Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2011


Lykilorð

  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun
  • Málskostnaður


                                     

Þriðjudaginn 20. desember 2011.

Nr. 383/2011.

Fasteignasölusérleyfi ehf. og

Þórunn Gísladóttir

(Sigurður A. Þóroddsson hrl.)

gegn

Dróma hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Málskostnaður.

Hæstiréttur ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar vegna þess annmarka á hinum áfrýjaða dómi að ekkert var fjallað um kröfu Þ um málskostnað úr hendi D hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. júní 2011. Áfrýjandinn Fasteignasölusérleyfi ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að upphafstími dráttarvaxta verði ákveðinn 16. september 2010 og að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður. Áfrýjandinn Þórunn Gísladóttir krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar áfrýjandann Fasteignasölusérleyfi ehf. að öðru leyti en því að dráttarvextir reiknist frá 16. september 2010. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi áfrýjenda.

Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu áfrýjandans Þórunnar um sýknu af kröfu stefnda. Aftur á móti er í héraðsdómi ekkert fjallað um kröfu þessa áfrýjanda um málskostnað úr hendi stefnda. Er þetta slíkur annmarki á dóminum að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar frá 9. nóvember 1995, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 2580.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

          Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2011.

Mál þetta, sem höfðað var 7. september 2010, var dómtekið 24. febrúar sl.

Stefnandi er Drómi hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík.

Stefndu eru Fasteignasölusérleyfi ehf., kt. 551203-2550, Skútuvogi 11a, Reykjavík og Þórunn Gísladóttir, kt. 280272-3109, Rafstöðvarvegi 25, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd til greiðslu skuldar in solidum að fjárhæð 3.750.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 9.7.2010 til greiðsludags, auk málskostnaðar með virðisaukaskatti. Krafist er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.

Stefndu gera aðallega þær dómkröfur að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Til vara er gerð sú dómkrafa, verði stefndu að einhverju leyti látin greiða stefnukröfur málsins, að þá verði upphafsdagur dráttarvaxta talinn hefjast við þingfestingardag málsins, þ.e. þann 16.9.2010 og að málskostnaður verði felldur niður.

I

Stefnandi lýsir víxli þeim sem skuldin byggist á þannig: Skuld sú sem um ræðir er samkvæmt víxli að fjárhæð 3.750.000 kr. útgefnum í Reykjavík hinn 25.6.2010 af stefndu, Þórunni Gísladóttur, og samþykktum af stefnda, Fasteignasölusérleyfi ehf., til greiðslu hinn 9.7.2010 í Arion banka hf., Reykjavík. Afsögn er óþörf. Krafist er dráttarvaxta frá gjalddaga víxilsins hinn 9.7.2010.

Í málavaxtalýsingu stefndu kemur fram að þann 27. september 2006 hafi stefndi, Fasteignasölusérleyfi ehf., tekið 15.000.000 kr. lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Lánið hafi verið gengistryggt og hafi hluthafar í lántaka gengist í pro rata sjálfskuldarábyrgð fyrir skaðlausri greiðslu lántaka á skuldinni. Lánið hafi verið með 36 mánaðarlegum gjalddögum, þar af 12 vaxtagjalddögum. Lokagjalddagi lánsins hafi verið 1.10.2010 en heimilt hafi verið að framlengja lánið a.m.k. einu sinni til tveggja ára ef samkomulag næðist um kjör þess. Lánið hafi verið veitt til endurfjármögnunar á yfirdrætti félagsins ásamt viðbótarfjármögnun. Lánið hafi verið framlengt tvisvar sinnum.

Til frekari tryggingar skuldinni hafi verið gefnir út fjórir víxlar, hver að fjárhæð 3.750.000 kr., samþykktir til greiðslu af stefnda Fasteignasölusérleyfi ehf., en útgefnir af hluthöfum í félaginu.

Sérstakt samkomulag hafi verið undirritað um notkun og útfyllingu víxlanna, sem allir áttu að greiðast í Sparisjóði Reykjavíkur.

Víxlarnir hafi verið útfylltir hvað varðar úrgáfudag og gjalddaga, þ.e. þann 25.6.2010 og 9.7.2010, og greiðslustað þeirra breytt úr Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis Reykjavík í Arion banka hf.

