Hæstiréttur íslands

Mál nr. 645/2016

Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
Guðrúnu Ósk Ásmundsdóttur (Björn Jóhannesson hrl., Arnór Halldórsson Hafstað hdl. 2. prófmál)

Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fyrning
  • Gjafsókn

Reifun

L krafðist þess að viðurkennd yrðu slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur G samkvæmt skuldabréfi sem hún gaf út til L vegna námslána. Bú G var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2013 og við lok þeirra 31. maí sama ár hófst nýr tveggja ára fyrningartími á kröfu L. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri réttur L til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur G háður þeim skilyrðum að hann sýndi fram á annars vegar að hann hefði sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur mætti telja á að fullnusta gæti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Að því er varðaði fyrra skilyrði þess ákvæðis vísaði Hæstiréttur til þess að líta yrði svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefði ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldara, fæli skilyrðið einkum í sér að kröfuhafi þyrfti vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi væri hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa yrði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Taldi Hæstiréttur aðstæður L ekki sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Þá yrði ekki framhjá því litið að L væri ríkisstofnun, sem fengi fé til að standa undir starfsemi sinni m.a. með framlögum ríkisins, þess sama og hefði í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Þar sem því hefði ekki verið borið við að G hefði með ólögmætri háttsemi stofnað til skuldar við L taldi Hæstiréttur að skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 væru ekki uppfyllt og þurfti þá ekki að líta frekar til þess að L hefði á engan hátt leitt í ljós að líkur væru á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfi númer G-116426, útgefnu 25. október 2010 og upphaflega að fjárhæð 1.792.129 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefnda 25. október 2010 skuldabréf, sem bar númerið G-116426. Þar viðurkenndi hún að skulda áfrýjanda fjárhæð, sem nema myndi heildarskuld hennar vegna námslána, en veitti honum um leið heimild til að færa inn þá fjárhæð við námslok sín. Fyrir liggur að stefnda fékk á árinu 2011 námslán hjá áfrýjanda að fjárhæð samtals 1.654.200 krónur. Með kröfu, sem barst héraðsdómi 28. janúar 2013, leitaði stefnda gjaldþrotaskipta á búi sínu og var krafan tekin til greina 14. febrúar sama ár. Þótt námi stefndu muni ekki hafa verið lokið á þeim tíma neytti áfrýjandi af þessu tilefni heimildar til að fylla út skuldabréfið með því að færa inn á það fjárhæðina 1.792.129 krónur og er ekki ágreiningur um að hún svari til námslána stefndu frá árinu 2011 með áföllnum verðbótum eftir vísitölu neysluverðs. Við skipti á þrotabúi stefndu var lýst kröfum að fjárhæð samtals 4.061.155 krónur, en þar af nam krafa áfrýjanda á grundvelli skuldabréfsins 1.805.838 krónum. Skiptunum lauk 31. maí 2013 án þess að greiðsla fengist upp í hana. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo sem þeirri lagagrein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, rufu gjaldþrotaskiptin á búi stefndu fyrningu á kröfu áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu, en við lok skiptanna hófst nýr tveggja ára fyrningarfrestur kröfunnar. Í málinu er deilt um hvort fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, til að áfrýjandi fái með dómi viðurkennd slit á þessari fyrningu kröfunnar með þeim áhrifum að upp frá því gildi um hana fyrningarfrestur eftir almennum reglum laga.

Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er réttur áfrýjanda til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu háður þeim skilyrðum að hann sýni fram á annars vegar að hann hafi sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Varðandi skýringu á fyrirmælum um þessi skilyrði hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að með 1. gr. laga nr. 142/2010 hafi ekki aðeins verið sett ný regla um að krafa á hendur þrotamanni fyrnist á tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta í stað eldri reglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um að gjaldþrotaskipti ryfu fyrningu lýstrar kröfu og hæfist við lok þeirra á nýjan leik sami fyrningarfrestur og áður gilti um hana, heldur hafi einnig verið takmörkuð mjög heimild kröfuhafa til að fá fyrningu slitið. Standi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar því í vegi að leidd séu í lög á afturvirkan hátt skilyrði, sem tálmi í svo ríkum mæli að fyrningu verði slitið að þau jafngildi banni við því, en að þessu verði sérstaklega að gæta við skýringu og beitingu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Um þessa röksemd áfrýjanda er til þess að líta að fyrirmælin í síðastnefndu lagaákvæði eru ekki afturvirk í öðrum skilningi en þeim að þau taka til allra krafna á hendur þrotamanni, sem ekki er fullnægt við gjaldþrotaskipti, án tillits til þess hvort þær hafi orðið til áður en eða eftir að lög nr. 142/2010 tóku gildi. Með lögum er unnt að breyta fyrningartíma kröfu frá því, sem gilti við stofnun hennar, enda sé kröfuhafa þá gefið ráðrúm til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar ef nýjum fyrningartíma hennar væri að öðrum kosti að ljúka eða þegar lokið. Eðli máls samkvæmt hefur löggjafinn þá einnig svigrúm til að setja nýjar reglur um hvernig og með hvaða skilyrðum fyrningu kröfu verði slitið. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 fela í sér almenna takmörkun á rétti kröfuhafa til að slíta fyrningu við tilteknar aðstæður og tekur hún jafnt til allra. Eru því ekki efni til að láta 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar setja sérstakt mark á skýringu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

Í lögskýringargögnum, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður lítið séð sem máli skiptir um hvernig löggjafinn hafi ætlast til að skýrð yrðu þau fyrirmæli í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi þurfi að sýna fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu kröfu til þess að við því megi verða. Eftir orðalagi þessa lagaákvæðis og með hliðsjón af því, sem þó kom fram í lögskýringargögnum, verður að líta svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefur ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldarans, feli þetta skilyrði einkum í sér að kröfuhafi þurfi vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi sé hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa verði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Þótt áfrýjandi beri eftir lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna ríkar skyldur til að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum geta þær einar ekki valdið því að aðstæður hans séu í framangreindum skilningi sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Í því sambandi verður heldur ekki litið fram hjá því að áfrýjandi er ríkisstofnun, sem fær samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1992 fé til að standa undir starfsemi sinni meðal annars með framlögum ríkisins, þess sama og hefur í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Því hefur ekki verið borið við að stefnda hafi með ólögmætri háttsemi stofnað til skuldar við áfrýjanda. Þegar af þessum ástæðum eru ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu áfrýjanda um að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu hans á hendur stefndu og þarf þá ekki að líta frekar til þess að hann hefur á engan hátt leitt í ljós að líkur séu á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði í ríkissjóð 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Guðrúnar Óskar Ásmundsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2016.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 10. maí 2016, er höfðað af Lánasjóði íslenskra náms­manna, kt. [...], Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Ósk Ásmunds­dóttur, kt. [...], Holtastíg 2, Bolungarvík.

