fyrir dómi og bersýnilega rangt að hafna kröfunni á þeirri forsendu. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um það álitefni hver komi að lögum í stað málsaðila í skilningi 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og hvort krafa hafi áður verið dæmd. Þá hafi málið fordæmisgildi um skilyrðiskenningu fjármunaréttar og um eðli og efni eignarréttar. Leyfisbeiðandi vísar til fræðiskrifa um að dómar Hæstaréttar í málum nr. 701/2012 og 751/2014 samrýmist illa viðteknum viðhorfum á sviði eignaréttar um afnotarétt. Leyfisbeiðandi byggir á því að í erfðaskrá Magnúsar hafi beinum eignarrétti verið ráðstafað með takmörkunum og skilyrðum. Áðurgreindar dómsúrlausnir byggi á yfirlýsingum fyrri arftaka erfðaskrárinnar fyrir dómi, sem hafi skort eignarréttarlegar heimildir til að breyta eðli og efni erfðaráðstöfunar arfleiðandans. Málið hafi því fordæmisgildi um reglur eignaréttar um afleidda stofnun eignarréttar og meginregluna um að enginn geti látið af hendi rétt sem hann eigi ekki. Loks hafi málið fordæmisgildi um viljakenningu erfðaréttar, hvenær í síðasta lagi megi vefengja erfðaskrá og hvort það verði gert við skipti á öðru dánarbúi en dánarbúi arfleiðandans. Málið varði ríka hagsmuni leyfisbeiðanda.
Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.