Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 12. febrúar 2014.

Nr. 3/2014.

Einhamar Seafood ehf.

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E ehf. á hendur Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist E ehf. þess að felldur yrði úr gildi úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að svipta skipið GS leyfi til veiða í atvinnuskyni á tilteknu tímabili. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilgangur málshöfðunarinnar sýndist vera að leggja lögspurningu fyrir dómstóla. Þegar málið var höfðað hafi verið löngu liðið það tímabil sem veiðileyfissviptingin tók til. Að því tímabili liðnu hefði E ehf. ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af því að bera gildi stjórnvaldsákvörðunar um sviptinguna undir dómstóla, en í málinu hefði félagið hvorki uppi fjárkröfu um bætur vegna sviptingarinnar né viðurkenningarkröfu um bótaskyldu Í í tilefni af henni. Að þessu gættu var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 17. desember 2012 og gerði þá kröfu að felldur yrði úr gildi úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins 9. desember 2011 að svipta skipið Gísla Súrsson GK 8 leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með 30. maí til og með 5. júní 2011. Með úrskurði ráðuneytisins, sem krafa sóknaraðila beinist að, var staðfest ákvörðun Fiskistofu 12. maí 2011 sama efnis.

Í kæru sóknaraðila segir meðal annars: „Mál þetta [var] aldrei hugsað sem skaðabótamál, eða að sýna hefði þurft fram á tjón sóknaraðila til að sóknaraðili hefði lögvarða hagsmuni, heldur eingöngu farið fram á að úrskurði ráðuneytisins yrði hnekkt vegna ósanngjarnra sjónarmiða og brota á stjórnsýslureglum ... sem stjórnvöld eiga ekki að komast upp með.“ Tilgangur málshöfðunar sóknaraðila sýnist samkvæmt þessu hafa verið að leggja lögspurningu fyrir dómstóla. Þegar mál þetta var höfðað var löngu liðið það tímabil sem veiðileyfissviptingin tók til. Að því tímabili liðnu hafði sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að bera gildi stjórnvaldsákvörðunar um sviptinguna undir dómstóla, en í máli þessu hefur hann hvorki uppi fjárkröfu um bætur vegna sviptingarinnar né viðurkenningarkröfu um bótaskyldu varnaraðila í tilefni af henni. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í  dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Einhamar Seafood ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember sl., er höfðað af Einhamri Seafood ehf., Verbraut 3a, 240 Grindavík, á hendur íslenska ríkinu með stefnu dags. 24. október 2012.

Stefnandi gerir þá kröfu, að dæmdur verði ógildur úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 9. desember 2011, um að svipta skipið Gísla Súrsson GK-8, skipaskrárnúmer 2608, leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku, frá og með 30. maí 2011 til og með 5. júní 2011, skv. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, og VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem lagður verður fram á síðari stigum málsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II.

Málsatvik

Helstu málsatvik eru þau, að þann 21. febrúar 2011 fór fram endurvigtun á afla úr bát stefnanda, Gísla Súrssyni GK-8, skipaskrárnúmer 2608, í fiskvinnsluhúsnæði hans, að Verbraut 3a í Grindavík. Aflanum hafði verið landað á Rifi á Snæfellsnesi daginn áður og  vigtaður þar á hafnarvog. Við endurvigtun, sem fram fór í fiskmóttöku í Grindavík, kom í ljós að undir ýsu í einu karinu, 660 lítra kari sem ekki var fullt, var nokkurt magn af óslægðum þorski, alls 108 kg. Skylt er að halda afla um borð í skipum aðgreindum eftir tegundum við vigtun á hafnarvog, en fiskikarið hafði verið flokkað og vigtað sem ýsa á hafnarvog. Að mati Fiskistofu, sem byggði á skýrslu eftirlitsmanns, sem var á staðnum, bentu fyrirliggjandi gögn til þess að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, og með því að láta hjá líða að vigta og tegundargreina afla rétt við vigtun á hafnarvog. Bæri skipstjóri ábyrgð á því að afli væri rétt veginn og aðgreindur. Með bréfi fiskistofu, dags. 25. mars 2011, sem byggðist á skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2011, var stefnanda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri gagnvart Fiskistofu um meinta fram hjá löndun afla úr Gísla Súrssyni GK-8, skipaskrárnúmer 2608, þann 21. febrúar 2011.