                Stefnandi krefst þess að dómurinn viðurkenni að rofin sé fyrning þeirrar kröfu sem stefnandi eigi á hendur stefndu sam­kvæmt skuldabréfi nr. G-116426, útgefnu 25. okt­óber 2010, upphaflega að fjárhæð 1.792.129 kr.

                Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættum virðis­auka­skatti á málflutningsþóknun.

                Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda.

                Hún krefst jafnframt máls­kostnaðar úr hendi hans að viðbættum virðis­auka­skatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Málsatvik

Orsök ágreiningsins, 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög 142/2010

                Þetta mál snýst um túlkun 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 2. mgr. 165. gr. var mælt fyrir um hver yrðu afdrif krafna sem ekki greiddust við gjald­þrotaskipti. Fram til 29. desember 2010 hljóðaði 2. mgr. 165. gr. laganna þannig:

Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjald­þrota­skiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst.

                Samkvæmt þessu rufu gjaldþrotaskipti fyrningu kröfu og þá hófst nýr fyrn­ing­ar­frestur sem gat verið 4, 10 eða 20 ár eftir eðli hverrar kröfu, sbr. lög nr. 14/1905, um fyrn­ing skulda og annarra kröfuréttinda og lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfu­rétt­inda.

                Með lögum nr. 142/2010 var 165. gr. breytt og við hana bætt þriðju máls­grein­inni. Ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 hljóða nú svo:

Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjald­þrota­skiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrn­ingu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrn­ingar­frestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.

Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfu­hafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viður­kenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra trygg­ing­ar­rétt­inda.

                Í þessari lagabreytingu felst að þegar bú einstaklings hefur verið tekið til gjald­þrota­skipta styttist fyrn­ing­ar­frestur allra krafna sem ekki fást greiddar við skiptin og verður tvö ár, burtséð frá því hversu langur hann var fyrir skiptin. Því til við­bótar kemur að kröfu­hafi getur ekki rofið fyrningu kröfu sinnar nema dómstóll sam­þykki það með dómi. Áður nægði kröfuhafa að höfða mál með birtingu stefnu, sbr. 1. gr. laga nr. 14/1905 og 15. gr. laga nr. 150/2007.

                Ofan á þetta bætist að dóm­ari má einungis viðurkenna slit fyrningar að kröfu­hafi sýni fram á sérstaka hags­muni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar svo og að telja megi líkur á því að hann fái fulln­ustu hennar á nýjum fyrningar­tíma. Viðurkenni dóm­stóll að tveggja ára fyrningin sé rofin, verður nýr fyrningartími sá sem hann var í upp­hafi, fyrir gjald­þrota­skiptin, 4, 10 eða 20 ár.

                Stefnda tók námslán árin 2010 og 2011. Bú hennar var tekið til gjald­þrota­skipta 14. febrúar 2013. Þá hafði hún ekki lokið námi sínu. Miðað við ráðgerð náms­lok hefði hún ekki átt að greiða af námsláninu fyrr en árið 2017 en við skiptalok, 31. maí 2013, hófst fyrning þeirrar fjárkröfu sem stefnandi eignaðist á hendur stefndu við að veita henni lánið og fékkst ekki greidd við gjaldþrotaskiptin.

                Álitaefnið er því hvort stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, uppfylli það skilyrði sem 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 setur fyrir því að rjúfa megi fyrn­ingu kröfu hans á hendur stefnda.

Stefnandi og þau lán sem hann veitir

                Allt fram til 1952 þurftu þeir sem vildu stunda framhaldsnám að finna sjálfir leiðir til að kosta það. Þeir gátu þó sótt um styrk skv. lögum nr. 35/1925 væru þeir við nám í erlendum háskólum. Í janúar 1952 voru sett lög nr. 5/1952, um lánasjóð stúd­enta, en með lögum nr. 52/1961 var Lánasjóður íslenskra námsmanna stofnaður. Endur­bætur voru gerðar á þeim lögum með lögum nr. 7/1967, um námslán og námsstyrki. Enn á ný voru lögin bætt með lögum nr. 57/1976 með sama nafni svo og lögum nr. 72/1982.

                Lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, tóku gildi 29. maí 1992. Það er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án til­lits til efnahags, sbr. 1. gr. Sjóðnum ber að veita hverjum þeim sem stundar lánshæft nám lán til að standa straum af námi og framfærslu á námstímanum að teknu tilliti til stærðar fjölskyldu námsmannsins.

                Frá og með 31. júlí 2009, við gildistöku laga nr. 78/2009, hefur sjóðurinn ekki krafið lán­taka um ábyrgðar­menn nema lántaki sé á vanskilaskrá þegar hann sækir um náms­lánið, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992.

                Ríkissjóður leggur stefnanda til 47% af útlánum hvers árs en að öðru leyti tekur stefnandi lán á frjálsum markaði til þess að geta veitt lán öllum þeim náms­mönnum sem um það sækja. Vextir sem sjóð­ur­inn þarf að greiða eru misháir eftir mark­aðs­aðstæðum og geta verið á bil­inu 4-6% en meðalvextir af öllu lánasafninu munu vera eitthvað lægri. Þau lán sem sjóðurinn veitir bera hins vegar ein­ungis 1% vexti, sbr. 8. gr. reglu­gerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra náms­manna. Lánin eru því niður­greidd enda er 47% framlag ríkissjóðs nýtt til að mæta hag­stæðum vaxta­kjörum og afföllum á ævitíma lánasafnsins.               Í lánunum felst því opinber aðstoð við að standa straum af framfærslu og kostnaði við námið á meðan á því stendur.

                Þótt vextir af námslánum séu niðurgreiddir eru lánin verð­tryggð og tengd vísi­tölu neyslu­verðs, sbr. 7. gr. laga nr. 21/1992. Afborganir sem sjóðurinn fær af lána­safn­inu nýtir hann til að endurgreiða þau lán sem hann hefur tekið.

                Námsmenn sem fá lán hjá sjóðnum undirrita skuldabréf við lántöku til við­ur­kenn­ingar á teknum lánum, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og 7. gr. reglu­gerðar nr. 478/2011. Fjárhæð náms­lána er færð á skuldabréf að námi loknu. Endur­greiðsla náms­lána hefst tveimur árum eftir námslok, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992.

                Afborgun af lánum frá sjóðnum er algerlega óháð fjárhæð lánsins. Afborgunin er hins vegar tengd tekjum lántaka þannig að þeir þurfa ein­ungis að endurgreiða jafn­virði 3,75% af tekjum sínum á hverju ári. Gjald­dagar eru tveir: 1. mars er greidd föst afborgun og 1. september er greidd sú fjárhæð sem eftir stendur til þess að endur­greiðsla ársins samsvari 3,75% af tekjum næstliðins árs. Greiðslum hvors gjalddaga um sig má ætíð dreifa á sex mánuði.