Breyting þessi hafi ekki verið gerð af útgefanda eða samþykkjanda víxilsins, en á þeim víxli sem um ræði í máli þessu hafi enginn sett upphafsstafi sína við breytinguna.

Samhliða máli þessu séu höfðuð 3 önnur, að öllu leyti samsvarandi, víxilmál á hendur hinum hluthöfunum í stefnda Fasteignasölusérleyfi ehf.

Fyrir liggur að með ákvörðun þann 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON frá og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi stofnað sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingaréttindum. Við gildistöku laga nr. 44/2009 varð skilanefndin að bráðabirgðastjórn SPRON og tók bráðabirgðastjórnin við heimildum stjórnar. Á grundvelli framangreindrar ákvörðunar stofnaði bráðabirgðastjórn SPRON hlutafélag, Dróma hf., stefnanda í máli þessu, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og að 99,75% hluta en Mýrarhlíðar ehf. að 0,25% hluta, sem tekur við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON, sbr. yfirlýsingu dags. 26. maí 2009 um aðilaskipti að kröfuréttindum í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Dróma hf.

Þann 23. júní 2009 skipaði héraðsdómur Reykjavíkur SPRON slitastjórn, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

II

Stefnandi, sem kveður innheimtutilraunir engan árangur hafa borið, höfðar málið á grundvelli víxillaga nr. 93/1933 og rekur það samkvæmt þeim og 17. kafla laga nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en kröfu um virðisaukaskatt reisir hann á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

III

Sýknukrafa beggja stefndu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan byggist á því að stefndu telja stefnanda ekki lögmætan eiganda þeirra krafna sem hann krefst að greiddar verði. Þann 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið (FME) tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda lánveitanda. Í 4. tl. ákvörðunarinnar komi fram að stofna skuli sérstakt hlutafélag „í eigu SPRON sem tekur við öllum eignum félagsins og jafnframt við öllum tryggingaréttindum“.

Í tilkynningu um yfirfærslu eigna SPRON til stefnanda, komi fram að framangreind ákvörðun FME hafi verið virt að vettugi. Stefnandi, hið sérstaka hlutafélag, sem hafi samkvæmt ákvörðun FME átt að vera í eigu SPRON, sé ekki aðeins í eigu SPRON heldur einnig í eigu félagsins Mýrarhlíðar ehf. Ekkert í ákvörðun FME hafi heimilað bráðabirgðastjórn SPRON að yfirfæra kröfur í eigu SPRON til félags í eigu SPRON og Mýrarhlíðar ehf. Ákvörðunin hafi einungis heimilað yfirfærslu krafna til sérstaks hlutafélags í eigu SPRON.

Bráðabirgðastjórn SPRON hafi því ekki haft heimild til að yfirfæra kröfur á hendur stefndu inn í Dróma hf., stefnanda málsins, sem þar af leiðandi hafi ekki heimild til að krefja stefndu um greiðslu og því síður beri stefndu að greiða stefnanda vegna krafna sem virðast hafa verið yfirfærðar í andstöðu við fyrirmæli FME.

Samkvæmt framansögðu sé stefnandi ekki rétt kominn að aðild í málinu og verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í annan stað styður stefnda Þórunn sýknukröfu sína við það að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu, sbr. 38. gr. víxillaganna nr. 93/1933, í Sparisjóði Reykjavíkur þann 9.7.2010 heldur í Arion banka hf. Víxillinn hafi verið afhentur SPRON í því formi sem hann sé lagður fram í að öðru leyti en því að útgáfudagur og gjalddagi voru óútfylltir og greiðslustaður var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis Reykjavík. Víxillinn hafi verið afhentur 2-3 árum áður en meintur gjalddagi sé og að sjálfsögðu ekki til greiðslu í Arion banka sem ekki hafi verið til á þeim tíma. Vísist um þetta m.a. til dómskjala 12 og 13, yfirlýsingar með tryggingarvíxli og víxils. Stefnda vísi í þessu sambandi til 69. gr. víxillaganna þar sem fjallað sé um breytingar á víxli. Í greininni komi skýrt fram að þeir sem hafa ritað nafn sitt á víxilinn séu aðeins skuldbundnir í samræmi við upphaflegan texta hans.