Með bréfi dags. 19. apríl 2011 gerði lögmaður stefnanda athugasemdir við framangreint bréf Fiskistofu. Í bréfinu kom fram, að þegar eftirlitsmaður Fiskistofu hefði komið í fiskvinnslu stefnanda umræddan dag, hafi verið óvenjumikill afli í húsinu eða nálægt 30 tonnum. Vigtarmaður hefði bent eftirlitsmanni Fiskistofu á eitt kar, sem í hafi verið slatti af blönduðum afla, en það hafi komið í ljós þegar helt var úr karinu til þess að vigta ísinn frá. Ljóst hafi verið að um mistök hafi verið að ræða og að ábending um þetta hafi komið frá vigtarmanni, starfsmanni stefnanda, þannig að fullur vilji hafi verið til að leiðrétta þetta við vigtun aflans í húsinu. Þess var síðan farið á leit að ekki yrði beitt sviptingu veiðileyfis þar sem um smávægilegt atvik hefði verið að ræða og vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Með bréfi, dags. 12. maí 2011, til stefnanda, tók Fiskistofa ákvörðun um að svipta bát stefnanda, Gísla Súrsson GK-8, leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku, nánar frá og með mánudeginum 30. maí 2011 til og með sunnudeginum 5. júní 2011, á grundvelli 15. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðunin byggði á skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2011 og fram kemur að Fiskistofa meti það svo að ekki hafi verið rétt staðið að tegundagreiningu á aflanum fyrir vigtun hans á hafnarvog þar sem skylt sé að vigta hverja tegund sérstaklega.  Skipstjóri Gísla Súrssonar GK-8 hafi borið ábyrgð á því að það væri gert. Þá segir í ákvörðuninni, að skipstjóra sé skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum og láta vigta hverja tegund sérstaklega og skuli hann tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar berist vigtarmanni, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Þá sé í reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum, kveðið á um hvernig vigtun sjávarafla skuli háttað og fyrrgreindar reglur ítrekaðar, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Þá er vísað til þess í ákvörðuninni, að í 15. gr. laga nr. 57/1996 komi fram, að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi, hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skuli svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Útgerð Gísla Súrssonar GK-8 hafi fengið skriflega áminningu þann 28. janúar 2011 vegna brots gegn ákvæðum laga nr. 57/1996. Þar sem skipstjóri Gísla Súrssonar GK-8 hafi ekki staðið rétt að vigtun aflans á hafnarvog, hafi Fiskistofa ákveðið að veita ekki áminningu í máli þessu, þar eð brotið teldist ekki minniháttar og ekki væri um fyrsta brot að ræða. Því hafi Fiskistofa ákveðið að svipta bátinn veiðileyfi í eina viku. Loks er á það bent í ákvörðun Fiskistofu að ákvörðunin sé kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að kæranda var tilkynnt um hana, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 57/1996 með síðari breytingum, en einnig tekið fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. júní 2011, sem barst ráðuneytinu 10. sama mánaðar, kærði stefnandi framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2011, til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og krafðist þess að ráðuneytið hnekkti þeirri ákvörðun Fiskistofu að svipta Gísla Súrsson GK-8 veiðileyfi.

Í stjórnsýslukærunni komu fram athugasemdir við málsatvikalýsingu í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu. Meðal annars kom fram að eftirlitsmaður Fiskistofu hefði ekki verið viðstaddur, þegar sturtað var úr viðkomandi kari á ísbandið. Þegar sturtað hafi verið úr karinu hafi vigtarmaður stefnanda séð að í því hafi verið bæði þorskur og ýsa og hafi hann þá kallað á eftirlitsmann Fiskistofu, sem hafi verið í 7-8 metra fjarlægð og ekki verið að fylgjast með endurvigtun á þeirri stundu, og bent honum á þetta.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendi Fiskistofu stjórnsýslukæruna til umsagnar og með bréfi, dags. 6. júlí 2011, sendi Fiskistofa umsögn sína, þar sagði m.a. að útilokað væri að ætla að umræddur afli hefði ekki komið í ljós við skoðun eftirlitsmanna Fiskistofu á afla Gísla Súrssonar GK-8. Umsögnin var síðan tilkynnt lögmanni stefnanda með bréfi ráðuneytisins dags. 7. júlí 201 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögnina fyrir hönd stefnanda. Með bréfi dags. 20. júlí 2011 voru ráðuneytinu sendar athugasemdir við umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæru stefnanda. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf síðan Fiskistofu kost á að tjá sig um athugasemdir stefnanda, sem fram komu í bréfi hans dags. 20. júlí 2011. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2011, til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, gerði lögmaður stefnanda athugasemdir við áðurgreint bréf Fiskistofu frá 29. júlí 2011, þar sem áréttað var, að skipstjóri hefði lýst því yfir, að hann hefði látið vigta hverja tegund sérstaklega og að afli skipsins hefði verið sundurgreindur um borð.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kvað síðan upp úrskurð í málinu 9. desember 2011, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu frá 12. maí 2011.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu vitnið Kristinn Arnar Gunnarsson, löggiltur vigtarmaður, og Haraldur Björn Björnsson skipstjóri.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfu sína í fyrsta lagi á því, að ekki sé um að ræða brot skipstjóra, löggilts vigtarmanns eða annarra starfsmanna stefnanda í máli þessu, sem varði við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í öðru lagi byggir stefnandi dómkröfu sína á því, að ekki hafi verið gætt réttra málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar við ákvörðun úrskurðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sem kveðinn var  upp þann 9. desember 2011.