                Lendi greiðendur í vanskilum er sjóð­ur­inn á öllum stigum innheimtu, hvort heldur er við upphaf vanskila, þegar krafan er komin í milli­innheimtu eða lög­inn­heimtu, reiðu­búinn að semja við greiðanda um leiðir til að koma endurgreiðslum í skil. Stefn­andi býður lántökum sem hafa lent í van­skilum upp á vanskilaskuldabréf sem eru að jafn­aði til tíu ára. Reynist afborganir af vanskilum lán­taka mjög íþyngjandi er hægt að fá skulda­bréf sem endurgreiðist á lengri tíma.

                Þegar sérstaklega stendur á, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum greiðanda, er jafnframt hægt að fá undanþágur frá því að greiða af námsláni, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Sækja þarf um undanþágu fyrir báða föstu gjald­dag­ana. Sá sem sækir um og uppfyllir hlutlæg, skráð skilyrði á rétt á und­an­þágu.

                Það er markmið sjóðsins með margvíslegum úrræðum að gefa greiðendum sem rík­astan kost á því að koma lánum sínum í skil og vera í skilum við sjóðinn. Því skiptir ekki máli þótt lán hafi verið gjaldfelld vegna gjaldþrotaskipta. Sé fyrning rofin er skuld­ara gefinn kostur á að koma láni í skil og síðan hefjast eðlilegar endurgreiðslur að nýju.

                Hafi námsmaður tekið mjög hátt lán kann endurgreiðslutíminn að vera mjög langur. Hins vegar falla eftirstöðvar lánsins niður andist lántaki áður en hann hefur end­ur­greitt allan höfuðstól lánsins, sbr. 4. mgr. 9. gr.

                Samkvæmt svari stefnanda, 12. maí 2005, við fyrirspurnum nefndasviðs Alþingis voru þá tæplega 73.000 námslán ógreidd. Tæplega 53.700 voru svonefnd lokuð lán, þar sem námi var lokið og endurgreiðsla hafin. Tæplega 19.300 lán voru enn opin sem þýðir að námsmenn voru enn í námi og endurgreiðsla ekki hafin.

                Samkvæmt ársskýrslu stefnanda fyrir árið starfsárið 2015 óskuðu 47 lánþegar skipta á búi sínu árið 2012. Árið 2013 voru þeir 84, árið 2014 105 og 2015 óskuðu 134 lán­þegar skipta á búi sínu. Stefnandi áætlar að á tveimur árum hverfi milljarður úr kröfu­safni hans af þessu sökum verði fyrning krafnanna ekki rofin.

                Samkvæmt 5. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fyrnist krafa um end­ur­greiðslu námslána á 10 árum en vextir af þeim fyrnast þó á fjórum árum, sbr. 3. gr. laganna. Hver krafa um afborgun af láninu fyrnist því á tíu árum.

Stefnda og gjaldþrotaskiptin

                Stefnda, Guðrún Ósk, hóf árið 2010 nám í leik­skóla­kenn­ara­fræðum við Háskóla Íslands og sótti um lán hjá stefn­anda. Þegar hún tók lánið, 25. október 2010, rit­aði hún undir skulda­bréf nr. G-116426 og var skulda­bréfið þá opið fyrir útlánum náms­lána. Stefnda fékk náms­lán frá stefn­anda greidd í þrennu lagi, 6. janúar og 19. og 31. maí árið 2011. Útborguð fjárhæð láns nam sam­tals 1.654.200 kr.

                Ríflega einu og hálfu ári eftir þriðju útborgun námslánsins, fór stefnda þess á leit við Héraðsdóm Vestfjarða, að bú hennar yrði tekið til gjald­þrota­skipta. Í bréfum rit­uðum 28. janúar 2013 og 14. febrúar 2013, kom fram að hún hefði átt við fjár­hags­erfið­leika að etja síðastliðin tíu ár. Þegar slitnaði upp úr sambandi hennar við þáver­andi sambýlismann og barnsföður, hafi hún setið eftir með miklar fjár­skuld­bind­ingar sem hafi reynst henni um megn að standa skil á. Hún hafi ítrekað reynt að ná sam­komu­lagi við kröfuhafa sína um greiðslu á hluta af skuldum sínum en á það hafi ekki verið fallist. Hún hafi því ekki átt ann­arra kosta völ en að óska eftir gjald­þrota­skiptum á búi sínu, enda hafi henni verið með öllu ókleift að standa við skuld­bind­ingar sínar og ætti heldur engar eignir til að setja þeim til trygg­ingar.

                Fyrir dómi bar hún að henni hefði tekist að ná samkomulagi við alla kröfuhafa nema þá sem Intrum, síðar Motus, innheimti fyrir. Hún kvaðst hafa leitað til Umboðs­manns skuldara. Þar hafi verið farið yfir öll fjármál hennar og henni sagt að hún hefði ekki fjárhagslega burði til að koma til móts við þær kröfur sem Motus gerði. Því hafi hún óskað eftir gjaldþrotaskiptum en ekki sótt um greiðsluaðlögun.

                Stefnda tilgreindi í beiðni um gjaldþrotaskipti að hún skuldaði þremur kröfu­höfum alls 4.989.399 kr. Heildarskuld við Vodafone var 960.691 kr., heildarskuld við Spari­sjóð Hornafjarðar nam 2.236.579 kr. og skuld við LÍN nam 1.792.579 kr. Sú skuld var þó ógjaldfallin enda hafði stefnda einungis lokið rétt ríflega helmingi náms síns. Því hugðist hún ljúka árið 2015 og hefði ekki átt að hefja endurgreiðslu náms­láns­ins fyrr en árið 2017.

                Bú stefndu var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 14. febrúar 2013. Við skiptin lýstu kröfuhafar kröfum í þrotabúið samtals að fjárhæð 4.061.155 kr.

                Á þessum tíma, 14. febrúar 2013, hafði stefnda ekki lokið námi sínu. Hún var enn skráð í nám en hafði sótt um frestun á lokun skulda­bréfs­ins skv. heim­ild í grein 2.5.2 í úthlutunarreglum lánasjóðsins. Skulda­bréfið nr. G-116426, sem hún gaf út 25. nóvember 2010, var af þeim sökum enn opið fyrir frek­ari náms­lánum frá stefn­anda.

                Við upp­kvaðningu úrskurðar héraðs­dóm­ara um að bú sé tekið til gjald­þrota­skipta, falla allar kröfur á hendur þrota­búi sjálfkrafa í gjalddaga án tillits til þess sem áður kann að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991, um gjald­þrota­skipti o.fl. Af þessum sökum féll náms­lán stefndu í gjald­daga 14. febrúar 2013. Skuldabréfinu var því lokað og upp­reiknuð fjár­hæð náms­lána miðað við breytingar á vísitölu neyslu­verðs, 1.792.129 kr., færð inn á það.

