Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-181

Erill ehf. og Héðinsreitur ehf. (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Veðréttur
  • Tryggingarbréf
  • Vextir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 7. september 2018 leita Erill ehf. og Héðinsreitur ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 27. ágúst sama ár í málinu nr. 129/2018: Erill ehf. og Héðinsreitur ehf. gegn Íslandsbanka hf., á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslandsbanki hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 22. desember 2016, þar sem hafnað var kröfum leyfisbeiðenda annars vegar um að frestað yrði að gera frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Vesturgötu 64 í Reykjavík og hins vegar um að fyrirliggjandi frumvarpi yrði breytt, en í því hafði sýslumaður lagt til grundvallar að Íslandsbanki hf. ætti tilkall til 1.095.798.562 króna af söluverðinu í skjóli veðréttar samkvæmt nánar tilgreindum tryggingarbréfum. Hefur aðilana einkum greint á um hvort fresta eigi ákvörðun um úthlutun til Íslandsbanka hf. þar til niðurstaða liggi fyrir í nánar tilteknu máli, sem mun vera rekið fyrir héraðsdómi milli leyfisbeiðandans Héðinsreits ehf. og Byrs sparisjóðs, svo og í hvaða mæli Íslandsbanki hf. geti átt tilkall til vaxta og málskostnaðar af ætlaðri kröfu sinni við úthlutun á söluverði fasteignarinnar. Í úrskurði Landsréttar í málinu var hafnað kröfu leyfisbeiðenda um að mælt yrði fyrir um frestun á úthlutun söluverðsins og jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpi sýslumanns skyldi breytt á þann veg að upp í kröfu Íslandsbanka hf. kæmu 1.046.769.062 krónur, sem bæri þó að leggja inn á reikning við banka eða sparisjóð þar til ráðið yrði um tilkall til hennar.

Leyfisbeiðendur telja að niðurstaða Landsréttar feli í sér að sérstakar reglur skuli gilda um tryggingarbréf í samanburði við önnur veðbréf þegar komi að skýringu og beitingu b. liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og séu þær reglur frábrugðnar þeim sem taki til veðskuldabréfa samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar. Myndi dómur í málinu því hafa fordæmisgildi hvað þetta varðar. Þá telja leyfisbeiðendur að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins og varði jafnframt mikilsverða almannahagsmuni. Vísa leyfisbeiðendur í þeim efnum til þess að fengi úrskurður Landsréttar að standa óbreyttur myndi hann í reynd hafa þau áhrif að reglu b. liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 yrði vikið til hliðar að því er varði veðréttindi fyrir aukagreiðslum með höfuðstól kröfu sem tryggð sé með tryggingarbréfi. Því myndi fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafa hagsmuni af fordæmi Hæstaréttar um álitaefnið. Að lokum telja leyfisbeiðendur að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur, enda gangi niðurstaða hans þvert gegn dómaframkvæmd Hæstaréttar um túlkun á nefndu lagaákvæði.

Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2018 í máli nr. 7/2018 var efnislega tekin afstaða til þess hvort staðist gæti að lögum að sýslumaður frestaði um ótiltekinn tíma að gera frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar, sem mál þetta varðar, meðan beðið yrði niðurstöðu í tilteknum öðrum dómsmálum. Í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu að slík frestun væri andstæð ákvæðum laga nr. 90/1991 og bæri sýslumanni þess í stað að gera strax frumvarp til úthlutunar að gættum fyrirmælum 7. mgr. 50. gr., sbr. 2. mgr. 54. gr. laganna. Að því marki, sem leyfisbeiðendur hafa ekki gætt að þessu í dómkröfum, sem þeir kveðast myndu gera fyrir Hæstarétti að fengnu kæruleyfi, eru engin skilyrði til að heimila kæru í máli þessu. Á hinn bóginn reynir sem fyrr segir einnig á það í málinu hvernig beita eigi b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997 í tilvikum, þar sem veðréttur fyrir fjárkröfu er studdur við tryggingarbréf, en á slík álitaefni hefur ekki skýrlega reynt í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Að því leyti getur málið af þessum sökum haft fordæmisgildi og eru því efni til að verða við umsókn leyfisbeiðenda til þess að leysa megi úr þeim tiltekna ágreiningi, sbr. 2. málslið 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Umsóknin er því að þessu gættu tekin til greina.