Þá byggir stefnandi á því, að af hálfu Fiskistofu hafi ekki verið sýnt fram á að ekki hafi allur afli Gísla Súrssonar GK-8, skipaskrárnúmer, sem landað var á Rifi í Snæfellsbæ þann 20. febrúar 2011, verið vigtaður á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Þvert á móti liggi fyrir í málinu full sönnun um að allur afli skipsins í umrætt sinn hafi í raun verið brúttó vigtaður á hafnarvog af starfsmönnum hafnarinnar, sem séu löggiltir vigtarmenn. Í beinu framhaldi af því hafi síðan allur afli skipsins verið fluttur til fiskverkunar stefnanda í Grindavík til endurvigtunar í samræmi við lög og reglur. Þar hafi allur aflinn verið endurvigtaður þann 21. febrúar 2011 og að réttum upplýsingum um endanlega vigt aflans, sundurgreindum eftir fisktegundum, hafi af hálfu vigtarmanns stefnanda sem annaðist vigtunina, verið komið til skila til Fiskistofu í samræmi við ákvæði laga nr. 57/1996 og reglugerðar nr. 224/2006. Fiskistofa hafi því hvorki sýnt fram á að brotið hafi verið gegn ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, né ákvæði 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun sjávarafla með síðari breytingum. Þannig liggi fyrir lögfull sönnun um að allur afli Gísla Súrssonar GK-8 hafi bæði verið brúttó vigtaður og endurvigtaður í umrætt sinn, sundurgreindur eftir tegundum, skráður réttilega í aflaskráningarkerfi Fiskistofu og dreginn frá aflaheimildum skipsins í viðkomandi tegundum. Starfsmenn stefnanda hafi því ekki gerst brotlegir við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996 eða 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 224/2006 í umrætt sinn.

Þá liggi fyrir yfirlýsing skipstjóra Gísla Súrssonar GK-8 um að hann hafi látið sundurgreina allan afla skipsins réttilega eftir tegundum um borð í skipinu áður en það kom til hafnar. Óumdeilt sé að starfsmenn hafnaryfirvalda á Rifi í Snæfellsbæ önnuðust löndun og vigtun afla skipsins þann 20. febrúar 2011 og að við löndunina færðu þeir aflann úr körum skipsins í stærri kör á bryggjunni. Starfsmenn stefnanda hafi með engum hætti komið nærri þeirri framkvæmd. Að þessu loknu hafi lyftaramaður hafnarinnar flutt aflann til brúttó vigtunar á hafnarvoginni og gefið vigtarmanni upplýsingar um þær fiskistegundir, sem hann kom með til vigtunar. Við þessa framkvæmd hafi vigtarmönnum að öllum líkindum orðið á þau mistök setja þorsk í kar sem gefið var upp við brúttóvigtun á hafnarvoginni að innihéldi eingöngu ýsu. Stefnandi telur fráleitt að ábyrgð skipstjóra skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 verði túlkuð svo vítt, að hann beri hlutlæga refsiábyrgð á mistökum hafnarvigtarmanna við brúttóvigtun og skráningu afla skipsins á hafnarvog. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á að skipstjóri Gísla Súrssonar GK-8 hafi gerst brotlegur við ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1996 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar  nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla.