                Tveir kröfuhafar lýstu kröfu í búið. Í kröfuskrá segir að Sparisjóður Horna­fjarðar hafi lýst kröfu vegna yfir­dráttar, 2.246.717 kr. Að sögn stefndu er þetta ekki rétt því hún hafi aldrei haft bankareikning hjá þeim sjóði. Skuldin stafi af því að hún hafi ábyrgst greiðslu húsaleigusamnings sem sambýlismaður hennar hafi gert en ekki staðið við. Stefnandi, LÍN, lýsti 1.797.680 kr. fjárkröfu í þrotabúið. Bú stefndu var eigna­laust og því lauk skiptum á því 31. maí 2013 án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur.

                Stefnda lauk þetta ár, 2013, á réttum tíma B. Ed. námi í leik­skóla­kenn­ara­fræðum við Háskóla Íslands. Hún hóf mastersnám í sömu fræðum árið 2014 en varð að gera hlé á því, m.a. sökum veikinda og fjárhagsörðugleika. Það nám hefur hún nú hafið að nýju.

                Stefnda er 35 ára, í sambúð og á tvö börn. Eldra barnið er á fimmtánda ári en yngra barnið eignaðist hún í mars 2014. Hún kvaðst hafa þjáðst bæði af [...] og hafi því tekið árslangt fæðingarorlof á hálfum launum. Þar eð hálf laun hefðu ekki nægt til framfærslu hefði hún tekið yfirdráttarlán á meðan hún var í fæðingar­orlof­inu. Af þeim yfirdrætti greiddi hún nú um 20.000 kr. mán­að­ar­lega.

                Stefnda er í fullu starfi í leikskólanum Glað­heimum í Bolungarvík. Hún á hvorki íbúð né bifreið. Tekjur hennar til útreiknings tekju­skatts og útsvars fyrir árið 2013 námu 3.702.942 kr. eða 308.578 kr. á mánuði. Árið 2014 nam tekju­skatts­stofn hennar 1.891.779 kr. eða 157.648 kr. á mánuði. Árið 2015 nam með­al­tal launa hennar mán­uð­ina apríl til og með nóvember, eftir að hún hóf fullt starf, 356.000 kr. Miðað við þessi laun næmi endurgreiðsla stefndu af námsláninu 13.350 kr. á mán­uði að jafnaði.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að stefnda hafi, með undirritun sinni á skulda­bréf vegna náms­láns nr. G-116426, skuldbundið sig til að endurgreiða náms­lánið í samræmi við skil­mála í skuldabréfinu sjálfu og fyrir­mæli laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra náms­manna.

                Námslán stefndu hafi fallið í gjalddaga við úrskurð héraðs­dóms 14. febrúar 2013 um töku bús hennar til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Sam­kvæmt 2. mgr. 165. gr. sömu laga hefjist nýr fyrningarfrestur á kröfum á hendur þrota­manni á þeim degi sem skiptunum er lokið, hvort sem kröfu er lýst við gjald­þrota­skiptin eða ekki, svo framarlega sem vanlýst krafa fyrnist ekki á skemmri tíma. Nýr fyrn­ing­ar­frestur kröfu stefnanda hafi því hafist 31. maí 2013, þann dag sem skiptum á þrota­búi stefndu lauk.

                Stefnandi byggir þá kröfu sína að slit fyrningar verði viðurkennd á því að hann hafi sér­staka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Sérstaða stefn­anda felist í því hlut­verki hans að veita námsmönnum námslán og allir námsmenn sem upp­fylla skil­yrði laga nr. 21/1992, sbr. reglugerð nr. 478/2011, fyrir því að fá námslán eigi rétt á náms­lánum í samræmi við markmið og tilgang stefnanda.

                Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sé það hlutverk sjóðsins að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án til­lits til efnahags. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segi að miða skuli við að lán, sem falla undir ákvæði laganna, nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og fram­færslu­kostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti fjölskyldustærðar hans, sbr. einnig 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 7. gr. segi að lánstími sé ótilgreindur en greitt skal af náms­láni skv. 8. gr. þar til skuldin er að fullu greidd. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skuli end­ur­greiðsla námslána hefjast tveimur árum eftir námslok. Þá segi í 5. mgr. 7. gr. lag­anna að vextir skuli vera breytilegir, en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuð­stól skuld­ar­innar, og reiknist frá námslokum. Samkvæmt 8. gr. reglu­gerðar nr. 478/2011, beri námslán auk verðtryggingar 1% ársvexti sem leggjast á verð­tryggðan höfuð­stól.

                Samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 ákvarðast árleg endurgreiðsla lánanna í tvennu lagi. Annars vegar föst greiðsla óháð tekjum og hins vegar við­bótar­greiðsla sem miðast við ákveðinn hundraðshluta tekjuársins á undan endur­greiðslu­ári, sbr. 10. gr. laganna.

                Í íslenskri löggjöf séu þess víða merki að kröfur stefnanda séu taldar sérstaks eðlis og að baki því liggi sérstakir og ríkir almannahagsmunir. Stefnandi vísar til þess að lán hans eru undanþegin lögum um neytendalán, sbr. j-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 33/2013, um neytendalán, sbr. áður c-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994. Stefn­andi vísar einnig til þess að lán hans eru undanþegin lögum um greiðslu­aðlögun, sbr. g- og h-lið 3. gr. laga nr. 101/2010. Að baki þessum sérstöku íviln­unum í garð stefn­anda séu þau rök að kröfusafn hans byggist á ríkum almannahagsmunum, því endur­greiðsla náms­lána standi að verulegu leyti undir fjármögnun nýrra lán­veit­inga. Markmið lán­anna sé að jafna aðstöðu til náms. Þau séu veitt á niður­greiddum kjörum og ekki á við­skipta­legum forsendum. Þá séu endur­greiðslu­kjör þeirra óvenjuhag­stæð þar eð þau taka að mestu mið af tekjum lán­þeg­ans. Enn fremur sé stefnanda heim­ilt að veita und­an­þágur frá árlegum endur­greiðslum vegna sérstakra aðstæðna hjá lán­þega sem taldar eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 12. og 13. gr. reglu­gerðar nr. 478/2011.

                Kröfur stefnanda séu einkaréttarlegs eðlis og byggjast á skilyrðislausu loforði skuld­arans um að endurgreiða lánið á tiltekinn hátt, þ.e. samkvæmt skilmálum skulda­bréfs og fyrirmælum laga, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og 7. gr. reglu­gerðar nr. 478/2011, sbr. áður 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi verulega hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið vegna eðlis námslána sem samfélagslegs úrræðis, vegna mikil­vægis end­ur­greiðslu lánanna fyrir fjármögnun nýrra útlána og jafnræðis sem aðrir lán­þegar, og eftir atvikum sjálfskuldarábyrgðaraðilar, verði að njóta. Á stefn­anda hvíli sú skylda sam­kvæmt 11. gr. laga nr. 37/1993 að koma eins fram við alla lánþega sína og gæta fyllsta jafn­ræðis meðal þeirra. Verði látið við­gang­ast að kröfur lítils hóps lánþega náms­lána fyrn­ist á 2 árum, meðan gætt sé að því að inn­heimta kröfur gegn öðrum skuld­urum á miklu lengri tíma, sé þeim síðar­nefndu mis­munað á ólögmætan hátt.

                Stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Líta verði til þess að lán stefnanda eru veitt á afar hagstæðum kjörum, niðurgreidd af almannafé, og greiðslu­byrði þeirra miðast að mestu við tekjur hvers greiðanda. Námslán séu end­ur­greidd á löngum tíma, jafnvel mörgum áratugum, allt eftir greiðslugetu hvers lán­þega. Líta verði til þessa þegar metnar eru líkur á því að námslánaskuldin verði endur­greidd.

                Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sé lögbundin heimild fyrir stefnanda að veita lán­þega námsláns undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða að öllu leyti, verði skyndi­legar og verulegar breytingar á högum skuldara, svo sem vegna veikinda eða slysa, sem skerðir ráðstöfunarfé hans eða möguleika á því að afla tekna. Stefnanda sé jafn­framt heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef nám, atvinnu­leysi, veik­indi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda veru­legum fjár­hags­erfiðleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

                Á því er byggt að samkvæmt verklagsreglum stefnanda sé öllum greiðendum heim­ilt að koma námslánum sínum í skil, einnig þótt krafan hafi verið gjald­felld.

                Eftirleiðis greiðist afborganir af námsláninu samkvæmt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 21/1992, og samkvæmt skilmálum skuldabréfs stefnda vegna námslána. Greiðslu­byrði náms­lána stefndu verði aldrei hærri en 3,75% af tekjustofni hennar, en annars rétt rúmar tíu þúsund kr. á mánuði á ársvísu, sé tekið mið af fastri árlegri afborgun af náms­lán­inu.

                Stefnandi byggir á því að ætla verði að stefnda geti greitt skuld sína eftir slit fyrn­ingar vegna aukins aflahæfis á grundvelli þeirrar menntunar sem hún hafi aflað sér. Í skaðabótarétti sé viðurkennt að við útreikning á töpuðum framtíðartekjum verði afla­hæfi metið út frá því hvort tjónþoli hafi lokið námi sem hann hefur lagt stund á. Tjón á aflahæfi sé þá metið á grundvelli starfsréttinda hafi námi verið lokið á slys­degi. Á því er byggt að sömu sjónarmið verði lögð til grundvallar hér og aflahæfi og greiðslu­geta stefndu verði metin á grundvelli mögulegra tekna á því fagsviði sem hún hefur menntað sig til.

                Verði stefnda fyrir alvarlegum áföllum geti hún óskað eftir því við stjórn stefn­anda að henni verði veitt undanþága frá afborgun árlegrar endurgreiðslu á náms­láni sínu, að hluta eða að öllu leyti, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sem fyrr greinir.

                Allt framangreint sýni að líkur megi telja til að fullnusta fáist á kröfu stefn­anda á nýjum fyrningartíma. Skrá yfir kröfur í þrotabú stefndu styðji málsástæðu stefnanda um framtíðargreiðsluhæfi stefndu.

                Af lögskýringargögnum verði ráðið að dómstólum sé eftirlátið að meta hvenær sérstakir hagsmunir kröfuhafa séu fyrir hendi svo viðurkenna megi slit fyrn­ingar. Í lög­skýr­ingar­gögnum er nefnt í dæmaskyni að geti niðurfelling talist óhæfi­leg gagn­vart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu teljist hagsmunir kröfuhafa sér­stakir. Stefn­andi telur hvort tveggja eiga við í tilviki stefnda, samfélagið verði fyrir tjóni ef náms­lán, sem er hugsað til langs tíma og veitt á samfélagslegum for­sendum, fyrnist hjá afmörk­uðum hópi skuldara á tveimur árum, meðan aðrir greiðendur náms­lána eru bundnir greiðsluskyldu áratugum saman.

                Stefnda búi að sérmenntun sinni sem leik­skóla­kenn­ari alla ævi. Engin sann­girn­is­rök mæli með því að skuld hennar verði markaður skemmri fyrningartími en ann­arra sem tekið hafa félagsleg lán á niðurgreiddum kjörum hjá stefnanda.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Hann vísar til laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra náms­manna, laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála, laga nr. 38/2001, um vexti og verð­trygg­ingu, laga nr. 21/1991, um gjald­þrotaskipti o.fl., laga nr. 33/2013, um neyt­enda­lán, laga nr. 121/1994, um neyt­enda­lán (brottfallin), og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hann vísar jafnframt til reglu­gerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra náms­manna, með síðari breytingum, og reglu­gerðar nr. 602/1997 (brottfallin). Um varnarþing vísast til ákvæða í skulda­bréfinu sjálfu og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um máls­kostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðis­auka­skatt styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðis­aukaskattsskyldur og honum því nauð­syn­legt að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefndu

                Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Hún vísar til þess að ekki sé full­nægt þeim tveimur skilyrðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, sem þurfi að vera fyrir hendi þannig að hægt sé að fallast á þá kröfu stefn­anda að viðurkenna slit fyrningar þeirrar kröfu sem stefnandi lýsti í þrotabú stefndu árið 2013.

                Við gjaldþrotaskipti stofnist ný lögpersóna, þrotabú, sem taki við fjár­hags­legum réttindum og skyldum þrotamanns. Með vísan til 2. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 hafi þrotabú stefndu tekið við öllum þeim fjárhagslegu skyldum sem hvíldu á henni 14. febrúar 2013, við uppkvaðningu úrskurðarins um gjaldþrotaskipti. Stefn­andi hafi lýst kröfu sinni í þrotabúið. Skiptum á búinu hafi lokið án þess að greiðsla feng­ist upp í lýstar kröfur því engar eignir fundust í búinu. Krafa stefn­anda hafi verið almenn krafa í þrotabú stefndu og ekki notið neinnar sérstöðu við skiptin.

                Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, beri þrota­maður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Í laga­grein­inni segi jafnframt að hafi kröfuhafi lýst kröfu sinni á hendur þrota­manni við gjald­þrotaskiptin og krafan ekki fengist greidd við skiptin sé fyrningu kröf­unnar slitið gagn­vart þrotamanni. Frá og með skiptalokum hefjist nýr tveggja ára fyrningarfrestur. Hafi kröfunni hins vegar ekki verið lýst við skiptin gildi engu að síður sami fyrning­ar­frestur um slíka kröfu, að því gefnu að hún fyrnist ekki á skemmri tíma. Sam­kvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar verði fyrningu lýstra krafna í þrota­búið því aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrota­manni og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum kröfunnar gagn­vart honum. Við­ur­kenningu á fyrn­ingar­slitum skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni ann­ars vegar fram á það að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrn­ingu og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningar­tíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrn­ingu kröfunnar.