Stefnda byggi m.a. á því að með því að víxillinn hafi ekki verið sýndur á réttum greiðslustað, sbr. 38. gr. víxillaganna, á gjalddaga eða öðrum hvorum tveggja hinna næstu virku daga þar á eftir hafi stefnandi glatað víxilrétti sínum fyrir vangeymslu á hendur útgefanda og framseljanda víxilsins, sbr. 53. gr víxillaganna.

Bent sé á að ábyrgð útgefanda og framseljanda víxilsins sé varaábyrgð ef svo skyldi fara að samþykkjandi víxilsins skyldi ekki greiða hann. Ábyrgðin sé þó ekki bein að því leyti að unnt sé að koma henni að skv. víxilrétti án tillits til varna sem kunna að vera en takmörkuð að því leyti að hún sé bundin við víxilinn. Til að ná fram ábyrgðinni séu gerðar strangar kröfur um formlega heimild og sýningu víxilsins á greiðslustað, sbr. 46. og 91. gr. víxillaganna og ef út af sé brugðið falli þessi ábyrgð niður. Því sé haldið fram að sýnt hafi verið fram á það með fullnægjandi hætti að víxillinn hafi verið til greiðslu í SPRON í upphafi og að stefnandi hafi framkvæmt þá breytingu sem á honum hafi verið gerð og sé því nægjanlega sýnt fram á það að sýning víxilsins á réttum greiðslustað hafi aldrei farið fram.

Kröfum um dráttarvexti og málskostnað sé sérstaklega mótmælt með vísan til 5. gr. vaxtalaganna nr. 38/2001 og 45. gr. víxillaganna. Þar sem sýning víxils hafi ekki farið fram fyrr en við þingfestingu máls þessa og engar tilkynningar hafi átt sér stað hafi stefndu ekki átt þess kost að losna undan greiðsluskyldu sinni á gjalddaga. Geti stefnandi því ekki átt kröfu til dráttarvaxta fyrir þann tíma sem liðinn sé frá meintum gjalddaga til þingfestingar málsins.

Sömu rök leiði til þess að stefnandi geti ekki átt rétt á innheimtuþóknun eða málskostnaði vegna málsins, með því að víxillinn hafi ekki verið sýndur og innheimtur með venjulegum hætti, eins og víxillög geri ráð fyrir, eða að ákvæðum innheimtulaga hafi verið fylgt.

Krafan um málskostnað sé studd við 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

III

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, þ.e. að stefnandi sé ekki lögmætur eigandi hinnar umstefndu víxilkröfu.

Fyrir liggur að þann 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Í 4. tl. ákvörðunarinnar kemur fram að stofnað verði sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem taki við öllum eignum félagsins og jafnframt við öllum tryggingaréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON.

Samkvæmt 6. tl. framangreindrar ákvörðunar var skilanefnd SPRON falið að hrinda ákvörðuninni í framkvæmd. Við gildistöku laga nr. 44/2009 varð skilanefndin að bráðabirgðastjórn SPRON og tók bráðabirgðastjórnin við heimildum stjórnar.

Á grundvelli ákvörðunarinnar stofnaði bráðabirgðastjórn SPRON hlutafélagið Dróma hf., stefnanda í máli þessu, sem er í eigu SPRON að 99,75% hlutum en Mýrarhlíðar ehf. að 0,25% hlutum.

Með yfirlýsingu, dagsettri 26. maí 2009, framseldi síðan bráðabirgðastjórn SPRON, með vísan til 6. tl. ákvörðunar FME, Dróma hf. allar eignir SPRON.

Fram kemur í gögnum málsins að Mýrarhlíð ehf., Lágmúla 6, Reykjavík hafi verið stofnað af Lækjarhlíð ehf., sama stað.

Þá liggur fyrir að sömu aðilar voru í stjórn SPRON, stjórn Dróma hf. og stjórn Mýrarhlíðar ehf. við yfirfærslu eigna Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis ehf. til Dróma hf. Þá liggur fyrir að þeir aðilar sem skipa slitastjórn SPRON eru núverandi stjórnarmenn í Dróma hf. og Mýrarhlíð ehf. 

Stefndu byggja á því að með því að Drómi hf. sé ekki einungis í eigu SPRON, heldur einnig Mýrarhlíðar ehf., hafi verið brotið gegn ákvörðun FME frá 21. mars 2009 um að stofnað skyldi sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingaréttindum.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög skulu stofnendur hlutafélaga vera tveir hið fæsta. Var slitastjórn SPRON samkvæmt því ómögulegt að framfylgja ákvörðun FME í samræmi við orða hennar hljóðan og stofna hlutafélag sem einvörðungu væri í eigu SPRON.