Þá telur stefnandi að hafa verði í huga að þessi mistök leiddu ekki til þess að afli skipsins yrði ranglega vigtaður og skráður til aflamarks skipsins. Hinn löggilti vigtarmaður stefnanda hafi í einu og öllu farið eftir leiðbeiningum Fiskistofu um endurvigtun og viðbrögð við því þegar afli, sem berst til endurvigtunar, hefur verið ranglega brúttó vigtaður eftir tegundum á hafnarvog. Hinn löggilti vigtarmaður hafi upplýst eftirlitsmann fiskistofu um misræmi aflans í umræddu kari og allt málið sé því byggt á röngum skilningi Fiskistofu og síðar sjávarútvegsráðuneytisins á lögum og reglum, sem gildi um brúttó vigtun og endurvigtun á afla fiskiskipa. Þannig hafi Fiskistofa ekki sýnt fram á að skipstjóri eða aðrir starfsmenn stefnanda hafi í störfum sínum orðið þess valdandi af gáleysi, að umrædd mistök áttu sér stað eða að um ásetning hafi verið að ræða hjá þeim. Stefnandi mótmælir því einnig þeirri sönnunarfærslu Fiskistofu, að getgátur séu hafðar uppi um það að engu máli hefði skipt þótt löggiltur vigtarmaður stefnanda vekti athygli eftirlitsmanns Fiskistofu á ósamræmi í aflasamsetningu umrædds fiskikars, eftirlitsmenn Fiskistofu hefðu hvort eð er orðið varir við misræmið.

Stefnandi byggir á því að skipstjóri verði ekki talinn bera ábyrgð á mistökum hafnarstarfsmanna og þá verði slíkri víðtækri refsiábyrgð ekki fundin stoð í lögskýringargögnum varðandi umrætt ákvæði laga nr. 57/1996. Þá bendir stefnandi á, að verðmæti þorskaflans í umræddu kari hafi verið 35.000 krónur og því ekki verið áhættunnar virði að fremja það brot, sem stefnanda er gefið að sök.

Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi ekki gætt ákvæða rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tekið ákvörðun þá sem krafist er ógildingar á í máli þessu á grundvelli ófullnægjandi gagna og upplýsinga. Þrátt fyrir augljósa ágalla á skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu og rangfærslur hans um málsatvik, sem stefnandi benti bæði Fiskistofu og stefnda á undir rekstri málsins, þá byggi ráðuneytið ákvörðun sína m.a. á þeirri skýrslu og rangri og ósannaðri fullyrðingu eftirlitsmanns um það að frumkvæði löggilts vigtarmanns stefnanda, að benda eftirlitsmanni á ósamræmið, hafi engu máli skipt, þeir hefðu hvort sem er orðið varir við misræmið. Þannig byggi allt málið á skýrslu eins eftirlitsmanns Fiskistofu, en sýnt hafi verið fram á við rekstur málsins á stjórnsýslustigi að fullyrðingar hans fengu ekki staðist. Þá sé sú staðreynd, að stefnandi hafi áður hlotið áminningu fyrir brot á ákvæðum laga nr. 57/1996 notuð sem rökstuðningur fyrir því að hann eigi að bera ábyrgð á ósönnuðu broti í þessu tilviki. Ekki hafi verið gerð minnsta tilraun til að þess að afla skýrslna eða annarra upplýsingar frá aðilum, sem sannanlega voru vitni að atvikum í máli þessu.

Stefnandi telur því, að stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að upplýsa nægjanlega um málsatvik og meðferð sambærilegra mála áður en hann tók þá ákvörðun, sem krafist er ógildingar á og þannig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis við málsmeðferðina og þá einkum varðandi töku ákvörðunar í málinu, en í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Stefnandi hafi bent á það undir rekstri málsins, að sjaldnast væri beitt viðurlögum við sambærilegar aðstæður og ljóst sé að stefndi hafi ekki gætt samræmis eða jafnræðis við ákvörðunartöku í máli þessu.

Þá byggir stefnandi á því, að ákvörðun stefnda brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem viðurlög, sem ákvörðuð voru í máli þessu, séu ekki í neinu samræmi við málsatvik og algjörlega úr hófi. Í 12. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um það, að stjórnvöld skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti. Hið lögmæta markmið, sem að er stefnt með ákvæðum 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57 /1996 og ákvæðum reglugerðar nr. 224/2006, sé að tryggja að allur afli fiskiskipa sem landað hafi verið sé réttilega veginn og skráður sundurgreindur eftir tegundum og dragist þannig frá aflaheimildum viðkomandi fiskiskips. Starfsmaður stefnanda hafi tryggt að svo yrði að eigin frumkvæði.