                Samkvæmt þessu lagaákvæði séu tvö skilyrði fyrir því að hægt sé að fá dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum, annars vegar að kröfuhafi sýni fram á það að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu og hins vegar að kröfuhafi sýni fram á það að líkur séu á því að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningar­tíma. Kröfu­hafi þurfi að sýna fram á það að bæði skilyrðin séu uppfyllt til að fall­ast megi á viður­kenningu á fyrningarslitum. Ekki verði séð að stefnandi hafi með máls­höfðun sinni sýnt fram á að fyrrgreind skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 séu upp­fyllt fyrir þá kröfu sem hann sæki í þessu máli.

                Sú heimild sem kröfuhafa sé veitt í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 til að höfða mál á hendur þrotamanni til viðurkenningar á fyrningarslitum sé undan­tekn­ingar­ákvæði, þ.e. undantekning frá þeirri meginreglu laganna að kröfur sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnist á tveimur árum frá skiptalokum. Undantekn­ing­ar­ákvæði sem þessi beri samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að skýra þröngt. Sá skilningur sé meðal annars staðfestur í athugasemdum með því laga­frum­varpi sem síðar varð að lögum nr. 142/2010. Með lögum nr. 142/2010 hafi verið sett almenn regla um fyrn­ing­ar­frest þeirra krafna sem lýst er í þrotabú og ekki fást greiddar við skiptin. Fyrn­ing­ar­frestur þessara krafna sé sá sami án tillits til eðlis þeirra. Lögin geri almennt ekki ráð fyrir því að unnt sé að slíta fyrn­ing­unni, hvort sem kröf­unni hafi verið lýst eða ekki, innan þessa tveggja ára frests nema í undan­tekn­ing­ar­til­vikum.

                Í athugasemdum með fyrrgreindu lagafrumvarpi segi að með sérstökum hags­munum kröfuhafa væri horft til þess af hvaða rót kröfurnar væru runnar. Í því sam­bandi væru höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem hefði orðið til með saknæmri eða ámælisverðri hegðun þrotamanns en þar sem þetta væri undan­tekn­ing­ar­ákvæði yrði að túlka þessa heimild þröngt. Í með­förum Alþingis kom þetta skil­yrði, um sérstaka hagsmuni kröfuhafa af því að fá fyrn­ingu slitið, til sérstakrar skoð­unar. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar Alþingis vegna frumvarpsins segi að nefnd­inni hafi borist fjölmargar ábendingar þess efnis að ekki væri nægilega skýrt í athuga­semdum með frumvarpinu við hvað væri átt með sérstökum hagsmunum. Bent hafi verið á að nota mætti til viðmiðunar að hvorki hafi verið stofnað til skuld­ar­innar á óheið­ar­legan hátt né að nið­ur­fell­ingin gæti talist óhófleg þegar litið er til annarra skuld­ara eða hagsmuna almenn­ings almennt. Viðmiðin gætu þannig átt við um kröfur sem óhæfilegt væri gagn­vart öðrum skuldurum eða samfélaginu að veita skamman fyrn­ing­ar­frest. Í því sambandi hafi verið nefndar í dæmaskyni kröfur sem hefðu orðið til vegna óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna eða kaupauka og ann­arra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það hafi verið ámælisvert að taka lánið miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hafði. Meiri­hluti alls­herjar­nefndar Alþingis hafi talið að dóm­stólar ættu að líta til þessara sjónarmiða þegar lagt yrði mat á það hvort undanþágan ætti við eða ekki.

                Í fyrrgreindu nefndaráliti segi einnig að nefndin hafi skoðað það sér­stak­lega hvort leggja ætti til að tveggja ára fyrningarfresturinn næði ekki til ákveðinna krafna eins og meðal annars væri gert í lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun, þannig að ekki þyrfti að leita til dómstóla til að rjúfa fyrningu þeirra með tilheyrandi kostn­aði. Nefndin skoðaði í því sambandi sérstaklega þær kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til. Það var niðurstaða nefndarinnar að ekki væri ástæða til að undan­þiggja ákveðnar kröfur þeim almenna fyrningarfresti sem fram kæmi í frumvarpinu. Nefndin taldi hins vegar að dómstólum bæri, við mat á því hvort viðurkenna bæri fyrn­ingarslit, meðal annars að líta til rétthæðar krafna við gjaldþrotaskipti.

                Kröfur stefnanda vegna námslána séu undanþegnar lögum nr. 101/2010, um greiðslu­aðlögun, sbr. g-lið 3. gr. laganna, að öðru leyti en því að ákveða má við greiðslu­aðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma. Ljóst sé af lögskýringargögnum með lögum nr. 142/2010 að löggjafinn taldi ekki ástæðu til að undanskilja lán stefnanda þeim tveggja ára fyrningarfresti sem kveðið er á um í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Þvert á móti verði ekki annað ráðið af laga­ákvæð­inu sjálfu og lögskýringargögnum en að lán stefnanda falli ekki undir þá sér­stöku hagsmuni sem þurfi að vera fyrir hendi til að fallast megi á viðurkenningu á fyrn­ingar­slitum samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Eitthvað annað og meira þurfi til að koma í því sambandi en lögbundið hlutverk stefnanda eða fjár­mögnun, vaxta­kjör eða endurgreiðsluákvæði lána stefnanda.

                Stefnda bendir einnig á að það sé skilyrði samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, fyrir viðurkenningu á fyrningarslitum, að kröfuhafi, stefn­andi í þessu tilviki, sýni fram á að líkur séu til þess að krafa hans fáist greidd á nýjum fyrningartíma. Á stefnanda hvíli sönnunarbyrðin fyrir þessum líkum og með því sé ekki átt við að hann fái einhvern hluta kröf­unnar greiddan heldur sé átt við alla kröf­una eða meirihluta hennar. Stefnda, sem hafi tvö börn á fram­færi sínu, hafi lágar tekjur og ekkert bendi til þess að hún geti greitt kröfuna á nýjum fyrningartíma. Stefnda hafi ekki náð að ljúka námi sínu í leik­skóla­kennara­fræðum og hafi auk þess strítt við veikindi á umliðnum árum. Stefn­andi hafi ekkert lagt fram til stuðnings því að þessu skilyrði sé full­nægt nema órök­studdar fullyrðingar í þá veru að stefnda muni geta greitt skuldina þegar hún hafi lokið námi sínu.

                Ekki verði séð að röksemdir stefnanda varðandi hlut­verk hans, vaxtakjör og end­ur­greiðslutíma lána skapi honum einhverja þá sér­stöðu sem valdi því að hann hafi sér­staka hagsmuni umfram aðrar lána­stofn­anir eða kröfuhafa sem leiði til þess að und­an­tekn­ing­ar­ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 varðandi fyrningarslit eigi við um kröfur stefnanda.

                Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið telur stefnda að hafna beri öllum kröfum stefnanda í málinu og sýkna hana af þeim.

                Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda, að við­bættum virðis­auka­skatti, eins og þetta mál væri eigi gjaf­sóknarmál. Stefnda krefst þess jafnframt að henni verði dæmdur gjaf­sókn­ar­kostnaður, samkvæmt 127. gr. laga nr. 91/1991, úr hendi ríkis­sjóðs, að við­bættum virðisaukaskatti.

