Hæstiréttur íslands

Mál nr. 528/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. desember 2005.

Nr. 528/2005.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður)

gegn

X

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. desember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og að kröfu varnaraðila um kærumálskostnað verði hafnað.

Rökstuddur grunur leikur á því að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                                                                                         

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. desember 2005.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur í dag krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], nú í haldi lögreglunnar á Selfossi, verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00, þriðjudaginn 20. desember nk.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi hinn 8. desember sl. fengið upplýsingar frá upplýsinga- og eftirlitsdeild lögreglunnar í Reykjavík um að miklar líkur væru á að umfangsmikil kannabisræktun færi fram í [...]. Eftirlit hafi verið haft með húsinu og síðastliðna nótt hafi verið farið fram á úrskurð um heimild til húsleitar. Við húsleitina hafi komið í ljós að í um 75 fermetra rými í austurenda norðurálmu húsnæðisins fór fram umfangsmikil ræktun á kannabisplöntum. Voru 18 gróðurhúsalampar í notkun í rýminu auk þess sem tvær rafmagnsviftur voru þar í gangi. Þá var búið að útbúa vinnsluaðstöðu á tveimur stöðum í rýminu. Lögreglan lagði hald á 163 plöntur, en vigtun og mælingu þeirra er ekki að fullu lokið. Þar fyrir utan voru 46 plöntur sem búið var að skera af. Ljóst sé að ræktunin hafi staðið yfir í töluverðan tíma, því stór hluti plantnanna sé yfir 1,90 m á hæð. Fyrir utan plönturnar hafi fundist um 5,2 kg af marihuana, misþurrkuðu. Þá hafi fundist mikið magn af reiðufé, 259.000 krónur í neðstu skúffu afgreiðsluborðs og 50.000 krónur undir dagbók á afgreiðsluborði, samtals 309.000 krónur.

Húsráðandi, X, hafi verið handtekinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi hann játað að standa að ræktun kannabisplantnanna og að ræktunin hafi staðið yfir síðan í ágúst. X hafi borið að ræktunin „hafi byrjað með fikti, en endað í vitleysu“, og að ekki hafi legið fyrir áætlanir um að vinna plönturnar frekar eða dreifa afurðunum til annarra. Aðspurður um reiðufé það sem fannst við húsleitina kvaðst X hafa safnað fénu saman til að „standa við greiðslu sem hann á að klára fyrir 15. desember n.k.“ Fyrir dómi bar hann um þetta að féð væri úr rekstri ferðaþjónustu sem hann væri með, og að það væri lán hjá Byggðastofnun sem hann væri að safna fé til að greiða.

Lögreglustjóri kveður rannsókn máls þessa vera á frumstigi. Það sé mjög umfangsmikið og nauðsynlegt sé að rannsaka það frekar. Lögreglu þyki ljóst, miðað við hið mikla umfang ræktunarinnar, að fíkniefnin séu ætluð til sölu í ágóðaskyni. Húsnæðið sem um ræði sé mjög stórt og fari fullnaðarleit þar nú fram m.a. með fíkniefnahundum. Enn sé unnið að vigtun og mælingu á plöntunum. Þá sé eftir að kanna hvort grunaði eigi sér vitorðsmenn. Einnig eigi eftir að kanna bankareikninga grunaða.

Rökstuddur grunur sé um að X hafi stundað ræktun kannabisefna í Árnessýslu á undanförnum vikum. Umfang ræktunarinnar sé slíkt að fráleitt sé að halda öðru fram en að efnin séu ætluð til sölu í ágóðaskyni. Nauðsynlegt sé því að krafa þessi nái fram að ganga svo unnt sé að rannsaka málið án þess að grunaði hafi færi á að torvelda rannsókn þess eða spilla sakargögnum, svo sem með því að hafa áhrif á hugsanlega vitorðsmenn eða vitni, eða með því að koma gögnum undan.

Krafa lögreglustjóra er ennfremur studd þeim rökum að verið sé að rannsaka ætluð brot X á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og á 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sakarefni sem hér um ræði muni varða fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð. Rannsókn málsins sé mjög viðamikil og sé enn á frumstigi og veruleg hætta þyki vera á því að grunaði muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka. Krafa um gæsluvarðhald sé gerð með vísan til ofangreindra rannsóknarhagsmuna og til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði hefur gengist við að hafa ræktað mikið magn kannabisplantna sem lögregla fann við húsleit í [...] síðastliðna nótt, og að hafa stundað þessa ræktun frá því í ágúst. Haldlagðar voru 163 plöntur af afskurður af 46. Hann heldur því hins vegar einnig fram að hann hafi ekki lagt neina alúð við þessa ræktun og kveðst hafa byrjað á henni í fikti. Hann bar fyrir dóminum að hann vissi ekki hvað hann ætlaði að gera við þetta og neitaði bæði hjá lögreglu og dómi að hafa haft í hyggju að selja efnið eða dreifa.

Þegar litið er til þess mikla magns sem hér er um að ræða og aðbúnaðar á staðnum, þá þykja þessar skýringar kæra ekki vera trúverðugar. Verulegar líkur eru fyrir því að framleiðslan sé ætluð til sölu í ágóðaskyni og að kærði eigi sér vitorðsmenn þó að hann neiti því. Brot þau sem hann er grunaður um geta varðað við lög nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fangelsisrefsing liggur við slíkum brotum ef sök sannast og getur numið allt að 12 árum, samkvæmt síðara ákvæðinu.

Með hliðsjón af því að rannsókn málsins er á frumstigi, það er mjög umfangsmikið og skýringar kærða þykja ekki fyllilega trúverðugar verður að fallast á það með lögreglustjóra, að augljós hætta sé á því að kærði geti haft áhrif á rannsókn málsins, með því að spilla sakargögnum eða hafa áhrif á aðra sem kunna að tengjast meintum brotum, fari hann frjáls ferða sinna. Er það niðurstaða dómsins að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og er því fallist á kröfu lögreglustjórans á Selfossi um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Taka þarf ítarlegri skýrslur af kærða, kanna betur húsnæði það sem hann hefur yfir að ráða, leita hugsanlegra vitorðsmanna og rannasaka ætlaða sölu og dreifingu efnanna, eftir atvikum með því að taka skýrslur af vitnum. Með vísan til alls þessa þykir mega fallast á að kærði sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 20. desember n.k. kl. 16.00 svo sem krafist er.

Hjördís Hákonardóttir dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. desember 2005, kl. 16:00.