Stefnandi telur að þeir ágallar, sem sýnt hafi verið fram á að voru á málsmeðferð stefnda, eigi að leiða til ógildingar úrskurðar stefnda í máli þessu.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til 10., 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga  nr. 37/1993. Jafnframt vísar stefndi til 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr., 10. gr. og 11. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjárvar, með síðari breytingu. Enn fremur vísar stefnandi til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. og II. kafla reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991. Þá er krafa um málskostnað studd við 129. gr. og 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því, að svo virðist sem allur málatilbúnaður stefnanda sé reistur á misskilningi og mótmælir honum sem röngum. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvörðun Fiskistofu, og úrskurður sjárvarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í máli stefnanda, séu í einu og öllu í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þeir séu ekki haldnir neinum form- eða efnisannmörkum, sem leitt geti til þess að þeir verði felldir úr gildi í heild sinni eða að hluta.

Óumdeilt sé, að við vigtun aflans í löndunarhöfn hafi þorskur verið vigtaður sem ýsa, andstætt ákvæðum 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla. Fiskistofu sé skylt að ákvarða sviptingu veiðileyfis, sbr. 15. gr. nefndra laga, þegar staðreynt hefur verið að brotið hefur verið gegn ákvæðum þeirra. Gögn málsins beri með sér ótvíræða sönnun þess, að slíkt brot átti sér stað og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Hlutrænt séð hafi Fiskistofu því verið skylt að svipta Gísla Súrsson GK-8 veiðileyfi.

Reglur um vigtun afla íslenskra fiskiskipa sé að finna í lögum nr. 57/1996 og reglugerð nr. 224/2006. Í 5. gr. laganna sé kveðið á um að öllum afla, sem íslensk skip veiða innan efnahagslögsögunnar, skuli landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans, sbr. 1. mgr. 6. gr. Þá sé í 1. mgr. 9. gr. lögð sú skylda á skipstjóra í fyrsta lagi að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum, í öðru lagi að láta vigta hverja tegund sérstaklega og í þriðja lagi að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns. Í reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, séu framangreindar reglur nánar útfærðar, en þar segir í 1. mgr. 2. gr., að skipstjóri fiskiskips beri ábyrgð á að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.

Af framangreindum ákvæðum sé því ljóst, að á skipstjóra hvíli sú skylda að sjá til þess að afli sé vigtaður á hafnarvog og að hver tegund sé þar vigtuð sérstaklega. Það sé óumdeild staðreynd þessa máls að eitt kar, sem innihélt bæði þorsk og ýsu, var vigtað sem ýsa í löndunarhöfn. Fiskistofu hafi því verið skylt að svipta skip stefnanda, Gísla Súrsson, veiðileyfi sbr. 15. gr. laga nr. 57/1996.

Stefndi mótmælir sem röngum þeim málsástæðum stefnanda, sem lúta að því, að stefnandi eða starfsmenn, sem unnu í þágu útgerðar hans, hafi ekki brotið gegn 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996. Það sé einnig rangt, að stjórnvöld líti svo á að skipstjórar beri „hlutlæga refsiábyrgð“ vegna brota gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og sérstaklega 1. mgr. 9. gr. laganna, enda sé í 23. gr. laganna tekið fram að brot gegn ákvæðum laganna varði sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Stefndi telur því að sama gildi um ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga. Þá sé ljóst, að 1. mgr. 9. gr. laganna kveður ekki á um að brot skipstjóra þurfi að leiða til einhvers konar tjóns eða hagnaðar, svo það teljist fullframið. Hátternislýsing ákvæðisins beri með sér, að um er að ræða hættubrot eða samhverft brot, þar sem saknæmisskilyrði er gáleysi eða ásetningur, eins og jafnan er áskilið, þegar til greina kemur að beita stjórnsýsluviðurlögum.

Í dómum Hæstaréttar í málum, sem höfðuð hafi verið til refsiábyrgðar á hendur skipstjórum vegna brots gegn 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, hafi ströng túlkun verið lögð til grundvallar við mat á því, hvort skipstjóri hafi tryggt nægilega að réttar og fullnægjandi upplýsingar um afla berist vigtarmanni. Orðalag laganna og lögskýringargögn bendi til þess að ábyrgð aðila, skv. 6. og 9. gr. laganna, sé sjálfstæð og óháð. Þeirri skyldu, sem skipstjórar bera til að tryggja að vigtarmönnum berist réttar og fullnægjandi upplýsingar um landaðan afla, geti þeir ekki létt af sér eða flutt á aðra, nema e.t.v. við mjög sérstakar aðstæður. Engar slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi í máli þessu. Við endurvigtun 21. febrúar 2011 hafi vigtarmaður bent eftirlitsmanni Fiskistofu á eitt kar, sem í var blandaður afli. Enginn ágreiningur er um að í karinu var þorskur, sem vigtaður var sem ýsa á hafnarvog á Rifi. Í þessu felist fullnægjandi sönnun um að ekki var staðið rétt að tegundagreiningu á afla úr Gísla Súrssyni GK-8 fyrir vigtun hans á hafnarvog. Þeirri staðreynd verði ekki raskað þótt síðar komi fram leiðrétting á tegundagreiningu afla við endurvigtun, eins og stefnandi byggir á. Saknæm háttsemi skipstjóra Gísla Súrssonar GK-8 lá þar með fyrir, hann tryggði ekki aðskilnað aflans og/eða veitti vigtarmanni ekki fullnægjandi upplýsingar um hann.