                Stefnda byggir kröfu sínar fyrst og fremst á ákvæðum laga nr. 21/1991, um gjald­þrotaskipti, einkum 72.-74., 155. og 165. gr. laganna, sbr. lög nr. 142/2010. Jafn­framt vísar hún til laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, svo og til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa hennar um málskostnað byggist á ákvæðum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um gjafsóknarkostnað styðst við ákvæði 127. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun lög­manns stefndu byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þar eða stefnda er ekki virð­is­auka­skatts­skyld sé henni nauðsynlegt að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefn­anda.

Niðurstaða

                Í þessu máli þarf stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, að sýna fram á að hann uppfylli það skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1992, um gjald­þrota­skipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, að hafa sér­staka hagsmuni af því að rofin sé fyrning þeirrar kröfu sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á búi stefndu en fékkst ekki greidd.

                Til stuðnings því að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröf­unnar vísar stefnandi annars vegar til hlutverks síns og eðlis þeirra lána sem hann veitir og hins vegar til þess að stefnda hafi ekki leitað annarra úrræða til að leysa úr fjár­hagsvanda sínum, svo sem greiðsluaðlögunar, áður en hún óskaði gjaldþrotaskipta á búi sínu.

                Skiptum á búi stefndu lauk 31. maí 2013. Stefna málsins var birt 27. maí 2015 og því var málið höfðað áður en tvö ár voru liðin frá skiptalokum og þar með innan nýja tveggja ára fyrningarfrestsins.

                Stefnandi byggir, eins og áður segir, á því að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu á þeim grundvelli að hún hafi strax óskað gjald­þrotaskipta á búi sínu í stað þess að leita fyrst annarra úrræða. Stefnda hafi ekki sótt formlega um greiðsluaðlögun og því ekki látið reyna á það úrræði. Hefði hún gert það og náð samningi við kröfuhafa sína hefði námslánið staðið utan við samning­inn, sbr. g-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Stefn­andi hefði því fengið það endurgreitt með tíð og tíma, þegar stefnda hefði lokið námi sínu. Þetta úrræði hafi henni borið að sækja um áður en hún óskaði gjaldþrotaskipta.

                Stefnda hafði fengið greitt út námslán, í maí 2011, einu og hálfu ári áður en hún óskaði gjaldþrotaskipta og skuldabréfið var enn opið fyrir frekari lánveitingu. Stefndu bar ekki að hefja afborg­anir af láninu fyrr en árið 2017 miðað við þá áætlun hennar að ljúka meist­ara­námi í leik­skólafræðum árið 2015. Að mati stefnanda er náms­lánið sem hann veitti stefndu því ekki orsök fjár­hagsvanda hennar.

                Stefnda rekur fjárhagsvanda sinn til þess þegar sambúð hennar og föður eldra barns hennar lauk áratug áður en hún bað um gjaldþrotaskiptin. Hún kvaðst þá hafa setið uppi með ýmsar skuldir. Þar á meðal hafi hún ábyrgst skuldabréf sem hann hefði gefið út vegna ógreiddrar húsaleigu. Þrátt fyrir nokkurn árangur af því að semja við kröfu­hafa hafi hún mætt óyfir­stíganlegri fyrirstöðu við að ná samningum um greiðslu þess­arar skuldar, einkum vegna þvergirðings hjá þeim sem innheimti fyrir kröfu­haf­ann.

                Stefnandi hafði því glímt við fjárhagsvanda í a.m.k. átta ár þegar hún fékk náms­lánið hjá stefnanda. Því má fallast á það með stefnanda að það hafi ekki verið náms­lánið sem íþyngdi henni enda var ekki komið að gjalddaga þess og hefði fyrsta greiðsla af því ekki fallið í gjald­daga, miðað við ráðgerð námslok stefndu, fyrr en 2017, ríf­lega fjórum árum eftir að hún óskaði gjald­þrota­skipta.

                Stefnandi lagði áherslu á það við aðalmeðferð að víða í lögskýringargögnum kæmi fram að gjaldþrotaskipti ættu að vera algert neyðarúrræði þegar allt annað hefði verið reynt en ekki dugað til. Stefnda hefði ekki verið í slíkri neyð sem vísað sé til í lög­skýr­ing­ar­gögnum þegar hún óskaði skipta á búi sínu.

                Engu að síður verður því ekki haggað að héraðsdómur tók bú stefndu til gjald­þrota­skipta 14. febrúar 2013. Því verður að ganga út frá því að stefnda hafi þá upp­fyllt öll skilyrði laganna fyrir því að það yrði gert. Þar eð því hefur ekki verið hnekkt að hún hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þegar hún ósk­aði gjald­þrotaskipta á búi sínu verður ekki fall­ist á að nokkuð það við gjald­þrota­skipti hennar sé þess eðlis að stefnandi verði tal­inn af þeim sökum hafa sér­staka hagsmuni af því að rjúfa fyrn­ingu kröfu sinnar. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að skuldir stefndu, aðrar en námslánið, stafi af öðru en því að halda heimili og fram­fleyta fjöl­skyldu.

                Til grundvallar kröfu sinni um rof fyrningar vísar stefnandi þó sérstaklega til hlut­verks síns, eðlis lána sinna og endurgreiðslukjara. Eins og farið var yfir í lýsingu mála­vaxta er stefn­anda skylt að veita lán hverjum þeim sem stundar lánshæft nám. Slík lán eru veitt á mun hagstæðari kjörum en nokkur önnur lán. Þau eru niðurgreidd af ríkissjóði því þau bera einungis 1% vexti þótt þau lán, sem sjóðurinn tekur til þess að geta veitt náms­lánin, beri allt að 4-6% vexti.

                Endurgreiðsla námslána hefst ekki fyrr en að liðnum tveimur árum frá náms­lokum. Afborg­anir taka ein­vörð­ungu mið af tekjum lántaka, 3,75% af tekjum næst­lið­ins árs, en ekki því hversu hátt lán hann tók.

                Standi sérstaklega illa á hjá lánþega, og hann uppfyllir skráð, hlutlæg skilyrði, er stjórn sjóðs­ins skylt að veita honum undanþágu frá greiðslu afborgana og fresta afborg­unum hans. Falli lánþegi frá er námslánið afskrifað burtséð frá því hversu hár höf­uð­stóll er þá enn ógreiddur. Lánið er samkvæmt öllu þessu ekki veitt á við­skipta­legum forsendum eða í gróðaskyni heldur er það félagslegt úrræði í almannaþágu.

                Um 53% af fjármögnun stefnanda byggjast á endurgreiðslu námslána og er honum því mikilvægt að innheimta þau með sem minnstum afföllum. Sjóðurinn þarf að greiða jafnt og þétt af þeim lánum sem hann tekur. Vegna marg­vís­legra heimilda lán­taka til þess að fresta greiðslum, svo og þar eð endurgreiðsla ræðst af tekjum greið­enda, berast stefnanda endurgreiðslur náms­lána ekki jafnt og þétt heldur sveiflukennt.