Samkvæmt því, og þar sem stofnun stefnanda er lögum samkvæmt, verður ekki fallist á að stefndu geti byggt á því að stefnandi geti ekki átt  aðild að máli þessu. Samkvæmt því, og þar sem óumdeilt er að Drómi hf. er kominn að víxlinum, sem framseldur var eyðuframsali, fyrir framsal frá bráðabirgðastjórn SPRON verður ekki fallist á að stefndu geti byggt á að stefnandi sé ekki lögmætur eigandi hinnar umstefndu víxilkröfu.

Stefnda Þórunn byggir sýknukröfu sína í annan stað á því að víxillinn hefi ekki verið sýndur til greiðslu, sbr. 38. gr. víxillaga nr. 93/1933, í Sparisjóði Reykjavíkur þann 9.7.2010 heldur í Arion banka hf.

Í prentuðum texta umrædds víxils kemur fram að greiðslustaður sé Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis Reykjavík. Yfir greiðslustaðinn hefur verið strikað og í staðinn ritað Arion banki hf. Óumdeilt er að breyting þessi á greiðslustað víxilsins var gerð eftir að stefndu rituðu nöfn sín undir víxilinn.

Þeir sem ritað hafa nafn sitt undir víxil fyrir breytingu á texta hans eru skuldbundnir í samræmi við hinn upphaflega texta hans samkvæmt 69. gr. víxillaga. Hafði sýning víxilsins í Arion banka hf. því engin réttaráhrif gagnvart þeim.

Fyrir liggur að á greiðsludegi víxilsins var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis í slitameðferð og allar eignir og skuldir sjóðsins höfðu verið yfirfærðar til stefnanda.

Þar sem samkvæmt því var óljóst um greiðslustað víxilsins á greiðsludegi þykir, samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 93/1933, verða að líta svo á að greiðslustaður hafi verið heimili samþykkjanda. Bar því að sýna víxilinn þar til greiðslu. Það var ekki gert og var víxillinn því ekki sýndur til greiðslu á réttum greiðslustað, sbr. 38. gr. víxillaga. Hefur stefnandi því glatað víxilrétti sínum fyrir vangeymslu á hendur útgefanda og framseljanda víxilsins, sbr. 53. gr. víxillaga. Verður stefnda, Þórunn, því sýknuð af kröfum stefnanda.

Í málinu liggja frammi innheimtubréf til stefndu, dags. 23. júlí 2010. Stefndu halda því fram að engar tilkynningar um innheimtu hafi átt sér stað. Engin gögn liggja fyrir í málinu um að umrædd innheimtubréf hafi verið send. Að því virtu, og með vísan til 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þykir rétt að miða upphafsdag dráttarvaxta við málshöfðunardag, þ.e. 7. september 2010.

Í 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er kveðið á um að ef vaxtatímabil er lengra en tólf mánuðir án þess að vextir séu greiddir skal leggja þá við höfuðstól og reikna nýja vexti af samanlagðri fjárhæð. Því er óþarft að kveða á um höfuðstólsfærslu vaxta á tólf mánaða fresti í dómsorði.

Samkvæmt öllu því sem rakið hefur verið dæmist stefndi, Fasteignasölusérleyfi ehf., til að greiða stefnanda stefnufjárhæð málsins, 3.750.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. september 2010.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda Fasteignasölusérleyfi ehf. til að greiða stefnanda málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar þykir rétt að taka mið af því að samhliða máli þessu eru rekin þrjú önnur mál til greiðslu víxla að sömu fjárhæð, en víxlarnir eru allir útgefnir til tryggingar sömu skuldinni og samþykktir til greiðslu af stefnda, Fasteignasölusérleyfi ehf., en útgefendur eru hluthafar í fyrirtækinu.

Að þessu virtu þykir málskostnaður til handa stefnanda úr hendi stefnda Fasteignasölusérleyfi ehf. hæfilega ákvarðaður 350.000 krónur.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Fasteignasölusérleyfi ehf., greiði stefnanda, Dróma hf., 3.750.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 7. september 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

Stefnda, Þórunn Gísladóttir, er sýkn af kröfum stefnanda.