Því er af hálfu stefnda mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að starfsmenn hafnarinnar á Rifi hafi gert þau mistök við löndun að setja þorsk í kar, sem gefið var upp við brúttóvigtun á hafnarvoginni að í væri ýsuafli eingöngu. Engum fullnægjandi rökum hafi verið skotið undir þessa staðhæfingu. Þá geti sjálfstæð fyrirmæli um ábyrgð, störf og verklag fyrir ökumenn afla og starfsmenn hafnarvoga í 10. og 11. gr. laga nr. 57/1996, ekki upphafið ábyrgð skipstjóra skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, eins og ráða má af dómaframkvæmd. Þá geti hafnarstarfsmenn aldrei gengið til fulls úr skugga um aflainnihald í fiskikörum nema beinlínis að tæma körin og fylla í þau að nýju, en til þess verður ekki ætlast, sbr. 10. og 11. gr. laga 57/1996.

Stefndi mótmælir sem röngum málsástæðum stefnanda, er lúta að því að ekki hafi verið gætt rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr. eða meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Mál stefnanda hafi fengið vandaðan undirbúning á tveimur stjórnsýslustigum, þar sem réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt í hvívetna. Ákvörðun í máli stefnanda sé því í samræmi við stjórnsýsluframkvæmd, sem er úrskurður stefnda í sambærilegu máli.

Stefndi vísar til þess að sú staðreynd sé óumdeild, að við endurvigtun hafi komið í ljós að þorskur hafði verið veginn sem ýsa á hafnarvog. Málið hafi því verið að fullu upplýst og ekki hafi þurft frekari rannsóknar við.

Þá byggir stefndi á því að sú málsástæða stefnanda, að hann og jafnvel aðrir ónefndir aðilar, hafi átölulaust komist upp með háttsemi, sem felur í sér brot gegn lögum nr. 57/1996 og reglugerð nr. 224/2006, geti ekki leitt til þess að þau lögbrot geri þá háttsemi sem hér er um deilt viðurlagalausa. Dómstólar hafa ekki fallist á þá málsvörn brotlegs aðila, að jafnræðisreglan eigi við í slíkum tilvikum.

Brot stefnanda varði sviptingu veiðileyfis samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1996. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. skuli fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa, hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða gegn reglum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 15. gr. komi fram, að við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Þó skuli Fiskistofa við fyrsta minni háttar brot, veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu, sbr. 3. mgr. 15. gr. Fyrirmæli 15. gr. séu afdráttarlaus. Í gögnum málsins liggi fyrir að stefnanda hafði áður verið gefin áminning, skv. 3. mgr. 15. gr., vegna brota gegn lögum nr. 57/1996, og geri lögin ekki ráð fyrir fleiri en einni áminningu. Gildistími veiðileyfissviptingar samkvæmt ákvörðun Fiskistofu og úrskurði ráðuneytis hafi verið ein vika. Meðalhófs hafi því verið gætt, enda vægari úrræði ekki tæk í máli stefnanda.

Varðandi lagarök vísar stefndi til áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV. Niðurstöður

Stefnandi gerir þá dómkröfu að dæmdur verði ógildur úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 9. desember 2011, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. maí 2011, um að svipta skip stefnanda, Gísla Súrsson GK-8, skipakrárnúmer 2608, leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina vikur, frá og með 30. maí 2011 til og með 5.júní 2011, með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Fyrir liggur að svipting leyfis til veiða var tímabundin og stefnandi fékk leyfið aftur 6. júní 2011. Stefnandi hefur ekki gert grein fyrir því, hverju það varði hann að fá ógilta framangreinda ákvörðun og hefur þannig ekki sýnt fram á að hafa lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkröfunnar. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 ber því að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurðinn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.