                Stefnandi hefur ekki nein úrræði til þess að mæta afföllum af endurgreiðslum því hann getur ekki og má ekki reikna mögulegt tap útlána inn í vaxtakjör sín eins og sá sem veitir lán á frjálsum markaði.        Það sem ekki fæst greitt verður greitt af öllum almenn­ingi, einnig öðrum sem hafa tekið námslán en ekki óskað gjaldþrotaskipta á búi sínu.

                Stefnandi þarf jafnframt að gæta jafnræðis við innheimtu lána enda er hann bund­inn bæði af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Honum er því skylt að láta reyna á innheimtu gagnvart öllum lánþegum.

                Til þess má einnig líta að í lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun ein­stakl­inga, er lánum stefnanda veitt sú sérstaða að þau falla ekki niður eins og lán frá öðrum lán­veitendum, hvorki í heild né hluta, við gerð samn­ings um greiðslu­aðlögun. Þvert á móti standa þau utan við slíkan samning eins og skattar og með­lag. Hlé er gert á end­ur­greiðslu náms­lána þann ára­fjölda sem lánþeginn greiðir sam­kvæmt greiðslu­aðlög­un­ar­samn­ingnum og á þeim tíma falla hvorki á þau vextir né vanskilagjöld. Að liðnum greiðslu­aðlög­unar­tíma hefst end­ur­greiðsla náms­lána á ný.

                Stefnandi byggir mál sitt, eins og áður segir, á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðis 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og hafi sérstaka hags­muni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar. Við aðalmeðferð vísaði hann til ákvæða stjórnar­skrár­innar, sérstaklega 2. gr. um þrí­skipt­ingu ríkisvaldsins, 27. gr. um birt­ingu laga og 65. gr. um jafnræði en einkum og sér í lagi til 72. gr., um friðhelgi eignar­réttar.

                Stefnandi vísaði til þess að dómstóll geti ekki túlkað óljósa lagareglu þannig að hann setji lögbundin viðmið. Með því væri hann kominn inn á verksvið löggjafans, Alþingis, og bryti gegn reglunni um þrískiptingu ríkisvaldsins. Með því væri einnig brotið gegn þeirri reglu að almenningur eigi að geta lesið skýrar réttarreglur út úr texta lag­anna í stað þess að þær væru búnar til eftir hendinni í hverju máli sérstaklega. Enn fremur væri með því brotið gegn meginreglunni um jafnræði því erfitt sé að tryggja jafna stöðu allra fyrir lögunum þegar regla sé mótuð í einstökum dómsmálum.

                Hann áréttaði einnig að með því að taka af kröfuhafa þann rétt hans að halda kröfu sinni lifandi væri eignarréttur hans skertur. Ekki hvað síst væri alvarlegt að þessi eigna­skerðing hafi afturvirk áhrif því hún taki til krafna sem stofnuðust löngu áður en lög nr. 142/2010 voru sett.

                Þótt stefnandi sjái ýmsa annmarka á ákvæðinu byggði hann ekki á því að víkja bæri því til hliðar fyrir þá sök að það væri and­stætt stjórnarskrá, heldur lagði hann einkum áherslu á að nýta bæri efnisinntak 72. gr. stjórnarskrárinnar sem lög­skýr­ing­ar­gagn þegar hug­takið „sér­stakir hagsmunir“ í 3. mgr. 165. gr. væri túlkað eða skýrt.

                Það er afdráttarlaust markmið laga nr. 142/2010, sem breyttu 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að losa gjaldþrota fólk undan sér­hverri fjár­hagslegri skuld­bindingu sinni, með þeirri margnefndu undantekningu þó, að geti kröfu­hafi sýnt fram á sérstaka hagsmuni skal dómstóll veita honum heimild til að halda á lífi kröfu sinni á hendur gjaldþrota manni.

                Vissulega má fallast á það með stefnanda að lán hans njóti mikillar sérstöðu meðal lána og að þau hafi mikla samfélagslega þýðingu. Það er einnig vafalaust að hann verði fyrir miklu fjárhagslegu áfalli þegar hann fær ekki endurgreidd náms­lán þeirra greiðenda sem óska gjaldþrotaskipta á búi sínu og að hann sé að ýmsu leyti verr í stakk búinn en aðrir lánveitendur til að bregðast við því áfalli, svo og að það áfall verði ekki lagt á herðar annarra en almennings.

                Eignaskerðingin sem ákvæðið veldur er almenn því hún tekur til allra kröfu­hafa. Hún mun þó vafalaust koma mis­jafn­lega niður á lánveitendum. Þegar litið er til allra þeirra fjölmörgu en ólíku kröfuhafa sem hafa misst og munu missa spón úr aski sínum vegna gjald­þrotaskipta einstaklinga þykir þó ljóst að skerðingin muni bitna hlut­falls­lega miklu harðar á kröfuhöfum sem lána fáum eða eiga af öðrum sökum kröfu á hendur fáum en jafnvel hærri fjárhæðir hjá hverjum en stefn­andi gerir. Hlut­falls­lega verst og ósanngjarnast mun hún þó væntanlega bitna á þeim einstaklingum, og hugsanlega lög­aðilum, sem eiga einstaklings­bundn­ari og sérstæðari kröfu á hendur gjald­þrota manni en þeir sem lána stórum hópi.

                Í þessum heildarsamanburði, þegar jafnframt er horft til þess markmiðs lög­gjaf­ans að losa fólk undan skuldum sínum, verður ekki talið, þrátt fyrir sérstöðu stefn­anda sem lánastofnunar og þrátt fyrir sérstakt eðli þeirra lána sem hann veitir, að þessi skerð­ing bitni svo einstaklega hart á honum umfram aðra sem lána jafnfjölmennum hópi að hann verði talinn hafa sérstakra hags­muna að gæta í skilningi 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum sökum verður að hafna kröfu stefnanda.

                Þar eð því hefur verið hafnað að stefnandi hafi sýnt fram á sérstaka hagsmuni sína af því að rjúfa fyrningu þeirrar kröfu sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á búi stefndu þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort stefnda gæti greitt árlega 3,75% af tekjum sínum til að endurgreiða lánið.

                Vegna þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðinn 800.000 kr.

                Stefndu var, með bréfi innanríkisráðuneytisins 1. september 2015, veitt gjaf­sókn til þess að grípa til varna í þessu máli. Af þeim sökum verður stefnandi dæmdur til þess að greiða ofangreinda fjárhæð í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin mál­flutningsþóknun lögmanns hennar, Björns Jóhannessonar hrl., greiðist úr ríkis­sjóði.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefnda, Guðrún Ósk Ásmundsdóttir, er sýkn af kröfu stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

                Stefnandi greiði 800.000 kr. í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.

                Málskostnaður stefndu og málflutningsþóknun lögmanns hennar, Björns Jóhann­es­sonar hrl., 800.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.